Hæð

Hæð er staðsett strax til vinstri þegar þú kemur inn í Forsali.  

Litur Hæðar er Bleikur og vinadeildin okkar er Lind.

Á Hæð eru 18 börn, öll fædd árið 2014

Beinn sími er: 441-5216


Starfsfólkið á Hæð:

Unnur - Leikskólakennari, Deildastjóri. Netfang: unnurba@kopavogur.is

Aneta - Háskólamenntaður starfsmaður

Ágústa Dan - Háskólamenntaður starfsamður

Guðbjörg Lilja - Leikskólakennari

Þurý - Leikskólaliði

 

 

Dagbók

20. desember

Sælir kæru foreldrar

Mikið hefur verið að gera hjá okkur þessa vikuna.

Á þriðjudaginn var jólaball hjá okkur þar sem Hurðaskellir kom í heimsókn, dansaði með börnunum og sýndi þeim töfrabrögð. Eftir ballið kíkti hann svo inn á deildirnar og gaf öllum stilltu börnunum á Hæð bók að gjöf. Í hádegismat var svo hangikjöt með öllu og ís í eftirrétt sem rann mjög ljúft niður.

Á miðvikudaginn kom Þórdís Arnljótsdóttir leikkona í boði foreldrafélagsins og sýndi okkur leikritið Grýla og jólasveinarnir. Börnin skemmtu sér vel og tóku virkan þátt í sýningunni. Eftir hádegi kláruðu börnin svo að ganga frá og pakka inn jólagjöfunum sínum til mömmu og pabba.

Á fimmtudaginn voru það stollt börn sem fóru heim með gjafirnar sínar og bíða eflaust spennt eftir að þær verði opnaðar.

Í dag, föstudag var síðasta jólasamveran fyrir þessi jól þar sem allar deildirnar í leikskólanum hittust, sungu nokkur lög og kveiktu á síðasta kertinu í aðventukransinum, Englakertinu.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja                                                                                                                                                                     Allir á Hæð

 

13. desember 2019

Sælir kæru foreldrar.

Þessi vika hefur einkennst af áframhaldandi jólaundirbúningi, lími og glimmeri. Við höfum ekki látið kuldann á okkur fá heldur farið út að leika á hverjum degi enda hefur sjórinn mikið aðdráttarafl.

Á miðvikudaginn var afmælisprinsessa hjá okkur og bauð hún okkur upp á saltstangir, ostapopp og melónu sem börnin kunnu vel að meta. Til hamingju með afmælið og takk fyrir okkur.

Í dag, föstudag skreyttu börnin jólatréð með perlusnjókornum sem þau höfðu perlað fyrr í vikunni. Eftir hádegi var jólasamvera með hinum deildunum á leikskólanum þar sem við kveiktum á þriðja kertinu í aðventukransinum okkar, Hirðakertinu og sungum saman nokkur jólalög. í dag var líka jólaþema hjá okkur í leikskólanum og má segja að rauði liturinn hafi verið mjög ráðandi í klæðnaði bæði barna og kennara.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Allir á Hæð

 

6. desember 2019

Sælir kæru foreldrar

Nú er jólaundirbúningur kominn á fullt og við önnum kafin við að klippa, líma og mála ásamt því að nota svolítið af glimmeri því fátt tilheyrir jólunum betur en smá glimmer. Við syngjum mikið af jólalögum og æfum okkur fyrir jólaballið sem verður þann 17. desember.

Á fimmtudaginn var afmælisbarn hjá okkur á Hæð og bauð hún okkur upp á popp og saltstangir. Til hamingju með afmælið og takk fyrir okkur.

Í dag, föstudag var svo jólasamvera hjá okkur ásamt öllum hinum börnunum á leikskólanum. Við kveiktum á öðru kertinu á aðventukransinum okkar, Betlehem kertinu og sungum nokkur jólalög.

Takk fyrir vikuna og góða helgi.

Kveðja 

Allir á Hæð

 

30. nóvember 2019

Sælir kæru foreldrar.

Vikan hefur liðið hratt við leik og störf. Við erum aðeins farin að undirbúa jólin með því að syngja jólalög, gera jólaskraut á jólatréð og einnig skraut sem kemur til með skreyta deildina okkar.

Á þriðjudaginn var mikill kökuilmur í húsinu en þá bökuðum við piparkökur og hlustuðum á jólalög. Mjög skemmtileg stemming myndaðist og gáfum við okkur góðan tíma til að njóta hennar.

Á fimmtudaginn var mikil spenna í loftinu enda var loksins komi tími til að borða piparkökurnar sem við höfðum bakað. Við byrjuðum morguninn á því að baka aðeins fleiri kökur svo að öll hlaupabólubörnin okkar fengju nú líka að baka. Eftir hádegismatinn voru allir orðin frekar spenntir enda von á foreldrum í heimsókn í piparkökur og kakó. Gaman var að sjá hve margir sáu sér fært að kíkja til okkar, takk fyrir komuna.

Í dag, föstudag kveiktum við á fyrsta kertinu í aðventukransinum okkar, spádómskertinu og sungum nokkur jólalög með hinum börnunum í leikskólanum.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja 

Allir á Hæð

 

15. nóvember 2019

Sælir kæru foreldrar

Í smiðju höfum við verið að vinna að sameiginlegu verkefni með öllum 2014 árgangnum þar sem við tókum fyrir vináttuna. Afraksturinn kemur svo til með að verða hengdur upp í Smáralindinni á sameiginlegri sýningu með hinum leikskólum bæjarins þar sem áherslan er lögð á Barnasáttmálann.

Á fimmtudaginn var leikvangur hjá Kollu sem alltaf vekur jafn mikla lukku.

Í dag, föstudag var svo heilmikið húllumhæ á leikskólanum þar sem haldið var upp á 18. ára afmæli hans. Börn og kennarar mættu í leikskólann í búningum eða furðufötum. Fyrir hádegi kom Wally frá sirkus Íslandi og var með sýningu fyrir börnin þar sem allir skemmtu sér mjög vel. Eftir sýninguna reimuðu allir á sig dansskóna og skelltu sér á ball á ganginum fyrir framan deildarnar. Í hádegismat var boðið upp á pizzu sem rann mjög ljúft niður en eftir matinn var boðið upp á andlitsmálningu. Í kaffinu var svo að sjálfsögðu súkkulaðiafmæliskaka og ljómi.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja allir á Hæð

 

25. október 2019

Sælir kæru foreldrar

Vikan hefur verið fljót að líða. Börnin hafa ekkert látið kuldann á sig fá og finnst fátt skemmtilegra en að leika úti.

Á miðvikudaginn var afmælisbarn hjá okkur og bauð hún okkur upp á ostapopp og jarðaber. Til hamingju með afmælið og takk fyrir okkur. Á miðvikudaginn voru líka fimleikar hjá okkur sem allir eru alltaf jafn spenntir fyrir.

Á fimmtudaginn fórum við í langa vettvangsferð, við tókum strætó niður á Hlemm og gengum þaðan niður í Þjóðleikhúsið þar sem við sáum leiksýninguna um Ómar orðabelg. Börnin stóðu sig eins og hetjur, sátu og fylgdust með þótt að sýningin hafi verið talsvert löng. Eftir sýninguna gengum við niður á Lækjartorg og tókum strætó þaðan aftur í leikskólann með smá viðkomu á leikvellinum bak við bókasafnið í Hamraborg.

Í dag, föstudag er óhætt að segja að fjölbreytt dýralíf hafi verið alsráðandi á deildinni þar sem bangsadagurinn var í dag. Slöngur, pelikanar, hundar, birnir og fleiri dýr mættu með börnunum og tóku þátt í starfinu með okkur.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja

Allir á Hæð

 

11. október 2019

Sælir kæru foreldrar

Lífið gengur sinn vana gang hér á Hæðinni, við höfum nýtt góða veðrið og verið mikið úti ásamt því að vinna hin ýmsu verkefni inni við.

Í smiðju gerðu börnin fingrabrúðu úr gipsi. Meðan gipsið var að þorna áttu þau að gera vinnuteikningu þ.e.a.s að teikna hvernig brúðan ætti að líta út.  Margir gerðu ljómandi fína vinnuteikningu sem sýndi af mikilli nákvæmni hvernig útlitið yrði. Þau fundu síðan sjálf efni í hár, kórónur, föt og það sem þau vildu hafa á brúðunni. Fengu að fara með hana ásamt WC-rúllu verkefnið heim.

Á þriðjudaginn fórum við í langan göngutúr bak við Þrymsalina og enduðum síðan á leiksvellinum við Þrúðsalina ásamt því að prófa æfingartækin við göngubrúna yfir Arnarnesveg þar sem allir fengu góða útrás. Það voru því þreytt og sátt börn sem komu til baka í hádegismat að ferð lokinni.

Fimleikar voru síðan á miðvikudag og eru börnin aðeins farin að skólast til í þeim.

í dag, föstudag var svo bleikur dagur, mikið var gaman hve margir komu í bleiku í leikskólann og tóku þátt með okkur.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja

Allir á Hæð

 

 

4. október 2019

Sælir kæru foreldrar

Þessi vika hefur verið fljót að líða, við höfum verið mikið úti og láta börnin rok, rigningu og kólnandi veður ekkert stoppa sig.

Við fengum góða gesti þessa vikuna í leikskólann en þá komu nokkrir leikskólakennarar frá Litháen og Eistlandi. Þær voru hér til þess að fylgjast með öllu því skemmtilega sem við gerum á hverjum degi.

Á miðvikudag fórum við í fimleika sem er alltaf jafn gaman en hópurinn er hægt og rólega að hristast saman.

í dag, föstudag bauð Sinfóníuhljómsveit Íslands öllum leikskólum upp á að fylgjast með streymi frá þeim þar sem hljómsveitin spilaði nokkur skemmtileg lög. Einnig var svo afmælisprins hjá okkur á Hæð og var haldið upp á það fyrir kaffi þar sem boðið var upp á popp, saltstangir og epli. Til hamingju með afmælið vinur og takk fyrir okkur.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Kveðja

Allir á Hæð