Hóll

Hóll er í Gili og er hún innsta deildin þeim megin.

Litur Hóls er blár og er hann vinadeild Lautar.

Á Hóli eru 21 barn, öll fædd árið 2015

Beinn sími er: 441-5214

 

Starfsfólkið á Hóli:

Ragnheiður - Lýðheilsufræðingur, Deildarstjóri Netfang:ragnheidurt@kopavogur.is

Brynhildur - Þroskaþjálfi

Kasia - Háskólamenntaður starfsmaður

Ásdís Embla - Leiðbeinandi 

Sonja Rut - Háskólamenntaður starfsmaður

Isabel - Leiðbeinandi

Júlíana - Leiðbeinandi. Er í veikindaleyfi

 

Dagbók

17. janúar 2020

Kæru foreldrar,

skemmtileg vika að baki hjá okkur á Hóli. Börnin fóru öll í leikvang á mánudag til Kollu og í smiðju til Nönnu á miðvikudag- 2 hópar f. hádegi og 2 hópar eftir. Þar sem Spiderman og Ponyhópur eru eftir hádegi í smiðjunni var ákveðið að fara með þau í  sögustund á bókasafnið í Hamraborg. Börnin voru öll mjög ánægð með ferðina, voru dugleg að hlusta á sögurnar og léku sér svo á eftir í leikhorninu í bókasafninu, skoðuðu líka aðeins Náttúrugripasafnið. Á fimmtudag var vettvangsferð og löbbuðum við góðan hring í hverfinu. Höfum leikið inni í rólegheitum í dag í alls konar leikjum og verkefnum og förum svo út eftir kaffitímann.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli

 

10. janúar 2020

Sælir kæru foreldrar og gleðilegt ár.

Nú er starfið allt saman að komast af stað eftir langt og gott jólafrí. Börnunum fannst gaman að komast í leikvang á mánudagsmorgun og æfa sig í þrautabraut hjá Kollu. Í smiðju á miðvikudag bjuggu þau til flotta víkingahjálma. Við höfum farið út á hverjum degi í vikunni og nýttum tímann þegar stytti upp, ákváðum samt að sleppa vettvangsferðinni í gærmorgun.  Bóbó bangsi er kominn úr jólafríi og fer í heimsókn um helgina, það var mikil hamingja með það.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli20. desember 2019

Kæru foreldrar,

Vikan er sko búin að vera skemmtileg hjá okkur. Prestarnir úr Lindakirkju komu og sögðu okkur jólasöguna og sungu svo fullt af jólalögum með krökkunum

Jólaballið var á þriðjudag og það var yndislegt að sjá hvað allir voru fínir og spenntir, sérstaklega fyrir jólasveininum Hurðaskelli sem kom inná ballið með miklum látum og skellti látlaust eldhúshurðinni. Eftir ballið fór hver inná sína deild og þangað kom síðan jólasveinninn og útdeildi gjöfum frá foreldrafélaginu. Við borðuðum jólamatinn inná hverri deild og það skapaðist róleg og notaleg stemning.

Á miðvikudagsmorgun horfðum við á leikrit um Grýlu og jólasveinana - leikhús í tösku sem Þórdís Arnljótsdóttir leikkona var með. Mjög skemmtilegt leikrit og allir svo stilltir og duglegir að hlusta og sitja kyrrir. Þessi leiksýning var í boði foreldrafélagsins og þökkum við kærlega fyrir. 

Útivera hefur verið alla daga- oftast nær eftir kaffitímann, það hefur verið hægt að renna sér niður hólinn á rassaþotum sem er alltaf skemmtilegt.

Í dag kveikjum við á síðasta aðventukertinu, englakertinu og syngjum nokkur jólalög.

Minnum á skipulagsdaginn 2. janúar en þá er leikskólinn lokaður.

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og vonum að þið hafið það sem allra best yfir hátíðirnar.

Starfsfólkið á Hóli.

 

13.12.2019

Kæru foreldrar,

Vikan hefur liðið hratt í notalegheitum við að útbúa jólagjafir fyrir foreldra og föndra eitt og annað skemmtilegt og lita jólamyndir. Á mánudag var síðasti dagur í Leikvangi fyrir jól og eins í smiðju á miðvikudag. Jólatréð var skreytt á þriðjudag og börnin hafa eitt af öðru verið að hengja sitt skraut á tréð.

Það hafa verið mikil veikindi í vikunni, hjá okkur sem og öðrum deildum- við sendum öllum batakveðjur og hlökkum til að sjá alla í næstu viku.

Það verður heilmikið um að vera í næstu viku:

  • Mánudaginn, 16. desember verður heimsókn frá Lindakirkju kl. 9.30
  • Þriðjudaginn, 17. desember eru litlu jólin okkar og byrjar jólaballið á eldri gangi kl. 10 og þá dönsum við í kringum jólatréð og aldrei að vita nema jólasveinn komi í heimsókn. Svo er jólamatur í hádeginu með ís í eftirrétt.
  • Miðvikudaginn,18. desember býður Foreldrafélagið upp á leiksýningu en það er Leikhús í Tösku með jólasýningu fyrir okkur kl. 10.30.
  • Fimmtudaginn,19. desember fara jólagjafir til foreldra heim.

Í dag verður svo jólastund með öllum í leikskólanum og syngjum við jólalög saman og kveikjum á 3ja kertinu á aðventukransinum, Hirðakertinu.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli

28.11.2019

Kæru foreldrar,

þakka ykkur kærlega fyrir komuna í gær, það var ánægjulegt að sjá hversu margir gátu komið og gætt sér á kakói og piparkökum. Þessi vika byrjaði á leikvangi hjá Kollu á mánudag og svo var farið út eftir kaffið. Við höfum verið að æfa okkur í að syngja jólalög þessa viku og læra fyrst erindið í aðventusálminum því núna rétt fyrir tvö ætlum við að sameinast inn á yngri gangi og kveikja á fyrsta kertinu og syngja saman. Á þriðjudag og miðvikudag fengu allir að búa til piparkökur í matsalnum og hlusta á jólatónlist á meðan. Smiðja hjá Nönnu var á miðvikudag og þar er ýmislegt jólaföndur.  Börnin voru mjög spennt yfir því að fá foreldra í heimsókn í gær og voru farin að bíða löngu fyrir hádegi.  Það voru allir inni fyrir hádegi í gær að mála jólamyndir til að hengja upp en svo fórum við út eftir mat og hressa okkur við fyrir foreldrakaffið. 

Á næsta mánudag ætlum við í heimsókn á bókasafnið í Hamraborg að hlusta/horfa á jólakattasögu.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli

22.11.2019

Kæru foreldrar,

stutt vika á enda og allt með svipuðu sniði og venjulega. Leikvangur hjá Kollu á mánudag og smiðja hjá Nönnu á miðvikudag, eins voru tímar hjá Jónínu og nokkrir sérstaklega heppnir að fá að fara í tíma(sem annars eru ekki). Hópastarf á sínum stað á miðvikudag- nú hafa börnin verið að æfa fínhreyfingar klippa, lita og líma.  Og það var afmælisstelpa á þriðjudag sem varð 4 ára og bauð öllum uppá popp og saltstangir.  Mikil gleði ríkti yfir pínulitla snjónum sem kom í vikunni og allir hlupu út og fóru að renna sér í brekkunni, þar sem þetta var eins og áður sagði mjög lítill snjór leið ekki á löngu þar til allur snjór var farinn og eftir stóð drulluleðja sem líka var skemmtilegt að leika sér í  og báru útifötin hjá einhverjum þess örugglega merki.

Í næstu viku verður heldur betur skemmtilegt hjá okkur því á þriðjudag ætlum við að baka piparkökur. N.k. fimmtudag á milli 14-16 ætla svo börnin að bjóða foreldrum sínum í kakó og piparkökur. Verið hjartanlega velkomin

Á næsta föstudag, 29. nóv er síðasti dagur í Lubba verkefninu okkar þannig að við hvetjum ykkur til að vera extra dugleg í beinasöfnun þessa daga sem eftir eru:)

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli

                

 

15.11.2019

Kæru foreldrar,

vikan var fljót að líða hjá okkur eins og alltaf. Leikvangur hjá Kollu var á mánudag við mikinn fögnuð eins og venjulega. Smiðja hjá Nönnu á miðvikudag en rúsínan í pylsuendanum þessa vikuna var auðvitað 18 ára afmæli leikskólans sem er í dag, 16. nóvember en við héldum uppá það í gær með pompi og prakt. Gaman frá því að segja að allir á Hóli, bæði börn og kennarar mættu í búningum í tilefni dagsins. Það ríkti mikil spenna að sjá í hverju vinirnir yrðu nú!!! Það var Cheerios í morgunmat enda fóru óvenju margir  í morgunmat og sumir tvisvar. Kl. 09:30 kom hann Wallý frá Sirkus Íslands í heimsókn og sýndi listir sínar við mikinn fögnuð. Tvö börn tóku þátt í parti af prógramminu með honum og stóðu sig mjög vel. Eftir sýninguna slógum við upp balli og dönsuðum út í eitt þar til dominos pizzurnar komu á svæðið í tilefni dagsins. Það var mjög gott enda margir orðnir svangir eftir annasaman morgun og gerðu pizzunum góð skil. Eftir matinn var hafist handa við að andlitsmála og flest allir spenntir fyrir því. Í kaffitímanum var súkkulaðikaka með rjóma og frjáls leikur eftir það. Margir voru orðnir hálf þreyttir eftir daginn enda búið að vera mikið fjör. - enn og aftur- minnum á skipulagsdaginn n.k. fimmtudag, 21. nóvember en þá er leikskólinn lokaður.

takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli

8. 11. 2019

Kæru foreldrar,

 Á mánudag skemmtu allir sér vel í leikvangi hjá Kollu.  það var  4 ára afmæli á mánudag. Afmælisbarnið var búið að búa til flotta kórónu og valdi sér disk og glas í tilefni dagsins. Fórum út eftir kaffið.  Á þriðjudag vorum við inni í ýmsum leikjum og enduðum daginn inni.  Á miðvikudag var smiðja hjá Nönnu. Nú eru börnin byrjuð að föndra jólagjafir. Útivera eftir kaffitímann. Í gærmorgun fórum við vettvangsferð og löbbuðum stóran hring- það voru mjög margir orðnir þreyttir í fótunum á leiðinni til baka. Lubba-fjallið okkar stækkar mikið dag frá degi- mjög skemmtilegt að sjá það.

Það verður heilmikið um að vera hjá okkur í næstu viku. Á föstudaginn 15. nóvember verður haldið upp á afmæli leikskólans, en hann verður 18 ára þann 16. nóvember. Í tilefni dagsins ætlum við að hafa búningadag/furðufatadag.  Brúðuleiksýningin  Pétur og Úlfurinn verður  kl 9:30, það verður ball, andlitsmálning í boði, pizza í hádegismat og súkkulaðikaka í kaffinu- þetta verður pottþétt mjög spennandi og skemmtilegur dagur.

Við minnum á skipulagsdaginn fimmtudaginn 21. nóvember.

 

takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli

2019

 

01.11.2019

Kæru foreldrar,

enn ein vikan þotin hjá og nú eru margir farnir að tala um að það sé að styttast í jólin ¿ Á mánudag skemmtu allir sér vel í leikvangi hjá Kollu í þrautabraut sem endaði á eltingaleik. Eftir hádegi voru hópar hjá Jónínu og útivera og svo enduðum við daginn úti líka.  Á þriðjudag var val milli ýmissa leikja og það var líka farið í bingo. Útivera eftir hádegismatinn. Á miðvikudag var smiðja hjá Nönnu þar sem börnin eru alltaf að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt og þau gerðu líka verkefni í Orðagulli. Það var svo útivera eftir kaffitímann. Í gærmorgun ákváðum við að fara í vettvangsferð og þar sem alla langaði svo voðalega mikið í strætó þá ákváðum við að fá brauð hjá Barböru í eldhúsinu og fara að gefa öndunum. Það voru allir spenntir fyrir því, samt voru þau pínu smeyk við endurnar sem drifu sig upp á bakkann og eltu til að fá meira brauð. Við andapollinn eru æfingatæki sem gaman var að æfa sig í eftir að brauðið kláraðist. Lubba-lestrarátakið okkar í Fífusölum byrjaði í dag og það var mjög skemmtilegt að fá fyrsta beinið strax í morgun til að líma á Lubba-fjallið. Við fórum út að leika í morgun og líka eftir kaffi í góða veðrinu.

takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli

25.10.2019

Kæru foreldrar,

það var mjög fámennt hjá okkur á mánudag og þriðjudag þar sem margir eiga eldri systkini sem voru í vetrarfríi. Það hefur líka verið svolítið um veikindi, hiti, kvef og hósti. Leikvangur hjá Kollu var á mánudag fyrir hádegi og svo var útivera bæði eftir mat og kaffi. Á þriðjudag vorum við inni fyrir hádegi í hópastarfi og ýmsum leikjum en fórum út eftir matinn. Við höfum verið að æfa samsett- setja tvö orð í eitt- t.d. skóli og taska=skólataska. Þetta var pínu erfitt fyrst en eftir að þau áttuðu sig á þessu finnst flestum þetta mjög skemmtilegt.  Þau hafa líka verið að æfa sig í að vinna verkefni í Ipadinum í Orðagulli sem er app sem miðar að því að styrkja orðaforða, máltjáningu, vinnsluminni og heyrnræna úrvinnslu en þetta eru mikilvægir undirbúningsþættir máls og læsis. Öllum sem hafa prófað þetta finnst þetta mjög spennandi og hafa viljað vinna fleiri en eitt verkefni.   Á miðvikudag var val fyrir hádegi, hægt var að velja útiveru eða ýmsa leiki inni. Smiðja féll niður í vikunni- Fórum út aftur eftir kaffitímann. Í gær vorum við inni fyrir hádegi en ákváðum að viðra okkur aðeins eftir matinn þótt það væri ískalt úti. Það var bara hressandi og börnin í fínum leik þrátt fyrir kuldann. Enduðum daginn með því að sameinast af öllum deildum á eldri gangi og hlusta á sögu í rólegheitunum. Í dag var bangsadagur og heljarinnar fjör hjá okkur, allir komu með bangsa og enginn var eins þannig að þau hafa skipst á að leika með bangsana.

Takk fyrir vikuna og góða helgi, Ragnheiður, Kasia, Stefanía, Brynhildur og Konráð

18.10.2019

Kæru foreldrar,

Vikan hefur verið fljót að líða hjá okkur. Á mánudag var Leikvangur hjá Kollu fyrir hádegi og útivera eftir matinn. Á þriðjudag vorum við inni fyrir hádegi í ýmsum leikjum og eins fóru þrír hópar til Jónínu. Fórum út eftir hádegið og aftur eftir kaffitímann. Á miðvikudag var ávaxtadagur hjá okkur, allir voru mjög spenntir fyrir honum. Smiðja hjá Nönnu var á sýnum stað og þar gerðu þau tilraun sem heitir ¿Þéttleiki vökva¿ úr bókinni Skemmtilegar tilraunir með vatn. Síðan gerðu þau sjálfsmynd þar sem þau byrja á því að teikna sjálft sig með blýanti síðan eiga þau að klæða teikninguna í föt (efnisbútar)og setja hár (garn) og aðra fylgihluti (það sem þau finna í smiðju). Síðan kláruðu þau að líma augu á skrímslið sitt auk þess sem þau voru beðin um að segja aðeins frá skrímslinu sínu. Í gær var bara verið úti nánast allan daginn þar sem veðrið var svo frábært.  Við vorum inni fyrir hádegi að spila, í holukubbum og í hópastarfi. Eftir mat fórum við út að leika í góða veðrinu og aftur eftir kaffitímann.

Í næstu viku- á föstudag höldum við uppá alþjóðlega bangsadaginn- allir mega koma með 1 bangsa að heiman

 

04.10.2019

Kæru foreldrar,

það hefur verið fullt að gera í þessari viku. Það komu til okkar gestir frá Litháen og Eistlandi en við höfum verið í Nordplus verkefni með þeim síðastliðið ár. Þær höfðu gaman af að koma og skoða hvað við erum að gera hér í Fífusölum. Það fóru allir til  Kollu á mánudaginn og í smiðju á miðvikudag. Í dag fórum við í vettvangsferð, ákváðum áður en við fórum að við ætluðum að finna form- hring, sexhyrning, ferhyrning eða kassa og þríhyrning. Krakkarnir voru ótrúlega dugleg að finna formin og höfðu gaman af. Fórum svo á tvo leikvelli að leika.

Næsta vika: á þriðjudaginn 8 verður leikfangadagur í Fífusölum. Allir mega koma með eitt leikfang að heiman :)

föstudaginn 11. október er bleikur dagur, hvetjum alla til að mæta í bleiku :)