Hlíð

Hlíð er í Gili og er hún gegnt innganginum þeim megin.

Litur Hlíðar er fjólublár og er hún vinadeild Lækjar.

Beinni sími er: 441-5215

 

Starfsfólkið á Hlíð:

Margrét - Leikskólakennari, Deildastjóri. Netfang:margretr@kopavogur.is

Ágústa Dan - Háskólamenntaður starfsmaður

Ester - Leiðbeinandi. Nemi í leikskólafræðum

Hafdís - Leikskólaliði

Kristbjörg - Háskólamenntaður starfsmaður

Stefanía Björk - Leiðbeinandi

 

Dagbók

18. október 2019

Kæru foreldrar

Þá er enn ein vikan á enda komin. Það er búið að vera yndislegt veður hjá okkur í vikunni og höfum við reynt að hafa útiveruna eins oft og hægt er. Þótt að það hafi verið gott veður þá kólnar ansi hratt þessa dagana og væri gott að fara að huga að hlýrri fötum og skóm hjá þeim sem eiga eftir að koma með. 

Ávaxta- og grænmetisdagurinn okkar á Hlíð var á miðvikudaginn og var úrvalið mikið, svo mikið að það þurfti að skipta þessu niður á tvo daga. Börnunum fannst það ekkert leiðinlegt enda eru þau rosalega dugleg að smakka og borða ávexti og grænmeti. 

Í gær var Aðalfundur leikskólans og viljum við þakka öllum þeim sem sáu sér fært um að komast kærlega fyrir komuna. 

Hópastarf hefur gengið sinn vanagang og eru þau alltaf jafn virk og áhugasöm fyrir því. Í leikvangi var farið í skemmtilega þrautabraut og komu allir vel sveittir og glaðir frá henni Kollu. Í smiðju voru börnin að gera tilraun með Nönnu sem heitir ,,Þéttleiki vökva" sem hún fann í bókinni Skemmtilegar tilraunir með vatn. Börnin gerðu einnig sjálfsmyndir og eiga þau svo seinna eftir að klæða sig/teikninguna í föt með því að nota efnisbúta, garn o.fl. fylgihluti sem þau finna í smiðju. 

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð 

 

11. október 2019

Kæru foreldrar 

Það var skemmtileg vikan hjá okkur á Hlíð. Á mánudaginn fór dagurinn að mestu í frjálsan leik, bæði úti og inni. Börnin hafa verið mjög dugleg að vilja leika úti og hafa þau flesta daga vikunnar farið 2x út á dag. 
Á þriðjudaginn fóru allir í smiðju til hennar Nönnu og voru börnin búin að biðja um að fá að gera skrímsli. Börnin fengu 6 akrýlliti, pípettur og rör. Málningin var sett á blað með pípettum og var rörið notað til þess að blása málninguna til. Skrímslin eru ekki alveg tilbúin enn en þau verða kláruð í næstu tímum. 
Einnig á þriðjudaginn var dótadagur og kom fullt af skemmtilegu dóti að heiman. Börnin léku sér mjög vel þennan dag og var spenningurinn í hámarki allan daginn. Börnin voru mjög dugleg að deila og skiptast á. 
Leikvangur féll því miður niður í þessari viku en það fóru allir út að leika í staðinn. Mörg börnin eru mjög dugleg að fara í leiki úti á gervigrasvelli og eru vinsælustu leikirnir þessa dagana fótbolti, stórfiskaleikur og brennibolti. 

Takk fyrir vikuna og góða helgi. 
kv. Allir á Hlíð 

 

4. október 2019

Kæru foreldrar

Það er búið að vera mikið um að vera í leikskólanum í þessari viku. Leikskólinn er að taka þátt í norrænni menntaáætlun sem kallast Nordplus og starfar hún á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Í þessu verkefni eru veittir styrkir á sviði menntamála til aðila á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Við fengum 3 gesti frá Litháen og 3 gesti frá Eistlandi og voru þær stóran part af vikunni hjá okkur í leikskólanum, en þær fóru einnig að skoða 2 aðra leikskóla og 1 grunnskóla. Við á Hlíð fengum þær í heimsókn á þriðjudaginn eftir hádegi og buðum við þeim með okkur í útikennslu sem var partur af smiðju. Það gengu allir saman upp í útikennslustofu og af því að þetta var í fyrsta skiptið sem að við fórum með Nönnu þá var bara frjáls tími í hlíðinni. Börnin fóru upp og niður hlíðina, klifruðu upp í trén og gátu fengið stækkunargler til þess að skoða umhverfið. Það komu allir þreyttir og svangir til baka og gekk ferðin ótrúlega vel.
Við ætlum að breyta fyrirkomulaginu á smiðjunni frá og með þessari viku en nú mun smiðjan vera alltaf bara á þriðjudögum í staðinn fyrir að rúlla á mán., þri. og mið.. Við ætlum að halda áfram að hafa flæði inn í smiðjuna en flæða samt innan deildar en ekki með öllum árganginum eins og við vorum að prófa, það fyrirkomulag gekk því miður ekki vel.

Í gær, fimmtudag, fór elsti hópurinn í Safnahúsið (Þjóðminjasafn Íslands) og á sýninguna ,,Þjóðsögur og kynjaskepnur“. Börnin sýndu mikinn áhuga á því sem þeim var sagt og sýnt og fengu þau að heyra þjóðsögur af álfum og tröllum. Einnig fengu þau að skoða bein o.fl. sem tengjast sögunum og kynjaskepnunum. Strætó ævintýrið hélt áfram hjá þessum hóp en þau misstu líka af strætó á leiðinni til baka eftir sýninguna. Það var ekki að sjá annað, og heyra, að börnin hafi skemmt sér vel á sýningunni.

Næsta vika:
Þriðjudaginn 8. okt. er dótadagur hjá okkur á leikskólanum og mega börnin koma með 1 dót að heiman þennan dag. Við óskum samt eftir að smádót og dót með miklum hávaða sé haldið heima. Muna að merkja vel.
Föstudaginn 11. okt. er bleikur dagur hjá okkur í tilefni Bleika dagsins. Þennan dag mega börnin mæta í einhverju bleiku eða með eitthvað bleikt á sér.

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð