Hæð

Hæð er staðsett strax til vinstri þegar þú kemur inn í Forsali.  

Litur Hæðar er Bleikur og vinadeildin okkar er Lind.

Á Hæð eru 19 börn, öll fædd árið 2016

Beinn sími er: 441-5216


Starfsfólkið á Hæð:

Unnur - Leikskólakennari, Deildastjóri. Netfang: unnurba@kopavogur.is

Aneta - Háskólamenntaður starfsmaður

Guðbjörg Lilja - Leikskólakennari

Þórdís - Leiðbeinandi

 

Dagbók

19. nóvember 2020

Sælir kæru foreldrar

Í þessari viku vorum við að vinna með málhljóðið - U- , við sungum lagið, lærðum táknið, lásum söguna og fundum mörg orð sem áttu málhljóðið í samverustund. Í næstu viku ætlum við að vinna með málhljóðið - L -  en það er síðasta málhljóðið sem við tökum fyrir fram að áramótum því Lubbi ætlar að vera í smá pásu í desember.
Það var gaman að sjá hversu margir voru duglegir að koma með Lubbabein í lestarátakinu okkar. Krakkarnir á Hæð lásu 2681 blaðsíður sem er mjög vel gert!

Við höldum áfram að vera mikið úti að leika og tóku börnin fagnandi á móti litla snjónum sem lét sjá sig í vikunni. Rassaþoturnar voru dregnar fram og leikið sér á hólnum alla útiveruna.

Á mánudaginn var loksins komið að afmæli leikskólans afmæli og einnig átti hann Lubbi okkar afmæli. Dagurinn heppnaðist mjög vel og leyndi spenningurinn og gleðin sér ekki þennan dag. Bæði börn og starfsfólk mættu í búningum, við drifum okkur í dansskóna og var diskó ball með diskóljósum fyrir hádegi ásamt því að boðið var upp á andlitsmálum. Í hádegismat var Domono‘s þar sem allir borðuðu mjööög vel. Eftir útiveru var svo komið inn í dýrindis eplaköku með rjóma.

Í næstu viku verður heldur betur gaman þar sem smiðja og leikvangur mega aftur fara af stað. Við erum mjög ánægð með það og komum til með að halda hópastarfi gangandi alveg fram að 18. desember en ekki taka jólapásu eins og vanalegt er.
Í næstu viku ætlum við síðan að baka piparkökur á þriðjudag eða miðvikudag, börnin fá svo heitt kakó og piparkökur á fimmtudag í kaffitímanum en því miður verður ekkert foreldrakaffi í ár.

Takk fyrir vikuna
Allir á Hæð


13. nóvember 2020

Sælir kæru foreldrar

Vikan hefur liðið hratt við leik og störf. Við höldum áfram að vera mikið úti, perlum, spilum, byggjum úr legó, klippum og útbúum bækur í miklu mæli.
Í þessari viku unnum við með málhljóðið „E“ og hitti Lubbi hana Eddu sem gat horft á Esjuna út um gluggann heima hjá sér. Í næstu viku komum við með að vinna með málhljóðið „U“ og verður gaman að vita hvar Lubbi verður staddur þá.
Á þriðjudaginn var Pólskur dagur hjá okkur í Fífusölum. Við ræddum um Pólland, fundum landið á hnettinum okkar, skoðuðum fánann og hlustuðum á pólsk lög.
Á fimmtudaginn ætluðum við að fara í langan og góðan göngutúr í hverfinu en þar sem gangstígarnir voru mjög hálir enduðum við á grasvellinum við hliðina á leikskólanum. Þar fórum við í þrautakóng, hlupum upp og niður brekkurnar ásamt því að velta okkur niður þær. Mikil gleði og mikið gaman.
Í dag, föstudag er svo síðasti dagurinn í  lestrarátaki Lubba og verður gaman að taka saman og sjá hversu margar blaðsíður voru lesnar á meðan á átakinu stóð.

Takk fyrir vikuna

Kveðja
Allir á Hæð

6. nóvember 2020

Sælir kæru foreldrar

Þá er enn ein vikan liðin við leik og störf. Starfið hefur verið heldur óvenjulegt þessa vikuna en gengið mjög vel. Við vorum að vinna með málhljóðið „H“ þessa vikuna og var Lubbi staddur á Höfn í Hornafirði. Í næstu viku ætlum við að vinna með málhljóðið „E“. Við höldum áfram að vera mikið úti og kunna börnin vel að meta það. Perlurnar halda áfram að vera mjög vinsælar sem og legóið.

Takk fyrir vikuna

 Kveðja
Allir á Hæð30. október 2020

Sælir kæru foreldrar

Í þessari viku unnum við með málhljóðið „J“ þar sem Lubbi var staddur hjá Vatnajökli þar sem hægt er að skoðaði jökla og Jökulsárlón. Í næstu viku ætlum við að vinna með málhljóðið „H“ og verður gaman að vita hvar Lubbi verður þá.   Perlur eru mjög vinsælar þessa dagana ásamt einingarkubbunum og legó.

Á miðvikudaginn hélt Amelía Rós upp á afmælið sitt og bauð börnunum upp á saltstangir og popp sem þau kunnu vel að meta. Takk fyrir okkur Amelía Rós og til hamingju með afmælið.

Í smiðju héldu börnin áfram að vinna með verkefnið frá því í síðustu viku, saumuðu og skreyttu.

Í leikvangi fóru börnin í þrautabraut sem Kolla setti upp sem þeim finnst alltaf jafn gaman.

Takk fyrir vikuna

Kveðja
Allir á Hæð


23. október 2020

Sælir kæru foreldrar

Í þessari viku unnum við með málhljóðið „V“ og var Lubbi staðsettur á Vopnafirði og fékk vöfflur og vínabrauð.

Í smiðju voru börnin að þæfa ullarverkefni sem þau koma með að halda áfram með í næsta tíma.

Í leikvangi var Kolla búin að útbúa þrautabraut sem börnunum þótti gaman að reyna sig við.

Á fimmtudaginn létum við rigningu og rok ekkert á okkur fá og skelltum okkur út í göngutúr. Við fórum á leikvöllinn við Salaskóla og lékum okkur þar góða stund ásamt því að hoppa og skoppa í pollunum sem við fundum.

Takk fyrir vikuna

Kveðja
Allir á Hæð


16. október 2020

Sælir kæru foreldrar

Í þessari viku var margt skemmtilegt gert, við unnum með málhljóðið „Ú“,sungum ú lagið, fundum Úlfljótsvatn á Íslandskortinu og fundum orð sem byrja á ú. Í næstu viku ætlum við að taka fyrir málhljóðið „V“ og verður spennandi að vita hvar Lubbi verður staddur þá.

Í smiðju máluðu börnin pappahólka og útfærðu eftir sínu höfði karla og fleiri fígúrur.

Á fimmtudaginn fórum við í langan og skemmtilegan göngutúr þar sem við ætluðum að vita hvort við gætum klárað útibingóspjaldið okkar frá því á síðasta fimmtudag. Við tókum stóran hring um hverfið og enduðum á litlum leikvelli við Fjallalind.

Í dag, föstudag  fórum við fyrir hádegi og fengum góða útrás á nýja ærslabelgnum og  hlaupabrautinni. Í dag var líka Bleiki dagurinn og við í Fífusölum tókum þátt í honum. Það var gaman að sjá hversu margir tóku þátt í deginum og var bleiki liturinn áberandi í leikskólanum í dag.

Takk fyrir vikuna
Kveðja
Allir á Hæð


9. október 2020

Sælir kæru foreldrar

Þessi vika var heilsuvika hjá okkur í Fífusölum. Við unnum með málhljóðið „Í – Ý“ og var Lubbi staddur á Ísafirði og hitti þar ísbjörn sem langaði mikið í ýsu. Í næstu viku komum við með að vinna með málhljóðið „Ú“. Við höldum áfram að vera mikið úti að leika og því er mikilvægt að hafa nóg að hlýjum fötum meðferðis.

Á miðvikudaginn fórum við í leikvang til Kollu þar sem hún hafði búið til skemmtilega þrautabraut sem æfir bæði þrek og þor.

Á fimmtudaginn fórum við í göngutúr um hverfið þar sem við fórum í allsherjar björgunaraðgerðir á ánamöðkum sem skriðu á gangstéttinni og hjálpuðum þeim aftur í grasið og moldina. Við tókum líka með okkur útibingó sem við spiluðum í rigningunni ásamt því að finna sem flesta polla og hoppa í þeim.

Á föstudaginn vorum við inni fyrir hádegi í rólegheitunum, máluðum listaverk og leiruðum stafi. Eftir hádegi enduðum við síðan heilsuvikuna hjá okkur með því að setja upp þrautabraut í garðinum þar sem farið var í leiki, hlaupið, hjólað, stokkið langstökk og fleira, börnin söfnuðu síðan stimplum á handarbökin fyrir að standa sig svona vel.

Takk fyrir vikuna

Kveðja
Allir á Hæð

2. október 2020

Sælir kæru foreldrar 

Í þessari viku unnum við með málhljóðið „d“ og var Lubbi staddur á Dalvík. Í næstu viku ætlum við að vinna með málhljóðið „Í,Ý“

Á mánudaginn átti hann Rökkvi Páll afmæli og bauð okkur upp á saltstangir og saltkringlur sem börnin kunnu vel að meta. Takk fyrir okkur Rökkvi og til hamingju með afmælið. Í smiðju kláruðu börnin að ganga frá uglunum sínum sem þau hafa verið að vinna að og í lok tímans gerðu börnin síðan tilraun með vatn og matarlit. Börnin koma síðan til með að skoða tilraunina áfram í næsta tíma.

Í leikvangi var fóru börnin í leiki og byggðu hús úr stóru dýnunni sem mjög spennandi var að leika í.

Á fimmtudaginn fórum við síðan í góðan göngutúr um hverfið og enduðum á leikvellinum við Blásali þar sem við lékum okkur góða stund.

Takk fyrir vikuna
Kveðja
Allir á Hæð


25. september 2020

Sælir kæru foreldrar 

Þá er þessi skemmtilega öðruvísi vika þar sem dagarnir byrjuðu á útiveru liðin.   Að öðru leiti hefur lífið gengið sinn vana gang hér á Hæðinni með smiðju. leikvang, Lubba og fleira skemmtilegu. Í þessari viku tókum við fyrir málhljóðið „N“ og fundum Neskaupsstað á Íslandskortinu því þar er hann Lubbi staðsettur núna. Við klippum og límum mikið inni á deild ásamt því að spila borðspil og eru sniglaspilið og Mitt fyrsta Alias vinsælast. 
Í smiðju kláruðu börnin að vefa ugluna sína og byrjuðu að setja hana saman.  
Í leikvangi fóru börnin í þrautabraut sem Kolla hafði útbúið og æfðu sig meðal annars að sveifla sér í kaðli sem var ekkert lítið gaman. 
Í dag, föstudag var svo útidótadagur hjá okkur og var hann mjög vel heppnaður. Garðurinn fylltist af nýjum leikföngum sem  börnin voru mjög dugleg að leika sér með og deila.  

Takk fyrir vikuna 
Kveðja 
Allir á Hæð 


17. september 2020 

Sælir kæru foreldrar

Þessi vika er stutt í annan endann enda ekki nema 4 dagar. Við höldum áfram að vera mikið úti og eru því góðir vettlingar og húfa orðin nauðsynleg. Í vikunni unnum við með bókstafinn „B“. Það var gaman hversu dugleg börnin voru að koma með hina ýmsu hluti sem byrjuðu á þeim bókstaf sem og að standa upp fyrir framan hin börnin og kynna dótið sitt. 

Á mánudaginn fóru börnin í smiðju og héldu áfram að vefa uglurnar sínar.  

Á miðvikudaginn fórum við í leikvang til hennar Kollu þar sem ærslast var og gerðar æfingar. 

Á fimmtudaginn fórum við í göngutúr um hverfið og enduðum á því að leika okkur á Salaskólalóðinni.  

Takk fyrir vikuna 
Kveðja
Allir á Hæð 


11. september 2020 

Sælir kæru foreldrar 

Þessi vika hefur verið fljót að líða. Hópastarf er komið á gott skrið og málörvun byrjaði líka í vikunni. Í vikunni unnum við með málhljóðið „m“, sungum lagið og fundum orð og staði sem eiga „m“ 

Á mánudaginn fóru við í smiðju til hennar Nönnu og þar voru börnin að æfa sig í að vefa, hver á sínum hraða. Börnin voru áhugasöm og fannst þetta spennandi verkefni. 

Á miðvikudaginn fóru börnin til Kollu í leikvang. Kolla var búin að setja upp þrautabraut og svo var frjáls leikur í lokin. 

Á fimmtudaginn fórum við síðan í göngutúr í hverfinu þar sem við fundum marga orma á gangstéttinni sem vöktu mikinn áhuga hjá börnunum.  Þegar við vorum búin að skoða þá vel og vandlega og ræða um hvers vegna það væri ekki gott að taka þá með heim til að gefa mömmu og pabba þá enduðum við á því að leika okkur í góðan tíma á leikvellinum hjá Salaskóla. 

Takk fyrir vikuna  

Kveðja  
Allir á Hæð 

 


4. september 2020 

Í  þessari viku byrjaði vetrarstarfið hjá okkur. Við byrjuðum að vinna með Lubba og var fyrsta málhljóðið okkar „A“. 

Á mánudaginn fórum við í smiðju til hennar Nönnu þar sem börnin unnu klippiverkefni. Á mánudaginn hélt líka hann Bjarki Þór upp á afmælið sitt og bauð okkur upp á saltstangir. Til hamingju með afmælið og takk fyrir okkur. 

Á miðvikudaginn fóru börnin síðan til hennar Kollu í leikvang þar sem leikið var með fallhlíf í lok tímans sem börnunum þótti mjög spennandi. 

Á fimmtudaginn skruppum við í smá göngutúr þar sem við fórum og lékum okkur á leikvellinum við Ársali og hólunum þar í kring.  

Á föstudaginn fóru börnin síðan til hennar Alexöndru í hreyfiflæði. 

Takk fyrir vikuna. 

Kveðja  
Allir á Hæð 


28. ágúst  2020

Vikan hefur verið fljót að líða við leik og störf. Veðrið hefur verið vel nýtt í útiveru eins og undanfarnar vikur.

Á þriðjudaginn bættist nýr vinur í barnahópinn hjá okkur á Hæð. Við bjóðum hann velkominn og hlökkum til að kynnast honum betur.

Á föstudaginn átti hann Viktor afmæli og bauð hann okkur upp á popp og saltstangir sem börnin kunnu vel að meta. Til hamingju með afmælið Viktor okkar og takk fyrir okkur.

Takk fyrir vikuna

Kveðja.
Allir á Hæð


21. ágúst 2020

Sælir kæru foreldrar

Ég vona að þið hafið haft það gott í fríinu og notið þess að slaka á og skemmta ykkur saman.

Veðrið hefur aldeilis leikið við okkur þessa vikuna. Dagarnir hafa verið vel nýttir í útiveru og við að jafnaði farið þrisvar út yfir daginn. Við höfum nú samt ekki verið nógu mikið úti að mati flestra barnanna sem hafa varla haft tíma til að fara inn í kaffi. 😊

Á þriðjudaginn átti hann Gabríel fjögurra ára afmæli. Hann bauð okkur upp á saltstangir og popp sem börnin kunnu vel að meta. Til hamingju með afmælið Gabríel okkar og takk fyrir okkur.

Takk fyrir frábæra viku og góða helgi

Kveðja
Allir á Hæð

 

3. júlí 2020

Sælir kæru foreldrar

Þá er síðasta vika fyrir sumarfrí liðin og veðrið hefur heldur betur leikið við okkur. Við nýtum dagana mikið í útiveru ásamt því að leika, spila, klippa og teikna inni eftir matinn. Við höfum getað verið úti á peysunni og jafnvel stuttermabol sem börnunum finnst heldur en ekki mikið sport þótt nokkrir hafi átt frekar erfitt með að sleppa flíspeysunni.

Á mánudaginn fórum við í langan göngutúr og gengum út í Hólmasel að sjá sýningu hjá Brúðubílnum. Sýndar voru þrjár stuttar sýningar, börnin tóku virkan þátt í sýningunni og skemmtu sér mjög vel. Eftir sýninguna borðuðum við nesti sem var ekkert smá spennandi. Við drifum okkur síðan til baka á leikskólann og það voru ansi þreytt börn sem komu til baka eftir langan en góðan göngutúr.

Á miðvikudaginn var hjóladagur hjá okkur og biðu börnin spennt eftir því að fara út að hjóla. Við fórum út bæði fyrir og eftir hádegi á göngustíginn fyrir aftan leikskólann. Börnin voru alsæl með að fá að fara út fyrir garð að hjóla og voru dugleg að leyfa hinum að prófa hjólin sín.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja
Allir á Hæð


26. júní 2020

Sælir kæru foreldrar

Á mánudaginn drifum við okkur í vettvangsferð út í Salaskóla og lékum okkur lengi á leikvellinum þar sem var sérstaklega skemmtilegt þar sem engin önnur börn voru úti að leika og við því ein með allt leiksvæðið.

Þriðjudagur og miðvikudagur voru nýttir í mikla útiveru, brunaslangan var tekin út og búnir til pollar, rigning og foss sem gaman var að leika sér í.

Á fimmtudaginn var svo mikið fjör í garðinum en þá var sumarhátíðin okkar. Tveir hoppukastalar voru settir upp, sápukúlustöð og boðið var upp á andlitsmálningu. Leikhópurinn Lotta kom og sýndi okkur leikritið um Öskubusku í nýrri útsetningu í boði foreldrafélagsins og kunnu börnin vel að meta sýninguna. Í hádeginu var boðið upp á grillaðar pylsur og djús sem var að sjálfsögðu borðað utandyra. Dagurinn gekk mjög vel og börnin skemmtu sér hið besta og voru mjög sæl með daginn.

Á föstudaginn var svo mikið útivera.

Takk fyrir vikuna

Kveðja
Allir á Hæð

 

19. júní 2020

Sælir kæru foreldrar

Þessi vika hefur verið fljót að líða enda ekki nema 4 dagar.
Á mánudaginn fóru börnin með Nönnu í vettvangsferð fyrir og eftir hádegi að tína orma til að skoða í leikskólanum. Fyrir hádegi var mikil rigning og börnin komu til baka með marga orma í boxi. Eftir hádegi hafði stytt upp og þá fundu börnin ekki neinn orm en voru engu að síður mjög á nægð með ferðina sína.

Á þriðjudaginn fórum við síðan í langa og góða vettvangsferð. Við gengum upp að Stúpunni lékum okkur í holtinu, tíndum blóm og hoppuðum  í pollunum.

Fimmtudagur og föstudagur voru svo vel nýttir í útiveru en á föstudaginn var einnig íþróttadagur og voru settar upp þrautabrautir í garðinum. Börnin söfnuðu síðan stimplum á handarbökin fyrir þátttökuna í þrautunum.

Takk fyrir vikuna og góða helg.

Kveðja
Allir á Hæð


12. júní 2020

Kæru foreldrar

Þá eru börnin ykkar byrjuð á Hæð.  Aðlögun hefur gengið vel og börnin dugleg að aðlast nýju skipulagi á  nýrri deild. Við erum til dæmis með flæðandi matartíma þar sem sex börn borða í einu en ekki öll eins og þau eru vön. Í gær höfðu til dæmis sum börnin áhyggjur af því að þau hefðu gleymst  og að það yrði ekkert í boði fyrir þau þann daginn.
Við höfum notað aðlögunardaganna til þess að leika saman úti og inni og kynnast hvert öðru, enda nóg af nýju og spennandi dóti til að skoða og prófa.
í dag, föstudag var síðan útileikfangadagur í leikskólanum og var mikil stemming í garðinum.

Takk fyrir vikuna og góða helgi
Kveðja
Allir á Hæð

 

5. júní 2020

Sælir kæru foreldrar

Þá er síðasta vikan okkar allra saman liðin og nóg hefur verið að gera. Á miðvikudaginn fórum við í langa vettvangsferð með strætó niður á Rútstún. Við tókum með okkur nesti sem vakti mikla lukku. Þegar komið var til baka á leikskólann rétt gafst tími til að borða áður en farið var í fimleika. Á fimmtudaginn var svo hjóladagur með tilheyrandi fjöri, einnig var leikjanámskeiðið hjá HK svo nóg var um að vera. Á föstudaginn var svo stóra stundin runnin upp og nú fengju þau loksins að gista í leikskólanum. Mikill spenningur var fyrir kvöldinu allan daginn enda margt og mikið sem til stóð að gera. Kvöldið stóð undir væntingum, börnin skemmtu sér vel og lögðust þreytt og glöð til svefns í leikskólanum.

Kveðja

Allir á Hæð

 

28. febrúar 2020

Þetta hefur verið spennandi vika þar sem mikið hefur verið um að vera.

Á mánudaginn var bolludagur og var boðið upp á kjötbollur í hádeginu og svo voru rjómabollur með öllu tilheyrandi í kaffinu.

Á þriðjudaginn var svo sprengjudagur með tilheyrandi saltkjöti og baunum. Við byrjuðum daginn á því að far í langan og góðan göngutún um hverfið. Í samverustund ræddum við um  af hverju dagurinn væri nú kallaður sprengidagur og að nú ættu allir að borða svo mikið að þeir væru við það að springa. Það fannst börnunum frekar skrítið og töldu að það væri nú ekki ráðlegt.

Á miðvikudag var svo öskudagur með tilheyrandi fjöri. Allir mættu í náttfötunum og borðuðu morgunmat inn á deildum. Eftir morgunmat var svo öskudagsball þar sem allur leikskólinn dansaði saman. Að ballinu loknu var svo boðið upp á bíó þar sem horft var á myndina um Kaftein ofurbrók og borðaðar rúsínur. Fyrir matinn var svo boðið upp á andlitsmálningu sem öll börnin nýttu sér. Í hádegismatinn var svo pizza sem rann mjög ljúft niður, svo ljúft að sum börnin þurftu á slökun að halda eftir að matnum var lokið. Í fimleikum var svo frjáls tími þar sem leika mátti í tækjunum sem börnunum þótti ekki leiðinlegt. Við drifum okkur svo út í lok dags að leika í snjónum. Dagurinn heppnaðist vel og bæði börn og kennarar fóru glöð heim eftir daginn.

Á föstudaginn byrjuðu sundferðirnar aftur og fyrsti hópurinn fór í sund. Ferðin gekk mjög vel og það voru mjög ánægð börn sem komu til baka.

Takk fyrir vikuna

Allir á Hæð

31. janúar 2020

Sælir kæru foreldrar

Vikan  hefur liðið hratt við leik og störf.  Í vikunni byrjuðu börnin að fara í sund og hafa sundferðirnar gengið vel. Börnin hafa skemmt sér mjög vel og ekkert langað upp úr. Tveir hópar eru búnir að fara en þau sem eiga eftir að fara, fara í næstu viku. Á mánudaginn fóru börnin til Nönnu i smiðju og héldu áfram að vinna að blöðrudýrunum sínum sem koma mjög vel út. Mikið hefur verið um útiveru enda allir orðnir hálf leiðir á inniveru eftir allar lægðirnar sem gengið hafa yfir landið. Svo hefur snjórinn líka alltaf mikið aðdráttarafl. Við spilum mikið Apaspilið á deildinni sem og Pizzuspilið og eru börnin orðin mjög klók í þeim og er fátt skemmtilegra en að vinna kennarann.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja 

Allir á Hæð

 

 

 

20. desember

Sælir kæru foreldrar

Mikið hefur verið að gera hjá okkur þessa vikuna.

Á þriðjudaginn var jólaball hjá okkur þar sem Hurðaskellir kom í heimsókn, dansaði með börnunum og sýndi þeim töfrabrögð. Eftir ballið kíkti hann svo inn á deildirnar og gaf öllum stilltu börnunum á Hæð bók að gjöf. Í hádegismat var svo hangikjöt með öllu og ís í eftirrétt sem rann mjög ljúft niður.

Á miðvikudaginn kom Þórdís Arnljótsdóttir leikkona í boði foreldrafélagsins og sýndi okkur leikritið Grýla og jólasveinarnir. Börnin skemmtu sér vel og tóku virkan þátt í sýningunni. Eftir hádegi kláruðu börnin svo að ganga frá og pakka inn jólagjöfunum sínum til mömmu og pabba.

Á fimmtudaginn voru það stollt börn sem fóru heim með gjafirnar sínar og bíða eflaust spennt eftir að þær verði opnaðar.

Í dag, föstudag var síðasta jólasamveran fyrir þessi jól þar sem allar deildirnar í leikskólanum hittust, sungu nokkur lög og kveiktu á síðasta kertinu í aðventukransinum, Englakertinu.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja                                                                                                                                          Allir á Hæð

 

13. desember 2019

Sælir kæru foreldrar.

Þessi vika hefur einkennst af áframhaldandi jólaundirbúningi, lími og glimmeri. Við höfum ekki látið kuldann á okkur fá heldur farið út að leika á hverjum degi enda hefur sjórinn mikið aðdráttarafl.

Á miðvikudaginn var afmælisprinsessa hjá okkur og bauð hún okkur upp á saltstangir, ostapopp og melónu sem börnin kunnu vel að meta. Til hamingju með afmælið og takk fyrir okkur.

Í dag, föstudag skreyttu börnin jólatréð með perlusnjókornum sem þau höfðu perlað fyrr í vikunni. Eftir hádegi var jólasamvera með hinum deildunum á leikskólanum þar sem við kveiktum á þriðja kertinu í aðventukransinum okkar, Hirðakertinu og sungum saman nokkur jólalög. í dag var líka jólaþema hjá okkur í leikskólanum og má segja að rauði liturinn hafi verið mjög ráðandi í klæðnaði bæði barna og kennara.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Allir á Hæð

 

6. desember 2019

Sælir kæru foreldrar

Nú er jólaundirbúningur kominn á fullt og við önnum kafin við að klippa, líma og mála ásamt því að nota svolítið af glimmeri því fátt tilheyrir jólunum betur en smá glimmer. Við syngjum mikið af jólalögum og æfum okkur fyrir jólaballið sem verður þann 17. desember.

Á fimmtudaginn var afmælisbarn hjá okkur á Hæð og bauð hún okkur upp á popp og saltstangir. Til hamingju með afmælið og takk fyrir okkur.

Í dag, föstudag var svo jólasamvera hjá okkur ásamt öllum hinum börnunum á leikskólanum. Við kveiktum á öðru kertinu á aðventukransinum okkar, Betlehem kertinu og sungum nokkur jólalög.

Takk fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja 

Allir á Hæð

 

30. nóvember 2019

Sælir kæru foreldrar.

Vikan hefur liðið hratt við leik og störf. Við erum aðeins farin að undirbúa jólin með því að syngja jólalög, gera jólaskraut á jólatréð og einnig skraut sem kemur til með skreyta deildina okkar.

Á þriðjudaginn var mikill kökuilmur í húsinu en þá bökuðum við piparkökur og hlustuðum á jólalög. Mjög skemmtileg stemming myndaðist og gáfum við okkur góðan tíma til að njóta hennar.

Á fimmtudaginn var mikil spenna í loftinu enda var loksins komi tími til að borða piparkökurnar sem við höfðum bakað. Við byrjuðum morguninn á því að baka aðeins fleiri kökur svo að öll hlaupabólubörnin okkar fengju nú líka að baka. Eftir hádegismatinn voru allir orðin frekar spenntir enda von á foreldrum í heimsókn í piparkökur og kakó. Gaman var að sjá hve margir sáu sér fært að kíkja til okkar, takk fyrir komuna.

Í dag, föstudag kveiktum við á fyrsta kertinu í aðventukransinum okkar, spádómskertinu og sungum nokkur jólalög með hinum börnunum í leikskólanum.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja 

Allir á Hæð

 

15. nóvember 2019

Sælir kæru foreldrar

Í smiðju höfum við verið að vinna að sameiginlegu verkefni með öllum 2014 árgangnum þar sem við tókum fyrir vináttuna. Afraksturinn kemur svo til með að verða hengdur upp í Smáralindinni á sameiginlegri sýningu með hinum leikskólum bæjarins þar sem áherslan er lögð á Barnasáttmálann.

Á fimmtudaginn var leikvangur hjá Kollu sem alltaf vekur jafn mikla lukku.

Í dag, föstudag var svo heilmikið húllumhæ á leikskólanum þar sem haldið var upp á 18. ára afmæli hans. Börn og kennarar mættu í leikskólann í búningum eða furðufötum. Fyrir hádegi kom Wally frá sirkus Íslandi og var með sýningu fyrir börnin þar sem allir skemmtu sér mjög vel. Eftir sýninguna reimuðu allir á sig dansskóna og skelltu sér á ball á ganginum fyrir framan deildarnar. Í hádegismat var boðið upp á pizzu sem rann mjög ljúft niður en eftir matinn var boðið upp á andlitsmálningu. Í kaffinu var svo að sjálfsögðu súkkulaðiafmæliskaka og ljómi.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja allir á Hæð

 

25. október 2019

Sælir kæru foreldrar

Vikan hefur verið fljót að líða. Börnin hafa ekkert látið kuldann á sig fá og finnst fátt skemmtilegra en að leika úti.

Á miðvikudaginn var afmælisbarn hjá okkur og bauð hún okkur upp á ostapopp og jarðaber. Til hamingju með afmælið og takk fyrir okkur. Á miðvikudaginn voru líka fimleikar hjá okkur sem allir eru alltaf jafn spenntir fyrir.

Á fimmtudaginn fórum við í langa vettvangsferð, við tókum strætó niður á Hlemm og gengum þaðan niður í Þjóðleikhúsið þar sem við sáum leiksýninguna um Ómar orðabelg. Börnin stóðu sig eins og hetjur, sátu og fylgdust með þótt að sýningin hafi verið talsvert löng. Eftir sýninguna gengum við niður á Lækjartorg og tókum strætó þaðan aftur í leikskólann með smá viðkomu á leikvellinum bak við bókasafnið í Hamraborg.

Í dag, föstudag er óhætt að segja að fjölbreytt dýralíf hafi verið alsráðandi á deildinni þar sem bangsadagurinn var í dag. Slöngur, pelikanar, hundar, birnir og fleiri dýr mættu með börnunum og tóku þátt í starfinu með okkur.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja

Allir á Hæð

 

11. október 2019

Sælir kæru foreldrar

Lífið gengur sinn vana gang hér á Hæðinni, við höfum nýtt góða veðrið og verið mikið úti ásamt því að vinna hin ýmsu verkefni inni við.

Í smiðju gerðu börnin fingrabrúðu úr gipsi. Meðan gipsið var að þorna áttu þau að gera vinnuteikningu þ.e.a.s að teikna hvernig brúðan ætti að líta út.  Margir gerðu ljómandi fína vinnuteikningu sem sýndi af mikilli nákvæmni hvernig útlitið yrði. Þau fundu síðan sjálf efni í hár, kórónur, föt og það sem þau vildu hafa á brúðunni. Fengu að fara með hana ásamt WC-rúllu verkefnið heim.

Á þriðjudaginn fórum við í langan göngutúr bak við Þrymsalina og enduðum síðan á leiksvellinum við Þrúðsalina ásamt því að prófa æfingartækin við göngubrúna yfir Arnarnesveg þar sem allir fengu góða útrás. Það voru því þreytt og sátt börn sem komu til baka í hádegismat að ferð lokinni.

Fimleikar voru síðan á miðvikudag og eru börnin aðeins farin að skólast til í þeim.

í dag, föstudag var svo bleikur dagur, mikið var gaman hve margir komu í bleiku í leikskólann og tóku þátt með okkur.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja

Allir á Hæð

 

 

4. október 2019

Sælir kæru foreldrar

Þessi vika hefur verið fljót að líða, við höfum verið mikið úti og láta börnin rok, rigningu og kólnandi veður ekkert stoppa sig.

Við fengum góða gesti þessa vikuna í leikskólann en þá komu nokkrir leikskólakennarar frá Litháen og Eistlandi. Þær voru hér til þess að fylgjast með öllu því skemmtilega sem við gerum á hverjum degi.

Á miðvikudag fórum við í fimleika sem er alltaf jafn gaman en hópurinn er hægt og rólega að hristast saman.

í dag, föstudag bauð Sinfóníuhljómsveit Íslands öllum leikskólum upp á að fylgjast með streymi frá þeim þar sem hljómsveitin spilaði nokkur skemmtileg lög. Einnig var svo afmælisprins hjá okkur á Hæð og var haldið upp á það fyrir kaffi þar sem boðið var upp á popp, saltstangir og epli. Til hamingju með afmælið vinur og takk fyrir okkur.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja

Allir á Hæð