Í Fífusölum er lögð sérstök áhersla á að taka vel á móti öllum börnum og foreldrum. Samvinna foreldra og leikskóla þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu í opnum samskiptum og sýnum við fjölbreyttum fjölskyldugerðum og menningu skilning og virðingu. Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi og menntun barna sinna og leggjum við því áherslu á góða samvinnu kennara og foreldra.

  • Kynningarfundur fyrir foreldra nýrra barna er haldinn að vori. Aðlögun nýrra barna fer oftast fram að hausti og höfum við þátttökuaðlögun þar sem foreldrar fylgja börnum sínum þrjá fyrstu dagana í leikskólanum. Börn og foreldrar kynnast því leikskólanum og kennurum saman. Auk þess kynnast foreldrar betur innbyrðis. Aðlögunarviðtöl eru haldin um það bil mánuði eftir að barn byrjar í leikskólanum.
  • Upplýsingaflæði milli leikskóla og heimilis er mikilvægt og foreldrar eru alltaf velkomnir í leikskólann til að fylgjast með starfinu. Foreldrum er boðið á ýmsar uppákomur í leikskólanum, svo sem opin hús, sumarhátíð og fleira. Foreldrafundur er haldinn að hausti þar sem vetrarstarfið er kynnt fyrir foreldrum. Almenn foreldraviðtöl eru haldin í kringum afmælisdag barnsins, en foreldrar geta alltaf beðið um viðtal við leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra, deildarstjóra og sérkennslustjóra.
  • Deildarstjórar skrifa um daglegt starf í dagbókarfærslu á heimasíðu leikskólans og/eða senda út tölvupósta einu sinni í viku.
  • Foreldrafélag er starfandi í leikskólanum sem fundar tvisvar á ári. Í stjórn eru sex foreldrar og sitja að auki tveir kennarar fundi sem tengiliðir leikskólans. Foreldrafélagið skipuleggur hina ýmsu viðburði í samstarfi við leikskólann.
  • Í leikskólanum starfar einnig foreldraráð sem situr fundi einu sinni í mánuði. Í því eru þrír foreldrar, einn kennari og leikskólastjóri. Foreldraráð kemur að faglegu starfi leikskólans og les meðal annars yfir árlega starfsáætlun.