Laut

Laut er í Gljúfri og er hún innsta deildin þeim megin.  

Síminn á Laut er 441-5213.

Litur Lautar er grænn og er hún vinadeild Hóls.  

Á Laut eru 16  börn, 8 börn fædd  2016 og  8 börn 2017.

 

Starfsfólkið á Laut:

Stefanía Ásta - Háskólamenntaður starfsmaður, Deildastjóri. Netfang: stefaniag@kopavogur.is

Freydís - Leiðbeinandi

Rebekka - Leiðbeinandi

Sonja - Háskólamenntaður starfsmaður

Ásdís Embla - Leiðbeinandi 

Anna Lára - Leiðbeinandi - Er í leyfi

 

Dagbók  

15. nóvember 2019

Þessi vika hefur gengið mjög vel. Á mánudaginn fengum við nokkur börn frá Læk í heimsókn inn á deild í smá stund og gekk það súper vel að leika saman, við skiptum þeim í minni hópa og höfum nokkrar stöðvar í boði í smá tíma og svo var skipt um stað. Þetta ætlum við að gera markvísst í náinni framtíð svo 2016 árgangurinn kynnist betur áður en þau fara yfir á eldri gang næsta sumar ;)

Á þriðjudaginn fórum við út í garð að leika fyrir hádegi og voru nokkur af „gömlu“ lautar börnunum úti og var gaman að leika við þau, þau náðu vel saman þar sem það voru ekki aðrir úti. Við fórum aftur út svo eftir síðdegishressinguna eins og við höfum gert alla vikuna.

Leikvangur var á sínum stað á miðvikudaginn þar sem Kolla var með 2017 börnin þrautarbraut en 2016 fóru í leiki. Í samverustundunum höfum við verið að lesa bækur og skrifað á Lubba bein og sett í fjallið hans Lubba og eru börnin mjög spennt yfir því.

Því miður hafa tímarnir hjá Jónínu fallið niður í vikunni vegna veikinda og smiðjan féll niður í dag þar sem við vorum að halda upp á 18 ára afmæli leikskólans og  fagna degi íslenskrar tungu sem er á morgun sem og Lubbi sem verður 10 ára. En hann Wally frá Sirkus Íslands í heimsókn og  skemmtu börnin sér konunglega yfir honum og þökkum við Foreldrafélaginu kærlega fyrir sýninguna 😊Eftir sýninguna var ball hérna á yngri gangi og var mikið fjör og gaman. Ekki alveg allir að taka þátt í dansinum en fylgdust þó með af áhuga og þeir sem höfðu engan áhuga fór bara inná deild að púsla og lita.  Fyrir sýninguna var sungin afmælissöngurinn fyrir leikskólann og líka lagið sem við höfum verið að æfa okkur, Á íslensku má alltaf finna svar.

Það var pizza frá Dominos í hádeginu og svo var skúffukaka, hrökkkex og ávextir í kaffitímanum. Eftir hvíld var svo andlitsmálun í boði fyrir þau sem vilja. Myndir og myndbönd eru kominn inn á facebooksíðuna okkar.

Nú erum við öll komin út að leika og fá okkur frískt loft áður en haldið er í helgarfrí.  Góða helgi allir saman og njótið.

Stefanía, Rebekka, Ásdís Embla, Sonja og Freydís.

 

8. nóvember 2019

Kæru foreldrar

Þessi vika var nokkuð hefðbundin hjá okkur.  Útivera alltaf í lok dagsins og vonandi næst það líka í dag en það fer aðeins eftir veðri og vindum hvort við verðum inni eða förum út.  Á þriðjudaginn ákváðum við að vera ekki að hætta okkur út í hálkuna sem var á göngustígunum og fórum við því ekki í vettvangsferð en þökkum fyrir hvað veðrið hefur verið gott fram að þessu. En í staðin fórum við að skreyta myndamöppurnar okkar og ákváðum við að stimpla lófann okkar á möppurnar og mörgum fannst það pínu skrýtið að láta mála á lófann sinn en þetta tókst vel og öllum fannst gaman.

Svo höfum við verið að klára landslagsmyndirnar okkar og líma laufblöð á þær  svo vonandi koma þær fljótlega uppá vegg, mjög litríkar og flottar myndir.

Leikvangur var á sínum stað á miðvikudaginn, alltaf er hann í miklu uppáhaldi hjá börnunum og smiðjan hjá Nönnu var í dag og er það alltaf mjög skemmtilegt, en þar er byrjað að vinna að verkefni sem ekki má segja frá 😉

Annars hefur mikið verið að púsla en algjört púslæði er á deildinni sem er bara frábært. Við höfum líka verið að kubba, leika í holukubbunum, með eldhúsdótið, leika við börnin á Læk og Lind, leika með dýrin, dansa við súpermannlagið, lesa bækur og syngja.  Nú erum við að æfa lagið „ Á Íslensku Má Alltaf Finna Svar“ en við ætlum að syngja það með öllum leikskólanum í afmælisveislu leikskólans næstkomandi föstudag en leikskólinn á afmæli þann 16. nóvember á Degi Íslenskrar Tungu. En á föstudeginum verður mikið fjör og má koma í búningum/furðufötum.  Foreldrafélagið býður uppá leiksýningu og byrjar hún kl. 9.30!  Bernd Ogrodnik frá Brúðuheimum kemur með sýninguna Pétur og Úlfurinn. Það er því gott að mæta snemma þennan dag.

Meiri upplýsingar um afmælið koma í næstu viku.

Góða helgi

Allir á Laut

1. nóvember 2019

Þessi vika hefur gengið eins og í sögu, allir kátir og glaðir.  Hóparnir til Jónínu hafa verið á sínum stað, þar sem verið er að spila og spjalla.

 2017 börnin fóru í sína fyrstu vettvangsferð á þriðjudaginn sem gekk eins og í sögu, en þau löbbuðu út á Hvammsvöll og léku þar í smá stund áður en labbað var til baka í leikskólann.  2016 börnin fóru líka í vettvangsferð og kíktu á sögustund á bókasafnið í Lindaskóla en þar er alltaf sögustund kl. 10 á þriðjudögum sem við höfum verið að notfæra okkur í vettvangsferðir og fara börnin gangandi fram og til baka. Þau eru mjög dugleg að labba en það tekur á að labba til baka.

Því miður féll leikvangur niður  hjá Kollu á miðvikudaginn en við fórum samt í leikvang og lékum okkur þar nokkur í einu og á meðan var verið að  spila og leika sér inná deild og í holukubbunum sem eru svakalega vinsælir þessa dagana.

Í gær, fimmtudag vorum við að lita/mála myndir, landslagsmyndir sem við erum svo að líma laufblöð á, fallegar haustmyndir í vinnslu hjá okkur.

Í dag er smiðja hjá Nönnu og eru 2016 börnin að klára að skreyta saumaverkefnið sitt og 2017 börnin voru að þræða perlur og annað dót á band. Á meðan er verið að leika inná deild og leika í holukubbunum frammi.  Við munum enda daginn úti eins og við höfum gert alla dagana í vikunni.

Góða helgi 

Stefanía, Rebekka, Sonja, Ásdís og Freydís

26. október 2019

Kæru foreldrar

Það hefur verið nóg um að vera hjá okkur í vikunni og toppaði bangsadagurinn vikuna, þvílík spenna að koma með bangsann sinn í leikskólann.  Allir duglegir að deila sínum bangsa með vinum sínum og leyfa öðrum að prófa og fá að prófa bangsa frá öðrum. Mikill lærdómur í því.

En í þessari viku höfum við farið í hópa til Jónínu og í leikvang, smiðjan féll því miður niður í þessari viku.  Við höfum leikið með dýrin, kubbana, í holukubbunum, perlað, púslað, þrætt perlur á band, sungið, lesið bækur, leikið með bílana, leikið í dúkkukrók. Það er svo margt sem lærist í gegnum leikinn því er hann svo mikilvægur á þessum fyrstu árum barnsins.  

Í gær  gerðum við kóngulóarmyndir, eigum eftir að klára þær en það verður gert í næstu viku og þá koma þær upp á vegg hjá okkur.  Það er mikill áhugi á bókstöfunum hjá okkur og þá sérstaklega  hjá 2016 börnunum og eru  þau mikið að spá og skoða hver á hvaða staf og hvaða stafi þau eiga, systkini sín og mamma og pabbi. Við höfum því aðeins verið að kíkja á vin okkar hann Lubba.

2016 börnin fóru í vettvangsferð á rólóvöllinn við Örvasali  á þriðjudaginn og þrátt fyrir kulda höfum öll farið  1 -2 svar út alla dagana. Börnin hafa ekki verið að kvarta yfir  kuldanum og elska að vera úti.

Góða helgi 

Allir á Laut

18. október 2019

Kæru foreldrar

Í þessi vika hefur gengið hratt enda nóg um að vera hjá okkur.  Fastir liðir eins og hópar til Jónínu voru á sínum stað. Útivera á mánudagsmorgni og þriðjudagsmorgni með vettvangsferð hjá 2016 hópunum á sínum stað, 2017 börnin undu hag sínum vel í garðinum okkar á meðan. Í leikvangi á miðvikudaginn var mikið stuð og komu allir rjóðir og þyrstir til baka, þá var nú gott að vera með vatnsbrúsann sinn til taks inná deild til að fá sér að drekka.  Útivera hefur verið fastur liður hjá okkur eftir síðdegishressingu og við endað daginn úti, enda veðrið mjög gott þá það sé aðeins svalt fyrst á morgnana.

Hápunktur vikunnar var ávaxta- og grænmetisdagurinn á fimmtudaginn, börnin biðu spennt eftir honum. Frábært hvað allir duglegir að koma með ávöxt eða grænmeti fyrir okkur til að deila og úr varð mikill ávaxtaveisla.  Takk fyrir.

2016 hópurinn fór í hópastarf á fimmtudaginn, kláruðum við að gera myndir sem hanga núna fyrir ofan Holukubbana, en þau teiknuðu myndir með penna og máluðu svo.  Við fórum svo í að klappa nöfnin okkar í atkvæði  og enduðum við að lesa 2 Skrýmslabækur sem þeim finnst svo skemmtilegar.  2017 börnin voru að leika í dúkkukrók á meðan og fara í hópa til Jónínu. Þau voru búin að gera svona myndir. 

Í dag, föstudag er smiðja hjá okkur og meðan hópar eru í smiðju eru hinir að leika með holukubba, púsla og leika inn á deild.

Þetta hefur Nanna að segja um smiðjuna:

2016:

Saumuðu í verkefnið sem þau klipptu í síðustu viku.  Þeim gekk vel að sauma, áttu að einbeita sér að því að fara til skiptis upp og niður með nálina.

2017:

Í sullukarið var búið að setja vatn og ull, þau máttu sulla í þessu eins og þau vildu. Flest pínu hikandi til að byrja með en síðan var þetta bara gaman. Skoðuðum litina og mótuðum orm, fjall og fleira. Í lok tímans settumst við í hring og sungum nokkur lög.

Eftir hádegismatinn fóru þau börn út sem eiga ekki að sofa, þar sem veðrið var svo gott og lékum sér lengi úti og núna eftir síðdegishressingu eru allir komnir aftur út.

Takk fyrir góða viku og góða helgi allir saman

Allir á Laut

 

11. október 2019

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur liðið áfram af krafti enda nóg um að vera hjá okkur.  Mikið hefur verið um útiveru hjá okkur vikunni.  Hóparnir hjá Jónínu voru á sínum stað.  Leikvangur var á miðvikudaginn eins og venja er það alltaf jafn skemmtilegt og mikill tilhlökkun hjá börnunum að fara í leikvang. Smiðjan var á sínum stað í dag og þetta hafði Nanna að segja um smiðjuna:

 2016:

Í dag gerðu þau tvö verkefni. Þau áttu að teikna karl á langt blað og síðan klæða hann í föt. Fötin voru efnisbútar sem þau límdu á og hárið var í flestum tilfellum garn, sumir voru þó með húfu. Hitt verkefnið er hluti af stærra verkefni, en í því strikuðu þau með blýanti eftir formi. Fylgdist með að þau héldu rétt á blýanti, þau voru misfær í að elta útlínur formsins sem þau strikuðu eftir. Síðan klipptu þau út formið, flest héldu rangt á skærunum og gerðum við því þetta saman til að leiðrétta haldið. Um leið og þau beittu sér rétt þá prófaði ég að sleppa takinu. Höldum áfram að æfa okkur í þessu. Seinni hópurinn mátti teikna þegar þau voru búin með verkefnin sín, ég bað þau síðan að segja okkur sögu út frá myndinni og fengu klapp að launum frá okkur hlustendum. Gaman að sjá hvað þau voru stolt af því að sýna myndina og segja frá henni. Þarf greinilega að gera meira af þessu.

2017:

Fann bókaplast inn í skáp sem búið var að teikna kindur á, ákvað að nota það í kindaverkefnið okkar. Þau límdu ull á kindina, máttu velja úr 4 litum. Síðan setti ég ramma og bókaplast  á bakhliðina til að loka þessu. Átti von á sum myndu ekki vilja snerta ullina en mér skjátlaðist þar. Verkefnið gekk því vel þannig að nú eiga þau kind sem þau geta snert ullina á.

Hápunktur vikunnar var þó þriðjudagurinn en þá var hinn langþráði Dótadagur eini dagurinn sem má koma með dót í leikskólann fyrir utan bækur og bangsa í hvíldina.  En við ákváðum að sleppa vettvangsferðinni hjá 2016 og leyfa þeim að leika sér með dótið sitt.  Við fórum með 2017 börnin út fyrst í um klukkutíma svo 2016 hefðu ró og næði að leika sér við dótið sitt inni og svo eftir klukkutímann komu þau út og 2017 börnin fóru inn að leika með sitt dót í ró og næði.  Þetta gekk alveg rosalega vel og allir voru ánægðir.  Fyrst um morguninn var aðeins um árekstra um dótið en þegar leið á voru allir farin að deila og lána dótið sitt og fengu þá að prófa annað dót á meðan.

Í dag var bleiki dagurinn og var gaman hve margir komu í einhverju bleiku, virkilega skemmtilegt og börnin öll svo ánægð með það líka 😉

Takk fyrir góða viku og góða helgi

Við á Laut

 

4. október 2019

Kæru foreldrar

 

Þessi vika var hefðbundin hjá okkur allt á sínum stað.  en á mánudaginn var útivera hjá okkur fyrir hádegi, að vísu fóru einhverjir í hópa til Jónínu í spil og spjall og komi svo út til okkar.  Eftir samverustund, mat og hvíld voru einhverjir sem fóru til Jónínu. Eftir samverustund fórum við svo út og enduðum daginn úti.

Á þriðjudaginn fóru 2016 börnin í gönguferð á Bókasafnið í Lindaskóla til að fara á sögustund kl. 10.00. Þau náðu að skoða bækurnar áður en sögustundin byrjaði. Þetta er í annað sinn sem þau fara á bókasafnið og hefur það gengið vel og börnin ánægð með þessa tilbreytingu.  2017 börnin fóru út að leika. Þau njóta þess að vera í garðinum þegar eru ekki mörg börn úti og eru svo dugleg að leika sér.  Þá eru rólurnar og sandkassinn skemmtilegast.  Eftir samverustund, mat og hvíld voru við með rólegan leik inná deild við að púsla. Eftir síðdegishressingu var farið út og enduðum við daginn úti. 

Á miðvikudaginn, var leikvangur hjá okkur og er alltaf svo gaman að börnunum þar, þau koma mörg vel sveitt og þyrst eftir tímann hjá Kollu. Einn hópur fer til Kollu þegar við hin förum í hvíld eftir samverustund og mat.  Eftir það eru 2 hópar sem fara til Jónínu.  Eftir síðdegishressinguna fórum við út að leika.

Í gær, fimmtudag var mikill rigning og rok að við vorum inni að leika allan daginn.  Við gerðum margt skemmtilegt eins og að fara í dúkkukrók, leika með Playmóið, kubba, lita, kíkja á búningakassann, leika í holukubbunum og syngja og lesa bækur.

Í dag, var smiðja hjá okkur og þetta hefur Nanna að segja með smiðjuna:

Árgangur 2016:

Í dag gerðum við pappírsskálar, í þær notuðum m.a laufblöðin sem við höfum verið að týna í haust.  Skálinn er mótuð utan um blöðru, límið sem við notuðum er eins og slím viðkomu og því gaman að nota puttana í verkið. Öll nema eitt náðu að klára þetta verkefni.

Árgangur 2017

Teiknuðu og máluðu við trönur í dag, notuðu fyrst vaxliti og síðan máluðu þau yfir með vatnslitum. Mér sýndist þau hafa sérstaklega gaman af þessu verkefni, greinilega önnur tilfinning að standa við að mála heldur en að sitja.

Allir komu glaðir til baka úr smiðjunni.  Á meðan hópar voru í smiðju vorum við hin að leika í holukubbum, með dýrin, með eldhúsdótið og lita.  Eftir samverustund, mat og hvíld vorum við í rólegum leik inná deild, að púsla.  Eftir síðdegishressingu ætluðum við að fara öll út að leika en það var komið svo mikið rok að 2016 börnin fóru út í smástund.  Við enduðum því daginn inni. 

Takk fyrir vikuna og góða helgi