Lind

Síminn á Lind er 4415211

Lind er í Gljúfri og er hún fyrsta deildin þegar gengið er inn þeim megin.

Litur Lindar er gulur og er hún vinadeild Hæðar.

Á Lind eru 11 börn, 8 fædd árið 2021 og 3 fædd árið 2022

 

Starfsfólkið á Lind:

Carmen - Leikskólakennari, Deildastjóri. Netfang: carmen@kopavogur.is 

Herdís - Leiðbeinandi 

Yeny - Leiðbeinandi

 

Vikan 16. – 20. Janúar 2023

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Veðrið heldur áfram að stríða okkur og við höfum því miður ekki komist mikið út í vikunni. Þrátt fyrir að við séum held ég öll farin að þrá að komast út að þá höfum við haft það ansi notalegt inni í hlýjunni í staðin.

Á mánudaginn fóru börnin til Hinriks í leikvang þar sem börnin fengu að klifra, hoppa og leika sér með bolta. Það er alltaf gott að byrja vikuna inni í leikvangi og fá smá útrás fyrir orkuna. Eftir hádegi vorum við svo með stöðvar inni á deild þar sem í boði var að pinna, perla og teikna.

Á þriðjudaginn fyrir hádegi kláruðu börnin að föndra víkingahjálmana sína fyrir bóndadaginn. Þau voru svo stolt og ánægð með nýju hjálmana sína. Eftir hádegi fór einn hópur út að leika á meðan hin börnin voru í frjálsum leik inni á deild. Í lok dagsins enduðum við svo öll saman í holukubbunum.

Á miðvikudag var hópastarf fyrir hádegi. Það var heldur fámennt hjá okkur vegna veikinda og því blönduðust hóparnir aðeins sem var skemmtileg tilbreyting. Í hópastarfinu byrjum við alltaf á að segja nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði. Í þessari viku fórum við yfir reglurnar hennar Bínu Bálreiðu, æfðum fínhreyfingar með því að teikna eftir línum, flokkuðum bangsa eftir litum og fleira skemmtilegt. Eftir hádegi skiptust börnin á að leira frammi með Dísu og vera inni á deild þar sem við lékum okkur með lestina og vorum að pinna.

Á fimmtudag skiptum við börnunum í tvo hópa fyrir hádegi. Annar hópurinn fór fram að leika sér í holukubbunum á meðan hinn hópurinn lék sér inni á deild í frjálsum leik og perluðu. Eftir hádegi var skip í hópa og voru að æfa okkur með skæri að klippa

Á föstudag var smiðja fyrir hádegi fórum við í smiðju með Carmen og teikniðum fjölskyldumynd. Í hádeginu fengum við að smakka alls kyns þorramat. það var misgott en við fengum meðal annars að bragða  hákarl. Einnig áttum við góða “gaman saman” stund á yngri gangi með öllum víkingabörnum þar sem þau sunguhástöfum skemmtileg þorralög. Eftir kaffið var frjálsleikur.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Ii/Yy. Vísan sem við hlustuðum á fjallaði um Indriða sem hnýtir illa á sig bindið og Imbu sem flissar af því hvað hann er fyndinn. Sagan fjallaði svo um Yrsu og Indriða sem voru í heimsókn á Innra-Hólmi. Innan úr eldhúsinu barst indæll kaffiilmur. Við skoðuðum einnig hluti sem eiga málhljóðið I/Y eins og ilmvatn, innkaupakerra, inniskór, yfirvaraskegg og yddari.

Í Blæstund vikunnar knúsuðum við Blæ bangsana okkar, hlustuðum á lögin um vináttuna og áttum notalega stund saman.

Takk fyrir vikuna!

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 9. – 13. Janúar 2023

 

Heil og sæl kæru foreldrar, 

Gleðilegt nýtt ár. Nú er fyrsta vikan liðin á þessu ári þar sem skipulagt starf er komið í gang og það er nú ansi gott að vera komin aftur í rútínu eftir jólafríið. 

Á mánudaginn fóru börnin í Leikvang til Hinriks. Í leikvangi fóru þau í þrautabraut og höfðu mjög gaman af því. Eftir hádegi skiptust börnin á að fara fram að leira með Dísu og vera í frjálsum leik inni á deild. Inni á deild vorum við einnig með stöðvar í boði þar sem börnin gátu púslað eða leikið sér með PlusPlus kubbana.

Á þriðjudaginn lékum við okkur inni fyrir hádegi. Börnin skiptust á að fara fram að leira með Dísu og leika inni á deild. Eftir hádegi komumst við loksins út að leika. Það er ansi mikið af snjó í litla garðinum okkar en börnin voru flest ánægð með að komast aðeins út að leika. Við enduðum svo daginn inni í dúkkukrók.

Á miðvikudaginn var hópastarf fyrir hádegi. Í hópastarfinu gerðum við ýmislegt, meðal annars leika okkur með Numicon stærðfræðikubbana, skoða mismunandi form og einföld rím. Börnin voru spennt að byrja aftur í hópastarfinu og fannst mjög gaman. Eftir hádegi fór guli hópurinn í Smiðjuna að gera listaverk með Ingu. Hinir hóparnir skiptust á að leika sér inni á deild í frjálsum leik og fara fram að pinna með Carmen. Í lok dags fengu öll börnin að skipast á að leika sér í ljósaborðinu. 

Við ákváðum að hafa Smiðjuna á fimmtudaginn fyrir hádegi. Börnin fengu að mála víkingahattana sem við ætlum að nota á þorrablótinu í næstu viku og fannst það svaka stuð. . Eftir hádegi  vorum í stóra garðinum að renna okkur  á fullu og í ferðalögum í bátnum okkar. Ekkert smá gaman og allir glaðir með þetta.

Á föstudaginn lékum við okkur inni fyrir hádegi. Börnin skiptust á að leika í frjálsum leik inni á deild, þar sem meðal annars var í boði að pusla, lego, bílar og að leika frammi.  Eftir hádegi voru við líka inni í skemmtilegum verkefnum. 

Málhljóð vikunnar í Lubba var Ss. Við sungum vísu um hana Sunnu sem var með mikil læti og þurfti að sussa á hana. Síðan lásum við sögu um systkinin Sunnu og Snorra sem heimsækja Sólmund frænda sinn á Stykkishólmi á hverju sumri. Þar finnst þeim gaman að fara í sund og skreppa á sjó. Við skoðuðum einnig hluti sem eiga málhljóðið Ss eins og sól, sleði, ský og skip. 

Í Blæ stund vikunnar var gott að fá að knúsa Blæ bangsann sinn eftir langa fjarveru. Við rifjuðum upp að allir ættu að vera góðir við hvern annan og hjálpa hvert öðru. Við hlustuðum einnig á vináttu lögin en fyrir áhugasama þá er hægt að nálgast þau á Spotify með því að leita að Vinátta.

Takk kærlega fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 12. – 16. Desember 2022

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur verið róleg og notaleg hjá okkur hér á Lind. Því miður hefur verið svo kalt í vikunni að við höfum lítið komist út. Börnin hafa mörg verið með kvef og hósta og því viljum við ekki vera að fara út í of miklum kulda. Í staðin höfum við brallað ýmislegt inni, hlustað á jólatónlist og haft það kósý.

Það sem stendur upp úr í vikunni voru litlu jólin okkar sem við héldum á miðvikudaginn. Dagurinn byrjaði á jólaballi þar sem við dönsuðum í kringum jólatréð og sungum jólalög. Stúfur kom á jólaballið til okkar sem börnin voru misánægð með. Sum börnin ákváðu að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá honum á meðan önnur vildu endilega leiða hann í kringum tréð og spjalla aðeins við hann. Eftir ballið fórum við saman inn á deild og þangað kom Stúfur færandi hendi og gaf börnunum jólagjöf til þess að taka með sér heim. Í hádeginu fengum við svo jólamat og ís í eftirrétt.

Á fimmtudaginn fóru jólagjafirnar heim sem börnin hafa verið svo dugleg að búa til fyrir foreldra sína, við erum viss um að þið bíðið spennt eftir að opna þær. Á föstudaginn var svo fjórða og síðasta Aðventu Gaman saman þar sem við kveiktum á Englakertinu og sungum saman jólalög.

Takk fyrir vikuna og góða helgi!

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊  

 

Vikan 5. – 9. Desember 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar, 

nú er hópastarfið og Blær stundirnar okkar komnar í jólafrí og í staðin ætlum við að einbeita okkur að því að hafa rólegar stundir og hlusta á jólatónlist.

Á mánudaginn fóru börnin í Leikvang til Hinriks fyrir hádegi. Það er svo skemmtilegt að sjá hvað börnin ljóma og verða svo spennt um leið og Hinrik mætir inn á deildina til að sækja fyrsta hópinn. Það er alveg greinilegt að þeim finnst mjög gaman að fara í Leikvang. Börnin fengu líka að skreyta jólatréð með jólaskrauti sem þau höfðu búið til sjálf í smiðjunni. Eftir hádegi fórum við út að leika. 

Á þriðjudag var mjög kalt úti svo við vorum inni bæði fyrir og eftir hádegi. Fyrir hádegi skiptust börnin á að fara fram að leika sér í holukubbunum og vera í frjálsum leik inni á deild. Eftir hádegi vorum við svo heppin að leiksalurinn var laus svo krakkarnir fengu að fara nokkur í einu í leiksalinn að ærslast og losa smá orku.

Á miðvikudag vorum við með óformlegt hópastarf. Einn hópur fór í einu fram með Carmen þar sem þau skoðuðu meðal annars fjölskylduspjöldin sín og æfðu sig í að segja hvað mamma og pabbi heita, hvar þau eiga heima og hvenær þau eiga afmæli. Eftir hádegi var ennþá of kalt til þess að fara út svo við lékum okkur inni. Börnin skiptust á að fara fram og leika með ljósaborðið okkar og vera í frjálsum leik inni á deild. 

Á fimmtudag vorum við inni að leika fyrir hádegi. Börnin skiptust á að fara fram að leika sér með ljósaborðið og vera inni á deild. Við vorum með tvær stöðvar í boði inni á deild. Á annarri stöðinni var í boði að æfa sig í að klippa og á hinni stöðinni vorum við með litla bangsa sem að þau æfa sig í að flokka eftir litum. Að sjálfsögðu var einnig frjáls leikur í boði. Eftir hádegi var leiki inni, var aftur of kalt til að fara út.

Á föstudag Vorum við inni að leika fyrir hádegi svohéldum við Aðventu Gaman Saman í þriðja skiptið þar sem við sungum saman jólalög og kveiktum á Hirðakertinu.  Eftir hádegi fórum við út að leika.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Gg. Við sungum vísu um hanann sem segir gaggalagó og galar hátt. Sagan fjallaði um hanann Eggert sem er með gargandi garnagaul og vill fá grjónagraut og græna gúrku. Það voru óvenju margir og spennandi hlutir í kassa vikunnar. Þar leyndist meðal annars gormur sem að krakkarnir fengu að leika sér aðeins með, þeim fannst það ekki leiðinlegt. Einnig leyndust hlutir eins og gleraugu, grein og glas.

 

Takk fyrir vikuna!

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

 

Vikan 28. Nóvember – 2. Desember 2022

Heil og sæl kæru foreldrar, 

þessi vika hefur verið heldur fámenn hjá okkur þar sem mikið hefur verið um veikindi hjá börnunum. Vonandi verða börnin fljót að hrista þetta af sér og mæta hress til okkar í næstu viku. 

Á mánudaginn fóru börnin í Leikvang til Hinriks að venju. Eftir leikvang fóru öll börnin í Fífusölum í salinn og horfðu saman á jólaleikrit í boði foreldrafélagsins. Börnin höfðu mjög gaman af leikritinu og það var mikið hlegið. Eftir hádegi fórum við svo út að leika. 

Á þriðjudag var veðrið eitthvað að stríða okkur svo við vorum inni að leika bæði fyrir og eftir hádegi. Börnin fengu að gera ýmislegt meðal annars að leira, leika sér með Playmo, pinna og svo skiptust þau á að fara fram í dúkkukrók þar sem þau léku sér í búðarleik.

Á miðvikudag var hópastarf fyrir hádegi. Við gerðum margt skemmtilegt í hópastarfinu eins og vanalega. Við skoðuðum til dæmis fjölskyldumyndirnar þar sem börnin æfðu sig í að segja frá og lékum okkur með Numicon stærðfræðikubbana. Eftir hádegi lékum við okkur inni vegna veðurs en þá lékum við okkur meðal annars með Lottó spil og fengum ísbúðina lánaða af eldri gangi sem var mjög skemmtilegt. 

Á fimmtudag lékum við okkur inni fyrir hádegi þar sem það var heldur kalt og blautt úti. Börnin skiptust á að leika sér í holukubbunum og að leika í frjálsum leik inni á deild. . Eftir hádegi fórum við svo út að leika í klukkutíma og enduðu við daginn inni í dúkkukrók

Á föstudag var smiðja fyrir hádegi með Carmen , við voru að mála listaverk og sumir þurfti að klára smá jólaföndur. Eftir smiðjuna vorum við með Aðventu Gaman Saman í annað skiptið. Þá komu öll börnin í Fífusölum saman, sungu jólalög og við kveiktum á Betlehemskertinu.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Ll. Við sungum vísu um sjálfan Lubba en hann á einmitt málhljóð vikunnar. Saga vikunnar var líka um hann Lubba sem lumaði á leyndarmáli. Hann hafði grafið málbeinið sitt á Leynistað. Hlutir sem leyndust í kassa vikunnar voru meðal annars laufblað, Lína Langsokkur og loftbelgur.

Í Blæstund vikunnar skoðuðum við aftur spjaldið þar sem barn var búið að taka dót af öðru barni. Við héldum áfram að ræða um að það mætti ekki taka dót af öðrum án þess að fá fyrst leyfi. Við ræddum einnig að við ættum að vera góð við hvert annað. Svo hlustuðum við á lög um vináttu á meðan börnin knúsuðu Blæ bangsann sinn. 

Takk fyrir vikuna sem er að líða. 

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 21. – 25. Nóvember 2022

Heil og sæl kæru foreldrar, 

vikurnar halda áfram að fljúga hjá og nú fer heldur betur að styttast í jólin en við héldum upp á fyrsta í aðventu núna á föstudaginn.

Á Mánudaginn fóru börnin í þrautabraut í Leikvangi með honum Hinrik fyrir hádegi. Eftir hádegi lékum við okkur úti. 

Á þriðjudag fórum við í vettvangsferð fyrir hádegi. Við fórum í göngutúr um hverfið að skoða jólaljósin sem var mjög skemmtilegt. Við komum við á leikvelli í hverfinu og lékum okkur aðeins áður en að við löbbuðum til baka. Það var frekar kalt úti svo það var gott að fá sér heita súpu í hádeginu til þess að ná kuldanum úr okkur. Eftir hádegi fórum við út að leika. 

Á miðvikudag var hópastarf fyrir hádegi. Börnin lærðu um andstæður þar sem við skoðuðum myndir af til dæmis sólinni sem er heit og ís sem er kaldur. Einnig skoðuðum við einföld rím og æfðum okkur aðeins í að klippa ásamt fleira skemmtilegu. Eftir hádegi var aðeins of mikið rok úti svo við lékum okkur inni. Við vorum með þrjár stöðvar þar sem í boði var að perla, pinna og lita. Börnin fengu að fara á þær stöðvar sem þau vildu ásamt því að vera í frjálsum leik inni á deild.

Á fimmtudag lékum við okkur inni fyrir hádegi. Börnin skiptust á að leira og vera í frjálsum leik inni á deild. Aðal fjörið þennan daginn var þó eftir kaffitímann þegar þið foreldrarnir komu til okkar í piparkökukaffi. Börnunum og okkur starfsfólkinu finnst svo gaman að fá ykkur foreldrana í heimsókn og eiga notalega stund saman í leikskólanum. 

Á föstudag smiðja með Carmen og allir voru að skreyta jólapoka sem mamma og pabbi fá með jólagjöf o líka var málað jólatré. Í dag var aðventu Gaman Saman þar sem öll börnin í leikskólanum koma saman og syngja kveiktum fyrsta kertinu í aðventu (spádonkerti).

Málhljóð vikunnar í Lubba var Uu. Við sungum vísu um hann Tóta sem er að ulla og lásum söguna um hana Unu sem unir sér vel við að safna undurfallegum jurtum. Í vikunni voru hlutir eins og ull, ugla og umslag í kassanum okkar. 

Í Blæ stund vikunnar töluðum við um mikilvægi þess að vera góður við vini okkar. Börnin knúsuðu Blæ bangsana sína og æfðu sig áfram í að nudda bangsann sinn. 

Takk fyrir vikuna!

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

 

Vikan 14. – 18. Nóvember 2022

Heil og sæl kæru foreldrar,

Vikan sem er að líða var aðeins öðruvísi en flestar aðrar vikur hjá okkur þar sem að Fífusalir átti afmæli á miðvikudag og á fimmtudag var skipulagsdagur. 

Á mánudag fóru börnin í þrautabraut til Hinriks fyrir hádegi og eftir hádegi nutum við þess að leika okkur úti í góða veðrinu.

Á þriðjudag fórum við í vettvangsferð fyrir hádegi. Þegar við lögðum af stað upp úr klukkan 9 var ennþá heldur dimmt úti og voru sum börnin sannfærð um að það væri komin nótt. Það fór þó fljótlega að birta til eftir að við lögðum af stað en í þetta skipti var förinni heitið í æfingatækin á bak við Lindakirkju. Við lékum okkur þar í góða stund áður en við röltum aftur til baka. Eftir hádegi...

Á miðvikudag átti Fífusalir afmæli. Við héldum bæði upp á afmæli leikskólans okkar og hans Lubba. Það var samvera hjá öllum leikskólanum í matsalnum og svo var líka sungið inni á deild. Krakkarnir fengu að leika sér á öllum yngri gangi þannig þau gátu kynnst hvoru öðru og hinum deildunum vel. Svo fengum við pizzu í hádegismat og afmælisköku í kaffinu. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og voru mjög spennt að sýna okkur búningana sína.

Á fimmtudag var skipulagsdagur.

Á föstudag  í smiðjunni í þessari viku var verið að mála skraut á jólatréð, mála lítil askja ásamt því að leika við ljósaborðið. Gaman Saman var fyrir hádegismat með Laut og Læk þar sem við hittumst á ganginum og vorum að syngja öll saman. Eftir kaffi skelltum við okkur svo út að leika.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Ee. Við sungum vísu um hana Eddu sem er með flest í klessu. Síðan lásum við söguna um hana Evu sem sér Esjuna vel út um gluggann á herberginu sínu. Eva er eldhress og á stóran bróður sem heitir Ellert. Í kassa vikunnar leyndust svo hlutir eins og eldur, engill og epli.

Á Blæ spjaldi vikunnar var mynd af barni sem var búið að taka dót af öðru barni. Á myndinni sést að vinkona hans er að hjálpa honum að fá dótið sitt til baka. Við ræddum að það megi ekki taka dót af öðrum. Ef að við viljum leika okkur með dót sem að einhver annar er að leika sér með þurfum við að biðja um leyfi. Við ræddum einnig um hvað það væri fallegt af stelpunni að hjálpa vini sínum að fá dótið sitt til baka. 

Takk fyrir vikuna.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

 

Vikan 7. – 11. Nóvember 2022

Heil og sæl kæru foreldrar,

vikurnar halda áfram að þjóta hjá okkur og enn og aftur er kominn föstudagur. Eins og sagt er líður tíminn hratt þegar maður hefur gaman og það hefur heldur betur verið gaman hjá okkur hér á Lind.

Á mánudag fóru börnin í Leikvang til Hinriks þar sem þau klifruðu í rimlunum, léku sér með bolta, hoppuðu á trampólíni og fleira skemmtilegt. Eftir hádegi fórum við svo út að leika. 

Á þriðjudag fórum við í vettvangsferð. Við löbbuðum á Hvammsvöll og lékum okkur góða stund þar. Nokkrir nemendur úr 10. bekk í Salaskóla fóru með okkur í vettvangsferðina en heimsóknin þeirra er partur af vináttuverkefni í tilefni baráttudags gegn einelti. Þessi dagur var sannkallaður útiverudagur en eftir hádegi fórum við aftur út að leika.

Á miðvikudag var hópastarf fyrir hádegi. Í hópastarfinu æfðu börnin fínhreyfingar með því að lita eftir útlínum, við skoðuðum fjölskyldumyndirnar sem börnin eru alltaf jafn spennt fyrir og við æfðum okkur að telja. Eftir hádegi lékum við okkur svo úti. 

Á fimmtudag skiptum við börnunum í hópa fyrir hádegi og þau skiptust á að leira inni í matsal, leika sér í dúkkukrók og vera í frjálsum leik inni á deild. Eftir hádegi fórum við svo út að leika. 

Á föstudag fór hver hópur með sínum hópstjóra ísmiðju að mála og dúllast í jólaföndri. Gaman Saman var fyrir hádegismat með Laut og Læk þar sem við hittumst á ganginum og vorum að syngja öll saman. Eftir kaffi skelltum við okkur svo út að leika.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Hh. Við sungum lag um hestinn sem að hleypur og stekkur. Síðan lásum við söguna um Hafliða haförn sem býr í hamrahöll á Hornströndum. Hafliði hefur flogið bæði til Hofsós og Hornafjarðar. Í Lubbastundum skoðum við líka hluti sem eiga málhljóð vikunnar. Í þessari viku leyndust ýmsir hlutir í kassanum meðal annars hanski, húfa, handleggur og hamborgari.

Í Blæ stund vikunnar héldum við áfram að ræða um að allir ættu að vera vinir og góðir við hvern annan. Við héldum áfram að æfa okkur í vinnanudd tvö og tvö saman, það gekk ótrúlega  vel og gaman að sjá hvað börnin eru góð hvert við annað.

Takk fyrir vikuna og góða helgi. 

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 31. Október – 4. Nóvember 2022

Heil og sæl kæru foreldar,

Fyrsta vikan í nóvember á enda og aðeins farið að kólna í veðri. Þrátt fyrir kulda hefur veðrið verið gott svo við höfum notið þess að leika okkur úti alla daga í vikunni.

Á mánudag fóru börnin í Leikvang til Hinriks eins og venjan er. Þar fóru þau í þrautabraut og fengu að ærslast aðeins. Eftir hádegi fórum við svo út að leika. 

Á þriðjudag fórum við í vettvangsferð fyrir hádegi. Við fórum á leikvöllinn sem hefur fengið nafnið Landamæraleikvöllurinn hérna í Fífusölum þar sem hann er á landamærum Reykjavíkur og Kópavogs. Það var mjög skemmtilegt að leika sér þar. Eftir hádegi lékum við okkur úti. 

Á miðvikudag var hópastarf fyrir hádegi. Í hópastarfinu rifjuðum við upp það sem Bína Bálreiða hefur verið að kenna okkur, meðal annars að sitja kyrr, passa hendurnar okkur og að hlusta. Einnig skoðuðum við einföld rím og lékum okkur með Numicon. Eftir hópastarfið fór hver hópur fyrir sig í fataklefann og börnin æfðu sig í að klæða sig sjálf í föt. Börnin eru orðin mjög dugleg við að klæða sig og við sjáum miklar framfarir hjá þeim. Eftir hádegi fórum við út að leika. 

Á fimmtudag lékum við okkur inni fyrir hádegi. Börnin skiptust á að leika í frjálsum leik inni á deild, þar sem meðal annars var í boði að pinna og spila samstæðuspil, og að leika frammi í holukubbunum. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á föstudag Við fórum í smiðju með Carmen þar sem við vorum að byrjað aðeins að jólaföndri. Gaman Saman var fyrir hádegismat með Laut og Læk þar sem við hittumst á ganginum og vorum að syngja öll saman.Eftir kaffi skelltum við okkur svo út að leika.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Jj. Við sungum lag um jeppann sem fór á jökulinn. Síðan lásum við söguna um Jódísi sem er að læra um jökla og veit að Vatnajökull er stærsti jökullinn á Íslandi.

Spjald vikunnar í Blæ var sama spjald og í síðustu viku þar sem endurtekningar eru mikilvægar þegar börnin eru að læra. Við héldum áfram að ræða um að allir ættu að vera vinir og leika sér saman. Einnig lærðum við að nudda Blæ og enduðum svo á að nudda hvert annað (Vinnanudd). Það gekk mjög vel og gaman að sjá hvað börnin eru góð hvert við annað.

Takk fyrir vikuna sem er að líða.

 

Vikan 24. – 28. Október 2022

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þá er kominn föstudagur og enn ein vikan á enda hjá okkur. Þessi vika var síðasta vikan hennar Selmu okkar en hún hættir hjá okkur eftir daginn í dag eftir tæplega 5 ár í starfi. Við munum öll sakna hennar mjög mikið.

Á mánudag fóru börnin í Leikvang til Hinriks þar sem að þau æfðu sig meðal annars í að klifra í rimlunum og að hoppa. Eftir hádegi lékum við okkur úti.

Á þriðjudag fórum við í viðburðarríka og skemmtilega vettvangsferð fyrir hádegi. Við löbbuðum hring um Salahverfið og stoppuðum á tveimur nýjum leikvöllum í leiðinni, sáum heimilið hennar Carmen og sáum skemmtilegt hrekkjavökuskraut. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudag var hópastarf fyrir hádegi. Í hópastarfinu æfðu börnin sig í að para saman litina, að telja og fleira skemmtilegt. Eftir hádegi lékum við okkur úti.

Á fimmtudag var náttfata- og bangsadagur. Það var mjög gaman að gera okkur dagamun og sjá börnin mæta í náttfötunum sínum og með bangsana sína. Fyrir hádegi þá skiptum við börnunum í hópa og skiptumst á að leira, leika okkur í holukubbunum og vera í frjálsum leik inni á deild. Við ákváðum að hafa gaman saman á fimmtudag í þessari viku þar sem að Blær bangsi átti 6 ára afmæli. Við sungum afmælissönginn fyrir Blæ og önnur skemmtileg lög. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á föstudag vorum við með kveðjustund fyrir Selmu sem er að hætta hjá okkur. Við vorum mjög heppin en hún kom með ávaxtaíspinna fyrir sem gerist nú ekki á hverjum degi og nutum við í botn. Við fórum í smiðju með Carmen þar sem við vorum að mála myndir í haustlitunum og líma laufblöð sem við týndum úti í garðinum okkar. Eftir hádegi áttum við svo 2 ára afmælisprins sem bauð okkur í ávexti og saltstangir. . Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Vv. Við sungum lag um vindinn að vestan og vonskuveðrið. Síðan lásum við söguna um Vigdísi sem býr á Vopnafirði. Hún heldur veislu og býður vinum sínum upp á vöfflur og vínarbrauð.

Spjald vikunnar í Blæ var mynd af börnum sem eru að skilja annað barn út undan. Við ræddum um að allir eigi að vera vinir og leika sér saman og að það sé ekki fallegt að skilja aðra út undan.

Takk kærlega fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 17. – 21. Október 2022

Heil og sæl kæru foreldrar,

Vikan hefur heldur betur liðið hratt og enn og aftur er kominn föstudagur. Rútínan hefur verið hefðbundin hjá okkur, Leikvangur , Vettvagsferð, Smiðja, Lubbi  og Blær voru á sínum stað  í þessari viku.Þessi vika hefur verið sérstaklega viðburðarrík þar sem að við áttum tvö afmælisbörn í vikunni.

Á mánudaginn fóru börnin í Leikvang með Hinrik, það var mikið fjör eins og vanalega. Eftir hádegi lékum okkur úti.

Á þriðjudaginn fórum við í vettvangsferð á Hvammsvöll. Börnin eru orðin mjög dugleg að labba og göngutúrinn fram og til baka gekk eins og í sögu. Það var skemmtilegt að breyta aðeins til og leika sér á öðrum leikvelli en hér á leikskólalóðinni. Eftir hádegi var afmælisveisla þar sem við héldum upp á afmælið hennar Elsu,  hún varð tveggja ára. Síðan fórum við út að leika.

Á miðvikudag var hópastarf. Í hópastarfinu skoðuðum við aftur fjölskyldumyndirnar sem að börnin komu með að heiman og æfðu sig í að segja frá hverjir væru á myndunum. Börnin æfðu sig líka að halda á skærum og að klippa ásamt fleira skemmtilegu. Svo lékum við okkur úti eftir hádegi.

Á fimmtudag lékum við okkur inni fyrir hádegi. Við skiptum börnunum niður í hópa og þau skiptust á að leira og vera í frjálsum leik. Eftir hádegi var svo önnur afmælisveislan í vikunni þar sem að Arabella átti tveggja ára afmæli. Eftir kaffitíma lékum við okkur úti.

Á föstudag fóru börnin í Smiðju til Lukku og það voru að skreyta möppuna sína með tússlitum

Málhljóð vikunnar í Lubba var Úú. Við sungum lag um ugluna sem segir ú-hú-hú og lásum svo söguna um hana Úlfhildi sem ætlaði í útilegu á Úlfljótsvatni.

Í Blæstund vikunnar skoðuðum við tvö spjöld. Á fyrra spjaldinu var mynd af tveimur börnum þar sem annað barnið er að taka dót af hinu sem að grætur. Við ræddum um að það mætti ekki taka dót af öðrum og að ef að við vildum leika með dót sem einhver annar er með þarf að spyrja um leyfi. Á seinna spjaldinu er barn að bíta annað barn sem að grætur. Við ræddum um að það mætti ekki bíta og að allir ættu að vera góðir við hvern annan. Í framhaldinu ræddum við um tilfinninguna að vera leiður og að börnin á spjöldunum væru leið með þessa uppakomur.

Takk fyrir vikuna sem er að líða.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 10. – 14. Október  2022

Heil og sæl kæru foreldrar,

Skemmtileg vika að baki en það er alltaf jafn gott að komast í smá helgarfrí. Eitthvað hefur verið um veikindi hjá börnunum í vikunni sem vonandi gengur fljótt yfir.

Á mánudaginn fóru börnin í leikvang með Hinrik fyrir hádegi þar sem að þau léku sér meðal annars með bolta, æfðu sig í að klifra í rimlunum og hoppuðu á trampólíninu. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudag komumst við því miður ekki í vettvangsferð út af veðri en við gerðum gott úr því og höfðum gaman inni í staðin. Börnin skiptust á að leira með Carmen og vera í frjálsum leik inni á deild. Eftir hádegi var veðrið ennþá að stríða okkur svo við komumst ekkert út þann daginn. Við vorum í staðin með stöðvar inni á deild þar sem börnin gátu valið á milli þess að púsla, pinna og lita. Eftir stöðvavinnuna hlustuðum við á tónlist og dönsuðum, það var mikið stuð!

Á miðvikudaginn var svo hópastarf fyrir hádegi. Í hópastarfinu vorum við meðal annars að skoða mismunandi form, æfa okkur í að telja og æfa fínhreyfingar hjá börnunum með því að láta þau lita eftir útlínum. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn var kalt úti og því vorum við inni þann morgun. Fyrir hádegi skiptust börnin fram í  dukkukrokk og inni á deil í frjálsum leik.  gaman að sjá hvað allir eru að verða duglegir í félagslegur leikur. Eftir hádegi lékum við okkur úti.

Á föstudaginn var Gaman Saman með Laut og Læk þar sem við hittumst á ganginum og vorum að syngja öll saman. Það var ótrúlega gaman og börnin svo flott allir sýndu samstöðu klæð og með einhverju bleiku. Eftir hádegi lékum við okkur úti.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Íí/Ýý. Við sungum lag um Írisi og Ívar. Fyrir áhugasama þá er hægt að hlusta með börnunum á lögin á YouTube ef skrifað er ,,Lubbi finnur málbein“ í leitina. Saga vikunnar fjallaði síðan um ísbjörninn Ísak sem langar að synda til Íslands og fá sér ískalda ýsu.

Spjald vikunnar í Blæ var mynd af börnum að leika sér þar sem eitt barnið fékk ekki að vera með í leiknum. Við ræddum við börnin um að það væri ekki fallegt að skilja út undan og að allir ættu að vera vinir og leika sér saman. Síðan lásum við bók um tilfinningarnar sem við munum gera reglulega í vetur til þess að hjálpa börnunum að læra inn á tilfinningarnar sínar.

Takk fyrir vikuna sem er að líða.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 3. – 7. Október 2022

Heil og sæl kæru foreldrar,

þá er heilsuvikan á enda. Í vikunni vildum við meðal annars efla líkamsvitund hjá börnunum og hjá okkur á Lind settum við aukna áherslu í vikunni á að læra líkamspartana sem var mjög skemmtilegt.

Á mánudaginn fóru börnin í leikvang með Hinrik fyrir hádegi og eftir hádegi lékum við okkur úti.

Á þriðjudaginn fórum við í vettvangsferð fyrir hádegi. Við löbbuðum fram hjá Lindakirkju og fórum og lékum okkur á æfingatækjum sem eru fyrir aftan kirkjuna. Á leiðinni löbbuðum við í gegnum göng þar sem við lékum okkur að því að kalla orð og hlusta á bergmálið sem börnunum fannst mjög skemmtilegt. Við vorum heppin með veður þar sem sólin skein á okkur. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn var hópastarf fyrir hádegi. Í hópastarfinu skoðuðum við meðal annars fjölskyldumyndirnar sem að börnin komu með að heiman. Börnin æfðu sig í að segja frá með því að segja hinum í hópnum hverjir væru á myndunum. Eftir hádegi lékum við okkur úti.

Á fimmtudag vorum við með grænmetis- og ávaxtaveislu. Börnin sátu öll saman á borði og borðuðu grænmetið og ávextina sem að börnin komu með að heiman með bestu lyst. Eftir veisluna fórum við út að leika fyrir hádegismat og aftur eftir kaffi lékum við okkur úti.

Á föstudag það var smiðjutíma með Lukkuþau voru að mála með vatnsliti og búa til möppur. Gaman Saman með Laut og Læk þar sem við hittumst á ganginum og syngjum öll saman. Það var ótrúlega gaman og börnin svo flott  að taka þátt.  

Málhljóð vikunnar í Lubba var Dd. Við hlustuðum á lag um rigninguna og hvernig droparnir detta, sletta og skvetta. Svo lásum við söguna um Diljá sem dreymdi að hún væri komin á fiskidaginn mikla á Dalvík.

Spjald vikunnar í Blæ var mynd af börnum að lita. Eitt barnið er að lita á blaðið hjá öðru barni sem að vildi það ekki. Við ræddum um að það væri ekki fallegt að stríða og æfðum okkur í að segja stopp ef aðrir eru að gera eitthvað við okkur sem að við viljum ekki.

Við viljum minna foreldra á þarf að  tilkynna  frí eða veikindi barns fyrir kl.9:00. Ef um veikindi eru að ræða þætti okkur vænt um að þið látið fylgja með hvað hrjáir barnið ykkar vegna skráningar í heilsubók þeirra.

Einnig langar okkur að biðja foreldra um að yfirfara útiföt, skó og aukafataboxin. Börnin stækka svo hratt að eitthvað er farið að vera of lítið á þau. Einnig er farið að kólna í veðri svo tími kuldagallans og kuldaskónna er að byrja.

Takk fyrir skemmtilega viku.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 26. – 30. September 2022

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þá er síðasta vika september mánaðar að enda. Eitthvað hefur verið um veikindi hjá börnunum í vikunni sem vonandi gengur fljótt yfir.

Á mánudaginn fóru börnin í Leikvang til Hinriks þar sem þau léku sér í þrautabraut. Þeim finnst alltaf jafn gaman í Leikvangi og stundum er svo gaman að það er erfitt að hætta þegar tíminn er búinn. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn fórum við í vettvangsferð þar sem við löbbuðum hringinn í kringum Salalaug, fórum í boltaleiki á Versalavelli og enduðum svo á að taka stutt stopp á ærslabelgnum. Einhver börn hittu eldri systkini sín í vettvangsferðinni og það er alltaf jafn gaman. Eftir hádegi lékum við okkur úti.

Á miðvikudag var svo hópastarf. Í hópastarfinu vorum við meðal annars að flokka bangsa eftir litum og æfa okkur að telja. Einnig byrjuðum við aðeins að skoða einfalt rím. Börnin eru orðin svo dugleg að sitja kyrr, fylgjast með og spreyta sig á verkefnunum í hópastarfinu. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn var blautt og kalt úti og því vorum við inni þann dag. Fyrir hádegi skiptust börnin á að leira, flokka kubba eftir litum og vera í frjálsum leik. Eftir hádegi var frjáls leikur.

Á föstudag fór Carmen með okkur í smiðju þar sem við vorum að mála og föndra fugla sem við notuðum svo til að skreyta deildina okkar. Fyrir hádegi fórum við í okkar fyrsta gaman saman. Gaman saman er samverustund með Laut og Læk þar sem við hittumst á ganginum og syngjum öll saman. Það var ótrúlega gaman og börnin svo flott allan tímann og hlökkum við mikið til að fara í Gaman Saman á föstudögum með þeim í vetur.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Nn. Við sungum lag um nefið, nebbanudd og nasirnar tvær. Saga vikunnar fjallaði um Nóa sem býr á Neskaupsstað. Hann heimsótti Núma frænda sinn í Reykjavík og þeir fóru saman í Nauthólsvík.

Spjald vikunnar í Blæ var mynd af börnum í leik þar sem eitt barn er skilið út undan. Við ræddum við börnin að það sé ekki fallegt að skilja út undan og að allir eigi að vera vinir og að leika sér saman.

Í næstu viku er svo heilsuvika, þá fræðum við börnin meðal annars um hreyfingu og tökum jafnvel hreyfistundir. Á fimmtudaginn er börnunum okkar á Lind velkomið að koma með grænmeti og/eða ávexti að heiman og við höldum grænmetis- og ávaxtaveislu hér í leikskólanum. Við endum svo heilsuvikuna á hreyfidegi.

Takk fyrir vikuna sem er að líða.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 19. - 23. September 2022

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika var styttri vegna skipulagsdags á föstudag og börnin munu örugglega njóta þess að komast í aðeins lengra helgarfrí en vanalega.

Á mánudaginn fórum við í Leikvang til Hinriks eins og vanalega. Veðrið lék ekki við okkur þennan dag svo við lékum okkur inni eftir hádegi.

Á þriðjudaginn fórum við í vettvangsferð á Hvammsvöll og lékum okkur þar góða stund. Það vildi svo skemmtilega til að börnin á Laut voru líka á Hvammsvelli svo það var ennþá meira fjör. Veðrið lék við okkur en annað má segja um eftir hádegi svo við héldum okkur inni þá.

Á miðvikudaginn fórum við í hópastarf þar sem við rifjuðum upp Bínu bálreiðu, en hún er meðal annars að læra að hlusta, sitja kyrr og að bíða. Einnig skoðuðum við nokkur mismunandi form og börnin pöruðum saman myndir af eins formum.

Á fimmtudaginn lékum við okkur úti í rigningunni bæði fyrir og eftir hádegi og vorum í frjálsum leik þess á milli. 

Á föstudaginn var svo starfsdagur.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Bb. Lag vikunnar var um að blása sápukúlur og sjá þær svífa. Við lásum svo söguna um Benedikt sem er bókaormur og finnst gaman að veiða bleikju og tína bláskeljar.

Blær. Spjald vikunnar var mynd af börnum að haldast í hendur. Eitt barn var ekki að halda í hendurnar á neinum en annað barn bauð því sína hendi. Börnin lærðu um að allir ættu að vera vinir og góðir við hvern annan.

 

Takk kærlega fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 12. -16. September 2022

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Skemmtileg vika að baki en það er alltaf jafn gott að komast í smá helgarfrí.

Á mánudaginn fórum við í Leikvang til Hinriks. Alltaf jafn gaman þar og eftir hádegi fórum við út að leika.

Á þriðjudaginn fórum í í langa og skemmtilega vettvangsferð (sjá myndir á facebook) þar sem við löbbuðum stórann hring í kringum Versalavöll, allavega stór fyrir litlar fætur. Það hefur alltaf slegið í gegn að fara fylgjast með krökkum í skólasundi og það gerði það auðvitað líka hjá þeim. Mjög gaman að sjá krakkana busla í sundinu. Fyrir utan sundið var svo ísbíll með skemmtilegum fígúrum að borða ís sem var líka skemmtilegur. Smá svekkelsi að fá samt engan ís 😉
    Á leiðinni til baka stoppuðum við á ærslabelgnum og hlaupabrautinni.

Á miðvikudaginn vorum við inni í frjálsum leik. Það var ekki hefðbundið hópastarf heldur dreifðum við hópastarfinu yfir vikunna og settum það inn í frjálsa leikinn með börnunum. Eftir hádegi fórum við svo út að leika. 

Fimmtudagurinn var mikill útidagur eins og vonandi flestir fimmtudagarnir okkar í vetur en þá förum við bæði út fyrir og eftir hádegi.

Á föstudaginn var leikfangadagur hjá okkur þar sem allir komu með fínt dót að heiman. Það var mjög gaman hvað krakkarnir voru áhugasamir og voru líka að lána sitt dót og prufa annarra manna dót.
    Við fórum í hópum í smiðjuna með Carmen þar sem við vorum að prufa okkur áfram í að nota skæri og æfa fínhreyfingar. 

Málhljóð vikunnar í Lubba var Mm. Krakkarnir eru mjög dugleg að gera hreyfinguna og hljóðið með. Við sungum um mjúka mús sem vildi ost í magann sinn. Svo lásum við söguna um Margréti sem á heima á Mývatni þar sem eru mýflugur og margir merkilegir fuglar.

Í vikunni byrjuðum við í Blæ. Blær kemur til með að kenna okkur allskonar í vetur til þess að bæta okkur sem einstaklingar í samskiptum við vini okkar og vera góð hvort við annað. Spjald vikunnar var mynd af barni ýta öðru barni áfram á sparkbíl. Þar er verið að hjálpast að og leika saman.  Við munum líka lesa reglulega Bangsímon bók um mismunandi tilfinningarnar og reyna læra inn á þær. 

Takk kærlega fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 5.-9. September 2022

Heils og sæl kæru foreldrar.

Kominn september mánuður hjá okkur og veturinn að byrja. Það var þó ekki að sjá á veðrinu þar sem veðrið lék við okkur en við kvörtum nú alls ekki yfir því. Við byrjuðum hópastarf og Lubbi finnur málbein þar sem bæði vakti mikinn áhuga.

Á mánudaginn fórum við í leikvang til Hinriks. Það þarf nú varla að taka það fram en það er alltaf jafn gaman þar. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn fórum við í okkar fyrstu vettvangsferð saman í frábæru veðri. Við byrjuðum svo sem ekkert af krafti en við tókum lítinn göngutúr út að salaskóla og til baka. Við enduðum svo á að losa smá orku á hlaupabrautinni og ærslabelgnum en það komu líka allir dauðþreyttir til baka og sofnuðu fljótt eftir matinn. Eftir hádegi fórum við líka út að leika.

Á miðvikudaginn tókum við fyrsta hópastarf vetrarins. Við byrjuðum hægt. Við byrjuðum á því að lesa Bínu bálreiðu en hún mun hjálpa okkur ásamt Blæ að læra reglurnar og passa sig hvar hendurnar okkar eru, kenna okkur að sitja kyrr o.fl. ásamt því að vera góð við hvort annað. Við fórum svo í að læra litina og tölurnar, flokkuðum litríka bangsa og töldum upp á tíu.

Fimmtudagurinn var mikill útidagur þar sem við fórum út bæði fyrir og eftir hádegi. Og frjáls leikur var þar á milli.

Á föstudaginn fórum við með Selmu í smiðjuna. Þar vorum við að mála og leika okkur í ljósaborðinu. Þetta var seinasta vikan sem við förum með okkar kennara en í næstu viku byrjar Lukka smiðjukennari og við hlökkum mikið til.

Málhljóð Lubba sem við byrjuðum á í þessari viku var Aa. Í samverustundunum sungum við um hvað Amma og Afi eru góð. Við lásum líka söguna um andarnefju á Akureyri sem sá hafmeyju.

Takk kærlega fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 29. ágúst – 2. september 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Enn ein vikan liðin hjá okkur. Ekki jafn mikil útivera og í seinustu viku en samt mjög kósý vika hjá okkur.  Það er greinlegt að reglulega haustlægðin er farin að láta sjá sig.

Á mánudaginn fórum við í leikvang til hans Hinriks um morguninn í fullt af skemmtilegum þrautabrautum sem var svo gaman. eftir hádegi var ekki æðislegt veður svo við lékum okkur inni með allt skemmtilega dótið okkar þar.

Á þriðjudaginn fórum við út fyrir hádegi í grenjandi rigningu en eftir hádegi lögðum við ekki í rigninguna aftur svo við lékum inni að lita, púsla, pinna og með tré kubbar. Mjög skemmtilegur dagur.

Á miðvikudaginn áttum við afmælisprins. Við héldum upp á smá afmæli fyrir hann fyrir mat og var það æðislegt. Við fórum ekkert út í dag enda eins of fyrri daginn ekki æðislegt veður.

Á fimmtudaginn fórum við út um morguninn, veðrið búið að skána og gott að komast út. Við fórum einnig út að leika eftir hádegi. Það var rosalega gott að komast út að leika bæði fyrir og eftir hádegi enda svo gaman að leika úti.

Á föstudaginn fórum við út um morguninn, allir í góðum leik að róla, renna, moka og leika með bíla. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Nú fer skipulagt starf að byrja aftur í næstu viku. Við ætlum að byrja á að taka Lubba og fyrsta málhljóðið (A) með honum.

Það er líka að fara af stað fjölskylduverkefni hjá okkur. Okkur langar að að biðja ykkur að koma með A4 blað með myndir af fjölskyldumeðlimum ykkar og barninu sjálfu og skrifa inná hver er hvað. Það má alveg nota hugmyndaflugið, hafa litríkt og skemmtilegt en passa að þetta sé í stærð A4. Börnin sem voru síðasta sumar þurfa ekki að koma með nýtt frekar en þið viljið 😊

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 22. – 26. Ágúst 2022

Heil og sæl kæru foreldar.

Fyrsta vikan af síðustu aðlögun hjá okkur og fyrsta vikan sem heil deild saman. Hún hefur verið rosalega skemmtileg hjá okkur og gengið ótrúlega vel. Það er margt búið að vera í gangi þessa vikuna. Við erum búin að vera mjög mikið úti enda er búið að vera rosalega gott veður sem við ætlum sko alls ekki að missa af.

Á mánudaginn hófst leikvangur hjá okkur. Við vorum að hitta Hinrik í fyrsta skiptið og hann tók svo vel á móti okkur og okkur leið strax rosalega vel hjá honum. Það var ótrúlega gaman. Það var einnig aðlögun hjá okkur. Gaman að fá alla nýju vinina okkar inn loksins. Þau fengu líka að fara í leikvang og gekk ótrúlega vel. Aðlögunin í heild sinni gekk mjög vel og sofnuðu allir fljótlega. Krakkarnir eru að taka mjög vel á móti nýju börnunum og eru að reyna hugga þau og láta þeim líða vel. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn fórum við út að leika um morguninn. dagur 2 í aðlögun og gekk það aftur mjög vel og allir glaðir að leika úti. Eftir kaffi fórum við líka út að leika.

Á miðvikudaginn fórum við út um morguninn. Nýju börnin kvöddu foreldra sína úti og allir komust fljótt í góðan leik og gekk mjög vel. eftir hádegi fórum við einnig út að leika

Á fimmtudaginn bara eins og alla aðra morgna í vikunni fórum við út þar sem allir nutu sín vel og það sama gerðum við svo eftir kaffi líka.

Á föstudaginn nýttum við smiðjutímann okkar með Carmen þar sem smiðjukennarinn er ekki byrjuð en hún mun koma til okkar eftir tvær vikur, þangað til mun Carmen gera eitthvað skemmtilegt með okkur. Nýju börnin voru að föndra ferilmöppurnar sínar líkt og hin börnin gerðu í síðustu viku. Hin börnin voru í öðru skapandi starfi. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Það eru smá breytingar í vændum. Í næstu viku mun starfsmannaskipulag breytast smávegis. Arna Björg sem hefur verið hjá okkur ætlar að leysa af inni á Hól á eldri gangi og verður hjá okkur til 1.september. Anna sem hefur verið líka hjá okkur verður með okkur út næstu viku áður en hún hættir. Inn til okkar koma þó tveir nýr starfsmenn í staðinn. Amanda sem hefur verið starfandi á Laut kemur inn 100% á okkar deild. Nýr Starfsmaður sem heitir Ása Lind er svo að byrja 1. september í 80% starfi og verður líka hjá okkur. 

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 15. – 19. ágúst 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Gaman að snúa aftur eftir sumarfrí og hitta dásamlegu börnin ykkar. Við vonum að þið hafið átt yndislegar stundir með þeim í sumarfríinu og ykkar fólki. Það er samt alltaf gott að snúa aftur og komast í rútínu. Vikan hjá okkur hefur verið mjög skemmtileg.

 Á mánudag og þriðjudag vorum við mikið úti en við fórum bæði út fyrir og eftir hádegi.

 Á miðvikudeginum var hinsvegar ekki gott veður svo við ákváðum að fara í smá létta upprifjun á hópastarfi.

 Á fimmtudeginum var líka mikil útivera enda um að gera að nýta öll tækifæri þegar við fáum fínt veður því hver veit hvað veturinn ber í skauti sér.

 Á föstudeginum tókum við smá smiðju og gerðum möppurnar okkar tilbúnar en skipulagt starf byrjar í næstu viku. Það er komin nýr starfsmaður í leikvanginn sem heitir Hinrik. Hann mun byrja í næstu viku að kynnast okkur og vera með skemmtilega leiki og þrautabrautir fyrir okkur.

 Á mánudaginn næsta eru einnig 5 ný börn að byrja hjá okkur. Við hlökkum til að taka á móti þeim og kynnast nýjum vinum. Loksins verður deildin okkar orðin heil og hlökkum við til að byrja veturinn að krafti. Lubbi, Blær og hópastarf byrjar svo 5. september en við munum þó taka kannski létt hópastarf fram að því enda er það svo gaman.

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

  

Vikan 9. – 13. Maí 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Skemmtielg vika á enda og við eins og allar vikur höfum við brallað ýmislegt.

Á mánudaginn fórum við í leikvanginn þar sem við losuðum orku sem er svo gott fyrir vikuna.
    Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn vorum við ekki lengi að skella okkur í peysu og skó út að leika þar sem veðrið var æðislegt. 2019 börnin kíktu í stóra garðinn þar sem þau eru að byrja æfa sig fyrir sumarið þegar þau fara yfir á eldri ganginn. 2020 börnin fengu svo að kíkja með í restina áður en við fórum inn.
    Eftir hádegi fórum við auðvitað líka út þar sem við héldum Eurovision dansipartý enda Ísland að taka þátt um kvöldið.

Á miðvikudaginn komumst við aftur ekki í vettvangsferð en auðvitað fórum við samt út að leika. Fengum okkur frískt loft og lékum okkur í skemmtilegum leik. Eftir kaffi fórum við svo líka út að leika.

Á fimmtudaginn tókum við hópastarf sem er hér með seinasta hópastarfið okkar þessa önnina þar sem skipulagt starf fer í frí eftir þessa viku. Krakkarnir fengu því smá að ráð hvað þau væru að vinna með og tók því ekki hver hópur nákvæmlega það sama en samt svipað. Það var meðal annars verið að vinna með rím, liti, form, að telja, fylgja línu og fl. svo í endann lásum við Bínu og hennar „reglur“
    Eftir kaffi fórum við svo aftur út að leika.

Á föstudaginn fórum við öll út að leika um morguninn og rúlluðum svo hópum sem fóru með Carmen í smiðjuna að mála sumarmyndir. Þetta var síðasta skiptið okkar í smiðju á þessari önn en nú erum við komin í sumarfrí frá bæði Kollu og Nönnu. Það var einnig verið að vinna í mat á börnunum þar sem þau voru spurð léttra spurninga og svo teiknuðu þau mynd við.  

Málhljóð Lubba í vikunni var Au. Við lásum söguna um Auði og Hauk á Raufarhöfn og sungum um Auðunn sem var að sauma. 

Þessa viku hafa 2019 börnin verið að æfa sig að borða í matsalnum. Þar sem það tekur líklega smá tíma að aðlagast því þá viljum við byrja snemma enda tæpur mánuður í að þau fari yfir. Það gengur alveg ágætlega, fyrsta vikan og þau eru auðvitað smá hissa á þessu. Þau eru mjög forvitin um allt sem er að gerast í kringum þau en þau eru mjög dugleg og þetta verður örugglega ekkert mál, eru byrjuð að læra ganga frá alveg sjálf og sækja sér sjálf disk og glas í kaffitímanum.

Við viljum minna enn og aftur á að á mánudaginn er skipulagsdagur hjá okkur og þá er leikskólinn lokaður.

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

 

Vikan 2-6. maí 2022

Heil og sæl kæru foreldrar.

Fyrsta vika maímánaðar liðin og vonum við að sumarið fari að taka alveg við. 2 vikur eftir af skipulögðu starfi. Þessa viku var heilsuvika hjá okkur.

Á mánudaginn var leikvangsdagur svo við fórum þangað í nokkrum hollum þó svo að Kolla hafi ekki verið. Við vorum í skemmtilegri braut þar að losa mjög mikla orku. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn var hópastarf um morguninn þar sem við vorum að halda áfram með allt það klassíska sem við höfum veriðið að vinna með í vetur. Vegna heilsuvikunnar var ávaxta/grænmetisdagur hjá okkur þar sem allir komu með að heiman og gáfu með sér og héldum við veglega veislu sem minnti á afmæli sem er alltaf gaman. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn komumst við því miður ekki í Vettvangsferð en við fórum auðvitað út að leika í staðin og fengum okkur súrefni og hreyfingu. Þar blésum við sápukúlur eins og marga daga núna. Alltaf svo fyndið og gaman að elta þær. Eftir hádegi fórum við svo líka út.

Á fimmtudagsmorguninn fengum við til okkar nokkra krakka úr tónlistaskólanum í heimsókn til okkar að spila á mörg skemmtileg hljóðfæri sem við könnuðumst ekki mikið við. Börnin alveg gáttuð. Eftir hádegi kom svokallað alvöru íslenskt veður þar sem við fengum glampandi sól, grenjandi rigningu, haglél og snjókomu. Við ákváðum því bara að leika okkur inni þar sem við skiptum okkur bara niður í hópa og lékum með allskonar skemmtilegt dót.

Á föstudaginn var heldur betur mikið um að vera um morguninn. Það var bæði smiðja hjá Nönnu þar sem við fengum að sulla og sulla sem vakti mikla lukku og einnig var íþróttadagurinn hjá okkur. Eftir smiðjuna fórum við því út í yndislegu veðri í skemmtilegar þrautabrautir. Við tókum út mörk, bolta, fallhlífina, húllahringina, keilur og mjúka púða til að setja á höfuðið og æfa sig að halda jafnvæginu með það á höfðinu. Við vorum léttklædd enda sólin að fylgjast með okkur en eftir smá tíma fengum við að finna fyrir týbíska íslenska veðrinu og fengum við haglél og snjókomu, yndislegt J

Málhljóð Lubba í þessari viku var Ey. Við lásum söguna um Eygló sem  sem heimsótti Svein frænda sinn. Þau týnu sóleyjar og gley-mér-ei sem þau festu við peysuna sína. Við sungum svo um Einar sem sagði vei,vei,vei og heyrði meira.

Okkur langaði aðeins að útskýra fyrir ykkur hvað börnin eru að meina þegar þau segja að rólurnar séu “bilaðar“. Málið er það að suma daga þá vilja börnin ekki gera neitt, bara bíða og bíða eftir því að komast í rólurnar. Það er náttúrulega mjög leiðinlegt að standa bara og bíða og suma skortir aðeins þolinmæði í það að bíða lengi J þess vegna höfum við stundum rólurnar bilaðar meðan við erum úti að leika og höfum við tekið eftir því í kjölfarið að hvað börnin eru orðin dugleg að leika sér og miklu hreyfanlegri í garðinum en áður.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 25. – 29. Apríl 2022

Heil og sæl kæru foreldrar

Skemmtileg vika að baki og rosalega er gaman hvað veðrið hefur leikið við okkur og við nýtt það og verið mikið og lengi úti.

Á mánudaginn fórum við í leikvanginn, þó ekki til Kollu en samt sem áður alltaf svo gaman að sprikla á mánudagsmorgni. Eftir kaffi fórum við svo beinustu leið út að leika.

Á þriðjudaginn fórum við í hópastarf eins og vanalega. Við vorum að vinna með formin, litina, fylgja línu á tölustöfum og formunum. Eldri krakkarnir fóru í að læra telja upp í 20 og svo fórum við öll saman yfir Bínu bálreiðu og hún að kenna okkur hvernig við sitjum kyrr, að bíða og margt fleira. Eftir hádegi svo bara auðvitað út að leika.

Á miðvikudeginum var vettvangsferðin okkar eins og vanalega. Þar sem að það var plokkunardagur um helgina þá auðvitað vildum við taka þátt í að gera umhverfið okkar snyrtilegra. Við fórum út með ruslapoka og týndum helling af rusli. Á meðan við vorum að leggja lokahönd á tínsluna sáum við að það var verið að blása upp ærslabelginn. Við fylgdumst spennt með því og hoppuðum svo fullt þegar hann var tilbúin. Til þess að fá svo smá göngutúr tókum við einn stuttan hring í kringum Versalavöllinn og kíktum á fólkið í sundi. Eftir hádegi vorum við svo úti að leika.

Á fimmtudögum er yfirleitt hópastarf hjá okkur líka en við tókum svo gott hópastarf á þriðjudaginn að við ákváðum frekar að nýta veðrið enda var það æðislegt. Sömuleiðis fórum við út eftir hádegi að leika í góða veðrinu.

Á föstudaginn fórum við í smiðju og máluðu listaverk á trönum, svo skelltum við okkur einnig út fyrir hádegi og nýttum enn og aftur góða veðrið. Eftir hádegi fórum við enn og aftur út að leika.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 4. – 8. apríl 2022

Heil og sæl kæru foreldrar.

Ein heldur betur sólrík vika á enda og vonum við að nú fari sumarið að taka við þessum langa vetri. 

Á mánudaginn var leikvangur hjá Kollu eins og vanalega og er það alltaf jafn skemmtilegt enda næstum „slegist“ um að vera í fyrsta hóp þegar hún labbar inn á deild. Þar er hún að leggja fyrir okkur svo skemmtilegar brautir að ekkert skrítið að allir vilji vera fyrstir til hennar. Eftir hádegi fórum við svo út að leika í blíðunni.

Á þriðjudaginn var bara frjáls leikur inni á deild um morguninn. Tilbreyting öðrum þriðjudögum en það var bara gaman.

Á miðvikudaginn skelltum við okkur í skemmtilega vettvangsferð. Við löbbuðum í Salaskóla og kíktum á krakkana þar leika sér í útiverunni. Krílin okkar voru heldur betur vinsæl meðal skólakrakkana en fullt af þeim komu að heilsa uppá okkur. Á leiðinni til baka stoppuðum við á hlaupabrautinni við hliðin á leikskólanum og hlupum þar nokkrar ferðir. Gerðum ýmsar útgáfur t.d. hlaupa hratt áfram, hoppa, hlaupa afturábak, upp með hendur og fleira skemmtilegt. Renndum okkur svo niður brekkuna þar sem var ennþá smá snjór. Allir dauðþreyttir og sofnuðu strax eftir hádegismatinn enda löng ferð fyrir litlar fætur. Eftir matinn fórum við svo aftur út. 

Á fimmtudaginn fórum við í hópastarf um morguninn. Við vorum bæði í hópastarfi frammi þar sem við vorum að æfa okkur að skrifa tölustafina 1 og 2, æfa okkur í líkamspörtunum okkar og fleira. Inni á deild fengum við svo að æfa okkur að telja og litina með numicon kubbana okkar sem slá alltaf í gegn. Eftir hádegi fórum við svo út að leika í elsku sólinni okkar.

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu. Þar vorum við að gera skemmtilegt páskaföndur. Við vorum að mála páskaegg og setja smá glimmer yfir það. Fyrir mat fórum við í gaman saman með Laut og Læk og svo drifum við okkur beint út í góða veðrið eftir kaffi.

Málhljóð Lubba þessa vikunna var Óó. Sagan var frekar erfið að skilja þessa viku um hann Ómar óðinshana sem kunni vel við sig í óbyggðum, sérstaklega Ódáðahrauni. Lagið var þó einfaldara og eru þau að ná tökum á því enda var það einfalt um hann Óla að góla og svo bara ó,ó,ó. Ekkert eins gott og að knúsa Lubba okkar eftir stundirnar okkar. Þau voru fljót að ná hreyfingunni og auðvitað kunna allir að segja „ó“.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 28. mars  – 1. Apríl 2022

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika búin að vera mjög fámenn en  skemmtileg. Þá er enn ein vikan flogin frá okkur og nú styttist heldur betur í páskana.

Við höfum verið dugleg að föndra fyrir páskana þessa vikuna og ætlum að halda því áfram í komandi viku. Veðrið hefur verið gott síðustu dagana og við höfum farið út alla vikuna  og hafa börnin notið sín í botn í góðum leik á útisvæðinu okkar.

Á mánudaginn vorum við hjá Kollu í leikvang og búa til páskaunga með tásunum okkar. Sumum kitlaði við það en þetta var rosalega fyndið og skemmtilegt. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn fórum við í hópastarf. Við ætlum að byrja á smá þema um líkamann í apríl. Við vorum því að æfa okkur að benda á alla líkamspartana okkar. Svo æfðum við okkur að teikna líkamspartana. Við erum samt ennþá alveg að vinna með aðra hluti eins og rím, telja, læra vísur og litina.

Á miðvikudaginn ákváðum við að gera smá meira páskaföndur. Við lituðum litla sæta páskaunga í páskalitum. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn héldum við áfram með líkamann í hópastarfi. Við vorum líka að telja og flokka bangsa, fara eftir línu í tölustafinn 1 og sumir fóru að byrja prufa tölustafinn 2. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á föstudaginn var Nanna ekki svo við skelltum okkur út í góða veðrið. Það er rosalega gott að komast út á morgnana og fara inn þreytt, svöng og sæl. Þegar við komum inn fórum við í gaman saman með Laut og Læk og eftir kaffi fórum við svo aftur út. Svo gott að enda vikuna úti.

Málhljóð Lubba í vikunni var mjúka g. Við lásum söguna um Sögu og Dag sem búa á Laugarvatni. Þau eiga flugdreka og elska að láta hann fljúga og ímynda sér að hann sé geimflaug. Svo var sungið um sögina sem er að saga alla daga.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 21. – 25. Mars 2022

Heil og sæl kæru foreldrar.

Enn ein vikan liðin hjá okkur. Skemmtileg hjá okkur og allskonar búið að gerast. Svo æðislegt við þessa viku að við komumst mikið út. Við erum því að vona að nú fari vorið að koma til okkar.

Á mánudaginn fórum við til Kollu í leikvang sem er alltaf jafn gaman og síðan út eftir hádegi. Eftir hádegi fórum við út að leika.

Þriðjudagur og fimmtudagur voru eins hjá okkur. Hópastarf þar sem við æfum okkur í fjölbreyttum æfingum en það kemur alltaf ítarlegri póstur á facebook ásamt myndum. Báða dagana fórum við svo út eftir hádegi.

Miðvikudagurinn var stór dagur hjá okkur. Við fengum loksins veður fyrir vettvangsferð en við höfum ekki getað farið síðan í lok janúar. Við löbbuðum á Hvammsvöll þar sem við gátum hlaupið og leikið okkur út um allt. Við tókum ávexti með okkur, fengum okkur smá orku og héldum svo áfram að leika. Eftir hádegi fórum við svo aftur út að leika, þvílíkur útidagur hjá okkur.

Á föstudaginn var engin smiðja hjá okkur þannig við vorum bara í frjálsum leik inn á deild. Fyrir mat héldum við smá kveðjustund fyrir elskulegan vin okkar sem er að hætta hjá okkur en hann er að flytja frá okkur og upplifa ný ævintýri á öðrum stað. Hann gaf okkur saltstangir og bláber og var það rosalega gott. Það var smá erfitt að halda aftur að sér tárum en við munum sakna hans mjög mikið og knúsuðum við hann í döðlur og óskum honum alls hins besta á nýjum stað. Eftir það fórum við í gaman saman með Laut og Læk. Það er alltaf jafn gaman. Eftir hádegi fórum við út að leika í pollunum.

Málhljóð Lubba var að þessu sinni Ðð. Lagið var frekar langt og erfitt en við gerðum okkar allra besta í að læra textann. Saga vikunnar var um hann Daða sem á að borða lúðuna sína en hann vildi bara snúð. Hreyfingin var samt sem áður einföld og áttu þau auðvelt með að ná henni.

Takk kærlega fyrir góða viku og hafið það gott um helgina.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 14 – 18 mars 2022

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika styttri en vanalega vegna skipulagsdags. Það er líka búið að vera leiðindaveður svo alls ekki mikil útivera. Við erum farin að hlakka til að sjá fleiri en 3 daga án gulrar viðvörunar og mögulega glitta í smá sól.

Á mánudaginn fórum við aldrei þessu vant til Kollu að leysa út orkuna eftir helgina. Mjög gaman og hún alltaf búin að seta fyrir okkur nýjar og skemmtilegar þrautabrautir svo enginn tími er eins.

Þriðjudagurinn og fimmtudagurinn voru keimlíkir. Hópastarf um morguninn og frjáls leikur eftir kaffi. Hópastarfið má sjá allt saman skriflegt og í myndum á facebook síðunni okkar.

Á miðvikudaginn var skipulagsdagur eins og segir hér að ofan. Fræðandi en jafnframt skemmtilegur skipulagsdagur. Jón Pétursson var með fyrirlestur um eldvarnir og verklegar æfingar í að slökkva eld. Eftir Hádegi kom svo Sabína Steinunn Halldórsdóttir - Færni til framtíðar- með fræðslu um mikilvægi hreyfingar og útináms. Síðan vorum við í útiveru í klukkustund þar sem við prufuðum ótrúlegustu útileiki og mjög skemmtilega með náttúrulegum efnivið.

Á föstudaginn fórum við í smiðjuna um morguninn. Nanna var þó ekki en við nýttum smiðjuna í að klára baukana okkar síðan fyrir áramót og mála. Fyrir mat fórum við síðan í gaman saman með Laut og Læk.

Málhljóð Lubba í vikunni var Rr. Við sungum um börnin renna, róla, rugga of rúlla sér í rigningunni og lásum svo sögu um hann Ragnar sem hefur rosalegan áhuga á risaeðlum.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 7. – 11. mars 2022

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Þessi vika hefur verið frekar skrítin hjá okkur. Það er því miður búin að vera mikil mannekla hjá okkur og því búið að loka deildum. Það hefur því ekki verið mikið um skipulagt starf hjá okkur. Við fórum hinsvegar í leikvang á mánudaginn en þó ekki með Kollu. Fengum að losa smá orku þar fyrir vikuna. Við höfum ekki beint tekið hópastarf en verið dugleg í að setjast niður og spila, púsla, flokka liti o.fl. Við erum að æfa okkur í að haldast í leik/á ákveðnum stað og erum því að stilla klukku og skiptum þegar tíminn er búin, þau eru að standa sig ágætlega í því og kemur örugglega fljótt næstu vikurnar.
Það var engin smiðja á föstudeginum en fyrir hádegi var Gaman Saman með Laut og Læk þar sem krakkarnir sungu og sprikluðu allskonar lög.

Við héldum okkur þó við Lubba og Blæ. Málhljóð vikunnar í Lubba var Þþ. Þar sungum við um þotu sem þaut út um allt og lásum um þrjátíu þúsund þorskhaus, þotuna sem var þokkalega þróttmikil og þakklátan þröst kroppa í þreyttan maðk.

Fyrir tveimur vikum byrjuðum við að vinna með svokallað flæði eða blöndun á milli Lindar og Lækjarbarna fædd 2019. En markmiðið með þessu flæði er að börnin tengist innbyrgðis og að þau þrói góð tengsl við hvort annað. Þetta er frábær grunnur og aðlögun fyrir komandi flutninga á eldri gang.

Já það eru heldur betur spennandi tímar framundan og kem ég til með að halda ykkur vel upplýstum fram að stóru stundinni.

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi þetta, þá endilega hafið samband eða sendið á mig póst.

Nú eru margir farnir að æfa sig í að pissa/kúka í kopp/klósett og væri gott að fá upplýsingar um það svo við gætum reynt að æfa okkur líka í leikskólanum 😊

Takk fyrir vikuna og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

Vikan 28. febrúar – 3. mars 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Viðburðarík vika að baki. Margt í gangi aðra vikuna okkar í röð en ótrúlega skemmtileg. 

Á mánudaginn var bolludagur. Um morguninn fórum við til Kollu að hoppa og skoppa. Í hádeginu fengum við auðvitað fiskibollur og í kaffinu fengum við að smakka vatsndeigsbollur. Krakkarnir vildu flestir smakka en fannst þær misgóðar.

Á þriðjudaginn sprengidagurinn. Það var hópastarf um morguninn þar sem við höldum áfram með sama og og seinustu vikur og eru börnin að verða mjög klár og þekkja allt. Í hádeginu fengum við saltkjöt og baunir (TÚKALL). Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn var öskudagurinn. Rosalega gaman að sjá flottu búningana hjá krökkunum og hvað þau voru sæt. Um morguninn var öskudagsball inni á Læk. Þar dönsuðum við alveg rosalega mikið. Eftir það fórum við inn á Laut í bíó. Þar settumst við í kósý á dýnur á gólfið og fengum að horfa á Hvolpasveitina og fengum hvolpasveita rúsínur sem var þvílíkt sport. Þolinmæðin yfir bíó er mismikil svo það var opið flæði á Læk og Lind fyrir þá sem dugðu ekki lengi. 

Á fimmtudaginn fórum við aftur í hópastarf, börnin elska að fara í hópastarf sem er svo gaman því það sjást svo mikil framför á þeim viku frá viku.

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu um morguninn. Þar vorum við að leika okkur að fingramála sem var mjög spennandi og gaman. Fyrir hádegi tókum við svo vikulega gaman samanið með Laut og Læk þar sem við sungum og dönsuðum með þeim.

Málhljóð Lubba var Áá að þessu sinni. Þar lásum við um að álftirnar þurfi nú ekki áttavita til þess að rata á áætlaðan áfangastað og sungum um Ása sem hrópaði Á og þurfti plástur því hann meiddi sig.

Fjörug og skemmtileg vika liðin og við dansað og sungið nóg og gert ýmislegt skemmtilegt. Takk kærlega fyrir góða viku og hafið það sem allra best um helgina.

 

Kveðja, starfsfólkið á Lind :-)

 

 

Vikan 21. – 25. Febrúar 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Litrík og skemmtileg vika að baki. Það er búið að vera mikið af frjálsum leik hjá okkur enda er snjórinn að trufla vettvangsferðina okkar pínu og litavikan verið hópastarfið okkar þar sem við flokkum litina, finnum ákveðin lit af dóti o.s.fr. Einnig erum við búin að vera föndra okkar eigin fiskabúr með fiskum í stíl við litadagana. 

Á mánudaginn var gulur dagur. Við hoppuðum og skoppuðum eins og páskaungar hjá Kollu um morguninn. Við týndum svo til allskonar dót á deildinni sem var gult og lékum með í samverustund. Eftir kaffi vorum við inni að leika.

Á þriðjudaginn var rauður dagur hjá okkur. Frjáls leikur fyrir og eftir hádegi en gerðum eins og fyrri daginn, týndum til rautt dót til að hafa í samverustund. 

Miðvikudagurinn gekk fyrir sig eins og þriðjudagurinn en auðvitað með grænan lit þar sem það var grænn dagur þá. Við hefðum viljað fara út en hálka og mikill snjór kom í veg fyrir það en við létum það ekki stoppa okkur og tókum snjóinn bara inn til okkar. Settum snjóinn í glas og þóttumst vera með ís, það sló heldur betur í gegn.

Á fimmtudaginn var blár dagur. Hann var svipaður hinum dögunum en gerðum við þó smá tilbreytingu. Við fengum stjörnuljósvarpa inn í innra herbergið þar sem við bjuggum til litríkar stjörnur og norðurljós í margskonar litum. Það var rosalega skemmtilegt og þau voru alveg gáttuð. Þar æfðum við okkur í litum, töldum stjörnurnar og lærðum smá um geiminn. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á föstudaginn var regnbogadagur hjá okkur. Við vorum öll marglituð í smiðju hjá Nönnu um morguninn að loksins loksins klára bolluvöndinn, ekki seinna vænna. Guðný sellóleikari kom aftur til okkar í dag. Það er svo skemmtilegt að að vera með henni í tónlistarstund og brjóta upp vikuna. Fyrir mat var svo regnbogaball í stað gaman saman með Laut og Læk þar sem við hoppuðum, skoppuðum og dönsuðum endalaust með þeim sem var ótrúlega gaman.

Málhljóð Lubba í vikunni var Öö. Þar lásum við söguna um örn sem fór með ömmu og mömmu austur í Öræfasveit og sungu svo um Ögn og össur sem fannst sumir hlutir ömurlegir.

Í næstu viku verður aftur fjörug vika hjá okkur þar sem bolludagur, sprengidagur og öskudagur eru. Á öskudeginum mega börnin mæta í búning/furðufötum.

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 14. – 18. Janúar 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Skemmtileg vika að baki og alltaf fara allir glaðir inn í helgina. Það er búið að vera ótrúlega gott veður og algjör synd að það sé því miður bara of mikill snjór í garðinum okkar að það er búið að vera erfitt að fara út að leika. Ótrúlegt þegar maður segir of mikill snjór enda ekki oft sem það gerist. Því erum við búin að vera inni alltaf eftir kaffi og dunda okkur í skemmtilegum leik.

Á mánudaginn var mikið um veikindi starfsmanna svo því miður féll niður leikvangurinn hjá okkur. Í staðin höfðum við að bara rosalega gott inni á deild, púsluðum, lékum í dúkkukrók, segulkubba og fleira. 

Á þriðjudaginn tókum við smá hópastarf. Vorum að æfa okkur í að fylgja línum, flokka litina, og læra formin. 

Á miðvikudaginn var of mikill snjór og frekar kalt svo við fórum ekki í vettvangsferð. Í staðin eins og aðra daga vorum við inni á deild að leika. 2019 árgangur fékk hins vegar að kíkja yfir á eldri ganginn. Þar fengu þau að leika í dúkkukróknum og skoða sig um. Ekki seinna vænna en að byrja strax þar sem þau mun að öllum líkindum færast yfir í sumar. 

Á fimmtudaginn lékum við frjálst inni á deild. Við fórum líka fram að lita, við lituðum mömmu okkar því konudagurinn er framundan. Eftir hádegi vorum við smá að gefast upp á inniverinu og fórum út en þar sem garðurinn okkar er eiginlega ófær fyrir krílin okkar þá skelltum við okkur í stóra garðinn. Krakkarnir nutu sín rosalega vel þar og fannst æðislegt að leika í öllum þessum snjó. 

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu. Þar vorum við að leggja lokahönd á bolluvendina okkar og seta þá saman. Fyrir mat fórum við í gaman saman með Laut og Læk þar sem við sungum og dönsuðum með þeim. Við stefnum á að fara aftur út eftir kaffi en það er mikið frost eins og er en við vonum það besta.

Málhljóð Lubba þessa vikuna var Kk. Þar sungum við um kónguló sem var klár og kunni að spinna kraftaþráð. Við lásum svo söguna um kind og krumma sem keyptu sér kakó og kleinuhring á kaffihúsi í Kópavogi, kanínu og kýr sem fengu sér köku með kaldri mjólk á Kópaskeri og fleiri dýr og atburði þeirra.

Í næstu viku verður LITAVIKA hjá okkur. Hún virkar þannig að þá væri gaman ef börnin gætu komið í eða með td. í eitthvað td. (peysu, sokkar, hárskraut….) þeim litum sem við eiga:
      Mánudagur – gulur dagur
      Þriðjudagur – rauður dagur
      Miðvikudagur – grænn dagur
      Fimmtudagur – blár dagur
      Föstudagur – regnbogalitir

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

 

Vikan 7 -11 febrúar 2022

Heil og sæl kæru foreldrar.

Óvænt styttri vika liðin og hefur gengið mjög vel og búið að vera rosalega skemmtilegt hjá okkur.

Mánudagurinn var auðvitað öðruvísi hjá okkur þar sem opnaði ekki fyrr en kl. 13:00 en hann var mjög kósý hjá okkur enda fáir sem mættu. Það eru búin að vera mikil veikindi í þessari viku og hefur hún verið óvenju róleg hjá okkur. Það er búið að vera mjög kalt þessa vikuna svo við höfum ekki mikið farið út og þar af leiðandi engin  vettvangsferð var á miðvikudaginn vegna óveðurs. Við fórum þó 3x út sem var mjög hressandi þó við hefðum viljað komast meira út því það svo gaman.
Á Þriðjudaginn og fimmtudaginn var hópastarf, við fórum með fullt nafn og nafn foreldra sína – og klappaði í samstöfur. Farið var yfir Bínu bálreiðu reglurnar . Við erum að lesa sögur um Bínu sem er að læra hvernig maður á að vera í leikskólanum; sitja kyrr, hafa hendurnar hjá sér og ekki meiða o.fl. Einnig erum við að æfa okkur í fínhreyfingum, teikna eftir línum og klippa. Svo rifjum við upp formin, litina og líka sortera eftir litum.
Á föstudeginum í smiðjunni  vorum við að klára bolluvendina okkar síðan úr seinustu viku. Við hlökkum mikið til að nota þá á bolludaginn og flengja mömmu og pabba og stríða þeim aðeins.😉 Eftir kaffi  er planið að fara út  og hafa gaman úti garð.
Í Blæstundum ræddum við um það hvernig við gætum skipst á og deilt dótinu og æfa okkur í að rífa ekki af öðrum.
Málhljóð Lubba var Tt. Þar lásum við söguna um Torfhildi á Tröllaskaga og hún var trommuleikari í hljómsveitinni Tennurnar hans afa. Svo sungum við um Tuma slá á trommu.

Takk kærlega fyrir vikuna og góða helgi 😊

Kveðja,
Starfsfólkið á Lind.

Vikan 31. Janúar – 4. Febrúar 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika gekk mjög vel og var ekkert smá skemmtileg þar sem það var tannverndarvika. Krakkarnir stóðu sig mjög vel að bursta burtu allan skítinn úr tönnunum. Erum svo heppin að fá allskonar hluti sem tannlæknastofur eru tilbúnar að leyfa okkur að fá í láni fyrir tannverndarvikuna hjá okkur.

Ámánudaginn féll niður leikvangur hjá Kollu þar sem við vorum enn að glíma við nokkur Covid veikindi og byrjuðum við að kynna fyrir þeim tannverndarvikuna og fengu þau að tannbursta hundinn og svo vorum við með góma og tannbursta sem þau fengu að bursta. Þau voru mjög áhugasöm um þetta og greinilegt að þau séu dugleg að bursta heima þar sem þau vissu alveg hvað átti að gera sem er æðislegt. Við ræddum vel og lengi um hvað væri hollt að borða og hvað væri óhollt að borða og töluðum einnig um Karíus og Baktus. Eftir hádegi vorum við svo inni að leika okkur í vonda veðrinu.

Áþriðjudaginn vorum við með hópastarf og í hópastarfinu vorum við að læra litina með litlum böngsum sem eru í allskonar litum og einnig eru þeir í mismunandi stærðum og vorum líka að læra muninn á litlum og stórum böngsum, við voru að læra að telja og svo voru við einnig að læra heiti á allskonar heiti í kringum baðherbergið, eldhúsið og það sem er úti. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Ámiðvikudaginn fengum við svo æðislegt veður um morguninn, alveg logn, snjór og svo lét sólin sjá sig svo við skelltum okkur í vettvangsferð. Þessar litlu og sætu lappir löbbuðu með okkur kennurunum alla leiðina á Hvammsvöll þar sem þau fengu að leika sér og var það ótrúlega gaman. Þau voru mikið að róla. Renna og leika í litlu húsunum í allskonar ímyndunar leikjum. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Áfimmtudaginn vorum við með smá auka hópastarf þar sem við tókum bara tennurnar fyrir og héldum við áfram að bursta tennurnar í hundinum og og bursta skítinn í burtu úr tönnunum. Þeim finnst þetta svo ótrúlega skemmtilegt. Svo fórum við að leika með segulkubbana, perla og í boltaleik inní litla herbergi. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Í dag fórum við til Nönnu í listasmiðju og þar vorum við í bolluvandagerð það senn líður að bolludeginum. Á meðan voru hinir krakkarnir bara inni á deild að leika sér með kubbana, pinna og  dúkkurnar í dúkkukrók, gaman að sjá hvað þau eru búin að ná góðum tökum í að leika saman og búa til ímyndunarleiki í dúkkukróknum. Það er dagur leikskólans á sunnudaginn og þá var boðið öllum foreldrum að koma í kaffi og kleinur klukkan 15:00-16:00 til að halda uppá það með okkur. Það var gaman að sjá hvað margir foreldrar sáu sér fært á að mæta. Vonandi að við fáum að halda næsta foreldra kaffi inni á leikskólanum. 

Þessa vikuna vorum við að læra málhljóðið Pp sem var mjög skemmtilegt, mikið sungið um „popp“. Sagan fjallaði um hann Pálma sem var frá Patreksfirði og var að skapa pattaralega páfugla og passlega stór pálmatré úr pönnukökum.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 24. - 28 janúar 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Við á yngri gangi byrjuðum þessa vikuna á því að vera í sóttkví fram á þriðjudag og var ofsalega gaman að sjá börnin svo aftur á miðvikudag. Núna höldum við bara í vonina um að þessu ástandi fari að linna og við fáum að hafa eðlilegt starf hér á leikskólanum. 

Við byrjuðum vikuna á miðvikudaginn og vorum þá bara með hálfa deild. Krakkarnir gerðu listaverk með Carmen fyrir dag leikskólans, þá málaði Carmen höndina þeirra með lit af málningu sem þau völdu og þau stimpluðu svo á lítið sætt fiðrildi. Við höfðum það bara notalegt og vorum með frjálsan leik þar sem þau fengu að leika með segulkubba, dúkkukrók og svo voru þau að perla. Eftir hádegi fóru svo allir út í smá ferskt loft. 

Á fimmtudaginn náðum við næstum heilli deild og var ofsalega gaman að sjá svona marga aftur. Um morguninn skiptum við þeim upp í 2 hópa annar var inn í herbergi með bíla og bílabrautina og hinn hópurinn var frammi að perla og pinna. Þau  börn sem mættu ekki á miðvikudeginum fengu svo að gera sitt listaverk líka og á meðan vorum við að skipta hópum í holukubbum. Við eigum nú ansi marga listamenn inn á deild hjá okkur. Þau eru svo áhugasöm og elska að mála og teikna. Eftir kaffi skelltum við okkur svo út að leika.

Í dag vorum við með frjálsan leik um morguninn þar sem þau voru að púsla, leika með bílabrautina og lesa bækurnar og þar sem það er ennþá frekar fámennt á Lautinni að þá bauð Lautin 4 krökkum að koma og leika þar sem var ótrúlega gaman. Eftir kaffi skelltum við okkur svo út að leika.

Málhljóð Lubba í þessari viku var- Oo-  Þar lásum við sögu um Oddur í Borganesi og svo sungum við um Oddur segir: „oho ho“ og Olga svarar: „So,so,so“. Í næstu vika kemur Lubbi okkar með málhljóðið  - Pp -.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja starfsfólkið á Lind. 

 

 

Vikan 17. – 21. Janúar 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar. Þessi vika búin að vera skemmtileg, fljót að líða og æðislegt hvað við erum búin að fá gott veður svo við getum verið mikið úti.

 

Við byrjuðum vikuna bara á því að vera í frjálsum leik og útiveru. 

Þiðjudagsmorguninn var skemmtilegur hjá okkur. Við tókum bæði hópastarf og fengum að mála víkingahjálma í tilefni bóndadagsins á föstudaginn og hlökkum við mikið til að fara heim með hann.
         miðvikudagurinn var þó eiginlega skemmtilegastur en þá fórum við í fyrsta skiptið síðan við skipuðum heila deild í vettvangsferð öll saman. Við löbbuðum hringin í kringum Salalaugina en það er góð byrjun bara fyrir litlar fætur. Við lékum svo smá í garðinum eftir að við komum til baka en þurftum fljótlega að fara inn enda margir orðnir þreyttir. Það sofnuðu allir mjög fljótlega og sváfu vel eftir langann göngutúr. Við fórum svo líka út eftir hádegi.
         Á fimmtudaginn tókum við smá hópastarf aftur. Við erum að læra það sem heitir undirstöðuþættir fyrir boðskipti. Við erum að lesa um hana Bínu. Hún er að læra og kennir okkur í leiðinni að t.d. sitja fallega, passa hendurnar sínar, að bíða, skiptast á og margt fleira. Svo var auðvitað tekin útivist eftir kaffi.
         Föstudagurinn var líka mjög skemmtilegur. Bóndadagur og margir nýjir hlutir gerðir í leikskólanum. Krakkarnir mættu í fallegum lopapeysum og ullarsokkum og fóru í gaman saman með Laut og Læk og sungum þorralög. Í hádeginu smökkuðum við ekta íslenskan þorramat. Brögðuðum á hákarli, sviðasultu, harðfiski og fl. Börnunum fannst það misgott en það er alltaf gott að smakka eitthvað nýtt. Svo fórum við bara út að leika eftir hádegi eins og alla þessa viku.

 

Málhljóð Lubba í þessari viku var Ii-Yy. Þar lásum við sögu um Yrsu og Indriða sem voru í heimsókn á Innri-Hólmi en þar barst indæll kaffiilmur innan úr eldhúsinu og fengu bita á súkkulaðiköku. Svo sungum við um Indriða sem hnýtir illa bindið sitt og Imbu fannst það fyndið og hló „hihihi“.Í næstu vika kemur Lubbi okkar með málhljóðið  - Oo -.

 

Takk kærlega fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja, 

Starfsfólkið á  Lind.

 

Vikan 10. – 14. Janúar 2022

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þá er skipulagt starf komið í gang eftir gott jólafrí og allir sælir að vera kominn í gömlu góðu rútínuna að nýju. Þessi vika hefur liðið hratt enda hefur verið í nægu að snúast í leik og námi barnanna ykkar og aðlögun nýja barnið okkar. Það er þó búið að vera mjög kalt svo útivera ekki verið mikil þessa vikuna en við kunnum einnig að njóta og hafa gaman inni og erum búin að finna okkur fullt að gera.

 

 Á þriðjudaginn byrjaði hjá okkur nýr strákur fæddur í nóvember 2020. Krakkarnir okkar voru inni á deild að kynnast nýja vininum okkar. Það gekk mjög vel og hann strax byrjaður að leika með allt dótið okkar og fylgjast með hinum krökkunum. Til að hafa ekki of mikið áreiti strax fóru 2019 krakkarnir okkar í smiðjuna og voru að mála bauka enda um að gera að byrja safna snemma fyrir framtíðinni 😉

 Á fimmtudeginum tókum við smá hópastarf. Þar vorum við að flokka bangsa eftir litum og stærðum og æfðum okkur einnig í fínhreyfingum að þræða.

 

Lubbastundir: Málhljóð Lubba var Ss þessa vikuna. Við lásum um systkinin Sunnu og Snorra sem heimsóttu Sólmund á Stykkishólm öll sumur. Þeim finnst gaman að fara í sund á sólríkum degi og fá sér svo súkkulaðiís. Við reyndum svo að finna skemmtileg orð sem byrjuðu á s. Og í næstu viku  Lubbi okkar kemur með málhljóðið -Ii/Yy –

Blæstund: Við áttum góða Blæ stund í vikunni og voru rædd og rifjuð upp þau gildi sem Blæ vináttuverkefnið stendur fyrir. Minntum á að passa vel upp á hvert annað og vera góður félagi allra

Skemmtileg vika liðin, öll að koma okkur inn í rútínuna fyrir skipulagt starf aftur og hlökkum við til næstu vikna.

Takk fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja,
       starfsfólkið á Lind 
😊

 

Vikan 4. – 7. janúar 2022

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

 

Fyrsta vikan eftir jólafrí liðin og ótrúlega gott að sjá börnin ykkar aftur og knúsa þau. Það verður að viðurkennast að þrátt fyrir að það hafi verið gott að taka smá frí þá saknaði maður þeirra alveg pínu. Við tökum vel eftir hvað þau hafa stækkað í fríinu, litlu krílin okkar ekki lengur svo lítil

Vikan hefur verið frekar róleg. Við erum búin að vera bara í kósý leik inná deild og koma okkur inn í rútínu aftur. Börnin hafa átt auðvelt með að aðlagast aftur leikskólalífinu þrátt fyrir langt frí hjá sumum sem er frábært. Þau eru enþá smá föst í að vilja syngja jólalög en við höfum leyft það þar sem það voru nú enþá jól en á fimmtudaginn kvöddum við þau og sungum seinustu jólalögin okkar.

 

Í næstu viku mun skipulagða starfið okkar hefjast aftur. Það er þó óvíst að leikvangur og smiðja byrji alveg strax vegna covid en við vonum bara að aðstæður í landinu breytist fljótt og við getum hafið það starf sem fyrst. Við munum þó byrja í Lubba, Blæ, hópastarfi og vettvangsferðum aftur þegar veður leyfir og efumst við ekki um að börnin séu spennt fyrir því. 2020 börnin okkar munu nú einnig fara byrja að fara í stuttar vettvangsferðir og hlökkum við til að kynna þeim fyrir því. 

Í næstu viku hjá okkur mun byrja nýr lítill strákur á deildinni okkar. Við hlökkum mikið til að taka á móti honum vera góð við hann.

 

Við viljum taka fram að við göngum frá morgunmatnum klukkan 08:45 svo ef þið viljið að barnið ykkar fái hafragraut þarf að mæta með það fyrir þann tíma.
         Við viljum líka minna á að skipulagt starf hjá okkur byrjar klukkan 09:00 á morgnana svo gott væri ef börnin væru mætt í kringum þann tíma til að geta tekið þátt. 

Það seinasta sem við svo viljum minna á er sumarleyfiskönnunin sem hefur verið send á alla. Hún verður opin til 12. janúar.

 

Takk fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind J

 

Vikan 6. - 10. Desember 2021

 

Heil og sæl kæru foreldrar:)

 

Þessi vika er búin að líða hratt, við gerum ekki annað en að syngja jólalög og leika okkur með allskonar dót. Einungis 2 vikur til jóla og getum við ekki beðið. Erum búin að vera fara yfir jólasveinana og skoða myndir sem tengjast jólunum.

Á mánudeginum voru við hjá Kollu um morguninn að fíflast. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn ákváðum við að fara í stutta vettvangsferð þrátt fyrir mikinn kulda. Okkur datt í hug að taka Blæ vin okkar með. Honum fannst mjög gaman að fá að koma með okkur. Við löbbuðum að salalaug, leyfðum honum að renna sér með okkur niður brekkuna og knúsuðum hann mikið svo honum yrði ekki kalt. Við munum pottþétt taka hann með okkur oftar. 2020 börnin voru í hópastarfi á meðan og héldum við áfram að vinna með það sama og seinustu vikur. Eftir hádegi fórum við út að leika þrátt fyrir skítakuldann en það var mjög frískandi.

Á miðvikudaginn fór 2019 hópurinn í hópastarf að vinna með svipað og hópurinn daginn áður. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn vorum við í frjálsum leik um morguninn og úti eftir kaffi.

Á föstudeginum vorum við hjá Nönnu um morguninn. þar vorum í  Jólaundirbúningur og notalegheit. Það var gaman að sjá hvað margir mættu í skemmtilegum og krúttlegum jólapeysum. Fyrir hádegismat vorum við með gaman saman með Laut og Læk. Við kveiktum á þriðja kertinu (Hirðakerti) og sungum jólalög og dönsuðum. Eftir hádegi ætlum við út að leika.

 

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

Vikan 29. – 3. Desember 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Enn ein vikan liðin hjá okkur. Desembermánuður loksins komin og erum við komin í þvílíkt jólastuð. Vikan hefur verið smá öðruvísi en vanalega.
Á mánudaginn var enginn leikvangur en við vorum inni að leika okkur í frjálsum leik bæði fyrir og eftir hádegi. Fínt að taka einn kósý og rólegan mánudag.
Þriðjudagurinn var útidagurinn okkar en við fórum öll út bæði fyrir og eftir hádegi að nýta fallega veðrið. 2019 hópurinn fór út fyrir lóðina og bjuggu til snjókarl á Versalavelli meðan 2020 börnin léku í garðinum og gerðu einnig snjókarl.
Miðvikudaginn tóku við svo í hópastarf þar sem við erum að rifja upp það sem við gerum vanalega en vegna kulda fórum við ekki út eftir kaffi heldur skemmtum okkur inni í leikvang í staðin.
Á fimmtudaginn vorum við í frjálsum leik um morguninn og úti eftir kaffi.
Föstudagarnir voru venjulegir hjá okkur, fórum til Nönnu fyrir hádegi og svo út að leika eftir kaffi. Hjá Nönnu vorum við að mála lítið jólatré sem var mjög gaman. Við fórum svo í gaman saman með Laut og Læk og sungum og kveiktum núna á öðru kertinu (Betlehemskertinu).

Lubbi var mjög stuttur þessa vikuna en málhljóði hans var Gg. Við lásum og sungum um Gaggandi hana sem borðaði grjónagraut.

Lubbi og Blær ætla að hvíla sig smá og taka sér jólafrí í desember en mæta svo hressir aftur á nýju ári.

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

22. – 26. Nóvember 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika búin að vera kósý hjá okkur. Við erum byrjuð á að koma okkur í jólagírinn. Syngjum stanslaust jólalög, búin að baka piparkökur, skreyta jólapoka, mála jólasveina og kannski pínu leyndó fyrir mömmu og pabba 😉.

Mánudagurinn var eins og vanalega, fórum öll til Kollu að hamast í smá stund. Eldri hópurinn labbaði á Hvammsvöll á þriðjudeginum og skemmtu sér mjög vel. Hjá Nönnu vorum við að klára allskonar gömul verkefni sem mögulega einhver hefur misst af.

Málhljóð Lubba í vikunni var Ll. Gaman að fá loksins að syngja um hann Lubba sem var að lita. Svo lásum við um Lubba og leynistaði hans.

Það er kannski ekki frásögufærandi en Blær heldur áfram að kenna okkur um vináttu og hversu mikilvægt það er að vera góð við hvort annað og hjálpast að.

Við hlökkum til að sjá ykkur öll í piparkökukaffinu á eftir og njóta saman 😊

Takk kærlega fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

 

 

Vikan 15. – 19. Nóvember 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Styttri vika hjá okkur en viðburðarrík og skemmtileg. Styttist í jólin og erum við byrjuð að undirbúa þau.

Á mánudaginn var hefðbundinn dagur hjá okkur, byrjuðum á að ærslast hjá Kollu og fórum svo út eftir hádegi.

Á þriðjudaginn var afmæli leikskólans. Ótrúlega skemmtilegur dagur. Krakkarnir mættu í búning og voru öll svo sæt og fín. Dagurinn byrjaði á kósýheitum inn á deild þar sem þau fengu Cheerios í stað hafragraut. Við fórum svo öll inn í matsal og hittum restina af leikskólanum, sungum afmælissönginn og horfðum á Wally frá Sirkús Íslands. Eftir það var opið flæði á yngri ganginum þar sem Laut, Lækur og Lind fengu að leika sér á hvaða deild sem þau vildu. Í hádeginu fengum við svo pizzu og fórum alsæl inn í hvíldina. Í kaffinu fengum við svo köku sem vakti mikla lukku. Við héldum okkur hinsvegar inni eftir kaffi því það var frekar kalt en það var bara kósý hjá okkur.

Á miðvikudaginn var líka kósý hjá okkur um morguninn. Í dag var dagurinn sem mátti loksins byrja að spila jólalög. (Selmu og Rakel til MIKILLAR gleði) Við erum byrjuð á að æfa okkur í jólalögunum fyrir aðventu samverurnar sem eru framundan hjá okkur. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn var skipulagsdagur. Kennararnir fóru á námskeið um Blæ fyrir hádegi. Eftir hádegi fengum við fyrirlestur um hvað líkamstjáning og svipbrigði skipta miklu máli í bæði samskiptum við foreldra, börnin og í lífinu almennt. Sturluð staðreynd en fólk trúir einungis 7% af orðunum sem koma úr okkur, allt hitt er hvernig við segjum það og hvernig við berum okkur á meðan.

Á föstudeginum fórum við í smiðju til Nönnu. Vegna mikilla veikinda síðastliðnar tvær vikur þá erum við enn þá að vinna í því sama, gera jólatré og jólagjafir. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Blær og Lubbi eru enn þá á sama stað. Málhljóð Lubba var Uu þessa vikuna. Við sungum um að ulla á hvort annað. Svo lásum við söguna um Unu sem brunar á Gullfoss, uppgötvar suðandi flugur, og unir sér vel að safna undirfallegum jurtum.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

k fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lin

Vikan 8. – 12. Nóvember 2021

Heil og sæl kæru foreldrar. Önnur vika liðin hjá okkur og styttist bara í að árið fari að líða þar sem allar vikur hjá okkur líða svona hratt. Mjög skemmtileg vika og gaman að sjá framfarir á börnunum í hverri viku.

Á mánudaginn vorum við að hoppa og skoppa í leikvang hjá Kollu. Við vorum með afmælisprinsessu sem bauð okkur uppá jarðaber, bláber og saltstangir og við sungum hátt og snjallt fyrir hana. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn urðu smá breytingar á skipulagi á leikskólanum svo við náðum ekki að fara í vettvangsferð. Við vorum í staðin inni í skemmtilegum leik og 2020 börnin fóru í hópastarf. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudeginum svissuðum við þriðjudeginum þar sem 2019 börnin fóru í hópastarf og 2020 börnin léku sér inni á deild. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudeginum fórum við út um morguninn. Það var svolítið kalt en mjög hressandi að fá ferskt loft. Eftir hádegi fórum við svo aftur út aftur að leika.

Á föstudaginn vorum við hjá Nönnu um morguninn og heldum áfram með verkefni frá síðasta viku( jólafödur). Fyrir mat fórum við svo í Gaman Saman með Laut og Læk. Á mánudaginn var eineltisdagurinn svo við ákváðum að hafa Blæ með í gaman saman og syngja vinalög og dansa saman. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Málhljóð Lubba þessa viku var Ee. Þar sungum við um Eddu að hugsa (e,e,e) og lásum söguna þar sem Eva sá Esjuna frá Efstasundi. Hún er eldhress stelpa og á eldri bróðir sem heitir Ellert.

Blæ spjald vikunnar snérist um að hjálpa vini sínum þegar maður sér að hann er í vandræðum.

 

Takk kærlega fyrir góða viku og hafið það gott um helgina.

Kveðja,
          starfsfólkið á Lind 
😊

 

Vikan 1. – 5. Nóvember 2021

Þessi vika er búin að líða hratt og ótrúlega skemmtilegt hjá okkur. Það er mjög gaman að sjá hvað krakkarnir verða duglegri með hverri vikunni sem líður og eru þau t.d. farin að hlusta á heila bók í hópastarfi.

Á mánudaginn kemur kannski engum að óvart en fyrir hádegi vorum börnin hjá Kollu í leikvang að losa út smá orku. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn var fallegt veður en svo rosalega kalt að við ákváðum að fara ekki í vettvangsferð. 2019 börnin léku sér inni í skemmtilegum leik á meðan 2020 börnin fóru í hópastarf. Þar voru þau að lesa bókina Tumi bregður á leik, telja, læra litina og para saman form og liti. Eftir kaffi var en þá frekar kalt svo við vorum inni áfram og höfðum það kósý með tónlist, lékum með bolta, púsl og fl.

Á miðvikudaginn svissaðist svo þriðjudagurinn og voru 2020 börnin að leika meðan 2019 börnin fóru í hópastarf. Þau voru að gera það sama en einnig að nota numicon. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn vorum við mikið úti, bæði fyrir og eftir hádegi. Smá rigning en það stoppaði okkur ekki. Við áttum afmælisstrák hjá okkur sem bauð vinum sínum í ávaxtaveislu og við sungum fyrir hann. Það eru alltaf allir jafn spenntir fyrir afmæli enda er það frábrugðið öðrum dögum.

Á föstudaginn fórum við til Nönnu. Hún er aðeins að taka forskot á sæluna en við erum að mála lítið jólatré hjá henni sem við munum kannski reyna að sauma svo seinna meir. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Málhljóð Lubba var að þessu sinni Hh. Þar sungum við um hestana og lásum sögu um Hafliða haförn sem bjó á Hornströndum sem horfir hugfanginn á hafið, hefur flogið til Hornafjarðar, Hofsós og stefnir á Hafnarfjörð.

Blær er enn alltaf að kenna okkur að vera góð við hvort annað og við syngjum mikið af lögum um vináttu og hvernig „öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“ en við syngjum einmitt um fíla, endur, kýr og fl. sem leika sér saman.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja,
starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 25-29. Október

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika gekk mjög vel enda frábær börn sem við erum með. Það hefur verið ansi fámennt hjá okkur vegna veikinda og frís og hlökkum við til að sjá alla hressa og káta aftur eftir helgi í leikskólanum.

Á mánudaginn fóru börnin til Kollu að leysa út smá af þessari orku sem þau hafa, þau hafa endalausa orku. Þeim finnst alls ekki leiðinlegt hjá Kollu og elska að fá að hlaupa um og hoppa. Á meðan voru hinir krakkarnir inná deild að leika með pinnana, teikna og í kubbunum. Eftir kaffi skelltum við okkur svo út að leika.

Á þriðjudaginn fóru 2019 börnin í vettvangsferð og hún var frekar fámenn en ótrúlega skemmtileg þar sem þau löbbuðu í Salaskóla og höfðu allt úti svæðið fyrir sig því það var vetrafrí í skólanum. Þau löbbuðu svo í sundlaugina og kíktu hvort að það var einhver að leika sér í innilauginni, sem var og það var ótrúlega gaman. Svo týndu  þau nokkur falleg laufblöð og við spáðum aðeins í litunum á þeim og hvernig þau væru öll öðruvísi. Á meðan voru 2020 börnin inni hjá Carmen í hópstarfi. Þar voru þau að lesa bókina „Tumi leikur við kisu“ sem er skemmtileg bók. Einnig voru þau að læra formin og þar voru þau að læra að setja ferning ofaná ferning o.s.fv. Þau fengu svo að pinna þar sem þau voru að pinna bara með einn lit því við erum alltaf að æfa okkur í litunum og ekki má gleyma dýrunum heldur.  Við fórum ekki út eftir kaffi þar sem það var spáð frekar leiðinda veðri svo við vorum bara inni að leika okkur. 

Á miðvikudaginn voru svo 2019 börnin í hópastarfi og gerðu þau það sama, skoðuðu bókina vel og æfðu sig í formunum, pinna og skoða svo dýrin. Við heldun 5 ára afmælis Blær saman með Laut og lækjarbörnin með dans og gleði.  Við skelltu okkur svo út eftir kaffi. 

Á fimmtudaginn var aðeins kaldur morgun en við þó skellum okkur út um morguninn og klæddum okkur bara aðeins betur því við elskum að leika okkur úti og náum að leysa aðeins úr þessari orku sem við geymum. Það var svo æðislegt veður þennan dag og fórum við aftur beint út eftir kaffi.

Í dag fórum við til Nönnu og fengu börnin að sulla. Þau voru að sulla með vatn í keri og strá hveiti yfir. Þetta fannst þeim nú ekki leiðinlegt. Skelltum okkur svo út efir kaffið. 

Lubbi var að kenna okkur máhljóðið Jj í þessari viku þar sem hún Jódís er að læra um jökla og að Vatnajökull sé stærsti jökullinn á Íslandi. 

Blæ spjald vikunnar fjallar um „umhyggju“ og að við skulum öll leiðast og ekki skilja neinn útundan. Á myndinni sést að það er ein stelpa sem fær ekki að leiða og hún er leið, við sýnum krökkunum og spyrjum útí myndina en þau eru ennþá það lítil að skilningurinn er ekki mikill en það eru einhverjir sem skilja aðeins. 

Í næstu viku munum við byrja með Lubbaátak þar sem börnin fá 2 bein sem þau taka með sér heim í dag. Þið lesið heima með börnunum og skrifið svo nafn bókarinnar og hversu margar blaðsíður þið lásuð á beinin og komið svo með í leikskólann þar sem við hengjum beinin upp. Hér má sjá fleiri upplýsingar um þetta í viðhenginu.

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 18. - 22. október

Heil og sæl kæru foreldrar.
           Enn ein vikan liðin hjá okkur og alltaf jafn skemmtilegt hjá okkur. Veðrið búið að vera æðislegt og við mikið úti að leika.

Á mánudaginn fórum við aldrei þessu vant til Kollu að leysa út orkuna eftir helgina. Mjög gaman og hún alltaf búin að seta fyrir okkur nýjar og skemmtilegar þrautabrautir svo enginn tími er eins. Við áttum afmælisprins og hélt hann uppá 2 ára afmælið sitt með okkur þar sem við sungum fyrir hann og hann bauð okkur uppá bláber og saltstangir. Eftir kaffi fórum við svo út að leika í áður nefnt æðislegt veður.

Á þriðjudaginn voru 2020 börnin inni í hópastarfi meðan 2019 krakkarnir fóru í vettvangsferð. Í hópastarfinu gerðum við ýmislegt. Við fórum yfir litina og formin og vorum að æfa okkur í að para það saman. Við æfðum fínhreyfingar með  að þræða perlur á band eining vorum við í málörvun, með að fara yfir nafn fötin okkar og einnig æfðum okkur í dýrunum og hvað þau segja. Við enduðum svo á að lesa bókina um Emmu og hvað henni finnst gaman í leikskólanum. 2019 börnin löbbuðu alla leið á íþróttavöllinn fyrir aftan Lindakirkju. Þetta var í fyrsta skiptið sem við löbbuðum svona langt. Þetta var smá spotti fyrir þau en þau voru alveg rosalega dugleg og léku sér mikið enda alltaf gaman að koma á nýjan leikvöll. Þau sofnuðu þó strax í hvíldinni enda frekar lúin. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn fóru 2019 börnin í hópastarf. Þau voru að vinna með það sama og krakkarnir daginn áður. Hin börnin léku sér inn á deild á meðan. Eftir kaffi fórum við svo út.

Á fimmtudaginn var mikill útiverudagur en við fórum út bæði fyrir og eftir hádegi. Gott veður og alltaf gaman úti.

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu um morguninn. Þar voru þau að puttamála sem var ótrúlega skemmtilegtFyrir hádegi gerðum við svo fallegt haustverkefni með Carmen þar sem við máluðum á blað með haustlegum litum og límdum svo laufblöð á. Fyrir hádegismat fórum við í Gaman Saman með Laut og Læk þar sem við sungum nokkur lög. Við erum nokkuð góð í að sitja kyrr enda örugglega feimnari að vera í samverustund með öðrum krökkum. Eftir kaffi skelltum við okkur svo út að leika.

Málhljóð Lubba þessa vikuna var Vv. Við lásum við um Vigdísi sem býr á Vopnafirði þar sem er flottur viti. Verstu veðrin á Vopnafirði eru á veturna og er því vorið kærkomið og heldur hún upp á það að bjóða vinum í vöfflur og vínabrauðsveislu. Við sungum svo um vindinn að vestan og vælandi vofur.

Blær spjald vikunnar er það sama og í seinustu viku. Börnunum finnst alltaf gaman af Blæ og elska að knúsa bangsann sinn.

Í næstu viku, miðvikudaginn 27. október er svo afmæli Blæs og einnig alþjóðlegi bangsadagurinn. Við ætlum að halda upp á það með kósý degi þar sem börnin mega mæta í náttfötum og koma með sinn eigin bangsa til að kynna fyrir Blæ.

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

  

Vikan 11. – 15. Október 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Góð, skemmtileg og hressandi vika að baki en börnin eru búin að hafa aldeilis auka orku þessa viku. Hún er búin að vera fjölbreytt og við loksins náð að gera allt skipulagt starf sem er á dagatalinu.

Á mánudaginn fórum við í leikvanginn til Kollu sem og alla aðra mánudaga og var alveg nauðsynleg þennan mánudag en það þurfti heldur betur að losa mikla orku þann dag. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn fór 2019 hópurinn í vettvangsferð. Hvammsvöllur varð fyrir valinu og voru þau mjög dugleg að labba þangað og alltaf gaman að leika þar. Á meðan voru 2020 börnin inni í hópastarfi. Við vorum að fara yfir orðaforða, dýrin og einföldustu orðin, lita og svo reyndum við að þræða sem gekk ágætlega. Eftir kaffi var svo mikil rigning að við héldum okkur inni að leika, en það er líka alltaf gaman. 

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika um morguninn og fór 2019 hópurinn í hópastarf. Þau voru að læra litina, prufuðu Numicon í fyrsta skiptið og lásu svo bókina um Mími og matartímann þar sem farið var yfir hvernig á að haga sér í matartímanum. Eftir kaffi fórum við svo út að leika í alvöru fallegu haustveðri.

Á fimmtudaginn fórum við út að leika bæði fyrir og eftir hádegi. Veðrið var alveg að leika við okkur, ótrúlega stillt og fallegt, sól en smá kalt sem er svo frískandi.

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu um morguninn. Hún var að hjálpa okkur í að læra þræða og búa til listaverk úr því. Fyrir hádegi fórum við í Gaman Saman. Það er söngstund (samverustund) á ganginum með Laut og Læk. Við erum að byrja á að æfa okkur að sitja kyrr öll saman og syngja en við þurfum að vera búin að ná því fyrir aðventu samverustundirnar sem verða í desember þar sem allar deildirnar syngja saman og kveikja á aðventukertunum og syngja jólalög. Eftir kaffi verðum við bara að sjá hvort við förum út eða ekki, en hvort sem við munum gera erum við viss um að það verður bæði skemmtilegt.

Málhljóð Lubba þessa vikuna var Úú. Þar sungum við um Úllu sem hrópa úúú og ugluna sem segir ú ú ú. Við lásum söguna um hana Úlfhildi sem ætlaði í útilegu á Úlfljótsvatni en það var úrhellisrigning svo hún þurfti að fresta því en hún óskaði sér þá að vera í útlöndum. Börnin orðin betri með hverri vikunni að hlusta á söguna sem fylgir málhljóðinu.

Blær bangsi kom til okkar líka í vikunni. Börnin steinhissa en ótrúlega spennt. Það má sjá allt um það á Facebook síðunni okkar. Blær er orðinn hluti af skipulagða starfinu okkar núna og mun verða næstu árin enda er nauðsynlegt að kenna börnum snemma að vera góð við hvort annað og tjá tilfinningarnar sínar. 

Enn eiga 3 börn eftir að skila inn fjölskylduverkefninu sem við byrjuðum á í ágúst. Það væri mjög gaman að fá frá þeim en börnunum finnst þetta svo gaman og það fylgir svo mikil málörvun með.

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 4-8. Október 2021.

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika ekki lengi að líða enda búið að vera gaman hjá okkur sem tileinkuð var heilsu og hreyfingu.

Á mánudaginn fórum við til Kollu þar sem við leystum út mikla orku eins og alltaf en það er mjög gott fyrir bæði börn og kennara að byrja vikuna á því. Eftir hádegi fórum við svo út að leika í frábæru veðri.

Á þriðjudeginum skelltum við okkur út að leika bæði fyrir og eftir hádegi en sólin lék heldur betur við okkur þann dag en því miður var engin vettvamgsferð.

Á miðvikudeginum höfðum við það kósý inni um morguninn og tókum einnig  hópastarf. Þar vorum við að æfa okkur að klippa, telja, læra litina,formin og enduðu að lita eina mynd. Eftir hádegi kíktum við svo út í smá stund.

Á fimmtudeginum var bara kósý dagur hjá okkur dýrir og eftir hádegi þar sem við lékum inni með bílana, boltana og hlustuðum á tónlist en veðrið var ekki alveg eins og við hefðum viljað. Vegna heilsuvikunnar sóttum við líka dýnur úr leiksalnum og vorum að æfa okkur í að gera kollhnísa og hoppuðum og skoppuðum með tónlistinni.

 Á föstudagsmorgun var mikið um að vera. Við vorum bæði með íþróttadag vegna heilsuvikunnar og smiðju hjá Nönnu. Hjá Nönnu vorum við að gera myndir út spagettí sem Nanna var búin að sjóða og lita. Á meðan var í gangi fullt af þrautabrautum, trampólín og margt fleira á yngri gangi í opnu flæði með Laut og Læk. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Í Lubba vorum við að læra málhljóðið Íí-Ýý sem var mjög gaman og líka gaman að sjá hvað krakkarnir eru farnir að læra málhljóðin og gera hreyfingar meðan.

Takk kærlega fyrir góða heilsuvíku með leik og gleði markvissri hreyfingu bæði inni og úti, íþróttastundar, ávaxtapartýi og notalegheitum.

Eigið yndislega helgi.

Kveðja,
starfsfólkið á Lind 😊

 

 

Vikan 27. September – 1. Október 2021. 

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Heil og sæl kæru foreldrar. Þessi vika gekk ótrúlega vel og gott að fá loksins öll börnin til okkar eftir öll þessi veikindi. Núna er gott að fara að huga að því að koma með hlýrri föt þar sem það er farið kólna vel hérna hjá okkur.

Í næstu viku er heilsuvika hjá okkur og ætlum við á Lind að vera með ávaxtadag miðvikudaginn 6. Október. Þá mega börnin koma með einn ávöxt/grænmeti með sér og við verðum svo með ávaxtapartý fyrir kaffi. Dæmi um það sem er vinsælt að taka með er, banani, epli, pera , vínber, jarðaber, bláber, gúrka, kirsuberjatómatar osfv. Íþróttadagur á yngri gangi verður svo föstudaginn 8.október.

Á mánudaginn fóru krakkarnir til Kollu og okkur finnst nú ekki leiðinlegt að fá að leysa smá af þessari orku út hjá henni í hlaupum og hoppum og allskonar æfingum. Við fórum svo út eftir kaffið og enduðum daginn úti. 

Á þriðjudaginn var aðeins kaldur morgun en við létum það nú ekki stoppa okkur og skelltum við okkur bara í hlýrri föt og beint út að leika. 2019 börnin fóru í vettvangsferð og löbbuðu þau að Salaskóla og heilsuðu upp á stóru krakkana þar og löbbuðu svo bakvið sundlaugina og kíktu inn um stóra gluggann og sáu þar líka stóru krakkana æfa sig að synda. Við gerðum svo fullt af skemmtilegum æfingum á leiðinni í leikskólann þar sem það var orðið aðeins kaldara og þá vorum við að æfa okkur í sundur saman með fætur, upp og niður með hendur, hlaup og hopp. 2020 krakkarnir voru eftir í leikskólanum og léku sér vel í garðinum með bílana, í rólunum og að moka. Eftir þessa útiveru voru þau öll mjög fljót að sofna og sváfu vel og lengi. Það var spáð lélegu veðri seinni partinn svo við héldum okkur inni eftir kaffitímann að leira, pinna og kubba.

Á miðvikudaginn fórum við í hópastarf um morguninn. Við erum mikið að vinna með það sama núna á meðan þau eru svona lítil og þolinmæðin ekki rosalega mikil, skoða bækurnar og segja hvað er á myndunum, púsla, telja og svo pinna til að æfa okkur í fínhreyfingunum. 

Á fimmtudaginn vorum við inni um morguninn að mála listaverk með Carmen sem var mjög skemmtilegt, við hengdum þau svo upp frammi á glugganum svo að foreldrar geta skoðað fallegu listaverkin þeirra. Við vorum svo að leika okkur eiginlega með allt dótið...úps. við skelltum okkur svo út eftir kaffitímann til að fá smá útiveru í daginn.

Í dag föstudag fórum við til Nönnu og við vorum að mála á trönurnar sem okkur finnst svooo skemmtilegt, að fá að standa á gólfinu og mála svo enduðum að syngja. Við enduðum svo daginn á góðri útiveru.

Í Lubba vorum við að læra málhljóðið Dd og reyndum fyrir okkur að lesa söguna um hana Diljá sem dreymdi að hún væri komin á fiskidaginn mikla á Dalvík. Við höldum áfram að reyna að lesa þótt þolinmæðin sé ekki mikil fyrir lestrinum heldur bara lögunum. 

Minn á að mikilvægt er að láta barnið kveðja starfsmann í lok dags, ef kennari á deild barnsins er ekki til staðar, þá þarf að láta annan kennara vita.

Vala.is - tilkynna þarf frí eða veikindi barns fyrir kl.9:00. Eins ef

Ef um veikindi eru að ræða þá þætti okkur vænt um að þið látið fylgja með hvaðhrjáir barnið ykkar vegna skráningar í heilsubók.
             

Skipulagt starf skólans hefst kl.9:00 alla daga og því mikilvægt að barnið sé komið fyrir þann tíma. 

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja,

Starfsfólkið á Lind. 😊

  

Vikan 20. – 24. september 2021.

Heil og sæl kæru foreldrar. Þessi stutta vika fljót að líða og búið að vera gaman hjá okkur. Það er búið að vera mikið um veikindi í þessari viku svo hún hefur verið mjög róleg en gott að börnin fái að jafna sig vel og losna almennilega við sín veikindi áður en þau mæta aftur.

Á mánudaginn fórum við auðvitað til Kollu þar sem við leystum út mikla orku. Eftir hádegi fórum við svo út að leika í smá stund. Á þriðjudeginum héldum við okkur inni og því engin vettvangsferð vegna appelsínugulrar viðvörunnar. Því var engin vettvangsferð og nýttum við tímann í að prufa að fara í hópastarf í fyrsta skiptið í vetur. Þar tókum við sitt lítið að hverju. Við byrjuðum að æfa okkur í að hlusta og lesa litla bók og benda á hlutina í henni. Við lásum um hann Tuma sem var að klæða sig út og vorum að hjálpa honum að nefna fötin sín. Síðan fórum við að æfa okkur í fínhreyfingum þar sem við vorum að pinna. Við æfðum okkur í að telja pinnana frá 1-10 og enduðum á að púsla smá og nefna myndirnar á púslinu. Á miðvikudeginum höfðum við það kósý inni um morguninn og lékum okkur með lestir og bangsa. Eftir hádegi kíktum við svo út í smá stund. Á fimmtudeginum var aftur bara kósý dagur hjá okkur þar sem við lékum inni með bílana, púsluðum, lékum með boltana og hlustuðum á tónlist. Það mun svo koma í ljós hvort við förum út eftir hádegi eða höldum áfram að vera inni í kósý.

Í Lubba vorum við að læra málhljóðið Nn. Þar sungum við um að nudda á okkur nefið og lásum sögu um Núma á Neskaupsstað sem fór út í náttúruna að borða nesti. Börnin eru orðin örlítið duglegri að hlusta en við reynum að taka út það sem þau skilja kannski ekki alveg. 

Á skipulagsdeginum á morgun munum við kennararnir fara á fyrirlestur þar sem við fáum kynningu á nýjum úrræðum fyrir fjölskyldur án aðkomu barnaverndarnefndar. Við verðum einnig með starfsmannafundi, fara yfir starf komandi vetrar og eins og nafnið gefur til kynna skipuleggja árið. 

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja,
            starfsfólkið á Lind 
😊

Vikan 13.- 17. September 2021

Þessi vika hefur liðið hratt, verið mjög skemmtilegt og mikil útivera.

Á mánudaginn fórum við í leikvang til Kollu um morguninn sem er alltaf jafn gaman og gott að losa smá orku. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur hljóma allir eins en við vorum úti bæði fyrir og eftir hádegi alla dagana sem er mjög gaman og fyrsta skiptið sem við erum að leika í rigningu af einhverju viti. Vegna mikilla veikinda barna fóru 2019 börnin því ekki í vettvangsferð á þriðjudeginum.  Við erum buin að æfa okkur að pusla ,leira, pinna meðal annars.

Föstudagurinn var viðburðarríkur og skemmtilegur um morguninn. Það var smiðja hjá Nönnu þar sem hún er að vinna með krökkunum í haustverkefni þar sem þau gera falleg tré úr höndunum sínum. Þetta var í frysta skiptið sem minnstu krílin okkar fóru í smiðjuna. Þeim leist ekkert sérlega vel á þetta til að byrja með en fannst svo mjög gaman þó þau hafi ekki enst mjög lengi en þetta var bara fyrsti tími og mun það koma með tímanum. Einnig var leikfangadagur hjá okkur og komu börnin með dót að heiman. Mjög skemmtilegt að sjá fullt af mismunandi dóti og krakkarnir að leika sér með sitt dót og að fá að prufa hjá öðrum, öðruvísi og skemmtilegt.

Lubbi kenndi okkur málhljóði Bb þessa viku. Við sungum um að blása sápubólur og kúlur þar sem við sjáum þær svífa um allt. Börnin eru orðin betri í að hlusta á söguna en við ákváðum að prufa lesa bara partana sem þau gætu skilið og það gekk vel.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 6.- 10. September 2021

Vikan sem er að líða hefur gengið mjög vel. Það er búið að vera mikið um að vera en rosalega gaman. Við erum búin að nýta veðrið vel enda ekki hægt að kvarta undan því. 

Á mánudaginn fórum börnin til Kollu um morguninn eins og allir mánudagar munu vera núna í vetur og það var mjög gaman. Þau eru eiginlega strax búin að fatta að þegar hún kemur inn, að þau séu að fara í leiksalinn þrátt fyrir einungis einn tíma. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn fór 2019 hópurinn í vettvangsferð. Þau löbbuðu alla leið uppá Hvammsvöll sem var góður spotti fyrir þau en þau skemmtu sér rosalega vel. Toppurinn var þó að hitta og klappa hundunum sem við mættum en við sáum 3 hunda á leiðinni. 2020 hópurinn var á meðan í leikskólanum þar sem þau fengu að leika með risastóru legókubbana þar sem þau byggðu hús, turna og gerðu jafnvægisæfingar. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn komu seinustu 3 börnin til okkar í aðlögun. Krakkarnir tóku þeim vel og vorum við úti að leika fyrir hádegismat. Aðlögunin gekk mjög vel fyrir sig og allir glaðir. Eftir hádegi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn var dagur tvö í aðlögun. Eins og fyrri daginn vorum við úti að leika fyrir hádegi. Dagurinn gekk enn betur en sá fyrri og erum við í skýjunum með hvað þau eru dugleg þó auðvitað sé eðlilegt að gráta smá eins og t.d. í hvíldinni. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á föstudaginn féll niður listasmiðjan svo við fórum öll út að leika. Aðlögunarbörnin kvöddu foreldra sína og gekk það bara ágætlega. Þau voru farin að leika sér með hinum börnunum innan skamms og skemmtu sér vel. Heilt yfir hefur aðlögunin gengið vel og erum við rosa glöð með að vera loksins komin með fulla deild og getum byrjað þennan vetur að krafti.

Lubbi var á sínum stað í vikunni og að þessu sinni með málhljóðið Mm. Við syngjum um mús sem er að biðja um meiri ost, mjúkan músarost. Nokkrir eru farnir að reyna herma eftir tákninu og er mjög gaman að sjá það.

Takk fyrir æðislega viku og góða helgi.

Kveðja,
            Starfsfólkið á Lind 
😊

 

 

Vikan 30. ágúst- 3. september 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Nú er búin heil vika af skipulögðu starfi og gekk eins og í sögu. Síðasta vikan hjá okkur með 11 börn áður en við loksins hittum seinustu 3 börnin og byrjum þennan vetur af alvöru. Á mánudaginn fórum börnin í fyrsta skipti í leikvanginn til Kollu. Þau nutu sín í botn að hoppa og skoppa og var ekki að sjá að þau væru þarna í fyrsta skipti. Á þriðjudeginum fór svo 2019 árgangurinn í sína fyrstu vettvangsferð af mörgum í vetur. Það gekk alveg svakalega vel og var tekin einn „stór“ hringur í kringum versalavöll, litið inn í Salalaug og síðasta stopp átti að vera ærslabelgurinn að hoppa smá en hann er því miður sprunginn en þau létu það ekki stoppa sig og sulluðu og hoppuðu í pollunum sem voru á honum í staðin. Á meðan léku 2020 krakkarnir sér úti. Á miðvikudag og fimmtudag lékum við allan daginn úti. Á föstudaginn prufuðum við í fyrsta skipti að fara í listasmiðjuna hjá Nönnu. Þar vorum við að lita, mála, fikta í úrklippum, allt eftir getu barnanna.

Í vikunni fengum við einnig að kynnast honum Lubba. Hann ætlar að kynna okkur fyrir málhljóðum sínum í vetur en þessa viku vorum við að læra hljóðið Aa. Við sungum um ömmu og afa og lærðum táknið. Börnin eru ekki alveg en þá komin með þolinmæði fyrir að hlusta á sögurnar en það kemur með æfingunni.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja,
starfsfólkið á Lind 😊

 

 Vikan 23. -26 ágúst 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur gengið ósköp venjulega fyrir sig. Seinasta vikan þar sem ekkert skipulagt starf er hjá okkur og við með mikinn frjálsan leik. Við erum búin að vera leika okkur úti alla daga og reyna nýta seinustu sumardagana vel. Fyrsta heila vikan eftir aðlögun hjá okkur liðin og mætti segja að hafi gengið bara frekar vel miðað við margar og þrátt fyrir veikindi þá eru börnin ótrúlega flott þó svo að stundum komi smá grátur hjá sumum en það er fullkomlega eðlilegt hjá svona litlum krílum.

Í næstu viku fer svo skipulagt starf hjá okkur í gang og hefst þá formlega veturinn hjá okkur. Börnin fá bæði að kynnast leikvangi og listasmiðjunni. Þau verða tekin í litlum hópum til að byrja með þar sem þau fá að ærslast, hoppa og skoppa og þroska hreyfigetu sína í leikvang og byrja að vinna á fínhreyfingum og búa til listaverk í smiðjunni.
Við förum einnig af stað með létt og laggott hópastarf og svo byrjum við að kynna þau fyrir málhljóðum Lubba þar sem við munum læra einn bókstaf á viku með söng og sögustund.

Meðfylgjandi er skjal þar sem hægt er að skoða vikuskipulagið hjá okkur dag fyrir dag sem verður fyrir komandi vetur hjá okkur.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja,
Starfsfólkið á Lind

 Vikan 16.-20 ágúst 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur gengið ósköp venjulega fyrir sig. Seinasta vikan þar sem ekkert skipulagt starf er hjá okkur og við með mikinn frjálsan leik. Við erum búin að vera leika okkur úti alla daga og reyna nýta seinustu sumardagana vel. Fyrsta heila vikan eftir aðlögun hjá okkur liðin og mætti segja að hafi gengið bara frekar vel miðað við margar og þrátt fyrir veikindi þá eru börnin ótrúlega flott þó svo að stundum komi smá grátur hjá sumum en það er fullkomlega eðlilegt hjá svona litlum krílum.

             Í næstu viku fer svo skipulagt starf hjá okkur í gang og hefst þá formlega veturinn hjá okkur. Börnin fá bæði að kynnast leikvangi og listasmiðjunni. Þau verða tekin í litlum hópum til að byrja með þar sem þau fá að ærslast, hoppa og skoppa og þroska hreyfigetu sína í leikvang og byrja að vinna á fínhreyfingum og búa til listaverk í smiðjunni.
             Við förum einnig af stað með létt og laggott hópastarf og svo byrjum við að kynna þau fyrir málhljóðum Lubba þar sem við munum læra einn bókstaf á viku með söng og sögustund.

Meðfylgjandi er skjal þar sem hægt er að skoða vikuskipulagið hjá okkur dag fyrir dag sem verður fyrir komandi vetur hjá okkur. 

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja,
             Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 9. -13 ágúst 2021

Kæru foreldrar 

Ein önnur góð vika er senn á enda. Við viljum þakkaykkur kæru foreldrar fyrir frábærar vikur í aðlögunarferlinu með börnunum ykkar og hlökkum til frekara samstarfs á komandi mánuðum. 

Nú hafa ellefu gullmolar hafið leikskólagöngu sína á Lind og er mikil spenna og tilhlökkun hjá okkur kennurunum að vera þátttakendur við upphaf leikskólagöngu þeirra. 

Ágústmánuður hefur einkennst af því að kynnast og koma á góðum tengslum. Aðalmarkmið okkar næstu mánuði er að byggja upp öryggi og traust, efla félagsleg tengsl og sjálfstæði barnanna. Gott samstarf við foreldra er ómetanlegur styrkur í þeirri viðleitni. 

1. september hefst skipulagt starf í Fífusölum, en við á Lind munum byrjað rólega með það að því að við erum með síðustu 3 börnin í aðlögun 8. September. Þið fáið senda heim námsáætlun fyrir einn til tvo mánuði í senn. Í þessari áætlun koma fram áþarf.nig við skiptum börnunum  t með samskiptum og veitum leiðsögn ef þarf.herslur deildarinnar í starfi með börnunum ykkar. Eins er þar að finna viðburði sem eru framundan. Dagskipulag deildarinnar og hópaskiptingu fáið þið einnig.   

Í vetur ætlum við að leggja áherslu á að hafa gaman með alls kyns leikjum og njóta útiveru og hreyfingar. Læra að þekkja nöfn hvers annars. Átta okkur á reglum/rútínum, læra sjálfshjálp, njóta listsköpunar í leik og starfi, æfa fín,- og grófhreyfingar, læra/nema í gegnum leik, hlusta á sögur, skoða myndir, hlusta á málhljóðin hans Lubba, syngja, hlusta á músík, dansa, spila á hljóðfæri og kynnast Blæ bangsa. Læra að vera góð hvert við annað, læra að leika saman í hóp, læra að vera vinir og bara njóta þess að vera saman sem hópur.

 

Í September og Október mánuði ætlum við að vinna með þemað “fjölskyldan mín” og væri fínt að fá A4 blað með myndum af fjölskyldu barnsins fljótlega.

 

  • Við sendum fréttir/blogg af starfi deildarinnar í lok hverrar viku inn á heimasíðu leikskólans.
  • Vala.is – minnum á að tilkynna þarf frí eða veikindi barns fyrir klukkan 9:00 í leikskólann. Ef um veikindi er að ræða þá er mikilvægt að láta fylgja með hvað sé að vegna skráningar í heilsubók barnsins. Klukkan 9:00 hefst skipulagt starf og gott að vita hvernig barnahópurinn stendur þann daginn. 
  • Matseðill hangir í fataherbergi, eins er hann að finna inn á heimasíðunni okkar.
  • Minnum á að mikilvægt er að merkja snuð barnanna sem og útifatnað og skófatnað.

 

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi námsáætlunina eða annað sem tengist leik og námi barnanna ykkar, hafið endilega samband.

 

Takk fyrir vikuna og njótið helgarinnar.

Bestu kveðjur J

Carmen, Selma, Rakel og Laufey

Vinátta og samskipti verður rauði þráðurinn í okkar starfi. 

inátta er börnum afar mikilvæg. Í samskiptum við vini sína læra börn félagslega færni á borð við samvinnu, hlusta á aðra og að deila með öðrum. Vinátta veitir hlýju og öryggi og hún byggir upp sjálfsmynd barna. Í gegnum vináttu þróa þau með sér samkennd og færni til að geta sett sig í spor annarra. Að fá að vera með í leik og eignast vini er grunnur að góðri líðan og að hafa það gott í leikskólanum og í lífinu.

 

 

 

Vikan 28. júní – 2. Júlí 2021

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Seinasta heila vikan okkar fyrir sumarfrí liðin og gengur ótrúlega vel hjá okkur. Börnin elska að leika bæði úti og inni og æðislegt hvað gengur vel. Vikan hefur bara verið nokkuð venjuleg, leikum bæði inni og úti. Á miðvikudaginn var sullu dagur hjá okkur þar sem við lékum okkur mikið með vatn. Börnin sulluðu í keri með fullt af dótið, máluðu á veggi leikskólans með vatni, sulluðu í bunu og hoppuðu í pollunum sem mynduðust. Gaman að sjá hvað þau höfðu mikinn áhuga á þessu og skipti þau litlu máli að verða smá blaut enda alltaf gaman að gera eitthvað öðruvísi. 

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 21. – 25. Júní2021

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Þessi vika hefur verið mjög skemmtileg hjá okkur. Við erum búin að vera bæði inni og úti á morgnana og svo alltaf úti eftir kaffi. Það er mjög gaman að sjá hvað börnin eru að ná að aðlagast vel. Það er orðið auðveldara fyrir þau að mæta á morgnana, þau borða rosalega vel og labba sjálf inn í hvíld og leggjast á koddann sinn. Á fimmtudaginn var svo sumarhátíð hjá okkur. Hoppukastalar, grillaðar pylsur, þrautabrautir og margt skemmtilegt sem gerði þennan dag svo góðan. Mjög ánægjulegt að sjá hvað þið sáuð ykkur fært að mæta og skemmta ykkur með börnunum. 

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 14. júní-18.júní 2021 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Fyrsta vikan okkar saman liðin og getum við ekki sagt annað en að það hafi gengið mjög vel. Þriðjudagur og miðvikudagur gengu vel fyrir sig þar sem þið voruð með okkur allan daginn. Á föstudeginum kvöddu þið svo börnin ykkar úti um morguninn og tókum við við þeim. Það gekk allt eins og í sögu, börnin kát, léku sér og voru hæstánægð. Við fórum svo inn og lékum okkur með dýrin og borðuðum skyr. Hvíldin gekk ótrúlega vel og allir sofnuðu strax. Frábær aðlögunarvika að baki og hlökkum við til framhaldsins.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 7. – 11. júní 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Jæja, nú fer að líða undir lok hjá okkur á Lind og var þetta seinasta vikan hjá okkur saman. Margt búið að gerast og mikið í gangi. Við erum búin að vera mikið á eldri ganginum að leika okkur en erum líka að njóta seinustu dagana á yngri.

Á mánudaginn var mikill útidagur, fórum út bæði fyrir og eftir kaffi.

Á þriðjudaginn fór bæði 2017 og 2018 krakkarnir yfir á Hlíð og Hól og fengu að vera þar að leika og borðuðu kaffi þar líka sem var svakalegt sport fyrir þau. Þau komu svo yfir, klæddu sig hjá okkur og fóru út að leika.

Á miðvikudaginn fórum við út að leika um morguninn. Við fórum á ærslabelginn fyrir utan leikskólann og skemmtum okkur mjög vel þar. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn byrjuðum við daginn snemma að kíkja yfir á eldri ganginn. Í dag borðuðum við hádegismat þar og það var mjög gaman. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á föstudeginum vorum við mestmegnis á eldri ganginum. Í dag fengum við að borða bæði hádegismat, fara út að leika og kaffitíma á eldri ganginum enda var þetta seinasti dagurinn í aðlögun. Börnin eru heldur betur tilbúin í að færa sig alveg yfir og takast á við ný verkefni sem bíða þeirra þar. Eftir kaffi fórum við svo út að leika í síðasta skiptið frá yngri gangi. 

Síðasta vikan okkar liðin og eru það frekar blendnar tilfinningar hjá okkur. Það er búið að vera æðislegt að vera með þau svona lengi en núna bíða þeirri skemmtilegir tímar framundan. Við munum sakna þeirra og ykkur foreldra mjög mikið en við munum enn sjást í útiverunni. Við viljum þakka fyrir frábæra tíma saman og óska ykkur góðs gengis í framtíðinni og góða helgi.

 

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 31 maí - 4 júní 2021

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur gengið ótrúlega vel og eru börnin að aðlagast vel yfir á eldri gangi, þau eru alltaf spennt og fara og vilja oftast ekki koma aftur yfir á yngri gang sem er mjög gott. Tíminn er að líða ansi hratt og erum við strax farnar að sakna þeirra en hlökkum líka til að sjá þau fara yfir á eldri gang og vera æðisleg og frábær þar.

Á mánudaginn fóru 2018 krakkarnir yfir á Hól um morguninn og það gekk mjög vel, þau voru að leika með kubbana, allskonar dúkkudót og mynduðust skemmtilegir ímyndunarleikir út frá því. Eftir hvíld fóru svo 2017 börnin yfir á Hlíð og það gekk mjög vel, þau eru mjög spennt yfir dúkkukróknum og eru þau mikið að leika þar í skemmtilegum leik. Fórum í hádegismat  og hvíld og skelltum okkur svo út eftir kaffi. 

Á þriðjudaginn skelltum við okkur með öll börnin í vettvangsferð um morguninn og við fórum á hvammsvöll sem var mjög skemmtilegt. Fengum okkur hádegismat og skelltum okkur út eftir kaffi. 

Á miðvikudaginn fóru 2018 börnin yfir á Hól um morguninn og gekk það eins og alla hina dagana, þau eru ekkert smá dugleg að fara yfir og leika sér. 2017 fóru svo yfir eftir hvíldina og gekk það líka eins og og hina dagana, mjög vel. eftir kaffi skelltum við okkur út að leika. 

Á fimmtudaginn fóru 2018 börnin í strætó ferð með Nönnu og fóru þau í fjöruna að týna skeljar og finna krabba. Þau voru svo spennt að koma aftur í leikskólann til að segja okkur hinum hvað það var gaman hjá þeim sem var æðislegt að heyra hvað þeim fannst gaman. 2017 börnin voru úti að leika á meðan. skelltum okkur svo aftur út að leika eftir kaffið. 

Í dag fóru bæði 2018 og 2017 börnin yfir á eldri gang um morguninn. Það gekk ótrúlega vel. Við skelltum okkur svo út eftir kaffið.

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi:-)

Kveðja starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 25. – 28. maí 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika var stutt og laggóð og gekk mjög vel fyrir sig.

Á þriðjudeginum byrjaði ný stelpa hjá okkur fædd 2019. Hún ætlar að vera hjá okkur þangað til krakkarnir fara yfir á eldri ganginn þar sem hún er starfsmannabarn og fékk smá forgang og gekk aðlögunin mjög vel og krakkarnir eru mjög góð við hana. Við skiptum okkur niður, einn hópur inni og einn hópur úti fyrir hádegi meðan aðlögun átti sér stað. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudeginum var aftur aðlögun hjá okkur. Við skiptumst í hópa fyrir hádegi. Yngsti einstaklingurinn okkar fór út að leika með Lækjabörnunum, 2018 krakkarnir fóru yfir á Hól sem gekk ótrúlega vel og eru þau farin að venjast eldri ganginum vel og við vitum að þetta verður ekkert mál fyrir þau. 2017 krakkarnir okkar voru svo heppin að þau fengu að fara með Lautarbörnunum í vettvangsferð þar sem þau löbbuðu á leikvöllinn hjá Þorrasölum og enduðu á ærslabelgnum. 2017 börnin fóru svo eftir hvíldina yfir á Hlíð í klukkutíma sem gekk líka eins og í sögu eins og búast mátti við enda stórir og duglegir krakkar. Eftir kaffi fórum við svo út að leika þar sem við vorum í bæði skipulögðum og frjálsum leikjum.

Á fimmtudaginn skiptumst við aftur eftir aldri. Nanna fór með 2017 börnin í vettvangsferð niður í fjöru. Þar tóku þau strætó upp í Hamraborg, löbbuðu niður í fjöru þar sem þau týndu skeljar, skoðuðu þörungana og leituðu af kröbbum. 2018 börnin voru úti að leika á meðan. Eftir kaffi fórum við svo út að leika öll saman.

Föstudagurinn var einhæfur en skemmtilegur,  fórum öll út að leika bæði ummorguninn og eftir kaffi.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

Vikan 17. -21. maí 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur verið öðruvísi hjá okkur en rosalega skemmtileg.  Aðlaganir yfir á eldri gang hafa verið í vikunni og gengið mjög vel. 

Á mánudaginn fórum við til Kollu um morguninn í síðasta skiptið þetta skólaár en þessi vika er sú seinasta sem við förum í smiðju og leikvang. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudeginum fóru börnin sem eru fædd árið 2018 yfir í aðlögun á Hól. Þau skoðuðu eldri ganginn vel og léku sér svo í klukkutíma inn á verðandi nýju deildinni sinni og leist þeim mjög vel á. Fullt af nýju og spennandi dóti sem vakti mikla lukku og sumir byrjaðir að kalla þetta sína deild strax. 2017 börnin voru úti að leika á meðan og síðan fórum við öll saman út eftir kaffi.

Á miðvikudeginum fengu 2017 börnin að heimsækja sína nýju deild, Hlíð. Þau fóru yfir með 2017 börnunum á Lautinni og líkt og 2018 börnin skoðuðu þau eldri ganginn og léku sér svo í klukkutíma inni á deild og gekk það mjög vel. 2018 börnin léku sér úti á meðan og svo allir saman eftir kaffi.

Á fimmtudeginum fengu 2018 börnin aftur að fara yfir á Hól að leika sér. Líkt og á þriðjudaginn gekk sjúklega vel og erum við handviss um að færslan yfir á eldri ganginn muni ganga eins og í sögu. Eftir kaffi fórum við svo öll saman út að leika.

Á föstudaginn fóru krakkarnir til Nönnu í smiðju, eins og í leikvangi var þetta í síðasta skipti þetta skólaárið sem við förum í smiðju. Krakkarnir fengu að sulla í kari með málningu ofaní sem litaði þá vatnið, þau voru að leika með hljóðfæri og búa til tónleika. Inn á deild vorum við svo með kubbana, við vorum að byggja allskonar turna og hús og svo vorum við að lita og leika í dúkkukrók. Eftir hvíld þá fóru 2017 börnin okkar í smá heimsókn yfir á Hlíð og þau skemmtu sér mjög vel. Eftir kaffi fórum við svo út í góða veðrið að leika.  

Í Þessari viku erum við að læra málhljóðið mjúka g. Sagan um mjúka g er mjög skemmtileg og fjallar um Sögu og Dag sem eiga flugdreka. Þau ímynda sér að þetta sé geimflaug sem flýgur út í geym. Nokkur orð sem við erum að skoða með mjúka g er flugvél, flugdreki, saga og svo mætti telja fleiri orð með mjúka g. Þau er að standa sig svo vel með Lubba táknin og eru mjög fljót að læra hvert tákn fyrir sig. Það mætti samt segja að að mjúka g sé okkar uppáhalds lag þar sem það er sungið með hástöfum í lubbastundum.

Við viljum minn á að það er lokað á mánudag vegna annars í Hvítasunnu.  

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

 Kveðja, starfsfólkið á Lind 

 

 

Vikan 10. -12. maí 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur verið stutt, laggóð og skemmtileg.

Við byrjuðum vikuna á mánudaginn á því að fara út að leika um morguninn. Kolla var ekki svo við fórum því bara út í „leiksal“ og fengum mikla hreyfingu þar. Eftir kaffi var síðan íþróttadagurinn okkar sem átti að vera seinasta föstudag. Úti var búið að búa til fullt af íþróttaleikjum og brautum sem við fórum í gegnum og fengum stimpil fyrir að standa okkur vel. Við fórum glöð heim og spennt að sýna foreldrum okkar alla stimplana.

Á þriðjudaginn fór allur hópurinn saman í vettvangsferð. Við gengum upp að buddha styttunni og tókum smá fjallgönguleið þaðan niður í Fjallalind þar sem við fundum nýjan róló. Alltaf spennandi að fara á nýja staði.  Eftir kaffi fórum við svo aftur út að leika.

Á miðvikudaginn fórum við út um morguninn, ekki annað hægt þegar veðrið er eins og það hefur verið seinustu vikur. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Lubbi kenndi okkur málhljóði Au/au. Þar lesum við söguna um þegar Auður sat austan við húsvegg laust fyrir hádegi á laugardagsmorgni á Raufarhöfn. Haukur kom hlaupandi til hennar og sprautaði á hana vatni og varð hún rennblaut. Síðan sungum við um Auðunn sem var að sauma og sauma og Auði sem var voðalega aum.

Við viljum minna á að á morgun er uppstigningardagur og á föstudaginn er skipulagsdagur svo það er löng helgi framundan. 

Takk fyrir góða viku og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind

 

Vikan 3. – 7. maí 2021

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Í þessari viku var heilsuvika hjá okkur. Þá vorum við með allskonar heilsutengt hjá okkur.  Bloggið verður ekki jafn ítarlegt og það hefur verið hjá okkur en eins og þið hafið flest séð erum við búin að vera dugleg að pósta á facebook þessa vikuna en þeir sem hafa ekki séð það geta nálgast það ítarlega þar. Við fengum mikla útrás í þessari viku. Við fórum í marga leiki, keppnir, æxlabelginn, dönsuðu, svo héldum við bæði hjóladag og ávaxta/grænmetisdag. Við ætluðum að enda þessa skemmtilegu viku á þrautabrautum, leikjum og smoothie í kaffinu en vegna mikillar manneklu og lokaðra deilda ætlum við að færa það þar til í næstu viku þegar allir geta tekið þátt, bæði kennarar og börn.

Lubbi var með málhljóði Óó í þessari viku. Þar lásum við söguna um hann Ómar óðinshana sem kunni vel við sig í óbyggðunum í Ódáðahrauni og óttast hvorki óveður né óvættir. Hann getur þó verið óstýrilátur og ólmur en oftast rólyndur og sómakær. Við sungum síðan um Óla að góla og endalaus Óó. Nú fer að líða að lokum hjá okkur í Lubba en það eru einungis 6 málhljóð eftir hjá okkur og ætlum við að taka þau aðeins örar en hin málhljóðin.

Þessi vika hefur verið stórskemmtileg og tilbreyting frá öðrum vikum. Við stóðumst heldur betur undir nafninu Heilsuleikskóli og erum við mjög stolt af því.

Takk kærlega fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 26. – 30. apríl 2021

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Þessi vika er búin að vera svo skemmtileg, sólin skína og alltaf úti að leika, sem okkur finnst langskemmtilegast. Veðrið hefur þvílíkt leikið við okkur og svo þægilegt að vera svona léttklædd úti en vonandi erum við búin að losa okkur við kuldagallana fyrir fullt og allt.

Á mánudaginn var Kolla ekki svo við skelltum okkur beint út að leika (en ekki hvað) í þessu frábæra veðri. Við vorum úti allan daginn í gær, fórum út að leika eftir hvíld líka og svo auðvitað líka eftir kaffi eins og alla daga. Mikil útivera og við sannarlega að njóta. 

Á þriðjudaginn fórum við aftur öll saman í vettvangsferð og líklega munum við gera það þannig í sumar en það finnst okkur mikið skemmtilegra. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn fannst okkur aftur svo gott veður svo við drifum okkur bara út að leika um morguninn og aftur svo eftir hvíld og kaffi.

Á fimmtudaginn skelltum við okkur út, meðal annars hjóla sem við elsku. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu. Þar vorum við að halda áfram að æfa okkur að vefa. Eins og suma aðra daga fórum við svo út eftir bæði hvíld og kaffi. 

Málhljóð Lubba var að þessu sinni Ei – Ey. Þar lásum við söguna um Eygló sem heimsækir Svein frænda sinn í Heimaey. Þar finna þau Sóleyjar, gleym-mér-ei og eyrarrós. Svo sungum við um lagið um Einar sem heyri meira og fagnar því með að hrópa vei, vei, vei.

Blær spjald vikunnar var með mynd af krökkum í vettvangsferð. Þar voru 3 stelpur að leiðast og 2 strákar en ein stelpa varð eftir því enginn vildi leiða hana. Krakkarnir settu upp súran svip við að sjá þetta enda vorkenndu þau henni mikið og ætla sko ekki að láta þetta gerast hjá okkur, því ekki viljum við að vinir okkar séu leiðir.

Nú eins og áður var sagt er sólin farin að skína. Við viljum biðja foreldra að muna eftir sólarvörn á morgnanna á þeim sólríku dögum sem framundan eru. Við munum svo sjá um það að bera á þau eftir hádegi.

Í næstu viku er heilsuvika hjá okkur. Þá leggjum við mikið upp úr hreyfingu og mikilli útiveru. Við munum auðvitað fara í vettvangsferð, gera þrautabrautir úti og skemmta okkur vel. Á fimmtudeginum ætlum við svo að hafa ávaxtadag en þá koma börnin með ávexti eða grænmeti með sér og við höldum ávaxtaveislu.

Takk fyrir yndislega og sólríka viku og góða helgi. 🌞

Kv. Starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 19. – 23. apríl 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur verið skemmtielg hjá okkur. Við erum búin að vera mikið úti að leika, einn frídagur sem braut upp vikuna og mikil gleði. Það má segja að við séum komin í sumargírinn þó svo að sólinn sé kannski ekki að láta sjá sig mikið.

Á mánudaginn fórum við í leikvang til Kollu. Þar bjó hún til braut þar sem við þurftum að hoppa, hlaupa, halda jafnvægi, skríða og klifra. Við vorum líka í frjálsum leik inni á deild. Eftir kaffi fórum við svo út að leika í veðri sem má nú sannarlega kallast ekta íslenskt veður enda komu öll möguleg veður, sól, skýjað, haglél, rigning og snjór.

Á þriðjudaginn fórum við í mjög skemmtilega vettvangsferð. Við fórum öll saman í þetta skiptið, og löbbuðum alla leið yfir í Breiðholtið. Þar fundum við skemmtilega tjörn að leika við. Við tókum með okkur banana og saltstangir og borðuðum það meðan við fylgdumst með öndunum. Þær eltu okkur frekar mikið en þær héldu líklega að við værum með brauð handa þeim. Við klikkuðum hinsvegar á því svo við reynum kannski að bæta úr því í sumar og fara með brauð til þeirra. Við vorum smá þreytt eftir þessa vettvangsferð enda mjög löng en mikið vorum við samt glöð með hana. Eftir kaffi fórum við svo aftur út að leika, enda ekkert skemmtilegra en að vera úti að leika.

Á miðvikudaginn var hópastarf hjá öllum um morguninn. Við fórum í numicon og æfðum okkur í að spila spil. 2017 börnin fóru svo út að leika með Lautarbörnunum og kynnast fyrir komandi flutning yfir á eldri gang. Hinir léku sér inni í frjálsum leik. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn var sumardagurinn fyrsti og frí. 

Á föstudaginn fórum við til Nönnu um morguninn. Þar vorum við aðeins að byrja æfa okkur í að vefa sem var mjög krefjandi en gaman. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Í vikunni var Blær að kenna okkur að leyfa öllum að vera með og deila dóti. Myndin var af 4 strákum að byggja með legó-kubba. Þar var einn strákur sem fékk ekki að byggja með hinum og fékk bara 2 kubba meðan hinir tóku alla. Við ræddum strax um hvað við ætlum að æfa okkur að deila og leika saman því við vorkenndum stráknum mjög mikið sem fékk ekki að vera með og okkur langar ekki að líða svoleiðis.

Lubbi var með málhljóðið Ææ í vikunni. Við lásum sögu um Ægi sem er ærslafullur og æfir fótbolta. Frænka hans gaf honum æðardúnsæng sem honum finnst æðislega hlý. Svo sungum við um Ævar sem æjar sér og enginn fer að hlæja.

Takk kærlega fyrir góða viku, gleðilegt sumar og góða helgi 😊

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 12. – 16. apríl 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur verið skemmtileg og gott að fá loksins heila viku og komast í góða rútínu. 

Á mánudaginn fórum við til Kollu um morguninn eins og flest alla mánudaga. Þar fengum við að hoppa og skoppa helgina úr okkur. Við vorum líka að leika inná deild í dúkkukrók, með kubbana og púsla. Eftir kaffi drifum við okkur svo út að leika því það var svo ótrúlega gott veður.

Á Þriðjudaginn fór hópur 1 í vettvangsferð. Við löbbuðum á leikvöllinn rétt hjá Glósölum og skemmtum okkur vel þar enda gott veður. Göngutúrinn báðar leiðir gekk hægt enda allstaðar að stoppa og upplifa umhverfið og fara í ímyndunarleik, labba eftir línum bæði fram og afturá bak, klifra í steinum og þykjast vera veiða með prikum sem við fundum en það var bara gaman. Á meðan var hópur 2 í hópastarfi. Þau voru að vinna með Numicon, fara ofan í tölustafina 1-5 og lita Aulinn ég kallana. Eftir kaffi drifum við okkur aftur út enda aftur æðislegt veður og hlaut að koma að því að við gátum sleppt kuldagallanum. 

Á miðvikudaginn fór hópur 2 í vettvangsferð. Við löbbuðum hringinn í kringum Salahverfið, stoppuðum á nokkrum rólóvöllum á leiðinni, fengum að sjá Fríðu, kisuna hennar Emilíu og týndum mikið rusl. Mjög skemmtileg og öðruvísi vettvangsferð en vanalega. Hópur 1 var á meðan í hópastarfi að vinna með það sama og gert var með hóp 2 daginn áður. Eftir kaffið fórum við svo út að leika, enn og aftur í frábæru veðri.

Á fimmtudaginn fór hópur út að leika sér í rigningunni og fannst það æðislegt. Hinir voru í frjálsum leik inni og gaman að sjá hvað þau eru öll farin að leika sér saman. Eftir kaffi vorum við svo inni en veðrið var ekki alveg eins og við hefðum viljað hafa það. 

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu um morguninn. Þar erum við að búa til okkar eigin eldfjall sem á vel nú við þessa dagana eins og flestir vita. Fyrir kaffi fórum við í gaman saman með Laut og Læk. Við skemmtum okkur svo vel enda langt síðan við sungum og dönsuðum með þeim.

Blær hefur kennt okkur eina mikilvæga lexíu í vikunni. Það er að allir eru góðir í einhverju. Umræður sköpuðust og sögðu börnin frá því hvað þau væru góð í og komumst við að þeirri niðurstöðu að við erum misgóð í öllu. 

Lubbi var með málhljóðið Ðð þessa viku. Þar lásum við um Daða sem bar í bústað á Vaðlaheiði, borðandi snúð og lúðu sem hann var að veiða. Svo sungum við um lúðuna og lífið hennar

Við viljum svo minna á fimmtudaginn í næstu viku er sumardagurinn fyrsti sem er frídagur.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind :-)

 

Vikan 5-9 apríl 2021

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur gengið mjög vel og er búin að vera mjög skemmtileg. Krakkarnir eru að aðlagast vel eftir langt páskafrí og voru svo ánægð að hitta hvert annað og leika. Við ákváðum þessa vikuna að hafa ekki vettvangsferð þar sem við förum alltaf út eftir kaffi og margir eru að koma aftur eftir löng veikindi og morgnarnir eru oftast kaldastir fyrir litlu ungana okkar. 

Mánudagur: annar í páskum.

Á þriðjudaginn vorum við inni um morguninn í smá hópastarfi og svo í frjálsum leik. Krakkarnir voru ótrúlega glaðir í leikskólanum og að fá að leika við hvert annað aftur. Við skiptum krökkunum í hópa og vorum með smá hópastarf fyrir alla. Þau byrjuðu á að teikna mynd af Peppu pig sem þeim fannst alveg rosalega gaman, æfðum okkur svo að skrifa tölustafinn „2“ og það er svo frábært að sjá hvað það eru miklar framfarir hjá þeim bæði að lita og gera tölustafina. Það var líka í boði að púsla og við erum með nokkra púslsnillinga sem eru alveg búin að massa öll púslin inná deild og komin í púslin sem eru á eldri gangi. Við áttum svo góða hvíld eftir hádegismatinn og skelltum okkur svo út í góða veðrið sem hefur verið að leika við okkur í vikunni þrátt fyrir smá kulda þá hefur sólin alltaf látið sjá sig.

Ámiðvikudaginn vorum við með alveg frjálsan leik fyrir hádegi þar sem við buðum nokkrum að fara fram í dúkkukrók og það var mjög gaman, það var haldið matarboð, farið í alls konar búninga og tekið verkfærin og lagað það sem þurfti að laga. Það er ótrúlega gaman að sjá þegar þau detta inn í ímyndunarleikina. Krakkarnir inni á deild voru að leika sér með playmoi og þar komu einnig fram mjög skemmtilegir ímyndunar leikir, perlur og pinnar eru líka í uppáhaldi hjá þeim og þau ná alveg að stoppa lengi við bæði verkefnin. Fengum okkur góða hvíld eftir hádegismatinn og skelltum okkur svo út eftir kaffið í góða veðrið.

Á fimmtudaginn vorum við inni í rólegheitunum fyrir hádegi, fórum með hóp fram í dúkkukrók og þar var mikið leikið í alls konar leikjum. Hópurinn inni á deild voru að spila, púsla, perla og leika með kubbana og þar mynduðust skemmtilegar samræður sem og skemmtilegir leikir. Eftir hádegismatinn fengum við svo góða hvíld og fórum svo út eftir kaffi.

Í dag fórum við til Nönnu, þar vorum við að mála á trönur. Það var ótrúlega skemmtilegt að sjá þau standa fyrir framan trönurnar og mála á stórt blað. Þau eru að stækka alltof hratt.  Við vorum svo með inná deild með púsl, perlur, playmoi og dóta kassann sem geymir alls konar skemmtilegt dót eins og síma, myndavélar, sólgleraugu og fjarstýringar og það myndast alltaf mjög skemmtilegir leikir með þessu dóti. Fengum okkur góða hvíld eftir hádegismatinn og skelltum okkur svo út í góða veðrið eftir kaffi.

Í þessari viku erum við að læra málhljóðið Rr og það er ótrúlega skemmtilegt og skemmtileg saga. Sagan er um hann Ragnar sem hefur mikinn áhuga á risaeðlum og hvað þær hefðu gert ef þær væru til á Íslandi. 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Starfsfólkið á Lind. 

 

22. – 26. Mars 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi er vika er búin að vera mjög skemmtileg og fengum við æðislegt veður. Stóri garðurinn er auðvitað aðal sportið þessa dagana enda æðislegt að leika þar og langt síðan síðast.

Á mánudaginn vorum við hjá Kollu um morguninn. Þar vorum við að hoppa og skoppa og losa okkur við smá adrenalín. Eftir kaffi fórum við svo út að leika í snjónum.

Á þriðjudaginn fór hópur 1 í vettvangsferð. Veðrið lék við okkur við löbbuðum á Hvammsvöll. Þar vorum við heillengi að leika. Gaman að sjá ímyndunar leikinn þróast en þau voru bæði í búðarleik sem selur pizzur og fóru einnig í Mikka ref leik þar sem einn lék Mikka ref og hinir mýs að flýja frá honum. Hópur 2 var á meðan í hópastarfi að æfa sig í að fara eftir línum, numicon og skrifa tölustafina. Eftir það enduðu þau í kubbaleik. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn fór hópur 2 í vettvangsferð. Það var frekar fámennt hjá okkur svo við ákváðum að slá saman með Laut og fara með þeim. Við tókum með okkur rassaþotur og löbbuðum að brekkunni hjá Salaskóla. Þar renndum við okkur alveg ótal mörgum sinnum. Erfitt var að skera úr um hvort kennurunum eða krökkunum fannst skemmtilegra en aðal atriðið er að allir skemmtu sé konunglega. Veðrið var svo æðislegt og við fengum bara ekki nóg. Við enduðum svo á að leika smá í leikskólanum áður en við fórum inn alveg búin á því eftir frábæra ferð. Hópur 1 var í hópastarfi á meðan að æfa sig í því nákvæmlega sama og hópur 2 daginn áður.

Fimmtudagurinn breyttist óvænt eins og allir vita og mættu börnin um 12 leytið.  Sendur var póstur og biðlað til foreldra að ef þeir hafa tök á því að hafa barnið heima að gera það svo við getum fylgt lögum um sóttvarnarreglur. Við kunnum að meta það en skiljum auðvitað fólk sem getur það ekki. Við byrjuðum úti að leika, fórum svo í létt kaffi og enduðum aftur úti að leika.

Á föstudaginn var fámennt hjá okkur líkt og fimmtudaginn. Dagurinn fór bara í frjálsan leik og kósý inni.

Málhljóð vikunnar í Lubba var Þþ. Þar ræddum við og sungum um þotur sem flugu til Þýskalands, lentu líka í Þorlákshöfn.

Blær hefur í þessari viku verið að kenna okkur að eyðileggja ekki fyrir öðrum. Mynd vikunnar var af barni sem var að lita á mynd hjá öðru barni og lét því líða illa. Við ræddum það aðeins og allir sammála að við ætlum ekki að gera það.

Í næstu viku er Dymbilvika og þá verður ekkert skipulagt starf hjá okkur, Lubbi og Blær í páskafríi og léttur hádegismatur. Mjög gott væri að fá að vita ef börnin ykkar verða í fríi þessa daga upp á matarinnkaup og magn sem þarf að elda í þeirri viku.

Takk kærlega fyrir góða, öðruvísi og skilningsríka viku.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 15. – 19. Mars 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar.

Þessi vika er búin að að vera öðruvísi en mjög skemmtileg. Skipulagið breyttist smá vegna skipulagsdags en það er bara gaman að bregða stundum útaf vananum.

Á mánudaginn fórum við til Kollu um morguninn eins og alltaf. Þar var hún búin að taka niður eiginlega allar dýnur og púða og við fengum að hoppa og skoppa í öllu dótinu. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn var aðeins öðruvísi skipulag hjá okkur. Bæði hópur 1 og hópur 2 voru inni í hópastarfi um morguninn. Engin vettvangsferð var þennan dag og höfðum við það bara kósý eftir hópastarfið og lékum í frjálsum leik. Við áttum afmælisprinsessu  og fyrir kaffi héldum við uppá afmæli fyrir hana. Hún kom með þvílíkt flotta fílaköku gerða úr melónu fulla af ávöxtum sem hún bauð okkur uppá og við sungum fyrir hana. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudeginum fórum við út að leika um morguninn. Það er verið að gera upp litla garðinn okkar svo við fengum loksins að fara í stóra garðinn aftur. Þvílíkt bros á krökkunum þegar þau fengu að hjóla loksins og róla í stóru rólunum. Frá og með næstu viku munum við síðan líklega leika bara í stóra garðinum okkur til mikillar gleði. Eftir kaffi fórum við svo aftur út.

Á föstudeginum fórum við í smiðju til Nönnu. Þar vorum við að leggja lokahönd á páskaskrautin okkar, páskaunga og páskaegg. Hinir voru inni á deild á meðan að leika í dúkkukrók, púsla og legókubbum. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Málhljóð vikunnar í Lubba er Áá. Þar lærðum við lag sem fjallar um Ása hrópa Á því hann meiddi sig og vildi fá plástur. Við lásum svo söguna um álftir sem þurfa engan áttavita til að rata á áætlaðan áfangastað á Álftanesi.

Blær var að kenna okkur að það er pláss fyrir alla í hvaða leik sem er. Við ræddum að við ætlum alltaf að leyfa öllum að vera með. Við ætlum líka að hjálpa öðrum ef við sjáum að einhver er ekki að leyfa öðrum að vera með.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi!

Kveðja starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 8. – 12. mars 2021

Sæl kæru foreldrar.

Þessi vika er búin að vera skemmtileg þó svo að veðrið hafið ollið okkur smá „vonbrigðum“ þar sem við héldum að við værum loksins að fara sjá sumarið framundan. Við látum þó kuldann og snjóinn ekki stoppa okkur og elskum líka að leika úti í þannig veðri. Í vikunni var litavika. Það var mjög gaman að sjá hvað allir tóku þátt og mættu í fötum í þeim lit sem við átti. Við gerðum fallegt blómaverkefni. Á hverjum degi lituðum við eitt blóm í þeim lit sem var og enduðum á að búa til litríkan blómagarð.

Á mánudaginn var Kolla lasin en við erum svo heppin að Emilía tók okkur inn í leiksal í smá ballett tíma en hún kennir krökkum á okkar aldri ballett. Það var mjög gaman að prufa eitthvað nýtt. Svo bjó hún til þrautabraut fyrir okkur og við fengum að leika okkur svo frjálst. Hinir voru á meðan inná deild að púsla, kubba og fl.  Eftir kaffi fórum við svo út að leika. 

Á þriðjudaginn fór hópur 1 í vettvangsferð. Við löbbuðum í Salaskóla. Það slær alltaf í gegn og margir hittu systkin sín þar. Við lékum okkur lengi þar á trampólíninu, klifurgrindinni og rólunum. Á leiðinni heim brugðum við útaf vananum og stoppuðum inni í skógi þar sem Selma sagði okkur söguna um Kiðlingana 7 meðan Rakel faldi sig. Svo fórum við öll að leita af henni, það var virkilega gaman.  Á meðan var hópur 2 í hópastarfi. Þar voru krakkarnir að æfa sig í að skrifa tölurnar 1 upp í 5, bæði með því að fara eftir punktalínu og svo sjálf í lokin. Við erum einnig byrjuð að æfa okkur í að spila og vorum við að vinna með formin. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn fór hópur 2 í vettvangsferð. Við löbbuðum upp að Búdda styttunni og lékum okkur að klifra þar í steinunum. Við enduðum svo á leikvellinum hjá kirkjugarðinum áður en við fórum til baka í leikskólann en þá var okkur orðið frekar kalt. Hópur 1 var líka að æfa sig í tölunum og að byrja spila eins og hópur 2 daginn áður.  Eftir kaffi var enn smá kalt svo við fórum örlítið seinna út að leika, en við skemmtum okkur þó konunglega.

Á fimmtudaginn vorum við inni um morguninn, enda kuldaboli kominn aftur. Við lékum okkur í dúkkukróknum frammi, byggðum stórann turn úr kubbunum og lékum okkur með dýrin. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á föstudaginn var fjör um morguninn. Við vorum í smiðju hjá Nönnu að gera páskaskraut. Einnig var regnbogaball og opið flæði í tilefni lok litavikunnar. Þar dönsuðum við og lékum með Lautar og Lækjar börnunum. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Málhljóð vikunnar var Öö. Við lásum söguna um Örn sem fór með ömmu sinni austur í Öræfasveit að skoða Öræfajökul og borðuðu þar kökusneið og hrökkbrauð. Við sungum svo um Össa og Bjössa sem fannst allt ömurlegt. 

Við höfum verið dugleg að syngja Blæ lögin okkar í vikunni. Við erum byrjuð að læra þau vel og elskum að hlusta á þau. Við erum að æfa okkur að segja stopp ef við viljum ekki eitthvað og líka þegar við sjáum aðra vera að stríða. Blær hefur verið að kenna okkur að leyfa öllum að vera með. Í þessari viku kenndi hann kenndi okkur að það skiptir engu máli hvernig fötum maður klæðist hvort maður megi vera með eða ekki, það mega allir vera með. Við ræddum um hvort við hefðum verið skilin útundan eða hvort við höfum skilið einhvern annan útundan og komumst að þeirri niðurstöðu að við ætlum að vanda okkur í að skilja aldrei útundan. Við gerðum líka skemmtilegt verkefni en við fengum Blæ bangsa fyrir framan okkur og lituðum hann í sama lit og við sáum, klipptum hann út og límdum á blað.

Við viljum síðan minna á að á miðvikudaginn í næstu viku er skipulagsdagur hjá starfsfólki leikskólans og þá er leikskólinn lokaður. 

Takk fyrir góða viku og eigið góða helgi.

Kveðja, Starfsfólkið á Lind 😊

 

 

Vikan 1. – 5. mars 2021

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Þessi vika hefur gengið smurt fyrir sig. Hún hefur verið fljót að líða enda líður tíminn hratt þegar maður skemmtir sér vel. 

Á mánudaginn vorum við hjá Kollu að hlaupa, hoppa og skoppa. Á meðan hópur var hjá Kollu voru hinir inná deild í frjálsum leik. Það var leikfangadagur hjá okkur í dag. Það gekk frábærlega og komu flest allir með fallegt dót. Það var mjög skemmtilegt að skoða dótið hjá öðrum og fá að prufa það. Það var svo gaman hjá okkur að það gleymdist að taka myndir á alla. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn fór hópur 1 í vettvangsferð. Þau löbbuðu uppá Hvammsvöll og skemmtu sér konunglega. Á meðan var hópur 2 í hópastarfi. Þau voru að vinna með numicon kubbana í byrjun. Eftir það voru þau að æfa sig í að klippa, sauma og lita og gaman að sjá hvað eru miklar framfarir á því á seinustu vikum enda búnar að vera stífar æfingar. Eftir kaffi fórum við út að leika. 

Á miðvikudaginn var hópur 2 frammi að leika í dúkkukrók meðan hópur 1 var í hópastarfi. Þau voru líka að æfa sig í numicon, klippa og sauma og framfarirnar eru líka mjög skemmtilegar hjá þeim. Eftir kaffi fórum við út að leika. 

Á fimmtudeginum vorum við inni að leika. Það var margt í boði en við æfðum okkur í að þræða, púsla, lásum bækur, lékum með kubbana og í dúkkukrók. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á föstudeginum fórum við í smiðju til Nönnu. Þar tókum við smá forskot á sæluna og gerðum lítinn páskaunga. Fyrir kaffi vorum við í gaman saman með Laut og Læk og fórum svo út að leika eftir kaffi.

Í þessari viku höfum við verið að vinna með málhljóðið Kk í Lubba. Þar syngjum við um kónguló og lífið hennar. Svo lásum við um dýrin, kisuna, krummann, kóngulóna, kúnna, kanínuna og kindina. Þau gerðu ýmislegt t.d. borða kleinuhring á kaffihúsi í Kópavogi, borðuðu köku með kaldri mjólk á Kópaskeri og fengu sér kex og kók með klaka á Kili. 

Í Blæstundum vorum við að ræða hlutverkaleiki. Við spjölluðum um það að skiptast á hver á að leika hvað því það er ekki endilega gaman að vera alltaf sama hlutverkið. Svo verður líka að passa upp á það að leyfa öllum að vera með því það er ekki gaman að vera sá sem er skilinn útundan.

Í næstu viku er litavika.. Þá má gjarnan koma í eða með eitthvað í þeim lit sem er þann daginn, (t.d. hárteygju, naglalakk eða eitthvað). EKKI rjúka útí búð að kaupa eitthvað ef þið eigið ekki eitthvað í þeim lit. Látið hugmyndaflugið ráða för :)

  • Mánudagur - Gulur dagur
  • Þriðjudagur - Rauður dagur
  • Miðvikudagur - Grænn dagur
  • Fimmtudagur - Blár dagur
  • Föstudagur - Regnbogadagur

 

Takk kærlega fyrir skemmtilega viku og góða helgi.

 

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

 

Vikan 22. – 26. febrúar 2021

Sælir kæru foreldrar.

Þessi vika hefur verið mjög skemmtileg eins og svosem flestar vikurnar í leikskólanum. Veðrið orðið skárra og við bíðum spennt eftir sumrinu.

Á mánudaginn fórum við um morguninn til Kollu. Þar fengum við góða útrás. Við lékum líka í frjálsum leik inni á deild. Eftir kaffi fórum við svo út að leika. 

Á þriðjudaginn fór hópur 1 í vettvangsferð. Við löbbuðum á leikvöll rétt hjá skjólsölum og skemmtum okkur vel. Mest spennandi var þó að hitta hund á leiðinni þangað en það tafði okkur heldur betur enda eru hundar svo krúttlegir. Á meðan var hópur 2 í hópastarfi. Þar voru þau að að lita og klippa út Blæ bangsa og líma. Þau fengu sinn bangsa til þess að herma eftir og gekk það mjög vel. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudaginn fór hópur 2 í vettvangsferð. Það var mjög fallegt veður og hlýtt og fengum við smjörþefinn af vorinu. Við löbbuðum alla leið upp sikk-sakk brekkuna að leikvellinum hjá Lómasölum. Á leiðinni var mikið rusl og sköpuðust umræður um það hvert ruslið ætti að fara og að það væri subbulegt að henda því á jörðina. Hugmynd kviknaði um að koma hérna aftur næst og taka ruslapoka með og týna upp allt ruslið. Þegar við komum á leikvöllinn var einnig mikið rusl og það fyrsta sem krakkarnir gerðu var að fara í rusla leik, þau týndu upp allt ruslið og settu í „ruslatunnuna“ (hola hjá niðurfallinu. Það var mjög gaman að fylgjast með því. Á meðan var hópur 1 í hópastarfi að lita og klippa sinn Blæ líkt og hópur 2 hafði gert daginn áður.

Á fimmtudaginn vorum við inni í frjálsum leik um morguninn. Við lékum okkur í kubbunum, playmo, bílana og fl. Það var ávaxtadagur hjá okkur í dag og komu margir með mismunandi ávexti og grænmeti t.d papriku, jarðaber, appelsínu og fl. Við héldum ávaxtaveislu og fórum svo í kaffi. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu. Hún var með mjög áhugavert verkefni fyrir okkur og okkur fannst það mjög fyndið. Hún var að kenna okkur að mjólka kú. Þar tosuðum við í „spena“ og kom út mjólk, mjög fyndið og gaman. Eftir kaffi fórum við svo út að leika í góða veðrinu.

Í þessari viku vorum við að læra málhljóðið Tt. Þar lásum við um Torfhildi trommuleikara í hljómsveitinni Tennurnar á Tröllaskaga. Með henni eru Tumi, Teitur og Tinna og sungum svo um Tuma að slá á trommu. 

Í Blæ vorum við að læra hvernig er hægt að hjálpa vinum sínum. Þar ræddum við hvað góður vinur gerir og gerir ekki og við hvað aðstæður sé hægt að hjálpa til. 

Takk kærlega fyrir góða viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

 

Vikan 15.- 19. febrúar 2021

Sæl kæru foreldrar. 

Þessi vika hefur verið skemmtileg og frábrugðin öðrum vikum. Bolludagur, sprengidagur og öskudagur vori í þessari viku og það var skemmtilegt.

Á mánudeginum vorum við hjá Kollu um morguninn. Við elskum að hoppa og skoppa um og hafa gaman þar. Í hádeginu fengum við Fiskibollur í tilfeni bolludagsins og í kaffinu fengum við svo vatnsdeigsbollur með sultu, rjóma og súkkulaðiglassúr. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudeginum fór hópur 1 í vettvangsferð. Við löbbuðum á Hvammsvöll og lékum okkur þar og síðan komu krakkarnir á Hlíð og voru að leika við okkur. Á leiðinni heim rúlluðum við okkur niður hóla og hoppuðum í pollum sem var mjög gaman. Á meðan var hópur 2 inni í hópastarfi. Þar voru þau að æfa sig í að púsla (æfa þolinmæði). Í hádeginu fengum við svo saltkjöt og baunir útaf sprengideginum. SALTKJÖT OG BAUNIR TÚKALL. Eftir hádegi fórum við út að leika í pollunum.

Á miðvikudaginn var öskudagur. Þá fengum við að mæta í náttfötum og um morguninn var haldið náttfataball inná Læk með Laut og Læk, það var ótrúlega gaman. Eftir ballið fórum við inná Laut þar sem var búið að búa til smá bíó og fengum við að horfa á Hvolpasveitina með rúsínur. Mjög skemmtileg tilbreyting frá venjulegum degi. Þegar myndin var búin/þegar við vorum ekki lengur með þolinmæði var opið flæði þar sem við gátum verið að leika okkur frammi, inná Lind og inná Læk. Það var búið að gera ganginn okkar mjög kósý, hann var skreyttur með stjörnum og tunglum og seta fyrir okkur lessófa. Í hádeginu fengum við svo heimabakaða pizzu í matinn sem gerði daginn enn betri og borðuðum við á okkur gat af henni. Við sofnuðum svo rosalega þreytt og sæl eftir daginn enda mikið um að vera þennan morguninn. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn fór vorum við inni í smá hópastarfi að spila en svo fórum við í frjálsan leik um morguninn. Það var rosalega gaman. Eftir hádegi fórum við út að leika í sól og blíðu. 

Á föstudaginn vorum við í smiðju hjá Nönnu. Þar vorum við að kenna okkur að byrja sauma, okkur fannst það mjög spennandi. Við áttum 3 ára afmælisprinsessu í dag. Fyrir kaffi bauð hún krökkunum uppá jarðaber og saltstangir og við sungum fyrir hana afmælissönginn. Við skemmtum okkur vel, drukkum svo kaffi og fórum út að leika.

Blæstundir í þessari viku var rætt um hvað er að gerast á mynd vikunnar. Við töluðum um hvað hægt væri að gera þegar við sjáum einhvern vera skilja útundan og hvort við höfum sjálf verið skilin útundan. Eins ræddum við um það hvað hægt væri að gera þegar okkur langar að prufa dót sem einhver annar er með. Í kjölfarið sköpuðust umræður um að leika öll saman, vera góð hvert við annað og skiptast á leikföngum.

Í Lubba vorum við að læra Pp. Þar lásum við sögu um hann Pálma á Patreksfirði. Þeir bökuðu pönnukökur og buðu Pétri presti og Páli pípara í veislu. Svo sungum við um poppið poppa bæði úr poka og potti og gerðum táknið með.

Takk æðislega fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 8.- 12. febrúar 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar. 

Þessi vika hefur verið ótrúlega skemmtileg, búið að vera gott veður sem við höfum nýtt vel og vandlega og við lært margt nýtt og skemmtilegt. 

Á mánudeginum var Kolla auðvitað á sýnum stað og tók við okkur og fór með okkur í allskonar skemmtilega leiki. Á meðan voru hinir inná deild að leika sér í frjálsum leik. Eftir kaffi fórum við svo út að leika. 

Á þriðjudaginn fór hópur 1 í vettvangsferð. Við löbbuðum hringinn í kringum kirkjugarðinn og stoppuðum á leikvellinum þar að æfa okkur smá áður en við héldum til baka. Komum heim mjög þreytt og sæl. Hópur 2 var á meðan inni í hópastarfi. Þar voru þau að læra muninn á litlu og stóru. Þau fengu blað með litlum og stórum dýrum þar sem þau máttu einungis lita stóru dýrin.  Þau héldu svo líka áfram að læra formin og litina. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á miðvikudeginum fór hópur 2 í vettvangsferð. Það var kominn snjór um morguninn og við drifum okkur af stað snemma. Göngutúrinn gekk frekar hægt fyrir sig vegna þess að auðvitað þurfti að stoppa í öðruhverju skrefi til þess að fá sér smá snjó. Við löbbuðum því lítinn hring og enduðum á Versalavelli og bjuggum til risa stórann snjókarl. Við fengum gulrót í eldhúsinu hjá Barböru og fórum svo í skóginn að týna steina og prik. Við skírðum snjókarlinn Herra Emilíus í höfuðið á henni Emilíu en hún var að búa til sinn fyrsta stóra snjókarl. Eftir það gerðum við snjóengla og héldum svo aftur í leikskólann. Á meðan var Hópur 1 í hópastarfi á meðan og voru þau líka að vinna með formin, stærðir og liti eins og hópur 2 daginn áður. Eftir kaffi fórum við út að leika að gera snjóengla. 

Á fimmtudeginum vorum við inni um morguninn. Við lékum okkur í holukubbum, púsluðum og með dýrin. Í dag áttum við áttum ekki eitt heldur tvö afmælisbörn hjá okkur í dag. Það var haldið tvöfalt afmælispartý og fengum við vínber og saltstangir frá afmælisprinsinum og popp og saltstangir frá prinsessunni. Við sungum fyrir þau og dönsuðum smá áður en við fengum svo kaffi. Eftir kaffi fórum vorum við inni. Við lékum með dýrin, lásum bækur og bjuggum til skutlur sem var mjög gaman. 

Á föstudeginum fórum við til Nönnu í smiðjuna. Þar vorum við að leggja lokahönd á bolluvendina okkar en nú er sko heldur betur að styttast í bolludaginn. Á meðan voru hinir inni að leika sér í frjálsum leik og smá hópastarfi. Fyrir kaffi var gaman saman með Laut og Læk. Það var mjög gaman. Eftir kaffi vorum við inni að leika. Við skiptum okkur í hópa og lékum okkur í skemmtilegum leik. 

Í Þessari viku vorum við að læra stafinn Oo í Lubba. Við lásum söguna um hann Ormar um vorið í Borganesi með hoppandi og skoppandi bolta.
                  Blær er en þá að kenna okkur að vera góð við hvort annað og ekki skilja útundan.  

- Við viljum minna ykkur á að svara foreldrakönnunnni á Skólapúlsinum.

-Við höfum verið að lenda í því að hliðunum sé ekki lokað á morgnana og viljum við minna ykkur á að loka hliðunum alltaf á eftir sér bæði á morgnana og seinnipartinn. Einnig viljum við minna á að grímuskylda er enn í gildi. 

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi 😊

Kv. Starfsfólkið á Lind. 

Vikan 1. – 5. febrúar 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur verið mjög skemmtileg hjá okkur. Tannverndarvikan var í þessari viku og höfum við verið að læra fullt tengt tönnunum. Við ræddum mikið hvers vegna er mikilvægt að bursta tennurnar okkar vel. Við höfum verið að æfa okkur vel að bursta óhreinindi af tönnunum vel og vandlega. Það fannst okkur mjög skemmtilegt og áhugavert.

Á mánudaginn fórum við til Kollu um morguninn. Þar var gamna að hlaupa og hoppa og skoppa um. Við vorum með 3ja ára afmælisstelpu hjá okkur svo við héldum afmæli, sungum fyrir hana og hún bauð okkur uppá popp og saltstangir. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á þriðjudaginn fórum við bæði í hópastarf og vettvangsferð öll saman. Í hópastarfinu vorum við mikið að læra um tennurnar okkar eins og kom fram áðan. Tannlæknastofan Elfu Guðmundsdóttir, sem er á móti leikskólanum okkar var svo almennileg að lána okkur gervigóma, tannbursta og tannþráð svo við gátum burstað vandlega og æft okkur hvernig á að nota tannþráð og tannbursta til að komast vel á milli tannanna. Einnig lærðum við hvað er hollt og hvað er óhollt að borða. Eftir það fórum við svo öll saman út í vettvangsferð. Það var mjög gaman að fara öll saman. Vegna dag leikskólans sem er á laugardaginn tókum við listaverk sem við höfum verið að föndra út í Salalaug og hengdum upp þar og vonum við að þið foreldrar komið og kíkið á því við erum mjög spennt að sýna ykkur. Það hefur verið fullt að gera í afmælum hjá okkur en við áttum afmælisprins í dag. Við héldum enn eina afmælisveisluna okkur til mikillar gleði, við sungum fyrir hann og hann bauð okkur uppá popp og saltstangir. Eftir kaffi fórum við svo út að leika. 

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika. Við fórum í smá hópastarf að æfa okkur að teikna formin, burstuðum tennurnar, lékum okkur í dúkkukrók og með dýrin. Eftir það höfðum við smá kósý og horfðum á bíó. Vegna tannverndarvikunnar horfðum við á Karíus og Baktus sem okkur fannst ótrúlega gaman og tilbreyting frá venjulegum degi hjá okkur. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á fimmtudaginn fór hópur út að leika í góðu veðri meðan hinn hópurinn var inni að leika og dansa. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Á föstudaginn vorum við að halda dagur leikskólan,  fórum við í smiðju til Nönnu um morguninn. Þar vorum við að seta tennur í gómana sem við höfum verið að mála og gera bolluvendina okkar tilbúna fyrir bolludaginn. Við erum mjög spennt fyrir því að fá að nota þá. Það var einnig opið flæði hjá okkur á öllum yngri ganginum og fengum við að leika okkur á Laut og Læk líka sem var mjög skemmtilegt. Fyrir kaffi vorum við með gaman saman með Laut og Læk. Það er alltaf jafn skemmtilegt að hittast öll og syngja og stundum dansa saman. Eftir kaffi fórum við svo út að leika, alltaf gott að enda vikuna á útiveru. 

Lubbi og Blær hafa verið á sínum stað þessa vikuna. Málhljóð vikunnar var Ii – Yy. Þar hlustum við á söguna um Yrsu og Indriða sem heimsóttu Innri-hvamm til að til að smakka á ilmandi kaffi og kakói og sungum um Indriða sem var í veseni að binda bindið sitt.

Takk fyrir æðislega viku og góða helgi.

 

 

Vikan 25. – 29. janúar 

Sæl kæru foreldrar. 

Þessi vika hefur verið mjög skemmtileg og góð þó svo við hefðum kannski viljað vera meira úti.

Á mánudaginn fórum við til Kollu í leiksalinn þar sem við fórum í gegnum þrautabraut sem hún var búin að setja upp fyrir okkur. Aðrir léku sér inná deild í frjálsum leik. Eftir kaffi fórum við svo út að leika, það var smá kalt en samt rosalega gaman. 

Á þriðjudaginn fór hópur 2 í hópastarf. Þessa viku vorum við að vinna með formin og liti. Við erum búin að klippa út form þar sem krakkarnir geta þreifað á og reynt að gera sér grein fyrir þeim. Við vorum líka að æfa okkur að teikna formin og fara eftir punktalínum. Á endanum flokkuðum við svo plúskubba inní form sem áttu við litina á kubbunum. Hópur 1 fór ekki í vettvangsferð þennan dag vegna kulda. Í staðin fóru þau fram að æfa sig í að púsla. Á næstu vikum ætlum við að reyna vinna meira með púslin okkar og æfa þolinmæðina hjá krökkunum en þau hafa hingað til ekki verið að endast í því. Eftir að hafa verið rosalega dugleg að púsla fengu þau að fara að leika í holukubbum og með lestateinana og byggðu fallegan kastala og lestar í kringum. Eftir kaffi var en þá rosalega kalt svo við lékum okkur inni í perlum, kubbum og plúskubbum. 

Á miðvikudaginn var orðið aðeins betra veður svo hópur 1 fór í vettvangsferð út í Salaskóla. Þar tóku skólakrakkarnir rosalega vel á móti okkur og þurftu kennararnir varla að fylgjast með okkur þar sem við vorum í mjög góðum höndum hjá eldri krökkunum sem hjálpuðu okkur með allt. Á meðan var hópur 2 í hópastarfi að vinna með það sama og hópur 1 daginn áður. Eftir kaffi vorum við aftur inni, lékum okkur í dúkkukrók og dönsuðum mikið inni í herbergi.

Á fimmtudeginum var en þá mjög kalt svo við héldum okkur inni. Við æfðum okkur öll í að púsla aftur. Við erum líka að æfa okkur í að velja einn stað til þess að leika á og vera þar í smá stund áður en við megum skipta. Eftir kaffi fórum við svo út að leika eins og vanalega, enda fastur liður svo lengi sem veðrið leyfir. 

 

Á föstudeginum fórum við í smiðju til Nönnu. Hún var að klára með okkur góm sem við byrjuðum á í seinustu viku fyrir tannverndarvikuna. Við vorum að líma tennurnar í góminn og síðan byrjuðum við að föndra bolluvöndinn okkar fyrir bolludaginn. Það var mjög gaman. Það var ein 3ja ára afmælisprinsessa hjá okkur en hún bauð okkur uppá blábær og salstangir og við sungum fyrir hana og héldum afmælisveislu. Fyrir kaffi fórum við svo í gaman saman með Laut og Læk sem var mjög skemmtilegt. Eftir kaffi fórum við svo út að leika.

Í Þessari viku var málhljóð Lubba Ss. Þar lásum við skemmtilega sögu um systkin Sunnu og Snorra sem heimsækja Sólmund frænda sinn á Stykkishólmi. Við hlökkum til svo í næstu viku að læra Ii – Yy.

Í næstu viku er svo tannverndarvika hjá okkur. Þar ætlum við að fara vel í af hverju við þurfum að bursta tennurnar vel og æfa okkur að bursta óhreinindin af tönnunum með tannbursta. Það verður svo líka farið vel í hvað er hollt og gott að borða svo tennurnar fái ekki skemmdir og hvað það þurfi að bursta vel ef maður fær sér sætindi.

Við viljum minna foreldra á að ef um veikindi eða fjarveru barns er að ræða þá viljum við óska eftir því að þið skráið það í Völuna. 

Við viljum einnig minna á að kjósa dagsetningar fyrir sumarfríið sem þið fenguð sent í pósti í vikunni.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja, starfsfólkið á Lind.

 

 

Vikan 18. – 22. janúar 2021

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Vikan hefur gengið vel fyrir sig og rútínan okkar orðin góð og við búin að skemmta okkur mjög vel. 

Á mánudaginn fórum við til Kollu fyrir hádegi eins og alla aðra mánudaga. Þar er alltaf jafn skemmtilegt og gott að fá hreyfa sig smá. Aðrir léku sér inná deild með perlur, sem er alltaf vinsælt, pinna, bílana og auðvitað dúkkukrók en þar eru alltaf einhverjir að leika sér í góðum leik. Eftir kaffi fórum við svo út í æðislegt veður.

Á þriðjudaginn fór hópur 1 í vettvangsferð eins og alla þriðjudaga. Við löbbuðum á leikvöllinn fyrir ofan Blásali. Þar skemmtum við okkur í að róla, renna og gera snjóengla. Við héldum svo áfram og fórum á annan rólóvöll fyrir ofan Straumsali. Þar héldum við áfram að leika okkur einnig í að renna, róla og gera snjóengla en þar er líka stór brekka þar sem við lékum okkur í að renna okkur aftur og aftur. Á meðan var hópur 2 í leikskólanum í hópastarfi. Þar vorum við að æfa okkur í að klippa, telja, læra tölurnar og skrifa þær og erum við bara búin að ná nokkuð góðum tökum á því. Eftir kaffi fórum við svo út því í mjög gott veður.

Á miðvikudaginn fór svo hópur 2 í vettvangsferð.  Þar sem hópur 1 skemmti sér svo vel daginn áður í brekkunni hjá Straumsölum þá ákváðum við að fara líka þangað. Við tókum með okkur rassaþotur og löbbuðum upp alla „sikk-sakk“ brekkuna. Það er ekki hægt að telja á fingrum og tám hvað við renndum okkur margar ferðir þar en þær voru allavega fleiri en tuttugu. Á leiðinni heim renndum við okkur svo á rassaþotunum niður alla brekkuna svo við vorum sko alls ekki lengi á leiðinni heim.  Á meðan var hópur 2 í hópastarfi að æfa sig í því sama og hópur 1 daginn áður. Eftir kaffi fórum við svo auðvitað út að leika.

Á fimmtudaginn skellti einn hópur sér út að leika í garðinn um morguninn. Á meðan lék hópur sér í plúskubbum, með bíla og dúkkukrók. Eftir kaffi fórum við aftur út en veðrið er heldur betur búið að leika við okkur annað en í seinustu viku og erum við alsæl með það. Við fórum í smá leik. Það var búið að hengja endurskinsmerki með mynd af okkur útum allan garð og við hlupum út um allt til þess að finna okkar merki. Það var mjög gaman, við fórum stolt heim og sýndum foreldrum okkar.  

Á föstudaginn fórum við í smiðju til Nönnu um morguninn. Þar var hún að gera víkingahjálm með okkur. Í hádeginu fengum við að smakka alls kyns þorramat. það var misgott en við fengum meðal annars að bragða  hákarl. Einnig áttum við góða “gaman saman” stund á yngri gangi með öllum víkingabörnum leikskólans þar sem þau sunguhástöfum skemmtileg þorralög. Eftir kaffið fórum við svo út að leika.

Síðustu tvær vikurnar höfum við frætt börnin um hvernig lífið var á Íslandi á öldum áður/í gamla gamla daga. Við höfum sýnt þeim bæði myndir og hluti frá þessum tíma .
Við erum auðvitað búin að vinna með Lubba í þessari viku en málhljóð vikunnar er Ff. Þar lesum við söguna um Freyju sem var á Fáskrúðsfirði að flétta á sér hárið þar sem hún sér fálka og týnir fífla og syngjum svo um fiðrildin flögra úti í haga.
                  Blær bangsi og vináttuverkefnin hans voru á sínum stað, og eru börnin okkar að verða alltaf meir og meir meðvitaðri um sínar eigin tilfinningar og eiga léttara með að útskýra fyrir okkur hvernig þeim líður í amstri dagsins.

 

Við viljum þakka fyrir frábæra viku, gleðilegan bóndadag og góða helgi.

Kveðja starfsólkið á Lind 😊  

Vikan 11-15. janúar 2021

Heil og sæl kæru foreldrar.

Í þessari viku erum við búin að vera koma okkur í rútínu aftur. Allt skipulagt starf er hafið og eru allir mjög glaðir með það, kennarar og börn. 

Á mánudaginn fórum við í leikvang fyrir hádegi hjá Kollu. Alltaf gott að fá smá útrás eftir helgina þar. Hinir léku sér á meðan í dúkkukrók, perla og pinna. Fyrir kaffi vorum við svo heppin að Selma gaf okkur saltstangir því hún átti afmæli svo við höfðum litla afmælisveislu og sungum fyrir hana. Eftir kaffi vorum við fljót að koma okkur út því það var svo frábært veður og ekkert smá gaman að leika í úti. 

Á þriðjudaginn fór hópur 1 í vettvangsferð þar sem þau löbbuðu upp á Hvammsvöll og léku sér heillengi þar. Á leiðinni heim fundum við stóra brekku og renndum við okkur nokkrar ferðir þar, nýta restina af snjónum áður en hann færi. Hópur 2 var á sama tíma inni í hópastarfi. Þar var verið að leggja áherslu á smá stærðfræði, sortera hluti og svo var farið í fínhreyfingar sem endaði svo með frjálsum leik. 

Á miðvikudaginn var veðrið ekki alveg að vinna með okkur svo Hóp 2 var skipt í tvennt, annar hópurinn var inni í innra herbergi að leika með nýju kaplakubbana okkar sem eru búnir að valda mikilli ánægju, alltaf gaman að fá nýtt dót. Hinn helmingurinn var frammi í dúkkukrók á meðan. Hópur 1 var á meðan í svipuðu hópastarfi og hópur 2 tók á þriðjudeginum.
                   Eftir hádegi var veðrið ekki mikið búið að skána svo við höfðum það bara kósý inni í perlum, púsli og meiri skemmtilegum frjálsum leik.

Á fimmtudeginum á var mikil innivera vegna hálku. Um morguninn vorum við í hópastarfi að æfa okkur að klippa og skrifa eftir línum. Eftir kaffi var bara pínu frjáls leikur þar sem börnin fengu að velja það sem þeim finnst skemmtilegast að leika með.

Á föstudeginum fórum við í smiðju til Nönnu um morguninn. Það var mjög gaman en hún var að gera tilraunir með okkur sem var mjög spennandi. Við lékum okkur líka inná deild með dýrin, kubbana og nú erum við byrjuð að æfa okkur að perla með litlu perlunum.  Eftir hádegi fórum við í gaman saman með Laut og Læk, það var mjög gaman að syngja með þeim. Eftir kaffi fórum við loksins út að leika.

Í vikunni byrjuðum við aftur með Lubba og Blæ. Málhljóð vikunnar í Lubba er Gg þar sem við lærum að syngja um hænu og hana sem gagga og borða grjónagraut. Þar lesum við einnig sögu um Hanin Eggert sem bý í Grindavík.
                   Við erum búin að hafa nokkrar Blæ stundir þar sem við lesum sögu um vináttu, fáum bangsann okkar og erum að læra að nudda hann og vera góð.
                   Við hlökkum mikið til að halda áfram að læra fleiri málhljóð og halda áfram að læra um vináttu á næstu vikum. Í næstu viku lærum við svo málhljóðið Ff.

Takk kærlega fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kv. Starfsfólkið á Lind 😊

Vikan 4-8 janúar 2021

 

Heil og sæl kæru foreldrar. 

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það liðna. Vonum að þið hafið haft að það gott yfir hátíðirnar. 

Í þessari viku erum við búin að vera að setja okkur aftur í gang eftir allt fríið. Það var svo gaman að sjá börnin og fá að knúsa þau á þriðjudaginn en þá lékum við okkur bara inni um morguninn, fórum í smá hópastarf en vorum líka að leika í frjálsum leik. Við skelltum okkur svo út eftir kaffi í æðislegt veður. 

Á miðvikudaginn fórum við með annan hópinn í vettvangsferð og skelltum okkur á íþróttavöllinn bakvið kirkjugarðinn og gerðum þar nokkrar æfingar. Það var alveg ofboðslega gott að komast út um morguninn aðeins að hreyfa okkur, hlupum, valhoppuðum og rúlluðum okkur niður allar brekkur. Vettvangsferðin var þó styttri en vanalega þar sem öllum var orðið frekar kalt snemma enda janúarmánuðurinn þekktur fyrir að vera frekar kaldur. Á meðan var hinn hópurinn inni í hópastarfi. Við æfum okkur að sortera eftir litum og formi, telja og æfum fínhreyfingar með að sauma/þræða í gengnum spjöld. Eftir kaffið fórum við svo aftur út að leika í litla garðinum.

Á fimmtudaginn var aðeins of kalt um morguninn til þess að fara út svo við vorum bara inni að leika. Við skiptum okkur upp í 2 hópa, annar hópurinn var í innra herbergi og var að leika sér með lestarnar og búa til lestabrautir á meðan hinn hópurinn var frammi að sauma, pinna og leika með bílana. Eftir kaffi fórum við svo út að leika eins og vanalega, enda fastur liður svo lengi sem veðrið leyfir. 

Í dag fóru krakkarnir í smiðju til Nönnu sem var mjög gaman að þæfa ull og búa til listaverk.

Í næstu viku förum við svo aftur á fullt með skipulagt starf. Þá byrjum við aftur með Lubba og Blæ og vikulegar vettvangsferðir fyrir alla.


Á mánudaginn 11 janúar er svo Marokkóskur dagur í leikskólanum, krakkarnir mega koma klæddir eða með eitthvað tengt Marokkó.
                    Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,

KV. Starfsfólkið á Lind.

 

 

Vikan 14-18 desember 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika er búin að vera svo skemmtileg, settum  upp jólatréð , skreyttum jólatréð  og héldum svo jólaball. Það var svo gaman að sjá hvað krakkarnir skemmtu sér í vikunni. Þau eru alveg frábær. 

Á mánudaginn fórum við í leikvang til kollu og fengum að losa smá orku hjá henni, krakkarnir okkar eru með ansi mikla orku sem er æðislegt. Við settum svo upp stóra jólatréð okkar í matsalnum og fannst þeim svo gaman að sjá og skoða það. Við sjáum að þau eru orðin mjög spennt fyrir jólunum og jólasveinunum. Sungum og dönsuðum við öll jólalög sem við fundum og skelltum okkur svo út að leika. 

Á þriðjudaginn skelltum við okkur út fyrir hádegi því það var svo æðislegt veður, veturinn hefur ákveðið að bíða aðeins og leyfa okkur að fara mikið út  í desember. Fórum í stóra garðinn að hjóla og róla. Söknum samt að fá að borða snjóinn og búa til snjókalla. Skreyttum jólatréð með fallegu listaverkunum sem krakkarnir gerðu sjálfir sem þau fá svo að taka með heim. Sungum ennþá fleiri jólalög og það sofnuðu flest allir innan við 5 mín. Höfum saknað þess mikið að fá að fara út alltaf á morgnanna. Svo skelltum við okkur aftur út eftir kaffið. 

Á miðvikudaginn héldum við svo jólaball um morguninn og það var ótrúlega gaman. Dönsuðum í kringum jólatréð og sungum fuuuullt af jólalögum. Krakkarnir skemmtu sér mjög mikið og kennararnir líka. Við fengum svo jólamat í hádeginu sem var hangikjöt, uppstúfur, grænar baunir og rauðkál. Okkur langaði svo að við myndum borða öll saman svo við settum öll 3 borðin saman og fallegan dúk og áttum mjög notalega stund í hádeginu áður en við lögðum okkur svo. Við fengum svo mjög skemmtilega heimsókn í útiveruna, 2 jólasveinar komu, Stúfur og Skyrgámur sem skemmtu krökkunum, það urðu nokkrir hræddir hjá okkur en alls ekki slæmt leiddum þau bara og þá voru allir glaðir. Þetta var yndislegur dagur og fengu þau öll pakka frá jólasveinunum sem þau tóku með sér heim.

Á fimmtudaginn vorum við bara í kózí stemmingu inni. Hópur fór fram í dúkkukrók, stelpurnar voru með kaffi boð sem þær buðu í, hinir voru inni á deild að búa til bílalest og leika sér með dýrin og svo búa til strætó eða lest með stólunum. Það er svo gaman að sjá þau leika sér í svona hlutverkja leikjum og einnig gaman að sjá hvað þau eru að tengjast alltaf meira og meira. Við skelltum okkur svo út eftir kaffið í góða veðrið.

Áföstudaginn fóru þau í smiðju til Nönnu og þar sem þau eru búin að jólaföndra allt sem þau áttu að gera að þá voru þau bara að lita og leika sér, á meðan voru hinir inni í rólegum leik. Skelltum okkur svo út eftir kaffið. Þetta er síðasta heila vikan fyrir jól og vonum við að allir eigi sem bestu jól. Í dag kveiktum við á síðasta aðventukertinu sem nefnist Englakertið og höfum við þá kveikt á öllum fjórum kertunum. Núna í desember hafa börnin verið að föndra jólagjafir fyrir foreldra sína og voru þau send heim með pakkana í gær til að setja undir tréð heima. Í þessari viku vorum við að njóta samverunnar með krökkunum og áttum hreinlega æðislega viku.

Takk fyrir æðislega viku og góða helgi,

Gleðileg jól.

Kveðja starfsfólkið á Lind 

 

Vikan 7-11 desember2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur gengið mjög vel og krakkarnir eru orðin mjög spennt fyrir jólunum. 

Á mánudaginn fóru krakkarnir í leikvang til Kollu og þau fengu góða útrás þar. Þau gerðu allskonar þrautir og hoppuðu og skoppuðu. Á meðan voru hinir í frjálsum leik inná deild. Það var alveg yndislegt að komast loksins út eftir kaffið og fá frískt loft. Veðrið var ekki alveg að vinna með okkur í síðustu viku. 

Á þriðjudaginn voru krakkarnir bara í rólegum leik inná deild um morguninn. Skiptum þeim í hópa og annar hópurinn fór fram í holukubba og hinir voru inn á deild í frjálsum leik. Það er mikið sungið jólalög bæði í samverustund og fyrir utan samverstundina. Það eru nokkrar stelpur sem sitja saman eins og í saumaklúbb og syngja jólalögin saman. Við skelltum okkur svo út eftir hádegi í gott og ferskt loft.

Á miðvikudaginn fór hópur út að leika um morguninn og hinn hópurinn varð eftir inni í frjálsum leik. Við vorum með púsl, perlur og lego sem þau máttu leika sér með. Þau eru orðin mjög dugleg að sitja og dunda sér og maður sér rosalegan mun sem er bara æðislegt. Fengum alveg yndislegt veður og vorum ekki lengi að drífa okkur út eftir kaffið. 

Á fimmtudaginn vorum við inni fyrir hádegismat því allur garðurinn var dansandi hálka, okkur leist ekki alveg nógu vel á það svo við tókum bara dansinn inná deild og sungum og dönsuðum. Hópur fór líka fram í dúkkukrók þar sem þeir sameinuðust með öðrum krökkum af laut og læk. Við fórum ekki út eftir kaffið aftur vegna hálkunnar en náðum samt að eiga góða stund inná deild. 

Í dag  fell niður smiðja hjá Nönnu. Í dag var þriðja jólasamverustundin þar sem allur leikskólinn kom saman á yngri gangi til að kveikja á Hirðakertinu og syngja nokkur jólalög. Krakkarnir voru bara í rólegum leik inná deild og svo skelltum okkur svo út eftir kaffið.

Við erum byrjuð að senda hópa í málörvun svo það er byrjað aftur eftir smá Covid pásu. Núna erum við búin að syngja um 2 kerti, Spádómskertið, Betlehemskertið og nú erum við að læra að syngja um Hirðarkertið. Okkur hefur sko aldrei fundist leiðinlegt að syngja og erum við syngjandi alla daga allan daginn inná deild og að læra ný lög tekur enga stund, enda algjörir snillingar. Við áttum mjög notalega viku þar sem það var mikið um frjálsan leik þar sem þessi mánuður er oft mjög stressandi fyrir marga. 

Næsta vika verður mjög skemmtileg og hlökkum við mikið til að byrja þá viku. 

14 .desember munum við setja upp stóra jólatréð. 

15. desember skreytum við jólatréð með jólaskrauti sem krakkarnir gerðu. Þau máluðu glæran geisladisk með jólalitunum og glimmeri. 

16. desember eru svo litlu jólin þar sem við höldum jólaball og dönsum í kringum jólatréð. Við fáum svo jólamat, hangikjöt og uppstúf. Svo koma jólasveinar út í garð um 3 leytið. 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,

Kv. Starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 30.nóvember – 4.desember 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Á mánudaginn fóru krakkarnir til Kollu í leiksal og það var ótrúlega gaman. Þau gerðu allskonar þrautir og gaman að fá að hreyfa sig aðeins, ekki í kuldagalla og og öllu innanundir. Á meðan voru hinir að jóla föndra og leika sér inná deild. Við erum farin að leika mikið meira með trékubbana okkar og elska þau að búa til allskonar skemmtilegt með þeim. Fengum góðan hádegismat og lögðum okkur. Skelltum okkur svo út eftir kaffið og lékum okkur vel. Carmen tók myndir af öllum börnunum í jólasveinabúningum og kom það sjúklega skemmtilega út. Þessi árlega jólasveinamyndataka er heldur betur að slá í gegn hjá börnunum

Á Þriðjudaginn lékum við okkur inni að jóla stússast og hafa það notalegt inn á deild. Fengum okkur góðan hádegismat og lögðum okkur. Við vorum inni eftir kaffið þar sem veðrið var ekki alveg til í að leyfa okkur að fara út að leika. 

Á miðvikudaginn byrjuðum við daginn á rólegum leik þar sem nú er sko heldur betur komið frost. Lékum okkur í dúkkukrók og byggðum allskonar skemmtilegt úr kubbunum einnig gerðum við jólaföndur þar sem við ætlum að skreyta jólatréð með. Þar sem það er orðið svona kalt að þá fórum við ekki út með litlu englana okkar og lékum okkur líka inni eftir hádegi, fengum okkur brauð og mjólk og fórum svo að leira og leika okkur í dúkkukrók.

Á fimmtudaginn var sko heldur betur búið að bæta í frostið og við ekkert á leiðinni út. Við höfðum það bara ótrúlega kósý og lékum okkur inni í dúkkukrók og sameinuðumst hinum deildunum svo að krakkarnir gætu leikið saman. Lásum jólabækur í samverustundinni og sungum jólalög og það er sko sungið jólalög allan daginn. Við lékum okkur aftur inni eftir kaffið og verðum við að reyna að gera 

Í dag vorum við hjá Nönnu og erum við að föndra jólagjafir og gera allskonar jólaföndur. Á meðan voru hinir í kósý leik inná deild. Fengum okkur góðan hádeigsmat og lögðum okkur í smá stund. í dag var Gaman saman í ganginum hjá okkur og var kveikt á annars aðventukerti, við sungum saman nokkur jólalög og að sjálfsögðu lagið um Betlehemskerti sem erum búin að vera að læra í vikunni. Við erum heldur betur að læra ný jólalög enda fátt annað skemmtilegra að læra allskonar ný lög. Það sem er núna í uppáhaldi er „Í skóginum stóð kofi einn“, „Adam átti syni sjö“og svo „Geimferðalangur“ þeim var óvart sýnt það lag en það sló heldur betur í gegn. Það er orðið svo stutt til jóla og erum við svo mikið að njóta hérna í leikskólanum þegar við förum ekki út að þá spilum við jólalög og syngjum og dönsum ásamt því auðvitað að leika okkur. 

Í næstu viku verður áfram bara svona kósý stemming inn á deild og vonandi fáum við aðeins betra veður svo við komumst nú eitthvað út. 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,

Kv. Starfsfólkið að Lind. 😊

 

Vikan 23.-27. nóvember 2020

 

Sæl kæru foreldrar,

Þessi vika var mjög skemmtileg og gekk eins og í sögu. Við erum heldur betur komin í geggjað jólaskap og hér er sungið jólalög allan daginn út og inn.

Á mánudaginn fóru krakkarnir í leikvang til Kollu og að venju var það mjög gaman enda ekki búin að fá að fara þangað í dágóðan tíma sökum samkomubanns. Fengum góða útrás og gerðum allskonar þrautir og hoppuðum og skoppuðum. Við fengum svo geggjað veður og drifum okkur út að leika eftir kaffið.

Á þriðjudaginn var engin vettvangsferð þar sem það var ekki nógu gott veður og við vorum þá bara inni að leika okkur. Eftir kaffitímann fór svo helmingurinn út og hinn helmingurinn varð eftir að baka piparkökur. Þetta var ótrúlega gaman, hlustuðum á jólalög og höfðum það mjög kósý. Krakkarnir fóru svo út þegar þau voru búin að gera sínar kökur.

Á miðvikudaginn fóru 2017 börnin í vettvangsferð með 2017 börnunum á Laut og löbbuðu þau frekar langt en á skemmtilegan róló bakvið gólfvöllinn. Það er rosalega gaman að sjá hvað börnin eru að ná að tengjast vel, Lindar og Lautar börnin. Á meðan voru krakkarnir sem áttu eftir að baka piparkökur að klára að baka sínar. Sumir fengu sér smá að smakka á deiginu enda er það hrikalega gott og bara gaman að smakka smá (sumir aðeins meira en smá). Við skelltum okkur svo út að leika eftir kaffið og vorum við heppin að ná áður en kalda veðrið skall á.

Á fimmtudaginn vorum við inni að leika okkur fyrri hádegi enda ákvað gul viðvörun að læðast til okkar. En við gerðum bara gott úr því og lékum okkur frammi í dúkkukrók og inná deild í rólegum leik. Við erum líka að jólaföndra inná deild og vorum við að mála jólasveina. Við fengum svo að borða piparkökurnar sem við bökuðum fyrr í vikunni í kaffitímanum og fengum heitt súkkulaði með. Við vorum svo bara inni á deild eftir kaffitímann í rólegum leik.

Í dag fórum við í smiðju til Nönnu, loksins. Okkur finnst mjög gott þegar við erum í rútínunni okkar. Allir fengu að búa til jólatré og okkur finnst nú alls ekki leiðinlegt að föndra og hvað þá þegar það er jólaföndur. Krakkarnir fengu svo að taka piparkökurnar heim þar sem við búum við ansi leiðinlega tíma núna og getum ekki boðið ykkur foreldrunum uppá piparkökur og heitt súkkulaði, en vonandi fer nú að koma að því að við getum haldið gott foreldrakaffi og tekið spjall. í dag var fyrsti aðventu stund hjá okkur, við á yngri gang hittust fyrir kaffi og sungum nokkrar jólalög saman og kveiktum  á fyrsta aðventukertið „ spádómskerti“

Núna þegar desember er að koma í næstu viku þá fer Blær og Lubbi í smá frí og byrjum við að föndra allskonar jólaföndur. Við erum í Þessari viku vorum  að læra málhljóðið Ll og gengur það bara mjög vel enda eru þessi börn frábær og fljót að læra ný málhljóð. Þetta er síðasta málhljóðið fyrir Lubba fríið. Við erum frekar heppin að hafa 2 jólaálfa sem byrja að skreyta og hlusta á jólalög í september (Rakel og Selma) og þær eru til í að hlusta á jólalög allan daginn með krökkunum og föndra jólaskraut. Við ætlum að njóta þess mikið í desember. Vonandi fáum við í næstu viku aðeins meiri snjó og gott veður svo við getum nú farið að búa til snjókalla og borða meiri snjó. Við erum mjög heppin með börnin okkar þar sem þau elska að leika sér úti í snjónum þá aðallega að borða hann en við kennararnir elskum líka snjóinn og hlökkum við mikið til þegar það fer að snjóa meira.

Takk fyrir æðislega og skemmtilega viku og góða helgi,

Kv. Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 16. – 20. Nóvember 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur verið mjög skemmtileg. Við erum byrjuð að læra að syngja jólalög og okkur finnst það mjög gaman, enda ekki langt í að jólin og ekki seinna vænna en að byrja að læra þau.

Á mánudaginn var afmæli leikskólans. Krakkarnir fengu að mæta í búning/furðufötum og þau voru svo ótrúlega flott öll sem eitt. Um morguninn héldum við ball frammi á gangi með öllum yngri gangi og skemmtu sér allir svo vel. Eftir ballið vorum við með opið flæði milli deilda og gaman að sjá hvað þau dreifðu sér vel og fannst gaman að skoða aðrar deildir og leika með nýtt dót. Í hádeginu var Dominos pizza og það þarf ekki að spurja að því hvað krakkarnir voru ánægðir með það. Í kaffitímanum var einnig smá öðruvísi matur en við fengum kex og með því og rjúkandi heita eplaköku með rjóma. Eftir kaffi fórum við svo öll út að leika, ótrúlega sátt með daginn.

Á þriðjudaginn fór einn hópur í vettvangsferð og náðum við að klára verkefnið „ég og húsið mitt“. Ótrúlega gaman að sjá hvað þetta verkefni koma skemmtilega út uppkomið á vegginn hjá okkur. Á meðan var hinn hópurinn inni í smá hópastarfi. Eftir hádegi fórum við svo út að leika. 

Á miðvikudaginn ákvað kuldaboli heldur betur að kíkja í heimsókn og vorum við inni allan daginn. Við máluðum jólakort sem var ótrúlega gaman, fórum í smá hópastarf og lékum okkur að allskonar skemmtielgu dóti. Eftir hádegi héldum við áfram að leyfa 2017 börnunum að hittast frá Lind og Laut og leyfa þeim að tengjast áður en farið verður á eldri gang. Þau fóru í leiksalinn í leik og dans, mjög gaman. 2018 börnin voru inni á deild og fengu að leira sem er í miklu uppáhaldi og léku sér með fleira skemmtilegt dót.

Á fimmtudaginn var skipulagsdagur  við kennararnir vorum fyrir hádegi á fyrirlestri um einelti sem var áhugaverður og nauðsynlegt að rifja upp annað slagið. Eftir hádegi fengum við fyrirlestur um skemmtilegt verkefni sem hefur verið í gangi í 10 leikskólum í Kópavogi, þar að meðal okkar, sem kallast Snemmtæk íhlutun. Við fengum að heyra frá fjórum leikskólum hvernig þau hafa verið að vinna verkefnið og skipulag á því. Það var ótrúlega áhugavert og mikið af upplýsingum sem við getum tekið til okkar og notað hér á Fífusölum ef þið hafið áhuga á  að skoða okkar handbók er hún kómin á heimasíðunna okkar. Síðan nýttum við okkur daginn til þess að jólaskreyta deildina smá og gera hana kósý.

Á föstudaginn spurðum við börnin hvort þau vildu leika inni eða úti. Auðvitað vildu þau öll fara út enda fyrsta skiptið í vetur sem jörðin er þakin snjó. Eftir hádegi fórum við svo aftur út að leika enda svo frábært veður. 

 

Í Þessari viku vorum við að læra málhljóðið Uu. Þar fengum við að kynnast henni Unu sem unir sér vel að safna undorfögrum jurtum. Börnunum fannst þetta málhljóð mjög skemmtilegt þar sem þau fengu að ulla smá ;)

Í næstu viku verður seinasta vikan okkar á nýju málhljóðu áður en við ætlum að taka okkur smá pásu á Lubba og njóta desembers í smá jólaföndur og kósý svo seinasta málhljóðið okkar verður Ll sem við hlökkum til að læra. 

Einnig munum við taka pásu á Blæ í desember. 

Við munum þó byrja aftur í leikvang og smiðju í næstu viku og hlökkum við mikið til að komast í smá skipulagt starf. Skipulagt starf er yfirleitt ekki í desember en þar sem við höfum ekki fengið að fara í leikvang og smiðju lengi ætlum við að hafa það í þetta sinn. 


Næsta miðvikudag ætlum við að baka piparkökur. Þar sem það verður ekkert foreldrakaffi þetta árið ætlum við að halda okkar eigin jólakaffi á fimmtudaginn. Þá ætlum við að hafa jólakósý inná deild með jólalögum og svo borðum við  piparkökrunar okkar í kaffinu, fáum heitt súkkulaði og hafa það huggulegt. 

 

Takk æðislega fyrir góða viku og góða helgi J

 

Kveðja starfsfólkið á Lind.

Vikan 9. – 13. nóvember 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi viku hefur verið gengið ótrúlega vel fyrir sig og allir að ná tökum og farnir að venjast nýju rútínunni okkar.  Það er ótrúlega gaman að sjá leikinn hjá krökkunum þróast með hverri viku sem líður. 

Á mánudaginn buðum við börnunum að velja hvort þau vildu leika inni eða úti. Það kom okkur ekki mikið á óvart en þau vildu öll fara út enda finnst þeim það einna skemmtilegast að gera í leikskólanum. Það var frábært veður og allir í góðum leik svo auðvitað fórum við líka út eftir kaffi.

Á þriðjudaginn vorum við inni að leika fyrir mat. Það var fljúgandi hálka úti svo við hættum okkur ekki í vettvangsferð að klára verkefnið „ég og húsið mitt“. Við skiptum okkur í hópa, fórum fram í dúkkukrók, lékum með einingakubbana, playmo og bílana sem var mjög skemmtilegt. Eftir kaffi var hálkan þó farin að minnka og við fórum út að leika. 

Á miðvikudaginn fór hópur í vettvangsferð og erum við enn að vinna verkefnið með heimilin okkar. Langur göngutúr (3 km) í æðislegu veðri og allir rjóðir í kinnum og þreyttir við komu aftur í leikskólanum. Á meðan var hópur í leikskólanum í hópastarfi. Við vorum að vinna með stærðfræði, numicon og formin. Eftir hádegi fórum við svo út að leika. 

Á fimmtudaginn vorum við inni að leika fyrir hádegi sem var mjög skemmtilegt. Fyrir kaffi héldum við svo uppá 3 ára afmæli hjá vinkonu okkar, við sungum fyrir hana, hún gaf okkur saltstangir og bláber og svo enduðum við afmælispartýið á að dansa og syngja saman. Eftir hádegi bauð veðrið ekki uppá útiveru svo við vorum inni að leira, púsla og dúkkukrók.

Á föstudeginum fórum við út að leika beint eftir ávaxtastund sem er auðvitað alltaf jafn skemmtilegt. Eftir hádegi fórum við svo aftur út að leika.

Við erum búin að vera mjög dugleg að vinna með Lubba og Blæ þessa vikuna.

                        Lubbi er að kenna okkur málhljóðið Ee þessa vikuna. Hann er að segja okkur sögu um hana Evu sem klífur Esjuna með Ellerti bróður sínum. Í næstu viku ætlum við að læra Uu og getum við ekki beðið eftir nýrri sögu.

                        Blær er búinn að vera kenna okkur um vináttu. Við erum búin að vera læra að vera góð við hvort annað og erum við að vinna með að nudda bæði bangsann okkar og hvort annað.

 Næsta mánudag á Leikskólinn okkar 19 ára afmæli. Þá mega krakkarnir mæta í furðufötum/búning. Við ætlum að fagna með að halda afmælisball kl.09:15 og hafa flæði milli deilda á yngri gang til 10:30.

Takk fyrir skemmtilega viku og góða helgi 😊

Kv. Starfsfólkið á Lind

  

Vikan 2. - 6. nóvember 2020

Heil og sæl kæru foreldrar.

Þessi vika hefur verið frekar skrítin og öðruvísi hjá okkur en hún hefur gengið mjög vel og við tæklað aðstæður frábærlega.

Á mánudaginn var skipulagsdagur hjá okkur þar sem kennararnir náðu að skipuleggja vel næstu tvær vikur og taka ákvarðanir samkvæmt sóttvarnarlögum. Við tókum fund á teams til þess að virða fjöldatakmarkannir og komu frábærar niðurstöður til þess að láta leikskólastarfið ganga vel fyrir sig.


                        Á þriðjudaginn og miðvikudaginn héldum við áfram með verkefnið sem við höfum verið að vinna með „ Húsið mitt“.  Við fórum í vettvangsferðir báða dagana að fleiri heimilum á meðan hinir máluðu og föndruðu húsið sitt í leikskólanum. Eftir hádegi fórum við auðvitað út að leika og skemmtum okkur konunglega með öllum yngri gangi í litla garðinum.

Á fimmtudaginn fór hópur út að leika sér um morguninn meðan hinir voru inni að leika sér með dublo kubba og bíla þar sem var mjög gaman að fylgjast með þeim blanda dóti og búa til skemmtilegan leik úr því. Vegna hertra aðgerða höfum við verið að nota litla garðinn en þar sem það var enginn í stóra garðinum af eldri gangi í dag fengum við að leika þar. Krakkarnir voru mjög ánægð með það þar sem þau komust loksins í hjólin aftur og létu þau veðrir sko alls ekki stoppa sig í skemmtilegum leik.
                        Eftir hádegi vorum við inni að leika vegna veðurs.

Á föstudaginn var útivera fyrir hádeginu og verður útivera eftir hádegi. Mjög gaman enda elskum við að vera úti að leika. Við ætlum að halda „Gaman Saman“ með Lækja og Lautabörn fyrir kaffi og við á Lind erum búin að velja lagið  „Það er skemmtilegast að leika sér“ sem við ætlum að syngja fyrir vinir okkar.

                        Við erum en þá að vinna með Lubba og málhljóð vikunnar. Lestrarátak Lubba er einnig en þá í fullum gangi og gaman að sjá hvað krakkarnir eru enn dugleg í að lesa heima og hengja upp beinin á fjallið hans Lubba. Í þessari viku vorum við að læra málhljóðið Hh sem var mjög gaman. Í næstu viku ætlum við svo að byrja að læra Ee.

Þessi vika hefur verið með öðruvísi hætti vegna aðstæðna í samfélaginu. Þessa og næstu tvær vikur verður ekki leikvangur og smiðja hjá krökkunum vegna hertra aðgerða og þar sem yngri gangur er eitt sóttvarnarhólf og eldri gangur annað getum við ekki verið að nota sameiginlega staði í húsinu.

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kveðja starfsfólkið á Lind 😊

 

Vikan 23 – 27. október 2020

Þessi vika hefur gengið mjög vel og krakkarnir voru svo glaðir og svo gaman að sjá þau leika sér. 

Á mánudaginn fóru krakkarnir í leikvang til Kollu og gerðu þar skemmtilegar þrautabrautir. Fengum okkur svo hádegismat og lögðum okkur í smá stund. Skelltum okkur í kaffi og svo beint út að leika. 

Á þriðjudaginn var skipulagsdagur. Við kennararnir vorum á  málþingið “Bara leikur” sem streymt var á netinu tekið fyrirFlottir fyrirlestrar um leikinn/frjálsa leikinn sem mikilvæg námsleið, fróðleikur og fullt af góðum hugmyndum sem munu nýtast okkur vel í starfinu. Deildarstjórar voru mjög ánægðir með góðar og skemmtilegar umræður sem sköpuðust á deildunum varðandi leik barna og hlutverk okkar kennaranna í leiknum. á fyrirlestrum um leik hjá börnum og það var ótrúlega áhugavert og hlökkum til að tileinka okkur það sem við lærðum. 

Á miðvikudaginn fórum við í vettvangsferð og erum við núna að gera verkefnið „ég og húsið mitt“ þar sem við löbbum í húsin hjá krökkunum og tökum mynd af þeim og þau síðan mála húsið sitt og skreyta. Á meðan var hinn hópurinn í hópastarfi inni á deild með einingakubbar og í dúkkukrókkur. Skelltum okkur svo út eftir kaffitímann.

Á Fimmtudaginn fór hópur út um morguninn og hinn hópurinn var eftir inni að leika sér. Hjólin eru í miklu uppáhaldi hjá öllum krökkunum úti og eru þau komin í mjög skemmtilega ýmundunarleiki sem er mjög mjög gaman að fylgjast með. Dúkkukrókurinn er mikið notaður þegar við erum að leika inni og myndast oft mjög skemmtilegir leikir þar. 

Í dag fóru krakkarnir til Nönnu og voru þau að vinna verk í þriviðri með leir og opin efniviður.

Það er ótrúlega gaman að sjá hvað krakkarnir eru duglegir að lesa heima og finnst þeim svo gaman að koma í leikskólann og fá að hengja upp Lubba beinið sitt. Í þessari viku vorum við að læra málhljóðið Jj og var það mjög skemmtilegt. Í næstu viku munum við læra málhljóðið Hh.

Í næstu viku ætlum við að byrja að vinna með svokallað flæði eða blöndun á milli Lautar og Lindabarna fædd 2017. Komum við til með að bjóða þeim í leikvang eftir hvíld og í frjálsan leik á sitthvorri deildinni einu sinni í viku. Við erum ótrúlega spennt fyrir þessu en markmiðið er að börnin tengist innbyrðis og þau þrói og efli góð félagsleg tengsl við hvort annað. Frábær grunnur og aðlögun fyrir komandi flutninga á eldri gang.

 

Takk fyrir frábæra og skemmtilega viku og góða helgi.

Kv. Starfsfólkið á Lind. 😊

 

 

Vikan 19-23 október 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur gengið bara rosaleg vel og svo gaman að sjá hvað þeim líður vel hjá okkur hérna á leikskólanum og eru farin að leika sér mikið í skemmtilegum ímyndunar leikjum. 

Á mánudaginn fóru krakkarnir til Kollu og gekk það bara ótrúlega vel enda finnst okkur svaka gaman að fá að hlaupa og hoppa inni í leikvang. Þau fóru í gegnum skemmtilega þrautabraut. Fengum okkur Fiskibollur í hádegismatinn og lögðum okkur svo aðeins. Vöknuðum í heimabakað brauð sem var æði og fórum svo út að leika okkur. 

Á þriðjudaginn fórum við með hóp 1 í vettvangsferð og við fórum á hvammsvöll. Á meðan var hópur 2 í hópastarfi inni á deild. Þau vor að flokka litina, telja og svo skrifa inní línur af tölustafnum 2. Fengum okkur svo heita og góða grænmetissúpu í hádegismat og lögðum okkur svo aðeins. Vöknuðum í yndislegt heimabakað brauð og skelltum okkur svo út að leika. 

Á miðvikudaginn fór hópur 2 í vettvangsferð og skelltu þau sér í æfingartækin. Aðeins verið að taka á því í leikskólanum. Þau skemmtu sér mjög vel og komu glöð til baka í leikskólann. Á meðan var hópur 1 í hópastarfi inn á deild og voru þau einnig að lita línur í tölustafinn 2 og flokka og telja litina. Fengum svo æðislegt grænmetis lasagne og fórum södd og sæl að leggja okkur. Vöknuðum svo í heimabakað brauð og skelltum okkur svo út að leika. 

Á fimmtudaginn vorum við bara inni að leika okkur. Við vorum að leira, kubba og lesa bækur þar sem það var ekki alveg nógu gott veður um morguninn. Fengum svo soðna ýsu sem allir elska og var borðað mjög vel, lögðum okkur svo smá, fengum heimabakað brauð og skelltum okkur út að leika. 

Í dag fórum við til Nönnu sem er alltaf skemmtilegt. Eigum marga listamenn hjá okkur á Lind. Þau voru að sauma og þræða perlur og bjúgu falleg hjarta til að hengja í glugganum.í dag fengum yndislegt lifrabuff og skelltum okkur í föstudagslúrinn og vöknuðum svo var „Gaman Saman“ og fórum svo út að leika eftir kaffitíma.

Þar sem við erum í Lubba lestrar átaki að þá höfum við verið að lesa í öllum samverustundum ásamt því að halda áfram með málhljóðin. Í þessari viku vorum við að vinna með málhljóðið Vv og var það ótrúlega skemmtilegt að læra það. Það er alveg frábært að sjá hvað krakkarnir eru dugleg að lesa heima og koma með bein í leikskólann. Endilega halda því áfram.

Við erum einnig líka að tala mikið um hann Blæ okkar þar sem við erum ennþá að læra að deila hlutum og skiptast á og að við erum öll vinir. 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kv. Starfsfólkið á Lind. 😊

 

 

Vikan 12-16 október 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika var mjög skemmtileg og náðum við að dansa, syngja, og leika okkur alveg mjög mikið og það er svo gaman að fylgjast með þeim í öllu sem þau gera.

Á mánudaginn var leikvangur hjá Kollu og eins og alltaf þá gekk það bara ótrúlega vel og þau elska að fara Kollu, það er beðið við hurðina þangað til hinir eru sóttir. Á meðan hóparnir voru að fara til Kollu þá voru hinir bara í lek inná deild.

Á þriðjudaginn fórum við með hóp 1 í vettvangsferð og skelltum við okkur á hvammsvöll. Við fengum æðislegt veður og hauslaufblöðin útum allt. Okkur fannst skemmtilegt að taka nokkur laufblöð upp í einu og kasta þeim upp í loft. Það var mikið hlegið. Á meðan var hópur 2 í hópastarfi og voru þau að æfa sig að herma eftir tölustafnum 1, telja og flokka liti.

Á miðvikudaginn fengum við ekki svo gott veður svo við fórum bara með hóp 2 út í garð svo að hópur 1 hafði næði til að vera í hópastarfi. Þau gerðu það sama og hópur 2 gerði í hópastarfinu og eru þau algjörir snillingar, eiga eftir að ná tökum á þessu strax.

Á fimmtudaginn vorum við með rosalega frjálsan morgunn. Þeir sem vildu fara út fóru út og þeir sem vildu leika inni léku sér inni. Hjólin úti eru orðin rosa vinsæl og er byrjað að tala um þau í matartímanum, hver ætlar að hjóla með hverjum þótt þau eigi eftir að fara í hvíld og borða kaffi. Það er alltaf að gott að vera með þetta á hreinu áður en maður leggur sig og borðar kaffið. 😉

Í dag fóru krakkarnir til Nönnu í smiðjuna og voru að teikna sjálfsmynd og málað bleiku bakgrund í tilefni dagsins og  fyrir kaffi ætlum við að halda GAMAN SAMAN.

Við erum búin að vera að vinna með málhljóðið Úú í þessari viku og er þetta alltaf jafn spennandi og skemmtilegt. Sagan um Úú. Úlfhildur og fjölskyldan ætluðu í útilegu á Úlfljótsvatni en heyrðu í útvarpinu að veður spáin var ekki góð svo þau hættu við. Þeim finnst mjög skemmtilegt að hlusta á allar lubba sögurnar og skemmir ekki að lögin eru mjög skemmtileg.

Viljum minna á skipulagsdaginn þriðjudaginn 27 október. 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kv. starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 6-9 Október 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

 

Við fengum stutta viku hérna í leikskólanum þar sem það var ekki leikskóli á mánudaginn en þrátt fyrir aðeins styttri viku þá var þessi vika mjög skemmtileg. 

Á þriðjudaginn fórum við með hóp 1 vettvangsferð og skelltum við okkur á rólóvöllinn fyrir ofan blásalir. Á meðan var hópur 2 í hópastarfi og voru þau að æfa sig að telja og flokka litina, gulur, rauður, grænn og blár. Þeim er að ganga rosalega vel og sjáum við miklar framfarir. Góður dagur hjá krökkunum.

Á miðvikudaginn fór svo hópur 2 í vettvangsferð og þau skelltu sér á 3 rólóvelli ekki meira né minna og ekkert smá dugleg að labba þetta allt saman. Hópur 1 gerði það svo það sama í hópastarfinu og gekk þeim einnig rosalega vel og sjáum við framfarir hjá þeim líka.

Á fimmtudaginn vorum við með smá ávaxta partý vegna heilsuvikunnar sem við erum með þessa vikuna og svo einnig gerðum við allskonar æfingar á dýnum, hoppuðum mikið og fleira skemmtilegt. nokkrir krakkar skelltu sér út í rigninguna og það var rosalega gaman.

í dag forum við í smiðju hjá Nönnu og voru allir að gera haust listaverk (mála tré og líma laufblöð) og svo vorum við að æfa okkur með skæri og endaði tíma með söng og dans.
                         Við vorum með flæði milli deilda á yngri gangi þar sem hver deild bjó til nokkrar æfingar eða þrautabraut sem krakkarnir fóru í. Það var rosalega skemmtilegt.
                         Fyrir kaffi ætlum við að hafa skemmtilega söngstund sem við köllum GAMAN SAMAN á yngri gangi. Við ætlum að syngja hástöfum Lubba vísurnar og fleiri skemmtilegt lög.

Í Lubbastundir þessa vikuna höfum við lagt inn málhljóðið Íí, farið með tákn málhljóðsins, sungið vísuna og skoðað myndir í Lubba bókinni. Börnin eru ótrúlega flink með táknin sem tilheyra málhljóðunum, og eru þau mörg farin að gera táknin ómeðvitað. Alltaf skemmtilegar og notalegar stundir með honum Lubba okkar.

 

Takk fyrir vikuna og njótið helgarinnar.

Kv. Starfsfólkið á Lind. 😊

 

 

Vikan 28 sept. – 2 okt. 2020 

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur gengið mjög vel.

Á mánudaginn fóru krakkarnir til Kollu og þau fóru í gegnum mjög skemmtilegar þrautabrautir. Þau er að standa sig súper vel hjá kollu enda finnst þeim svo gaman að fá að hoppa og príla inni í leikvang.

Á þriðjudaginn fór svo hópur 1 í vettvangsferð og þau skelltu sér á hvammsvöll að leika þar. Þeim finnst rosalega gaman að fá að leika þar og þá eru þau mikið í að róla í barnarólunum og fara í húsin og vera í hlutverkaleik. 

Á miðvikudaginn fór svo hópur 2 í vettvangsferð og skelltum við okkur að sjá Búdda styttuna og þar voru kannski aðeins of margir pollar en við lékum okkur að veiða í pollunum og svo auðvitað vorum við að hoppa. 

Á fimmtudaginn vorum við bara úti því við fáum að hafa stóra garðinn útaf fyrir okkur sem er æði. 

Í dag ætlum við að hafa GAMAN SAMAN  öll börn á yngri gang , við ætlum að rifja upp öll málhljóð Lubba og líka syngja skemmtilegt lög saman. 

Í Listasmiðju hjá Nönnu eru börnin búin að vinna alls konar skemmtilegt verkefni. Skrímslamyndir, Haustmyndir (stimpla laufblöð) og í dag var Sulludagur (vatn,slím,penslar, korktappar,garn og fleira í sullukeri)

Við vorum í þessari viku að vinna með málhljóðið Dd og gekk það mjög vel. Í næstu viku munum við svo byrja að læra málhljóðið Íí og hlökkum við mikið til þess. 

Á meðan hver hópur var í vettvangsferð og hinn hópurinn var í hópastarfi og voru þau að læra formin hringur, ferningur og þríhyrningur.Þau voru að  Para saman form og liti einnig að læra að telja  saman pinna í sama lit .þau eru algjörir snillingar og þetta á eftir að taka enga stund að ná þessu.

Í næstu viku er heilsuvika hjá okkur í leikskólanum og á fimmtudaginn 8. okt. ætlum við að vera með ávaxta/grænmetisdag þar sem börnin koma með einn ávöxt eða eitt grænmeti og svo höldum við veislu.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,

Kv. starfsfólkið á Lind. 😊

 

 

Vikan 21-25 september 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Langar að byrja að segja ykkur um hópastarfi okkar. Í hópastarfi þessa vikuna höfum við lagt inn málhljóðið Nn, farið með tákn málhljóðsins og sungið vísuna góða úr Lubba bókina um Nn. Blær kom í heimsókn og fengu þau að knúsa litlu góðu vininina sína, en hvert barn á sinn Blæ. Í Blæ stundunum kennum við þeim fyrstu samskiptin og leggjum grunn að því að þau séu góð hvert við annað. 

Við erum líka að innleiða  stærðfræði, rökhugsun og talnaskilningi í hópastarfi. Við nótum Numicon, allskónar spil, pinnar og fleira til þess.https://serkennslutorg.is/throskastigin/vitsmunathroskirokhugsun/numicon-staerdfraedi/numicon-mynstur-og-talning/

Einnig hlustuðum við sögurnar "Svarta kisa " fyrir alla hópana og erum að læra vísunar „Fagur fiskur í sjó“ og „Ugla sat á kvisti“

Við vinnum mikið með leikinn í hópastarfi, en að vinna með litla hópa er frábær vettvangur til að efla félagsfærni og samleik á milli barnanna, við fylgjumst náið með samskiptum þeirra og veitum leiðsögn ef þarf. Með tímanum læra þau að eiga góðan leik með vinum sínum, skiptast á leikföngum og að taka tillit til hvors annars.

Þessi vika var mjög skemmtileg og einnig líka smá skrítin þar sem ástandið fer ekki batnandi og erum við að reyna okkar besta að gera okkar besta. Erum aðeins búin að fá að finna fyrir kuldanum í þessari viku og er gott að fara að koma með kuldagallann í leikskólann.

Á mánudaginn fóru krakkarnir til Kollu og fóru í gegnum allskonar skemmtilegar þrautir. Þau elska að vera í leikvangi þar sem þau fá að hreyfa sig og koma út allri þessari orku sem þau eiga. svo var borðað hádegismat og lögðum okkur svo við hefðum meiri orku í útiveruna eftir kaffi.

Á þriðjudaginn fórum við með einn hópinn í vettvangsferð. Við ákváðum að skella okkur í æfingatækin því þeim finnst ekki leiðinlegt að leika þar og taka nokkrar æfingar og sýna okkur kennurunum hvað þau eru sterk. Einnig nota þau þetta sem rólur. Komum beint í samverustund þar sem við erum að læra Lubba og Blæ. Fengum okkur hádegismat og lögðum okkur svo.

Á miðvikudaginn fór hinn hópurinn í vettvangsferð og við ákváðum að fara líka í æfingatækin með þau. Skelltum okkur svo inn í samverustund eftir mikla útiveru og knúsuðum Lubba og sungum, fengum okkur svo hádegismat og lögðum okkur í smástund.

Á fimmtudaginn var útivera og frjálsleikur hjá okkur.

Á föstudaginn fórum við svo í smiðju til Nönnu. Eins og alltaf höfum við notið útiverunnar eftir síðdegishressingu og hlaupið um, leikið með útidótið okkar og ærslast með vinum okkar.

Það sem er gott að hafa í útifatahólfinu þegar það verður kaldara og snjórinn kominn, Flís/ullarpeysu, flís/ullarbuxur, nokkur pör af vettlingum (ef þeir blotna er rosa gott að barnið sé með annað til skiptanna), ullarsokka, góða og hlýja húfu, góða kuldaskó og kuldagalla.

Aðlögunarviðtölin fyrir börnin sem byrjuðu í sumar eru tilbúin og við erum bara að bíða eftir að ástandið með veiruna slaki aðeins á svo hægt sé að halda þau.

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,

Kveðja starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 14-17 september2020.

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur gengið ótrúlega vel.

Á mánudaginn var leikvangur hjá Kollu og gekk það mjög vel hjá þeim öllum. Kolla setti upp mjög skemmtilega þrautabraut þar sem þau áttu að fara í gegnum orm, klifra og hanga í hringjum og labba á allskonar hring mottum með allskonar áferðum á. Þetta gekk ótrúlega vel og fannst þeim þetta líka mjög gaman. Einnig fengum við póst alla leið frá Ástralíu frá honum Blæ sem kom til okkar og er að hjálpa okkur með vináttu verkefnið okkar.  Hlökkum mikið til að kynnast honum Blæ meira. 

Á þriðjudaginn fór hópur 1 i vettvangsferð og við fórum í Salaskóla að leika okkur og það var ótrúlega gaman. Við elskum að leika okkur í Salaskóla á trampólínunum, í kóngulóavefnum og svo má ekki gleyma rólunum... Við hættum sko ekki að elska rólurnar. 

Á miðvikudaginn fór svo hópur 2 í vettvangsferð og við skelltum okkur aftur í strætó og á bókasafnið. Þar fengu þau að lesa bækur og svo las Rakel eina bók fyrir þau áður en við lögðum af stað aftur uppí leikskóla. Fengum alls ekki gott veður og okkur langaði ekkert út í það skítaveður svo við vorum bara inni að leika okkur. 

Á fimmtudaginn fórum við beint út eftir ávaxtastund og vorum með stóra garðinn alveg útaf fyrir okkur sem okkur finnst nú ekki leiðinlegt þar sem það þarf ekki að slást um hjólin okkar svo við nutum þess mikið að fá að hjóla og auðvitað róla.

Föstudagur – skipulagsdagur.

Í þessari viku vorum við að vinna með málhljóðið Bb og gekk það mjög vel. Í næstu viku munum við svo vinna með málhljóðið Nn og hlökkum mikið til að halda áfram með málhljóðin. 

Hérna kemur slóð fyrir heimasíðuna um Blæ ef þið viljið skoða betur. https://www.barnaheill.is/is/forvarnir/vinatta/um-vinattu

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kv. Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 7-11 september 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Vikan gekk ótrúlega vel og gaman að sjá hvað þau eru dugleg að gera það sem við setjum upp í hópastarfinu. Þau eru algjörir snillingar.

Á mánudaginn var leikvangur hjá Kollu og gekk það bara eins og í sögu. Kolla settu upp þraut sem krakkarnir fóru í gegnum og stóðu þau sig bara mjög vel. Eftir hádegi var svo farið beint út að leika eftir kaffitímann þar sem okkur finnst best að vera, úti að leika.

Á þriðjudaginn fórum við með annan hópinn í vettvangsferð og skelltum við okkur á Hvammsvöll þar sem þau fengu að hlaupa um og leika sér, þeim fannst mjög gaman enda var smá bras að koma þeim aftur á leikskólann sem hafðist þó á endanum. 

Á miðvikudaginn fór svo seinni hópurinn í vettvangsferð og skelltum við okkur í strætó. Planið var að fara á bóksafnið í Hamraborg þar sem það er lesin ein saga fyrir krakkana en það byrjar víst ekki aaalveg strax svo við fórum bara á hoppubelginn og urðum við alveg rennandi blaut og þurftum við gera að fataskipti á öllum þegar við komum aftur uppí leikskóla. Aðal sportið var samt að fara í strætóinn og bíða eftir honum í strætóskýlinu. Þau voru líka alveg ótrúlega dugleg hlýddu okkur kennurunum og stóðu sig svo vel.

Á fimmtudaginn fórum við út fyrir hádegi og kvöddum svo eina mjög góða vínkonu okkar þegar við komum inn. Hún ætlar að fara í nýjan leikskóla og munum við sakna hennar alveg rosalega mikið. Við kennararnir á Lind viljum óska henni góðs gengis í nýja leikskólanum og þökkum henni fyrir samstarfið og að fá að kynnast svona frábærri stelpu sem hún er. 

Í dag fóru krakkarnir í smiðju. 

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,

Kv. Starfsfólkið á Lind. 😊

 

 

Vikan 31 ágúst-4 september 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika var yndisleg og gekk ótrúlega vel að byrja í hópastarfinu, þau eru algjörir snillingar. 

Á mánudaginn fóru þau í leikvang og gekk það ótrúlega vel. Kolla setti upp brautir sem krakkarnir fóru eftir og komu þau öll rosa glöð úr leikvangi. 

Á þriðjudaginn fórum við með annan hópinn í vettvangsferð og fórum við í æfingartækin sem okkur finnst svo skemmtileg og gerðum nokkrar æfingar. Á meðan var hinn hópurinn í skipulögðu hópastarfi.

Á miðvikudaginn fór svo hinn hópurinn og þau fóru líka að gera æfingar í æfingartækjunum gekk allt rosalega vel, voru mjög dugleg að labba og héldu vel hópnum sínum. Á meðan var hinn hópurinn í hópastarfi og voru þau að vinna með numicon sem þeim finnst rosalega skemmtilegt.

Á fimmtudaginn vorum við mikið úti að leika í góða veðrinu sem var að vísu smá kalt en við létum það ekki stoppa okkur.

Í dag fóru svo börnin í smiðju og

 

Við erum byrjuð með lubba og tökum hann fyrir í hverri samverustund og erum við að læra málhljóðið Aa núna í þessari viku og þau eru svo klár að gera táknið með hljóðinu.‘i næstu viku þá byrjum við á Mm málhljóðið.

Við viljum benda ykkur svo á að hringja á deildina (4415211) eða senda tölvupóst á Carmen ( carmen@kopavogur.is ) ef það eru veikindi eða annað sem þarf að tilkynna þar sem völu appið okkar er ekki að vinna með okkur og leyfir okkur ekki að sjá skilaboðin nema það sé farið í tölvu.

Minnum líka á skipulagsdaginn sem er 18 september.

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

kv. Starfsólkið á Lind. 😊

 

vikan 24-28 ágúst 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Vikan var alveg ótrúlega góð hjá börnunum. Þau eru svo dugleg að leika sér og er rútínan alveg að koma hjá þeim. við höfum fengið æðislegt veður í vikunni og erum við búin að vera rosalega mikið úti fyrir og eftir hádegi og það finnst okkur æðislegt að fá að hlaupa úti í strigaskóm og á peysunni. Börnin sem byrjuðu í aðlögun hjá okkur í síðustu viku eru algjörir snillingar og alveg komin með þetta og ná svaka vel við börnin á deildinni sem er æðislegt. Nýja stelpan sem byrjaði hjá okkur í vikunni er líka að ná svaka vel við krakkana og finnst þeim smá skrítið að hún skuli tala ensku en ekki íslensku en þau munu vera stór partur í því að hjálpa okkur að kenna henni íslensku. 

1 September mun svo skipulagt hópastarf byrja. Við verðum með leikvang á mánudögum og smiðju á föstudögum. Viljum minna á að þegar það er smiðja að klæða börnin ekki í fínasta pússið sitt þar sem þau munu vera að mála og annað og viljum ekki að það fari í nýju fínu fötin. Inn á milli þessara daga verðum við með hópastarf inná deild. Við erum einnig að byrja með Lubba og verður hann tekinn fyrir í samverstund þrísvar í viku til að byrja með. 

 

Takk fyrir æðislega viku og góða helgi.

kv. Starfsfólkið á Lind. 😊

 

vikan 17-21 ágúst 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur gengið æðislega vel og erum við rosalega glaðar að sjá börnin eftir sumarfríið. Þau eru alveg með þetta, strax komin aftur í góða rútínu hérna í leikskólanum. Þessar fyrstu vikur eftir sumarfrí höfum við verið að leyfa þeim að leika eins og þau vilja inni og úti til þess að tengjast aftur eftir sumarfríið og eru þau algjörir snillingar þar sem það gengur mjög vel. Við höfum fengið alveg frábært veður þessar fyrstu vikurnar og höfum við nýtt það vel og erum mikið úti að leika. Skipulagt starf byrjar svo 1. september.

Í vikunni fengum við 2 ný börn í aðlögun og hefur það gengið eins og í sögu. Þau eru rosalega dugleg að koma sér í leik, gekk vel að kveðja foreldra og þau eru að standa sig svo vel. Erum hreinlega í skýjunum með þessi frábæru börn sem við erum með. 

Í næstu viku fáum við svo eina nýja stelpu í aðlögun sem kemur frá Bandaríkjunum. Okkur hlakkar mikið til að kynnast henni og bjóðum hana velkomna til okkar á Lind.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,

Kv. starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 29 júní – 3 júlí  2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika var æðisleg í alla staði og mikið að gera hjá krökkunum. Þetta er síðasta heila vikan okkar saman fyrir sumarfrí og vonandi munu þið njóta í botn.

Á mánudaginn fengum við æðislegt veður bara eins og við viljum hafa það, hlaupa út í skóm og léttri peysu svo við vorum úti allan daginn og fengum smá hvíld frá sólinni þegar við fórum inn að leggja okkur. Krakkarnir eru vel útitekin eftir alla þessa sól sem við höfum verið að fá í vikunni. Á þriðjudaginn fórum við með hóp í vettvangsferð og fórum við frekar stóran hring í salahverfinu, fórum upp sikk sakk brekkuna og svo á róló hjá blásölum. Við elskum að skoða lúpínur, fífla og blása á bifukollurnar, þau voru ekkert smá dugleg að labba alla þessa leið og leika sér. Á miðvikudaginn vorum við með hjóladag og það var mjög gaman hjá okkur. Fórum snemma út og hjóluðum margar ferðir fyrir utan leikskólann. Á fimmtudaginn fengum við aftur svona æðislegt veður og fórum þá með seinni hópinn í vettvangsferð og fórum við á sama róló og með fyrri hópnum. Við vorum úti allan daginn og skemmtum okkur mjög vel.

Á miðvikudaginn 8. júlí munum við loka leikskólanum klukkan 13:00 og verða því foreldrar að koma að sækja fyrir 13:00. Það verður ekki hvíld, við förum beint út að leika eftir hádegismat.

 

Takk fyrir æðislega viku og góða helgi,

 

Kv. Starfsfólið á Lind. 😊

Vikan 22-26 júní 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Vikan hefur gengið mjög vel og krakkarnir voru ótrúlega duglegir. 

Á þriðjudaginn fórum við með einn hóp í vettvangsferð í salaskóla og skemmtu þau sér mjög vel þar. Þau eru mikið í því að klifra upp kastalann og þau eru orðin svaka dugleg að klifra, hoppa á trampólíninu og svo finnst þeim alls ekki leiðinlegt að róla og renna í aparólunni. Við fengum sko heldur betur að finna fyrir rigningunni hérna og urðum við eiginlega að skipta um flest föt eftir útiveru þá dagana, en það er allt í góðu því að krakkarnir skemmtu sér vel. á fimmtudaginn var svo sumarhátíð. Við byrjuðum daginn á að skreyta leikskólann og fórum svo út. Lotta kom svo og skemmti okkur með mjög skemmtilegu leikriti um Öskubusku og var mikið hlegið. Það var svo grillað pylsur í hádegismat og þau voru öll mjög glöð með það. Eftir hvíldina fengu svo þeir sem vildu andlitsmálningu, spiderman, regnboga eða kisu völdu okkar krakkar. Hoppukastalar og sápukúlur voru svo allan daginn sem krakkarnir gátu farið í þegar þeim langaði. 

Viljum minna á að það þarf að fara yfir aukafataboxið og fylla á ef vantar. 

 

Takk fyrir frábæra og mjög skemmtilega viku,

kv. starfsfólkið á Lind. 😊

  

Vikan 15-19 júní 2020.

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika var ansi stutt en skemmtileg var hún. Við vorum með aðlögun á mánudaginn og gengur svo vel hjá nýja drengnum að við erum alveg í skýjunum með hann, hann er duglegur að leika við hina krakkana á deildinni og þau dugleg að sýna honum og leika við hann. Einn hópur fór í vettvangsferð á þriðjudaginn og fóru þau uppí Salaskóla, þar finnst þeim rosalega gaman að leika. Engin leikskóli var á 17. júní og vonandi að allir skemmtu sér vel og ekki skemmdi hvað það var gott veður. Í dag var svo Íþrótta dagur. Við á Lind bjuggum til hlaupabraut þar sem krakkarnir hlupu hálfan hring í kringum rólurnar og fengu svo stimpil. Einnig var spilaður fótbolti og fleiri leiki í æðislegur veðri, erum búin að vera mjög heppin með veður þessa vikuna.

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,

Kv. starfsfólið á Lind. 😊

 

 

Vikan 7-11 júní 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Það var mikið að gera hjá okkur þessa vikuna og var vikan mjög fljót að líða. Á mánudeginum vorum við með sulldag eftir kaffið þar sem okkur finnst mjög gaman að sulla og það var rosa mikið fjör. við fórum með einn hóp í vettvangsferð á miðvikudeginum, við löbbuðum í salaskóla og lékum okkur þar í æðislegu veðri og náðum að týna helling af blómum. 2017 börnin fóru í vettvangsferð með Nönnu á fimmtudagsmorgun. Það er alveg að koma 17. júní svo krakkarnir máluðu hjá Carmen íslenska fánann inna á deild. Núna er leikvangur komin í sumarfrí svo við munum reyna að nýta fleiri tíma á morgnanna til að föndra eða fara í vettvangsferðir og vera bara úti að leika. Í dag fengu svo krakkarnir að taka með sér útidót í leikskólann og var það mjög spennandi. 

 

Á mánudaginn byrjar nýr drengur í aðlögun hjá okkur og viljum við bjóða honum velkomin til okkar og hlökkum til að kynnast honum. 

Takk fyrir brábæra viku og góða helgi,

Kv. starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 1-5 júní 2020

 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika var mjög skemmtileg og gekk mjög vel með alla. Fengum gott veður í enda vikunnar og það var algjört æði að njóta allan daginn úti með börnunum létt klædd eins og þeim finnst best að vera. Vonandi að við fáum fleiri svona æðislega daga.

Þriðjudag og fimmtudag skiptum við deildinni upp í sitthvorn hópinn og fórum við í vettvangsferð. Fyrsti hópurinn fór á æfingasvæðið sem við höfum verið að fara mikið á í vetur og seinni hópurinn labbaði á rólóvöll nálægt blásölum. Báðir hóparnir voru mjög duglegir að labba og var mjög gaman hjá þeim. 

Á miðvikudeginum vorum við með hjóladag og skemmtu krakkarnir sér mjög vel og hjóluðu þau margar ferðir og ekkert smá dugleg að hjóla þessi litlu kríli okkar sem eru samt orðin svo stór. 

Það verða engar breytingar á deildinni í haust og munu 2017 börnin okkur vera ennþá hjá okkur og munum við svo fá fleiri 2017 börn eftir sumarfrí. Við munum svo kveðja 2 drengi af deildinni fyrir sumarfrí þar sem þeir eru að hætta hjá okkur og koma ekki aftur eftir sumarfrí og við munum svo sannarlega sakna þeirra rosalega mikið. 

Við viljum minna ykkur kæru foreldrar að LOKAÐ HLÍÐIÐ STRASS þegar þig eru að sækja börnin ykkar, það hefur komið fyrir að börn hef farið út fyrir hlíð á þessari stuttu stund sem tekur að fara og koma.

það væri gott að þig skoðið auka fötin í aukafataboxinu, það er sulludagur næsta mánudag hjá okkur. 

 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi.

Kv. starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 25-29 maí 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Vikan hefur gengið mjög vel og byrjuðum við vikuna á sulldag, þá settum við vatn í stórt kar sem var úti og fengu krakkarnir að sulla eins og þau vildu og það fannst þeim ekki leiðiðnlegt. Við reynum að fara út bæði á morgnanna og eftir kaffi því okkur finnst svo gaman að leika úti. Krakkarnir fóru til Kollu þessa vikuna og voru þau að gera alls konar þrautir og hafa gaman. Núna í júní byrjar sumarstarfið og munum við minna á hvern dag fyrir sig inná Facebook. Á miðvikudaginn 3. júní verður hjóladagur og þá koma krakkarnir með hjólið sitt eða það sem þau nota og mikilvægt að muna eftir hjálminum og að allt sé merkt. Nýji drengurinn er núna búin með aðlögunina og erum við að vinna í því að hann aðlagast okkar rútínu og að ná að tengjast börnunum betur.

Á starfsdaginn í síðustu viku fórum við kennararnir á Lubba námskeið og munum við byrja með hann í haust og hlakkar okkur mikið til að byrja að vinna með hann.

Viljum líka minna foreldrana sem eiga að mæta í foreldraviðtölin 2. júní.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
kv. starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 11-15 maí 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Loksins hafa börnin öll getað mætt í leikskólann og við kennararnir í vinnu og komast í rútínu þetta er búið að vera ansi stressandi tímar og vonum að þið hafið haft það gott.

Í þessari viku höfum við verið að nýta tímann í það að leyfa börnunum að aðlagast aftur eftir tvo mánuði í tveimur hópum og er allt að ganga rosalega vel og þau strax byrjuð að leika sér saman. Við erum búin að sjá svo margar framfarir hjá svo mörgum, margir að hætta með bleyju, yngstu börnin alveg orðin óhrædd og eru bara ákveðin og hafa mikið að segja okkur kennurunum. Á þriðjudaginn fórum við með helminginn af börnunum í smá vettvangsferð og við höfum verið að nýta okkur alla góðu dagana sem við fáum í að skella okkur í smá göngutúr að losa um þessa miklu orku sem þau hafa. Við förum alltaf út strax eftir kaffi og höfum verið að nýta okkur tímann 1-2 að leyfa börnunum sem eru vöknuð að leika sér aðeins úti, svo við erum eiginlega úti bara allan daginn. Krakkarnir eru farnir að hlaupa útum allt í stórgarðinum og þau eru farin að leika við önnur börn á öðrum deildum sem er gaman að sjá, við erum rosalega stoltar af þessum snillingum sem við eigum.

Við viljum benda á að það er gott ef að börnin gætu mætt með flís eða ullarbuxur þegar veðrið er gott svo þau þurfa ekki að vera í regnbuxunum og einnig flís eða ullarpeysu. Einnig er gott að hafa bæði stígvél og strigaskó.

Á mánudaginn mun svo nýr strákur koma í aðlögun til okkar á Lind og viljum við bjóða honum velkomin til okkar. Okkur hlakkar mikið til og höfum við aðeins verið að nefna það við börnin að núna er nýr strákur að byrja hjá okkur og finnst þeim það mjög spennandi.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 2- 6 Mars 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika er búin að ganga vel og var mjög skemmtileg. Þau borða vel, sofa vel og rosa dugleg að leika sér.

Á þriðjudaginn fórum við í vetfangsferð, tvö 2017 og þrjú 2018 börn fóru í vetfangsferðina og löbbuðu þau að Hvammsvelli og léku sér þar og það var æðislega gaman hjá þeim.

Í hópastarfi höfum við verið að spila, leika okkur með numicon og alls kyns segulkubba og plúskubba, Þræða, pinna og púsla. Við höfum verið að leggja nokkra áheyrslu á í vikunni að telja frá 1-5 þar sem krakkarnir bjuggu til tening með Carmen og notuðum við þá svo í samverustund að telja. Þau fengu svo að taka teninginn með heim til að æfa sig heima með mömmu og pabba. 

Við erum allaf að sjá hvað allir eru að bæta í hópastarfinu sem er mjög gaman. þau eru farin að þekkja betur grunnlitina, telja 1-5 og svo nefna húsdýrin og hljóðin þeirra, við höldum áfram með hópastarfið á morgnanna og munum hægt og rólega fara að bæta nokkrum litum og tölum inní hjá okkur. við erum að æfa líka færni með skæri og grip á blýantana. 

Í smiðju þessa vikuna voru krakkarnir að gera blöðru tilraun sem Nanna gerði með þeim og eru að fara að byrja á að gera páskaskraut. Í leikvang eru þau að gera þrautir og hoppa um og leika sér. Þau elska að fá að hoppa og hreyfa sig hjá Kollu. Við höfum fengið æðislega fallegt veður þessa vikuna og drifið okkur út að leika eftir kaffið. Okkur líður svo vel úti og það er svo gaman að sjá þau hlaupa um stóra garðinn og leika sér í snjónum.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 24-29 febrúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika er búin að vera mjög skemmtileg og það er búið að vera mikið fjör.

Á mánudaginn var Bolludagur og fannst krökkunum mjög spennandi að vera að fá bollur með rjóma og sultu í síðdegishressingu. Við lékum okkur inni um morguninn og fórum svo út eftir hádegi og lékum okkur í snjónum.

 Á þriðjudaginn var sprengidagur og þá fengum við saltkjöt og baunasúpu og fannst flestum hún mjög góð. 2017 börnin ásamt tveimur 2018 börnum fóru í vetfangsferð og fóru þá fyrir aftan kirkjuna í ræktartækin, það var mjög gaman.

 Á miðvikudaginn var svo öskudagur og mættu öll börnin og kennarar í náttfötum. byrjum að hafa skemmtilegt öskuðagsball í borðsalnum saman með börnum á eldri gang, við dönsum mikið og var fjör og gaman. Siðan fengu þau rúsínur og horfðu á hvolpasveitina inn á Laut þau börn sem vildu. Það var mikið fjör, hlegið og leikið sér mjög mikið og það var mjög gaman að fá pizzu í hádegismat og við kennararnir erum mjög ánægðar með daginn, hvað hann gekk vel.

Í vikunni höfum verið að æfa okkur með Numicon kubbana mjög mikið með að telja uppá 5 og para saman 1-1 2-2 osfrv. og sortera eftir litum. Við erum með lítil dýr sem eru allskonar á litin og erum við að leggja áherslu núna á þekkja gulur, rauður, grænn og blár, tölurnar 1,2,3,4,5. að púsla, perla og þræða  Þetta erum við að æfa okkur í á morgnanna. Við höfum fengið gott veður fyrri part vikunnar og fórum út þá dagana og borðuðum snjóinn og veltum okkur uppúr honum. Smiðjan er að ganga mjög vel og eru þau núna þessa vikuna að leika sér með tölur og stafi sem þau setja á ljósaborð. Leikvangur gengur líka mjög vel og þau eru mjög dugleg að gera þrautabrautirnar sem Kolla setur upp fyrir þau.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind.

 

Vikan 17-21 febrúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar, 

Þessi vika gekk mjög vel. Við erum með eina afmælis prinsessu þessa vikuna sem á afmæli á laurdaginn en hún hélt uppá afmælið sitt í dag (föstudag). Hún málaði kórónu og fékk að velja mottu, disk og glas og var hún alsæl með það.

Við erum búin að hafa það rosalega gott þessa vikuna og hjálpar það að hafa fengið frábært veður og farið út alla dagana. 2017 börnin fóru í vetfangsferð á Þriðjudaginn og löbbuðum við hjá Lindakirkju og fórum við í ræktar tækin og uppá brúnna að veifa bílunum, það var mjög vinsælt og rosalega gaman. Það var engin smiðja þessa vikuna þar sem Nanna var lasin. Í leikvangi erum við að æfa okkur að fara í þrautabrautirnar sem Kolla setur upp og það er að ganga rosalega vel. Hópastarfið á morgnanna er að ganga vel og höldum við því þannig áfram. Erum að fá þau til að læra litina, læra að telja uppí 5 og erum við að læra mikið í samskiptum. Börnin eru mikið í hlutverkaleikjum sem og öðrum samleikjum, þar lærir þau mikið að vinna saman og taka tillit til annars. 
Á miðvikudaginn 26. febrúar er öskudagur og ætlum við að hafa kósý dag þar sem börnin mæta í náttfötum en ekki búningum. það verður öskudagsball og    andlitsmálun  þau sem vilja og kósý stund að horfa á mynd og fá svo pizzu í hádegismat.

Dagskrá næstu viku fylgir með.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 10-14  febrúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar, 

Þessi vika gekk mjög vel. Við höldum áfram að hafa afmælisbörn og vorum við með einn afmælisprins þessa vikuna og málaði hann kórónu og valdi sér glas og disk til að hafa í hádegismat. Hann var rosalega glaður með þetta. Hann bauð uppá ananas og melónu í tilefni ávaxta dagsins.

Á þriðjudaginn vorum við með ávaxta og grænmetis dag og komu krakkarnir með einn ávöxt í leikskólann sem var svo skorin niður og haft í ávaxtastund eftir hvíldina. Þau komu með mjög fjölbreytta ávexti og grænmeti sem þau smökkuðu og fannst rosalega gaman. Krakkarnir komu með bláber, epli, mangó, melónu, banana, appelsínu, vínber, agúrku, tómata, og papriku. 2017 börnin fóru í vetfangsferð einnig á Þriðjudaginn og löbbuðu þau í Salaskóla og til baka og léku sér svo úti þangað til samverustundin byrjaði. Við höfum fengið ágætis veður þessa vikuna og við farið snemma út að leika eftir kaffið, það hefur verið svolítið kalt en við höfum klætt okkur vel þar sem okkur finnst svo gaman að leika okkur úti. Í smiðjunni þessa vikuna vorum við að gera verkefni þar sem við máluðum við fingrunum okkar og var það mjög vinsælt og mjög gaman. Hópastarfið á morgnanna er að ganga vel og höldum við því þannig áfram. Þau eru að standa sig svo vel og erum við mjög heppnar með þessa snillinga. 

Á þriðjudaginn 18. febrúar ætlum við að hafa bangsadag og mega þau þá taka með sér 1 bangsa í leikskólann. 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 3-7 febrúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika er búin að ganga vel fyrir sig og þessir ungar að standa sig svo vel. Við vorum með einn afmælisprins þessa vikuna og viljum við óska foreldrum hans innilega til hamingju með hann, hann var ekkert smá sætur í jakka og með slaufu.

Vikan er búin að vera rosalega fljót að líða en hún er búin að vera svaka skemmtileg og erum við búin að hlæja mikið og mörg gullkorn sem koma frá þessum frábæru börnum. Á þriðjudaginn fóru 2017 börnin í vetfangsferð og löbbuðu þau aðeins fyrir ofan leikskólann og fóru í gegnum undirgöngin og fannst mjög gaman að fá að öskra og heyra bergmálið. Við erum búin að vera að dansa og syngja mikið þessa vikuna og er hókí pókí mest spilað núna. Smiðjan og leikvangur er að ganga mjög vel og eru þau mjög dugleg að fara í gegnum þrautabrautirnar hjá Kollu og þeim finnst það líka mjög gaman. Samleikurinn hjá börnunum er að verða meiri og meiri og hópastarfið innan deildar einnig að ganga mjög vel. Við höfum fengið ágætis veður fyrri part vikunnar og nýttum við það vel og fórum snemma út að leika eftir kaffitímann. Seinnipart vikunnar vorum við inni og dönsuðum, lékum okkur með bílanna og  í dúkkukrók. Á fimmtudaginn var gestakaffi og foreldrum var boðið að koma í kaffi á leikskólanum og var mjög gaman að sjá hvað var vel mætt og gaman að fá ykkur í heimsókn, þetta var ótrúlega skemmtilegur dagur og börnin ekkert smá glöð að vita að mamma og pabbi væru að koma í heimsókn að  skoða leikskólann og borða með þeim í kaffitímanum.

Lind verður með ávaxta/grænmetis dag á Þriðjudaginn 11. Febrúar og mega börnin þá velja sér einn ávöxt eða 1 grænmeti til að koma með í leikskólann.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 27- 31  janúar 

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika er búin að vera mjög skemmtileg og er búin að ganga rosalega vel. Við erum með 2 afmælisprinsessur þessa vikuna og buðu þær okkur uppá saltstangir og popp og viljum við óska foreldrum þeirra innilega til hamingju með þessar fallegu prinsessur. 

Viku skipulagið okkar innan deildar er búið að ganga mjög vel og munum við halda því áfram, þau eru að borða vel og sofa vel og eru einnig farin að detta meira og meira inní samleik sem er rosalega gaman að sjá. Á þriðjudaginn var mjög skemmtilegur púðursnjór og fannst okkur ekki leiðinlegt að velta okkur uppúr honum og kasta uppí loftið og láta hann lenda á andlitið okkar og vera þá með snjóskegg, það var hlegið rosalega mikið þá. Við höfum verið að fara út eftir kaffitímann alla daga vikunnar þar sem börnunum finnst svo gaman að leika sér úti í snjónum og er líka svo falleg birta sem tekur á móti okkur þegar við komum út að við reynum að vera komin út eins fljótt og við getum. Við höldum okkur ennþá við hópastarfið á morgnanna og gengur það bara vonum framar þetta er svo dásamleg og dugleg börn. Krakkarnir eru að klára marglyttu verkefnið sitt í smiðju hjá Nönnu og eru þau mjög dugleg að fara þangað. Í leikvangi gerði Kolla allskonar brautir sem þau fóru eftir og finnst þeim rosa gaman að fara í leikvang og fá að leysa smá af orkunni sinni. 

Minnum á gestakaffið í tilefni degi leikskólans sem haldin er fimmtudaginn 6. janúar frá 14:30-16:15. 

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 20-24 janúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika hefur gengið mjög vel, Þau borða vel og sofa vel og eru að standa sig frábærlega ó hópastarfi.

Eins og við höfum verið að tala um í síðustu póstum þá höfum við verið að vinna með litla hópa innan deildar og hefur það gengið mjög vel og erum við að sjá mun á þeim sem er mjög gaman og munum við halda því áfram. Börnin eru að gera Bóndadags verkefni innan deildar með Carmen og gera svo einnig verkefni fyrir konudaginn sem verður til sýnis á degi leikskólans 6. febrúar. Þau orðin svo dugleg að fara í smiðju. Nanna er búin að hrósa þeim fyrir hvað þau eru dugleg að þræða í gegn. Við höfum  verið að æfa okkur mikið í því að einbeita okkur að þræða kúlur á bönd inná deild, Nanna er að hjálpa þeim að gera marglittu verkefni  Og í  leikvangi hjá Köllu var þrautarbraut og leikir.

í dag var Þorrablót hér á fífusölum og við á Lind vorum að smakka alls kyns  þorramat :) Börnin voru í sinnu þorrakórónur og ullarpeysur þegar við heldum  „Gaman Saman“ .Allir töku þátt að syngja þorralögin og þetta var  virkilega gaman :)

 Við erum ekki búin að fá alveg veðrið til þess að fara út eftir hádegi því það er búið að vera mikil hálka og vindur á leikskólalóðinni svo við höfum verið inni flesta dagana í vikunni. Þegar það er ekki veður til þess að fara með þessi litlu kríli út þá höfum við verið að lesa bækur, verið i boltaleikjum, syngja og dansa og svo leika í dúkkukrór eða farið fram í holukubbana.  

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 13-17 janúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika er búin að ganga rosalega vel og erum við búin að hafa það mjög gott

Við erum byrjaðar með hópastarf á morgnanna þar sem við skiptum þeim í hópa og tökum fyrir nokkur verkefni eins og við töluðum um í síðustu viku. Það er að ganga ágætlega og svo kemur það bara með tímanum. Þau eru að standa sig rosalega vel og erum við svo heppnar með þessi flottu börn, og einnig smiðjan og leikvangur er að ganga vel. Í smiðju með Nönnu hafa börnin verið að búa til Marglyttur og klárari öll sínu hjámar tengd þorrann. Við höfum verið með frjálsan leik þegar það er smiðja eða leikvangur og erum við þá bara í rólegum leik inná deild, leika með bolta, dúkkukrók, perla og þræða. Við höfum líka verið að fara stundum í holukubba og það finnst okkur rosalega gaman að fá að renna niður kubbarennibrautina og búa til allskonar hluti með kubbunum. Við höfum loksins fengið veður til þess að fara út að leika og ekki skemmir það fyrir að það sé ennþá snjór sem við getum smakkað og búið til snjóbolta úr og höfum við nýtt okkur þetta góða veður mikið og farið út eftir hádegi alla vikuna. Okkur líður rosalega vel þegar við fáum að fara út í frískt loft og hlaupa úti. 

Takk fyrir frábæra viku, og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 6-10 janúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar.
Þessi vika er búin að ganga rosalega vel og erum við kennararnir rosalega glaðar að sjá öll börnin aftur eftir jólafríið. Á mánudaginn sameinaðist allur leikskólinn og við kvöddum jólin, sungum nokkur jólalög og kveiktum á kertunum.

Veðrir hefur aðeins verið að stoppa okkur að fara út en vonandi að það fari nú bráðum að lægja svo að við komumst út að leika í snjónum (og smakka snjóinn smá). Á meðan veðrið hleypir okkur ekki út þá höfum við verið að leika okkur inni og vorum við að föndra sparibauk inná deild með Carmen, máluðum box og settum lítið gat á það svo við getum sett peninga ofaní boxið heima. Við örugglega búin að leika með allt dótið sem við eigum inná deildinni. Dúkkukrókur er svolítið í uppáhaldi þessa vikuna og taka alla koddana úr gluggakistunni og leggja þá á gólfið og þykjast (lúlla), það finnst okkur svakalega skemmtilegt. Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með þessum litlu krílum. 2018 börnin byrjuðu í þessari viku á að fara í smiðju til Nönnu í hópum ásamt 2017 börnunum og gekk það rosalega vel og verða þau í smiðju á fimmtudögum, þau voru að byrjað að búa til vikinka hjálm og svo fara þau til Kollu í leikvang á föstudögum og gengur það líka bara vel þau eiga eftir að venjast þessu fljótt. 2017 börnin halda áfram að vera í leikvang á miðvikudögum með 2017 börnunum af lautEinnig byrjuðu 2017 börnin á að fara í morgunmat og kaffi í matsalnum í dag (föstudag) og gekk það vel. 

Fínt væri ef börnin gætu mætt fyrir 9 á þeim dögum sem þau eru í leikvangi og smiðju og einnig mæta í fötum sem mætti fara málning á ef það skyldi gerast í smiðjunni.

Núna í næstu viku munum við svo byrja með hópastarf innan deildar og þá verður þeim skipt í hópa á morgnanna og erum við að fara að leggja áherslu að efla samskipti, þolinmæði og samvinnu. Við ætlum að læra grunnatriðin t.d. telja frá 1-5 og vita grunn litina gulur, rauður,grænn og blár, afstöðuhugtök (undir, fyrir aftan, fyrir framan, við hliðina, á og í. ætlum að afa okkur að ná einbeiting að sitja lengur við eitt verkefni eins og að púsla, spila, lita, pinna og perla. við ætlum að læra hvað mamma og pabbi heita, nöfn á líkamshlutar og þekkja húsdýrin okkar og hvað þau segja o.fl. 

Takk fyrir æðislega viku og góða helgi,
Starfsfólkið á Lind. 😊

 

Vikan 16 – 20 desember 2019

Sælir kæru foreldrar

Við á Lind höfum átt æðislega viku saman og höfum við gert margt skemmtilegt þessa vikuna. Á mánudaginn fengum við heimsókn frá Lindakirkju þar sem prestarnir sögðu okkur aðeins frá jólunum og í framhaldi af því sungum við nokkur skemmtileg jólalög. 

Á þriðjudaginn héldum við litlu jól leikskólans og mættu allir ofboðslega sætir og fínir. Um morguninn var jólaball og voru allir mjög duglegir að haldast í hendur, labba í kringum tréð og syngja. Þegar jólaballinu var lokið kíkti jólasveinninn á hverja deild og skemmti krökkunum  áður en hann afhenti börnunum gjafirnar. krakkarnir höfðu mjög gaman af honum þó svo nokkrir hafi verið örlítið smeykir við hann.þá fenguð við okkur mandarínur og lékum okkur aðeins. Í hádeginu var síðan jólamatur og ís í eftirrétt og voru allir mjög ánægðir með það. 

Á miðvikudaginn, kom hún Þórdís Arnljótsdóttir með (Leikhús í Tösku) með Jólaleikrit í boði Foreldrafélagsins og sagði hún sögu jólasveinana.  Börnin skemmtu sér vel og þökkum við Foreldrafélaginu vel fyrir.

Í dag kveiktum við á síðasta aðventukertinu sem nefnist Englakertið og höfum við þá kveikt á öllum fjórum kertunum. Núna í desember hafa börnin verið að föndra jólagjafir fyrir foreldra sína og voru þau send heim með pakkana í gær til að setja undir tréð heima. Þau fengu einnig að taka með sér jólaskrautin sem þau hafa verið að föndra núna á síðustu vikum og geta þau nú skreytt heima hjá sér með þessum fallegu verkum. Eins og þið sjáið höfum við gert margt jólalegt þessa vikuna og ættu allir krakkarnir okkar að verða orðnir mjög spenntir fyrir jólunum og komnir í jólastuð. 

Við á Lindinni  óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og vonum að þið hafið það sem allra allra best yfir hátíðarnar.

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 9 – 13 desember 2019

Sælir kæru foreldrar

Vikan hjá okkur á Lind hefur gengið mjög vel en hún hefur verið fremur róleg. Það hefur verið frekar fámennt hjá okkur í þessari viku þar sem það hefur verið mikið um veikindi. Hlaupabólan er að ganga hérna á leikskólanum og hefur ekki bara aðeins verið fámennt á Lind heldur í öllum leikskólanum, svo við hvetjum ykkur foreldrana til þess að fylgjast með börnunum ykkar ef þau hafa ekki nú þegar fengið hlaupabóluna.  Það hefur verið lítið sem ekkert um útiveru vegna veðurs og höfum við því leikið okkur inni í skemmtilegum leik í staðinn. Á þriðjudaginn var jólatréð sett upp inni í matsal og fengu litlu börnin okkar að skreyta það með fallegu jólaskrauti sem þau höfðu föndrað sjálf. Í vikunni héldum við áfram að föndra fyrir jólin og gerðum við litla fallega jólasveina sem við höfum hengt upp fyrir framan deildina þar sem þið getið skoðað þessi fallegu listaverk. Í dag var þriðja jólasamverustundin þar sem allur leikskólinn kom saman á yngri gangi til að kveikja á Hirðakertinu og syngja nokkur jólalög. Á þriðjudaginn í næstu viku ætlum við að halda litlu jól leikskólans þar sem við munum dansa í kringum jólatréð, syngja jólalög og borða góðan jólamat í hádeginu.

Takk kærlega fyrir frábæra viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 2 - 6 desember 2019

Sælir kæru foreldrar

Vikan hjá okkur hefur gengið mjög vel og höfum við brallað margt skemmtilegt saman. Eins og í síðustu viku fór guli hópurinn í vetfangsferð með Laut og í þetta sinn löbbuðu þau út að Salalaug og svo aftur til baka í Leikskólann þar sem þau léku sér svo í smá stund úti í garðinum. Í útiverunni á fimmtudaginn var mikill snjór og fannst börnunum æðislega gaman að fá að leika í snjónum. Á meðan sumir smökkuðu og veltu sér upp úr snjónum horfðu aðrir á og veltu fyrir sér hvað þetta hvíta á jörðinni væri. 

Nú styttist óðum í jólin og við höldum áfram að skreyta og undirbúa þau hjá okkur. Í vikunni föndruðum við fleiri jólaskraut sem við erum búin að hengja upp inni á deild. Á mánudaginn klæddum við alla 13 litlu jólasveinana okkar í jólasveinabúning og tókum myndir af þeim. Úr myndunum föndruðum við svo jólatré sem við hengdum upp á hurðina hjá okkur þar sem þið getið skoðað þessar sætu myndir af þeim.

Í dag var jólasamverustund þar sem allur leikskólinn kom saman til að syngja og kveikja á aðventukerti númer tvö sem kallast Betlehemskerti. Á þriðjudaginn í næstu viku verður jólatréð sett upp inni í matsal og fá allir krakkarnir að skemmta sér við það að skreyta það fallega.  

Það sem er svona helsta framundan:

  • Jólatréið verður sett upp í næstu viku og skreytt
  • Jólaball - 17.desember n.k. verða litlu jól leikskólans haldin hátíðleg. Tímasetning kemur síðar.  Það verður dansað í kringum jólatréð, jólalög sungin og jólamatur í hádeginu.
  • Jólaleikrit - 18.desember n.k. Jólaleikrit í boði foreldrafélagsins. Leikhús í tösku – Grýla og jólasveinarnir J
  • Fimmtudaginn 2.janúar 2020 verður skipulagsdagur hjá okkur í Fífusölum. Leikskólinn verður lokaður þann dag.

Takk kærlega fyrir frábæra viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 25 – 29 nóvember 2019

Sælir kæru foreldrar

Í þessari viku hefur verið ýmislegt brallað. Við höfum verið dugleg að fara út að leika næstum því á hverjum degi eftir síðdegishressingu. Einnig höfum við leikið mikið inni, þar sem ýmislegt var í boði, m.a. dúkkukrókur, bílakrókur, leikið með perlur, pússlað, leirað, leikið með bíla, dýr, legokubba og margt margt fleira. Leikur og gleði alla daga. Við höfum verið mikið að syngja jólalögin sem börnunum finnst rosalega gaman.

Á þriðjudaginn fór guli hópurinn í vetfangsferð með Laut og löbbuðum við upp á Hvammsvöll þar sem við lékum okkur í dágóðan tíma áður en við löbbuðum svo aftur til baka í leikskólann. Á meðan guli hópurinn fór í vetfangsferð léku hin börnin sér inni. Guli hópurinn fór einnig til hennar Kollu í leikvang í vikunni og léku þau sér þar í skemmtilegri þrautabraut þar sem þau áttu m.a. að hoppa og labba eftir línum.

 Á fimmtudaginn var síðan piparkökukaffi og fannst krökkunum æðislega gaman að fá foreldra sína í heimsókn í leikskólann og bjóða þeim upp á kakó og piparkökur sem þau höfðu gert sjálf. Í dag kom allur leikskólinn saman á yngri gang í jólasamverustund þar sem við kveiktum á fyrsta aðventukertinu sem kallast Spádómskerti og sungum fyrsta erindið í „ Við veikjum einu kerti á“. Allir tóku þátt og var æðislegt að horfa á alla krakkana syngja saman.

Viljum minna á að greiða inn í bleyjusjóð þar sem er nýr mánuður að hefjast  og viljum líka minna ykkur á næsta skipulagsdagur sem er 2. janúar 2020.

Takk kærlega fyrir æðislega viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 18 – 22 nóvember 2019

 

Sælir kæru foreldrar

 

Vikan hjá okkur á Lindinni hefur gengið mjög vel en hún hefur verið deginum styttri en vanalega vegna starfsdagsins sem var á fimmtudaginn. Burtséð frá starfsdeginum hefur vikan verið mjög hefðbundin og allt verið á sínum stað. Við fórum ekki út á mánudaginn vegna veðurs og vorum við því inni að leika í staðinn. Á föstudaginn fengu allir krakkarnir að fara í smiðjur til hennar Nönnu að föndra jólagjafir fyrir mömmu og pabba og getið þið verið mjög spennt að opna þessar frábæru jólagjafir. 2017 börnin fóru að sjálfsögðu í leikvang til hennar Kollu þar sem þau fengu að hoppa, skoppa og hlaupa um. Á skipulagsdaginn fengum við kennararnir fræðslu um Lubba verkefnið sem við erum að taka þátt í. Lubbi er mjög spennandi og munum við klárlega halda áfram að vinna með hann. Einnig tókum við til í leikskólanum, þrifum það dót sem við eigum, endurröðuðum dótinu og hentum því sem var orðið ónýtt. 

 

Viðburðiðframundan:

  • - Mánudaginn23. Nóvember ætlar yngri gang ap baka pipark0kur til að bjóða foreldrum sínum upp á í piparkökukaffinu sem verður á fimmtudaginn kemur.
  • - Piparkökukaffið - fimmtudaginn 28.nóvember frá kl.14:00-16:00. Hlökkum til að sjá sem flesta.
  • - Jólaball - 17. Desember n.k. nánari upplýsingar koma síðar.
  • - Jólaleikri 18.desember -Jól í tösku í boði foreldrafélagsins. nánari upplýsingar koma síðar.

 

Takk kærlega fyrir frábæra viku og  góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 11 – 15 nóvember 2019

Sælir kæru foreldrar

Vikan hjá okkur á Lind hefur gengið mjög vel en það hefur verið aðeins um veikindi hjá börnunum svo við höfum verið aðeins færri en vanalega. Á mánudaginn fyrir hádegi skiptum við börnunum upp og fóru þá nokkur börn inn á Læk að leika við krakkana þar, nokkur börn fram að leika á ganginum og restin var inni á deild að leika og fannst krökkunum æðislega skemmtilegt að fá að leika með eldri börnum og á nýjum stað. Við höldum áfram að föndra fyrir jólin og máluðum við pappadiska græna sem við munum síðan klippa í hring og verður úr því jólatré. 

2017 börnin fóru í leikvang til hennar Kollu og finnst þeim alltaf jafn gaman að fá að hoppa og skoppa inni í sal enda eru þau svakalega dugleg. 2017 börnin fóru ekki í smiðjur til hennar Nönnu í þessari viku þar sem afmæli skólans var haldið á sama degi og féllu þær því niður. 

Í dag héldum við upp á 18 ára afmæli leikskólans þar sem allir mættu í búning eða furðufötum, dagurinn var haldinn hátíðlegur, allir saman í sal og sungum saman afmælislagið og svo í tilefni dagur islenkskrar tungu sungum við „á islensku má alltaf finna svar“. Það varð örlítil breyting á plani og fengum við trúðurinn Wallý frá Sirkus Íslands í staðinn fyrir Pétur og Úlfinn þar sem Bend Ogrodnik frá Brúðuheimum komst ekki. Það var mikið líf og fjör   og voru allir þvílíkt ánægðir með sýninguna, og siðan á eftir  heldum við afmælis ball  yngri gang og það voru allir dansanði glaðir, allir skemmtu sér mjög vel. Pítsu party í hadegismat og svo var auðvitað kaka í kaffitíma!... er engin afmælisveisla án köku... Nanna andlistmálaði allar eftir kaffi. Krakkarnir búnir að vera með stjörnur í augunum í allan dag!

Lubbi átti líka afmæli í dag og við óskum Lubba til hamingju með 10 ára afmælið.



Á fimmtudaginn 21.nóvember er skipulagsdagur hjá okkur. Leikskólinn er þá lokaður.

Takk kærlega fyrir frábæra viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 4– 8 nóvember 2019

Sælir kæru foreldrar

Vikan hjá okkur á Lindinni hefur gengið mjög vel en hún hefur verið mjög hefðbundin og hefur allt verið á sínum stað. Eins og undanfarnar vikur förum við aðeins út eftir hádegi og leikum því inni fyrir hádegi. Við erum vön að skipta þeim upp í tvo hópa, annar leikur sér inni á deild og hinn frammi á gagni og svo er þeim skipt svo allir fái að leika á báðum stöðum. Við erum aðeins byrjuð í jólaundirbúning og máluðum við jólatré í vikunni sem verða síðan  til að skreyta stofuna fyrir jólin. Í þessari viku fóru 2017 börnin í leikvang til hennar Kollu og voru þau voða dugleg að hoppa og skoppa hjá henni. 2017 börnin fóru einnig í smiðjur til hennar Nönnu þar sem þau voru mjög dugleg að föndra.

Við viljum minna á lestrarátakið sem er núna í nóvember og hvetjum við ykkur foreldrana til að lesa fyrir börnin ykkar og hengja málbein á Lubbafjallið. Einnig viljum við láta vita að því að það hafa nokkur börn á leikskólanum fengið hlaupabóluna síðustu tvær vikur og meðal annars á Lind svo það er ekki vitlaust að fylgjast með ef börnin ykkar hafa smitast.

Í næsta viku ætlum við að fara æfa lagið „ Á Íslensku Má Alltaf Finna Svar“ sem við ætlum að syngja saman öll saman í afmælisveislu leikskólans næstkomandi föstudag en leikskólinn á afmæli þann 16. nóvember á Degi Íslenskrar Tungu. Á föstudeginum verður mikið fjör og má koma í búningum/furðufötum. Foreldrafélagið býður uppá leiksýningu og byrjar hún kl. 9.30! Bernd Ogrodnik frá Brúðuheimum kemur með sýninguna Pétur og Úlfurinn. Það er því gott að mæta snemma þennan dag.

Takk kærlega fyrir æðislega viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 28. okt. – 1. nóvember 2019

Sælir kæru foreldrar

Vikan hjá okkur á Lindinni hefur gengið mjög vel. Eins og í síðustu viku höfum við bara farið einu sinni út á dag og því leikið okkur inni fyrir hádegi. Í þessari viku fengum við lánaða skemmtilega kubba frá Laut og eru krakkarnir búnir að vera rosalega duglegir að leika sér með þá, þau eru rosalega flink að byggja með þeim. Við höfum verið að föndra mikið í vikunni og höfum við meðal annars teiknað fallegar myndir á blöð, málað gamla geisladiska og teiknað á stórt blað sem við kennararnir límdum á gólfið. Við höldum áfram að æfa okkur með skærin og finnst krökkunum æðislega gaman að fá að klippa blöð sjálf. 2017 börnin fóru ekki til hennar Kollu þessa vikuna vegna veikinda en fóru í smiðjur til hennar Nönnu. Það er mikið líf og fjör í krökkunum og eru þau alltaf hress og kát. Við höfum verið að dansa og syngja mikið í þessari viku og hafa börnin því fengið góða útrás. Í nóvember verðum við með skemmtilegt verkefni um lestraátak með Lubba sem við erum mjög spennt fyrir og vonum við að allir muni taka þátt í því með okkur.

Takk kærlegar fyrir frábæra viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind 

 

Vikan 21– 25 október 2019

Sælir kæru foreldrar

Vikan hjá okkur hefur gengið mjög vel en hún hefur verið frekar hefðbundin. Nýjustu börnin eru öll að koma til, þau eru að róast og gráturinn farinn að minnka þvílíkt, allt á réttri leið. Það er farið að kólna mikið í veðri svo við höfum aðeins farið einu sinni út á dag. Fyrir hádegi lékum við okkur inni og skiptum krökkunum upp þar sem einhverjir fóru fram í dúkkukrók að leika sér og hinir léku sér inni á deild.
Inni á deild léku þau sér meðal annars með gíraffann, bílana, boltana, perluðu, lituðu, máluðu falleg fiðrildi sem eru nú komin upp á vegg inni á deild (alltaf gaman að skapa) og fengu að klippa blöð með skærum (erum að æfa okkur færni með skærum).
Það eru allir voðalega duglegir að taka þátt í samverustundum. Í samverustundum sitja þau öll á rauða teppinu, þó þau sitji kannski ekki kyrr allan tímann, syngja skemmtileg lög og dilla sér með. Uppáhalds lögin þeirra eru hægri hönd og vinstri hönd, krókódílalagið (Fimm litlir apar) og Fífusalir. 2017 börnin fóru í leikvang til hennar Kollu eins og þau eru vön að gera og skemmtu sér vel þar.
Í dag er bangsadagur og byrjuðum við því daginn á því að leika okkur inn á deild með bangsana okkar og líka fengu að skoða og prófa allar hinna (allir duglegir að skiptast á).

Takk kærlega fyrir æðislega viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 14 – 18 október 2019

Sælir kæru foreldrar

Eins og fram kom á foreldrafundinum í gær erum farin að skrá allt í Völu appið og vil ég því hvetja ykkur foreldra til að sækja ykkur appið sem fyrst. Þar koma öll skilaboð frá leikskólanum auk þess sem upplýsingar um ykkar barn birtist þar, t.d. hvernig það borðar og sefur. Eins vil ég benda ykkar að þið getið tilkynnt veikindi eða hver sækir inn á appið.

Vikan hjá okkur á Lind hefur gengið mjög vel en hún hefur verið mjög hefðbundin, allt á sínum stað.

Eins og í hverri viku fóru 2017 börnin til hennar Kollu í leikvang að hoppa og skoppa og eru þau rosalega dugleg og flink í að hreyfa sig. 2017 börnin fóru einnig í smiðjur til hennar Nönnu að föndra. Á meðan 2017 börnin voru í þessari dagskrá léku hin börnin sér jafnt inni sem úti. Á fimmtudaginn vorum við inni fyrir hádegi þar sem við vorum að föndra. Það er alltaf gaman að föndra með krökkunum og munu listaverkin þeirra vera geymd í möppum sem þau fá síðan að taka með sér heim einn daginn. í dag var ávaxtadagur og mættu þá allir með ávexti í leikskólann og fannst öllum mjög gaman að koma með sína ávexti, gefa öðrum af sínum og fá að smakka hjá hinum. Ávaxtaveislan heppnaðist MJÖG VEL HJÁ OKKUR.

Þetta hefur Nanna að segja um smiðju:

Í sullukarið var búið að setja vatn og ull, þau máttu sulla í þessu eins og þau vildu. Flest pínu hikandi til að byrja með en síðan var þetta bara gaman. Skoðuðum litina og mótuðum orm, fjall og fleira. Í lok tímans settumst við í hring og sungum nokkur lög.

Takk kærlega fyrir frábæra viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 7 – 11 október 2019

Heil og sæl kæru foreldrar,

Vikan hjá okkur hefur gengið mjög vel og hefur hún verið frekar hefðbundin hjá okkur. Það hefur verið mikið um veikindi og höfum við því verið frekar fá. Eins og alltaf höfum við farið út einu sinni til tvisvar á dag og finnst börnunum æðislegt að fá að leika sér úti. Þeim finnst alltaf jafn gaman að róla, leika sér í sandkassanum, renna sér í rennibrautinni, sópa og sparka í bolta. Þegar við erum inni að leika eru allir mjög duglegir að leika sér saman og finnst þeim mjög skemmtilegt að leika sér með gíraffann, bílana, boltana, púsla og leika í eldhúsinu. Á þriðjudaginn var dótadagur og fannst krökkunum æðislega gaman að koma með dót, sýna hinum krökkunum og að fá að prófa dótið hjá hinum. Á miðvikudaginn fóru 2017 börnin í leikvang hjá henni Kollu og skemmta þau sér alltaf jafn vel þar. 2017 börnin fóru einnig til hennar Jónínu í vikunni og svo í smiðjur til hennar Nönnu. Á meðan 2017 börnin voru í þessari dagskrá léku hin börnin sér bæði inni og úti.

Takk kærlega fyrir æðislega viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind

 

Vikan 30 – 4 október 2019

Sælir kæru foreldrar

Við höfum átt góða viku hérna á Lind og erum við búin að gera margt skemmtilegt. Nýju börnin eru öll að koma til og eru allir mjög sáttir með það. Við höfum farið út tvisvar á dag nema á fimmtudaginn þar sem veðrið var ekki alveg nógu gott og lékum við okkur því inni í staðinn og föndruðum smá. Það áttu nokkrir eftir að stimpla höndina sína á blað og einnig einhverjir eftir að stimpla höndina sína á möppurnar sem við ætlum að geyma verkefnin okkar í.

Það voru erlendir gestir hjá okkur í vikunni sem tengjast Nordplus verkefninu og komu þau inn til okkar á þriðjudaginn í samverustund og sýndum við þeim hvað við erum dugleg að syngja og sitja kyrr á rassinum.

2017 börnin fóru svo í leikvang á miðvikudaginn og skemmtu þau sér vel þar. Á meðan þau léku sér þar fóru hinir út að leika.

Í  dag fóru 2017 börn í smiðju hjá Nönnu og voru að föndra þar.  

Nú fer að kólna í veðri og væri þá gott ef krakkarnir gætu farið að koma með kuldagallana sína og einnig létta vettlinga vegna þess að þau eru gjörn á að rífa vettlingana af sér ef þeir eru of stórir eða þykkir.

Takk æðislega fyrir skemmtilega viku og góða helgi,

Starfsfólkið á Lind