Lækur

Lækur er í Gljúfri og er gegnt innganginum þeim megin.

Beinn síminn inn á Læk er 441-5212

Litur Lækjar er rauður og er hann vinadeild Hlíðar.

Á Læk eru 17 börn, öll fædd árið 2016

 

  

Starfsfólkið á Læk

Inga Sif - Leikskólakennari, Deildastjóri. Netfanginga.sif@kopavogur.is 

Brynhildur - Þroskaþjálfi

Íris - Leiðbeinandi

Sumaia - Leiðbeinandi

Lilja Rún - Leiðbeinandi

 

DAGBÓK

Það er búið að vera nóg að gera á Læk þessa vikuna. Við erum búin að leika og læra mikið og eiga góðar stundir með vinum okkar. Flæðið/blöndunin á milli Lækjar og Lautar gengur vonum framar og sjáum við að tengsl eru að myndast á milli barnanna. Útivera hefur verið með mesta móti síðustu daga, og höfum við notið þess að leika úti með vinum okkar. Dásamleg vika með gullmolunum ykkar.

Vettvangsferð: Á miðvikudaginn fórum við í stutta vettvangsferð. Við löbbuðum að Lindarkirkju og dáðumst að fallega bleika litnum á himninum, einnig sáum við fjóra stóra krumma sveima yfir okkur. Létum þessa stuttu ferð duga að þessu sinni enda vorum börnin orðinn ansi þreytt þegar við nálguðumst leikskólann okkar. Markmiðið okkar er að fara aðeins lengra í næstu vettvangsferð.
Blær vináttustundir: Áttum góða samveru með Blæ bangsa þessa vikuna, ræddum og rifjuðum upp þau gildi sem Blær bangsi stendur fyrir sem er: Umhyggja, virðing, umburðarlyndi og hugrekki. Minntum þau á að passa upp á hvort annað og vera góður félagi allra.
Lubbastund: Nú var það leitin af sextánda málbeininu, sem þessa vikuna var málhljóðið Ff. Við sungum vísuna, æfðum málhljóðið og tákn vikunnar. Kíktum í málbeinakassann og hlutirnir sem áttu Ff skoðaðir.
Leikvangur með Kollu: Þrautabraut, leikir og slökun.
Smiðja: Börnin 
kláruðu víkingahjálmana og síðan byrjuðu þau á verkefni sem tengist sjónum. Þau klipptu út lífverur sem finnast í sjónum eins og krossfiska, skjaldbökur, hákarla og fl. Síðan máluðu þau dýrið sitt og skreyta það í næstu viku.

Hópastarf:

Mánudagur:
Guli hópur – Stærðfræði – börnin unnu og léku sér með Numicon stærðfræðikubba. Lögð var áhersla á formin á kubbunum og lögð inn hin ýmsu stærðifræðihugtök. Frjáls leikur í lokin.
Rauði hópur – Tilraun á útisvæði – börnin fóru út með hanska, vatn og matarlit. Við settum matarlit í vatn og helltum í gúmmíhanska. Bundum vel fyrir, fundum okkur tré og hengdum hanskana þar upp í. Við fylgdumst með hönskunum í vikunni, þeir frusu og bráðnuðu til skiptis. Ótrúlega spennandi.
Græni hópur – Stærðfræði – börnin unnu með Numicon stærðfræðikubba. Hér var einnig lögð áhersla á formin á kubbunum og lögð inn hin ýmsu stærðfræðihugtök. Frjáls leikur í lokin.
Fimmtudagur:
Guli hópur -  Furðuföt – við lögðum áherslu á uppbyggileg samskipti, æfðum okkur í að taka tillit, skiptast á, sýna þolinmæði, umburðarlyndi og samkennd.
Rauði hópur – Legó kubbar – við lögðum áherslu á sköpun, liti, form og eflingu orðaforða og hugtaka. Einnig æfðum við samvinnu.
Græni hópur– Sporun – börnin fengu að æfa sig í að spora tölustafi og form. Þau voru einbeitt og voru dugleg að horfa til vina sinna og athuga hvernig þeim reiddi af í þessu skemmtilega verkefni. Góð æfing fyrir fínhreyfingarnar og þá sérstaklega blýantsgripið okkar.
Föstudagur:
Guli hópur
Æfðu sig í að spora form og tölustafi.
Rauði hópur  - Við lásum sögu um Unni Uglu og þurftu börnin að svara spurningum úr sögunni. Í lokin lituðum við form, hring, þríhyrning og ferning.
Græni hópur - 
Spiluðu litaspil og léku sér með skemmtileg form.

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Lilja Rún og Brynhildur.

 

DAGBÓK

Gleðilegt ár kæru foreldrar og takk fyrir það gamla 😊

Við erum búin að eiga frábæra viku á Læk og eru mörg spennandi og skemmtileg verkefni framundan. 

Skipulagt starf er hafið og eru allir ánægðir að vera komnir að nýju í góðu gömlu rútínuna. Veðrið hefur aldeilis verið að stríða okkur og höfum við ekki farið út eins oft og við höfðum viljað. Snjóbylur og nístingskuldi hefur einkennt þess viku. En það voru hugrakkir krakkar sem klæddu sig út í snjóbylinn á fimmtudagsmorguninn. Börnin náðu vart andanum fyrst til að byrja með og fengu stingandi snjó í andlitið eins og þau sögðu sjálf frá. Heldur betur ögrandi, skemmtileg og spennandi útivera þennan morguninn, og voru þau ansi mörg börnin sem höfðu engan áhuga á að fara inn til að borða hádegismat. 

Þessa vikuna byrjuðum við að vinna með svokallað flæði eða blöndun á milli Lækjar og Lautarbarna fædd 2016. Komum við til með að bjóða þeim í leikvang þrisvar í viku eftir hvíld og í frjálsan leik á sitthvorri deildinni einu sinni í viku. Börnunum hefur verið skipt í niður, fjórir hópar eru á Læk og tveir hópar á Laut. Við erum ótrúlega spennt fyrir þessu en markmiðið er að börnin tengist innbyrgðis og að þau þrói og efli góð félagsleg tengsl við hvort annað. Frábær grunnur og aðlögun fyrir komandi flutninga á eldri gang.

Vettvangsferð og ferð í bókasafnið: Engin vettvangsferð var farinn að þessu sinni vegna slæms veðurs.

Blær vináttustundir: Byrjum að nýju í næstu viku að vinna með þetta frábæra forvarnarverkefni.

Lubbastund: Við erum búin að eiga góðar stundir með Lubba. Nú var það leitin af fimmtánda málbeininu, sem þessa vikuna var málhljóðið Gg. Við sungum vísuna, æfðum málhljóðið og tákn vikunnar. Kíktum í málbeinakassann og hlutirnir sem áttu Gg skoðaðir. 

Leikvangur með Kollu: Leikir og slökun.

Smiðja: Víkingahjálmar útbúnir vegna komandi þorrablóts Fífusala sem verður þann 24.janúar n.k. 

Hópastarf: 

Mánudagur:

 • Guli hópur – spiluðu spil þar sem reyndi á þolinmæði og samvinnu. Frjáls leikur í lokin.
 • Rauði hópur – við unnum með hin ýmsu stærðfræðihugtök og æfðum talnaskilningin okkar. Nýttum okkur námsefnið Numicon. En við ætlum að vera dugleg að leika okkur og læra tölurnar í gegnum þesssa frábæru stærðfræðikubba næstu mánuðunina (þetta á við alla hópanna). Frjáls leikur í lokin.
 • Græni hópur – æfði fínhreyfingar, þau teiknuðu og klipptu. Í lokin spiluðu þau Lottóspil sem reyndi á einbeitingu, samvinnu og þolinmæði.

Föstudagur:

Skipulagður leikur í öllum þremur hópunum. Við lögðum áherslu á uppbyggileg samskipti, æfðum okkur í að taka tillit, skiptast á, sýna þolinmæði, umburðarlyndi og samkennd.

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Brynja, Lilja Rún, Nanna og Brynhildur.

 

DAGBÓK

20.desember 2019

Þessi dásamlega vika hefur verið ansi viðburðarrík hér á Fífusölum.

Á mánudaginn fengum við heimsókn frá Lindarkirkju, þá skemmtilegu presta Guðmund Karl og Guðna. Þeir kveiktu á aðventukransinum okkar og sungu með okkur nokkur jólalög. Einnig sagði Guðmundur Karl okkur söguna frá ferð Jósefs og Maríu til Betlehems. Við enduðum þessa góðu stund á því að syngja saman lagið “Bjart er yfir Betlehem"

Á þriðjudaginn var jólaball hjá okkur þar sem við dönsuðum í kringum fallega jólatréð okkar. Að sjálfsögðu kom jólasveinninn í heimsókn sem söng og dansaði með okkur. Einnig kíkti hann inná hverja deild og gaf börnunum jólapakka. Í hádegismat fengum við hangikjöt með öllu tilheyrandi og ís í eftirrétt.

Á miðvikudaginn kom til okkar góður gestur, leikkonan Þórdís Arnljótsdóttir. Hún lék fyrir okkur jólaleikritið “Jól í tösku” í boði foreldrafélagsins. Hún sagði okkur sögur af jólasveinunum og blessaðri móður þeirra, henni Grýlu. Börnin skemmtu sér konunglega og hlustuðu með athygli á það sem fram fór.

Síðustu tveir dagar hafa verið rólegir og höfum við einblínt á að njóta líðandi stundar í leik og starfi með börnunum okkar. 

Eftir hvíld í dag hittust starfsfólk og börn á yngri gangi til þess að kveikja á fjórða og síðasta aðventukertinu sem ber heitið Englakerti. 

Kæru foreldrar og börn, við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og yndislegrar samveru yfir jólahátíðina. Njótið öll sem best.

Jólakveðja Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg.

 

DAGBÓK

13.desember 2019

Þessi vika hefur verið ansi róleg hjá okkur vegna mikilla veikinda Lækjarbarna. Hlaupabólan kom svo sannarlega í heimsókn sem og hiti og kvefpest. Síðustu dagar hafa verið nýttir í allskyns jólastúss og notalegheit, eins hafa börnin skreytt fallega jólatréð okkar sem stendur í matsal leikskólans. Ekki hefur verið mikil útivera þessa vikuna vegna mikilla kulda, og aftakaveðurs sem var á þriðjudaginn var. En svona getur þetta verið, allra veðra von á þessum árstíma. Á þriðjudaginn var síðasti dagurinn í leikvangi fyrir jól, og áttu börnin skemmtilega stund með Kollu þar sem boðið var upp á leiki og slökun. Sem og smiðjan hjá Nönnu en þar var verið að leggja síðustu hönd á jólagjafir til foreldra og annað sem tengist jólunum. Við hlökkum mikið til komandi viku, enda margt spennandi að gerast. Við sendum öllum þeim sem enn eru veikir batakveðjur og hlökkum til að sjá alla hressa og káta í næstu viku.

Framundan:

Mánudaginn 16. desember fáum við heimsókn frá Lindakirkju kl. 9.30

Þriðjudaginn 17. desember eru litlu jólin okkar og byrjar jólaballið á yngri gangi kl.9:15 og þá dönsum við í kringum jólatréð og aldrei að vita nema jólasveinn komi í heimsókn. Svo er jólamatur í hádeginu með ís í eftirrétt.

Miðvikudaginn 18. desember býður Foreldrafélagið upp á leiksýningu en það er Leikhús í Tösku með jólasýningu fyrir okkur kl. 10.30.

Fimmtudaginn 19. desember fara jólagjafir til foreldra heim.

Takk fyrir vikuna og eigið góða helgi.

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg

 

DAGBÓK

6.desember 2019

Við erum búin að gera margt skemmtilegt þessa vikuna. Börnin hafa notið þess að vera í góðum leik með vinum sínum bæði inni og úti. Jólaundirbúningur er í fullum gangi, við föndrum, skreytum, hlustum á og syngjum jólalög. Það er dásamleg jólastemning í húsinu og við njótum þess að hafa það huggulegt saman.

Við höfum lesið mikið þessa vikuna og hlustað á margar skemmtilegar sögur í hvíldinni. Í samveru lásum við m.a. söguna um Rauðhettu og úlfinn, við nýttum okkur loðtöflu við sögulesturinn og það fannst börnunum ansi spennandi. Við höfum verið dugleg að æfa gróf- og fínhreyfingar í hinum ýmsum verkefnum, bæði í leikvangi, smiðju, í leik og útiveru. 

Í aðventustundinni okkar í dag kveiktum við á Betlehemskertinu á aðventukransinum okkar, og sungum nokkur jólalög með öllum börnunum í leikskólanum.

Vettvangsferð og ferð í bókasafnið: Nú hafa báðir hóparnir farið í bókasafnið og notið góðrar stundar með Grétu Björgu og öðrum börnum í leikskólum Kópavogs. Við ætlum að taka smá pásu og mun næsta heimsókn í bókasafnið verða fljótlega á nýju ári. Vettvangsferðir í okkar nánasta umhverfi munum við halda áfram með fram að jólum.

Blær vináttustundir – Við ræðum mikið um tilfinningar þessa dagana eins og alla aðra daga, ræðum um hvernig okkur líður, stundum verðum við sorgmædd, reið og glöð. Það að geta greint og tjáð tilfinningar sínar er forsenda þess að geta sett sig í spor annarra. 

Lubbastund: Nú var það leitin af fjórtanda málbeininu, sem þessa vikuna var málhljóðið Ll. Við sungum vísuna, æfðum málhljóðið og tákn vikunnar. Kíktum í málbeinakassann og hlutirnir sem áttu Ll skoðaðir. Nú ætlar Lubbi að fara í jólafrí og hvíla sig áður en hann og við hefjumst handa að nýju við að finna fleiri málbein.

Aðeins um hljóðkerfisvitund: Hljóðkerfisvitund er talin mikilvægur grunnur fyrir lestrarnám. Hljóðkerfisvitund felur í sér að geta greint mun á hljóðum í málinu og geta leikið sér með þau, t.d. að geta greint úr hvaða hljóðum orð eru búin til, geta tekið orð í sundur og sett þau saman aftur eða breytt þeim í eitthvað annað t.d. með rími. Á nýju ári ætlum við leggja  mikla áherslu á að efla hljóðkerfisvitund barnanna í okkar daglega starfi, samveru og í hópastarfi. 

Leikvangur með Kollu: Þrautabraut, leikir og slökun.

Smiðja: Jólagjafaundirbúningur

Hópastarf: Á mánudaginn var áttum við notalega hópastund. Allir þrír hóparnir útbjuggu fallegt jólatré sem þau skreyttu og límdu á litað blað. Í morgun máluðu þau og skreyttu í hópastarfi, fallega bjöllu, en jólabjöllurnar fara á jólatréð sem sett verður upp í næstu viku.

Framundan hjá okkur:

 • Jólatréið verður sett upp í næstu viku og skreytt
 • Jólaball - 17.desember n.k. verða litlu jól leikskólans haldin hátíðleg. Tímasetning kemur síðar. Það verður dansað í kringum jólatréð, jólalög sungin og jólamatur í hádeginu.
 • Jólaleikrit - 18.desember n.k. jólaleikrit í boði foreldrafélagsins. Leikhús í tösku – Grýla og jólasveinarnir.
 • Fimmtudaginn 2.janúar 2020 verður skipulagsdagur hjá okkur í Fífusölum. Leikskólinn verður lokaður þann dag.

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg

 

DAGBÓK

29.nóvember 2019

Nú er uppáhaldstími margra að ganga í garð og við erum byrjuð á undirbúningi hátíðarinnar og allir að komast í jólaskap. Við bökuðum piparkökur með vinum okkar á Lautinni á mánudaginn var. Það var mikil jólastemning í húsinu, jólatónlist og ilmur frá nýbökuðum piparkökum úr eldhúsinu hennar Barböru. Áttum svo dásamlega stund með ykkur foreldrum í piparkökukaffinu sjálfu í gær, frábært hvað margir sáu sér fært að mæta. Takk kærlega fyrir komuna. Farið var í vettvangsferð í vikunni með hóp 1 sem skoðaði nánasta umhverfi leikskólans. Hópur 2 fór í heimsókn í bókasafn Kópavogs og hlustuðu á Grétu Björgu bókasafnafræðing segja þeim spennandi sögur. Öll börn leikskólans hittust á yngri gangi í dag og áttu notalega jólasamveru. Við kveiktum m.a. á fyrsta aðventukertinu sem heitir spádómskertið og sungum nokkur jólalög.

Blær vináttustundir – Höldum áfram með að læra að þekkja tilfinningar okkar eins og gleði, sorg og reiði og æfa okkur að hafa taumhald á þeim. Einnig æfum við okkur í að gleðjast með öðrum, bera virðingu og umhyggju fyrir öðrum. 

Lubbastund: Nú var það leitin af þrettánda málbeininu, sem þessa vikuna var málhljóðið Uu. Við fórum með vísuna, æfðum málhljóðið og tákn vikunnar. Lásum örsöguna um hana Unu sem brunaði á Gullfoss og undi sér við að safna undirfallegum jurtum í krukku.  Kíktum í málbeinakassann og hlutirnir sem áttu Uu skoðaðir gaumgæfilega. 

Hljóðkerfisvitund: Við æfum okkur hvern dag að klappa orð og nöfn í atkvæði. Við héldum áfram að lesa um Bínu bálreiðu en þessar bækur vinna að því að styrkja boðskiptahæfni og málþoska ungra barna. Hvern dag vinnum við markvisst að því að auka hugtakaskilning og orðaforða barnanna okkar.

Leikvangur með Kollu: Þrautabraut, leikir og slökun.

Smiðja: Jólagjafaundirbúningur

Hópastarf: Nú ætlum við að taka okkur smá frí frá hefðbundnu hópastarfi.Nú ætlum við bara að njóta tímans sem framundan er, hlusta á jólalög, skreyta deildina okkar, skapa fallega hluti á jólatréð sem við ætlum að dansa í kringum þann 18.desember og margt margt fleira. Mjög svo spennandi tímar framundan.

Leikurinn: er aðalnámsleið barna og er hann undirliggjandi í öllu okkar starfi hvort heldur er í daglegum athöfnum, samverustundum, málörvunarstundum, skipulögðu starfi/hópastarfi, útiveru eða vettvangsferðum. 

Takk fyrir flotta viku og megið þið eiga ánægjulega aðventu.

Sjáumst hress og kát á mánudaginn.

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg

 

DAGBÓK

22.nóvember 2019

Í þessari viku hefur verið ýmislegt brallað. Við höfum verið dugleg að fara út að leika á hverjum degi eftir síðdegishressingu. Einnig höfum við leikið mikið inni, þar sem ýmislegt var í boði, m.a. dúkkukrókur, bílakrókur, leikið með perlur, pússlað, leirað, leikið með bíla, dýr, einingakubba og margt margt fleira. Leikur og gleði alla daga.

Blær vináttustundir – Við höfum unnið með virka hlustun, við æfum okkur í að hlusta og bera virðingu fyrir þeim sem talar hverju sinni. Við munum halda áfram að æfa okkur í þessu næstu vikurnar.

Lubbastund: Nú var það leitin af tólfta málbeininu, sem þessa vikuna var málhljóðið Ee. Við fórum með vísuna, æfðum málhljóðið og tákn vikunnar. Lásum örsöguna um Ellert og Evu sem klifu upp Esjuna ásamt honum Lubba. Einnig skoðuðum við í málbeinakassann og klöppuðum í atkvæði hvern einast hlut sem þar kom uppúr. 

Hljóðkerfisvitund: Við æfðum okkur í að ríma, klappa orð og nöfn í atkvæði. Við lásum margar bækur, stoppum við orð og hugtök sem þurfa útskýringar við, sem skapar oft góðar umræður um söguna sem verið er að lesa hverju sinni. Þessa vikuna höfum við verið upptekinn af Bínu bálreiðu bókunum. Hvern dag vinnum við markvisst að því að auka hugtakaskilning og orðaforða barnanna okkar.

Leikvangur með Kollu: Þrautabraut, leikir og slökun.

Hópastarf: Við höldum áfram að vinna að skemmtilegum verkefnum sem snúa að tölum, litum, formum og bókstöfum/málhljóðum. Eins unnum við skemmtilegt verk sem börnin teiknuðu í samvinnu og búið er að fá pláss á veggnum okkar inná Læk.

 Leikurinn: er aðalnámsleið barna og er hann undirliggjandi í öllu okkar starfi hvort heldur er í daglegum athöfnum, samverustundum, málörvunarstundum, skipulögðu starfi/hópastarfi, útiveru eða vettvangsferðum. 

Viðburðið framundan:

 • Mánudaginn 25.nóvember ætlar yngri gangur að baka piparkökur til að bjóða foreldrum sínum upp á í piparkökukaffinu sem verður á fimmtudaginn kemur.
 • Piparkökukaffi – fimmtudaginn 28.nóvember frá kl:14:00-16:00 ætla börn leikskólans að bjóða foreldrum sínum upp á nýbakaðar piparkökur og kakó. Hlökkum til að sjá sem flesta.
 • Jólaball - 17.desember n.k. Nánari upplýsingar koma síðar.
 • Jólaleikrit 18.desember - Jól í tösku  í boði foreldrafélagsins. Nánari upplýsingar koma síðar.

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg.

 

DAGBÓK

15.nóvember 2019

Flott vika að baki sem við enduðum með stæl, hápunkturinn var 18 ára afmælisfögnuður Fífusalar ásamt því að fagna degi íslenskrar tungu. Við fengum í heimsókn Wally trúð í boði foreldrafélagsins, hann lék fyrir okkur ævintýralegar kúnstir og vakti mikla lukku hjá börnunum. Ball furðuföt/búningar, pizza og súkkulaðikaka, hvað er hægt að biðja um meira, þvílíkur draumadagur. Síðast en ekki síst héldum við uppá afmæli Lubba sem verður 10 ára á morgun 16.nóvember.

Blær vináttustundir – áttum góða samveru í vikunni með Blæ. Við minntum börnin á mikilvægi þess að vera góður vinur og passa upp á hvort annað.

Lubbastund: Nú var það leitin af ellefta málbeininu, málhljóðið Hh. Við fórum með vísuna og tákn vikunnar. Lásum söguna um haförnin sem stóð á stóru hamrabelti og hafði nælt sér í humar. Einnig skoðuðum við í málbeinakassann sem er alltaf jafn spennandi. 

Hljóðkerfisvitund: Við æfðum okkur í að ríma, klappa orð og nöfn í atkvæði. Vorum mjög dugleg að lesa bækur í litlum hópum, áttum gott spjall um innihald bókanna og útskýrðum erfið orð.

Leikvangur með Kollu: Leikir og slökun.

Vettvangsferð: Fórum í Salaskóla og skemmtum okkur konunglega í leiktækjunum þar á bæ.

Smiðja með Nönnu: Jólaundirbúningur.

Hópastarf: Á mánudaginn buðum við börnunum upp á flæði/leik á milli Lautar/Lindar og Lækjar. Það tók þau smá tíma að koma sér í gang og finna til öryggis, en þegar það var komið áttu þau frábæran leik með nýjum vinum. Þegar fram líða stundir munum við vinna markvisst með flæði á milli Lækjar og Lautar. Einnig höfum notið þess að vinna að hinum ýmsum verkefnum sem snúa að tölum, litum, formum og málhljóðum, við klöppum hin ýmsu orð í atkvæði, við rímum og margt fleira.  

Útivera: Við höfum verið mjög dugleg að vera úti þessa vikuna. Ansi kalt hefur verið í veðri og við minnum á mikilvægi þess að börnin séu með hlý föt í fatahólfunum sínum. Eins væri fínt að hafa auka pör af vettlingum og regnvettlinga er alltaf gott að hafa.

Leikurinn: er aðalnámsleið barna og er hann undirliggjandi í öllu okkar starfi hvort heldur er í daglegum athöfnum, samverustundum, málörvun, skipulögðu starfi/hópastarfi, útiveru eða vettvangsferðum. 

Minnum á skipulagsdaginn næstkomandi fimmtudag 21.nóvember. 

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn.

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg.

 

DAGBÓK

Vikan 4.- 8.nóvember 2019

Blær vináttustundir – börnin okkar verða flinkari og flinkar með hverri vikunni að tileinka sér gildi þessa frábæra forvarnarverkefnis. Það er gaman að sjá hve fljót þau eru til að hjálpa vinum sínum ef eitthvað kemur uppá. Þá nota þau óspart orðið STOPP og láta viðkomandi vita að það sé ekki í boði að meiða eða stríða.

Lubbastund: Nú var það heimsókn á Vatnajökul, og leit af tíunda málbeininu, sem var málhljóðið J j. Við fórum með vísuna og tákn vikunnar. Lásum söguna um Jódísi sem var í jeppaferðalagi uppá jöklum Íslands. Einnig skoðuðum við í málbeinakassann sem er alltaf jafn skemmtilegt að gera. Hljóðkerfisvitund: Við héldum áfram að æfa okkur í að ríma, klappa orð og nöfn í atkvæði, einnig leikum við mikið með málhljóðin og reynum að setja nokkur saman. 

Lestrarátak Lubba: við erum mjög dugleg að lesa bækur í leikskólanum, við skrifum bókarheitið á Lubbabeinið og hengjum upp í sameiningu á Lubbafjallið okkar frammi á gangi. Þetta finnst börnunum ótrúlega skemmtilegt og spennandi. Hlökkum mikið til að sjá Lubbafjallið okkar stækka með hverjum deginum.

Leikvangur með Kollu: Þrautabraut, slökun og heilsubókarskráningar

Vettvangsferð: Fórum í góða vettvangsferð þar sem við skoðuðum breytinguna á náttúrinni. Árstíðin vetur gengin í garð og flest öll laufblöðin fallin af trjánum, sofnuð eins og rætt var í hópnum, þau vakna aftur í vor. Við sáum tvö krumma að leik við Salaskóla og sungum við þeim til heiðurs lagið “Krummi krunkar úti” Tókum okkur snöggan túr um Nettó, og sáum margt spennandi þar.

Smiðja með Nönnu: Jólaundirbúningur.

Hópastarf: Þessa vikuna höfum við lagt mikla áherslu á samvinnu meðal barna, við höfum unnið að ýmsum verkefnum s.s byggt dýragarð úr kubbum, spilað lottó, leikið með samstæðuspil, pússlað tvö og tvö saman, einnig höfum verið dugleg að leika saman í  hlutverkaleik og frjálsum leik. Einnig höfum við teiknað mikið og æft okkur í að klippa. Við höfum lesið bækur í litlum hópum, skoðað myndir og útskýrt erfið orð sem koma fram í bókunum. Við rímum og vinnum með samtöfur, leikum með tölur, form og liti.

Samvera: Við syngjum alla daga og förum í leiki. Síðustu vikur höfum við verið sérstaklega dugleg að æfa og syngja lagið "'Á íslensku má alltaf finna svar"

Leikurinn: er aðalnámsleið barna og er hann undirliggjandi í öllu okkar starfi hvort heldur er í daglegum athöfnum, samverustundum, málörvun, skipulögðu starfi/hópastarfi, útiveru eða vettvangsferðum. 

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn.

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg.

 

 

DAGBÓK

Vikan 21.- 26.október 2019

Í þessari viku áttum við flottan afmælisprins, og í tilefni afmælis síns bauð hann okkur í fagnað með poppi og saltstöngum. Yndis þakkir fyrir okkur elsku vinur.

Blær vináttustundir: Í vikunni hlustuðum við á tónlist sem má finna á Spotfy undir heitinu Vinátta-gott er að eiga vin, sem er mjög skemmtilegt að hlusta á. Einnig unnum við með tvö samræðuspjöld með ákveðnum aðstæðum sem geta komið upp í samskiptum á milli barna. Við fengum börnin til að tjá sig og finna góða lausn saman í þessum ákveðnum aðstæðum. Hér æfum við okkur í að hlusta á hvert annað og sýna hvort öðru virðingu. Flott forvarnarverkefni gegn einelti, en markmiðið er að kenna þeim góð samskipti, virðingu og hugrekki þannig að þau geti sjálf staðið upp fyrir þeim sem lendir einelti og aðstoðað. Vinátta er mikilvæg, það vilja allir eiga vini og engin vill vera skilinn útundan.

Lubbastund: Við leituðum að áttunda málbeininu, nú var það málhljóðið Ú ú. Fórum með vísuna og tákn vikunnar. Einnig skoðuðum við í málbeinakassann sem er alltaf jafn skemmtilegt að gera. Hljóðkerfisvitund: Við æfðum okkur í að klappa í atkvæði, allskonar orð og nöfnin okkar. Við byrjuðum að æfa okkur í að ríma, svolítið skrítið sögðu börnin, en spennandi. Við höfum sungið, farið í leiki og lesið mikið. Við lásum t.d. söguna um Búkollu, og Inga Sif hefur sagt börnunum sögur af honum Emil í Kattholti.

Leikvangur: Þrautabraut og heilsubókarskráningar

Vettvangsferð: Fórum í góða gönguferð kringum Salaskóla. Stoppuðum oft á leiðinni til að skoða og rannsaka og upplifa umhverfið okkar. Sáum mikið af formum og tölum á leiðinni. 

Smiðja: Unnum skemmtilegar myndir með túss og vatnslitum. 

Hópastarf: Lékum okkur með form, liti, tölur. Æfðum okkur í að spora tölustafi og form. Æfðum okkur í að ríma og klappa orð í atkvæði. Unnum  með líkamann okkar – líkamsheiti og skynfærin. Við æfum okkur á hverjum degi í að læra að vinna saman sem hópur og gengur það ótrúlega vel. Við leggjum mikla áherslu á uppbyggjandi og jákvæð samskipti, þar sem virðing og traust er í fyrirrúmi.

Leikurinn: er aðalnámsleið barna og er hann undirliggjandi í öllu okkar starfi  hvort heldur er í daglegum athöfnum, samverustundum, málörvun, skipulögðu starfi/hópastarfi, útiveru eða vettvangsferðum. Það er svo gaman að vera saman.

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn.

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia og Brynhildur.

 

DAGBÓK

Vikan 14.-18.október 2019

Góð vika að baki með gullmolunum ykkar. Við höfum verið dugleg að vinna með vináttu og jákvæð samskipti. Við vinnum hvern dag með málörvun, leggjum inn ný orð og hugtök, leikum okkur mikið, förum í hópastarf, samveru, smiðju, leikvang og margt fleira.

Málörvun - Lubbi finnur málbein. Nú var Lubbi á Ísafirði að leita eftir sjöunda málbeininu með málhljóðinu Íí – Ýý. Við skoðuðum í málbeinakassann og eru börnin alltaf mjög spennt fyrir því. Hljóðkefisvitund: Við erum búin að vera dugleg að klappa atkvæði í nöfnunum okkar. Í næstu viku ætlum við að byrja að æfa okkur að ríma, það verður spennandi.

Blær vináttuverkefnið – við spjöllum saman hvern dag um hvernig við getum orðið betri vinir, við æfum okkur að hjálpa hvert öðru og vera góð hvert við annað. Einnig æfum við okkur að hlusta og fara eftir fyrirmælum. Við vinnum með tilfinningaspjöld og fáum þau til að tjá sig.

Leikvangur: Þrautabraut og heilsubókarskráningar. 

Vettvangsferð: Fórum í góðan göngutúr um nærumhverfi skólans. Að þessu sinni fékk Lubbi að koma með okkur í ferðina. Við settumst niður við rólóvellinn við Blásali og áttum frábæra Lubbastund, lásum örsöguna í bókinni og æfðum okkur að segja Íííí. 

Smiðja: Saumuðu í verkefnið sem þau klipptu í síðustu viku.  Þeim gekk vel að sauma, þau áttu að einbeita sér að því að fara til skiptis upp og niður með nálina. Góð æfing fyrir fínhreyfingar og einbeitinguna.

Hópastarf: Börnin fengu að lita verkefni tengt líkamanum. Við klöppuðum nöfnin okkar í atkvæði og æfðum okkur í litunum.

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn.

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg

 

DAGBÓK

Vikan 7.-11.október 2019

Á mánudaginn áttum við vinastund með Blæ bangsa. Eins og alltaf vinnum með grunngildin sem verkefnið byggir á; umburðarlyndi, virðingu, umhuggju og hugrekki. Þennan daginn skoðuðum við mynd sem sýnir börn við vissar aðstæður. Við ræddum saman um hvað var að gerast á spjöldunum, við skoðuðum svipbrigði barnanna á þeim og hvaða tilfinningar lágu að baki. Við erum mjög upptekinn að eiga í góðum samskiptum við vini okkar, við erum að læra að sýna hvort öðru samkennd, hlusta og taka tillit. Eftir samveru fórum við út í góða veðrið. Lubbi kom í heimsókn fyrir hádegismat og leituðum við saman eftir málhljóðinu Dd, við kíktum í Dd kassann og fundum orð og nöfn sem byrja á Dd. Eftir hádegismat, hvíld og góðan leik enduðum við daginn á útiveru. 

Á þriðjudaginn fóru hóparnir í leikvang til Kollu og áttu góða hreyfistund. Eftir leikvang fór guli hópur út í góða veðrið. Rauði og græni hópur var inni og lék sér í hlutverkaleik, einnig hjálpuðu þau til við að leggja á borð og leggja dýnur á sinn stað fyrir hvíldina. Samvera fyrir hádegismat með Lubba og málhljóðið fundið að nýju. Eftir hádegismat, hvíld, leik með bíla, lestina, leir og pússl, samveru og síðdegishressingu var farið út að nýju.

Á miðvikudaginn fórum við með seinni hópinn í bókasafnið og náttúrufræðisafnið. Við skoðuðum fiska, fugla, krabba og fleira. Enduðum svo í sögustund með Grétu Björg, frábær ferð. Eftir hádegismat og hvíld var púslað, leirað og leikið með kubba. Lubbi kíkti í heimsókn fyrir síðdegishressingu, málhljóðið fundið, fórum með vísuna og lesin sagan um Lubba. Einnig forum við í skemmtilegan leik með hópnum “í grænni lautu”. Enduðum svo daginn á útiveru.

Á fimmtudaginn áttum við vinastund með Blæ bangsa, við héldum áfram að spjalla um tilfinningar og vináttu okkar á milli. Áttum góðan smiðjudag og leik inná deild. Lubbi heimsótti okkur, við fundum og æfðum málhljóðið Dd og sungum og trölluðum. Eftir hádegismat, hvíld, góðan leik og síðdegishressingu var farið út að nýju að leika. 

Smiðja - Nanna

Á fimmtudaginn gerðu þau tvö verkefni. Þau áttu að teikna karl á langt blað og síðan klæða hann í föt. Fötin voru efnisbútar sem þau límdu á og hárið var í flestum tilfellum garn, sumir voru þó með húfu. Hitt verkefnið er hluti af stærra verkefni, en í því strikuðu þau með blýanti eftir formi. Fylgdist með að þau héldu rétt á blýanti, þau voru misfær í að elta útlínur formsins sem þau strikuðu eftir. Síðan klipptu þau út formið, flest héldu rangt á skærunum og gerðum við því þetta saman til að leiðrétta haldið. Um leið og þau beittu sér rétt þá prófaði ég að sleppa takinu. Höldum áfram að æfa okkur í þessu. 

Í dag föstudag byrjuðum við daginn á að pússla, leika með bíla og skoða bækur. Eftir morgunmat og ávexti var farið út með allan Lækjarhópinn. Fyrir hádegismat áttum við góðan afmælisfagnað með einum prinsinum okkar, hann fékk kórónu og afmælissöng. Afmælisprinsinn bauð okkur uppá popp og saltstangir. Hipp hipp hurra fyrir honum. Eftir hádegismat, hvíld, frjálsan leik, samveru með Lubba og síðdegishressingu enduðum við daginn á útiveru.

Takk fyrir góða viku og við sjáumst hress og kát á mánudaginn.

Bestu kveðjur Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg.

 

DAGBÓK

Kæru foreldrar

Dagarnir eru fljótir að líða þegar það er gaman og þessi vika hefur aldeilis flogið áfram.

Við höfum brallað margt skemmtilegt þessa vikuna. Inni höfum við leikið mikið, við höfum t.d. pússlað, kubbað, leirað, perlað, spilað, hlustað á sögur og skoðað bækur, við höfum leikið í hlutverkaleik, frjálsum leik og haft mikið gaman að vera saman. Einnig höfum verið úti þessa vikuna og dundað okkur í góðum leik með félögunum.

Leikvangur/þriðjudagur: Þrautabraut, heilsubókarskráning og slökun.

Vettvangsferð og bókasafnaferð/miðvikudagur: Hópur 1 tóku sér góðan göngurúnt um nánasta umhverfi skólans, enduðu á róló þar sem þau fengu að hlaupa um og leika. Hópur 2 fór í bókasafn Kópavogs, þar áttum við góða sögustund með Grétu Björg. Ekki má gleyma að við skoðuðum Náttúrugripasafnið sem er i sömu byggingu og sló sú skoðunarferð heldur betur í gegn hjá hópnum.

Smiðja fimmtudag: Börnin bjuggu til lukt úr pappamassa og laufblöðum, ótrúlega spennandi.

Hópastarf: Guli hópur æfði sig í að klippa með skærum. Rauði hópur æfði sig í tölum frá 1-5, við notuðum við kennsluna stærðfræðikubbana Numicon. Græni hópur var í byggingaleik með holukubbum sem er skemmtilegur og spennandi efniviður.

Lubbi kom í heimsókn alla vikuna og við fundum með honum málhljóðið Nn.

Blær bangsi kom í heimsókn á mánudaginn og áttum við gott spjall um vináttu.

Takk fyrir góða viku og eigið góða helgi.

Bestu kveðjur, Inga Sif, Íris, Sumaia, Brynhildur og Lilja Björg.