Hlíð

Hlíð er í Gili og er hún gegnt innganginum þeim megin.

Litur Hlíðar er appelsínugulur og er hún vinadeild Lækjar.

Á Hlíð eru 21 barn, 10 fædd árið 2015 og 11 fædd árið 2014

Beinni sími er: 441-5215

 

Starfsfólkið á Hlíð:

Margrét - Leikskólakennari, Deildastjóri. Netfang: margretr@kopavogur.is

Ágústa Dan - Háskólamenntaður starfsmaður

Ester - Leiðbeinandi. Nemi í leikskólafræðum

Hafdís - Leikskólaliði

Stefanía Björk - Leiðbeinandi

 

Dagbók

6. desember 2019

Jæja þá er Desember mánuður skollinn á með öllum sínum skemmtilegu hefðum og jólagleði. Það braust út mikil gleði í vikunni þegar að fyrsti almennilegi snjórinn lét sjá sig og voru börnin ekki lengi að klæða sig út þann daginn. Snjóþoturnar er vinsælasta útidótið þessa dagana og eru þær í svo mikilli noktun að nokkrar hafa brotnað til helminga. Sem betur fer eigum við nóg af þotunum svo allir geta rennt sér sem vilja. 
Það hefur verið að ganga í gegnum leikskólann mismunandi veikindi og hafa því dagarnir verið í rólegri kantinum en við erum vön. Við vonum þó að þetta fari að ganga yfir svo enginn verði nú veikur yfir jólin. Dagarnir hafa því verið frekar rólegir hjá okkur og fór þessi vika í það að byrja á að gera jólaskraut sem við hengjum svo á jólatréð okkar í næstu viku þegar það verður búið að setja það upp. Það ná þó ekki allir að klára í þessari viku en þeir klára bara eftir helgarfrí. 

Í dag var kveikt á aðventukerti númer tvö, Betlehemskerti. Við sameinuðumst öll inn á yngri gangi og sungum kertalagið sem við erum búin að æfa í vikunni og fleiri skemmtileg jólalög. 

Í næstu viku ætlum við að skella okkur á Jólakattasýningu á Bókasafni Kópavogs. Við skiptum deildinni í 2 hópa eins og við höfum gert síðustu skipti. 
Miðvikudaginn 11. des. kl 10:00 fer 2014 árgangurinn
Fimmtudaginn 12. des. kl 9:45 fer 2015 árgangurinn 
Við ferðumst með strætó báða dagana og er því best ef að börnin gætu verið mætt í leikskólann ekki seinna en kl 9:00 þann dag sem börnin fara í ferðina. 

Í lokin minnum við á að gott er að kíkja reglulega í gengum fatahólfin hjá börnunum og þurrkskápinn okkar, það er mikið af útifötunum sem blotna og verða skítug sem kannski þyrfti að taka heim til að þvo. Einnig er gott að yfirfara öll fötin, bæði útifötin og aukafötin, og athuga hvort að allt sé til staðar. Nú er farið að kólna mikið og verða börnin að hafa hlý og góð föt til þess að njóta útiverunnar betur og einnig að hafa föt til skiptanna ef þau blotna mikið. 
Einhverjir taupokar hafa ekki skilað sér til baka til okkar og bið ég alla sem hafa einhvern tímann fengið poka heim til sín að athuga hvort að gleymst hafi að skila. 

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð  

 

29. nóvember 2019

Kæru foreldrar

Þetta er aldeilis búin að vera skemmtileg vika. Við erum að detta í jólagírinn og er orðið ansi jólalegt hjá okkur. Það fengu allir að búa til piparkökur í vikunni og voru allir mjög spenntir fyrir því. Það var sko mikill metnaður lagður í kökurnar og formin sem notuð voru til þess að skera út með voru sko vel valin hverju sinni. Í gær var svo jólakaffið okkar þar sem að þessar flottu piparkökur og heitt súkkulaði var á borðstólnum. Það var ekkert smá góð mæting til okkar í kaffi og gekk dagurinn vonum framar. Takk kærlega fyrir komuna til okkar.

Vikan hefur annars farið í rólegheit og dundur. Allir fóru í leikvang í dag og var enn einn skemmtilegi tíminn með henni Kollu okkar. Í smiðju fengu allir að prófa að þæfa ull með henni Nönnu og var það mjög spennandi og áhugavert.

Nú fer erfiðasti mánuður hjá börnunum að ganga í garð, Desember. Við ætlum því að hafa allar vikur fram að jólum eins rólegar og við getum, en samt að reyna að halda í allt sem gefur okkur góða jólaskapið og lætur okkur líða vel.

En við höfum þetta ekki lengra að sinni.
Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð

 

22. nóvember 2019

Kæru foreldrar

Miðað við síðustu viku þá hefur þessi vika verið frekar róleg. Það er búið að vera mikið um veikindi og svo var skipulagsdagur í gær og hafa dagarnir því farið meira í dundur inni á deild eða útiveru. 
Börnin hafa verið dugleg að sinna sínu hópastarfi og finnst þeim alltaf jafn gaman. Elsti árgangur leikskólans hefur í síðustu viku og þessari viku verið að vinna verkefni í tengslum við Barnasáttmálaverkefni Kópavogs en Barnasáttmálinn er 30 ára. Börn frá öllum leikskólum Kópavogs hafa verið að vinna að verkefni sem tengist barnasáttmálanum og er afraksturinn nú til sýnis í Smáralindinni. Við hvetjum ykkur til þess að kíkja um helgina og skoða öll fallegu verkin, sýningin stendur til 24. nóvember. 

Í næstu viku verður byrjað í smá jólastússi. Börnin munu baka piparkökur eftir helgi, mán., þri. og mið., og verður ykkur foreldrunum svo boðið í piparkökukaffi. Piparkökukaffið mun vera á fimmtudaginn, 28. nóvember frá kl 14:00-16:00. Við hlökkum til þess að sjá ykkur. 

Annars var ekki meira í fréttum að þessu sinni. 
Takk fyrir vikuna og góða helgi.
Kv. Allir á Hlíð

 

15. nóvember 2019

Kæru foreldrar

Það var nóg að gera hjá okkur þessa vikuna. Það fóru allir í vettvangsferð, helmingur á þriðjudaginn og helmingur á fimmtudaginn, og var ferðinni heitið í Salinn til þess að sjá tónlistarævintýri Fljóðar. Valgerður Guðnadóttir söng- og leikkona samdi ævintýri um stelpuna Fljóð sem lendir í ýmsum uppákomum og komu einnig við sögu tröll og skessur. Börnin skemmtu sér mjög vel og sátu allir stilltir og prúðir allan tímann. Í miðju ævintýrinu biður Valgerður einn strák og eina stelpu úr sal um að koma upp á svið til sín og hjálpa sér með hlutverk í sögunni og var einn strákur úr okkar hóp valinn á seinni sýningunni sem við fórum á og stóð hann sig með prýði.

Í dag er svo heldur betur búið að vera fjör, en leikskólinn á 18 ára afmæli á morgun, 16. nóvember. Dagurinn byrjaði strax með fjöri og var ekkert smá spennandi að sjá í hvaða búningum hver og einn mætti í. Það var svo boðið upp á cheerios í morgunmat og vildu nánast allir fá sér að borða í dag. Stuttu eftir morgunmatinn fengum við svo góða heimsókn frá Sirkus Íslands, en trúðurinn Wally kom til okkar og var ekkert smá fyndinn og skemmtilegur. Hann fékk meira að segja góða hjálp úr barnahópnum og voru 2 börn af okkar deild valin. Þau gerðu ýmsar kúnstir með honum og stóðu sig mjög vel. Það var áður búið að auglýsa að við fengum brúðusýninguna Pétur og Úlfurinn í hús en það þurfti því miður að fresta því vegna persónulegra aðstæðna leikarans. Eftir sýninguna hjá trúðnum Wally var skellt í ball á eldri gangi og var dansað og dansað þangað til hádegismaturinn var til. Í hádeginu var boðið upp á pizzaveislu og borðuðu flestir á sig gat. Eftir matinn vorum við í rólegheitum inni á deild og var líka boðið upp á andlitsmálningu. Í kaffitímanum var svo afmæliskaka í boði og voru allir mjög glaðir að fá smá súkkulaði í leikskólanum. Eftir kaffitímann er svo bara frjáls leikur.

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð

 

8. nóvember 2019

Kæru foreldrar

Það var frekar rólegt hjá okkur á Hlíð þessa vikuna. Við erum búin að vera mjög dugleg að leika okkur, bæði úti og inni. Það sem er vinsælast hjá okkur á Hlíð þessa dagana eru einingakubbarnir okkar sem við erum búin að færa inn í litla herbergið okkar. Það eru ótrúlega flottar byggingar sem eru byggðar á hverjum degi og eru allir mjög duglegir að byggja saman eina stóra byggingu.
Útiveran breytist ekki neitt og eru vinsældirnar alltaf jafn miklar. Börnin vilja helst vera úti allan daginn og eru þau sjálf farin að biðja um að fara út ef að kennararnir eru ekki nógu fljótir að bjóða þeim.
Lestrarátakið okkar fór vel af stað og er gaman að sjá hversu margir taka þátt. Við höldum áfram út nóvember.

Í gær, fimmtudag, fór elsti árgangur leikskólans (f.2014) í heimsókn í Salaskóla. Þau fengu að taka þátt í degi sem kallast Fjölgreindaleikar. Salaskóli leggur niður hefðbundið skólastarf á þessum degi og geta börnin farið á ýmsar stöðvar sem búið er að dreifa um skólann og íþróttahúsið. Í dag, föstudag, er dagurinn Gengið gegn einelti og erum við vön að gera eitthvað með Salaskóla og Rjúpnahæð á þessum degi. Þar sem að Fjölgreindaleikarnir voru planaðir sama dag þá var ákveðið að elsti árgangur Fífusala og Rjúpnahæðar myndi kíkja í heimsókn í vikunni og taka þátt í þeirra starfi. Ferðin gekk mjög vel og heyrðist frá börnunum sem fóru að þetta hafi verið GEGGJAÐ.

Í næstu viku verður óvenju mikið um að vera hjá okkur og kemur dagskráin hér:

  • Þriðjudaginn 12. Nóvember fer 2014 árgangurinn á tónleikana Tónlistarævintýri Fljóðar sem verða haldnir í Salnum. Tónleikarnir byrja kl 9:30 og er því gott að börnin sem fara þennan dag séu mætt ekki seinna en kl 8:30 vegna strætóferðar.
  • Fimmtudaginn 14. Nóvember fer 2015 árgangurinn á tónleikana Tónlistarævintýri Fljóðar sem verða haldnir í Salnum. Tónleikarnir byrja kl 9:30 og er því gott að börnin sem fara þennan dag séu mætt ekki seinna en kl 8:30 vegna strætóferðar.
  • Föstudaginn 15. Nóvember verður haldið upp á afmæli leikskólans, en hann verður 18 ára 16. Nóvember. Í tilefni dagsins ætlum við að hafa búningadag/furðufatadag. Það verður nóg um að vera þennan dag hjá okkur og verður t.d. börnunum boðið upp á brúðuleiksýninguna Pétur og Úlfurinn sem byrjar kl 9:30.

Við minnum á skipulagsdaginn fimmtudaginn 21. Nóvember. 

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð

 

1. nóvember 2019

Kæru foreldrar

Það var góð vikan hjá okkur á Hlíð. Það fóru allir í vettvangsferð á Bókasafn Kópavogs, helmingur á þriðjudag og hinn helmingurinn á fimmtudag og var tilefnið námskeið í meðferð bóka. Það stóðu sig allir mjög vel og fengu viðurkenningarskjöl í lok námskeiðs. Nú geta allir sýnt hvað þeir lærðu þar sem að við erum að fara með lestarátak af stað í Fífusölum í tilefni degi íslenskrar tungu og verður núna í nóvember. Í þessu lestarátaki biðjum við ykkur foreldrana um að lesa bækur með börnunum ykkar og kvitta fyrir á beinin sem fylgdu (hægt að prenta þau út eða taka úr pokanum sem hangir á svörtu töflunni á ganginum) og setja beinin svo á svörtu töfluna hjá bókafjallinu okkar (lím verður í pokanum sem hangir á töflunni).

Útiveran hefur verið mikil þessa vikuna, eins og margir sjá á útifötunum, en það hefur verið alveg extra skemmtilegt að drullumalla þessa dagana. Veðrið hefur samt sem áður verið frekar gott, þótt pínu kalt sé, og sækja börnin mikið í að vera í útiveru og vilja helst fara tvisvar út á dag. Eitthvað mun þó kólna á næstunni og biðjum við ykkur um að yfirfara kuldafötin og athuga hvort að allt sé til staðar.

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð

 

25. október 2019

Kæru foreldrar

Þá er þessari viku að ljúka og leið hún frekar hratt, sem þýðir að það er gaman hjá okkur og alltaf nóg að gera. Vikan var frekar köld en við létum það sko ekki stoppa okkur og skelltum okkur að sjálfsögðu út að leika, stundum meira að segja tvisvar á dag. Börnin voru ekkert lítið spennt fyrir því að það fór loksins að snjóa og voru nokkur börn það bjartsýn að þau ætluðu að búa til snjókarla og fara í snjólboltakast. En snjórinn varð því miður ekki það mikill í þessari viku en það er spurning hvað næstu vikur bjóða upp á.
Í dag var Bangsadagur hjá okkur og er spennustigið búið að vera hátt í dag. Það voru allir ótrúlega duglegir að deila og skiptast á með bangsana sína. 

Smiðjan hjá henni Nönnu féll niður í þessari viku og bíða þau því spennt eftir næstu viku. Leikvangur hjá Kollu hélt sínu striki og fengum við meira að segja, alveg óvænt, að fara tvisvar í Leikvang í þessari viku. Það þótti ekkert leiðinlegt og komu þau ótrúlega sæl og glöð til baka úr báðum tímunum eftir að hafa hlaupið um og ,,pústað" aðeins. 

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð 

 

18. október 2019

Kæru foreldrar

Þá er enn ein vikan á enda komin. Það er búið að vera yndislegt veður hjá okkur í vikunni og höfum við reynt að hafa útiveruna eins oft og hægt er. Þótt að það hafi verið gott veður þá kólnar ansi hratt þessa dagana og væri gott að fara að huga að hlýrri fötum og skóm hjá þeim sem eiga eftir að koma með.

Ávaxta- og grænmetisdagurinn okkar á Hlíð var á miðvikudaginn og var úrvalið mikið, svo mikið að það þurfti að skipta þessu niður á tvo daga. Börnunum fannst það ekkert leiðinlegt enda eru þau rosalega dugleg að smakka og borða ávexti og grænmeti. 

Í gær var Aðalfundur leikskólans og viljum við þakka öllum þeim sem sáu sér fært um að komast kærlega fyrir komuna. 

Hópastarf hefur gengið sinn vanagang og eru þau alltaf jafn virk og áhugasöm fyrir því. Í leikvangi var farið í skemmtilega þrautabraut og komu allir vel sveittir og glaðir frá henni Kollu. Í smiðju voru börnin að gera tilraun með Nönnu sem heitir ,,Þéttleiki vökva" sem hún fann í bókinni Skemmtilegar tilraunir með vatn. Börnin gerðu einnig sjálfsmyndir og eiga þau svo seinna eftir að klæða sig/teikninguna í föt með því að nota efnisbúta, garn o.fl. fylgihluti sem þau finna í smiðju. 

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð 

 

11. október 2019

Kæru foreldrar 

Það var skemmtileg vikan hjá okkur á Hlíð. Á mánudaginn fór dagurinn að mestu í frjálsan leik, bæði úti og inni. Börnin hafa verið mjög dugleg að vilja leika úti og hafa þau flesta daga vikunnar farið 2x út á dag.
Á þriðjudaginn fóru allir í smiðju til hennar Nönnu og voru börnin búin að biðja um að fá að gera skrímsli. Börnin fengu 6 akrýlliti, pípettur og rör. Málningin var sett á blað með pípettum og var rörið notað til þess að blása málninguna til. Skrímslin eru ekki alveg tilbúin enn en þau verða kláruð í næstu tímum.
Einnig á þriðjudaginn var dótadagur og kom fullt af skemmtilegu dóti að heiman. Börnin léku sér mjög vel þennan dag og var spenningurinn í hámarki allan daginn. Börnin voru mjög dugleg að deila og skiptast á.
Leikvangur féll því miður niður í þessari viku en það fóru allir út að leika í staðinn. Mörg börnin eru mjög dugleg að fara í leiki úti á gervigrasvelli og eru vinsælustu leikirnir þessa dagana fótbolti, stórfiskaleikur og brennibolti. 

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð 

 

4. október 2019

Kæru foreldrar

Það er búið að vera mikið um að vera í leikskólanum í þessari viku. Leikskólinn er að taka þátt í norrænni menntaáætlun sem kallast Nordplus og starfar hún á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Í þessu verkefni eru veittir styrkir á sviði menntamála til aðila á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Við fengum 3 gesti frá Litháen og 3 gesti frá Eistlandi og voru þær stóran part af vikunni hjá okkur í leikskólanum, en þær fóru einnig að skoða 2 aðra leikskóla og 1 grunnskóla. Við á Hlíð fengum þær í heimsókn á þriðjudaginn eftir hádegi og buðum við þeim með okkur í útikennslu sem var partur af smiðju. Það gengu allir saman upp í útikennslustofu og af því að þetta var í fyrsta skiptið sem að við fórum með Nönnu þá var bara frjáls tími í hlíðinni. Börnin fóru upp og niður hlíðina, klifruðu upp í trén og gátu fengið stækkunargler til þess að skoða umhverfið. Það komu allir þreyttir og svangir til baka og gekk ferðin ótrúlega vel.
Við ætlum að breyta fyrirkomulaginu á smiðjunni frá og með þessari viku en nú mun smiðjan vera alltaf bara á þriðjudögum í staðinn fyrir að rúlla á mán., þri. og mið.. Við ætlum að halda áfram að hafa flæði inn í smiðjuna en flæða samt innan deildar en ekki með öllum árganginum eins og við vorum að prófa, það fyrirkomulag gekk því miður ekki vel.

Í gær, fimmtudag, fór elsti hópurinn í Safnahúsið (Þjóðminjasafn Íslands) og á sýninguna ,,Þjóðsögur og kynjaskepnur“. Börnin sýndu mikinn áhuga á því sem þeim var sagt og sýnt og fengu þau að heyra þjóðsögur af álfum og tröllum. Einnig fengu þau að skoða bein o.fl. sem tengjast sögunum og kynjaskepnunum. Strætó ævintýrið hélt áfram hjá þessum hóp en þau misstu líka af strætó á leiðinni til baka eftir sýninguna. Það var ekki að sjá annað, og heyra, að börnin hafi skemmt sér vel á sýningunni.

Næsta vika:
Þriðjudaginn 8. okt. er dótadagur hjá okkur á leikskólanum og mega börnin koma með 1 dót að heiman þennan dag. Við óskum samt eftir að smádót og dót með miklum hávaða sé haldið heima. Muna að merkja vel.
Föstudaginn 11. okt. er bleikur dagur hjá okkur í tilefni Bleika dagsins. Þennan dag mega börnin mæta í einhverju bleiku eða með eitthvað bleikt á sér.

Takk fyrir vikuna og góða helgi.
kv. Allir á Hlíð