Laut

Laut er í Gljúfri og er hún innsta deildin þeim megin.  

Síminn á Laut er 441-5213.

Litur Lautar er grænn og er hún vinadeild Hóls.  

Á Laut eru 13 börn, 8 fædd árið 2023 og 5 fædd árið 2022

Starfsfólkið á Laut:

Elva Árnadóttir - Háskólamenntaður starfsmaður með B.Ed í leikskólafræðum, Deildastjóri. netfang: elvaa@kopavogur.is

Stefanía Ásta - Háskólamenntaður starfsmaður, - leiðbeinandi

Rakel - Leiðbeinandi

Unnur Eva - Þroskaþjálfi

Kolbrún Kara - Leiðbeinandi

Birna Kristín - Leiðbeinandi


Dagbók

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan okkar... Hún hefur liðið ansi hratt enda alltaf nóg að gera hjá okkur á Lautinni. Við höfum verið að púsla og púsla meira enda er psl æðið enn í gangi hjá okkur. Við höfum líka verið að leika með margs konar dót, t.d. bílana, Lego kubbana og nokkrar tegundir af segulkubbum. Eins hefur könnunarleikurinn verið mjög vinsæll í vikunni og gaman að sjá hvað krúttunum okkar finnst þetta áhugavert.

Hópastarf.... báðir hópar byrja eins, að fara yfir nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði og eru þau alveg að tengja hópastarf við atkvæðaklapp 😊

  • 2020 hópurinn ... fórum yfir nöfnin okkar of fjölskyldunnar okkar. Síðan fórum við yfir Bínu reglunar sem allir þurfa að æfa sig í, t.d. að bíða, hlusta og skiptast á.. það þarf aðeins að æfa þetta hjá krúttunum. Við tókum síðan Blæ stund þar sem Kisuhópurinn var loksins allur saman i hópastarfi. Spjald vikunnar snýst um að skilja ekki útundan og vera vinir. Hvernig tilfinningin okkar er þegar okkur líður illa og hvað við getum gert til að líða betur. Að lokum teiknuðum við mynd af fjölskyldunni okkar og fórum svo í Könnunarleikinn. 
  • 2021 hópurinn ... fór  yfir nöfnin sín og síðan var púslað og að lokum leikið í holukubbunum

Útivera ... Ekki var mikið um útiveru í vikunni en við fórum öll út að leika okkur á þriðjudaginn, þá vorum við að renna og brasa í garðinum okkar. Annars hefur einfaldlega verið alltof kalt til að vera úti að leika okkur.

Blær bangsi...

  • 2021 hópurinn fór í sína fyrstu Blæ stund í gær. Þeir fengu bangsann sinn, gáfu honum knús og dönsuðu við hann. Gekk ótrúlega vel 😊
  • 2020 hópurinn tók sína Blæ stund í hópastarfinu í vikunni

Lubbi finnur málbein ... Málhljóð vikunnar var – Ii/Yy-.. það á nú ekkert barn málhljóðið en nokkrir foreldrar eiga það. Sagan fjallar um Yrsu og Indriða sem voru gæða sér á ilmandi kaffi. Orðin sem slógu í gegn sem voru í kassanum okkar voru inniskór og yfirvaraskegg. Fengum við alveg að heyra hvaða pabbar væru með skegg og hverjir ekki.

Samverustundir... Við höldum áfram að syngja og tralla í samverustundunum. Erum farin að lesa flóknari bækur og í kjölfarið erum við að æfa okkur í að sitja kyrr aðeins lengur. Við sungum saman nokkur þorralög og voru krakkarnir alveg steinhissa á þessu bulli í okkur kennurunum.

Í öllum samverustundum þá förum við yfir daginn okkar, hvað er framundan og hvað er búið. Við erum með myndir uppá vegg sem sýna allt sem við erum að gera þann daginn og í samverustundunum, þá tökum við eina og eina mynd niður, þannig krakkarnir eiga að vita hvað er framundan hjá þeim.

Leikvangur ... í leiksalnum í morgun var verið að hoppa á dýnunni, príla í rimlunum og æfa jafnvægið

Smiðja ...  í gær, fimmtudag þá fóru þau í smiðju sem áttu eftir að klára víkingahjálmana sína fyrir þorrablótið okkar á morgun.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni 


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan okkar... Hún leið ansi hratt við nám og leik. Það eru enn og aftur veikindi á krúttunum okkar og vona ég að þessu fari nú að linna og allir fari að mæta hressir og kátir til okkar.

Við höfum verið dugleg að leika okkur með bílana og hina ýmsu kubba. Ásamt því að við höfum leirað, litað púslað og margt fleira.

Hópastarf.... báðir hópar byrja eins, að fara yfir nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði og eru þau alveg að tengja hópastarf við atkvæðaklapp 😊

  • 2020 hópurinn ... fór í hópastarf á þriðjudaginn, þar var verið að ræða Bínu reglurnar og fara yfir hvað við og fjölskyldan okkar heitir. Síðan voru perlur þræddar á reimar, blöð klippt og að lokum þá kubbuðum við aðeins með einingarkubbunum.
  • 2021 hópurinn ... fór í hópastarf á miðvikudaginn, nöfnin okkar voru klöppuð í atkvæði, leikið með segulkubba og svo fórum við í könnunarleikinn. Alltaf svo gaman að uppgötva eitthvað nýtt.

Útivera ... Við höfum aðeins komist út í vikunni, á þriðjudaginn þá fórum við út með eldri hópinn, vorum í stóra garðinum að renna okkur og róla og á miðvikudag og fimmtudag þá fóru allir út að leika. Þá var líka verið að renna á fullu og í ferðalögum í bátnum okkar. Ekkert smá gaman og allir glaðir með þetta.

Lubbi finnur málbein ... Málhljóð vikunnar var -Ss- Það eru bæði einn kennari og einn strákur sem eiga s-ið góða. Kassinn okkar er fullur af hlutum sem eiga s-ið og áttum við fullt í fangi með að læra öll þessi orð, þau voru líka klöppuð í atkvæði og vísan sungin. Sagan fjallar um systkinin Sunnu og Snorra sem fóru að heimsækja frænda sinn hann Sólmund á Stykkishólmi.

Blær Bangsi... Við fengum góða vini til okkar í vikunni en hann Blær Bangsi kom úr jólafríinu sínu frá Tenerife. Hann hitti þar nokkra vini sem vildu eiga heima hjá Lautarkrúttunum og allt í einu voru komnir fleiri vinir í körfuna okkar. Einn bangsi handa öllum 2021 strákunum 😊 Í þessari Blæ stund var böngsunum dreift, þeir knúsaðir og svo hlustuðum við á tónlistina og dönsuðum með þeim.

Samverustundir... Við erum alltaf að æfa okkur að syngja, vinsælustu lögin núna eru „dúkkan hennar Dóru“ og „A og B, spott og spé“ og er dásamlegt að sjá og heyra hvað eldri hópurinn er orðinn duglegur að syngja þessi lög og virðist kunna textann nokkuð vel. Yngri hópurinn er duglegri að nota hendurnar sínar og er að ná hreyfingarlögunum

Leikvangur ... Í tímanum í dag var þrautabraut í Leikvangi

Smiðja ...  í gær var smiðjutími með Stefaníu, þar var verið að mála á víkingahattana sem við ætlum að nota á þorrablótinu í næstu viku.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan okkar... Hún hefur liðið heldur betur hratt við leik og starf. Einhver veikindi hafa verið að hrjá krakkana og óskum við öllum góðs bata. Það er víst allt í gangi pestarlega séð þessa dagana. 

Við höfum helst verið í frjálsum leik og hefur eldhúsdótið verið mjög spennandi og fóru 2020 stelpurnar í leik í vikunni sem lýsti jólaundirbúningnum heima við .. það var t.d. jólamatur og jólaís í boði og svo var auðvitað pepsi max og vatn að drekka 😊 

Eins voru bílarnir, holukubbarnir, púslin og litirnir spennandi og virtust allir vera mjög glaðir með að vera komin í rútínu aftur og hitta vini sína á Lautinni.

Útivera ... Hún hefur verið af skornum skammti í þessari viku, enn og aftur er ansi kalt úti og loftgæði slæm einhverja daga, þannig við höldum okkur bara inni meðan þetta er svona. Vonum svo sannarlega að þessi vetur fari að kveðja okkur.

Lubbi finnur málbein ... Hann Lubbi okkar kom til okkar aftur eftir langt og gott frí. Málhljóð vikunnar er -Ff- og fjallar um hana Freyju sem er á Fáskrúðsfirði. Hún er að týna fífla og er með fléttur í hárinu. Ein skvísan okkar á líka F-ið góða og voru krakkarnir mjög spenntir fyrir því.

Samverustundir... Við höfum verið að syngja þessi hefðbundnu lög, þar má nefna.. Litalagið, krókódílalagið, apalagið, blómalagið, dúkkan hennar Dóru og fleiri lög.. en þessi hafa verið vinsælust. Þau eru svona misdugleg að syngja með og höfum við verið pínu harðar í vikunni að þau syngi með okkur og er það alveg að virka og eru þau mjög stolt af sér.

Leikvangur ... Það var frjáls tími í leikvangi í dag og skemmtu allir sér mjög vel í stuðinu þar inni

Smiðja ...  Í vikunni var verið að stimpla á blað og úr varð stórskemmtileg og flott flugeldamynd 😊

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan okkar... Tíminn flýgur áfram og jólin rétt handan við hornið. Við erum búin að vera að leika okkur heilan helling í eldhúsdótinu okkar, að púsla, lita, pinna og kubba. Ásamt því að við kíktum í Holukubbana, smiðjuna og margt fleira. Segulkubbarnir eru alltaf jafn spennandi sem og bílarnir og bílabrautina. Púsl æðið heldur áfram og þau dunda sér vel það verkefni.

Á fimmtudaginn fóru krúttin heim með pakkana sem þau eru búin að vinna að í einhvern tíma. Þau voru svo stolt og ánægð með sig og pakkann sem þau ætla að gefa ykkur á jólunum.

Litlu jólin ... Á miðvikudaginn voru litlu jólin okkar.. þá mættu allir í betri fötunum sínum og við hittum krakkana af Lind og Læk í matsalnum þar sem við sungum nokkur vel valin jólalög og dönsuðum í kringum jólatréð okkar. Við skemmtum okkur mjög vel og hápunkturinn var án efa þegar sá rauðklæddi mætti á svæðið. Það voru bæði nokkrir smeykir við hann og eins voru nokkrir sem vildu skoða hann aðeins betur. Hann gaf krökkunum pakka sem þau fóru með heim á miðvikudaginn. Það var líka jólamatur í hádeginu og ís í eftirrétt. Þetta var heldur betur skemmtilegur dagur.

Útivera ... Það hefur verið lítið um útiveru í vikunni sökum kulda. Við fórum samt út með Kisuhópinn (2020)  á mánudaginn og við höfðum allan stóra garðinn út af fyrir okkur. Krúttin voru eins og kýrnar á vorin í garðinum, hlaupandi um allt og greinilega voru farin að sakna þess að komast ekki út að leika.

Lubbi finnur málbein ... Hann Lubbi okkar er kominn í jólafrí, hann mætir ferskur til baka í janúar

JólaGamanSaman ... í dag hittist allur leikskólann á ganginum hjá yngri deildunum. Þar sungum við saman nokkur jólalög, kveiktum á aðventukransinum okkar og áttum notalega jólastund saman.

Samverustundir... Við höfum sungið og sungið jólalögin og er gaman að heyra hvað krakkarnir (sérstaklega eldri krakkarnir) eru spennt fyrir þessu lögum og virðast vera fljót að ná þeim.

Leikvangur ... Í leikvangi í þessari viku var verið að æfa kjark og þor :) alltaf jafn gaman þar inni með honum Hinrik

Smiðja ...  í smiðjunni var verið að mála smá jóladúllerí 😊 fóturinn þeirra var stimplaður á blað og svo fengu þau að líma augu og skraut á fótinn á blaðinu. Úr þessu varð hið fínasta hreindýr 😊

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan okkar... Hún leið ansi hratt í leik og námi hjá okkur á Lautinni. Við skreyttum jólatréð í upphafi vikunnar og dúlluðum okkur inni á deild í hinum og þessum leikjunum og líka frammi á gangi.

Frjáls leikur ... Við höfum leikið mest í eldhúsdótinu okkar, með pleymó-ið, og legokubbana. Eins hefur púsl æðið haldið áfram og þau rúlla orðið upp þessum 15 bita púslum (2020 hópurinn). Búningarnir voru dregnir fram í vikunni og skemmtu sér allir mjög vel að klæða sig upp á og leika þannig í eldhúsdótinu okkar. Stóra verkefnið var aftur á móti að skiptast á með búningana og leyfa öllum að prófa. Það gekk svona misvel eftir einstaklingum 😊 eins og við var að búast. Við fórum líka í holukubba og dúkkukrók frammi á gangi að leika og þar höfum við skemmt okkur stórvel. 

Það má því segja að Frjálsi leikurinn er alls ráðandi þessa dagana og er svo gaman að fylgjast með þróun leiksins hjá þeim þessa dagana. Félagslegi leikurinn er að taka við sér og góð vinátta að myndast milli krakkana.

Útivera ... Það hefur því miður verið lítið um útiveru í vikunni þar sem það er búið að vera ansi kalt úti í vikunni. Við fórum út á mánudaginn í smá stund eftir kaffitíma og planið er að fara út á eftir en það gæti hæglega breyst.

Lubbi finnur málbein ... Málbein vikunnar var -Gg- Málhljóða kassinn okkar var vel fullur af hlutum, t.d. girðingu, gíraffa, grís og mynd af grjónagraut. Sagan gerist í Grindavík og fjallar meðal annars um hana sem segir gaggalagó. Engin börn eiga G-ið en nokkrir pabbar eiga það og einn kennari.

JólaGamanSaman ... í dag hittist allur leikskólann á ganginum hjá yngri deildunum. Þar sungum við saman nokkur jólalög, kveiktum á aðventukransinum okkar og áttum notalega jólastund saman.

Vettvangsferð ... henni var frestað þar sem það er búið að vera ansi kalt og hált í vikunni og svo er dimmt lengi frameftir á morgnanna.

Smiðja ...  Smiðjan var notuð í þessari viku í það að vinna upp .. það voru nokkur börn sem áttu eftir að mála ýmislegt sem tengist jólunum og var verið að græja það núna 😊

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan okkar... Gekk sinn vanagang ... með smiðju, leikvangi, hópastarfi, útiveru, frjálsum leik, jólatónlist, spilastundum, kúri, knúsum og hinu þessu sem okkur datt í hug að gera.

Það hefur einhver leiðindapest verið að herja á okkur í vikunni og vonum við að við sjáum sem flesta eftir helgina. Við sendum bataknús á alla 😊

Við fengum skemmtilega leiksýningu á mánudaginn í boði foreldrafélagsins. Gaman að sjá hvað krakkarnir voru áhugasamir og margir hverjir skellihlógu meðan aðrir voru pínu smeyk við lætin í leikurunum.

Hópastarf.... báðir hópar byrja eins, að fara yfir nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði og eru þau alveg að tengja hópastarf við atkvæðaklapp 😊

  • 2020 hópurinn ... fór yfir Bínu Bálreiðu reglurnar og skoðuðum  myndirnar sem fylgja þeim. Það var verið að teikna mynd og æfa sig með skærin. Að lokum þá lékum við í hlutverkaleik á ganginum. EN hápunkturinn var eflaust sá að hópurinn var skírður KISUHÓPUR 😊
  • 2021 hópurinn ... fór yfir litina og skoðaði bækur tengdar litunum. Eftir það var leikið í Könnunarleiknum við mikinn fögnuð þeirra, en þeim finnst þessi efniviður mjög spennandi.

Vettvangsferð ... Henni var sleppt á mánudaginn vegna leiksýningarinnar sem foreldrafélagið bauð okkur uppá

Frjáls leikur ... í vikunni hefur verið sannkallað PúsluÆði inni á deild. Eldri hópurinn okkar er farinn að rúlla upp flóknari púslum meðan sá yngri hefur æft sig með þessi einfaldari og hefur þeim gengið ágætlega með þau. Við höfum líka verið að lita, kubba með hinum ýmsu kubbum, leika í hlutverkaleik og með bílana. En það besta er að þau eru farinn að mynda tengsl sín á milli, hjálpa hvoru öðru að púsla og finna út úr þeim verkefnum sem þau standa frammi fyrir. Æfa sig í að skiptast á í leiknum (eins og Bína er að kenna.. fyrst ég og svo þú) og þolinmæðin í verkefninu hefur aukist mikið. Eins hefur aðeins borið á því að það er verið að skemma fyrir vinum sínum, brjóta byggingar og þess háttar og erum við að ræða að það er bannað. Að það eigi að bera virðingu fyrir viðfangsefnum annarra. Þið megið gjarnan ræða þetta heima við líka og aðstoða okkur við þetta verkefni.

Útivera ... Við höfum farið út þegar veður og færð leyfa. Héldum okkur inni nokkra seinni parta í vikunni þar sem bæði var mikill vindur og rigning og við einfaldlega treystum ekki veðrinu. Þau eru samt svo miklir útikrakkar að við finnum heldur betur þegar við förum ekki út á hverjum degi.

Lubbi finnur málbein ... Málbein vikunnar var -Ll-. Hreyfingin er einföld og krakkarnir margir hverjir fljótir að ná henni. Lagið var líka grípandi og fjallar um hann Lubba okkar. Þau voru áhugasöm og það tók ekki langan tíma að ná því sem var í boxinu og klappa þau orð í atkvæði. Það er líka þannig í þessari viku að við erum svo heppin að einn gaurinn okkar sem á L-ið skemmtlega og voru allir spenntir fyrir því.

JólaGamanSaman ... í dag hittist allur leikskólann á ganginum hjá yngri deildunum. Þar sungum við saman nokkur jólalög, kveiktum á aðventukransinum okkar og áttum notalega jólastund saman.

Leikvangur ... í vikunni var farið í tíma til Hinriks, þar var verið að æfa kjark og þor, hoppa og skoppa, príla og brölta.. alltaf jafn gaman þar inni.  .... Eins fóru nokkur börn í heilsubókarverkefni

Smiðja ...  Við höldum áfram að jólast á fullu, í vikunni máluðu krúttin jólatré sem haldið var áfram með í smiðjutímanum í vikunni. Einnig unnu þau upp sem áttu eftir að gera eitthvað jólatengt, þar sem talsverð veikindi hafa verið á deildinni síðustu vikurnar. Þau eru alltaf jafn spennt fyrir því að mála og mörg hver mjög einbeitt í þessum verkefnum.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


25. nóvember 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan okkar... Gekk sinn vanagang, með smiðju, leikvangi, hópastarfi, útiveru, frjálsum leik og að sjálfsögðu piparkökukaffinu sem er fastur punktur hér þegar líða fer að jólum.

Við viljum byrja á því að þakka fyrir komuna í piparkökukaffið í gær. Loksins gátum við boðið foreldrunum inn til okkar í Súkkulaði og nýbakaðar Piparkökur bakaðar með ást og umhyggju 😊

Við höfum leikið inni og úti í vikunni, málað og glimmerað yfir okkur og eins og þið munuð sjá þegar nær dregur jólum, en endilega hafið í huga að það er ferlið sem skiptir máli en ekki útkoman 😊

Hópastarf.... báðir hópar byrja eins, að fara yfir nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði og eru þau alveg að tengja hópastarf við atkvæðaklapp 😊

  • 2020 hópurinn ... fór yfir Bínu Bálreiðu reglurnar og skoðuðum  myndirnar sem fylgja henni. Síðan skiptum við okkur á 2 svæði og á öðru svæðinu var málað smá jólajóla og og á hinu svæðinu var verið að leika með segulkubbana. Að lokum var þakkað fyrir hópastarfið og farið svo í frjálsan leik.
  • 2021 hópurinn ... var að fara yfir litina og púsla. Síðan var frjáls leikur með bílana og kubbana. Að lokum var þakkað fyrir hópastarfið og svo var farið fram að mála smá jólajóla

Vettvangsferð ... Henni var sleppt í vikunni vegna myrkurs og kulda

Frjáls leikur ... í vikunni var leikið helling eins og allar vikur, við vorum mikið að púsla, lita, perla og pinna ásamt því sem við lékum mikið með holukubbana, einingakubbana, lestina, legókubba og margs konar segulkubba.  

Útivera ... Hún hefur verið nýtt þegar veður hefur leyft en því miður þá höfum við ekki farið jafn mikið út í þessari viku og oft áður. En við höfum svosem verið dugleg að vera úti og það að vera inni og jólakósýast þegar það er leiðinlegt veður, er bara allt í lagi.

Lubbi finnur málbein ... Málbein vikunnar var-Uu- krökkunum fannst þetta málhljóð mjög athyglisvert og skemmtu þau sér vel með hreyfinguna.. endilega biðjið þau um að sýna ykkur hana heima :) Sagan fjallar um Unu sem fór í ferðalag og þar smakkaði hún hundasúrur og kíkti á Gullfoss.

Blær bangsi ... Spjald vikunnar snýr að því að leika öll saman. 2020 hópurinn tók 2 blæstundir og var verið að tala um það að leika saman, skiptast á og vera vinir. Á spjaldinu er strákur sem er skilinn útundan og fær ekki að leika með og fær ekki flotta dótið eins og þeir sem eru að leika nálægt honum. Þau sáu hann var leiður og við vorum að spá í hvort það væri hægt að gera eitthvað til að okkur myndi líða vel og vera góð saman.

Leikvangur ... Þar var verið að æfa þol og kjark. Við vorum að hoppa bæði á dýnu og trampólíninu, göngin voru opin og hægt að skríða í báðar áttir. Það var líka verið að príla í rimlum og sprengja sápukúlurnar sívinsælu.

Smiðja ...  Við héldum áfram að jólast og glimmerast og skemmtu allir sér vel við að lita, mála og skoða efnivið á ljósaborðinu. Eins höfum við verið að mála og brasa inni á deild og búa til margs konar skemmtilegt dót sem tilheyrir jólunum og þið fáið í hendurnar síðar.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


18. nóvember 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Enn ein vikan liðin og já desember rétt handan við hornið! Það er hreint út sagt ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram.. við förum að halda upp á 2 og 3 ára afmæli krúttanna okkar, næstum því á morgun bara.

Við munum byrja að hlusta á jólalög og smella upp jólaljósum í næstu viku, við ætlum svo að reyna eins og hægt er að hafa aðventuna rólega og stresslausa. Bara hlusta á jólalög og njóta þess að vera saman, með nóg af málningu og glimmeri 😊

En af vikunni... 

Hópastarfið í vikunni féll niður vegna afmælis fjörsins á miðvikudaginn en leikskólinn varð 21 árs þann 16. nóvember og einnig varð Lubbi 12 ára gamall. Það var húllumhæ hjá okkur eins og þið vitið, opið flæði, afmælissöngur, búningastuð og auðvitað pizza í hádegismatinn og kaka í kaffinu. Við vorum svo innipúkar eftir kaffitímann og lékum okkur inni.. það var í boði að fá andlitsmálningu fyrir þau sem það vildu.

Vettvangsferð ...

  • 2020 hópurinn rölti saman að æfingatækjunum og tók létta æfingu 😊 áður en við héldum heim á leið, þá var labbað yfir hóla og hæðir og gerði það ansi mikið fyrir jafnvægið þeirra.

Frjáls leikur ... Við höfum leikið með einingakubbana, lego kubbana, eldhúsdótið okkar, nokkrar tegundir af segulkubbum ásamt því að borðverkefnin hafa verið vinsæl, það að perla, púsla, pinna og lita hefur gengið ágætlega í vikunni.

Útivera ... Við höfum að sjálfsögðu farið út að leika okkur að lágmarki 1x á dag alla daga vikunnar nema miðvikudag, þá héldum við okkur inni að leika eftir kaffitímann. . Suma daga fórum við meira að segja 2x út að brasa. 2020 hópurinn hefur verið meira í stærri garðinum í þessari viku meðan 2021 hópurinn er að sjálfsögðu í þeim minni.

Lubbi finnur málbein ... Málhljóð vikunnar var - Ee- það eru bara ansi margir sem eiga málhljóð vikunnar, bæði  börn og kennari. Krakkarnir voru fljótir að ná hreyfingunni (enda svolítið eins og við séum að klóra okkur í höfðinu.. ekki lús í gangi samt).

Blær bangsi ... Við héldum áfram að tala um vináttu og það að leika saman. Það veitir ekki af því að taka þetta spjald í meira en eina viku þar sem vináttan og það að leika saman er svo mikilvægt. Krútt móment vikunnar þegar það var verið að perla og ein skvísan segir „viltu perla með mér? Og svarið sem hún fékk var, „já, við erum vinir og leikum saman eins og Blær segir“ 😊 þannig já það er eitthvað að síast inn af þessu skemmtilega og mikilvæga námsefni. 

Leikvangur ... í tímanum í vikunni var þrautabraut með æfingum sem æfðu kraft og þor. Það var t.d. verið að príla í rimlunum, skríða í gegnum renninginn og hoppa á dýnunni.

Smiðja ...  féll niður þar sem það var skipulagsdagur á fimmtudaginn.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


11. nóvember 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Hópastarf... báðir hópar byrja eins, að fara yfir nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði og eru þau alveg að tengja hópastarf við atkvæðaklapp 😊

  • 2020 hópurinn ... var að fara yfir Bínu reglurnar ásamt því að spjalla aðeins um hana Bínu bálreiðu vinkonu okkar. Síðan var skipt í 2 hópa, annar hópurinn var að spila minnisspil meðan hinn hópurinn var að leika með Numicon stærðfræðiefniviðinn okkar. Að lokum var leikið í frjálsum leik inni á deild.
  • 2021 hópurinn ... var að fara lesa litabækurnar okkar (as in bækur um liti) og spila í takt við lög. Í lokin var leikið með plastkubbana og holukubbana í frjálsum leik.

Vettvangsferð ... á mánudaginn var, þá fóru báðir hópar í vettvangsferð.

  • 2020 hópurinn fór á rólóvöll í Blásölunum og léku þar saman, á baka leiðinni var stoppað á Hvammsvelli og leikið og leikið 😊 Skemmtileg ferð í góðum félagsskap.
  • 2021 hópurinn fór í sýna fyrstu ferð sem hópur þennan veturinn. Það var labbað með 2 hópum af Læknum (allt 2021 börn) og er þetta fyrsta skrefið í að leyfa þeim að kynnast utan deildarinnar. Ferðin gekk vel, það var labbað að Salalauginni og kíkt á gluggana á innilaugina og vorum við það óheppin að það var engin í sundi! Á leiðinni til baka kíktum við á Gæsirnar á Fótboltavellinum og hlupum svo fram og til baka á hlaupabrautinni hjá Hoppubelgnum. Góð ferð sem gekk vonum framar 😊

Á þriðjudaginn var „vináttudagurinn“ (dagur eineltis). Þá fengum við unglinga úr Salaskóla í heimsókn til okkar og fóru 2020 krakkarnir með 2020 krökkunum á Lindinni ásamt krökkum úr Salaskóla í vettvangsferð á Hvammsvöll þar sem við lékum okkur öll saman.

Frjáls leikur ... Við höfum verið að leika mikið með segulkubbana og svo erum við alltaf jafn spennt fyrir eldhúsdótinu, bílunum, pleymó-inu og margs konar borðverkefnum, við höfum t.d. verið mikið að púsla saman, pinna saman, en það að lita vefst aðeins fyrir okkur því jú, litirnir bragðast greinilega mjög vel. Eins er útiveran uppfull af ævintýrum tengdum frjálsa leiknum og njótum við þess í botn að leika okkur saman úti.

Útivera ... Alltaf jafn gaman úti að leika og eru 2020 krakkarnir alveg á því að það sé jafn gaman í stóra garðinum og þeim minni. Það sem við sjáum þegar við erum í þeim minni er að það myndast betri leikur milli þeirra því jú þau eru „föst“ á minna svæði. 2021 gaurarnir verða alltaf öruggari og öruggari útí garði og eru þeir almennt frekar duglegir að leika sér, það er svo gaman að renna og moka og er leikurinn í húsinu mjög vinsæll.

Lubbi finnur málbein ... Málhljóð vikunnar var -Hh-. Við erum svo heppin að það eiga 2 krútt hjá okkur H-ið góða og fékk annað þeirra að hengja upp spjaldið okkar. Þau voru mjög dugleg að æfa sig í hreyfingunni og er lagið mjög grípandi. Boxið góða er stútfullt af flottum hlutum og myndum þar sem krakkarnir komu okkur heldur betur á óvart á degi eitt varðandi hvað er hvað í kassanum. Ekkert smá flottir krakkar sem við eigum 😊

Blær bangsi ... Hann birtist heldur betur kátur og hress eftir gott frí á Tenerife í vikunni.. Hann spjallaði við 2020 krakkana um mikilvægi þess að leika saman og vera góð við hvert annað. Spjaldið sýndi fram á vináttu og að leika sér, t.d. leika saman í boltaleikjum og lesa saman bækur. Eins ræddum við um viðbrögð við því hvað er gott að gera þegar einhverjum líður illa og var vinsælast að segja „knúsa“. Þau voru að minnsta kosti með það á hreinu að þegar þeim líður illa þá kemur kennarinn að knúsa þau 😊

Leikvangur ... í tímanum í vikunni var farið í þrautabraut sem tók yfir verkefnin úr heilsubókinni.. t.d hoppa á dýnunni, hoppa af dýnu og niður á gólf, æfa sig í kollhnísum og margt fleira spennandi.

Smiðja ...  í smiðjunni í þessari viku var verið að mála skraut á jólatréð ásamt því að leika við ljósaborðið.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni



04. nóvember 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikurnar fljúga áfram og það er heldur betur kominn smá jólahugur í okkur starfsfólkið, þannig að ekki láta ykkur bregða þótt börnin ykkar mæti aðeins græn og rauð á puttunum og jafnvel með smá glimmer... heim einhverja daga í nóvember :)

Hópastarf... báðir hópar byrja eins, að fara yfir nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði. 

  • 2020 hópurinn ... las Bínu Bálreiðu bókina okkar og eru þau alveg spennt fyrir bókinni, voru fljót að setja hendurnar saman þegar Bína er að kenna þeim að passa hendurnar og já reyna að sitja kyrr þegar hún er að reyna að kenna þeim að sitja. Þeim finnst samt mjög skrýtið að það sé verið að skiptast á við að sleikja ísinn með kisunni og þannig vitleysa.. Þau vildu lesa Greppikló eftir að Bína var búin og auðvitað var orðið við þeirri bón hjá þeim. Að lokum voru fínhreyfingarnar þjálfaðar með því að þræða, bæði á band og á prik. Það gekk aðeins betur að þræða á prikið (kannski af því þolinmæðin var farin að minnka). Í lokin voru þau að leika með eldhúsdótið okkar, þar sem þurfti heldur betur að skiptast á og æfa sig í því verkefni.
  • 2021 hópurinn ... var að lesa bækur um grunnlitina og fara yfir hvaða litur er hvað og hvaða hlutir eru hvernig á litinn. Síðan voru plastkubbarnir dregnir fram og leikið með þá og könnunarleikurinn rannsakaður. Mjög spennandi viðfangsefni þessi könnunarleikur 😊 Að lokum var farið fram í dúkkukrókinn á ganginum og leikið þar.  

Vettvangsferð ... á mánudaginn smelltum við okkur í langa og góða vettvangsferð. Við löbbuðum öll saman næstum því til Reykjavíkur.. eða sko enduðum á Landamærastígnum milli Kópavogs og Reykjavíkur og fundum þar róló til að leika á. Þetta gekk auðvitað eins og í sögu og skemmtu allir sér vel og stóðu sig eins og hetjur þrátt fyrir ansi góða brekku á leiðinni upp eftir.

Frjáls leikur ... er alltaf jafn mikilvægur eins og ég hef áður komið að. Við erum mikið að púsla, perla og leika með eldhúsdótið okkar. Eins eru holukubbarnir, Legókubbarnir, pleymó-ið og dýrin alltaf jafn vinsæl. Í frjálsum leik er verið að æfa samleik og félagslegan leik, það er líka verið að æfa sig í að skiptast á með dótið (það reynist ansi erfitt fyrir suma). Við erum auðvitað mikið í frjálsum leik úti líka með vinum okkar bæði á deildinni og öðrum deildum.

Útivera ... Við höfum enn og aftur klárað alla daga úti og suma daga höfum við farið út 2x yfir daginn. 2020 hópurinn er farinn að fara aftur í stóra garðinn að brasa þar en hoppar yfir í þann minni ca 15.40-15.50 (fer eftir dögum) en 2021 er auðvitað ennþá í þeim minni.

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Jj- Við tókum 3 blæstundir í vikunni og börnin eru alltaf jafn áhugasöm um þennan góða loðna við okkar. Það eiga sko 2 vinir okkur málhljóð vikunnar núna.

Blær bangsi ... Hann er ennþá á Tenerife og eigum við von á honum heim um helgina 😊

Leikvangur ... í leikvangi í vikunni var frjáls leikur en það var verið að æfa sig að jafna á ójöfnu undirlagi, príla í rimlunum, kasta og grípa og auðvitað hoppa og skoppa 😊

Smiðja ...  vorum við að byrja á smá jóladúlleríi.. jú við þurfum að nýta hvert tækifæri þegar krakkarnir eru í leikskólanum, það er að mörgu að hugsa og er nóg að gera 😊 í smiðjunni vorum við líka að skoða ljósaborðið okkar og dótið sem fylgir því. En afraksturinn kemur ekki beint í ljós fyrr en í næsta mánuði 😊

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


28. október 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Enn ein vikan að ljúka og nóvember framundan

Hópastarf... báðir hópar byrja eins, að fara yfir nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði. 

  • 2020 hópurinn ... las Bínu Bálreiðu bókina okkar og sátu þau hugfangin og hlustuðu á söguna. Þau voru ekki tilbúin til að hætta að lesa og báðu um að Greppikló yrði lesin næst. Eftir það var perla og litirnir ræddir og að lokum var klessulitað á blað og vatnslitað yfir það.
  • 2021 hópurinn ... var að leika með pleymó dótið okkar ásamt því að plastkubbarnir voru dregnir fram. Það var t.d. verið að æfa sig í því að skiptast á og leika saman og er gaman að sjá framfarir hjá þeim.

Frjáls leikur ... Við höfum mikið verið að leika okkur í eldhúsdótinu okkar, sá leikur er svo góður til að æfa sig í að leika saman og skiptast á. Við sjáum líka að leikinn þróast úr samhliðaleik í félagslegan leik með þennan efnivið sem okkur finnst svo gaman. Eins höfum við leikið í Holukubbunum og með pleymó-ið inni á deildinni okkar.

Við höfum líka haldið áfram að vinna haustverkefnið okkar sem var byrjað á í síðustu viku. Þá var málað á blað og í þessari viku fengu þau að setja lím á blaðið og brjóta laufblöðin og setja á límið. Myndirnar hanga framan á deildinni okkar, endilega kíkið á þau.

Útivera ... Við erum alltaf jafn dugleg að vera úti eins og þið vitið. Börnin ykkar eru svo dugleg að brasa og leika úti og sjáum við sérstaklega hjá 2020 hópnum að þau eru farin að sækja hvert í annað í útiverunni og eru að leika saman, það er t.d. verið að baka kökur og í ýmsum hreyfingarleikjum saman.  

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Vv- Við tókum  auðvitað 3 blæstundir í vikunni og börnin eru alltaf jafn áhugasöm um þennan góða loðna við okkar. Þeim fannst þó mjög áhugavert að hann er kominn í lopapeysuna sína, honum hefur greinilega verið orðið kalt. En aftur að málhljóði vikunnar. Sagan fjallar um Vigdísi sem býr á Vopnafirði og það er viti og vindur. Við fundum nokkur orð úr sögunni og klöppuðum þau í atkvæði og síðan kíktum við í kassann góða.

Blær bangsi ... Hann er ennþá á Tenerife, hann hlýtur að fara að skila sér til baka til okkar.

Vettvangsferð ... Vettvangsferð vikunnar féll niður vegna veikinda.

Leikvangur ....  Þar var verið að æfa kjark og þor ásamt því að Hinrik setti upp þrautabraut fyrir krúttin okkar. Þau fóru þangað inn sem vildu fara, við þvingum engan í það.

Smiðja ...  í smiðjunni í vikunni var verið að mála álpappírsmynd. Afraksturinn varð stórglæsilegt listaverk sem við hlökkum til að hengja upp hjá okkur.

Samverustundir ... Við höfum verið að syngja vinsælustu lögin okkar ásamt því að lesa einfaldar bækur. Það var líka gaman saman á fimmtudaginn þar sem var haldið upp á afmæli Blæ bangsa en hann varð 6 ára í gær á bangsadaginn.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


21 október 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan hefur enn einu sinni flogið áfram og föstudagurinn runninn upp með tilheyrandi stuði. Það var gaman saman í morgun á ganginum með Lindinni og Læknum. En Gaman Saman fer þannig fram að deildirnar hittast og syngja saman nokkur lög, þetta hefur gengið mjög vel og skemmta sér allir vel.

Það var líka eitt afmælisbarn hjá okkur á Lautinni. Hann bauð vinum sínum upp á ávexti og auðvitað var sungið afmælissöngurinn og hátt og snjallt húrra :) til hamingju með daginn elsku vinur

Hópastarf...

Á mánudaginn var hópastarf..

  • Hópastarfið var aðeins óhefðbundið núna. En það fóru allir í sama verkefni en tímarnir voru fámennari en allir eins uppbyggðir. Það var farið yfir nöfnin okkar, klappað nöfnin í atkvæði og svo var rætt um haustið og svo var málað tré á blað. Tréð var ansi fjölbreytt og sum ekki byggð upp eins og tré en það er það skemmtilega við þessi verkefni, fjölbreytnin í fyrirrúmi 😊

Útivera ... Hún bætir, hressir og kætir. Í útiverunni eru grófhreyfingar þjálfaðar á margan hátt og hjartað þjálfað með hlaupum og úthaldsæfingum. 2021 hópurinn er eins og alltaf í minni garðinum en 2020 hópurinn er yfirleitt í þeim stærri en auðvitað kíkja þau stundum í þann minni.

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Úú-  Við tókum 3 Lubbastundir í vikunni eins og er ótrúlegt hvað börnin eru áhugasöm um þennan dásamlega loðna vin okkar. Við skoðuðum í boxið okkar og vakti útvarpstæki mikinn áhuga hjá þeim enda eflaust tæki sem þau þekkja ekki 😊 kannski ekki til á mörgum heimilum. Eins sungum við uglu lagið oft og mörgum sinnum og lásum auðvitað söguna í bókinni um Úú-ið góða.

Blær bangsi ... Hann var í fríi í þessari viku og engin Blæ stund tekin 😊 við höldum kannski að hann hafi skellt sér til Tenerife í nokkra daga 😊

Vettvangsferð ... Vettvangsferð vikunnar var með 2020 hópinn á nýjan róló. Á mánudaginn þá fórum við á róló-inn í Þ sölunum og til þess að komast þangað þá fórum við yfir stóru brúna og það var heldur betur stuð. Við kíktum á bílana sem keyrðu undir brúna og það var ekki laust við að einhverjir yrðu smá smeykir þegar bílarnir æddu áfram undir brúnni. Við lékum lengi á rólónum og röltum svo til baka á leikskólann.  

Leikvangur .... í leikvangi í dag var verið tekin þrautabraut og frjálst í lokin. Svaka stuð og allir skemmtu sér mjög vel.

Smiðja ...  í smiðjunni í vikunni var verið að vatnslita

Samverustundir ... við höldum áfram að æfa okkur í því að sitja í okkar sætum og syngja saman lög. Stundirnar eru ca 10 mín og sjáum við framfarir hjá öllum að taka þátt, bæði sitja og syngja með okkur. Við erum farin að vera æ oftar saman í samverustundinni því við sjáum að 2020  hópurinn okkar eru bara ansi góðar fyrirmyndir fyrir 2021 hópinn okkar.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


14. október 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan hefur heldur betur liðið hratt og enn og aftur er kominn föstudagur. Rútínan hefur verið hefðbundin hjá okkur, Leikvangur og Smiðja og Lubbi voru á sínum stað sem og hópastarfið en Blær var í fríi í þessari viku. Ágætt að slaka stundum á skipulaginu og njóta í öðrum verkefnum 😊

Afmælisblöðrurnar týnast upp hver á fætur annarri sem og fjölskylduspjöldin, það er svo gaman að sjá hvað krúttin eru áhugasöm um spjöldin sín og eru að kíkja á spjöld vina sinna... svo eru þau líka svo skemmtilega skökk og fín, þar sem þau hafa fengið að ráða alfarið hvar og hvernig þau eru á fjölskyldu veggnum okkar.

Það er svo gaman að fylgjast með þeim mynda tengsl sín á milli, eldri hópurinn er byrjaður að mynda vináttu tengsl meðan sá yngri sækir meira í öryggið hjá okkur kennurunum en er áhugasamur um krakkana og það sem er verið að gera. Við sjáum það að eldhúsdótið er líklega vinsælast inni á deild hjá báðum hópunum.

Í dag var líka Bleikur dagur hér í leikskólanum sem og samfélaginu öllu, við mættum í bleikum dressum og sýndum með því samhug og stuðning í verki.

Hópastarf...

Á mánudaginn var hópastarf..

  • 2020 hópurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, það var sest í hring og farið yfir nöfnin okkar og klappað þau í atkvæði. Síðan var Bína Bálreiða lesin og hún rædd aðeins.. Segulkubbarnir okkar voru dregnir fram í smá stund og að lokum var leikið með eldhúsdótið okkar. Það er svo gaman að leika saman með það og elda matinn öll í einni klessu.
  • 2021 hópurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, það var sest í hring og farið yfir nöfnin okkar og klappað þau í atkvæði. Síðan var leikið með hin ýmsu viðfangsefni, t.d. holukubba, segulkubba og svo var púslað

Útivera ... Við höfum reynt að fara út alla daga að minnsta kosti 1x á dag, það hefur ekki alltaf gengið upp en við reynum eins og hægt er.

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Íí/Ýý-  Við tókum 3 Lubbastundir í vikunni eins og vanalega þar sem þar sagan var lesin og orðin rædd og klöppuð. Við náðum að sjálfsögðu í boxin sem voru 2 í þessari viku og forum aðeins yfir þau. Okkur finnst ótrúlegt hvað þau eru fljót að ná hvað er í þeim og hvaða hlutur er hvað.. t.d. í vikunni þá var mynd af ísskap í boxinu.. þau stóðu á gati á mánudegi en í lok vikunnar, þá vissu þau alveg hvað þetta var og hvað er geymt í honum.. algjörir snillingar  

Blær bangsi ... Hann var í fríi í þessari viku og engin Blæ stund tekin 😊

Vettvangsferð ... Vettvangsferð vikunnar féll niður vegna ausandi rigningar

Leikvangur .... í vikunni var verið að hreyfa sig í leikvangi, það var frjáls leikur í dag og fóru krakkarnir eftir árgöngum í leikvanginn. Svaka stuð og stemming þar inni 😊

Smiðja ...  í vikunni var verið að mála með fingrunum, það var alveg spennandi og virtust þau skemmta sér vel.

Samverustundir ... Það er ótrúlegt hvað þau eru orðin dugleg að sitja og fylgjast með í samverustundinni, allir svo áhugasamir og spenntir fyrir lögunum okkar. Við sjáum greinilegan mun milli vikna hvað þau eru áhugasamari og tilbúnari í rútínuna okkar.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


7. október 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Í vikunni var heilsuvika þar sem allir skemmtu sér vel í. Við gerðum æfingar í samverustundinni og sungum hreyfilög saman. Krakkarnir voru hálfhissa á okkur kennurunum þegar við gerðum hnébeygjur, bjarnargöngur og magaæfingar á fullu. Þetta vakti samt mikla lukku og skemmtu allir sér vel. Eins var ávaxtaveisla hjá okkur á miðvikudaginn, þvílíkt partý sem var hjá okkur og alls kyns gómsætir ávextir og grænmeti sem við fengum og nutum fram eftir vikunni. Takk kærlega fyrir okkur. Við enduðum svo á hreyfidegi í dag í svaka stuði á ganginum með vinum okkar á Læk og Lind.

Hópastarf...

Á mánudaginn var hópastarf..

  • 2020 hópurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, það var sest í hring og farið yfir nöfnin okkar og klappað þau í atkvæði. Eins tókum við á móti nýjum vin í hópinn og buðum hann velkominn til okkar. Krakkarnir vissu að hann væri væntanlegur og búin að skoða mynd af honum og vissu meirað segja hvað hann hét. Því næst var kíkt á tannaspjaldið okkar og rætt um mikilvægi þess að borða hollan og góðan mat ásamt því sem við fórum yfir heiti á líkamshlutunum okkar. Að lokum var leikið með einingakubba og bíla og virtust allir skemmta sér vel.
  • 2021 hópurinn ákvað að þessu sinni að skella sér út að leika. Þeir æfðu sig i að sitja kyrrir og bíða meðan það var verið að sinna öðrum.. það tók aðeins á 😊 síðan var leikið í garðinum og notið þess að vera einir að leika þar.

Útivera ... Við náttúrulega njótum þess að leika okkur úti í garðinum okkar.

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Dd-  Við tókum 3 Lubbastundir í vikunni eins og vanalega þar sem þar sagan var lesin og orðin rædd og klöppuð. Við náðum að sjálfsögðu í boxið og grandskoðuðum það sem var þar í.

Blær bangsi ... 2020 hópurinn tók Blæstund í samverustund í vikunni. Við kynntum Blæ fyrir nýja vinum okkar og það urðu allir mjög hissa þegar hann átti orðið bangsa hjá okkur. Við knúsuðum bangsann okkar og ræddum það hvað það er að vera vinir.. t.d. leika saman og vera góður. Faðma með höndunum en ekki lemja og hlusta á vini okkar.

Vettvangsferð ... í þessari viku þá fóru 2020 krakkarnir saman í vettvangsferð, við löbbuðum að hringinn í kringum Salaskóla og enduðum að sjálfsögðu á hoppubelgnum okkar þar sem við hoppuðum og hoppuðum saman. Ferðin gekk hægt fyrir sig þar sem umhverfið var svo spennandi, pollar til að hoppa í og laufblöð og ormar að skoða.

Leikvangur .... í vikunni var þrautabraut og stuð. Hinrik sagði að allir hefðu staðið sig mjög vel  og verið mjög orkumikil :)

Smiðja ...  í vikunni var verið að teikna á blað, það gekk vel og virtust allir skemmta sér vel.

Samverustundir ... í þessari viku voru hreyfilög vinsælust sem og æfingar inni á deild. Við höldum áfram að vera stundum tvískipt eftir árgöngunum og stundum öll saman.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


30. september 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

vikurnar auðvitað fljúga áfram og njótum við þess að leika okkur saman í öllum mögulegum verkefnum. 

Hópastarf...

Á mánudaginn var hópastarf..

  • 2020 hópurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, það var farið yfir nöfnin okkar, klappað nöfnin í atkvæði og spjallað um þau. Verkefnin voru tvö að þessu sinni. Fyrst voru Numicon kubbarnir okkar dregnir fram og leikið aðeins með þá. Síðan var lesin bók um Fróða Sóða og hún rædd í þaula.
  • 2021 hópurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, farið yfir nöfnin okkar og  þau klöppuð í atkvæði. Síðan fengum við lánaðan efnivið af Læknum og fórum að leika í Könnunarleiknum. Þetta fannst þeim mjög skemmtilegt og nutu þeir þess í botn að dunda sér með þennan efnivið.

Útivera ... Við náttúrulega elskum að vera úti að leika okkur. Við höfum farið út flesta daga vikunnar og enn reynum við að skipta okkur niður í stóra og litla garðinn, þrátt fyrir að við sameinumst í þeim minni ca 15.45-16:00 flesta daga.

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Nn-. Við tókum 3 Lubbastundir í vikunni þar sem sagan var lesin og lagið mjög grípandi í þessari viku.

Blær bangsi ... 2020 hópurinn tók Blæstund í samverustund í vikunni. Við dönsuðum við bangsann okkar og spurðum hvort við mættum knúsa hann og nudda. Eins lögðust þau á gólfið og þau sem vildu fengu baknudd frá kennaranum. Við vorum með sömu klípusögu og í síðustu viku en hún snýr að því að skilja útundan, t.d. það að ef einhver spyr hvort einhver vilji leiða og viðkomandi snýr uppá sig og segir nei, þá sé eðlilegt að verða pínu leið. Dáldið flókið en þetta síast allt inn að lokum.

Vettvangsferð ... í þessari viku þá fóru 2020 krakkarnir saman í vettvangsferð, við löbbuðum að æfingatækjunum þar sem við gæddum okkur á gómsætum banana og hreyfðum okkur aðeins. Síðan héldum við áfram og kláruðum að labba saman allan hringinn. Sáum hunda, krumma og fugla á leiðinni. Skemmtileg ferð með skemmtilegum krökkum.

Leikvangur .... í vikunni var verið að æfa kjark og þor og æft sig að labba á bekknum og æfa jafnvægið. Alltaf jafn gaman þar inni og njóta krakkarnir þess að vera þar inni.

Smiðja ...  í vikunni var verið að fingramála. Þetta fannst þeim áhugavert og sumum ansi sóðalegt 😊

Samverustundir ... Við höfum verið að syngja saman þessi einföldu lög með 2021 hópnum ásamt því sem við höfum farið í flóknari lög og þulur með 2020 hópnum.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


22. september 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Stutt vika að klárast, bara 4 dagar í þessari viku þar sem það er skipulagsdagur á morgun og leikskólinn lokaður. 

Hópastarf:

Á mánudaginn var hópastarf..

  • 2020 hópurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, það var farið yfir nöfnin okkar, klappað nöfnin í atkvæði og spjallað um þau. Verkefnin voru tvö að þessu sinni, fyrst var pinnað saman og svo var leirað með Bleika leirnum okkar.. við að vísu fengum okkur líka skæri þar sem við æfðum okkur að klippa leirinn. Það gekk misvel 😊   
  • 2021 hópurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, farið yfir nöfnin og klappað þau í atkvæði. Verkefnin voru líka tvö í þeim hóp, annars vegar að leika með kubbana, ræða litina og æfa okkur að stafla og hins vegar að leika með pleymó-ið okkar.

Útivera ... Við höfum notið þess að leika úti í garðinum okkar og eru alltaf allir jafn glaðir með útiveruna, sem bætir hressir og kætir. Við höfum farið út eins og hægt er í vikunni.. 2020 krakkarnir nutu þess að vera ein að leika í stóra garðinum á miðvikudag. Það var heldur betur stuð.. það var sullum bullað heilan helling og bakaðar drullukökur og afmæliskökur eins og okkur einum er lagið. Við höfum reynt að fara út að minnsta kosti 1x á dag en við höfum ekki lagt í allar þessar hellidembur sem hafa verið að koma í þessari viku, því höfum við verið meira inn í lok dagsins í þessari viku.

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Bb-. Við tókum 3 Lubbastundir í vikunni þar sem sagan var lesin, nokkur orð rædd og klöppuð og rímuð einnig kíktum við í kassann okkar sem var yfir sig fullur af áhugaverðum hlutum, t.d. bláberjum, búðakassa, bönunum og fleiri hlutum. Við auðvitað klöppuðum allt í atkvæði en það vinsælasta var án ef að sjá sápukúlurnar fljúga um deildina..

Blær bangsi ... 2020 hópurinn tók Blæstund í samverustund í vikunni. Við dönsuðum við bangsann okkar og spurðum hvort við mættum knúsa hann, sumir sögðu nei meðan aðrir sögðu já. Klípusagan fjallar um það að við erum öll vinir og að það er ljótt að skilja útundan. Við töluðum líka um það að ef einhver er skilin útundan þá er nauðsynlegt að tala við kennara og fá aðstoð. Við sungum líka „Stopp“ lagið og tókum hreyfinguna með trompi.. þannig ef þau gera stopp á ykkur.. þá vitið þið hvaðan það kemur 😊

Vettvangsferð ... í þessari viku þá fórum við öll saman í vettvangsferð (já við svindluðum aðeins og buðum 2021 strákunum með okkur). Við löbbuðum á Hvammsvöll þar sem við lékum okkur alveg heilan helling.. hittum þar vini okkar af Lindinni og lékum með þeim þar. Alltaf gaman að leika á nýjum stað.  

Leikvangur .... við fórum í frjáls verkefni í leikvanginn í vikunni, þar var verið að príla, húlla, hoppa og kasta bolta ásamt því sem við tókum fallhlífina fram og lékum okkur alveg þangað til þolinmæðin var búin.

Smiðja ... í vikunni var fyrsti smiðju tíminn. Börnin fóru í fámennari hópum til Lukku sem er fagstjóri smiðju. Þar var verið að teikna á blaðið og kynnast Lukku :)

Frjáls leikur ... Hann er alltaf jafn mikilvægur. Við höfum mikið leirað í þessari viku, þar þarf heldur betur að skiptast á með leirinn og deila með sér.. Úff það getur verið erfitt! Einnig höfum við höfum verið í dúkkukróknum frammi, brasað með einingakubbana inni á deildinni okkar  Eins höfum við verið með nýja týpu af segulkubbum sem við höfum fengið lánaða af Læknum. Bílar, kubbar og eldhúsdótið hefur líka slegið í gegn í vikunni.

Samverustundir ... Við höfum verið að syngja saman þessi einföldu lög ásamt því sem við höfum farið í flóknari lög og þulur með 2020 hópnum.

Matmálstímar ... 2020 börnin eru öll farin að ganga frá sjálf eftir hádegismat og kaffitíma og finnst þeim þau mjög stór og dugleg! Eins erum við eiginlega hætt að nota smekki í kaffitímanum. Bara svo þið vitið hvað málið er ef það er mikið sull á peysunum þeirra (sem kemur alveg fyrir). Eins er borðið frammi mikið að ræða um mikilvægi matarins fyrir vöðvana, heilann og líkamann í heild sinni.. Eins og við segjum stundum, mikill orkumikill matur gefur okkur stóra vöðva 😊

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


16. september 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan hefur flogið áfram og mánuðurinn er hálfnaður, það er ótrúlegt!

Hópastarf:

Á mánudaginn var hópastarf..

  • 2020 hópurinn tók Blæstund í upphafi stundarinnar, ásamt því að það var farið yfir nöfnin okkar og klappað þau í atkvæði. Við spiluðum samstæðuspil (eða gerðum okkar besta) eins og þolinmæðin leyfði. Það er svolítið erfitt að bíða og skiptast á. Svo fórum við að flokka dýrin eftir litum og að lokum þá settumst við í hring og sungum saman vinalagið og þökkuðum fyrir hópastarfið.
  • 2021 hópurinn fór yfir nöfn strákana og klöppuðu nöfnin í atkvæði. Síðan var eldhúsdótið skoðað og kubbarnir og æft sig í að skiptast á og leika saman (sem reynist mörgum erfitt).

Eftir þetta allt saman þá settumst við öll saman niður og kvöddum eina skvísuna okkar sem fluttist yfir á Lindina þann daginn. Við þökkum fyrir samveruna en við eigum heldur betur eftir að sakna hennar en við eigum eftir að leika saman bæði á ganginum og í útiverunni.

Afmæli... Við áttum líka eina afmælisskvísu í vikunni, en á miðvikudaginn var heldur betur afmælisstuð og var boðið uppá ávexti í tilefni dagsins. Hún valdi sér líka borðbúnað og skikkju..  😊 innilega til hamingju með daginn þinn elsku vinkona.

Útivera ... Við höfum notið þess að leika úti í garðinum okkar og eru alltaf allir jafn glaðir með útiveruna, sem bætir hressir og kætir. Við höfum farið út 2x á dag með 2020 hópinn ein 2021 hópurinn hefur verið að fara út í lok dagsins.

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Mm-. Við tókum 3 Lubbastundir í vikunni þar sem sagan var lesin, nokkur orð rædd og klöppuð og rímuð einnig kíktum við í kassann okkar og skoðuðum það sem er í honum. Nokkrir foreldrar eiga Mm-ið góða og fannst krökkunum það mjög spennandi.

Blær bangsi ... 2020 hópurinn tók Blæstund bæði í hópastarfi og svo í samverustund í vikunni. Við höfum knúsað og kysst bangsann okkar, hann nuddaður ef hann var til í það ásamt því að við skoðuðum spjaldið sem hefur hangið inni á deild. Þar sem krakkarnir eru öll að leika saman.  

Vettvangsferð ... í þessari viku þá fórum við öll saman í vettvangsferð (já við svindluðum aðeins og buðum 2021 strákunum með okkur). Við löbbuðum í kringum Salaskóla og enduðum á hlaupabrautinni þar sem við hlupum fram og til baka og enduðum á ærslabelgnum. Þvílíkt stuð og stemming og komu allir okkur á óvart í göngunni.  

Leikvangur .... Leikvangstíminn var mjög skemmtilegur og voru þau í þrautabraut sem reyndi á jafnvægi, kjark og þor.. ásamt því að skemmta sér mjög vel.    

Frjáls leikur ... Hann er alltaf jafn mikilvægur og skemmtilegur, í gegnum hann þjálfa þau félagsfærni og samskiptahæfni. Þau læra að skiptast á, bíða og leika með öðrum. Við höfum nýtt eldhúsdótið og holukubbana mikið í vikunni ásamt því að púsla og leika með bílana og fleira spennandi dót.  

Samverustundir ... Nú eiga allir krakkarnir orðnir sín sæti í samverustundinni. Þar er mynd af þeim sem þau læra að þekkja eftir nokkra daga og sjáum við strax að þetta fyrirkomulag veitir þeim öryggi.  Við sitjum þarna í lubba stund og ávaxtastund að morgni og 2021 strákarnir nýta sér svæðið fyrir hádegismatinn en þá 2020 hópurinn saman í samveru annars staðar.

  • 2021 hópurinn hefur verið að syngja saman og lesa einfaldar bækur
  • 2020 hópurinn hefur verið að lesa flóknari bækur og er Fróði Sóði mjög vinsæll. Við höfum verið að fara með þulur (fagur fiskur í sjó) og í minnisleik (fela hluti undir teppi og taka einn hlut í burtu og þá eiga þau að sjá hvað vantar). Þeim fannst þetta mjög áhugavert og fylgdust spennt með. 

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Vikan 5 sept - 9 sept 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Útivera ... veðrið hefur heldur betur leikið við okkur í vikunni og höfum við notið þess að leika okkur úti í garðinum okkar. Við höfum bæði verið í stóra og litla eins og hægt er og hefur það gengið vel 😊

Í þessari viku höfum við lagt upp með að skipta árgöngunum í 2 hópa, hafa 2020 saman og 2021 saman. Við sjáum bara hvað allir eru öruggari með hópnum sínum.

  • 2021 hefur verið inni á morgnana í þessari viku í rólegum leik, þar eru þeir að tengjast hver öðrum og okkur kennurunum. Þeir fá einnig nægt rými til að skoða og upplifa og almennt gengur mjög vel. Eins sleppa þeir við brussulætin í eldri hópnum.
  • 2020 hefur verið meira úti að hamast á morgnana, vettvangsferð og fleira spennandi í garðinum okkar. Enda er nóg af orku til staðar og gott að fá útrás fyrir hana.

Lubbi finnur málbein ... málhljóð vikunnar var -Aa-. Við tókum 3 Lubbastundir í vikunni þar sem sagan var lesin, nokkur orð rædd og klöppuð, einnig kíktum við í kassann okkar og skoðuðum það sem er í honum. Það eiga líka nokkur börn Aa - ið og ræddum við þau nöfn.

Blær bangsi ... 2020 hópurinn tók sína fyrstu Blæ stund í vikunni, þau fengu að knúsa bangsann sinn og dansa með honum. Við tókum fyrir eina örsögu þar sem rætt var um að leika saman og vera góður við alla krakkana. Spjaldið hangir svo uppi inni á deild og eru þau aðeins að skoða það. En hvert spjald verður uppi við í 2 vikur.

Vettvangsferð ... 2020 hópurinn skellti sér í ferð á Hvammsvöll í vikunni, það var svaka stuð að leika þar en það sem stóð uppúr var köngulóin sem þau sáu og svo hittu þau líka hund á leiðinni. Þvílíkt stuð 😊

Leikvangur .... Við höfum nýtt leikvanginn eins og hægt er á daginn og svo var tími hjá Hinrik í dag þar sem allir skemmtu sér mjög vel í.   

Frjáls leikur ... Frjálsi leikurinn er svo mikilvægur krökkunum og í þeim leik þar læra þau svo mikið, t.d. að skiptast á og bíða.. þessir hlutir eru mörgum erfiðir og mikilvægt að æfa þetta heima líka.. að fá ekki allt strax upp í hendurnar 😊 Við höfum verið með Bríó lestina og pleymó-ið inni á deild í þessari viku, eins hafa dýrin og kubbarnir slegið í gegn sem og púsl og litir.

Borðverkefni ... hafa verið einföld ... púsl, litir, pinnar og perlur en 2021 hópurinn fékk að mála aðeins og jú það fór helling á blaðið en málningin virtist smakkast vel líka 😊

Samverustundir ... Þær ganga sífellt betur og eru allir farnir að sitja þokkalega dugleg í samverunni. Stundin er ekki löng enda þolinmæðin lítil rétt fyrir matartímann.

  • 2021 hópurinn er að syngja einföld lög og mikið af hreyfilögum og hljóðfærin hafa verið notuð í nokkrum samverustundum.
  • 2020 hópurinn hefur verið að lesa lengri sögur og eru þau mjög áhugasöm um bækurnar, t.d. Fróði Sóði og Greppikló hafa verið vinsælar í þessari viku. Þau hlusta af athygli. Eins höfum við verið að syngja saman og taka þau oftast nær vel undir.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Vikan 29 ágúst - 2 september 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Á Þriðjudaginn knúsuðum við 3 góða vini sem voru að byrja á nýrri deild þann daginn. Það var ansi dramatísk stund þegar krakkarnir knúsuðust í klessu en voru svosem ekki að skilja þessar nýju upplýsingar um vini sína. Við eigum heldur betur eftir að sakna vina okkar og hlökkum til að hitta þá í útiveru og hérna innan húss þegar það er hægt.

Útivera ... við erum alltaf jafn mikið úti að leika okkur svona þegar veður leyfir að minnsta kosti. Við höfum farið út flesta daga í vikunni og enduðum ansi blaut einhverja daga. 2020 hópurinn hefur alltaf verið í þeim stóra en auðvitað er 2021 hópurinn í þeim minni. 2020 krakkarnir hafa aftur á móti stundum sameinast deildinni í þeim minni rétt fyrir 16.00.

Vettvangsferð ... 2020 hópurinn skellti sér í ferð í rigningunni í vikunni, það fór ekki framhjá neinum að spenningur var í hópnum og dáldið erfitt að fara eftir reglunum í upphafi ferðarinnar.. en það var fljótt að koma og voru allir tilbúnir að hlusta og hlýða í lok ferðar. Það var labbað hringinn í kringum Salaskóla og endað á hlaupabrautinni þar sem var hlaupið fram og til baka nokkrum sinnum.

Leikvangur .... Við höfum aðeins kíkt í leikvanginn í frjálsum leik að njóta þar inni.. en þetta rými er klárlega eitt það mest spennandi í leikskólanum. Krakkarnir fóru í tíma til hans Hinriks í dag og skemmtu sér allir mjög vel.  

Frjáls leikur ... Við reynum að njóta eins og hægt er í frjálsum leik, það er svo mikið hægt að leggja inn í gegnum hann. Við höfum verið að leika með bílana, kubbana, dúkkudótið og svo auðvitað í holukubbum og með pleymó-ið..

Borðverkefni ... Við höfum verið að æfa okkur í þeim, það hefur verið litað, púslað, pinnað og perlað og gaman að sjá hvað einbeitning hefur aukist hjá mörgum. Sumir eru meira í því að lita á sér andlitið heldur en blaðið og vonum við að það sé ekki jólamyndataka framundan 😊

Samverustundir ... Þær hafa verið hefðbundnar, sungin nokkur lög og svo að borða. Eins hefur 2020 hópurinn setið saman og lesið Greppikló nokkrum sinnum.. og já hlustað á söguna á spotifæ 😊

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Vikan 22 ágúst - 26 ágúst 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan hefur verið aðeins óhefðbundin, það var aftur aðlögun inn til okkar í þessari viku og komu 3 nýjir strákar til okkar, allir fæddir 2021. Við höfum nýtt tímann vel í að kynnast þeim og sýna þeim hvernig leikskólalífið er og við á Lautinni séum ekki alslæm 😊 við bæði börn og kennarar erum ágæt þegar okkur er gefinn séns.

En á mánudaginn þá kvöddum við einn gaurinn okkar, en hann var að hætta hjá okkur og fór í annan leikskóla. Takk fyrir samveruna elsku vinur og gangi þér sem allra best.

Útivera ... við erum alltaf jafn mikið úti að leika okkur og hafa allir farið út bæði fyrir hádegi og eftir kaffitíma alla vikuna. Það er bæði búið að leika í stóra garðinum og aðeins kíkt í þann minni.

Leikvangur .... Við höfum aðeins kíkt í leikvanginn í frjálsum leik að njóta þar inni.. en þetta rými er klárlega eitt það mest spennandi í leikskólanum. Eins var tími hjá Hinrik (sem er nýji íþróttakennarinn okkar) á þriðjudaginn. Þá fóru 2020 krakkarnir í tíma til hans í fyrsta skipti. Laufey okkar fór með svona því hann hafði ekki hitt þau áður en þetta var mjög spennandi og gaman.

Frjáls leikur ... hann hefur verið mikill inni á deild og frammi á gangi! Það hefur verið svaka stuð að kubba, bíló-ast, skoða bækur og gíraffa og margt margt fleira.

Samverustundir ... Þær hafa verið hefðbundnar, sungin nokkur lög og svo að borða.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Þessi vika hefur einkennst af rólegum leikjum, útiveru, leikvangi og aðlögun. „stóru börnin „ okkar tóku nýju strákunum ansi vel og virðast þeir falla vel í hópinn að okkar mati.

Við kvöddum bæði Lilju Rún og Kollu í vikunni, þær eru að fara að læra meira og vinna annað og eigum við heldur betur eftir að sakna þeirra. Takk fyrir samveruna 😊

Útivera ... Við höfum verið mikið úti að leika okkur og er það alltaf jafn skemmtilegt. 2020 krakkarnir eru öll komin í stóra garðinn en 2021 hópurinn verður að sjálfsögðu í litla garðinum okkar. Þau eldri hafa aðeins verið að kíkja þangað til að hitta börn og kennara og er það bara alveg í boði 😊

Leikvangur .... Við fórum að leika í leikvangi og hreyfa okkur þar inni þegar tækifæri gáfust í vikunni, bæði að morgni til, og eftir hvíldina.

Frjáls leikur ... Hann hefur verið ansi mikill, bæði inni á deild og frammi á gangi, alltaf jafn gaman að þróa leikinn og brasa með vinum sínum.

Samverustundir ... Við höldum okkar skipulagi og setjumst niður og syngjum/lesum 2-3 á dag.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 20 júní 2022– 24 júní 2022

Vettvangsferðir vikunnar ... voru tvær að þessu sinni. Sú fyrri var á Salaskóla lóðina, þar sem við hoppuðum á trampólínunum og brussuðumst í dekkjunum sem tilheyra skólahreysti brautinni. Við hoppuðum í öllum pollum á báðum leiðum og sáum rosalega stóran vörubíl sem var með blikkandi ljós og allt saman á gangstéttinni. Þvílíkt sem hann var flottur og ferðin skemmtileg. Hin ferðin var á Hvammsvöll þar sem allir léku sér rosalega vel og virtust skemmta sér mjög vel. Allir alltaf jafn duglegir að labba og leiða bæði vini og kennara.

Útivera ... hún er alltaf jafn góð og hressandi. Við fórum út alla daga eins og við erum búin að gera í allan vetur og skemmta sér allir sér vel í garðinum okkar. Við erum bæði búin að brasa þeim stóra og þeim litla og sjáum við hvað allir eru að verða öruggir í þeim stærri.

Leikvangur ... Við höfum aðeins kíkt í leikvanginn og skemmt okkur vel, þar er alltaf jafn gaman að hoppa, príla, renna, æfa sig að labba með grjónapúða á höfðinu og leika með boltana. Ásamt bara að njóta með vinum sínum.

Frjáls leikur ... Þau njóta þess alltaf að leika sér með vinum sínum, við erum bæði búin að leika með pleymó-ið okkar, bílana, kubbana, í dúkkukrók og holukubbum og í hinum ýmsu borðverkefnum (t.d. púslum). Í þessum leik æfum við okkur í margs konar verkefnum, þar má nefna að skiptast á og bíða. Þetta vefst stundum fyrir okkur og er gott að nýta leikinn til þess að æfa þetta.

Samverustundir ... Bókalestur og söngvar hafa verið alls ráðandi í þessari viku. Greppikló heldur áfram að vera vinsæl og eru þau sum hver farin að botna blaðsíðurnar og fylla í eyðurnar. Þau hafa líka verið spurð aðeins út úr sögunni og er alveg einhverju svarað rétt.

Sumarhátíðin var í vikunni var það svaka stuð. Ávaxtakarfan kom með uppistand til okkar og virtust flestir ef ekki allir skemmta sér vel. Það voru líka hoppukastalar og þeir sem vildu andlitsmálningu, fengu hana áður en fórum út í stuðið. Einnig virtust pylsurnar renna ljúflega niður hjá þeim sem vildu þær. Við þökkum ykkur kærlega fyrir komuna til okkar og að njóta dagsins með okkur 😊

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 13 júní - 16 júní 2022

Á mánudaginn … fórum við út að leika okkur fyrir hádegismatinn, við lékum í báðum görðunum og allir skemmtu sér vel. Eftir hvíldina fóru sumir í leikvang meðan aðrir léku á ganginum. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn ... var eins og oft áður útivera um morguninn, við lékum í 2 hópum, annar hópurinn í þeim stóra og hinn í þeim litla. Eftir mat, leik á gangi og hvíld, þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn ... þá smelltum við okkur í langa og skemmtilega vettvangsferð. Við löbbuðum að æfingatækjunum og tókum þar létta æfingu. Við tókum svo þá ákvörðun að labba löngu leiðina heim og tókum því allan hringinn í kringum kirkjugarðinn. Vá þau voru svo dugleg að labba og skoða umhverfið 😊 Eftir langa og góða hvíld (þar sem allir voru uppgefnir) þá lékum við saman og fórum svo út að leika okkur aftur.  

Á fimmtudaginn ... fórum við út að leika okkur fyrir hádegismatinn... Við fórum að þessu sinni öll í stóra garðinn að leika okkur og virtust allir skemmta sér mjög vel, það voru amk nokkrir sem vildu ekki koma inn að borða.

Við höfum verið að lesa flóknari bækur í vikunni og eru þau mjög áhugasöm um þær, Greppikló tók yfir áhugann og er búið að lesa hana nokkrum sinnum í vikunni. 

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 6 júní - 10 júní 2022

Hitt og þetta … Við höldum áfram að kíkja í heimsókn með hóp í „Vestur garðinn“ saman að leika okkur þar. Þau eru mörg hver orðin mjög spennt fyrir þessum heimsóknum og orðin nokkuð örugg þar. Við munum halda þessum heimsóknum áfram þar sem það er að fækka í stóra garðinum okkar núna. 

Á mánudaginn … Var 2 í hvítasunnu og leikskólinn því lokaður 😊

Á þriðjudaginn ...  fóru allir í stórskemmtilega vettvangsferð. Við löbbuðum saman að Salaskóla og lékum okkur þar alveg heil lengi. Hoppuðum og skoppuðum á trampó-inu og hittum nokkrar frænkur og systur og vini þeirra sem léku með okkur þar. Eftir að hafa leikið þar, þá löbbuðum við til baka og þegar heim var komið, þá fóru sumir í „Austur garðinn“ (þann litla) og sumir í „Vestur garðinn“ (þann stóra). Eftir mat, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur. 

Á miðvikudaginn ... þá fórum við út að leika fyrir hádegismatinn, við lékum að þessu sinni öll saman í „Austur garðinum“ með vinum okkar af Lindinni. Eftir mat, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur aftur. 

Á fimmtudaginn ... fórum við út að leika okkur fyrir hádegið. Það fór hópur að leika í „Vestur garðinum“ okkar og skemmtu þau sér mjög vel meðan annar hópur var að leika í „Austur garðinum“ Það var ekki mikil ánægja með að fara inn enda geggjað veður og allir til í að leika og brasa í blíðunni. Eftir mat, leik og kaffi þá fórum við út að leika okkur.  

Í dag föstudag ... fórum við út að leika okkur fyrir hádegið, við vorum bæði að leika í þeim stóra og þeim litla. Alltaf jafn gaman úti að leika sér í sólinni 😊 Eftir mat, hvíld og kaffi er heldur betur á planinu að fara út að leika í góða veðrinu 😊 

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 30 maí -3 júní 2022

Hitt og þetta … Við erum heldur betur að njóta dagana saman núna, vettvangsferðir, heimsóknir í stóra garðinn okkar, ævintýri í litla garðinum, sápukúlur, tónlist og meira fjör eru einkennandi núna. Við syngjum alltaf jafn mikið og æfum okkur í hinum og þessum verkefnum. En auðvitað er útiveran alls ráðandi.

Á mánudaginn … þá fórum við út að leika okkur fyrir hádegismatinn, við lékum okkur í garðinum okkar og skemmtum okkur stórvel saman. Það fór hópur af krúttum leikvanginn eftir hvíldina og það er náttúrulega alltaf jafn gaman þar inni. Það var svo útivera eftir kaffitímann.

Á þriðjudaginn ...  fórum þau börn sem eru fædd í maí og fyrr í vettvangsferð. Það var labbað á Hvammsvöll þar sem við nutum þess að leika saman. Prufa stóru rennibrautina, kíkja í kofana og fleira skemmtilegt. Þau sem voru eftir í garðinum voru að leika með krökkunum á Lindinni. Svaka stuð að brasa í rigningunni saman. Það fór líka hópur í leikvanginn eftir hvíldina og fram að kaffi að leika, þau hreinlega elska þetta svæði. Það var svo útivera eftir kaffitímann

Á miðvikudaginn ... þá fórum við út að leika okkur fyrir hádegismatinn. Að þessu sinni fékk hópur af Lautarkrúttunum að fara í heimsókn í stóra garðinn og leika þar. Við erum aðeins að létta á þeim litla þar sem það byrjar aðlögun á Læk og Lind fljótlega og já Lautarbörnin orðin elstu og reyndustu börnin á ganginum. Það var semsagt bæði verið að leika í stóra og litla garðinum og skemmtu sér allir súper vel. Það var leikur á ganginum og leikvangi eftir hvíldina og eftir kaffitímann var útivera.

Á fimmtudaginn ... fórum við út að leika okkur fyrir hádegið. Það fór hópur í heimsókn í stóra garðinn og virtust allir skemmta sér mjög vel. Við sjáum líka að það er meira pláss í þeim minni fyrir alla hina krakkana og njóta þau þess að leika sér saman í hinum ýmsu verkefnum. Eftir hvíldina þá lékum við á ganginum og eftir kaffi þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag ... vorum við inni að leika fyrir hádegið, það var í boði að fara í leikvanginn og leika inni á deild með dótið okkar, það var t.d. verið að leika með bangsana, verið að púsla, leika með bílana og eitthvað fleira. Eftir hvíld verður aftur kíkt í leikvanginn og svo er á planinu að fara út að leika saman.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 23 maí  - 27 maí 2022

Hitt og þetta … Við höfum notið þess að vera saman í vikunni. Erum á fullu að æfa okkur í hinum ýmsu verkefnum þessa dagana sem flest ef ekki öll ýta undir þroska þeirra. Þar má t.d. nefna að krakkarnir eru allir farnir að ganga frá skál, skeið og glasi eftir morgunmatinn. Þau taka sitt og ganga frá því (sum með aðstoð, önnur alveg sjálf). Ganga svo frá í óhreint það sem á heima þar (smekkur og þvottapoki) og finnst þeim þetta geggjað. Okkur finnst þau svo dugleg og gaman að segja frá því að nokkur krakkana eru farin að klæða sig sjálf í útifatnaðinn sinn.. voru fljót að sjá það að það gengur hraðar fyrir sig að græja þetta sjálf heldur en að bíða eftir að fá aðstoð frá okkur (spenningurinn mikill að komast út að leika). Eins eru margir farnir að klæða sig úr sjálf þegar við erum á leiðinni inn. Endilega athugið hvernig ykkar barni gengur 😊 og aðstoðið okkur við að örva færni þeirra. 

Í samverustundum höfum við verið að syngja hin ýmsu lög (við erum samt ekkert að stressa okkur á því að hafa þessar stundir alltof langar, það er bara of gaman að leika sér og vera úti) við getum setið nóg og sungið í vetur þegar veðrið verður aftur leiðinlegt og dimmt úti. Sumarið er til að njóta 😊

Á mánudaginn … var enn einn afmælispartý-ið hjá okkur. Ein skvísan okkar varð 2 ára í síðustu viku og hélt hún upp á það á mánudaginn var. Hún valdi sér skikkju, disk og glas og bauð krökkunum upp á ávaxtasalat í tilefni dagsins. Elsku vinkona, innilega til hamingju með daginn :)

Eftir afmælispartýið þá fórum við út að leika okkur, enda lék veðrið við okkur og skemmtum við okkur rosalega vel. Eftir hvíld, leik og kaffitíma þá fórum við aftur út að leika okkur.

Á þriðjudaginn ...  fórum við út að leika okkur fyrir hádegið, alltaf jafn gaman úti í garðinum hjá okkur, það var verið að moka, hjóla, æfa jafnvægið, í ævintýraferðum í skóginum, keyra um á bílunum og svo má ekki gleyma sápukúlunum skemmtilegu. Eftir mat, hvíld, leikvang og kaffi þá fórum við út að leika okkur aftur. v

Á miðvikudaginn ... Drifum við okkur snemma af stað og fórum í vettvangsferð. Við löbbuðum af gömlum vana að Salaskóla þar sem við hittum helling af krökkum sem voru einu sinni í Fífusölum, það fannst kennurunum ansi skemmtilegt. Við hoppuðum líka þar á trampólíninu.. en þegar krakkarnir voru farnir að reyna að príla upp í kastalann, þá fengu kennararnir smá hland fyrir hjartað og við röltum til baka í leikskólann. Á leiðinni sáum við gröfu, strætó, fugla og hund og sungum hástöfum alla leiðina.  Eftir matartíma, leik og kaffitíma þá skiptum við okkur á svæði og enduðum að lokum öll saman í leikvanginum í rokna stuði og fjöri.

Á fimmtudaginn ... var uppstigningar dagur og leikskólinn lokaður.  

Í dag föstudag ... þá drifum við okkur út að leika okkur eftir ávaxtastundina. Við skemmtum okkur vel í hinum ýmsu ævintýrum í garðinum okkar. Ásamt því að það fóru allir í minni hópum á ærslabelginn „okkar“. Það er heldur betur á planinu að fara aftur út að leika okkur eftir kaffitímann.  

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 16 maí  - 20 maí

Á mánudaginn … var skipulagsdagur og var leikskólinn því lokaður 

Á þriðjudaginn ...  var afmælis partý fyrir hádegið hjá okkur. Ein skvísan okkar varð 2 ára og baið hún krökkunum upp á jarðarber og bláber í tilefni dagsins. Innilega til hamingju með daginn elsku vinkona.

Eftir afmælisfjörið þá smelltum við okkur út að leika okkur. Við nutum þess að leika okkur í garðinum okkar og skemmtum okkur vel. Eftir mat, hvíld og kaffi þá fórum við aftur út að leika okkur.

Á miðvikudaginn ... fengum við smá söngsýningu frá MaxaMús og Sigríði vinkonu hans. Þau spiluðu og sungu og hræddu Lautarkrúttin rosalega mikið. Við flúðum bara inn á deild og fórum að leika okkur þar. Við héldum okkur semsagt inni þennan morguninn og nutum þess að leika í rólegheitunum. En eftir mat, hvíld og kaffi þá fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn ... byrjuðum við daginn á því að bjóða foreldrum okkar í hafragraut og kaffi. Mikið rosalega var gaman að sjá ykkur öll og þökkum við ykkur kærlega fyrir komuna. Þau komu okkur heldur betur á óvart hvað varðar hvað þau voru dugleg að kveðja ykkur þegar þið fóruð. Þegar þið voruð farin þá lékum við í leiksalnum og skemmtum okkur vel. Eftir ávexti, þá fórum við út og nutum þess að vera ein að leika í litla garðinum okkar. Eftir mat og hvíld, þá var í boði að fara í leiksalinn og eftir kaffitíma, þá fórum við út að leika okkur.  

Í dag föstudag ... þá fórum við út að leika okkur. Börnin sem eru fædd í mai og fyrr fóru í vettvangsferð. Við löbbuðum að æfingatækjunum hjá kirkjunni og æfðum okkur helling þar. Þeir sem voru eftir léku sér í garðinum okkar.  Við sungum og dönsuðum við Blæ í samverustundinni. Eftir mat, hvíld og kaffitímann þá er á planinu að fara út að leika í garðinum okkar. 

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 9 maí - 13 maí 2022

Lubbi finnur málbein:  Málhljóð vikunnar er – Mjúka G- Hreyfingin við hljóðið er einfaldlega að hreyfa höndina fram og til baka eins og að saga með sög.. þetta fannst þeim einfalt og mjög skemmtilegt. Lagið er líka mjög grípandi og voru þau áhugasöm um það.

Þetta var síðasta málhljóðið á önninni. Nú er Lubbi kominn í langþrátt sumarfrí, hann er heldur betur búinn að kenna okkur mikið í vetur. Við munum samt sem áður hlusta á lubba lögin áfram og æfa okkur að klappa í atkvæði.

Mæli alveg með að leyfa þeim að hlusta á lögin heima við líka. Sendi ykkur linkinn í pósti :)

Samverustundir: Við höfum verið að syngja mikið. Lagið um froskinn, eðluna, apann, hundinn og fiskinn er alltaf jafn vinsælt. Svo er ótrúlegt hvað þetta blessaða lag um apana upp í trjánum er vinsælt. Það virðist bara ekki klikka 😊 Við höfum líka gert æfingar og sungið nafnalagið, þar höfum við verið að æfa okkur í því að segja nöfnin okkar og nöfn foreldra okkar. Eins er bókalesturinn að koma sterkur inn núna.

Á mánudaginn ... vorum við inni í hópastarfi fyrir hádegið.

Hópastarf... allir hópar byrja eins, fara yfir nöfnin okkar og klappa þau í atkvæði

Guli hópurinn .. var að pinna, meðan á því stóð var verið að fara yfir litina. Eins kom ósk um að klippa þannig við teiknuðum listaverk og klipptum það niður. Í lokin var verið að holukubba gera það sem fylgir þeim kubbum.

Rauði hópurinn .. var inni að para saman (setja gular myndir undir gult og svo framvegis) Síðan var verið að púsla saman og að lokum var leikið með eldhúsdótið okkar.

Blái hópurinn .. tók sér hljóðfæri í hönd og var spilað og sungið, hver með sýnu nefi auðvitað. Í lokin var leikið með plastkubbana okkar.

Við áttum líka afmælisskvísu þennan daginn. Hún var búin að mála kórónu og svo valdi hún sér disk, glas og allt sem því fylgir. Hún bauð krökkunum upp á ávexti í tilefni dagsins og naut þess í botn að eiga afmæli. Innilega til hamingju með daginn þinn elsku vinkona og fjölskylda.

Eftir hádegismat, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn ...  var aðeins öðruvísi skipulag hjá okkur. Fyrir hádegismatinn þá fóru nokkur börn (þau sem eru fædd í maí og fyrr) í vettvangsferð. Það var rölt í rólegheitunum að Stúpunni og þaðan að hreyfitækjunum. Þar fengu þau að hreyfa sig og skoða umhverfið. Þeir sem fóru ekki með núna nutu þess í botn að leika sér í garðinum okkar. Eftir mat, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn ... fórum við út að leika okkur fyrir hádegið og aftur eftir kaffitímann. Við vonum svo sannarlega að börnin séu ekki útkeyrð í lok dagsins 😊

Á fimmtudaginn ... vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Það var verið að gera margt, t.d. leika með kubbana, mála, teikna og spila með hljóðfærunum. Alltaf jafn mikið stuð hjá okkur. Eftir hádegismat, leik og kaffi þá fórum við auðvitað út að leika okkur.

Í dag föstudag ... vorum við inni fram yfir ávaxtastund og eftir hana þá smelltum við okkur út að leika okkur. Eftir hádegismat, leik og kaffitíma, þá er planið að fara út að leika okkur eins og flesta eftirmiðdaga :)

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 2 maí - 6 maí  2022

Lubbi finnur málbein:  Málhljóð vikunnar er -Au-.. orðin voru misspennandi sem voru lögð inn, t.d auli og aumingi 😊 en líka ausandi, ausa, auga og fleiri orð.

Vinátta, Blær bangsi: Í Blæ stundum í þessari viku vorum við að vinna með sömu örsögu og í síðustu viku. Um gleðina og hvernig okkur líður þegar við erum glöð og hvernig líkamstjáningin okkar er,  t.d. að brosið okkar sýni að við séum glöð og líði vel. Eins höfum við sungið lögin og dansað með böngsunum okkar.

Samverustundir: Við höfum haldið áfram að syngja ákveðin lög, erum að leggja inn tölustafi og liti í gegnum lögin. Það er svo gaman að heyra í þeim syngja smá 😊  

Á mánudaginn .. var ávaxta og grænmetisdagurinn okkar. Við gæddum okkur á gómsætu gúmmelaði áður en við fórum í hópastarfið okkar. Takk kærlega fyrir okkur.

Hópastarf vikunnar...

Guli og Rauði hópurinn sameinuðust að þessu sinni í vettvangsferð.  Við æfðum okkur í því að klæða okkur í útifötin okkar og skelltum okkur í heldur betur langt ferðalag. Löbbuðum að Salaskóla og þar hittum við gamla vini frá Fífusölum. Við hoppuðum á trampólíninu á skólalóðinni og tókum skólahreystibrautina í nefið 😊 síðan löbbuðum við til baka, hittum einn hund sem var sjúklega spennandi. Að lokum á prufuðum við hoppubelginn og skemmtum okkur vel. Þegar við komum til baka þá æfðum við okkur í því að klæða okkur úr útifötunum okkar.

Blái hópurinn var á leikskólanum í sínu hópastarfi. Þar var verið að klappa í atkvæði nöfnin okkar, púsla, lita og fara yfir litina. Að lokum var leikið í eldhúsdótinu okkar.

Eftir hádegismat, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn ... var leikvangur með henni Kollu okkar. Þar var farið í æfingar sem æfðu kraft og þor sem og voru mjög skemmtilegar. Eins og þið sjáið á myndunum þá er alltaf jafn gaman þar inni. Inni á deild var verið að leika í stóra lego-inu og svo var hópur í holukubbunum líka. Eftir hádegismat, leik og kaffitíma þá fórum við út í rigninguna.

Við áttum líka afmælisprins þennan dagi. Hann var búinn að mála kórónu og valdi sér borðbúnað til að nota i hádeginu. Hann bauð vinum sínum upp á ávaxtahlaðborð í tilefni dagsins. Innilega til hamingju með daginn þinn elsku vinur og fjölskylda.

Á miðvikudaginn ...  fórum við út að leika okkur fyrir hádegismatinn, þar blésum við sápukúlur eins og flesta daga núna. Alltaf svo gaman að elta þær. Við vorum líka að moka og renna og í ævintýraferðum í trjánum útí garði. Eftir hádegismat, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn ... var leikvangur með Nönnu okkar og að þessu sinni var verið að sulla í sullukerinu okkar. Það var aðeins út fyrir boxið hjá sumum að sulla meðan aðrir komu inn með blautt hár af æsingi. Við fengum líka nokkra krakka úr tónlistarskólanum í heimsókn til okkar að spila á nokkur vel valin hljóðfæri. Inni á deild var verið að kubba úr hinum ýmsu kubbum og gera nokkrar æfingar. Eftir kaffitímann þá fórum við í leikvanginn að hreyfa okkur.

Í dag föstudag ... fórum við snemma út að leika okkur. Við héldum heilsuvikuna hátíðlega og héldum upp á heilsudaginn í dag. Við tókum út mörk, bolta, fallhlífina, húllahringina, keilur og mjúka púða til að setja á höfuðið og æfa sig að halda jafnvæginu með það á höfðinu. Eftir mat og kaffi þá verður örugglega kíkt í garðinn að leika sér.

Í tilefni af heilsuvikunni sem var í vikunni vorum við extra dugleg að hreyfa okkur, við tókum t.d. „upp, niður, spark“ eins og herforingjar og æfðum okkur í bjarnagöngu og plönkum. 

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl Kæru foreldrar

Vikan 25 apríl  – 29. apríl 2022

Lubbi finnur málbein:  Málhljóð vikunnar var -Óó-. Sagan fjallaði um hann Ómar sem var hjá ódáðahrauni og þar var óðinshani og kom þar fram að hann væri óhræddur við óvættir og ófreskjur. Hann gólaði mikið Ó Ó Ó 😊

Vinátta, Blær bangsi: Í Blæ stundum í þessari viku var verið að leggja inn nýja örsögu. Hún fjallar um Albert sem er glaður yfir að vera í leikskólanum. Við æfðum okkur í því að brosa og sýna Gleði og hvað gleðin er góð fyrir okkur. Eins höfum við rætt svipbrigði sem tengjast gleðinni. Við höfum líka verið að nudda blæ og syngja lögin sem tengjast verkefninu. Gaman að segja frá því að okkur finnst verkefnið vera að virka vel hjá okkur. Ein örstutt saga.. í vikunni þá var eitt barnið okkar að gráta (eins og gerist af og til). Annað barn, rauk til og fór í Blæ körfuna okkar, þar sem allir bangsarnir eru í einni hrúgu. Leitaði að bangsa barnsins sem var að gráta og færði því það. Já við bráðnuðum allar 😊

Samverustundir: Við höldum áfram að syngja öll lögin okkar og erum aðeins farin að hlusta á sögur líka, þau eru mismóttækileg fyrir lengri sögum þannig við tökum þær í sundur en um að gera að prófa sig áfram. Þau eru alltaf jafn áhugasöm um lögin og taka undir hver með sýnu nefi.

Á mánudaginn .. var mánudagur í liðinu og fórum við bara út að leika okkur í staðinn fyrir að fara í hópastarf. Við lékum ansi vel og lengi útí garðinum okkar. Eftir hádegismat, leik og hvíld þá fórum við aftur út að leika okkur.

Á þriðjudaginn ...  var leikvangur með henni Kollu okkar. Þar var farið í æfingar sem æfðu kraft og þor sem og voru mjög skemmtilegar. Eins og alltaf þarna inni. Þau eru alltaf svo glöð að fara með henni í leikvanginn og við sjáum svo miklar framfarir á krúttunum síðan í haust. Inni á deild var verið að púsla, lita og kubba. Eftir mat, hvíld, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn ...  fórum við út að leika okkur fyrir hádegismatinn, þar blésum við sápukúlur eins og við fengum borgað fyrir það og nutum þess að kríta og leika okkur ein í garðinum okkar. Eftir mat, hvíld, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika eins og aðra seinni parta.

Á fimmtudaginn ... var leikvangur með Nönnu okkar og þar var verið vatnslita við trönurnar okkar. Þeim fannst mjög spennandi að mála þar og nutu sín í botn. Eftir ávextina var í boði að fara út að leika og voru nokkrir til í það. Þeir sem vildu vera inni voru að púsla og leika i holukubbunum. Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma þá smelltum við okkur í pollagallann og fórum út að leika okkur.

Í dag föstudag ... vorum við inni að leika okkur í smá stund en eftir ávaxtastundina þá komu nokkur krútt og sögðu „út að leika“ áhuginn var mikill þannig við smelltum okkur út að leika saman. Við blésum sápukúlur og nutum þess að leika okkur úti og voru heldur betur misáhugasöm um það að koma inn aftur en létu sig nú samt hafa það. Skipulagið verður hefðbundið á eftir, hvíld, leikur á ganginum, kaffitími og útivera.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 4 apríl  – 8. apríl 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Ei/Ey-.. það er svo dásamlegt hvað þau eru móttækileg fyrir þessu verkefni og eru þau alveg með það á hreinu hvernig á að gera hreyfinguna, rétta upp hendur og segja „Ei“. 

Vinátta, Blær bangsi: Í Blæstundunum í vikunni vorum við að syngja lögin okkar eins og við gerum að vísu oft á dag því þeim finnst svo skemmtilegt að dansa með bangsann sinn. Eins vorum við að nudda hann og knúsa hann í klessu. Við sjáum svo sannarlega að verkefnið er að gefa þeim eitthvað því þau eru mjög upptekin af því að færa vinum sínum bangsann sinn, sérstaklega þegar honum líður illa. Ef einhver grætur, þá er bangsinn fljótur í fangið þeirra. Eins eru þau sjálf ekkert að spara knús og umhyggju gangvart vinum sínum.

Við fengum líka nýja örsögu í vikunni, hún heitir „Æ, ég datt“. En hún fjallar um það að þegar einhver dettur þá er gott að einhver komi með blæ bangsa að hugga viðkomandi. Og við erum heldur betur að sjá það 😊

Samverustundir: Við höfum verið að syngja mikið og lesa stuttar bækur.

Á mánudaginn .. var hópastarf fyrir hádegið, allir hópar byrja eins, á því að fara yfir nöfnin okkar, klappa þau í atkvæði og fara yfir hvað á að gera í tímanum.

  • Guli hópurinn var að para saman form og liti og fara yfir hvaða form heitir hvað. Eins var verið að ræða um foreldra og systkini og þeir voru að segja hvað nánasta fjölskylda heitir. Í lok tímans þá var leikið í holukubbunum og aðeins skotist inn í leikvang að losa alla orkuna.
  • Rauði hópurinn var að þræða og perla. Í lok tímans var verið að leika með smellukubbana okkar.
  • Blái hópurinn var að skoða bækur, í bókunum var verið að fara yfir ákveðin orð og liti. Þau áttu að endurtaka það sem var bent á hverju sinni. Í lok tímans var verið að leika með ficer price dótið okkar.

Eftir mat, hvíld og kaffi þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn ...  var leikvangur með henni Kollu fyrir hádegið. Þar var verið að æfa sig í að hoppa, klifra og æfa jafnvægið. Og eins og áður hefur komið fram að fara eftir fyrirmælum og bíða (það getur reynst sumum erfitt 😊). Síðan lékum við okkur á svæðum en eftir mat, hvíld og leik á ganginum, þá fórum við út að leika okkur.

Við áttum líka afmælisgaur í dag og að sjálfsögðu bauð hann í afmælispartýi. Enn einn gaurinn okkar fagnaði 2 ára afmæli og bauð vinum sínum uppá ávexti í tilefni dagsins. Hann valdi sér disk, glas og diskamottu og naut þess að vera stjarnan þann daginn. Til hamingju með daginn þinn elsku vinur og fjölskylda.

Á miðvikudaginn ...  Fórum við út að leika okkur fyrir hádegið. Það var mjög kósý að komast út að leika í morgunsárið og nutu þess allir í botn að leika úti. Eftir mat, hvíld, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við aftur út að leika okkur.

Á fimmtudaginn ... var smiðja með henni Nönnu, þar var verið að töfra fram páskaverkefni og skemmtu sér allir vel. Við skiptum okkur svo í 2 hópa, einn var frammi meðan hinn var inni á deild. Inni á deild var verið að púsla og leika með bílana meðan þau sem voru frammi voru í segulkubbum og holukubbum. Eftir mat, hvíld og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag ... vorum við að leika okkur inni fyrir hádegið, við vorum að leika með eldhúsdótið, í holukubbunum, pleymóinu og með lego kubbana okkar. Svo var gaman saman fyrir hádegið með vinum okkar á Lind og Læk en þar voru sungin nokkur vel valin lög og núna var dýraþema í lagavali og því tengdust öll lögin dýrum að einhverju leyti. Eftir hádegismat, hvíld, leik og kaffitíma þá ætlum við heldur betur að fara út að leika okkur í góða vorveðrinu sem er að heiðra okkur núna 😊

Eins var afmæli í dag, ein skvísan okkar verður 2 ára um helgina og í tilefni dagsins bauð hún vinum sínum upp á í tilefni dagsins. Hún valdi sér að sjálfsögðu, disk, glas og mottu í tilefni dagsins.  Til hamingju með daginn elsku vinkona og fjölskylda.

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 28. mars 2022 – 1. apríl 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Ææ-  Þau eru alltaf jafn upptekin af honum Lubba okkar. Ekkert eins gott og að knúsa hann eftir lubba stundirnir. Þau voru fljót að ná hreyfingunni og auðvitað kunna allir að segja „æ“.. það er liggur við sagt oft á dag hérna hjá okkur 😊

Vinátta - Blær bangsi: Við héldum áfram með örsöguna síðan í síðustu viku. Hún  fjallar um krakka sem eru að leika saman með dótið 😊 þau eru ótrúlega áhugasöm um spjöldin og skoða þau það oft á dag. Það er svo gaman að fylgjast með þeim leika með dótið og svo heyrist „XXX eigum við að skiptast á núna?“ Já það kemur smá ryk í augun og við fyllumst af stolti yfir þessum krúttum okkar 😊 Svo má nú ekki gleyma bangsanum þeirra sem þau dansa með reglulega, gefa knús og eru mikið fyrir að nudda.. við sjáum að minnsta kosti að verkefnið er að kenna þeim heilan helling.

Samverustundir: Við erum mikið búin að vera að tala um fjölskylduna okkar, fara yfir hvað mömmur og pabbar heita sem og systkini krakkana. Þeim finnst þetta mjög spennandi og iða í sætinu sínu þangað til kemur að þeim. Auðvitað eru svörin misnákvæm en þau ná þessu öll að lokum 😊 Eins höfum við verið að syngja mikið, klappa í atkvæði og svo erum við líka farnar að lesa fyrir þau. 

Á mánudaginn .. slepptum við hópastarfinu fyrir hádegið og fórum öll saman í vettvangsferð. Við löbbuðum að Salaskóla, kíktum á stóru krakkana þar og ákváðum svo að snúa við og fara til baka svo við hefðum orkuna í röltið. Við fórum svo á hlaupabrautina og hlupum þar fram og til baka og reyndum að hoppa á hoppubelgnum.. hann var ekki blásinn upp þannig við bröltum bara á honum í staðinn. Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur

Á þriðjudaginn ... var leikvangur með henni Kollu okkar, alltaf sama fjörið þar inni. Þar voru æfingar sem reyndu á þol, kraft og þor sem og jafnvægið þeirra. Við reynum líka að halda í gleðina þar inni eins og þið sjáið á myndunum. Eins erum við alltaf að æfa okkur í því að fara eftir fyrirmælum frá Kollu og auðvitað gengur það misvel eftir hópum og dögum. Inni á deild var verið að lita, púsla, leika með kubba og dansa með Blæ bangsa. Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma þá drifum við okkur út að leika okkur.

Á miðvikudaginn ...  þá var helst til fámennt hjá okkur og ákváðum við að fara út að leika okkur fyrir hádegið. Þegar út var komið, þá langaði okkur rosa út af lóðinni og löbbuðum við á Hvammsvöll með viðkomu á hólunum hjá Ársölunum og fórum þar upp og niður (mjög góð æfing fyrir þau). Við lékum svo helling á Hvammsvelli og vorum ansi hæg á leiðinni til baka, greinilega þreyttir fætur 😊 Þau voru ekki til í að fara inn, þannig við fórum aðeins í „stóra garðinn“ að leika okkur með stóru krökkunum. Eftir mat, leik og kaffitíma, þá dönsuðum við saman í smá stund og fórum svo út að leika okkur.

Á fimmtudaginn ... fórum við í smiðjuna að mála á páskaegg.. við tókum brúna málningu og blönduðum saman við bökunarkakó og þá kom smá súkkulaðilykt hjá okkur :) Við máluðum og máluðum saman og sumir smökkuðu líka smá málningu. Eftir allt málið fórum við út að leika okkur, þegar við vorum á leiðinni inn, þá fengu krakkarnir að brasa við það sjálfir að klæða sig úr gallanum sínum. Það gekk hreint ótrúlega vel og gátu sumir alveg klætt sig úr sjálf meðan aðrir þurftu smá aðstoð. Nú er bara um að gera að æfa sig vel næstu dagana. Eftir hádegismat, leik þá skreyttum við páskaeggin sem við máluðum í morgun og fannst þeim það frekar áhugavert, þar sem allt var að festast við puttana þeirra 😊 en eftir kaffitíma þá fórum við út að leika okkur í garðinum okkar.

Í dag föstudag ... fórum við út að leika okkur með vinum okkar á Lindinni, við vorum á fullu í garðinum okkar að moka (loksins er það orðið hægt aftur), hoppa, renna og bruna áfram á bílunum. Við vorum ansi lengi úti, örugglega næstum því 90 mín.. það voru því allir orðnir pínu þreyttir í matnum. Fyrir hádegismatinn var gaman saman með Lind og Læk, þar voru sungin nokkur lög saman. Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma þá ætlum við út að leika okkur aftur.

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 21. mars 22022 – 25. mars 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Ðð-  ... Saga vikunnar um hann Daða sem á að borða lúðuna en hann vildi fá snúð. Lagið var frekar rólegt og áttu þau erfitt með að ná því. Hreyfingin var samt sem áður mjög einföld og og áttu þau auðvelt með að ná henni.

Vinátta, Blær bangsi: Við fengum nýja örsögu í þessari viku. Hún fjallar um krakkana sem eru að leika saman og deila dótinu. Við höfum verið að tala svolítið um það í þessari viku. Að leika saman og skiptast á með dótið.  Eins höfum við dansað mikið með bangsana okkar og hlustað mikið á vináttu lögin á spotify 😊 Bangsarnir þeirra eru merktir þeim með mynd af þeim og þau eru farin að leita að sínum bangsa og knúsa hann. Þau biðja oft um bangsann sinn og njóta þess að knúsa hann í klessu og sum barnanna eru farin að koma til okkar kennaranna og biðja um nudd á axlir eða tær 😊

Á mánudaginn .. Vorum við inni í hópastarfi fyrir hádegið. Þar byrja allir hópar eins.. að fara yfir hver heitir hvað og klappa nöfnin okkar í atkvæði

  • Guli hópurinn ... var að skoða ljósaborðið, fara yfir bókstafina sem eru með því. Eins var verið að fara yfir formin og æfa sig í því að teikna þau. Eins lituðu þau listaverk og klipptu það svo niður.
  • Rauði hópurinn ... var að þræða, púsla og skoða bækur.
  • Blái hópurinn ... var að syngja nafnalagið, fara yfir nöfnin okkar og enduðu á að leika með kubbana okkar.

Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur

Á þriðjudaginn ... var leikvangur með henni Kollu okkar, alltaf sama fjörið þar inni. Þar voru æfingar sem reyndu á þol, kraft og þor sem og jafnvægið þeirra. Inni á deild var verið að púsla og kubba. Við drógum fram „venjuleg“ púsl og kom okkur á óvart hvað sum krakkana áttu auðvelt með að brasa við púsl án pinna. Alltaf jafn dugleg og flott þessi krútt. Eftir mat, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn ... fórum við út að leika okkur fyrir hádegið. Það var svo gott að komast út í góða veðrið og nutu þau þess að vera ein í garðinum okkar að leika. Það var verið að renna, róla, rugga og brasa við að komast frá A-B í snjónum úti. Heldur betur æfing fyrir grófhreyfingarnar þeirra. Svo þegar við ætluðum inn, þá voru margir ekki til í það og ætluðu bara heim (vön því að vera úti eftir kaffi og fara beint heim eftir útiveruna). En þau létu sig hafa það að lokum að koma inn. Eftir hádegismat, fjör í leikvangi og kaffitíma þá fórum við aftur út að leika okkur.

Á fimmtudaginn ... var smiðja fyrir hádegið, þar voru krakkarnir að mála með gulri málningu á blað og síðan fengu þau að líma fjaðrir og augu á blaðið, úr því urðu hrikalega sætir páskaungar 😊 inni á deild var verið að leika með eldhúsdótið og púsla. Eftir ávextina, þá skiptum við okkur á 2 svæði. Annar hópurinn var frammi að þræða og holukubbast meðan hinn hópurinn var að leika með bangsa og svo bílana. Eftir hádegismat, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag ... vorum við að leika okkur í ýmsum verkefnum fyrir hádegið, t.d. að spila, púsla, leika með kubbana, hamast í leiksalnum og með bílana inni á deild. Það var svo gaman saman fyrir hádegismatinn þar sem var sungið og dansað með vinum okkar á ganginum. Það má svo reikna með því að það verði innivera eftir kaffitímann, því veðurspáin er ekki upp á sitt besta. Annars er aldrei að vita hvað okkur dettur í hug að taka til bragðs :)

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 14. mars 2022 – 17. mars 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Rr- og er hreyfingin eins og að renna sér niður rennibrautina. Þau voru fljót að ná því og gaman að heyra líka hvað þau voru mörg að æfa sig í R-inu í framburði sínum.

Vinátta, Blær bangsi: Við héldum áfram að leggja inn örsöguna um það að rífa dót af vinum sínum. Okkur var ráðlagt að hafa hverja sögu í 2 vikur, þar sem þau þurfa að ná að skilja inntakið meðan við erum að ræða það. Þau eru alltaf jafn upptekin af spjaldinu og ef einhver rífur af einhverjum, þá er stundum labbað að spjaldinu eða bent á spjaldið. Þetta kemur allt saman hægt og rólega hjá okkur. Við erum búin að merkja bangsana þeirra með mynd af þeim og þau mega ná í hann hvenær sem er yfir daginn og fá sér eitt knús. Þau sækjast mikið í bangsann og finnst hann mjög spennandi.

Á mánudaginn .. Vorum við inni í hópastarfi fyrir hádegið. Þar byrja allir hópar eins.. að fara yfir hver heitir hvað og klappa nöfnin okkar í atkvæði

  • Guli hópurinn byrjaði á því að fara yfir nöfnin okkar og nöfn foreldra sinna. Síðan fórum við að lita og í kjölfarið á því að klippa blaðið (þetta verkefni var ósk frá strákunum). Þegar þeir voru búnir að klippa og klippa þá vatnslituðum við eitt skykki listaverk. Á þessum tímapunkti var orðið erfitt að sitja kyrr og náðum við í mjúka dýnu úr leiksalnum og æfðum okkur í kollhnísunum, hoppa og labba á ójöfnu undirlagi.
  • Rauði hópurinn var að  brasa við numicon stærðfræðikubbana sem eru alltaf jafn skemmtilegir. Næsta verkefni var að þræða perlur og að lokum var leikið með eldhúsdótið.
  • Blái hópurinn var að klappa í atkvæði, skoða bækur og fara yfir alla litina í bókunum sem þau voru að skoða. Eins sungu þau nafnalögin okkar og að lokum þá var leikið með trékubba og dýrin okkar.

Eftir hádegismatinn, leik á ganginum og kaffitíma þá skiptum við okkur í 2 hópa, annar var frammi í holukubbunum og hinn var inni á deild. 

Á þriðjudaginn ... var leikvangur með henni Kollu. Þau hreinlega ELSKA þessa tíma hjá henni og þegar þau eru ekki í fyrsta hóp inn til hennar þá er alveg stundum grátið af ósanngirni! En það fá allir að fara og þau læra það hægt og rólega að það þarf stundum að bíða. Inni á deild var verið að leika með pleymó, segulkubbana og pússla saman. Eftir mat, hvíld og kaffi þá lékum við okkur öll saman í rólegum leik á deildinni okkar. 

Á miðvikudaginn ... var skipulagsdagur og leikskólinn lokaður

Á fimmtudaginn ... var leikið inni fyrir hádegið, við skiptum okkur á svæði og var í boði að leika í holukubbunum, inn í herbergi með segulkubba og svo slæðurnar og á deildinni okkar en þar var verið að púsla, pleymóa, leika með bílana og skoða bækur. Eftir mat, leik og kaffitíma þá skiptum við okkur á svæði og vorum að dansa með Blæ bangsana okkar. Leika með kubbana og svo voru allir æstir í að fá teygjur í hárið.

Í dag föstudag ... vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Það voru svæði í boði, á einu svæðinu var verið að kubba með lego-kubbana okkar, á því næsta voru holukubbarnir í boði ásamt því að púsla smá. Á því þriðja var verið að leika með eldhúsdótið og bílana. Við slógum svo upp danspartý og losuðum okkur við auka orkuna okkar. Það var ansi gott að gera það, því næst var gaman saman með vinum okkar á Lind og Læk. Þar var sungið og trallað saman í smá stund. Eftir hádegismat, leik á ganginum og kaffitíma þá erum við í hreinskilni ekki búnar að ákveða hvort við förum út eða ekki. Okkur dauðlangar að kíkja aðeins út en það verður ákveðið síðar í dag.

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 7. mars 2022 – 11. mars 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Þþ- Hreyfingin er eins og „spiderman“ merkið og könnuðust margir við það. Í sögunni voru ansi mörg Þ... t.d. þyrla, þota, Þorlákshöfn, þríburar og margt fleira.

Vinátta - Blær bangsi: Við lögðum inn fyrsta spjaldið okkar í þessari viku. Það var spjaldið um hana Öldu  sem tók krókódílinn af vini sínum, honum Friðrik. Við lásum klípusöguna og ræddum um hvernig þeim leið og afhverju hún væri að gráta. Við hengdum svo myndina/spjaldið upp inni á deild og var ansi áhugavert að sjá hvað þau voru mikið að skoða þetta og virtust velta fyrir sér af hverju hann Friðrik væri að gráta. Eins hlustuðum við oft og mikið á Vináttu lögin (sem eru á spotify) og þau fengu að knúsa bangsana sína eins og þau vildu. Í Blæ stundunum var líka verið að nudda bangsann og knúsa hann en eins og alltaf, þá þarf að spyrja „má ég nudda þig Blær bangsi? Eða má ég knúsa þig blær bangsi?“

Á mánudaginn .. var hópastarf hjá okkur á Lautinni. Að þessu sinni náðum við að vera í 3 hópum, sem er aldeilis frábært. Eins og alltaf, þá byrja allir hópar eins.. á því að setjast niður, segja „velkomin í Hópastarf“ ... fara yfir hver heitir hvað og klappa nöfnin okkar í atkvæði.

  • Guli hópurinn var að fara saman form og liti, fórum yfir hvaða form er hvaða litur er hvað. Eins vorum við að klippa svolítið. Það gekk auðvitað misvel enda lítið búin að klippa í vetur. Að lokum þá fórum við í holukubbana og fengum útrás fyrir hreyfiþörfina.
  • Rauði hópurinn var að skoða bækur og fara yfir litina í þeim, eins var leirað saman og að lokum var farið í eldhúsdótið okkar.
  • Blái hópurinn var að syngja nafnalögin okkar og fara yfir hver heitir hvað. Það var líka verið að skoða dýrin og hvað dýr segir hvað. Að lokum var farið í plastkubbana okkar.

Eftir mat, leik og kaffitíma þá lékum við okkur inni á deildinni okkar, t.d. með legokubbana og bílana

Á þriðjudaginn ... var frjáls leikur inni á deild, við náðum í Ljósaborðið inn til okkar og var rosa sport að skoða dótið sem því fylgir inni hjá okkur. Eins vorum við að skoða bækur og bílana. Við fórum líka í leikvanginn að hreyfa okkur aðeins. Við fórum í 2 hópum þangað inn og nutum þess að vera þar í frjálsum leik, t.d. leika með boltana, hoppa á trampólíninu, príla í rimlunum og hoppa á hestunum sívinsælu. Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við út í snjóinn.

Á miðvikudaginn ... vorum við að lita, púsla og leika fram yfir ávexti. Eftir ávaxtastundina þá fórum við í 2 hópum í leikvanginn, það er svo gott að komast þangað inn og fá útrás fyrir hreyfiþörfina okkar, sem er ansi mikil suma daga 😊 Þau verða líka sífellt frakkari þarna inni, farin að príla ansi hátt upp rimlana okkar, hoppa full ákveðið á trampólíninu okkar. Eftir matartíma, leik á gangi og kaffitíma þá dúlluðum við okkur inn á deild að dansa, knúsa Blæ bangsana okkar, skoða bækur, leika með bílana og púsla saman.

Á fimmtudaginn ... var lokað á Lautinni vegna veikinda kennara

Í dag föstudag ... vorum við inni að leika okkur fyrir hádegismatinn, við skiptum okkur í 2 hópa og vorum að hafa gaman. Báðir hóparnir voru að leika með dótið að heiman, æfa sig í því að skiptast á og leyfa öðrum að prófa sitt dót. Annar hópurinn var frammi á gangi og hinn inni á deildinni okkar. Það var svo gaman saman á ganginum fyrir matinn. Eftir hádegismatinn, leik á ganginum og kaffitíma þá verður skoðað hvort það verður útivera eða ekki 😊

Það var líka afmælisveisla hjá okkur á Laut. Einn snillingurinn okkar verður 2 ára um helgina og fagnaði hann því í dag með vinum sínum. Hann gerði sér kórónu, valdi sér borðbúnað og bauð vinum sínum upp á jarðarber, appelsínur og melónur í afmælisveislunni sinni. Innilega til hamingju með daginn elsku vinur og takk fyrir okkur :)

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 28. febrúar 2022 – 4. mars 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Áá-

Á mánudaginn .. var hópastarf hjá okkur á Lautinni. Guli hópurinn fór saman í hópastarf en rauði og blái sameinaðist aftur vegna forfalla í báðum hópum.

  • Guli hópurinn var að æfa sig með Numicon stærðfræðikubbana og höfðu strákarnir engu gleymt síðan síðast. Þegar áhuginn fór minnkandi, þá náðum við í dýnu úr leiksalnum, skelltum henni á gólfið og æfðum okkur í hinum og þessum æfingunum..
  • Rauði og Blái voru að þræða, púsla og leika með eldhúsdótið. Gaman að sjá framfarir hjá þeim með perlurnar og að deila dótinu.

Eftir hádegismat og gómsætar bollur í kaffinu þá fórum við í leikvanginn að hreyfa okkur.

Á þriðjudaginn ... var leikvangur með henni Kollu.. þar var verið að príla upp og niður rimlana, hoppa á trampólíninu, fara yfir mjúka púða og margt fleira. Alltaf jafn gaman þar inni eins og þið sjáið á öllum myndunum sem hún tekur þar af krúttunum okkar. Inni á deild var verið að leika með kubba, púsl og margt fleira. Eftir hádegismat, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við aðeins út í góða veðrið úti. Klæddum okkur líklega helst til mikið því það voru margir orðnir vel sveittir, enda erfitt að brölta um í öllum þessum snjó 😊

Á miðvikudaginn ... var einn skemmtilegasti dagur ársins! Hingað mættu alls konar furðuverur, þar má nefna Mínu Mús, Emil í kattholti, Ljónið ógurlega, lítið Apaskott, Fílinn duglega, Bósa ljósár í tvöföldu magni, Flugfreyju og margt margt fleira. Við slógum upp öskudagsballi saman á yngri gangi og kíktum svo á einn stuttan Hvolpasveitarþátt í bíó-inu okkar. Þolinmæðin fyrir að horfa var mis mikil hjá krúttunum og fengu þau sem vildu ekki horfa að kíkja inn á Lind að leika þar.

Eftir PizzaVeislu og hvíld þá lékum við á ganginum. Við fengum svo góða gjöf óvænt til okkar eftir hádegið. Allt í einu var kominn poki fyrir utan gluggann okkar og í honum var kassi! Við auðvitað kíktum í hann og þar var heldur betur góð gjöf.. Blær bangsi mættur á svæðið og 13 stk af litlum vinum.. Einn á mann handa krökkunum á deildinni. Þessir bangsar verða svo hérna hjá okkur og þau fá að grípa í þegar þau vilja og núna loksins geta skipulagðar Blæ stundir byrjað hjá okkur. Við lásum auðvitað bréfið saman og þau fengu bangsana í fangið og knúsuðu þá í bak og fyrir. Síðan settum við þá í körfuna sem þeir ætla að kúra í þangað til við búum til heimili handa þeim. Eftir kaffitímann þá skiptum við okkur á tvö svæði og lékum okkur saman.

Á fimmtudaginn ... var hefðbundinn hvað varðar smiðjuna. En hjá Nönnu voru krúttin að mála listaverk og skemmtu allir sér mjög vel. Inni á deild vorum við með bílana, kubbana, peymó-ið, holukubbana á ganginum og að syngja rosa mikið. Eftir hádegismatinn, leik á gangi og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur, byrjuðum í Austur garðinum okkar en enduðu í stóra garðinum.

Eins héldum við upp á afmælið hjá einum gaurnum okkar sem varð 2 ára! Hann bjó til kórónu og valdi sér borðbúnað til að borða af, hann bauð krökkunum upp á vínber, jarðarber, melónu og banana. Þvílík gleði í dag og fyrsta afmælið okkar liðið. Innilega til hamingju með daginn þinn elsku vinur og fjölskylda.

Í dag föstudag ... vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, við vorum að leika í einingakubbunum og bílunum saman að gera bílabrautir og bílahús. Eins vorum við með segulkubbana og pleymó-ið að leika okkur. Við skoðuðum líka bækur og spiluðum á hljóðfærin saman.

Það var svo gaman saman á ganginum með vinum okkar á Lind og Læk. Við sungum og trölluðum saman nokkur lög og enduðum á matarlaginu sívinsæla. Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma þá er planið að fara út að leika okkur.

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 28. febrúar 2022 – 4. mars 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Áá-

Á mánudaginn .. var hópastarf hjá okkur á Lautinni. Guli hópurinn fór saman í hópastarf en rauði og blái sameinaðist aftur vegna forfalla í báðum hópum.

  • Guli hópurinn var að æfa sig með Numicon stærðfræðikubbana og höfðu strákarnir engu gleymt síðan síðast. Þegar áhuginn fór minnkandi, þá náðum við í dýnu úr leiksalnum, skelltum henni á gólfið og æfðum okkur í hinum og þessum æfingunum..
  • Rauði og Blái voru að þræða, púsla og leika með eldhúsdótið. Gaman að sjá framfarir hjá þeim með perlurnar og að deila dótinu.

Eftir hádegismat og gómsætar bollur í kaffinu þá fórum við í leikvanginn að hreyfa okkur.

Á þriðjudaginn ... var leikvangur með henni Kollu.. þar var verið að príla upp og niður rimlana, hoppa á trampólíninu, fara yfir mjúka púða og margt fleira. Alltaf jafn gaman þar inni eins og þið sjáið á öllum myndunum sem hún tekur þar af krúttunum okkar. Inni á deild var verið að leika með kubba, púsl og margt fleira. Eftir hádegismat, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við aðeins út í góða veðrið úti. Klæddum okkur líklega helst til mikið því það voru margir orðnir vel sveittir, enda erfitt að brölta um í öllum þessum snjó 😊

Á miðvikudaginn ... var einn skemmtilegasti dagur ársins! Hingað mættu alls konar furðuverur, þar má nefna Mínu Mús, Emil í kattholti, Ljónið ógurlega, lítið Apaskott, Fílinn duglega, Bósa ljósár í tvöföldu magni, Flugfreyju og margt margt fleira. Við slógum upp öskudagsballi saman á yngri gangi og kíktum svo á einn stuttan Hvolpasveitarþátt í bíó-inu okkar. Þolinmæðin fyrir að horfa var mis mikil hjá krúttunum og fengu þau sem vildu ekki horfa að kíkja inn á Lind að leika þar.

Eftir PizzaVeislu og hvíld þá lékum við á ganginum. Við fengum svo góða gjöf óvænt til okkar eftir hádegið. Allt í einu var kominn poki fyrir utan gluggann okkar og í honum var kassi! Við auðvitað kíktum í hann og þar var heldur betur góð gjöf.. Blær bangsi mættur á svæðið og 13 stk af litlum vinum.. Einn á mann handa krökkunum á deildinni. Þessir bangsar verða svo hérna hjá okkur og þau fá að grípa í þegar þau vilja og núna loksins geta skipulagðar Blæ stundir byrjað hjá okkur. Við lásum auðvitað bréfið saman og þau fengu bangsana í fangið og knúsuðu þá í bak og fyrir. Síðan settum við þá í körfuna sem þeir ætla að kúra í þangað til við búum til heimili handa þeim. Eftir kaffitímann þá skiptum við okkur á tvö svæði og lékum okkur saman.

Á fimmtudaginn ... var hefðbundinn hvað varðar smiðjuna. En hjá Nönnu voru krúttin að mála listaverk og skemmtu allir sér mjög vel. Inni á deild vorum við með bílana, kubbana, peymó-ið, holukubbana á ganginum og að syngja rosa mikið. Eftir hádegismatinn, leik á gangi og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur, byrjuðum í Austur garðinum okkar en enduðu í stóra garðinum.

Eins héldum við upp á afmælið hjá einum gaurnum okkar sem varð 2 ára! Hann bjó til kórónu og valdi sér borðbúnað til að borða af, hann bauð krökkunum upp á vínber, jarðarber, melónu og banana. Þvílík gleði í dag og fyrsta afmælið okkar liðið. Innilega til hamingju með daginn þinn elsku vinur og fjölskylda.

Í dag föstudag ... vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, við vorum að leika í einingakubbunum og bílunum saman að gera bílabrautir og bílahús. Eins vorum við með segulkubbana og pleymó-ið að leika okkur. Við skoðuðum líka bækur og spiluðum á hljóðfærin saman.

Það var svo gaman saman á ganginum með vinum okkar á Lind og Læk. Við sungum og trölluðum saman nokkur lög og enduðum á matarlaginu sívinsæla. Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma þá er planið að fara út að leika okkur.

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 21. febrúar 2022 – 25. febrúar 2022

LITAVIKAN var alls ráðandi hjá okkur í þessari viku. Gaman að sjá hvað krakkarnir voru dugleg að mæta í lit dagsins 😊 Orð vikunnar voru að sjálfsögðu allir litirnir, við höfum heldur betur gert okkar allra besta að læra litina í þessari viku. Við unnum líka litaverkefni í tengslum við litavikuna. Það var þannig að þau máttu stimpla á blað „lit dagsins“. Þannig úr varð ansi litríkt og flott listaverk.

Á gula deginum stimpluðu þau gult og voru svo sannarlega öll spennt fyrir þessu, á rauða deginum var eftirvæntingin mikil þegar það var sagt að það ætti að fara að mála með rauða litnum. Sumir voru uppteknir af gatinu á stimplinum meðan aðrir reyndu að smakka litinn. Á græna deginum var varla búið að borða morgunmat þegar þau óskuðu eftir því að fá að mála. Þá stimpluðu þau með græna stimplinum á blaðið sitt. Blái dagurinn rann upp og þau vissu alveg hvað átti að gera, stimpla með bláa stimplinum á blaðið sitt og voru heldur betur ánægð með verkið sitt. 

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Öö-. Hreyfingin var auðlærð og voru allir fljótir að ná henni. Við sungum lögin og lásum söguna og átti ein skvísan okkar ö-ið sem seinna nafn 😊

Á mánudaginn .. Vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Við slepptum hópastarfi í dag vegna veikinda hjá kennurunum en skiptum okkur á svæði þar sem annar hópurinn var í holukubbunum og fjöri frammi meðan hinn hópurinn var inni að brasa við ýmis konar borðverkefni og t.d. að kubba og leika með bílana. Unnið var að Litaviku listaverkinu í rólegheitunum og skemmtu allir sér vel. Eftir mat, leik og kaffitíma þá lékum við inni á deild í rólegum leik.

Á þriðjudaginn ... var leikvangur hjá henni Kollu okkar. Alltaf jafn mikið fjör þar inni! Inni á deild var unnið að Litaviku listaverkinu okkar ásamt því sem það var verið að leika í kubbum og í margs konar borðverkefnum.  Eftir mat, hvíld, leik og kaffitíma þá fórum við öll saman í leiksalinn að hafa gaman þar inni.

Á miðvikudaginn ... var leikið inni um morguninn. Við vorum t.d. í holukubbunum, einingakubbunum og legokubbunum. Eins var leikið með eldhúsdótið á einum stað og slæðurnar á öðrum stað. Við unnum líka að Litaviku listaverkinu okkar og nutum þess að vera saman. Eftir mat, hvíld, leik og kaffitíma þá héldum við okkur inni á deild því það er SVO mikill snjór í garðinum okkar að við hreinlega treystum okkur ekki út. 

Á fimmtudaginn ... var smiðja með henni Nönnu. Í þessum tíma lögðum við lokahönd á bolluvendina okkar. En Inni á deild þá kláruðum við Litaviku listaverkefnið okkar og lékum okkur í kubbum, að púsla og margt fleira. Eftir hádegismat, hvíld og kaffi þá skelltum við okkur út í þetta dásamlega veður og héldum okkur í stóra garðinum þar sem það er ennþá of mikill snjór í þeim litla.

Í dag föstudag ... vorum við í rólegum leik inni á deildinni okkar. Guðný Sellóspilari kom aftur til okkar og kynnti okkur fyrir hljóðfærinu sínu. Hún kenndi okkur nokkur lög og við spiluðum saman á hljóðfæri og sungum. Fyrir hádegismatinn þá slógum við upp dansiballi í gaman saman. Héldum heldur betur flott RegnBogaBall með vinum okkar á ganginum. Þar sungum við og trölluðum í smá stund og fórum svo inn að borða. Eftir mat, hvíld og kaffitíma þá verðum við inni að leika þar sem það er spáð ansi leiðinlegu veðri og viðvörun í gangi.

Í samverustundum höldum við áfram að syngja og tralla. Börnin hafa SVO sterkar skoðanir á þeim lögum sem eru sungin og njóta sín mörg hver skuggalega vel í þessum stundum. Við erum líka farin að láta þau segja hvað þau heita og hvað hinir krakkarnir heita. Þetta er fyrsta skrefið í að þjálfa þau í að tala fyrir framan hóp. Margir eru ansi feimir í að segja hvað þau heita og þá koma vinirnir til hjálpar og einhverjir vilja ekki segja sitt nafn, verða feimin og horfa niður en það er ekkert mál að segja nöfn vina sinna þegar það kemur að þeim. 

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni

Vikan 14. febrúar 2022 - 18. febrúar 2022

Heil og Sæl kæru foreldrar

Í vikunni höfum við verið að teikna myndir af mömmunum okkar (í tilefni konudagsins á sunnudaginn) og segja hvað þeim finnst skemmtilegt að gera með mömmu sinni. Svörin voru jafn fjölbreytt eins og þau voru mörg, sumir höfðu frá miklu að segja meðan aðrir þögðu. Þessar myndir eru nú komnar upp á vegg hjá okkur hjá myndunum af pöbbunum.. og erum við á því að sjá smá hjónasvip á sumum :)

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Kk- Sagan gerist að þessu sinni í Kópavogi. Við náðum líka í Málhljóðakassann í Lubba safnið okkar og skoðuðum það sem var í kassanum. Þar var að finna krossfisk, kistill, krækibær og fleiri hluti sem byrja á K-inu. Við klöppuðum orðin í atkvæði og æfðum okkur að segja orðin.

Á mánudaginn .. fórum við í hópastarf um morguninn.. í hópastarfi er lagt upp með smá innlög í upphafi tímans. Allir tímar byrja eins, á því að fara yfir nöfnin okkar, klappa nöfnin í atkvæði og hlusta meðan vinir okkar tala. 

Í hópastarfinu var verið að ...

Guli hópurinn var að klappa nöfnin sín í atkvæði og segja hvað við heitum. Síðan fórum við í Numicon stærðfræðikubbana skemmtilegu og var gaman að sjá hvað þeir voru áhugasamir og skemmtu sér vel. Að lokum þá fórum við að leika með skynjunarkubbana og ljósaborðið. Ótrúlega skemmtilegur tími.

Rauði og Blái hópurinn sameinaðist núna og voru þau að klappa nöfnin sín í atkvæði, fara yfir litina og telja saman. Að lokum þá léku þau í plastkubbunum okkar í skemmtilegum kubbaleik.

Eftir mat, hvíld og kaffi þá vorum við inni að leika. Það er ansi mikill snjór í garðinum okkar og erfitt að fóta sig úti.

Á þriðjudaginn ... var Leikvangur með henni Kollu okkar. Þar var þrautabraut þar sem var verið að hoppa í húllahringjunum, para saman litla hringi og keilur eftir litum. Einnig var verið að hoppa, príla og hafa gaman. Ásamt því að þjálfa þol, kraft og þor. Inni á deild var verið að teikna mynd af mömmu sinni, leika með kubbana, leira og margt fleira. Eftir mat og kaffi þá vorum við að leika inni á deild með eldhúsdót og leirinn góða.

Á miðvikudaginn ... vorum við inni að leika okkur fyrir hádegi, það var t.d. verið að leira, púsla, kubba og margt fleira. Eftir mat, hvíld og kaffi þá þurftum við nauðsynlega að losa smá orku þannig við fórum og hreyfðum okkur í leiksalnum. Við þurftum svo sannarlega á því að halda þennan daginn.

Á fimmtudaginn ... var Smiðja með henni Nönnu okkar. Þar var verið að klára bolluvendina. Ekkert smá flottir vendir að verða. Inni á deild var verið að leika með bílana, púsla, lita og margt fleira. Eftir mat, hvíld og kaffi þá skelltum við okkur útí snjóinn.. enduðum í „stóra garðinum að brasa mikið. Þeim fannst þetta ansi mikið sport að vera í þessum garði að leika sér.

Í dag föstudag ... vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Við vorum að leira, púsla, leika með segulkubbana og legokubbana. Það var svo gaman saman með Lindinni og Læknum fyrir hádegismatinn þar sem við sungum saman nokkur lög. Eftir hvíld, leik og kaffitíma, þá er planið að fara út að leika okkur.

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni



Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 7. febrúar 2022 - 11. febrúar 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Tt-. Ekkert barn á málhljóðið núna en þeim fannst lagið og táknið spennandi. Enda allt sem er með góðum hreyfingum fljótt að grípast hjá þeim. Sagan fjallar um Torfhildi og þar er trúður og spilað á trommur og gítar og margt fleira.

Á mánudaginn .. var ansi fámennt hjá okkur þar sem það var lokað fyrir hádegi vegna veðurs. En það var leikið inni á deild fyrir kaffi og svo var farið út að leika eftir kaffitímann.

Á þriðjudaginn ... var leikvangur með henni Kollu okkar, þar var þrautabraut í gangi og fannst þeim hún frekar spennandi. Það er búið að vinna markvisst að því í vetur að þau leiðast bæði á leiðinni í leikvang og til baka aftur. Þau eru orðin svo dugleg að taka í hendurnar á vinum sínum og passa vel upp á félagann sinn. Í leikvangi er alltaf verið að þjálfa grófhreyfingar, t.d. príla upp rimla, hoppa bæði á dýnunum og á gólfinu. Jafnvægið er tekið fyrir með því að labba á slánni okkar og er ótrúlegt að sjá hvað þau eru orðin dugleg að fara upp á hana, labba á henni og aftur niður. Eins eru þau að labba með grjónapúða á höfðinu og flokka þá í fötur. Það er í fáum orðum.. Allt að gerast þar inni!

Inni á deild var verið að prufa öll skynfærin.. á einu borði var verið að vatnslita snjó, á næsta borði var verið að leika með sandleir. Þetta fannst þeim bæði mjög spennandi, snjórinn smakkaðist ágætlega og leirinn var ansi sóðalegur en þau skemmtu sér vel. Helling að læra og uppgötva 😊 Eftir kaffi þá skiptum við okkur á tvö svæði, annars vegar frammi í holukubbum og inni á deild í eldhúsdótinu.

Á miðvikudaginn ... vorum við inn á deild að leika okkur fyrir hádegið, við vorum að leika inni í herbergi með stóra kubba sem við fengum lánaða af Lindinni, frammi var verið að leika í holukubbum og með pleymó og inni á deild var verið að skoða bæði bækur, leika með segulkubba og fischer price dótið okkar. Eftir kaffitímann þá skelltum okkur út í snjóinn sem er úti garði hjá okkur.

Á fimmtudaginn ... vorum við með Nönnu í smiðjunni, þar var verið að vinna áfram með bolluvendina og mála frjálst. Það er alltaf svo gaman og notalegt að fara þangað inn og skapa eitthvað spennandi.  Inni á deild var líka verið að leika með kubba, hljóðfærin og eldhúsdótið okkar. Einnig vorum við að skoða nýja fína ljósaborðið sem við fengum í gjöf um daginn. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur í öllum snjónum.

Í dag föstudag ... var innileikur fyrir hádegi, við fengum líka góðan gest. En hún Guðný Jónsdóttir Sellóleikari kom til okkar með fína hljóðfærið sitt og nokkur hljóðfæri og við sungum saman og spiluðum nokkur lög. Það gekk ótrúlega vel, sumir urðu pínu smeyk við tónana úr Selló-inu en það voru allir áhugasamir. Við vorum líka að leika okkur í holukubbunum og með eldhúsdótið. Eftir kaffitímann er á planinu að fara út að leika okkur.

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 31. janúar 2022 – 4. febrúar 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar voru 2 að þessu sinni, annars vegar -Oo- sem átti að vera í síðustu viku og hins vegar -Pp- sem var skipulagt í þessari viku. Það átti ekkert barn málhljóð vikunnar að þessu sinni en þau voru afskaplega móttækileg fyrir hreyfingunum.

Á mánudaginn var ansi rólegt hjá okkur á Lautinni. Við nutum þess að leika saman í hinum og þessum verkefnunum. Við skoðuðum bækur, lékum með dýrin og kubbana ásamt því sem við byrjuðum að skoða tennurnar. Við unnum verkefni þar sem þau teiknuðu á plastaða tönn (teiknið átti að vera óhreinindi) og svo fengu þau tannbursta sem átti að taka í burtu krassið (óhreinindin) það var svolítið erfitt að ná öllu í burtu og þurftu þau aðstoð við það, alveg eins og með það að tannbursta sig 😊 Við byrjuðum líka að teikna listaverk fyrir myndlistasýninguna okkar sem verður í tilefni af Degi leikskólans þann 6. febrúar. Eftir kaffitímann þá vorum við inni að púsla, kubba og lita

Á þriðjudaginn var leikvangur hjá okkur á Lautinni. Við fórum í 2 hópum að hamast þar og hafa gaman. Inni á deild var verið að skoða dýrin, gera listaverk fyrir sýninguna, púsla og kubba. Okkur leiðist ekkert, við sjáum það samt alveg að þau sakna vina sinna og eru mikið að benda á myndirnar af þeim. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur í snjónum.

Á miðvikudaginn vorum við að skoða tennurnar okkar og æfa okkur í því að meðhöndla tannburstann. Við fengum lánaðan stóran Hunda bangsa sem við fengum að tannbursta.. eða svona þau sem vildu það 😊 sumir vildu bara ekki snerta þennan grey bangsa meðan öðrum fannst hann mjög áhugaverður. Við skiptum okkur í 2 hópa meðan við vorum að gera þetta fengu svo báðir hóparnir að leika með segulkubbana, að lita og skoða dýrin, snúningskubbana og margt fleira. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur í snjónum.

Á fimmtudaginn, fórum við í smiðjuna með henni Nönnu. Þar var verið að lita, mála og klippa pínu (eða svona æfa okkur með skærin) 😊 Inni á deild var verið að perla, kubba, leika með bílana og fleira. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag, vorum við að leika fyrir hádegið, það var verið að leika með einingakubbana, teikna og mála, leika með eldhúsdótið og margt fleira. Það var svo gaman saman á ganginum með vinum okkar á Lind og Læk. Eftir leik á gangi og ávexti í kaffinu þá fórum við út að leika okkur og vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta í smá stund í kaffið okkar á eftir 😊

Með bestu kveðju 

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 24. janúar - 28. Janúar 2022

Eitthvað fór þessi vika ekki eins og planið sagði. Við byrjum á því að senda knús yfir netið til þeirra sem liggja heima með Covid, bæði börn og kennarar greindust með þennan fjanda um síðustu helgi og í vikunni og vonum við að við sjáumst hress strax eftir helgina þegar einangrun líkur.

Lubbi finnur málbein: Við slepptum málbeini vikunnar að þessu sinni. Ætlum að taka 2 fyrir í næstu viku í staðinn. Alveg ómögulegt að leggja inn eitthvað fyrir örfá börn. 

Á mánudaginn var lokað hjá okkur vegna sóttkvíar

Á þriðjudaginn var lokað hjá okkur vegna sóttkvíar

Á miðvikudaginn mættu engin börn á Lautina og var deildin þrifin hátt og lágt til að allt yrði hreint og fínt til að taka á móti covid lausum krúttum.

Á fimmtudaginn, þá smelltum okkur út að leika fyrir hádegið. Við fórum í vettvangsferð og löbbuðum að Salaskóla, með mörgum stoppum hér og þar. Kíktum í brekkurnar og bröltum upp og renndum okkur niður. Hoppuðum á trampólíninu í Salaskóla í smá stund áður en við héldum til baka.  Alltaf svo gott að komast út og losna við alla orkuna sem er í okkur. Eftir hádegismat og hvíld, lékum við á ganginum og eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag, vorum við inni að leika okkur fyrir hádegismatinn, við vorum t.d. að pinna, kubba með mismunandi kubbum og lita. Við fengum líka 4 vinkonur af Lindinni í heimsókn til okkar þar sem það var ansi fámennt hjá okkur. Eftir gómsætan kjúkling og hvíld, þá lékum við á ganginum og svo er jafnvel möguleiki á útiveru en spáin er ansi hvöss, þannig það er spurning hvað við gerum. Ef við verðum inni þá kíkjum við á leikinn með öðru auganu og leikum okkur með hinu 😊 áfram Ísland!

Með bestu kveðju og áfram Ísland

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 17. janúar – 21. Janúar

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Ii / Yy-  sagan fjallar um hann Indriða og Imbu sem fóru í heimsókn á Innra hólm.

Á mánudaginn vorum við í hópastarfi í hópunum okkar fyrir hádegið. Í hópastarfi var verið að ...

Guli hópurinn, byrjaði að fara yfir hverjir eru í hópnum og klappa nöfnin sín í atkvæði. Síðan var verið að þræða perlur á trépinna og gekk það mjög vel og voru allir áhugasamir um verkefnið. Eftir það var kíkt í segulkubbana og að lokum var leikið í holukubbunum.

Rauði hópurinn var að klappa saman nöfnin sín í atkvæði, síðan var púslað og vakti það mikla lukku. Síðan pinnuðu skvísurnar saman og skoðuðu saman nokkrar myndir og fóru yfir það hvað var á myndinni. Í lokin var kubbað.

Blái hópurinn klapppaði nöfnin sín í atkvæði og síðan var spiluð tónlist með hljóðfærunum og leikið með fischer price dótið okkar.

Eftir kaffitímann þá ákváðum við að skella okkur út, þar sem veðrið var ágætt og ekki mikil rigning. En það breyttist snögglega. Það kom þvílík rigning en krakkarnir kipptu sér ekki upp við það og skemmtu sér úti að sulla saman.

Á þriðjudaginn vorum við bæði í skapandi starfi og hreyfingu. Það fóru allir í Leikvanginn með Kollu og svo máluðu þeir sem vildu á víkingahjálmana sína sem við ætlum að nota á Þorrablótinu okkar. Við vorum líka að kubba, leika með segulkubbana okkar, lita og margt fleira. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn fórum við í hópum í leikvanginn. Fyrst fóru stelpurnar saman að hafa gaman þar inni og nutu þær þess í botn. Síðan skiptu þær við strákana sem voru þvílíkt duglegir að leika sér þar inni. Inni á deild var verið að kubba, lita og margt fleira. Eftir hádegismat, leik og kaffi þá fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn vorum við að leika á svæðum í hópum, einn hópur var frammi á gangi, einn hópur inn í herbergi í hljóðfærunum og einn hópur í stóra rýminu að kubba. Eftir hádegismat, leik og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag var svaka stuð hjá okkur. Við skiptum okkur í 3 hópa og fór blái hópurinn fram á gang að leika í holukubbunum og legokubbunum, rauði hópurinn var að leika sér í eldhúsdóti og kubbunum meðan guli hópurinn var að leika með einingakubbana, dýrin og svo í segulkubbunum. Það var síðan gaman saman á ganginum með Lindinni og Læknum þar sem við sungum saman nokkur vel valin Þorralög. Eftir hádegismat, leik og kaffi þá er planið fara út en eins og áður þá vitum við ekki hvað veðrið býður uppá 😊

Í dag var líka síðasti dagurinn hjá einum gaurnum okkar. Við héldum smá kveðjupartý í morgun þar sem var boðið upp á ávexti, cheerios og rúsínur. Þetta vakti mikla lukku og var mikið kjamsað á gúmmelaðinu. Hann fékk síðan möppuna sína og knús frá öllum á staðnum. Gangi þér vel elsku vinur og takk fyrir samveruna í vetur.

Útivera: Við höfum reynt að fara út eins og hægt er og njóta þau þess alltaf jafn mikið að leika sér úti í garðinum okkar. 

Samverustundir: við höldum áfram að syngja og tralla í samverustundunum  okkar. Þau eru mörg farin að syngja heilu og hálfu lögin.. gera það samt ekki alltaf í ákveðnum stundum, heldur svona þegar þeim dettur það í hug. Greinilega alltof upptekin að taka inn þekkingu til að syngja með í samverunni okkar. Þau eru líka orðin svo dugleg að setjast í sætin sín (það eiga allir ákveðin sæti í samverustundum og þau eru að átta sig á því hver situr hvar og vilja sko bara sitt sæti) sumir eru mjög fastir á sínu amk 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Vikan 10. janúar - 14. janúar 2022

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Ss- Ein skvísan okkar á S-ið góða og var frekar auðvelt að ná hreyfingu hljóðsins. Endilega fáið þau til að sýna ykkur það. Sagan gerist á Stykkishólmi og innihélt mörg flókin orð. Þannig við einfölduðum hana ansi mikið núna.

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, það var verið að leika með lego-ið okkar, segulkubbana og eldhúsdótið okkar. Eins vorum við að leika í holukubbunum og með stóra lego-ið með því. Eftir hádegismatinn, leik á ganginum og kaffitíma þá smelltum við okkur út að leika okkur.

Á þriðjudaginn skiptum við okkur í 2 hópa, báðir hóparnir voru að gera það sama. Á öðru svæðinu var verið að leira, púsla og leika með kubbana en á hinu svæðinu var verið að skoða ljósaborðið og leika með dót á því (hrikalega spennandi), eins var verið að púsla og leika í holukubbunum. Eftir mat, leik á ganginum, þá fengum við okkur brauð og skiptum okkur svo á 2 svæði, því við vorum inni að leika okkur eftir kaffitímann. 

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika okkur og skiptum við okkur í 2 hópa eins og flesta morgna í þessari viku. Annar hópurinn var að leika inni á deild með nýju stelpunum okkar meðan hinn hópurinn var að leika frammi á gangi og mála í smiðjunni. Eftir mat, leik á gangi og kaffitíma skiptum við okkur í 2 hópa, annar hópurinn var frammi á gangi í dúkkukrók meðan hinn var inni á deild í kubbum og bílum.

Á fimmtudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið og vorum við að leika með bílana, kubbana, holukubbana og margt fleira. Eftir mat, leik á gangi og kaffi þá vorum við að leika í 2 hópum, annar var að leira og hinn var að kubba. Síðan sameinaðist hópurinn frammi í Holukubbunum.

Í dag föstudag, vorum við inni að leika um morguninn eins og alla morgna undanfarið. Inni vorum við að leika með segulkubbana, hljóðfærin, lego-ið okkar, leika með efnivið á ljósaborðinu, skoða bækur og já eiginlega það sem okkur datt í hug. Eftir hádegismat, leik á gangi og kaffi þá er planið að fara út en spurning hvernig þetta veður leikur við okkur.

Útivera: Hún hefur nú verið lítil þessa vikuna vegna kulda og veðurs. Við sjáum það alveg að þau njóta sín ekki úti þegar það blæs mikið og þegar það er kalt. Þá standa þau bara hreyfingarlaus og vilja láta halda á sér. Þar af leiðandi nýtur þess enginn að vera úti. Við reynum eins og hægt er að fara þegar verður leyfir.

Samverustundir: Við höldum áfram að syngja sömu lögin, við sjáum alveg orðið hvað þeim finnst skemmtilegast að syngja og eru því að gera sitt besta. Sumar samverustundirnar eru þannig að þau eru virkir þátttakendur meðan aðrar eru þannig að þau sitja og horfa á okkur, stundum með hissa svipinn sinn á sér.. (kannski erum við þá svona asnalegar, við værum alveg til í að vita hvað þau eru að hugsa sumar stundirnar). En það er á hreinu að þeim finnst lög með hreyfingum og lög með myndum skemmtilegust.

Með bestu kveðju og góða helgi

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 3. janúar – 7. Janúar

Vá hvað það voru allir duglegir að koma í leikskólann eftir langt jólafrí, sumir fengu lengra frí en aðrir því nokkrir voru veikir síðustu vikuna fyrir jólin og því bættist það við jólafríi-ið. En það var sko ekkert vesen á þessum snillingum! Bara vinkuðu bless og gáfu okkur knús, heldur betur dásamleg. Mörgum finnst bara ansi mikið sport að þurfa að labba frá fataherberginu 😊 hafa stækkað um nokkur númer finnst okkur.

Á mánudaginn var skipulagsdagur og því allir heima við að jafna sig eftir jólin 

Á þriðjudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, við vorum með lego kubbana, nýju fínu segulkubbana okkar, bílana okkar og svo vildu sumir púsla við borðið og já það skipti miklu máli hvaða púsla var púsluð. Eftir hvíld og mat þá fengum við okkur að borða og eftir það fórum við út að leika. Vorum að vísu í seinna fallinu því það var aðeins kalt úti, það voru samt allir SVO glaðir að komast út að leika sér.

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, það var verið að leika með nýju fínu segulkubbana sem við fengum fyrir jólin og auðvitað vildu einhverjir kubba með lego kubbunum. Eins fengu þeir sem vildu prófa Numicon kubbana okkar og fannst þeim það mjög spennandi efniviður. Eftir mat, leik á ganginum og kaffitíma, þá skiptum við okkur í 2 hópa, annar hópurinn fór í leiksalinn og hinn hópurinn var inni á deild í eldhúsdótinu. Síðan sameinuðumst við á ganginum og lékum þar í holukubbunum.

Á fimmtudaginn  Vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, það var eins og vanalega verið að leika í 2 hópum og var annar hópurinn inn í herbergi að leika með segulkubbana, snúningsdótið og hlusta á tónlist (sem er mjög vinsælt þessa dagana). Hinn hópurinn var að leika með lego kubbana og skoða bækur. Það var í boði að skipta um svæði reglulega, þannig allir fengu að prófa allt. Eftir mat, hvíld, leik á ganginum og kaffitíma þá var verið að pinna, púsla og leika með nýja lego-ið okkar. Ásamt því sem eldhúsdótið var dregið fram.

Í dag föstudag, vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, það var t.d. verið að notast við Numicon stærðfræðikubbana, leika í holukubbunum, leika með eldhúsdótið, púsla og margt fleira. Eftir mat, leika á gangi og kaffitíma þá er planið að fara út að leika í garðinum okkar.

Útivera: Við höfum reynt að fara út eins og hægt er í vikunni, bæði vegna kulda og veðurs hefur verið allt of lítið um útiveru og finnum við það heldur betur á okkur og krúttunum að okkur vantar að komast út að leika.

Samverustundir: Við höfum haldið áfram að syngja lögin sem eru sjónræn. Þetta finnst þeim sjúklega skemmtilegt og þau hafa engu gleymt síðan í fyrra 😊 fá að velja lög til að syngja og eru virkir þátttakendur í stundinni. Við reynum líka að hafa samverustundirnar ekki mjög langar þannig áhuginn sé allan tímann... og stundum borðum við aðeins fyrr því þreytan er að taka yfir.

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 20 desember - 23 desember 2021

Á mánudaginn vorum við að leika inni fyrir hádegið, við vorum að leika okkur inni á deild í rólegheitunum, þá var eldhúsdótið alls ráðandi og nutu þau þess að leika sér saman. Eftir hádegismat sem rann ljúflega niður en það voru Bjúgu sem Bjúgnakrækir færði okkur þá fórum við í hvíld að kúra okkur.. allir frekar þreyttir eftir morguninn. En eftir kaffi þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn vorum við inni að leika fyrir hádegið, við skiptum okkur í 2 hópa, annar hópurinn fór í leiksalinn og hinn var inni á deild. Síðan var skipt um stað, þannig allir fóru í salinn og allir voru inni á deild að leika. Inni á deild var verið að leika með dýrin, bangsana og kubbana. Alltaf jafn gaman að leika með dótið okkar. Eftir mat og hvíld þá lékum við í smá stund á ganginum með vinum okkar á Lind og Læk og eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn  smelltum við okkur út að leika fyrir hádegið, það var ansi kósý úti í myrkrinu og ákváðum við að fara út í smá gönguferð. Við löbbuðu að Salaskóla þar sem við lékum í smá stund og kíktum á öll jólaljósin í leiðinni. Eftir hádegismatinn, hvild, leik og kaffi þá fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn  vorum við inni i kósý fyrir hádegið. Það var ansi fámennt hjá okkur og lékum við mikið við vini okkar á Lind og Læk. Eftir saltfisk og skötu (sem rann misvel niður), þá lögðum við okkur saman. Eftir leik og kaffitíma þá ætlum við að fara út að leika okkur.

Útivera: Við höfum reynt að fara eins mikið út og hægt er í þessu dásamlega vorveðri sem er að heiðra okkur með nærveru sinni eins og er.

Gleðilega hátíð frá okkur á Lautinni

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 13 desember - 17 desember 2021

Smá frá okkur 

Nú styttist heldur betur í jólin og við finnum orðið fyrir smá spennu, þá sérstaklega með jólaljósin, með jólatréð og það mest spennandi jólasveininn. Þau hafa skoðað orð vikunnar og síðustu vikna ansi mikið og finnst okkur þetta hafa gefist vel fyrir og munum halda þessu áfram á nýju ári.

Á mánudaginn vorum við að leika inni fyrir hádegið, við vorum t.d. að leika í holukubbunum og stóra lego-inu. Eins vorum við að leika með dýrin inn í herbergi og slæðurnar, þeim finnast þær svo skemmtilegar, eru í því að setja þær yfir höfuðið á sér og segja BÖ þegar við kippum þeim af. Eftir kaffitímann þá vorum við inni að leika, annar hópurinn fór í leikvang meðan hinn hópurinn var að leika í eldhúsdótinu inni á deild. Síðan komu þau sem voru inni á deild og hittu vini sína í Leiksalnum.

Á þriðjudaginn vorum við inni að leika fyrir hádegið, við skiptum okkur í 2 hópa, annar hópurinn fór í leiksalinn og hinn var inni á deild. Síðan var skipt um stað, þannig allir fóru í salinn og allir voru inni á deild að leika. Eftir hádegismat og kaffi, þá vorum við inni að leika okkur, það var í boði að leika með lego-kubba, holukubba, pleymó og að púsla.

Á miðvikudaginn vorum við inni fyrir hádegið og það var heldur betur skemmtilegur dagur. Þann dag voru litlu jólin okkar..  við hittum vini okkar á Lind og Læk og dönsuðum í kringum jólatréð og  hástöfum jólalögin sívinsælu. Það komu 2 jólasveinar til okkar og var alveg merkilegt hvað þau voru lítið hrædd við þá. Þeir sungu með okkur eitt lag og gáfu krökkunum svo jólagjöf sem þau tóku öll við frá sveinunum skemmtilega. Að lokum kíktu þeir inn á deild og gáfu krökkunum mandarínu og sprelluðu aðeins með þeim. Í matinn var hangikjöt og tilheyrandi jólamatur og eftirréttur sem var ansi vinsæll 😊 Eftir ansi langa hvíld þá fengum við okkur brauð í kaffinu og skiptum okkur svo á 2 svæði og lékum okkur saman.

Á fimmtudaginn var annar hópurinn frammi og hinn inni á deild, síðan fengum við okkur ávexti og skiptum svo um svæði. Frammi var verið að leika í holukubbunum með krökkunum á Lindinni og í dúkkukróknum á ganginum. Inni á deild var verið að kubba og æfa jafnvægið á dýnunum inn í herbergi. Eftir mat og kaffi þá fórum við út að leika, mikið rosalega var gott að komast aðeins út! Það voru allir sammála um það, bæði börn og kennarar 😊

Í dag föstudag vorum við leika inni eins og alla morgna í þessari viku, við vorum að leika með slæðurnar og hljóðfærin og þeim finnst alltaf jafn geggjað að fara undir slæðuna og segja „BÖ“ það nýjasta er samt að hylja kennarann og hann segir BÖ-ið. Það var líka verið að brasa með einingakubbana, lego kubbana og eldhúsdótið. Rétt fyrir matinn þá var síðasta aðventustundin með vinum okkar á ganginum, við sungum saman nokkur vel valin jólalög og kveiktum á síðasta aðventukertinu sem heitir Englakerti. Við fengum líka smá heimsókn frá Jólasveini og jólaálfi í þessa samveru. Þau voru mjög hissa og sumir ekkert nema augun 😊 Eftir mat og kaffi þá verður leiksýning með öllum leikskólanum, Leikhópurinn Vinir koma með sýningu fyrir okkur í boði foreldrafélagsins. Eftir hana er planið að fara út að leika okkur.

Samverustundir: Við höfum haldið áfram að syngja og tralla í samverustundum, þau elska hreinlega ákveðin lög og lifna við þegar þau eru nefnd.

Útivera: Það hefur því miður verið lítið um útiveru þessa vikuna. Garðurinn hefur verið svellbunki og við höfum hreinlega ekki treyst okkur með krílin út. Við áttum erfitt með að halda jafnvægi þegar við tókum veðurstöðuna, þannig við lögðum ekki í það með þeim.

Takk fyrir vikuna og góða helgi 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 6. desember - 10 desember 2021

Smá frá okkur 

Við höfum notið þess að vera saman í þessari viku flestir að koma til baka eftir veikindavesenið í síðustu viku. Við vonum svo sannarlega að nú sé þetta veikindavesen búið að krökkunum. Það er svo gaman þegar það eru allir saman að leika og vináttan milli þeirra skín í gegnum leikinn hjá þeim.  

Á mánudaginn vorum við að leika inni fyrir hádegið, við vorum t.d. að leika í holukubbunum og stóra lego-inu. Með bílana og kubbana og eins var eitthvað púslað saman. Eftir mat og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn vorum við inni að leika fyrir hádegið, við fórum í Leikvanginn til hennar Kollu okkar að hreyfa okkur og voru allir bugaðir fyrir hádegismatinn. Við vorum líka að leika frammi og inni á deild.  Eins voru þeir sem áttu eftir að klára ýmislegt fyrir jólin að vinna upp það allt saman, þar má nefna jólaskraut á jólatréð og margt fleira spennandi. Eftir mat og kaffitíma þá vorum við að innipúkast, það var aðeins of kalt fannst okkur fyrir krúttin okkar og vorum við inni að hlusta á jólalög og leika okkur með pleymó-ið.

Á miðvikudaginn vorum við enn og aftur inni fyrir hádegið, við vorum t.d. að mála jólakúlur og svo ætlum við að líma Lubba tákn barnsins á þeirra jólakúlu. Við vorum líka í holukubbum, hlusta á jólalög og dansa saman, leika með kubbana okkar og njóta þess að vera saman. Eftir matartíma og kaffi þá vorum við að leika inni á deild og í Leiksalnum, það er alltaf jafn gaman að klára orkuna þar inni.

Á fimmtudaginn var smiðja með henni Nönnu, þar var verið að klára jólamyndina sem þau voru að mála í síðustu viku. Úr varð jólalistaverk með augum og skeggi, hrikalega flott. Við vorum líka að vinna í jólakúlunum sem við vorum að gera í gær og þau sem voru ekki í gær gerðu sínar kúlur í dag. Þær hanga orðið á trénu inni á deild. Við vorum líka að kubba, pleymó-a, leika með hljóðfærin, pinna, púsla og margt fleira. Eftir hádegismat og kaffi þá ...

Í dag föstudag var jólapeysu, jólahúfu og rauður dagur í leikskólanum. Vá hvað það var gaman að sjá krúttin okkar í þessum dúllulegu fötum. Þau voru líka svo ánægð með sig og voru alltaf að skoða fötin sín og vina sinna. En það var líka leikur inni eins og alla morgna undanfarið. Við vorum að leika okkur inni með ... og jóladúllast saman. Við vorum t.d. að leika  pleymó, bíla, að púsla, að lita og frammi í holukubbunum. Fyrir matinn var líka aðventustund með Vinum okkar á Lind og Læk, við hittumst á ganginum og sungum saman nokkur jólalög og kveiktum á aðventukransinum okkar. Eftir hádegismatinn og kaffitímann þá er planið að fara út að leika okkur.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Ff- 😊 Sagan fjallar um Freyju sem er á Fáskrúðsfirði og hún er með fléttur í hárinu 😊 hreyfingin er eins og fiðrildi að fljúga og fannst krökkunum okkar þetta ansi skemmtileg hreyfing. Þau áttu líka frekar auðvelt með að gera hljóðið sem fylgir F-inu.

Samverustundir: 

Við höldum áfram að syngja Jólalögin stórskemmtilegu og eigum við fullt í fangi með að glotta ekki útí annað yfir tilburðum þeirra í hreyfingum hjá þeim. Þau eru náttúrulega stórkostleg! Þau elska líka sjónrænulögin okkar og er apalagið og hestalagið enn vinsælast en litalagið kemur sterkt inn hjá þeim. Við höfum líka tekið orð vikunnar daglega sem og við skoðum bækur daglega.

Skemmtilegt að segja frá því að við erum aðeins að breyta „Adam átti syni sjö“ laginu og setjum nöfnin þeirra í staðinn fyrir Adam.. þetta finnst þeim sjúklega skemmtilegt og vilja öll að nafnið þeirra sé sagt næst 😊

Útivera: 

Hún hefur verið aðeins minni þessa vikuna sökum kulda og snjóa, en þau njóta sín ekkert öll í garðinum þegar það er kalt og blautt. Við losum bara hreyfingarþörfina inni í leiksal í staðinn.

Takk fyrir vikuna og góða helgi 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 29. nóvember – 3. desember 2021

Smá frá okkur 

Dagarnir líða skuggalega hratt þessa dagana, við njótum þess að jólastússast með krúttunum ykkar og hlökkum til næstu vikna með þeim. Jólaljósin eru mjög spennandi og við fáum klapp og stór augu þegar við kveikjum á seriunum okkar og slökkvum loftljósin. Það eru þessir litlu hlutir sem eru að gefa okkur svo mikið. Þau eru líka mörg farin að leika saman, skiptast á og sækjast orðið meira og meira hvert í annað. Greinilega mikil tengsl og vinátta að myndast á milli þeirra. 

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Við skiptum okkur á svæði, á öðru svæðinu var verið að mála jólasvein sem fer svo á jólatréð okkar í matsalnum og þið fáið svo heim til ykkar. Á hinu svæðinu var verið að leika frammi, t.d. í holukubbunum, að púsla og með stóra lego-ið. Eftir mat og hvíld þá skiptum við okkur í 2 hópa og fór annar hópurinn í Leikvang að hreyfa sig meðan hinn var inni á deild að leika sér. Síðan var skipt um svæði, þannig það fengu allir að klára orkuna sína í leikvangi þar sem við fórum ekki út að leika okkur.

Á þriðjudaginn var Leikvangsdagur, þar sem skipulagður tími féll niður þá fórum við að hreyfa okkur frjálst þar inni. Við skiptum okkur í 2 hópa, báðir hópar gerðu það sama inni á deild og í salnum. En inni á deild var verið að leika með eldhúsdótið okkar meðan hinn hópurinn fór í leiksalinn. Krakkarnir fengu að fara upp og niður mjúku púðana þar inni, príla í rimlunum, æfa jafnvægið á slánni okkar og já hlaupa um. Svaka stuð þennan morguninn! Eftir mat og kaffi þá fórum við út í snjóinn að leika okkur, það gengur misvel, sumir hlaupa um og kippa sér ekkert upp með annað undirlag meðan aðrir vilja bara smakka snjóinn en nokkrir eru hræddir við þetta hvíta ógnvænlega efni sem liggur á jörðinni.

Á miðvikudaginn vorum við enn og aftur inni að leika fyrir hádegið. Við vorum í 2 hópum að leika. Á annarri stöðunni var verið að jólastússast inni á deild, það var t.d. verið að mála jólakúlurnar og pappírinn utan um jólagjöfina sem krakkarnir ætla að gefa ykkur í jólagjöf. Eins var í boði að leika með eldhúsdótið skemmtilega. Á hinni stöðinni var verið að byggja stór hús með stóra lego-inu, krakkarnir tróðu sér í húsið og nutu þess að vera til. Eins var verið að púsla frammi. Eftir mat og kaffi þá lékum við inni, það var í boði að fara í leiksalinn og fengu þau sem það vildu að gera það.

Á fimmtudaginn var smiðja með henni Nönnu þar sem var verið að mála jólamynd 😊 Inni á deild var verið að leika með slæður og hljóðfæri, ásamt því að bílarnir voru dregnir fram. Við kíktum líka aðeins fram á gang í dúkkukrókinn þar og lékum nokkur saman þar. Eftir mat og kaffitíma þá...

Í dag föstudag vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, við vorum með lego-kubbana, kaplakubbana og í holukubbunum. Eins púsluðum við og lékum með dýrin. Það var líka Aðventustund fyrir hádegismatinn, en þá hittum við vini okkur á Lind og Læk og sungum saman nokkur jólalög og auðvitað kveiktum við á aðventukerti vikunnar sem heitir Betlehemskerti. Þetta er alltaf jafn skemmtileg og hátíðleg stund. Eftir leik á ganginum og kaffitímann þá er planið að fara út að leika í garðinum okkar.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Gg-. Það er ótrúlegt hvað hann Lubbi hefur jákvæð áhrif á krakkana, þau heyra að það er Lubba stund og þá bara setjast þau í sætin sín! Við hefðum ekki trúað þessu í vor og haust þegar þau voru að byrja hjá okkur. Þau eru sum farin að klappa nöfnin sín í atkvæði sem og vina sinna. En sagan í þessari viku gerist í Grindavík og það eru heldur betur mörg flókin orð í henni og einfölduðum við söguna mikið núna. Þau voru samt hrifin af hananum sem segir „gaggalagó“ voru sko öll með það á hreinu.

Samverustundir: 

Jólalögin hafa verið alls ráðandi hjá okkur í þessari viku. Við ætlum okkur að vera búin að ná þeim hátt og skýrt á jólaballinu 😊 við höfum líka verið að syngja krókódílalagið sem er alltaf jafn vinsælt sem og hestalagið okkar. Þetta eru svona vinsælustu lögin þessa vikuna ásamt litalaginu sem nokkrir eru búnir að ná.

Útivera: Eitthvað hefur verið minna um útiveru í þessari viku vegna kulda og snjó. Við reynum að fara eins mikið út og við leggjum í en því miður þá er stundum of kalt að okkar mati að fara út með þessa stubba, þau eru ekkert alltof dugleg að hreyfa sig suma daga þar sem það er stundum erfitt að fóta sig í snjónum, því miður 😊

Takk fyrir vikuna og góða helgi 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 22 nóvember - 26 nóvember 2021

Smá frá okkur 

Enn og aftur er einhver leiðindapest að herja á okkur og hafa nokkrir verið heima í þessari viku. En við höfum notið þess að vera saman að leika bæði í frjálsum leik sem er svo mikilvægur þroska og krakkana sem og í skipulögðum verkefnum sem þarf að klára áður en það er farið í eitthvað annað (og já, það reynist sumum erfitt 😊

Við erum aðeins byrjuð að syngja jólalögin og eru þau alveg að taka þátt í hreyfingunum þar og eru ótrúlega fljót að ná þeim.

Dagarnir eru svolítið svipaðir hjá okkur eins og þið sjáið hér í póstinum, en auðvitað er hér stiklað á stóru og pottþétt einhverju gleymt.

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Við vorum t.d. að leika í holukubbunum sívinsælu frammi á gangi. Eins var verið að leika inni á deild í legokubbunum, bílunum og svo voru nokkrir að púsla. Eftir kaffitímann þá héldum við okkur inni þar sem veðrið var ansi leiðinlegt og fórum við í 2 hópa og skelltum við okkur í leiksalinn að leika okkur. Það var heldur betur stuð þar inni, eins og þið sáuð á myndunum sem komu inn seinni part mánudagsins.

Á þriðjudaginn var leikvangur með henni Kollu fyrir hádegið, þar var verið að fara í þrautabraut. Í henni var prílað í rimlunum, hoppað á dýnunni og æft sig að labba á mottunum sem eru þar. Svaka stuð eins og alltaf. Inni á deild var verið að baka piparkökur sem boðið verður upp á í Piparkökukaffinu sem verður á eftir. Heita súkkulaðið sem foreldrafélagið bíður uppá í tilefni dagsins mun renna ljúft niður með kökunum góðu. Það var líka verið að leika frammi á gangi með stóra Lego-ið og Holukubbana. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn vorum við enn og aftur inni að leika okkur. Við skiptum okkur í hópa og var annar hópurinn að leika inni á deild og hinn var frammi á gangi. Hópurinn sem var frammi var t.d. með segulkubbana skemmtilegu og svo voru þau líka í holukubbunum sem þau fá ekki leið á (það eru þessir litlu hlutir). Hinn hópurinn var inni að leika með Lego-kubbana okkar. Ásamt því sem það var verið að baka piparkökur og svo fengu þau að mála smá jólaskraut. Eftir kaffitímann fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn var smiðja hjá Nönnu eins og flesta fimmtudaga, þar var að sjálfsögðu verið að jólast á fullu, klára ýmis konar verkefni sem við megum ekkert vera að tala um 😊 Við vorum að leika inni á deild og frammi á gangi (í holukubbunum og stóra lego-inu). Inni á deild héldum við áfram að jólast og vorum við að mála jólatré græn og settum við glimmer á þau 😊 það fannst okkur heldur betur spennandi. Við vorum líka að leika okkur með kubba og bíla inni. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur i haust veðrinu sem var úti.

Í dag föstudag vorum við að leika okkur inni fyrir hádegið, það var t.d. verið að leika í holukubbunum og með eldhúsdótið inni á deildinni okkar. Við smelltum okkur líka í dúkkukrókinn frammi á gangi að leika. Það var síðan gaman saman þar sem við kveiktum á fyrsta aðventukertinu og sungum saman nokkur jólalög. Eftir hvíldina og kaffitímann þá ætlum við að fara út að leika okkur og fá gæða okkur á nýbökuðum piparkökum og heitu súkkulaði. Við hlökkum mikið til að njóta stundarinnar með ykkur.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Ll-. Málhljóð vikunnar á sjálfur Lubbi 😊 og einn kennarinn okkar.  Hreyfingin er ansi einföld og voru þau fljót að ná henni. En sagan gerist í Loðmundarfirði og fjallar auðvitað um hann Lubba okkar. Við fundum nokkur orð sem byrja á því og klöppuðum þau í atkvæði.

Samverustundir: Við höfum aðeins verið að byrja að hlusta á jólalögin skemmtilegu í samverustundunum og horfa þau á okkur forviða þegar við erum að leggja inn ný lög fyrir þau. En við munum halda því áfram því jólaballið er þann 15. desember og þá þurfum við að vera búin að ná þessum lögum og hreyfingum. Við höfum líka verið að syngja lög og hafa þau sjónræn, semsagt myndir af persónunum í lögunum sem þau sjá meðan við erum að syngja. Þeim finnst þetta mjög spennandi og verða fleiri lög útfærð á þennan hátt næstu vikurnar.

Við tökum alltaf fyrir orð vikunnar í samverustundunum, við sjáum að þau eru að taka helling inn á þessu. Orðin að fæðast sem og litirnir á því sem er á myndinni eru ræddir. Greinilegt að ávextir vikunnar eru vinsælir hjá krökkunum því þau voru fljót að ná þessum orðum. Svo hanga eldri orð vikunnar inni hjá okkur og þau eru mikið að skoða þær myndir líka.

Útivera: Við reynum að fara út að leika okkur eftir kaffi alla dagana og það er svo gaman að sjá hvað krakkarnir eru spenntir fyrir útiverunni og finnst svo gaman úti að leika. Við sjáum þarna hvað krakkarnir sækja hvert í annað og núna hafa börnin á Læk aðeins verið með okkur útí garði og þau eru eldri en Lautarbörnin og sjáum við að þau eru að læra helling af þeim, það er svo gott að hafa góðar fyrirmyndir 😊 Krakkarnir eru farin að brasa við að klæða sig sjálf (eða sko sum þeirra) og þau vita eiginlega betur en við hvaða föt allir eiga. Það er sko alveg látið heyra í sér, þegar við tökum vitlausa húfu eða vettlinga.

Takk fyrir vikuna og góða helgi 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 15 nóvember til 19 nóvember 2021

Við höldum áfram að mynda tengsl og eru gaman að sjá hvað sterk vinátta er að myndast milli krakkana. Þau eru líka farin að mynda tengsl við krakkana á Lindinni en þar eru nokkur börn fædd árið 2020. Við reynum að styðja við þau tengsl og leyfum þeim að sjálfsögðu að leika saman þegar það er hægt. Við reynum að halda skipulagi eins og hægt er, en þegar það er kalt í veðri þá annað hvort sleppum við útiverunni seinni partinn og njótum okkar inni í staðinn eða förum aðeins seinna út og klæðum þá fyrst þau börn sem fara fyrr heim, þannig þau séu ekkert alltof lengi úti að leika. Það er bara svo gott að komast aðeins út að leika í lok dagsins. Við hlökkum mikið til aðventunnar og jólaföndurs með krökkunum ykkar og ekki láta ykkur bregða þótt þau komi heim græn eða rauð og jafnvel með glimmer hingað og þangað einhverja daga.

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Við vorum t.d. að leika með bílana, í holukubbunum, með pleymó-ið og margt fleira. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur í garðinum okkar. Létum okkur hafa það þrátt fyrir „smá“ haglél á köflum.. spurning hvort við leggjum í þetta aftur 😊

Á þriðjudaginn var heldur betur spennandi dagur. Hann byrjaði á því að sumir urðu pínu hissa að koma í leikskólann því bæði kennarar og börn voru ansi furðulega klædd í tilefni dagsins. Leikskólinn átti nefnilega afmæli og varð 20 ára gamall. Foreldrafélagið bauð upp á Wallie úr Sirkus Island. Hann kom til okkar með svaka sýningu og voru krílin okkar ótrúlega dugleg að sitja.. en eftir ca 20 mín þá var þolinmæðin búin og við týndumst eitt af öðru inn á deild að leika okkur. Það var svo opið flæði á yngri gangi og það var svaka stuð að kíkja á allar deildirnar og hitta alla krakkana sem voru í svo flottum furðufötum eða búningum. Við fengum Pizzu í hádegismatinn sem rann heldur betur ljúflega niður 😊 Það voru allir bugaðir eftir hamaganginn um morguninn og sváfu extra lengi. Við héldum okkur svo inni eftir kaffið og skiptum okkur niður á tvö svæði, einn hópur frammi og annar hópur inni á deild.

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika fyrir hádegið. Við skiptum okkur á 3 svæði, einn hópur inni í herbergi, einn hópur frammi á gangi og þriðji hópurinn var frammi á gangi að leika þar. Við vorum t.d. að leika með dýrin, að púsla, frammi í holukubbunum og með legokubbana okkar. Eftir kaffitímann þá  fórum við út að leika okkur, klæddum okkur í seinna fallinu þannig við vorum ekki komin út fyrr en ca 15.05 þann daginn.

Á fimmtudaginn var leikskólinn lokaður því það var skipulagsdagur. Á þessum degi fengum við kennararnir vináttu námskeið um hvernig á að vinna með Blæ bangsa sem við munum kynnast á nýju ári.

Í dag föstudag vorum við inni að leika fyrir hádegismatinn, við vorum á 2 svæðum að leika okkur. Á öðru svæðinu var verið að leika á ganginum td. Í holukubbunum og stóra legoinu okkar og á hinu var verið að leika með legokubba, púsl og fleira spennandi dót. Fyrir hádegismatinn var gaman saman þar sem við sungum saman nokkur lög með Lindinni og Læknum. Eftir kaffitímann er planið að fara út að leika okkur.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Uu-. Lagið var ansi grípandi en í hreinskilni þá var sagan flókin og við rétt svo glugguðum í hana. Við fundum nokkur orð sem byrja á Uu-inu og klöppuðum þau í atkvæði. Hreyfingin var aftur á móti mjög skemmtileg og voru krakkarnir fljótir að ná henni.

Samverustundir: Við höldum áfram að syngja saman lögin okkar, krakkarnir eru farin að velja sér lög til að syngja og geggjað að sjá hvað þau hafa sterkar skoðanir á því sem þau vilja syngja. Við erum líka búin að vera að lesa nokkrar bækur saman. Eins höfum við fjallað um orð vikunnar og er það alltaf jafn spennandi. Við erum að sjá að þessi orð eru að hjálpa til við orðaforða barnanna og þau eru mikið að skoða þau og sýna vinum sínum.

Við erum líka alltaf að gera æfingarnar skemmtilegu. Það er svo gott að ná hjartslættinum smá upp og brosa út í annað yfir tilþrifum krakkana. Það nýjasta er að gera hnébeygju (og segja niður), rísa upp (og segja upp) og setja svo annan fótinn til hliðar (og segja spark). Þannig að ef börnin ykkar eru að segja „spark“ heima, þá kemur það fá okkur 😊. Eins eru þau farin að brasa við armbeygjur eða jú svona þeirra útgáfur af þeim, æji þið verðið bara að prófa þetta með þeim heima. Við erum alltaf að reyna að ná þessu á upptöku til að senda á ykkur, það hefur ekki gengið en við höldum áfram að reyna.

Takk fyrir vikuna og góða helgi 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 8 nóvember - 12 nóvember 2021

Smá frá okkur Enn og aftur er búin að vera fámenn vika hjá okkur. Leiðindahor og hósti og almenn skítapest virðist vera að herja á krakkana og eiginlega leikskólann í heild sinni...  við vonum svo sannarlega að þau fari að jafna sig! Veikindapésanna er sárt saknað og hlökkum við til þegar þessum veikindum linnir.

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, við vorum að leika með eldhúsdótið sívinsæla, renna í brautinni skemmtilegu í holukubbunum. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn var leikvangur með henni Kollu. Eins og þið sjáið á myndunum sem koma inn eftir tímann, þá elska þau að vera þarna inni að hamast og hafa gaman. Það var verið að brasa við að príla í rimlunum, æfa jafnvægið og leika með boltana. Inni á deild var verið að leika með bíla og dýr og svo var í boði að leika í holukubbunum frammi. Eftir kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika okkur. Við vorum að leika okkur með dýr og kubba og síðan var í boði að mála með fingrunum. En við bjuggum til málningu úr AB mjólk og matarlit og fengu krakkarnir að mála. Enn og aftur þá tek ég það fram að það er enginn þvingaður í verkefnið og voru ekki allir sem vildu mála að þessu sinni. Þau eru náttúrulega ekkert að skilja þetta.. við hvetjum þau til að setja puttana í þetta og strjúka þeim á blaðið en þau mega svo ekki setja puttana í sósuna og klína henni útum allt! Undarlegt allt saman 😊 en eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur

Á fimmtudaginn var smiðja með henni Nönnu eins og alla fimmtudaga. Þar var verið að líma á jólaleyndóið sem var verið að gera í síðustu viku. Smá framhaldsverkefni í gangi þar inni. Sumir eru alltaf til í að fara til Nönnu og reyna að lauma sér í aðra hópa með því að leiða þá krakka sem eru að fara þangað á þeim tíma.. meðan aðrir þurfa smá tiltal en skemmta sér svo vel þegar þau er komin þangað. Inni á deild var verið að púsla, lita, kubba og leika með eldhúsdótið. Eins var í boði að fara fram á gang og leika í holukubbunum og drógum við fram stóra lego-ið sem vakti mikla lukku. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag vorum við inni að leika fyrir hádegið, það var t.d. verið að leika með pleymó-ið og kubbana og svo brösuðu nokkrir við að púsla. Frammi á gangi var verið að leika í holukubbunum og með stóra lego-ið. Fyrir hádegismatinn var vináttu samvera á ganginum í tilefni af Vináttudeginum (eineltisdeginum) sem var í vikunni. Við sungum nokkur vel valin vináttu lög og heilsuðum upp á hann Blæ bangsa sem við munum kynnast eftir áramót. Eftir kaffitímann er planið að fara út að leika okkur í garðinum okkar.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Ee-. Hreyfingin er auðveld núna.. eins og maður sé að klóra í hausinn sinn og voru þau fljót að ná því. Lagið er líka frekar grípandi og hlustuðu þau agndofa á það. Það eiga margir þennan staf og fóru myndir af þeim upp á vegg við myndina af málhljóðinu. Það er svo gaman að sjá hvað þau elska hann Lubba. Þegar þau heyra að það sé LubbaStund þá eru þau oftast nær fljót að setjast niður í sætin sín og hlusta af athygli. Hápunkturinn er aftur á móti þegar þau fá að knúsa hann bless, það er dásamlegt að fylgjast með hvað er gert af mikilli innlifun. Þau standa líka stundum og horfa á allar myndirnar af málhljóðunum sem hanga inni á deild og oftar en ekki, þá t.d. benda þau á B-ið góða, gera hreyfinguna og eiga það til að benda á gaurinn okkar sem á B-ið 😊 þau sprengja allt sem heitir krúttskalann stundum.

Samverustundirnar eru alltaf jafn spennandi. Við höfum svolítið verið að leyfa þeim að ráða hvaða lög eru sungin hverju sinni og það er ótrúlegt að sjá hvað þau hafa sterkar skoðanir á því hvað er sungið og hvernig þau geta gert sig skiljanleg varðandi hvað þau vilja syngja. Þar má nefna.. bangsi lúrir (þá leggjast þau niður og loka augunum), arammsammsamm (þá byrja þau að gera hreyfingarnar), litalagið (þá gera þau táknin), Fífusalir (þá rétta þau upp höndina) og svona má lengi telja. Við erum líka farin að ræða meira um litina og erum að leggja grunnlitina fjóra inn (gulur, rauður, grænn og blár). Síðan höfum við verið dugleg að lesa bækur í vikunni. Þá erum við að gróflesa textann og bendum á myndirnar og bæði spyrjum þau hvað er á myndinni og segjum þeim það að lokum. Við höfum líka tekið orð vikunnar á hverjum degi og er frábært að sjá hvað þau eru áhugasöm um þau. Þau standa oft við myndirnar og reyna að segja orðin.

Njótið helgarinnar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni



Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 1 nóvember 2021 - 5 nóvember 2021

Smá frá okkur 

Vikan hefur flogið áfram sem þýðir að fyrstu vikunni í nóvember er lokið. Við höldum áfram að njóta þess að vera saman og er frábært að sjá hvað krakkarnir eru orðnir góðir vinir og sækja hvert í annað, það fer ekki framhjá neinum að þau eru að mynda mikil og góð tengsl sín á milli. Þau fagna vinum sínum og senda fingurkossa til þeirra. Eins tökum við eftir því í viku eins og þessari þar sem margir hafa verið fjarverandi vegna veikinda að þau eru að skoða myndirnar af vinum sínum og segja nöfnin þeirra. Það er greinilegt að þau sakna vina sinna.. sem við gerum að vísu líka 😊

Við erum byrjaðar á því að fara í smá vettvangsferðir með krakkana ykkar. Skipta þeim í hópa og taka nokkur börn í einu í smá ferð. Þetta eru gæðastundir þar er orð eru sett á allt sem við sjáum en trúið mér, við gætum fyllsta öryggis í öllum þessu ferðum.

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Við vorum að þræða, púsla, leika með lego og í holukubbunum frammi, en þar er vinsælast að príla upp og renna niður rennibrautina sem er búin til úr holukubbunum okkar. Eftir leik á ganginum og kaffitíma, þá fórum við út að leika okkur í garðinum okkar.

Á þriðjudaginn var leikvangur hjá Kollu, þar var verið að príla í rimlunum, hoppa á hestunum og trampólíninu stórskemmtilega. Við vorum líka að púsla og skoða bækur á fullu. Eins var bílaleikurinn mjög vinsæll þennan morguninn sem og eldhúsdótið okkar. Eftir leik á ganginum og kaffitíma þá nutum við þess að leika okkur inni, við vorum t.d. mikið að skoða bækur, skoða skynjunarplöturnar okkar og leika með margs konar dót.

Á miðvikudaginn vorum við inni fyrir hádegið að leika okkur. Bílarnir voru dregnir fram og pússlin eru alltaf jafn vinsæl. Eins kubbuðu þau eins og herforingjar og nutu þess að leika saman. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur

Á fimmtudaginn var smiðja með henni Nönnu. Þar var verið að byrja á smá jólajólaleyndói 😊 Síðan skelltu 4 gaurar sér í vettvangsferð og löbbuðum við saman alla leið í kringum Salaskóla. Við hoppuðum í pollunum, kíktum á krumma og bíbí og auðvitað það vinsælasta stóra gröfu! Þeir sem voru heima voru að leika á svæðum og ferð bíður þeirra við fyrsta tækifæri. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur í garðinum okkar.

Í dag föstudag voru sumir að leika sér inni á deild í rólegum leik meðan 4 skvísur skelltu sér í vettvangsferð. Við löbbuðum að Salalauginni þar sem við ætluðum að kíkja á krakkana í sundi en það var bara enginn í skólasundi, ekkert smá óheppni. Við sáum helling af fuglum, bílum og hittum eldra fólk sem dáðist að þessum duglegu stelpum. Við hlupum svo fram og til baka á hlaupabrautinni áður en við fórum aftur inn í leikskóla að leika okkur. Eftir gaman saman var hádegismatur og eftir hvíld og kaffi er planið að fara út að leika okkur.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Hh-. Lagið við það er mjög grípandi og voru þau farin að dilla sér við lagið þegar við hlustunum á það í vikunni. Eins eiga 2 börn H-ið skemmtilega og fóru myndir af þeim við málhljóðið.

Njótið helgarinnar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 25 október – 29 október 2021

Smá frá okkur 

Við höldum áfram að stækka og þroskast saman. Það er ótrúlegt hvað þessi kríli hafa braggast síðan þau byrjuðu hjá okkur. Sumir eru t.d. hættir að sitja í barnastólunum og komin í stóru barna stólana okkar 😊 já við springum úr stolti yfir öllum litlu skrefunum hjá þeim. Eins með tiltekt og almennan frágang, þau eru orðin mjög dugleg að taka til eftir sig og henda t.d. horbréfum í ruslið og ekki má gleyma talinu hjá þeim, allt að gerast og við heyrum ný orð á hverjum einasta degi. Snillingar allir sem eitt 😊

Dagarnir eru auðvitað mis virkir og fjölbreyttir. Stundum erum við á fullu að þjálfa ýmsa þætti meðan aðra daga við njótum þess að leika í frjálsum leik, en þá daga sjáum við að tengslamyndun hjá þeim er í hámarki og hvernig þau sækja orðið í félagsskap vina sinna. Bæði er mikilvægt en það mikilvægasta er án efa hvað þeim líður vel á Lautinni 😊 þau njóta sín í botn alla daga í öllum verkefnum og það er það sem við viljum.   

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Við vorum t.d. að leika með pleymó-ið og kubbana. Eftir hádegið, þá vorum við inni að leika á ganginum og eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn var leikvangur hjá Kollu. Þar var verið að leika með boltana, labba á jafnvægisslánni og príla í rimlunum. Það er svo gaman að sjá hvað þau eru orðin frökk og örugg þar inni, framfarir milli allra tíma. Inni á deild var í boði að leika með eldhúsdótið og leika með kubbana. Eftir kaffitímann þá lékum við inni, þá skiptum við okkur niður á svæði, það var í boði að þræða, púsla, lita og kubba og leika með dýrin

Á miðvikudaginn vorum við inni fyrir hádegið að leika okkur. Við vorum t.d. að leika með pleymó-ið og eldhúsdótið, eins vorum við að lita og púsla. Það var líka í boði að fara fram að leika í Holukubbunum, við bjuggum til stóra rennibraut þar og í upphafi var svolítið verið að ryðjast og vilja vera fyrstur en þegar þau voru búin að ná tökum á þessu, þá fóru þau upp og niður eins og herforingjar 😊 Þennan daginn var Alþjóðlegi Bangsadagurinn og því í boði að koma með bangsa að heiman í leikskólann. Við ákváðum líka að hafa þetta x-tra kósý og mæta í náttfötunum okkar. Fyrir hádegismatinn þá hittum við á ganginum (Lind, Laut og Lækur) og sungum saman afmælislagið fyrir hann Blæ bangsa (hann er kominn á hinar yngri deildirnar, við hittum hann eftir áramótin) og bæði sungum saman og dönsuðum saman. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn var smiðja hjá Nönnu, þar var verið að sulla með vatn, þau fengu vatn, vatnsliti, bakka og pensil og fengu svo að mála á bakkann. Þetta vakti mikla lukku og þau nutu þess að vera þar inni í rólegum sulluleik. Inni á deild var verið að leika með eldhúsdótið, skynjunarplöturnar, fisher prise dótið og svo var í boði að fara fram í Holukubbana að renna. Eins og alltaf þá er það mjög vinsælt og þau orðin mjög flink að brasa þar. Eftir hádegismatinn var leikið á ganginum og svo var að sjálfsögðu útivera eftir kaffitímann.

Í dag föstudag vorum við inni að leika fyrir hádegið, við vorum bæði að leika inni á deild og frammi á gangi. Fyrir matinn var gaman saman með Lindinni og Læknum. Eftir kaffitímann er planið að fara út að leika okkur.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Jj-. Við erum svo heppin að gaurinn okkar á málhljóð vikunnar. Krakkarnir voru fljótir að ná þessari hreyfingu, enda eins og að keyra bíl. Lagið var grípandi og gerðu þau sitt allra best að syngja með. Sagan gerist uppi á jökli og er um hana Jarþrúði. Orðin eru ansi flókin en æfðum við okkur að klappa þau í atkvæði, t.d. Vatnajökull (erfitt orð að segja)

Njótið helgarinnar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 18 október – 22 október 2021

Smá úr vikunni okkar... ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir góða mætingu á foreldrafundinn í gær. Vonandi fræddust þið um okkar góða starf og ef það eru einhverjar spurningar eftir fundinn, ekki hika við að hafa samband. En af því sem skiptir máli, börnunum ykkar 😊 þau eru alveg frábær eins og þið auðvitað vitið manna best. En þau vilja alltaf vera á tásunum hérna í leikskólanum og rífa sig úr sokkunum alveg fram og til baka. Við erum í því að setja þau í sokka aftur en stundum þá leyfum við þeim bara að vera á tásunum og sokkarnir fara þá í skúffuna þeirra. Í morgun varð aftur á móti upp fótur og fit þegar sumir mættu í sokkabuxum, þá var orðið erfitt að klæða sig úr sokkunum og sumir urðu heldur betur fúlir yfir því að þurfa að vera í þessum leiðindasokkum.

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Við höfum aðeins verið að þróa verkefnin okkar og fengu þau að pinna eins og þau vildu þennan morguninn. Sumir sátu lengi við meðan aðrir prófuðu og fóru fljótlega í önnur verkefni. Við vorum líka að leika með kubbana eldhúsdótið okkar. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn var leikvangur hjá henni Kollu okkar. Vá hvað það er alltaf skemmtilegt þar inni og allir bugaðir í Lubba stundinni fyrir matinn og voru fljót að sofna í hvíldinni. Í leiksalnum var verið að príla í rimlunum, æfa sig í kollhnísum, labba á jafnvægisslánni okkar og fara undir og yfir. Rosalega góður tími og Kolla talar um svo miklar framfarir hjá þeim, bæði í að gera æfingarnar sem og að fara eftir fyrirmælunum frá henni. Inni á deild var verið að leika með pleymó-ið og pússla. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, við vorum t.d. að pússla, leika með pleymó-ið og svo voru þeir að mála sem áttu eftir að gera bleiku myndina sem við gerðum í síðustu viku. Eins er bókalesturinn alltaf jafn spennandi og að herma eftir því sem við erum að lesa. Enda heyrum við fleiri og fleiri orð koma hjá krúttunum okkar. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur. Við fengum líka enn gaur til okkar í aðlögun um morguninn. Krakkarnir tóku honum vel og voru að sýna honum dótið okkar, kenna honum að setja formin ofan í kassann. Fyrsti dagurinn hans gekk vel eins og við var að búast. Við hlökkum svo sannarlega til að kynnast honum betur 😊

Á fimmtudaginn var smiðja með henni Nönnu, þar var verið að mála með fingrunum og þau sem voru of pjöttuð fyrir það fengu pensil. Þau eru orðin svo dugleg að fara með henni og mörg reyna að lauma sér aftur og aftur til hennar. Alveg farin að tengja það að mála við Nönnu okkar. Inni á deild var líka í boði að mála, að þessu sinni vorum við að mála á álpappír, enn og aftur er engin píndur í verkefnið. Inni á deild var líka verið að leika með bílana, skoða bækur, skoða dýrin og leika með holukubbana á ganginum. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið eins og flesta morgna, við vorum t.d. að leika með lego-ið og að púsla. Aðlögunin hjá nýja gaurnum okkar gengur vel og eru krakkarnir mjög góðir við hann, alltaf að sýna honum dótið, strjúka honum og segja Aaa, frekar kúttlegt finnst okkur 😊 Það var gaman saman með Lindinni og Læknum fyrir hádegismatinn þar sem við sungum saman nokkur lög. Eftir kaffitímann er planið að fara út að leika okkur í haustveðrinu úti.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Vv-. Við erum svo heppin að einn gaurinn okkar á málhljóð vikunnar. Að þessu sinni gerist sagan í Vopnafirði hjá henni Vigdísi, þar var boðið upp á vöfflur og svo var stór viti þar. Krakkarnir voru fljót að ná hreyfingunni eins og yfirleitt og sitja alltaf jafn stjörf að hlusta á krakkana syngja lögin skemmtilegu.

Samverustundir: Við höfum enn og aftur verið dugleg að syngja og hafa 2 lög verið vinsælust þessa vikuna, en það eru 5 litlir apar (og tilþrifin þegar krókódíllinn kemur eru svakaleg) og uglulagið skemmtilega. Það eru svo skemmtilegar hreyfingar í því lagi og krakkarnir fljótir að ná þeim. Eins höfum við verið að klappa í atkvæði og lesa einfaldar bækur. Þau hafa alveg þolinmæði í ca 1 litla bók ef hún er leiklesin með tilþrifum (við værum alveg til í að þið væruð flugur á vegg stundum til að sjá hvað krakkarnir ykkar eru miklir snillingar).

Útivera: eins og alltaf reynum við að vera úti alla seinni parta. Við erum þá komin út ca 14.50 og klárum daginn úti. Þau elska að róla og má eiginlega segja að stundum sé slegist um róluna 😊 eins er rennibrautin alltaf jafn spennandi þótt okkur finnist þau skuggalega frökk þar og við oft með hjartað buxunum úti með þeim. Eldri krakkarnir eru svolítið farin að hanga á girðingunni inn í litla garðinn og fara systkini krakkana á Lind og Laut þar fremst í flokki. En þau eru svolítið að fá vini sína með sér og eru þau að sýna þeim systkini sín.

Njótið helgarinnar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 11 október - 15 október 2021

Smá úr vikunni okkar...

Við höfum notið þess að leika okkur saman, bæði inni og úti. En það hafa því miður einhver veikindi herjað á okkur í vikunni ásamt öðrum leiðindum og vonum við að allir mæti hressir í næstu viku. Þá fáum við líka einn nýjan strák til okkar. Við hlökkum til að fá hann til okkar á þriðjudaginn og hlökkum mikið til að kynnast honum.

Á mánudaginn Vorum við inni að leika fyrir hádegið. Það var t.d. verið að leika með eldhúsdótið, kubbana og ýmislegt fleira skemmtilegt. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur

Á þriðjudaginn var leikvangur með Kollu okkar, ormurinn var auðvitað dreginn fram og hoppað milli lita punkta á gólfinu. Það var líka verið að hoppa á dýnu og príla í rimlunum. Kolla hefur verið að æfa sig í því að láta þau leiðast bæði inn í leikvang og inn á deild aftur. Það gekk í fyrsta skipti vel í dag og krúttuðust þau yfir sig báðar leiðir. Inni á deild var verið að leika í frjálsum rólegum leik.

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, það var verið að leika með segulkubbana, legokubbana og sumir vildu púsla aðeins. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur í garðinum okkar.

Á fimmtudaginn  vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið. Það var verið að leika með bíla, segulkubba og svo vorum við líka að þræða og gekk það ótrúlega vel og var einbeitningin ansi góð hjá sumum. Við fórum líka til hennar Nönnu í Smiðjuna þennan morguninn. En þar var verið að skreyta kassa í þessum tíma, krakkarnir fengu opinn kassa sem þau tússuðu að eigin vali. Síðan voru þau að þræða bæði perlur og pasta á pípuhreinsara og síðan var það fest á opna kassann. Mjög spennandi verkefni sem reyndi hendur betur á fínhreyfingarnar þeirra. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag tókum við þátt í bleika deginum og var gaman að sjá hvað margir tóku þátt hjá okkur. Við vorum að vatnslita fyrir hádegi og vakti það mikla lukku hjá krúttunum ykkar. Síðan var verið að leika með eldhúsdótið, kubbana og fleira spennandi dót. Fyrir matartímann var gaman saman með Lindinni og Læknum, en það er sameiginleg samverustund þar sem við syngjum saman nokkur lög. Við byrjuðum á því að syngja Lubba lag vikunnar og klæða Lubbann okkar í bleikan fínan jakka. Eftir kaffitímann er planið að fara út að leika okkur.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Úú- Sagan fjallar um hana Úlfhildi sem ætlaði að fara á Úlfljótsvatn en hætti við ferðina útaf úrhellisrigningu. Hreyfingin er ansi auðveld og voru flestir fljótir að ná henni. Enn og aftur segi ég... endilega kíkið á Lubba okkar á YouTube með börnunum ykkar og sjáið hvað þau eru orðin flink.

Samverustundir: Við höldum áfram að syngja saman og krakkarnir alltaf jafn duglegir að nota hendurnar sínar með lögunum okkar. Við höfum verið að skoða bækur í samverustundinni og benda á myndirnar fá þau til að endurtaka það sem við erum að segja.

Útivera: Enn og aftur erum við eins mikið úti og hægt er. Við njótum þess að moka, renna, róla og rugga. Eins er ótrúlega spennandi að fara í ævintýraferðir í trjánum okkar. Þar er ansi auðvelt að villast og finnast aftur.

Njótið helgarinnar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 2 október - 8 október 2021

Smá úr vikunni okkar...

Í vikunni þá ræddum við líka um líkamann okkar og hengdum upp myndir af líkamshlutunum. Þau hafa mikið verið að skoða myndirnar og benda á myndina og svo t.d. eyrað sitt. Þá notum við tækifærið og setjum orð á það sem þau eru að benda á.

Á mánudaginn Vorum við inni að leika fyrir hádegið. Það var t.d. verið að leika frammi í holukubbunum, að púsla, að leika með lego kubbana og eldhúsdótið okkar. Gaman að sjá hvað þau eru farin að vera dugleg að dunda sér. Sumir auðvitað vaða úr einu í annað, meðan aðrir eru farnir að stoppa lengur og leika bæði ein eða með öðrum.  Við tókum einnig æfingar eins og við höfum verið að gera, standa á tám og hælum. Lyfta upp hægra hné og svo vinstra hné og það síðasta er að beygja sig niður og snerta gólfið og teygja sig upp og gera sig stórann. Þetta er mjög vinsælt hjá þeim og þegar við byrjum á þessu þá hópast þau í kringum okkur og eru virkir þátttakendur í leiknum.

Á þriðjudaginn var leikvangur með Kollu okkar og fengu þau að hoppa á trampólíninu í fyrsta sinn, margir hoppuðu og hoppuðu meðan aðrir voru pínu smeykir að hoppa. Inni á deild var verið að leika með kubbana og pleymó-ið skemmtilega. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur í blíðunni.

Á miðvikudaginn var heldur betur skemmtilegur dagur, það var ávaxtadagurinn okkar og þvílík veisla. Við fengum helling af gómsætum ávöxtum, t.d. vínber, melónur, epli, mangó, banana og hindber. Þetta sló allt saman í gegnum og gæddum við okkur á þessu líka í kaffinu, Takk kærlega fyrir okkur 😊 En inni á deild var verið að leika með lego kubba, trékubba og margt fleira. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn var smiðja hjá henni Nönnu okkar, þar var verið að leika sér með soðið spaghettí sem var litað í nokkrum litum. Þetta fannst krökkunum skrýtið, nokkur þurftu að safna kjarki í að snerta þetta en létu sig hafa það að lokum. Inni á deild var verið að leika með eldhúsdót, kubbana og í leik með bangsana okkar. Eftir kaffitímann þá vorum við inni að leika okkur.

Í dag föstudag var Heilsuvikuslúttið okkar á yngri gangi, það voru settar upp þrautabrautir og svo voru spennandi hlutir í boði inni á deildum. Sumum fannst pínu erfitt að mega flakka útum allt og svo voru auðvitað smá læti í öllum þessum börnum á ganginum en þetta hafðist allt saman 😊 við reiknum svo með að fara út að leika okkur eftir kaffitímann.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Íí/Ýý-  Lubbi okkar var að þessu sinni á Ísafirði. Það var talað um ýsu, ís, ísbíl og margt fleira. Þau voru fljót að ná hreyfingunni sem fylgir málhljóðinu og eru þau alltaf jafn áhugasöm um þennan góða vin okkar.

Samverustundir:   Í samverustundum í vikunni  höfum við mikið verið að hreyfa okkur í tilefni af heilsuvikunni okkar. Við höfum verið að fara í hreyfileiki og beygja hnén og fara upp og niður (snerta gólfið og teygja okkur upp). Það er búið að vera mjög vinsælt að labba á tánum og hælunum. Eins höfum við verið að gera höfuð herðar hné og tær og finnst þeim það alltaf jafn skemmtilegt. Og það nýjasta er „Við klöppum öll í einu, stöppum, hoppum og svo framvegis“.

Útivera: Við höfum farið út alla seinni parta í vikunni þegar veður hefur verið boðlegt fyrir útiveruna. Krakkarnir eru alltaf jafn duglegir úti að leika sér og ljóma eins og sólin þegar við komum inn með kuldagallana eftir kaffitímann til að klæða okkur út. Þau þekkja orðið fötin sín og mörg hver eru farin að brasa við að klæða sig sjálf, setja á sig húfurnar, komast í skóna og meira að segja sum eru farin að brasa við peysurnar sínar 😊

Njótið helgarinnar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 27. september 2021 - 1. október 2021

Smá úr vikunni okkar...

Á mánudaginn Vorum við inni að leika fyrir hádegið, það var verið að kubba á fullu, gera heiðarlegar tilraunir með að púsla einu sinni enn, leika með bílana og sumir voru í eldhúsdótinu okkar. Svaka stuð hjá öllum. Eftir kaffitíma þá fórum við út að leika í garðinum okkar.

Á þriðjudaginn var leikvangur með Kollu okkar og í þessum tíma var verið að príla í rimlunum, leika með boltana og fara í gegnum rörið. Það er alltaf jafn gaman þar inni 😊 inni á deild var verið að leika með kubba og bíla og skoða bækur. Eftir kaffitímann þá vorum við inni að leika okkur þar sem veðrið lék ekki við okkur.

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika fyrir hádegi, það var t.d. verið að leika með dýrin og svo eru bækurnar mjög vinsælar þessa dagana og var mikið verið að skoða bækur. Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn var smiðja hjá henni Nönnu og þar var verið að mála og gekk það bara vonum framar 😊 Inni á deild var verið að leika í einni klessu með kubbana og fleira dót. Eftir kaffitímann þá drifum við okkur út í góða veðrið að leika okkur.

Í dag föstudag vorum við inni að leika okkur fyrir hádegið, það var t.d. verið að leika með pleymó-ið, bílana og fleira dót. Eins vorum við að gera margs konar æfingar, t.d. labba á tánum og hælunum, beygja okkur niður og snerta gólfið og standa upp og vera stór. Eftir kaffitímann þá er planið að fara út að leika okkur

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Dd-  Lubbi okkar var að þessu sinni á Fiskideginum á Dalvík, þar voru margar furðuverur, t.d. dúfur, drottning með djásn og margt fleira. Við hlustuðum á söguna og lagið og voru börnin ótrúlega fljót að ná hreyfingunni í þessari viku. Þau eru alltaf jafn áhugasöm um hann Lubba og bíða spennt eftir að komast í þessar stundir.

Samverustundir:   Þær hafa aðeins verið að lengjast hjá okkur og við erum farnar að setja á þau þær kröfur að þau sitji kyrr í þessar ca 10 mín sem við erum að syngja. Það hefur yfirleitt gengið vel og eru þau alltaf jafn dugleg að gera hreyfingarnar sem tengjast lögunum.

Útivera: Við förum eins oft út og hægt er, reynum að fara út 1x á dag en suma daga er það hreinlega ekki hægt, því við treystum ekki alveg veðri og vindum og því að þau hreinlega fjúki ekki suma daga.

Njótið helgarinnar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 20 september – 24 september 2021

Smá úr vikunni okkar...

Á mánudaginn fórum við út að leika okkur fyrir hádegið og lentum heldur betur í rigningu og roki. Stutta sagan er þannig að eftir rúmar 30 mínútur, þá flúðum við inn að leika okkur inni. Héldum okkur svo inni eftir kaffi því við treystum ekki þessu veðri almennilega.

Á þriðjudaginn var leikvangur og þá var líka verið að stimpla hendur á listaverkamöppurnar sem þau munu geyma listaverkin sem þau búa til hér í. Við bjuggum líka til gulan fínan leir sem þau höfðu meiri áhuga á að smakka heldur en að nota sem leir 😊 Eftir kaffitímann þá vorum við líka inni því veðrið var ekki að leika við okkur.

Á miðvikudaginn vorum við inni að leika fyrir hádegið, þar var í boði að mála listaverk og þau sem vildu gera það fengu að dunda sér við það. En þeir sem höfðu ekki áhuga á því voru að leika sér með dótið okkar. Við pínum engan til að gera neitt, þannig ef einhver vill ekki mála, þá bara vill hann ekki mála 😊 Eftir kaffitímann þá fórum við út að leika okkur.

Í dag, fimmtudag var smiðja hjá krúttunum okkar og voru þau að leika með verðlausan efnivið (svokallaðan könnunarleik), snerta hann og grandskoða, hlutirnir voru með mismunandi áferð þannig það var mjög spennandi. Inni á deild var verið að leika með dýrin og einingarkubba á einu svæði og lego kubba á öðru svæði. Það verður tekin veðurstaða eftir kaffitímann hvað varðar útiveru. 

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Nn-  Við glugguðum í söguna um hann Nóa sem býr í Neskaupstað. Við tökum Lubba stund orðið á hverjum degi og finnst öllum þetta jafn áhugavert. Margir farnir að gera hreyfinguna.. mæli með að kíkja á lubba lögin sem eru á Youtube.

Samverustundir:  Við erum alltaf jafn dugleg að syngja og eru þau heldur betur að taka inn allt sem við erum að brasa, þau eru farin að klára lögin okkar með eigin orðum (stundum frekar óskiljanleg en samt í réttum tón og takti) og hreyfingarnar koma alltaf jafn sterkar inn. Sumir krakkana eru meirað segja farin að óska eftir ákveðnum lögum.. og segja þá „atjú“ eða úmbarassa“ eða „bö“ en einhverja tengingu við lagið og ef við byrjum að syngja vitlaust lag.. þá heyrum við ákveðið NEI hjá þeim 😊

Útivera: í þessari viku hefur útiveran verið aðeins minni vegna veðurs en við höfum notið þess að fara út í garð að leika okkur saman.

Njótið helgarinnar saman 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 13 september - 17 september 2021

Hitt og þetta: Eins og þið sjáið bæði þegar þið komið í leikskólann og á myndunum frá okkur þá gengur allt ótrúlega vel, krakkarnir aðeins farin að reyna að eiga samskipti sín á milli og farin að leika saman með sumt dót, t.d. gefa hvert öðru að borða þegar eldhúsdótið er í boði og brasa með kubbana þegar þeir eru í boði. Við erum ekkert mikið í borðverkefnunum, þau eru miklu meira fyrir það að vera á ferðinni og leika á gólfinu og viljum við ekkert vera að „pína“ þau í eitthvað sem þau vilja ekki 😊 Það má því segja að frjálsi leikurinn sé alls ráðandi hjá okkur enda læra þau svo mikið á honum. Eins erum við stanslaust syngjandi, það er ótrúlegt hvað söngurinn róar þau mikið og þau hópast í kringum þann sem er að syngja.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Bb- og erum við það heppin að einn gaurinn okkar á það málhljóð 😊 Við höfum sungið lagið og hlustað á það oft yfir vikuna og er alveg ótrúlegt hvað krakkarnir ykkar eru spenntir og áhugasamir. Þau sitja og hlusta og eru alveg ótrúleg! Þau virka pínu feimin varðandi það að gera hreyfingarnar með Lubbanum okkar en það er allt að koma hægt og rólega. Við lásum um hann Benedikt sem á heima í Bolungarvík og fundum allt í bókinni sem byrjar á Bb-inu góða. Í einni stundinni þá blésum við sápukúlur og það var heldur betur skemmtilegt.

Samverustundir: Eins og þið sáuð á myndbandinu okkar þá eru krakkarnir orðnir ótrúlega dugleg að sitja og taka þátt, það er alveg x-tra skemmtilegt þegar hljóðfærin eru tekin fram og notuð meðan við syngjum, Jújú sumir nota þetta til að syngja í meðan aðrir vilja fá það sem hinn er með en oftast nær þá er þetta notað til að slá taktinn. Við höfum verið að syngja sömu lög og komu fram á námsáætluninni okkar með nokkrum nýjum lögum sem okkur dettur í hug af og til.

Smiðja: Í tímanum á fimmtudaginn var verið að mála, þau voru misáhugasöm, sumir feimnir við pensilinn og málninguna meðan aðrir voru komnir með málninguna í hárið á núll einni.

Leikvangur: Það var þrautabraut í tímanum á fimmtudaginn, það var t.d. verið að fara í gegnum rörið, undir púða og fleira spennandi. Krakkarnir eru mjög hrifnir af tímunum og eru algjörlega uppgefin á þriðjudagsmorgnum 😊

Útivera: Við erum náttúrulega alltaf jafn dugleg að vera úti að leika, höfum farið út alla seinni parta í vikunni að leika í garðinum okkar. Eins fórum við út alla morgna þegar ekkert að planað hjá okkur (þriðjudagur-leikvangur og fimmtudagur-smiðja og föstudagur-leikfangadagur). Krakkarnir verða öruggari og öruggari með hverri vikunni, leika orðið útum allt og eru orðin þvílíkt dugleg að fara upp stigann hjá rennibrautinni og renna sér niður. Eins eru þau farin að komast sjálf upp á ruggutækið og rugga þar á mikilli ferð 😊

Njótið helgarinnar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 6 september - 10 september 2021

Á mánudaginn þá vorum við inni að leika okkur fyrir hádegismatinn, þann morguninn vorum við að búa til afmælisblöðrurnar okkar, en þær eru sko alveg útfærðar af þeim. Þau fengu að velja blöðru, setja myndina og nafnið sitt á alveg sjálf og ekki má gleyma Lubba tákninu, en það fer auðvitað á þessar blöðrur líka. Þau voru áhugasöm um þetta en sumum fannst límið svolítið klístrað 😊

Við eignuðumst líka nýjan vin í vikunni en það kom einn gaur í aðlögun til okkar. Það hefur gengið rosalega vel og bjóðum við hann svo sannarlega velkominn í hópinn og hlökkum við til að kynnast honum ennþá betur.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Mm-. Ekki erum við það heppin núna að einhver Lautar snillingur á stafinn en það kom ekki að sök, við æfðum okkur í því að gera hreyfinguna, hlustuðum á lagið og fórum lauslega yfir söguna um Mm-ið. Krakkarnir vita orðið alveg hver Lubbi er og það lítur allt út fyrir að þeim finnst þetta mjög áhugavert. Þau að minnsta kosti eru áhugasöm bæði að hlusta á lagið og brasa við að gera hreyfingarnar 😊

Samverustundir: Við höfum verið að syngja sömu lög og vanalega og er dásamlegt að sjá framfarirnar hjá krúttunum ykkar,  þau eru farin að gera miklu meiri hreyfingar og segja eitt og eitt orð í lögunum (litlu hlutirnir).

Smiðja: Féll því miður í vikunni

Leikvangur: Það var rosalega gaman hjá henni Kollu á þriðjudaginn, krakkarnir voru að fara í gegnum rörið, leika með bolta, leika með grjónapúða og margt margt fleira 😊

Útivera: Við erum ennþá alltaf jafn dugleg að leika okkur úti og það ískrar í þeim þegar við erum að fara út að leika. Þau vita líka alveg hvenær á að fara út bæði eftir ávaxtastund og kaffitíma og þegar við erum búin að klæða okkur (inni á deild) þá er sko hlaupið fram og út. Alltaf jafn gaman að brasa í garðinum við að róla, moka, rugga og skoða umhverfið. 

Við höfum verið að leika með allt dótið okkar inni á deild, við prófuðum líka að púsla aðeins og gekk það misvel hjá þeim, sumir köstuðu í gólfið meðan aðrir brösuðu við að setja á einhvern stað. Eins vorum við aðeins að tússlita, það gekk líka misvel og fóru nokkrir heim með smá í andlitinu því jú það þarf að smakka allt saman 😊 annars njótum við hvers dags saman og stríðnispúkarnir ykkar eru svo sannarlega dásamleg og hlökkum til vetrarins með krúttunum ykkar 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Vikan 30 ágúst – 3 september

Fyrsta vikan í skipulögðu starfi búin, hún hefur eiginlega þotið áfram 😊 En það þýðir að okkur leiðist ekkert hérna á Lautinni.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Aa-.. Það eru 3 Lubbastundir í vikunni og gaman að sjá að þeim finnst hann Lubbi spennandi. Það eiga 3 börn hjá okkur Aa-ið góða og voru myndir af þeim settar á lubba svæðið okkar 😊 Við æfðum okkur að gera hreyfinguna sem fylgir málhljóðinu og voru nokkur sem reyndu að gera hana með okkur. Við sungum lagið og horfðum á krakkana syngja það líka 😊 Við fórum ekkert rosalega djúpt í söguna í bókinni en pikkuðum út nokkur orð sem byrja á Aa og klöppuðum þau í atkvæði.

Samverustundir: Við erum farin að geta setið róleg og sungið ca 5-6 lög. Lög með hreyfingum eru lang vinsælustu lögin og þar má nefna „afi minn og amma mín (úmbarassa lögin) og svo komu fimm litlir apar og arammsammsamm óvænt sterkt inn í vikunni. Eins höfum við sungið í leikskóla er gaman og Fífusalir. Þau eru orðin mjög svöng þegar matarlagið er búið og mörg farin að standa upp og labba að sínu sæti við borðið.

Smiðja: Það fóru allir í smiðju í gær til hennar Nönnu, þar var verið að leika með hljóðfærin, afklippur af blöðum og smá skynörvun með chiafræ og málningu á gólfinu. Tímarnir voru stuttir enda þau þarna inni í fyrsta skipti en það gekk allt vel.

Leikvangur: Það var ótrúlegt stuð í leikvangi, það var frjáls tími því þau voru þarna í fyrsta skipti. Það var verið að príla undir og yfir, leika með bolta og fara í gegnum rörin skemmtilegu. Þau voru gjörsamlega búin eftir þennan tíma og hafa þau sjaldan sofnað jafn snemma og þennan dag.

Útivera: Við höfum verið úti alla seinni parta í vikunni og þá morgna sem ekkert er skipulagt hjá okkur og eru krakkarnir alltaf jafn glaðir að komast út að brasa eitthvað spennandi. Þau eru sum farin að æfa sig að setja á sig húfur og brasa við að fara í gallana sína, þjálfunarbúðirnar eru svo sannarlega hafnar hjá okkur 😊

Takk fyrir frábærra viku og njótið helgarinnar

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 23 ágúst - 27 ágúst

Dagarnir hafa enn og aftur flogið áfram og enn og aftur að detta í helgarfrí. Börnin ykkar hafa aðlagast leikskólalífinu mjög vel og farin að þekkja rútínuna okkar ágætlega.

Við fórum út alla morgna og seinniparta í vikunni nema í dag og reikna ég með að við verðum inni eftir kaffitíma líka.

Við höfum verið að dunda okkur í legokubbunum, pleymó-inu, fisher prise dótinu og gíraffinn skemmtilegi er alltaf jafn vinsæll hjá þeim. Einnig erum við dugleg að syngja saman og eru mörg börnin farin að gera hreyfingar með nokkrum lögum. Gaman líka að sjá að það eru að myndast smá tengsl milli krakkana, þau eru aðeins farin að skiptast á og sækja hvert í annað í vissum aðstæðum. 

Í næstu viku hefst skipulegt starf og verðum við í leikvangi á þriðjudagsmorgnum og í smiðjunni á fimmtudagsmorgnum.

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Vikan 16 ágúst – 20 ágúst 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan er búin að fljúga áfram, enda alltaf nóg að gera hjá okkur í leikskólanum.

Dagarnir hafa allir verið svipaðir, farið út á morgnanna, leikið inni eftir hvíldina og fram að kaffi og farið út að leika aftur eftir kaffitímann og dagurinn kláraður úti.

Við fengum fimm ný börn til okkar á miðvikudaginn og hefur aðlögunin gengið mjög vel, „gömlu“ börnin okkar tóku vel á móti þeim, þau sýndu allar sínar bestu hliðar þessa daga en auðvitað er erfitt að fá ný börn og foreldra á svæðið en þau stóðu sig mjög vel alla dagana og verður gaman að fylgjast með þeim kynnast og tengjast næstu vikurnar. 

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 9 ágúst - 13 ágúst 2021

Heil og Sæl

Nú er fyrst löngu vikunni eftir frí að ljúka, krakkarnir ykkar glaðir með að vera komin aftur í leikskólann og farin að átta sig á rútínunni okkar.

Dagarnir hafa svosem allir verið eins hjá okkur, við borðum morgunmat og fáum okkur ávexti og förum svo út að leika okkur. Förum inn í smá samverustund og síðan er hádegismatur og hvíld og eftir kaffitímann þá förum við út að leika.  Þau eru smám saman að vera öruggari og öruggari hérna hjá okkur, farin að láta heyra í sér og tætast aðeins, alveg hreint dásamleg. Eins eru þau farin að gera „úmbarassa“ hreyfingarnar með höndunum þegar við syngjum 😊

Í næstu viku koma 5 ný börn á deildina, við hlökkum til að fá þau í hópinn til okkar en það má búast við að krúttunum ykkar muni þykja erfitt að þurfa að deila athyglinni með öðrum börnum 😊

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 28 júní  - 2 júlí 2021

Heil og Sæl

Þessi vika hefur flogið áfram, sumarfríið okkar handan við hornið og margt til að hlakka til.

Þessi vika hefur verið mjög góð, það er mikill dagamunur á krökkunum ykkar, sofa orðið lengur, duglegri að borða, eru orðin forvitnari úti í garði hjá okkur, leika sér orðið meira bæði inni og úti. Gráturinn orðinn mikið minni og snudda varla sjáanleg nema bara í hvíldinni. Við erum rosalega stoltar af krúttunum okkar :)

Dagarnir hafa liðið svipað alla vikuna, útivera fyrir hádegið, svo matur og hvíld og leikur á ganginum eftir hana. Eftir kaffitímann þá höfum við farið út að leika okkur í garðinum okkar. Nema að á miðvikudaginn þá náðum við í sullukerið okkar og lékum okkur með vatn.. það vakti mikla lukku og skemmtu allir sér vel :)

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni


Vikan 21 júní – 25 júní 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan hefur liðið hratt, nóg að brasa hjá okkur og allir alltaf þreyttir og svangir 😊 Við höfum farið út að leika okkur alla morgna og flesta seinni parta líka. Inni höfum við verið að leika með pleymóið, kubbana, skoða bækurnar, dýrin og allt fisher price dótið okkar. Krakkarnir eru aðeins að átta sig á rútínunni okkar, t.d. að eftir samveru (syngjum ca 3 lög og svo matarlagið) þá á að labba að stólnum sínum og að eftir matinn þá förum við að sofa, nokkur börn farin að labba sjálf inn og svona kíkja á dýnuna sína, flestir eru fljótir að sofna og vonum við að sá tími sem þau sofa fari að lengjast dag frá degi. Við höfum svolítið verið í okkar skipulagi, borðað á okkar tímum.. semsagt aðlagað starfið að krúttunum ykkar. Þau eru náttúrulega svo lítil og dásamleg 😊 Við erum búin að hlusta mikið á LubbaLögin okkar og svo hefur Jón Jónsson komið sterkur inn með sín rólegu lög. Það er eins og þau róist aðeins við að heyra smá klið af tónlist.

Sumarhátíðin gekk rosalega vel og gaman að sjá hvað margir gátu mætt með börnunum sínum. Sólin heiðraði okkur með nærveru sinni í smá stund og allir voru í svaka stuði. Sumarhátíðin er samvinnuverkefni leikskólans og foreldrafélagsins og þökkum við þeim kærlega fyrir samstarfið í ár.

Með bestu kveðju

Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 14 júní  - 18 júní 2021

Á mánudaginn var þá kvöddum við gömlu börnin okkar og tókum á móti nýjum barnahóp á þriðjudaginn. Það mættu 5 ný börn til okkar sem eru heldur betur að standa sig vel 😊 þau eru öll rétt rúmlega eins árs og eru því að kynnast leikskólalífinu hjá okkur. Þessi börn verða hjá okkur fram að fríi og svo um miðjan ágúst þá bætast önnur 5 við.

Við höfum nýtt dagana í það að kynnast, leika og mynda tengsl okkar á milli og auðvitað njóta þess að leika okkur saman, bæði úti og inni. Dagarnir hafa einkennst af ávaxtastund, útiveru, matartíma, hvíld, leik á ganginum, kaffitíma og útiveru.. það má telja líklegt að dagarnir verði þannig fram að sumarfríi.

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni

Vikan 7 - 11 júní 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Þá er síðasta vikan okkar að klárast og við erum búin að hafa það ansi notalegt eins og alltaf. Aðlögun á eldri gang hefur verið alls ráðandi og sjáum við dagamun á þeim þar. Þau verða öruggari og öruggari þar á hverjum degi og er ansi margt þar sem grípur huga þeirra 😊 mikið af fínu dóti og spennandi verkefnum. Drukku í kaffinu á þriðjudaginn og borðuðu hádegismat á fimmtudaginn en í dag þá gerðu þau bæði.

Það var líka afmælisstuð  í vikunni. Ein skvísan okkar varð 3 ára á miðvikudaginn og hélt hún upp á það með því að gera sér kórónu og bjóða krökkunum upp á popp og saltstangir í tilefni dagsins. Innilega til hamingju með daginn þinn elsku vinkona.

Vettvangsferð vikunnar var ekki af verri endanum, við löbbuðum á rólóinn í Örvasölunum (sem við köllum Selmuróló) og lékum okkur lengi þar. Við fengum okkur smá banana og maískökur þar sem runnu ljúflega niður. Við sáum ansi marga hunda í þessari ferð og var einn mjög óþekkur og var að stinga eigandann sinn af! Þetta fannst þeim mjög áhugavert að sjá. Við vorum auðvitað alltof sein í matartímann en það er bara þannig! Betra að njóta en flýta sér, maturinn fer ekkert 😊

Í vikunni fóru þau heim með afrakstur vetrarins heim og var af nógu að taka í ár. Allir svo stoltir með sínar möppur að labba útí bíl. Vonandi hafa þau getað sagt ykkur eitthvað um verkin sín. Við skildum alveg nokkur verkefni eftir hér sem fóru í ferlimöppuna þeirra sem þau fá þegar þau útskrifast.

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni


31 maí - 4 júní 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Hitt og þetta 😊

Vikan er búin að einkennast af rólegheitum bæði inni og úti og heimsóknum yfir á hinn ganginn 😊 Það eru búnar að vera 3 heimsóknir yfir, mislangar og mis fjörugar en börnin ykkar eru að skemmta sér mjög vel þar. Þau verða öruggari dag frá degi og heilsa orðið nýju kennurunum úti þegar þau sjá þá þar. Margt spennandi dót þar sem grípur huga þeirra og þau vilja hafa. Við höfum verið mikið úti að leika okkur eins og alltaf en þessi vika var ekki alveg jafn góð veðurlega séð og voru ekki allir tilbúnir til þess að fara í pollaföt og stígvél eftir að hafa verið úti á peysunum í síðustu viku. Það þurfti alveg að sannfæra suma um að þetta væri það eina rétta 😊

Við höfum mikið verið í að leika okkur í pleymó en krakkarnir tóku ástfóstri við það aftur í vikunni sem og kaplakubbarnir og dýrin, það er alltaf tekið fram af og til.

Í dag áttum við 3 ára afmælisgaur, hann bauð krökkunum upp á popp og saltstangir í tilefni dagsins, við að sjálfsögðu sungum afmælissönginn og nutum stundarinnar saman. Innilega til hamingju með daginn þinn elsku vinur 😊

Við höfum alveg gefið Lubba frí þessa vikuna, hann var orðinn svoldið þreyttur eftir að hafa kennt okkur svona mikið í vetur og fannst krökkunum upplagt að hann færi bara í smá frí, einhverjir lögðu til að hann færi bara á ströndina og leist okkur bara vel á þá hugmynd hjá þeim.

Blær hefur verið aðeins í umræðunni og þau hafa aðeins fengið að leika með bangsana sína, þá heyrir maður allt sem við höfum verið að leggja inn í vetur og sér hvað Blær bangsi er gott verkfæri fyrir okkur kennarana.

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 24 maí - 28 maí 2021

Hitt og þetta 😊

Við erum alltaf jafn kát og hress á Lautinni. Aðlögunin yfir á eldri gang gengur mjög vel og eru þau alltaf spennt að fara í heimsókn, sum eru farin að spyrja á morgnanna hvenær þau fari yfir þann daginn og vilja komast þangað, greinilega alveg tilbúin í þetta. Kennararnir sem taka við þeim hafa verið með hinum megin þannig það eru allir farnir að kynnast aðeins. Á Hólnum hafa Ragnheiður og Kasia tekið á móti þeim en á Hlíðinni hafa Alexandra, Sandra og Stefanía Björk tekið á móti þeim. Þar sem að það eru heimsóknir yfir á hinum ýmsu tímum hafa vettvangsferðir og annað fengið nýja tíma og hafa ferðar t.d. verið ákveðnar rétt áður en við förum út 😊 þannig endilega vera komin um 09.00 þannig enginn missi af neinu.

Við höfum verið mikið úti eins og alltaf, oft bæði fyrir og eftir hádegið og reynum að klára alla dagana úti. En eins og ég hef oft sagt, þá eru börnin ykkar miklir útigarpar og njóta þau þess að vera úti að leika. Í vikunni var leikjadagur úti eftir kaffi þar sem allir skemmtu sér saman í margs konar leikjum.

LUBBI finnur málbein: málhljóð vikunnar voru ... HL– HJ – HR – HN ... 😊 við tókum þessi orð öll saman í þessari viku og erum við svona að fara lauslega í þau. Ræddum hvaða orð eiga þessi málhljóð og þar má nefna t.d. Hlægja, Hjóla, Hrópa og Hneggja 😊

Vettvangsferð vikunnar: Stóra ferðin okkar féll niður vegna aðlögunar yfir á eldri gang en 2017 börnin fóru í 2 ferðar í vikunni, báðar með 2017 börnunum af Lindinni. Fyrri ferðin var á miðvikudagsmorguninn og þá löbbuðum við á róló í Þorrasölunum komum við í þrektækjunum við kirkjugarðinn og enduðum að sjálfsögðu á hoppubelgnum okkar. Seinni ferðin var á fimmtudaginn þar sem var farið með strætó í fjöruferð og leiki á grasinu við fjöruna. Í ferðinni sáu þau margs konar dýr og t.d. fugl sem var að borða fiskinn, fræddust um lífið í fjörunni og nutu þess að vera til. Geggjuð ferð hjá krökkunum ykkar (2018 börnin voru frekar abbó yfir því að fara ekki með en þeirra ferð verður farin þann 7 júní n.k.)

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 17 maí -21 maí 2021

Hitt og þetta 😊

Við höfum verið mikið úti að leika okkur í þessari viku eins og alltaf. Við höfum alltaf farið út að leika eftir kaffitímann og suma daga höfum við líka farið út fyrir hádegið. Alltaf svo gott að komast út og losa smá spennu og orku. Inni á deild hafa Lego kubbarnir verið mjög vinsælir sem og það að lita (bæði frjálst og tilbúna mynd). Eins höfum við verið að leika í Dúkkukrók, í Búningunum, með Plúskubbana og með fína nýja Leirinn sem við bjuggum til í vikunni.

Á þriðjudaginn þá byrjuðum við að drekka inn í matsal með allan hópinn í kaffinu. Það gekk mjög vel, þeim fannst þetta mjög spennandi og stækkuðu alveg um nokkur númer! Með þessu erum við að reyna að undirbúa þau fyrir komandi tíma, þó við værum alveg til í hafa þau bara í bómull og knúsi inni hjá okkur allan daginn 😊

Aðlögun á Eldri Ganginn byrjaði markvisst í vikunni. 2017 hópurinn fór á Hliðina með 2017 hópnum á Lindinni en 2018 hópurinn fór á Hólinn og var einn þar í þessari viku. Heimsóknirnar í vikunni gengu allar mjög vel og fannst þeim þetta mjög spennandi og alveg tilbúin í þetta stóra skref. Eins og þið sáuð í póstinum frá mér á mánudaginn, þá er helling af heimsóknum framundan og þó þau missi af einni og einni heimsókn þá er það allt í lagi. Við starfsfólkið sjáum alfarið um aðlögunina milli deilda á vorin þannig það eina sem þið þurfið að gera er að sækja barnið ykkar á rétta deild þegar þau eru farin yfir.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Mjúka G-. Þetta hljóð var svolítið skrítið, enginn sem átti það fremst í nafninu sínu og allt eitthvað undarlegt. Að hafa svona „mjúka“ fyrir framan fannst þeim skrýtið. En eftir útskýringar og fleira.. þá komumst við að því að nokkur orð eru með Mjúka G þar má nefna sög, flugdreki, saga, Laugarvatn, flugvél, skógur og fleira. Lagið var sungið hástöfum og voru hreyfingarnar mjög skemmtilegar.

Leikvangur: Að þessu sinni var þrautabraut, sem innihélt hopp á trampólíni, klifur í rimlum, kollhnísa á dýnu og margt fleira. Alltaf jafn gaman þar inni og var þetta síðasti tíminn í leikvangi á þessu skólaári.

Smiðja:  Í þessari viku var verið að sulla. Vá hvað það var gaman, ótrúlegt hvað vatn er skemmtilegt! Það var verið að vatnslita í sullukerinu okkar, blanda saman litum og þeim fannst áhugavert að sjá hvernig litirnir blönduðust í vatninu.

Vettvangsferð vikunnar: Féll niður þar sem við fórum í heimsókn á Hlíð og Hól þann morguninn en 2017 hópurinn skellti sér í smá óvissuferð á föstudagsmorguninn meðan 2018 hópurinn var í heimsókn á Hólnum.  Við fórum á hoppubelginn skemmtilega, lékum á Salaskóla lóðinni og enduðum á leikskólalóðinni okkar. Skemmtileg ferð og eins og ein daman orðaði það.. „við erum í óvissuferð, það er mjög skemmtileg ferð“ 😊

Eigið góða langa helgi

Kveðja, Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 10 maí - 12 maí 2021

Viðburðarík stutt vika að klárast og fáið þið því smá fréttir frá okkur :)

Hjóladagur og Heilsustuð

Vikan byrjaði á hjólafjöri og stöðvastuði.. Hjóladagurinn okkar var fyrir hádegið. Það var mikið hjólað og haft mikið stuð. Við fórum út fyrir leikskólalóðina og hjóluðum á gangstígnum í áttina að Salaskóla. Það var kennari á sitthvorum endanum og fyrir miðju og þau hjóluðu fram og til baka. Það voru bananar í sumum eyrum sem vildu bara hjóla þangað sem þau vildu fara og þau eru svo snögg á þessum hjólum sínum að við þurftum heldur betur að spretta úr spori til að halda í við þau 😊 Eftir ca 30 mín voru margir orðnir þreyttir og fljótlega eftir það fórum við að tígja okkur inn á leikskólalóðina (ótrúlegt hvað þeim finnst gaman að leika þar). Það voru margir þreyttir í hvíldinni og því gott að kúra sig niður. Í kaffitímanum var Boost í tilefni Heilsuvikur slútts og rann það ljúflega niður. Eftir það þá fórum við út í þrautir og leiki. Það var t.d. í kollhnísastöð, jafnvægisæfingar, húllafjör, langsökk, hlaup og keilukast. Þegar það var búið að ljúka þrautinni þá var í boði að fá stimpil og komu margir úr stimplaðir heim. En auðvitað var í boði að leika frjálst og hafa gaman með vinum sínum. Það voru þreyttir og mjög skítugir krakkar sem fóru heim eftir þennan skemmtilega dag 😊

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Au- Það var hún heldur betur mikið sem byrjar á Au-inu.. þar má nefna t.d Auga, augnlitur, augnhár, aur og ausa, augnablik, auður og helling í viðbót. Við ræddum líka samheiti orðanna, t.d. að aur er gamall peningur og ausan er notuð til að setja súpuna í skálina og að augnablik þýðir bíddu 😊

Leikvangur: Í leikvanginum í þessari viku var þrautabraut, hopp á trampólíni, prílað í rimlunum og fleira skemmtilegt.

Smiðja:  Féll því miður niður þar sem það var uppstigningardagur og allir í fríi heima hjá sér.

Vettvangsferð vikunnar: Var ekki af verri endanum, við fórum að þessu sinni í annað hverfi 😊 við löbbuðum á Róló í Fjallalindinni með smá stoppi í líkamsræktartækjunum hérna rétt hjá okkur. Við byrjuðum á því að leika okkur á róló.. síðan höfðum við Lubba stund þar úti. Það fannst þeim spennandi, að lesa söguna og syngja lagið skemmtilega úti í náttúrunni. Eftir það fengum við okkur banana og epli og héldum svo áfram að leika okkur. Við tókum líka með okkur krítar og krítuðum heilan helling á gangstéttina við hliðina á rólónum. Eins og þið sjáið á myndunum þá nutu þau þess að leika sér og þessi bíll var mjög spennandi, ótrúlegt hvað það komast mörg börn í bílinn en þau voru 15 hangandi í honum þegar mest var 😊 Við löbbuðum svo til baka og eins og oft áður, þá rétt náðum við í matinn. Það voru því þreyttir krakkar sem lögðust á dýnuna sína að kúra sig í smá stund.

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 3 maí - 7 maí 2021

Heilsuvika 

Við vorum aðeins að ræða um heilsuna og hvað hreyfing er góð fyrir okkur. Við tókum líka æfingar eins og við gerum reglulega. Þeim finnst gaman að teygja sig og toga, taka hnébeygjur og margir eru að reyna við armbeygjur og magaæfingar. Við vorum auðvitað mikið úti að leika okkur í góða veðrinu og í því eru nú heldur betur góð hreyfing að hjóla fram og til baka og hlaupa út um allt. Því miður þá endaði vikan ekki alveg eins og skipulagið sagði þar sem bólasetningin fór heldur betur illa í starfsmennina. Við vorum með ávaxta og grænmetisdag í dag og frábært að sjá hvað margir komu með gómsæta ávexti. Það var ávaxta/grænmetis bar þar sem krakkarnir fengu að velja sér hvað þau vildu fá. Sumir vildu bara sitt meðan aðrir smökkuðu nánast allt. En allir leyfðu öllum að smakka allt og er það fyrir mestu

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Ei/Ey- Við erum það heppin að eiga eina dömu sem byrjar á Ey-inu góða og fékk hún að hengja upp spjaldið og voru allir fljótir að læra hreyfinguna. Við lásum að sjálfsögðu söguna úr bókinni sem fjallar um hann Einar sem fór í Heimaey og fann þar sóleyjar og fleira. Við fundum nokkur orð sem byrja á þessu og þar má nefna, Eyja, Eyrnalokkar, Eyru og helling af fleiri orðum. Einnig fundum við það út að það eiga bæði systkini og feður málhljóðið núna.

BLÆR bangsi:  Í þessari viku vorum við aðallega í upprifjun. Skoðuðum spjöldin okkar og veltum því fyrir okkur hvað er að gerast á þeim og hvernig krökkunum líður. Þau voru að spá í hver þau vildu vera á spjaldinu og af hverju. Þau hafa svo frjálsan aðgang að böngsunum sínum og fá að knúsa þá þegar þau vilja. Það er mjög krúttlegt að fylgjast með því þegar þau skríða út í gluggakistu og annað hvort lauma sér í knús frá þeim eða fara að leika með þá (þá eru þau oft 2 saman og láta bangsana leika saman).

Leikvangur: Á þriðjudaginn vorum við í leikvanginum og þar voru leikir og fleira skemmtilegt. Þar var verið að æfa sig í að fylgja fyrirmælum og fleira.

Smiðja:  Féll því miður niður vegna veikinda á starfsfólki eftir bólusetninguna

Vettvangsferð vikunnar: Við vorum heldur betur heppin að grípa mánudaginn og fara í vettvangsferð. En við fórum sko í fjallgöngu í þessari viku 😊 Við gengum í útikennslustofuna okkar sem heitir Rjúpnalundur og klifum þar upp brekkuna alveg upp að broskallinum í hlíðinni. Skemmtilegt svæði og komu krakkarnir okkur skemmtilega á óvart. Við hlupum þar um í smá stund og röltum okkur svo aftur til baka og hoppuðum heilan helling á hoppubelgnum „okkar“. Þeir sem vildu hlaupa fram og til baka á hlaupabrautinni máttu það auðvitað.

Hitt og þetta.. 

Annars höfum við notið samverunnar saman, alltaf jafn mikið um að vera úti að leika og ótrúlegt hvað krakkarnir eru duglegir að dunda sér í garðinum okkar. Við höfum líka verið að leika með risaeðlurnar og er sú sem var í sóttkví loksins laus og var frelsinu fegin að hitta risaeðluvini sína 😊 Við höfum líka verið mikið að lita og voru fuglamyndir alls ráðandi í vikunni.

Í næstu viku þá ætlum við að framlengja heilsuvikunni og hafa hjóladag... hann verður á mánudaginn, þá mega börnin koma með hjól, hlaupahjól eða sparkbíl í leikskólann. Munið eftir að merkja hjólið vel og hjálmurinn verður að vera rétt stilltur og merktur. Setjið bara hjálmana ofan á aukafataboxið þeirra þegar þau mæta. Við munum fara út fyrir hlið og hjóla á gangstígnum þar.

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 26 - 30 apríl 2021

Þetta var nú heldur betur skemmtileg vika, það sem stóð upp úr var án efa afmælisbörn vikunnar.

En snemma í vikunni átti hún Stefanía okkar afmæli og í stað þess að bjóða upp á eitthvað gúmmelaði þá kom hún með fræ sem krakkarnir settu niður og eru að vökva daglega núna. Þau bíða spennt eftir því að blómið þeirra komi upp og stækki.

En í dag, fagnaði einn gaurinn okkar 4 ára afmæli því hann verður 4 ára um helgina. Hann var búinn að gera kórónu fyrir daginn og beið spenntur eftir því að halda upp á afmælið sitt. Hann bauð krökkunum upp á saltstangir og popp og voru allir ánægðir með það. Við óskum honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með daginn hans.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Óó-. Við að sjálfsögðu lásum söguna vel og vandlega en hún er um Ómar sem er í Ódáðahrauni. Við fundum nokkur orð sem byrja á -Oó-.. þar má nefna, óttasleginn og ræddum við um að óttasleginn þýðir líka hræddur. Eins fundum við orðið Órói og vorum við kennararnir að tala um svona óróa í börnum eða gos óróa en börnin voru að tala um óróa á rúm, því einhver systkini eru með þannig hjá sér. Einnig á einn snillingurinn okkar seinna nafn sem byrjar á því.

BLÆR bangsi:  Spjald vikunnar fórst aðeins fyrir 😊 en það fjallar um að í ferðum er gott að leiða alla. Það er vont að segja „nei, ég vil ekki leiða þig“. Í umræðum krakkana þá voru þau sammála um það að það er gott að leiða vini sína og allir séu vinir í leikskólanum. Við spáðum aðeins í hvernig þeim líður sem enginn vill leiða áttuðu þau sig auðvitað á því að það er vond tilfinning og þeim líður illa.

Leikvangur: Lilja Rún fór með krökkunum í leikvang í þessari viku og fóru þau í skemmtilega þrautabraut.

Smiðja:  Í þessari viku var verið að æfa sig í því að vefa hjá henni Nönnu, krakkarnir komu spenntir og höfðu frá mörgu að segja þegar tíminn var búinn. Greinilegt að verkefni var áhugavert og spennandi.

Hópastarf: Það féll niður á mánudaginn, einfaldlega vegna veðurs. Krakkarnir ykkar óskuðu eftir því að fara út að leika sem við vorum alveg til í að leyfa. Það er svo gaman að byrja vikuna í svona góðu veðri í útiveru með vinum sínum.

Vettvangsferð vikunnar: Hún var nú ekki af verri endanum eins og þið vitið. Við fórum í óvissuferð alveg í Breiðholtið. Löbbuðum að tjörninni og kíktum á fuglalífið þar. Síðan tók Unnur stjórnina og sýndi okkur mjög skemmtilegan róló rétt hjá. Við skírðum hann „Kusuróló“ og VÁI hvað krökkunum fannst gaman þar. Þau léku og léku og léku eins og þið sáuð á myndunum sem þið fenguð að sjá eftir ferðina. Við fengum okkur smá orku (banana og rúsínur) áður en við héldum heim á leið aftur. Við áttuðum okkur ekki alveg á því hvað við vorum langt í burtu og vorum eiginlega aðeins of sein í matinn! En það er allt í lagi svona einu sinni 😊 Einfaldlega frábær ferð og við ætlum sko aftur á Kusuróló-inn skemmtilega.

Hitt og þetta.. 

Við erum alltaf jafn mikið úti að leika okkur eins og þið vitið. Allir svo ánægðir með það að leika sér og fá útrás fyrir alla þessa orku sem þau eru með. Sólin er farin að skína og við erum með sólarvörn hér sem við berum á krakkana í hádeginu og eftir þörfum eftir það. En það er ykkar hlutverk að setja sólarvörnina á krakkana áður en þau mæta í leikskólann.

Annars höfum við verið að leika í öllum hugsanlegum kubbum, frjálsum búningaleik, að leira, leika með dýrin og pleymó-ið, með risaeðlurnar (og í dag var ein risaeðlan í sóttkví og það mátti enginn hitta hana). Annars vilja krakkarnir helst vera úti að leika sér í öllu fjörinu þar.

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 19 – 23 apríl 20221

Við viljum byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegs sumars og þakka kærlega fyrir veturinn. Þótt að samverustundirnar með ykkur hafi nú ekki verið margar þá nutum við stundanna með snillingunum ykkar í botn 😊

LUBBI finnur málbein: Málhljóðið -Ææ- var í þessari viku. Hreyfingin var ansi auðveld og voru þau fljót að læra hana. Orðin sem stóðu uppúr voru Ævintýri, Ærslabelgur, Æðavarp og ær. Í kjölfarið á því var farið í smá fræðslu um Ær-ina. Það það sé í raun og veru kindin og hún gefur okkur ullina.. þá fengum við að heyra hverjir eru að prjóna handa þeim úr ullinni sem við fáum. Ótrúlega skemmtilegt!

BLÆR bangsi:  Í þessari viku var rætt um spjald vikunnar eins og aðrar vikur. Börnin höfðu auðvitað svör á reiðum höndum um myndina á spjaldinu. Þar voru 3 krakkar með alla klúbbana en 1 var annars staðar og mátti ekki leika með þeim. Hann var bæði skilinn útundan og með fáa kubba. (ekki nógu gott fannst þeim). Þau komu með nokkrar hugmyndir um hvað væri hægt að gera í þessari klípu og ræddum við þær fram og til baka. Í lokin var Blær bangsi knúsaður og nuddaður. Ótrúlegt hvað þau eru orðin flink að átta sig á tilfinningum annarra út frá svipbrigðum þeirra.

Leikvangur: Þar var þrautabraut, það þurfti að fara upp og niður, hoppa og skoppa, labba eftir bekk og setja grjónapúða á höfuðið sitt. Skemmtileg þrautabraut sem börnin skemmtu sér vel í.

Smiðja:  Féll niður vegna sumardagsins fyrsta.

Hópastarf: í Hópastarfinu í vikunni þá fóru krakkarnir eins og vanalega eftir árgöngum í hópana sína.  

  • 2017 börnin spiluðu spil um formin og fengu fræðslu um þau. Æfðu sig í því að fylgja eftir línu. Það var líka verið að leika í búningunum okkar.
  • 2018 börnin fóru í gönguferð á rólóvöll og léku sér þar í smá stund. Löbbuðu svo til baka alsæl í fylgd kisu sem elti þau alla leið til baka.

Vettvangsferð vikunnar: Hefðbundin vettvangsferð á miðvikudag féll niður og fórum við út í garð í staðinn en á föstudaginn þá skelltum við okkur í langa ferð. Löbbuðum á rólóinn í Örvasölunum og lékum okkur þar alveg heillengi. Fengum okkur smá saltstangir þar (smá orku) áður en við löbbuðum til baka aftur. Það var dálítil þreyta í hópnum eftir þessa ferð 😊

Hitt og þetta.. 

Í vikunni höfum við mest verið að leira, perla, leika í búningum, með bílana, segulkubbana og auðvitað úti að leika okkur í góða veðrinu sem hefur verið alla vikuna. Það er svo sannarlega komið vor í loftið núna.

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 12 apríl – 16 apríl 2021

LUBBI finnur málbein: Málhljóðið -Ðð- var í þessari viku, það er svolítið erfitt í að bera það fram og þurftum við að æfa okkur smá með það. Flestum fannst frekar kitlandi þegar framtennurnar bitu aðeins í tunguna og tungan kitlaði aðeins í kjölfarið. Ekki eru nein orð sem byrja á Ðð-inu og er það helst að finna inn í miðjum orðum eða í lok orðanna. Við fundum okkur orð sem innihalda Ðð, t.d. Brauð, Æð, Súkkulaði, Snúðu og Bíða

BLÆR bangsi: Við ræddum um spjaldið og hvað er að gerast á því. Þau voru sannfærð um að það er verið að skilja strákinn útundan því hann gat ekki náð þeim. Í kjölfarið var rætt um hvað það er að skilja útundan og hvort það er einhvern tímann gert við þau og hvernig þeim líður þegar þau mega ekki vera með einhverjum. Við töluðum líka aðeins um hvað það er að uppnefna og hvernig okkur líður ef það er gert við okkur. Eins ræddum við um í hverju við erum góð, sumir eru góðir í að dansa meðan aðrir eru góðir við mömmu og pabba. Í lok stundanna nudduðum við BLÆ bangsann okkar og höfðum kósý inni á deild meðan við nudduðum hann. Í dag settum við blæ bangsana í heimilið sitt, þeim fannst þetta mjög skemmtilegt að þeir fengju loksins samastað og vönduðu sig mjög að setja þá ofan í skyrdolluheimilið sitt (eins og þau orðuðu það)

Leikvangur: Alltaf jafn gaman í leikvanginum og í þessari viku var farið í þrautabraut eins og flesta þriðjudaga og eru þau alltaf jafn kát þar inni.. í þessari viku komu þau vel sveitt til baka til okkar.

Smiðja: Þessi tími var einstaklega spennandi, krakkarnir ykkar voru að búa til eldgos með rennandi hrauni og öllu tilheyrandi. Þeim fannst þetta mjög áhugavert verkefni og ræddu það fram og til baka. Okkur langar mikið að fá hraunmola úr öllu hrauninu þarna til að skoða, þannig ef einhver ætlar að kíkja á gosið og nennir að halda á smá hraunmola til baka fyrir okkur þá má það alveg. Annars kippi ég einum með í næstu ferð 😊

Hópastarf: í Hópastarfinu í vikunni þá fóru krakkarnir eins og vanalega eftir árgöngum í hópana sína.  

  • 2017 börnin spiluðu “hver á - ég á” spilið og léku svo í holukubbunum saman í frjálsum leik.
  • 2018 börnin æfðu sig að fylgja línu á blaði og á meðan var rætt um formin. Þau spiluðu Bínu Bálreiðu spilið og léku svo með risaeðlurnar í lokin.

Vettvangsferð vikunnar: Féll því miður niður vegna forfalla á deildinni en við smelltum okkur út í garð að leika okkur og lékum lengi lengi lengi!! Áttum garðinn og allt dótið útaf fyrir okkur og nutum okkur í botn úti að leika.

Hitt og þetta.. 

Við höfum verið að leika okkur í hinu og þessu inni á deild í vikunni, t.d. með risaeðlurnar umræddu, pleymó-ið skemmtilega, í hárgreiðsluleik þar sem Lilja Rún fór á kostum við að greiða skvísunum ykkar, það var líka loksins búinn til leir og fannst þeim það geggjað. Við máluðum líka á skyrdósirnar og úr varð heimili fyrir Blæ bangsa. Þau eru alltaf jafn áhugasöm um það að pússla, lita, perla, spila og perla þessi krútt ykkar. Litla Lego-ið sko sterkt inn í þessari viku og nutu þau þess að leika sér með það. Eins vorum við mikið úti að leika okkur fannst þeim það geggjað að komast út í engum kuldagalla þegar það var hægt.. þau voru ekki jafn spennt á föstudagsmorguninn þegar það kom óvænt haugarigning og við lentum í henni meðan við vorum úti 😊

Eigið góða helgi

Allir á Lautinni :)

Vikan 5 apríl - 9 apríl 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Þessi vika hefur þotið áfram og allt í einu er kominn föstudagur.. sem þýðir auðvitað helgarfrí framundan 😊

LUBBI finnur málbein: Málhljóð Lubba var að þessu sinni -Rr-. Við erum það heppin að í þessari viku eiga tveir Lautargaurar R-ið og fannst þeim það ansi spennandi. Saga vikunnar fjallar um hann Ragnar og gerist á Reykjanesi (eins og eldgosið sem börnin vita allt um) og fjallar um Risaeðlur, Rólurnar, Rennibrautina og fleira... það sem stóð upp úr hjá krökkunum var án efa Risaeðlurnar og það sem var í Rr kassanum okkar.. en það voru t.d. nokkrar mismunandi týpur af risaeðlum og nýttum við tækifærið og töluðum um hvaða risaeðla er stærri og hver er minni og röðuðum þeim í stærðarröð. Eins fundum við nokkur orð sem byrja á málhljóðinu okkar, þar má nefna rúgbrauð, rúsínur, rauður, ró og ránfuglar.

BLÆR bangsi:  Hann var í fríi þessa vikuna en við höfum rifjað upp spjöldin sem við erum búin að taka fyrir í Blæ stundunum okkar. Gaman að heyra hvað þau mundu mikið eftir því sem er ð gerast á þeim. Við tókum líka góða nuddstund í kósý eins og þau orðuðu það (drógum gardínurnar fyrir og slökktum ljósin.. vorum með kveikt á lampa og jólaseríunum okkar). Eins undirbjuggum við heimili fyrir bangsana okkar en við erum komin með nóg af dollum að sinni. Takk fyrir kærlega að koma með til okkar 😊 (þau eru mjög spennt að mála heimili fyrir Blæ bangsa)

Leikvangur: í þessari viku var þrautabraut alls ráðandi, það var t.d. verið að fara upp og niður rimlana, hoppa á stóru bláu dýnunni og færa sig á milli doppa á gólfinu. Það gengur yfirleitt vel að fylgja fyrirmælunum þar inni en stundum er eitthvað meira spennandi verkefni annars staðar.

Smiðja: í þessari viku var verið að mála á trönunum í smiðjunni, þá fengu þau að standa við trönurnar og mála frjálst, bæði með lit og vatnsmálningu.. vái hvað þeim fannst þetta gaman.

Hópastarf: Féll niður í vikunni þar sem annar í páskum var á mánudaginn var.

Vettvangsferð vikunnar: Féll niður því við treystum ekki alveg veðrinu, það gekk á með ansi miklum kviðum og snjófoki og vildum við ekki eiga það á hættu að vera einhvers staðar og eiga eftir að labba til baka með vindinn og fokið í andlitið.. það hefði nú ekki verið þægilegt. Við fórum samt út að leika okkur og áttum garðinn alveg fyrir okkur. Þau eru alveg að elska það að hafa engin önnur börn að þvælast fyrir sér í útiverunni. Sumir voru ekki mjög spenntir fyrir vindinum og fokinu og fengu að fara á undan hinum inn meðan aðrir vildu ekki koma inn 😊

Frjáls leikur: Við höfum mikið verið í frjálsum leik í vikunni og var greinilegt að krökkunum fannst gott að komast aftur í rútínuna sína og hitta hin Lautarkrúttin. Það hefur myndast góður leikur hjá krökkunum og er gaman að sjá einu sinni enn hvað það er mikið að gerast í félagslegum þroska og vináttu milli þeirra. Við höfum líka verið að æfa okkur í að spyrja „má ég leika með þér/ykkur“ og bíða eftir því að það er sagt já. Stundum er svarið „nei mig langar að leika ein/n“ og þá er það allt í lagi, það verður að virða þær tilfinningar hjá krökkunum.

Verkefni vikunnar hafa verið margs konar spil, t.d. minnis spil og Binu Bálreiðu spil, Lego kubbar, Kapla kubbar, Pleymó, púsl, búningar, bangsar, dúkkudót, dýrin og auðvitað útiveran skemmtilega en við höfum klárað alla seinni parta úti eins og nánast í allan vetur. Frábært að sjá hvað þau eru dugleg að leika saman í "stóra" garðinum okkar. Við förum klárlega ekkert til baka aftur í þann minni.

Eigið góða helgi

Kveðja, allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 22. Mars – 26. Mars 2021

Þessi vika er búin að vera stórundarleg, ansi mikil veikindi í gangi hjá okkur fyrri part vikunnar og svo takmarkanir á skólastarfi í lok vikunnar þannig það er búið að vera fámennt á Lautinni. Börnin hafa saknað vina sinna og sent þeim ljós á hverjum degi. Vonandi verða börnin fljót að rífa sig upp úr þessari pest sem er að herja á okkur og skólastarf verði eðlilegt sem fyrst.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er stafurinn -Þþ- .. sagan gerist í Þorlákshöfn og fjallar um Þórð gamla sem fór á þotunni til Þýskalands með Þríburunum. Táknið var mjög vinsælt þar sem það var eins og Spiderman táknið 😊

BLÆR bangsi:  Spjald vikunnar heitir Æ - Þetta er myndin mín

Börnin voru fljót að fatta það að strákurinn í bláa bolnum er að teikna með gulum lit á blaðið hjá stráknum í græna bolnum. Það sköpuðust umræður um það hvernig þeim myndi líða, báðum strákunum. Sá í græna bolum er leiður meðan hinn er að grínast og er brosandi á svipinn. Spurt var hvort hinir krakkarnir tveir gætu gert eitthvað til að hjálpa til og svarið var einfalt.. „sagt honum að stoppa og segja frá því sem hann er að gera“. Uppúr þessu komu umræður um það að einhverjir hafa bæði lent í því að það er teiknað á myndina þeirra og aðrir hafa teiknað á aðrar myndir. Eins ræddum við um hvað það er að vera hugrakkur og hvernig tilfinningin er að vera glaður og leiður.

Gaman að segja frá því að þau eru orðin mjög flink að lesa úr myndunum okkar og koma orðum á tilfinningar sínar.. farin að lesa í svipbrigðin og eru mjög hjálpsöm við vini sína og okkur.

Leikvangur: Í leikvangi í þessari viku voru þau í leikjum, bæði með fyrirmælum frá Kollu og að leika sér frjálst. Alltaf svo mikið stuð þarna inni og ég tala nú ekki um þegar þau fá lengri tíma en vanalega þar sem hópar voru sameinaðir vegna veikinda á deildinni

Smiðja: í þessari viku féll smiðjan því miður niður

Hópastarf: Í þessari viku þá sameinuðum við hópana og settumst öll saman niður og æfðum okkur að fylgja eftir línu. Byrja efst og vanda sig! Við fórum yfir formin meðan við æfðum okkur og ræddum þau fram og til baka. Þegar það var búið að gera nokkur verkefni þá var í boði að velja Numicon kubba og Lego kubba til að leika sér í. Síðan fengum við 2017 börnin af Lindinni til okkar í leik og gekk það mjög vel.  

Vettvangsferð vikunnar var sjúklega skemmtileg. Við fórum að brekkunni fyrir ofan Salaskóla og vorum að renna okkur þar með 2017 hópnum á Lindinni. Við renndum og renndum og renndum og renndum okkur saman. Hlupum upp brekkuna og renndum okkur aftur og aftur og aftur.

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 15. mars – 19. mars

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er stafurinn -Áá-. Við skoðuðum í málhljóða kassann góða eins og alltaf og fundum þar orð sem hægt var að klappa fram og til baka. Einnig fundum við orð sem eiga það hljóðið. Enginn Lautarsnillingur átti Áá-ið góða.. en okkur tókst að grafa upp einhverja ættingja sem eiga það.

BLÆR bangsi: Spjald vikunnar segir að það sé pláss fyrir alla, bæði í daglegu starfi og í leik. Það er ljótt að skilja útundan svo mikið er víst. Við ræddum um hvernig okkur líður ef við fáum ekki að vera með og hvað er hægt að gera til að komast í leikinn. Við ræddum líka um það hvað er hægt að gera ef við sjáum að einhverjum líður illa og kemst ekki í leikinn. Við skoðuðum svipbrigði krakkana á myndinni og spáðum í hvernig þeim líður og af hverju þeim líður svona. Við erum líka farin að hlusta meira og meira á lögin inni á Spotify (playlistinn heitir Vinátta – gott er að eiga vin), (græni er skemmtilegri finnst okkur) og þau eru alveg farin að syngja með í nokkrum lögum. Við höfum líka verið að æfa okkur í að nudda bangsana okkar í rólegheitunum áður en við förum að nudda hvert annað.

Leikvangur: Í þessari viku var þrautabraut þar sem var farið í rimlana, undir og yfir og margt fleira. Þau voru sveitt og sæl þegar þau komu inná deild aftur.

Bæði Smiðja og Hópastarf féllu niður í vikunni

Vettvangsferð vikunnar: féll niður vegna skipulagsdagsins á miðvikudaginn

Frjáls leikur: var alls ráðandi í þessari viku, hér er gróf upptalning á því sem við höfum verið að brasa 😊

  • Við höfum mikið verið í dúkkukróknum á ganginum að leika í hinum og þessum leikjunum, t.d. með eldhúsdótið, verkfærin, búningana og auðvitað dúkkur og bangsa. Það er svo gaman að sjá hvað þau eru orðin dugleg að leysa vandamálin sem koma upp í leiknum, ef það vilja fleiri en ein vera mamman, þá er bara skipst á eða einfaldlega eru 2 mömmur í leiknum. Ekkert vandamál!
  • Við höfum líka verið að teikna frjálst, klippa og líma á blað
  • Eitthvað hefur verið spilað í vikunni og perlur þræddar á spýtur
  • Við höfum líka verið mikið að kubba eins og vanalega, með hinum og þessum kubbunum, Lego, Kapla, Holu, Plúskubbar, Numiconkubbunum og Einingakubbunum
  • Alltaf ákveðinn hópur barnanna sem elska að vera í dýraleik og auðvitað hafa þau fengið að leika með þau í hinum og þessum dýraleikjunum.
  • Útiveran er alltaf jafn vinsæl, þau elska að vera úti að leika sér og höfum við verið úti alla seinni parta vikunnar og eru alltaf allir jafn kátir með það. En seinni part vikunnar höfum við bara verið í „stóra“ garðinum því það er verið að laga þann minni. Þau voru heldur betur spennt fyrir öllum  þessum gröfum og brasi þarna úti. Hef það á tilfinningunni að það verði erfitt að fara til baka aftur 😊

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni


Vikan 8 mars - 12 mars 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Skemmtileg vika að baki og við erum svo ánægðar með þátttökuna í litavikunni okkar. Takk fyrir kærlega 😊

LUBBI finnur málbein: Að þessu sinni er málhljóðið góða -Öö-.. hreyfing þess vafðist ekki fyrir krökkunum í þessari viku. Ekkert barn á ö-ið góða en einn og einn afi lumar víst á því. Við eins og alltaf kíktum í kassann og skoðuðum hlutina sem eru þar og byrja á Ö-inu. Það var dálítið erfitt að finna orð sem byrja á Öö en t.d. Örn, Öfund, Ömurlegur, Öryggisvörður, Öryggishjálmur og Önd 😊

BLÆR bangsi: Spjald vikunnar snýst um hvernig krökkum líður ef þau eru ekki eins og allir hinir. Þar má nefna í öðruvísi fötum, öðruvísi hár en hinar stelpurnar og þannig. Það sköpuðust áhugaverðar umræður hjá krökkunum. Eins ræddum við um hvað það er að vera hugrakkur, meiningin okkar á á því orði er að þora að aðstoða vini sína, láta vita ef það er verið að brjóta á einhverjum eða þeim sjálfum.

Leikvangur: Í þessari viku var þrautabraut og leikir í salnum hjá henni Kollu. Eins og þau sögðu sjálf, við vorum að fara upp og niður og renna mikið!

Smiðja: Í þessari viku var verið að mála páskaegg í smiðjunni, þau eru alltaf jafn spennt fyrir því að fara inní Smiðju til hennar Nönnu 😊

Hópastarf:  Í þessari viku þá var krökkunum skipt í hópana sína og voru 2017 börnin inni á deild og 2018 börnin voru frammi á gangi.

  • 2017 hópurinn var að perla með litlum perlum og kubba með litlum kubbum, ásamt því að stimpla gular hendur á blað.
  • 2018 hópurinn var að leika með lego kubba, numicon stærðfræðikubba og að sjálfsögðu stimpla gular hendur á blað.

Vettvangsferð vikunnar: Féll niður að þessu sinni, við fórum samt út að leika í stóra garðinum okkar í staðinn en þeim finnst það alltaf jafn skemmtilegt, sérstaklega þegar við eigum garðinn útaf fyrir okkur 😊  

Í dag var svo Regnbogastuð: Þá var mætt í þeim litum sem hver og einn vill mæta í og var mikið fjör á ganginum. Það var opið flæði á ganginum og margt í boði á öllum deildunum (Lind, Læk og Laut) og á ganginum sjálfum. Krökkunum finnst þetta svo spennandi og gaman að labba milli deilda og finna sér eitthvað að brasa við.

Frjáls leikur: Við höfum verið að leika okkur mikið inni á deild, bæði í hópum sem þau fá að stjórna svolítið sjálf og í hópum sem við höfum skipt niður. En við reynum að hafa þau alltaf í hópum, þá er yfirsýn okkar betri yfir það sem er að gerast, við eigum auðveldara með að gefa hverju barni alla þá athygli sem það þarfnast og grípa inn í aðstæður sem við viljum ekki sjá. Auk þess að þau leika sér miklu betur í fámennari hópum. Það hefur verið perlað, pinnað, kubbað, leikið með dýrin, leikið með snyrtidót og búninga og bara eiginlega allt sem okkur hefur dottið í hug. Þau eru alltaf að þróa leikinn sinn og eru orðin miklu duglegri að eiga samskipti í leiknum sín á milli. Við höfum farið út að leika alla seinni parta í vikunni og höfum við haldið uppteknum hætti að fara yfir í hinn garðinn rúmlega 16.00.

Í þessari viku var litavika: Frábært að sjá hvað allir voru duglegir að koma í „réttum“ lit 😊  á mánudaginn þá voru gular hendur stimplaðar á blað, rauðar á þriðjudaginn, á miðvikudaginn voru grænar hendur stimplaðar á blað og málaður grænn blómastilkur á annað blað. Í gær fimmtudag, þá voru bláar hendur stimplaðar á blaðið. Eftir að þetta var allt saman búið, þá klipptu þau (með aðstoð) út hendurnar sínar og límdu það á blaðið með græna stilknum á.. útkoman varð þvílíkt flott blóm sem krakkarnir eru mjög stolt af. Þetta fór svo að fara á gluggann inn á deild og sný listaverkið út þannig þið getið tekið labbitúr um helgina og skoðað blóm barnsins ykkar 😊

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 1. mars - 5. mars 2021

Enn og aftur kominn föstudagur og þið vitið alveg hvað það þýðir.. Föstudagsfréttir af Lautinni :) Þið svosem vitið allt sem við höfum verið að gera í vikunni, myndir hafa komið daglega inn á grúbbuna okkar og gaman að sjá hvað margir hafa skoðað þær og smellt "like" á þær og jafnvel kommentað.. alltaf gaman að sjá að þið kunnið að meta þetta hjá okkur :) Það peppar okkur áfram í því að halda áfram því sem við erum að gera og ég mæli með því að skoða myndirnar með börnunum ykkar, fá þau til að segja hvað verið er að gera og hvað vinir þeirra heita. Það er heilmikil málörvun fólgin í því, ásamt því að þeim finnst svo gaman að skoða myndir af sér og sínum :)

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Kk-.. sagan gerist í Kópavogi og þurfti mikið að ræða um Kópavoginn góða. Við fundum helling af orðum sem byrja á því, t.d. könguló, kópur, kringlan, (sund)kútur mínus sundið, kleinuhringur, kókómjólk og margt fleira. Við kíktum að sjálfsögðu í boxið góða og skoðuðum alla þá hluti sem eru þar.


BLÆR bangsi: Spjald vikunnar snýst um að allir séu sáttir við það hlutverk sem þau eru með í leiknum. Þar má nefna að ef einhver vill ekki leika hundinn, þá má viðkomandi segja nei við því hlutverki. Eins ræddum við um það að láta vita þegar einhverjum líður illa í leiknum og hvað við getum gert í því til að hjálpa til . Eins rýndum við í svipbrigðin á þeim krökkum sem eru á spjaldinu og spáðum aðeins í hvernig þeim líður.

Leikvangur: Í þessari viku var þautabraut, hún fékk nafnið "Skemmtilega Þrautabrautin" :) það var verið að príla í rimlunum, hanga í hringjunum, fara upp og niður og í zikzak milli keilna.

Smiðja: Í vikunni byrjuðum við á Páskaskrauti, þar var verið að mála Páskaunga á blað, það var gert með gaffli og fannst mörgum það skrýtið. Það var svo notaður pensill í að gera gogg og fætur. Verkefnið var svo klárað seinni partinn í gær inni á deild en þá fengu krakkarnir að láta augu á ungann sinn og líma á blað. Ótrúlega flottir ungar mættir á Lautina :)

Hópastarf:  Það var frekar óhefðbundið í þessari viku þar sem það var leikfangadagur, börnin fengu því að fara í 2 hópum, 2017 saman og 2018 saman að leika með dótið sitt.

  • 2017 hópurinn fór fram á ganginn og var að leika í Holukubbum og Numicon kubbum ásamt því að leika með sín leikföng.
  • 2018 hópurinn var inni á deild að leika með eldhúsdótið og dúkkudótið okkar, ásamt því að leika með sitt dót og pússla saman.


Vettvangsferð vikunnar: Við skelltum okkur í langa og góða ferð á miðvikudaginn. Löbbuðum upp á "landamærastíginn" og lékum okkur heilengi á rólónum þar. Í bakaleiðinni þá kítum við á Köngulóarvefinn í Blásölunum og príluðum aðeins þar. Við eiginlega rétt náðum í matartímann þannig við náðum ekkert að leika okkur í garðinum eftir þessa ferð.


Frjáls leikur: Við höfum mikið verið að leira með fína bláa leirnum okkar sem Lilja bjó til í vikunni, eins höfum við pússlað, kubbað með hinum og þessum kubbunum, pinnað og litað. Holukubbarnir frammi hafa verið vinsælir sem og Dúkkukrókurinn á ganginum líka. En á þessum 2 svæðum blandast börnin oft milli deilda og sjáum við að það er að myndast vinskapur milli barnanna á ganginum og þau tengsl eru að haldast í útiverunni og erum við mjög ánægðar með þessar tengingar milli þeirra.

Við höfum verið úti að leika alla seinni parta í vikunni og við fórum líka út í góða veðrið í morgun. Alltaf svo gott að komast út að leika okkur.

Í næstu viku er litavika.. Þá má gjarnan koma í eða með eitthvað í þeim lit sem er þann daginn, (t.d. hárteygju, naglalakk eða eitthvað). EKKI rjúka útí búð að kaupa eitthvað ef þið eigið ekki eitthvað í þeim lit. Látið hugmyndaflugið ráða för :)

  • Mánudagur - Gulur dagur
  • Þriðjudagur - Rauður dagur
  • Miðvikudagur - Grænn dagur
  • Fimmtudagur - Blár dagur
  • Föstudagur - Regnbogadagur

eigið góða helgi

kv. Allir á Lautinni

Vikan 22. mars - 26. mars 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan er búin að fljúga áfram og vor orðið í lofti að okkar mati og erfitt að ná krökkunum ykkar inn að borða og þau vilja alltaf fara út aftur að leika. Það hefur ekkert breyst!

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Tt-. Við erum svo heppin að einn gaurinn okkar á það málhljóð og fannst okkur það mjög spennandi. Sagan fjallar um krakka sem spila á hljóðfæri, týna túnfífla og stjörnurnar tindra á himninum. Við ræddum að sjálfsögðu um málhljóðið, klöppuðum orð sem byrja á því og kíktum í kassann góða.

BLÆR bangsi: Spjald vikunnar fjallaði um það að hjálpast að. T.d. að eldri hjálpa yngri og vinir hjálpa vinum og allir hjálpa öllum. Við ræddum líka um hvað kennararnir gera til að hjálpa þeim og þau stóðu nú á gati hvað varðar það. Fannst við greinilega ekkert hjálpsamar 😊 Eins ræddum við hvað tilfinningin er góð þegar við erum að hjálpa öðrum og hvar við finnum tilfinninguna. Mjög skemmtilegt að taka svona spjald fyrir, hafa það sýnilegt alla vikuna. Gaman að segja að við sjáum að þau er að taka þetta inn í leikinn sinn, t.d. að skiptast á leirdóti, rólum og hlutum í dúkkukrók, þannig við sjáum að þau eru að taka eitthvað inn og það gleður okkur.. Litlu hlutirnir er það sem er að gefa 😊

Leikvangur: Í þessari viku þá var þrautabraut í leiksalnum og slökun í lokin.

Smiðja: Í þessari viku var verið að vinna með Kúnna.. þau lituðu mynd af henni, töluðu um helstu hugtökin sem tengjast henni, t.d. hali, speni, fjós og fleira. Lærðu að mjólkin kemur frá kúnni og hún býr í fjósi. Það var líka verið að klára saumaverkefnið sitt.

Hópastarf: í þessari viku fórum við í aðeins öðruvísi hópastarf.

  • 2018 hópurinn ákvað að fara út í Salalaug að sækja listaverkin okkar, alltaf jafn gaman að fara með þau í gönguferð. Mikið spjallað og sungið saman. Tókum góðan hring og allir duglegir að labba.
  • 2017 hópurinn var að spila og leira í nokkra stund og svo kallaði góða veðrið á hópinn og skelltum við okkur út að leika.

Vettvangsferð vikunnar var frábær í alla staði. Við löbbuðum af stað á venjulegum tíma um 9.30 á miðvikudagsmorgun og ferðinni var heitið hringinn í kringum kirkjugarðinn. Við skoðuðum öll þau umferðarmerki sem við sáum og vorum svo heppin að það voru kröfur, valtarar og vinnumenn á ferðinni og gladdi það nokkur hjörtu. Þegar við nálguðumst „ræktartækin“ vorum við spurðar hvort það mætti stoppa á rólónum og þau fengu að leika þar alveg heillengi. Þegar við vorum lögð af stað aftur þá kom helling af unglingum úr Salaskóla og tóku framúr okkur. Einhver börn þekktu einhverja unglinga og ég veit ekki hverjir urðu glaðari, leikskólabörnin eða grunnskólabörnin 😊 Þegar heim var komið aftur þá lékum við í stóra garðinum og það var erfitt að ná krökkunum inn að borða hádegismat, því var samverustundin í styttra lagi.

Frjáls leikur: Hann er alltaf jafn skemmtilegur og höfum við reynt að gefa honum gott rými í skipulaginu okkar. Í vikunni var mikið leirað, púslað, litað, legokubbað, pleymóað og farið í leiksalinn þegar hann er laus. Þau eru alltaf jafn hissa á því að fara þangað inn og engin Kolla.. en finnst þetta auðvitað mjög skemmtilegt.

Í morgun var heljarinnar ávaxta/grænmetispartý hjá okkur. Þvílíkt sem þetta sló í gegn hjá krúttunum ykkar. Allir alsælir með það sem þau komu með og spenntir fyrir því sem hinir komu með. Það verður sko afgangur hjá okkur í kaffitímanum í dag. Takk kærlega fyrir okkur 😊

Við höfum verið úti alla seinni parta í vikunni og í þessari viku var ákveðið að um 16.00 á daginn þá fara börnin úr Austurgarði og yfir í þann stóra. Við erum öll orðið eitt sóttvarnarhólf núna og finnst okkur þetta jákvætt skref í rétt átt. Þannig við förum að færa okkur meira þangað næstu vikur.

Eigið góða helgi

Kveðja frá öllum á Lautinni


Vikan 15 febrúar - 19 febrúar

Heil og Sæl kæru foreldrar

Ein skemmtilegasta vika hjá börnum landsins að klárast og reyndum við að halda í okkar hefðir þrátt fyrir smá takmarkanir innan leikskólans. Við erum að verða ansi góðar að finna lausnir hérna í Fífusölum 😊

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Pp-. Við lásum söguna um hann Pálma sem býr á Patreksfirði. Við kíktum líka í kassann góða og þar voru heldur betur flottir hlutir, t.d penni, plastpoki, padda, púsl, plúskubbar og margt fleira. Við ræddum orðin, rímuðum þau, klöppuðum þau í atkvæði og töldum hvað þau eru mörg. Ekki átti neinn P-ið góða en allir Pabbarnir okkar eiga að sjálfsögðu málhljóð vikunnar. Við stungum líka uppá því að þau myndu biðja um POPP í kósýkvöldinu um helgina, annað hvort úr Potti eða Poka.. þannig að ef þau biðja um Popp.. þá vitið þið hvaðan það kemur 😊

BLÆR bangsi: Í Blæstundunum í þessari viku hefur verið rætt um hvað er að gerast á myndinni góðu T.d að skilja útundan og hvað er hægt að gera þegar við sjáum að það er verið að gera það og hvort við höfum verið skilin útundan. Eins ræddum við um það hvað er hægt að gera ef við viljum fá dót sem einhver annar er með. Í kjölfarið sköpuðust umræður um að leika saman og vera góð við hvert annað og það að skiptast á með leikföngin. Þau hafa mikið verið að skoða spjaldið sem hangir inni á deild hjá okkur og oft gaman að „hlera“ umræðurnar þeirra.

Hópastaf vikunnar

  • 2017 hópurinn var að spila og leika í kubbunum
  • 2018 hópurinn var að æfa sig að fylgja eftir línu, pússla, teikna formin, flokka risaeðlur og leika í frjálsum leik í lokin.

Leikvangur: Að þessu sinni voru þau í leikjum, þar þurfa þau að fylgja fyrirmælunum frá Kollu, þau voru t.d. í Björn bróðir, para saman litapúða í húllahringi (sömu liti) og fleira.

Smiðja: Í vikunni voru þau að sauma út. Ótrúlega spennandi og fannst mörgum þetta mjög spennandi. Í lokin var frjáls teikning og myndin endaði í skúffunni þeirra.

Vettvangsferð vikunnar féll niður vegna Öskudagsins og því sem var í gangi þá.

Hitt og þetta

Annars höfum við verið mikið úti að leika okkur í góða vorveðrinu sem hefur heiðrað okkur með nærveru sinni síðustu dagana. Það er alltaf jafn gott að komast út í lok dagsins og losa um uppsafnaða orku. Við vorum líka að teikna mynd af mömmunum okkar í tilefni konudagsins á sunnudaginn. Þau teiknuðu mynd og sögðu hvað þau myndu gera með mömmunum sínum 😊 Krakkarnir óskuðu eftir gulum leir og varð Lilja við ósk þeirra þannig það hefur verið leirað og leirað með fína leirnum okkar í þessari viku.

Smá af öðruvísi dögunum okkar...

Bolludagur - Boðið var uppá fiskibollur í hádegismat og rjómabollur í kaffinu. Það var líka brauð í boði, því það vildu ekki allir fá sér bollur meðan aðrir vildi meira og meira af þeim.

Sprengidagur - Það var einhver smá misskilningur með þennan dag hjá þeim, þau voru öll með það á hreinu að það ætti að sprengja flugelda.. og til að geta gert það þá þyrftum við leyfi hjá Lögreglunni. En þau voru nú öll sátt við að það ætti bara að borða mikinn mat þannig bumban myndi springa.

Öskudagur - Hér var sko stuð á öskudaginn. Það var í boði að koma í náttfötum í leikskólann. Það var náttfataball á Læknum, Hvolpasveitarbíó og rúsínur á Lautinni og leikur í gangi frammi á gangi. Ótrúlegt stuð! Gangurinn skreyttur hátt og lágt og allir í rokna stuði. Eftir gómsæta pizzu ala Barbara þá lögðum við okkur í notalega hvíld í náttfötunum okkar. Þegar við vöknuðum, þá voru Nanna og Lilja tilbúnar með penslana og þeir sem vildu fá eitthvað fallegt framan í sig þeir máttu velja sér mynd. Það voru því nokkrar furðuverur sem fóru heim í lok dagsins, t.d. Spiderman, Regnbogar, Drekar, Mikki Mús, fótboltakönguló, Hjartastelpa og eitthvað fleira. En það var ansi gott að komast út að leika í lok þessa dags, spennustigið var frekar hátt allan daginn 😊

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni



Vikan 8. febrúar - 12. febrúar 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan hefur heldur betur flogið frá okkur og enn og aftur kominn föstudagur. Þessa vikuna hafa einhverjar leiðindapestir herjað á okkur. Það virðist því miður vera allt í gangi t.d. ælupest, hlaupabóla, hiti og kvef. Við sendum þeim sem eru ennþá heima stórt knús og hlökkum til að sjá þau sem fyrst.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Oo- .. eitthvað hefur verið erfitt að finna orð sem byrja á þessu en það sem stóð uppúr var Ormur, Olga, Oddur, Olnbogi, Olía, Otur og Ostur, við höfum rætt þessi orð fram og til baka, merkingu og önnur samheiti þeirra. Eins höfum við fundið rímorð við O-orðin okkar sem gekk ansi skrautlega. Ekki var neitt barn sem átti bókstafinn í þessari viku og við heyrðum ekki um neina foreldra eða ömmur og afa sem eiga það.

BLÆR bangsi: Að þessu sinni vorum við að tala um það hvað hugrakkur félagi gerir. Þegar einhver gerir eða segir eitthvað við vini okkar og hvað er gott að hjálpa þá vininum og segja frá því hvað er að gerast. Eins ræddum við um hvernig tilfinningin er þegar það er verið að gera eitthvað við okkur, t.d. taka af okkur dót, hvernig okkur líður þá. Þau eru að verða sífellt flinkari við þetta og við sjáum alveg mun á þessum stundum hjá okkur, hvað umræðan er að verða meira. Við tókum þá ákvörðun að setja alltaf spjald vikunnar inná facebook hópinn okkar þannig þið vitið hvað er til umræðu hjá okkur.

Hópastarf:

  • 2017 börnin voru að spila „hver á, ég á“ spilið og að leika í legokubbunum
  • 2018 börnin voru að spila minnisspil, flokka risaeðlur og leika í holukubbunum

Vettvangsferðin féll niður að þessu sinni en við vorum að leika úti í snjónum í „stóra“ garðinum okkar í staðinn. Snjórinn vakti mikla kátínu og krakkarnir voru á fullu að búa til snjókarla og snjókerlingar og njóta þess að leika sér úti.

Leikvangur: Að þessu sinni var þrautabraut og voru krakkarnir að æfa sig að fara upp og niður bekkina, príla í rimlunum fleira spennandi. Í lokin á tímanum var slökun.

Smiðja: Það var verið að klára bolluvendina góðu og eftir að það var búið var smellt í eina vatnslitamynd.

Umhyggja: Þar sem það hafa verið veikindi hjá okkur þessa vikuna, bæði á börnum og starfsfólki þá höfum við rætt um það hvaða börn vantar og hvaða kennara vantar líka. Þau eru alltaf jafn fljót að fatta hverjir eru fjarverandi þann daginn og vilja auðvitað vita hvað er að þeim. Við höfum að sjálfsögðu verið að hugsa til þeirra sem eru veikir hverju sinni, t.d. með því að loka augunum og senda þeim fallegar hugsanir, knús, ljós í hjartað og fingurkossa. Svo þegar viðkomandi mætir aftur, þá kemur spurningin "varstu veik/ur?, fannstu hugsanirnar?" :) Ekkert smá umhyggjusöm þessir snillingar. 

Frjáls leikur og margt fleira: Annars hefur vikan flogið í burtu enda alltaf nóg að gera, frjáls leikur á svæðum bæði inni á deild og á ganginum og að sjálfsögðu úti líka. Við sjáum enn og aftur framfarir í félagslegum leik þeirra á milli, þau eru sífellt að þróa leikinn sinn og sjáum við alveg yfirfærslu á því sem er að gerast heima við hérna hjá okkur. Hér eru margar mömmur að störfum og nokkur börn, einhverjir eru veikir og aðrir eru í vinnunni 😊 þau eru svo flott þessir krakkar okkar. Við höfum klárað flesta daga úti að leika okkur og er alltaf jafn gott að komast út eftir kaffitímann.

  • Í næstu viku (sem er ein skemmtilegasta vika ársins) eru bolludagur, sprengidagur og öskudagur

Bolludagur: Fiskibollur í hádegismat og rjómabollur í kaffinu

Sprengidagur: Saltkjöt og baunir þangað til við getum ekki meira

Öskudagur: Náttfatadagur í leikskólanum, leikskólinn skreyttur og gerður kósý

  • 9:15 - Ball hjá yngri gangi (á deildinni Lækur)
  • 9:30 ca - Kósý yfir þætti í smá stund (rúsínur í boði yfir myndinni)
  • Opið milli deilda og á ganginum og hægt að gera það sem við viljum bæði á meðan á bíó-inu stendur og eftir það.
  • Andlitsmálun
  • Heimabökuð pizza í hádegismatinn og útivera í lok dagsins.

Eigið góða helgi

kv. Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 1. febrúar - 5. febrúar 2021

Vikan er búin að fljúga áfram og febrúar runninn upp og allir að njóta þess að vera til. Hér er eins og alltaf stiklað á stóru úr vikunni sem er að líða. 

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Ii/Yy- Við erum svo heppin að það er skvísa hjá okkur sem á I-ið og vissi hún allt um það 😊 eins eru foreldrar sem eiga I-ið og ömmur og afar eins og alltaf 😊 Það er alltaf jafn gaman að læra Lubba lögin okkar og skoða í kassana. Það var örlítið erfiðara að finna orð sem byrja á þessu málhljóði núna en aðrar vikur, en orðin indæll, inniskór, ilmur, ilmandi og yddari stóðu svolítið upp úr þessa vikuna. (ef börnin tala um að maturinn ilmi vel, þá vitið þið hvaðan það kemur) 😊

BLÆR bangsi: Það voru 2 Blæ stundir í vikunni (á mánudag og föstudag). Að þessu sinni skoðuðum við myndina af því þegar 4 krakkar eru að leika saman, 3 eru saman í hóp og 1 er að leika fyrir utan hópinn. Við ræddum í kjölfarið um það að það á ekki að skilja útundan og að hvernig þeim sem er skilinn útundan líður. Þau fengu nokkrar spurningar til að svara og gekk það auðvitað misvel.  Við ákváðum að fjölfalda myndina og hengja hana upp og þau hafa verið dugleg að skoða hana og ræða hana hvert við annað og okkur kennarana.

Hópastarf og önnur verkefnavinna: Tannverndarvikan hefur verið alls ráðandi í leikskólanum og í vikunni vorum við mikið að ræða um hollan og óhollan mat og hvað óhollur matur er vondur fyrir tennurnar okkar og hvað það er mikilvægt að tannbursta tennurnar vel kvölds og morgna og að foreldrarnir eiga alltaf að tannbursta líka. Eins vorum við að raða hollum og óhollum mat á glaðar og fúlar tennur. Báðir hópar teiknuðu óhreinindi á tennur og tannburstuðu þau síðan í burtu. Eftir verkefnið var frjáls leikur með vinum sínum. Við fengum líka lánaðan tanngóm á Tannlæknastofu Elfu Guðmundsdóttir (Salavegi 2) hérna hjá Nettó og fengu krakkarnir að æfa sig með tannburstann og tannþráðinn. Við erum henni mjög þakklát að hafa tekið þátt í þessu með okkur.

Vettvangsferð vikunnar var í tveimur hópum. Við kennararnir erum að safna kílómetrum þessa dagana og tókum við því árgangana í sitthvoru lagi út í Salalaug að hengja upp stórglæsilegu listaverkin sem við höfum verið að vinna að undanfarna daga. 2018 hópurinn fór með nokkrum vinum af Læknum en 2017 börnin fóru ein. Myndirnar voru hengdar upp og þau svo stolt af sinni mynd. Mæli með að kíkja 😊

Leikvangur: Þar var þrautabraut og fleira skemmtilegt sem eykur úthald, kjark og þor.

Smiðjan: í tilefni af tannverndarvikunni þá bjuggu krakkarnir til munn, þau límdu tungu á blað og klipptu út tennur sem þau límdu síðan niður á blaðið. 

Dagur leikskólans: Í tilefni af degi leikskólans þann 6. febrúar var „opið flæði“ á ganginum í morgun, en það þýðir allar hurðar opnar og það má finna verkefni á öllum deildum. Bara eftir því hvað grípur áhuga þeirra. Þetta var ótrúlega spennandi og gerum við greinilega ekki nógu mikið af þessu. Þeim fannst gaman að hitta vini af öðrum deildum og kíkja á annað dót.

Allir dagar hafa verið kláraðir úti og eru krakkarnir alltaf jafn ánægðir með það, þau eru svo miklar útiverur og frjálsi leikurinn og ímyndunaraflið nýtur sín svo vel úti í hinum og þessum leikjunum.

Eigið góða helgi 

Kv.  Allir á Lautinni

Vikan 25. janúar - 29. janúar 2021

Heil og sæl kæru foreldrar

Þessi vika er búin að fljúga áfram og allt gengur vel á Lautinni. Hér er smá af því besta sem við höfum verið að brasa í vikunni 😊

Lubbi finnur málbein: Málhljóðið -Ss- er búið að vera alls ráðandi í vikunni, bæði eiga nokkur börn það hljóð sem og einn kennarinn okkar. Ásamt því að við höfum heyrt um foreldra, ömmur, afa og frændfólk sem eiga Ss - ið góða 😊 Við höfum fundið nokkur orð sem byrja á því, þar má nefna sög, skrúfur, sæhesta, sjórinn, spítur, svín, sól og margt fleira. Við höfum eins og alltaf klappað helling af orðum í atkvæði sem og kíkt í orðakassann góða.

Blær Bangsi: Við tókum 2 Vináttu stundir í vikunni. Börnunum finnst svo gaman að knúsa bangsann sinn og syngja fyrir hann. Við vorum að lesa söguna „Stopp“ aftur og æfa þau í að segja frá þegar einhver er að gera eitthvað á þeirra hlut og ef einhver er að gera eitthvað sem þau vilja ekki að viðkomandi geri. (þið heyrið eflaust „stopp“ reglulega heima 😊 Eins vorum við að lesa söguna um að vera góður vinur og hvað góður vinur gerir þegar einhver meiðir sig :)

Hópastarf vikunnar var á mánudaginn. 

  • 2017 hópurinn var að spila -Ss- spilið okkar og para saman tölustafi og fjölda, svo voru þau í einingakubbunum að leika líka.
  • 2018 hópurinn var að æfa sig með litina (bæði teikna og segja litanöfnin, para saman rauðan og rauðan og fleira). Eins æfðum við okkur með formin, bæði að teikna þau og para þau saman. Síðan var frjáls leikur í dúkkukróknum á ganginum

Gaman að segja frá því að hóparnir hafa þroskast mjög mikið frá því í upphafi, þá var rétt hægt að setjast niður og vinna örlítið og stunum ekki neitt en núna vilja þau bara meira og meira og framfarir vel sjáanlegar. Ekkert smá flottir krakkar sem við eigum 😊

Leikvangur: Í þessari viku var verið í þrautabraut og eltingarleik, alltaf jafn gaman þar inni.

Smiðja: í þessari viku var byrjað  á Bolluvöndunum í tilefni Bolludagsins :) 

Vettvangsferð: Við löbbuðum upp að klifurgrindinni við endann á Blásölunum í ferðinni okkar. Þar róluðum við, príluðum við og veguðum í smá stund. Eða þangað til vindurinn blés orðið aðeins of kalt í kinnarnar okkar. Við fórum þá á Hvammsvöllinn góða og lékum þar í smá stund. Eftir að þeim leik lauk, þá löbbuðum við í leikskólann aftur. Kíktum á gluggana og sáum við krakkarnir á Læk voru að gera (vakti mikla lukku hjá öllum) og fórum síðan í „stóra“ garðinn að leika okkur.

Frjáls leikur og verkefnavinna: Inni á deild höfum við verið að vinna að listaverki sem verður hengt upp úti í tilefni dags leikskólans sem er þann 6. febrúar n.k. Við höfum líka verið að æfa okkur í að klippa og auðvitað leirað, litað, kubbað (með alls konar kubbum, pleymóað, leikið með dýrin og farið fram í holukubba og dúkkukrók. Dásamlegt að sjá hvað mikil vinátta er að myndast hjá krökkunum og hvað samleikurinn eykst í hverri viku hjá þeim.

Útivera: Við höfum farið út eins mikið og hægt er vegna kulda. En þegar við förum ekki út eftir kaffi þá erum við á svæðum inni á deild og á ganginum. Svo kl. 16.00 þá sameinast deildirnar á yngri gangi á ganginum og leika saman þar.

Samverustund: Þau eru alltaf jafn upptekin af leiknum okkar þar sem dótið hverfur en í þessari viku gengum við skrefinu lengra og fórum í „Hver er undir teppinu leikinn“. Það fannst þeim skemmtilegt! Og við hlökkum til að halda því áfram næstu vikurnar 😊

Í næstu viku er í boði að koma aftur með vatnsbrúsa í leikskólann. Hann verður að vera vel merktur og hann er hér alla vikunna en fer heim á föstudögum í þvott hjá ykkur.

Í næstu viku verður lika tannverndarvika í leikskólanum og veður þá rætt um hollan mat og óhollan mat og hvað óhollur matur gerir tönnunum okkar.

Eigið góða helgi með krúttunum ykkar

Kv.  Allir á Lautinni

Vikan 18. janúar - 22. janúar 2021

Heil og Sæl Kæru foreldrar

Þá er góð vika að klárast og allir hafa bara skemmt sér mjög vel í vikunni.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Ff- og tók það smá tíma að ná hreyfingunni sem fylgir því, en það hafðist nú hjá flestum undir lok vikunnar. Lagið var að sjálfsögðu sungið nokkrum sinnum sagan lesin á hverjum degi og kíkt í Lubba kassann góða þar sem er hellingur af hlutum sem byrja á -Ff-, þar má nefna fjarstýring, fiðrildi, fáni. Við fundum líka nokkur orð sem byrja á -Ff- og ræddum þau aðeins og auðvitað klöppuðum við í atkvæði.

BLÆR bangsi: Það voru 2 Blæstundir í vikunni. Í fyrri stundinni var sagan „hjálpast að“ lesin en hún snýst um það að hjálpa öðrum (eldri hjálpa yngri). Í þeirri seinni var sagan „stopp“ lesin. En hún snýst um það að ef einhver vill ekki láta gera eitthvað við sig þá á að segja stopp og viðkomandi á að hætta. Það var sýndur smá leikþáttur í kjölfarið um það hvernig á að gera hlutina 😊

Hópastarf vikunnar: Það var hópastarf hjá báðum hópum á mánudagsmorguninn.

  • 2017 hópurinn var í Numicon stærðfræðispilinu og í leik í holukubbunum á ganginum
  • 2018 hópurinn var í verkefnum tengdum formum, litum, minnisspili og frjálsum leik í einingakubbunum

Leikvangur: Það var þrautabraut og heilsubókarskráningar í salnum okkar og skemmtu allir sér mjög vel.

Listasmiðja: í þessari viku voru krakkarnir að vinna að Víkingahjálmunum sínum sem þau notuðu síðan á Þorrablótinu í dag.

Vettvangsferðin okkar var ansi skrautleg eins og þið lásuð vonandi um í grúbbunni okkar. En við löbbuðum lengri hringinn í kringum Salaskóla. Það hittu ansi mörg börn stóru systkini sín og var grátið talsvert þegar það var verið að kveðja þau aftur. Það jöfnuðu sig allir eftir þetta og þegar við vorum komin í leikskólann aftur, mundi enginn afhverju þau höfðu verið að gráta og skemmtu sér stórvel í stóra garðinum okkar.. en við höfðum hann útaf fyrir okkur 😊

Útivera vikunnar: Við erum búin að fara út að leika okkur eftir kaffi alla vikuna, það er alltaf jafn gott að komast út eftir daginn og anda að sér góðu lofti. Á fimmtudaginn þá voru endurskinsmerki hengd í trén í garðinum og mynd af hverju barni með merkjunum. Þau áttu semsagt að finna sitt merki og reglurnar voru skýrar, það átti bara að finna sitt, ef þau fyndu eitthvað annað, þá áttu þau að sleppa því og halda áfram að leita að sínu. Það gekk ótrúlega vel og mörg þeirra eldri hjálpuðu svo þeim yngri að finna sín merki (kannski er Blær að skila einhverju) 😊 allir mjög spenntir og glaðir með þetta verkefni okkar.

Þorrablót: í dag var Þorrinn haldið hátíðlegur í leikskólanum. Einhver börn mættu í ullarsokkum og peysum en önnur ekki og sumir kennararnir steingleymdu þessu líka 😊 Það var þorramatur í hádeginu og fengum við hangikjöt, slátur, hrútspunga, sviðasultu og að sjálfsögðu hákarlinn góði! Það smökkuðu flest börnin allan matinn en svona mismunandi hvernig þeim fannst hann! Í gaman saman á eftir verða Þorralögin sungin og rætt um gamla tíma.

Við höfum haldið áfram að lesa um hana Bínu Bálreiðu, þau eru alltaf jafn spennt fyrir henni og ef þau fá að velja bók að lesa, þá er hún yfirleitt alltaf oft nefnd. Eins höfum við haldið áfram í „leiknum góða“ hvað er horfið sem við sögðum frá í síðustu viku. Þau eru orðin SVO góð í þessum leik okkar og förum við alveg að flækja hann meira. Í þessari viku bættum við því að það þurfti að segja viðeigandi lit (t.d. gula töngin er horfin eða bleika perlan er horfin).

Leikur á deildinni: Við höfum bæði verið í smá verkefnavinnu (spilum, pússlum, leir og plúskubbum) sem og frjálsum leik í vikunni. Gaman að segja frá því að úthaldið þeirra er að aukast heilan helling í borðvinnu og mörg hver farin að rúlla upp mjög flóknum pússlum (endilega prófið heima um helgina) og að samleikur þeirra er að aukast og ímyndunarafl þeirra í samleik er orðið spennandi (t.d. einn er veikur og þá þarf að hringja í lækni, eða einhver er svangur og mamman þarf að fara í búðina).

Við höfum mikið verið að prófa það að setjast á wc og reyna að pissa, mörg stór skref hafa verið stigin í vikunni og förum við mjög stoltar inn í helgarfríið 😊 EF barnið kemur heim með stimpil, þá hefur það sest á klóið eða pissað í það.

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni

Vikan 11. janúar - 15. janúar 2021

Heil og Sæl kæru foreldrar

Af okkur á Lautinni er allt gott að frétta, skipulagt starf dottið í gang og allir kátir :)

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Gg- Það er Lubbastund 1x á dag hjá okkur og hún er alltaf eins uppbyggð. Sagan er lesin, lagið er sungið og við finnum orð sem byrja á málhljóðinu sem um ræðir. Við kíkjum í Lubbakassann og klöppum í atkvæði.. endilega spyrjið krakkana út í G-ið góða um helgina. Við vorum líka ótrúlega heppin að fá GrjónaGraut í vikunni (passaði vel við starfinn okkar) :)

Blær bangsi: Það var ein stund með honum Blæ í þessari viku. Þar var sagan um vináttuna lesin og rætt um það hvað vinir gera og og hvað það felst í því að vera vinur. Þar má nefna nokkra hluti sem komu upp, t.d. skiptast á, hugga, knúsa og leika ¿¿ allir svo einlægir og flottir!

Á mánudaginn fyrir hádegið þá fórum við í hópastarf. Það var svo útivera eftir kaffi

  • Í hópastarfi var 2017 hópurinn að ríma orð, klappa í atkvæði, draga eftir línu, para saman og pinna
  • Í hópastarfi var 2018 hópurinn í Numicon stærðfræði spilinu, þar sem litirnir voru ræddir fram og til baka. Við lukum hópastarfinu í frjálsum leik í dúkkukróknum

Á þriðjudaginn var leikvangur hjá henni Kollu, það var þrautabraut og leikir þessa vikuna og fóru allir hópar til hennar og margir komu ansi sveitt til baka! Endilega munið eftir því að hafa þau í sokkum á þriðjudögum. Inni á deild var verið að leira, leika með eldhúsdót og kubba með kaplakubbunum okkar. Það var svo útivera eftir kaffi

Á miðvikudaginn fórum við út að leika okkur fyrir hádegið, það var heldur betur fjör að hoppa og skoppa í öllum pollunum í Austur garðinum okkar. Það komu ansi margir blautir inn! Því jú sumum finnst skemmtilegra en öðrum að sulla. Eftir kaffitímann þá vorum við inni að leika okkur og við vorum á svæðum að leika okkur.

Í  gær fimmtudag þá fórum við í smiðjuna til Nönnu, þar var verið að gera tilraunir með rafmagn (að nudda ull við blöðru og sjá hvað gerist). Það er var líka verið að mála og stimpla. Inni á deild var verið að leika í eldhúsdótinu, að leira og æfa sig að skrifa tölustafi og form. Eftir kaffi þá vorum við inni þar sem garðurinn var mjög háll og djúpir pollar út um allt.

Í dag föstudag vorum við að leika á svæðum, það var t.d. verið að leika í búningunum, leira, leika í holukubbunum, leika með pleymó, pússla, þræða og margt fleira. Það var svo gaman saman rétt fyrir kaffitímann og útivera eftir kaffi

  • Við höfum mikið verið að lesa Bínu Bálreiðu í þessari viku, en hún er að kenna okkur hvernig á að sitja kyrr, passa hendurnar, hlusta, skiptast á, bíða og muna. Krakkarnir eru mjög áhugasöm um þessa bók og biðja um hana nánast á hverjum degi.
  • Við höfum líka verið að leika nýjan leik.. en hann er þannig að það fara nokkrir hlutir undir teppi og svo er alltaf einn hlutur tekinn og þau eiga að segja hvaða hlutur hvarf. Þau mega ekki segja frá því hvað hvarf fyrr en það er búið að segja nafnið þeirra og bara einn í einu! Þetta er erfitt en við erum að æfa okkur :) þetta reynir á einbeitningu, athygli og þolinmæði og það sem best er, þeim finnst þetta mjög skemmtilegt 

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni


Vikan 5 jan - 8 jan 2021

Heil og sæl kæru foreldrar

Þá er fyrsta vikan á nýju ári að klárast og allir hressir og kátir eftir ágætis frí. Það voru allir greinilega mjög glaðir að hitta vini sína og voru fagnaðarlætin ansi mikil á köflum. Greinilegt að flestum fannst gott að komast í rútínuna sína aftur.

Við byrjuðum með trompi á þriðjudaginn og fórum í leikvang til hennar Kollu að hreyfa okkur og hafa gaman. Inni á deild vorum við að leika okkur að perla, púsla, leika með eldhúsdótið og fleira. Eftir hádegismat og hvíld lékum við okkur á ganginum og fórum svo út eftir kaffitímann. Við áttum líka afmælisprins þennan dag. Gaurinn varð 4 ára og bauð hann krökkunum upp á saltstangir í tilefni dagsins. Innilega til hamingju með daginn elsku vinur og fjölskylda.

Á miðvikudaginn fórum við út að leika okkur fyrir hádegismatinn og vorum við í „stóra garðinum“ í þetta skiptið. Það voru ekki allir tilbúnir að koma inn að borða, það var svo gaman úti að leika. Eftir mat, hvíld og leik, þá fórum við aftur út að leika okkur.

Í gær, fimmtudag, þá fórum við í smiðju fyrir hádegið, þar var t.d. verið að þæfa ull. Inni á deild var t.d. verið að leika með kaplakubbana, eldhúsdótið og púsla. Eftir matt, hvíld og kaffi þá lékum við aðeins inni á deild og fórum svo út, útiveran var í styttri kantinum að þessu sinni þar sem það var ansi kalt úti.

Í dag föstudag vorum við að leika okkur inni fyrir hádegið, 2017 börnin voru frammi að þræða, leika í holukubbum, leika með lestina og fleira. Aftur á móti  voru 2018 að leika með kaplakubbana, búningana, eldhúsdótið og fleira. Við reiknum svo með því að fara út að leika eftir kaffitímann.

Í næstu viku byrjar skipulagt starf að öllu leyti en þá kemur Lubbinn okkar úr löngu og góðu jólafríi, þau eru mörg hver mjög spennt að hitta hann aftur og alveg á hreinu að það er Málhljóðið G 😊

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni 

Vikan 21. desember - 23. desember 2020

Sælir kæru foreldrar

Vikan hefur verið ótrúlega róleg hjá okkur á Lautinni. Höfum verið mikið úti að leika okkur í þessu dásemdarverði sem hefur heiðrað okkur með nærveru sinni undanfarna daga. Allt skipulagt starf féll niður í vikunni og hefst ekki aftur fyrr en 5. janúar 2021.

Á mánudaginn eftir morgunmat, leik og samveru þá fórum við út að leika okkur, veðrið lék við okkur og börnin nutu þess út í ystu æsar að vera EIN að leika í öllum stóra garðinum okkar. Váiii hvað þeim fannst það gaman. Rétt náðum inn í hádegismatinn og það voru ekki allir tilbúnir að koma inn 😊 eftir hvíld og leik á ganginum, þá var kaffitími og eftir hann fórum við aftur út að leika okkur.

Í gær þriðjudag, þá fórum við í hópum í leikvanginn að hreyfa okkur, alltaf jafn gaman þar inni í að hoppa og skoppa. Þeir sem voru ekki í leikvang voru í frjálsum leik inni á deild á meðan. Eftir hádegismat, hvíld og leik, þá fengum við okkur smá brauð í kaffitímanum og eftir það fórum við út að leika okkur.

Í dag miðvikudag (Þorláksmessu), þá lékum við  saman í frjálsum leik fram að hádegismat. Eftir saltfisk og skötu þá fórum við í hvíld og eftir hana þá lékum við á ganginum og höfðum það notalegt með börnunum á Lind og Læk. Við ætlum svo út að leika okkur eftir kaffitímann og klára daginn úti.

Við á Lautinni óskum ykkur gleðilegra jóla og þökkum fyrir árið sem er að kveðja okkur.

Jólakveðja

Allir á Lautinni

Vikan 14. des - 18. des 2020

Góðan daginn kæru foreldrar

Þá er síðustu heilu vikunni fyrir jól að ljúka og spennustigið orðið ansi hátt hjá sumum 😊 Þessi vika hefur verið ansi spennandi og eru allir farnir að tala mikið um jólin, jólasveinana og jólapakkana.

Á mánudaginn vorum við inni að leika okkur á svæðum fyrir hádegi, það var t.d. verið að leika í eldhúsdótinu, búningunum, lita og kubba. Þennan dag var jólatréð sett upp í matsalnum og var frábært að sjá stóru augun fylgjast með því, sérstaklega þegar serían fór á það 😊 eftir hádegismat, frjálsan leik á ganginum og kaffitíma, þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn þá fórum við í leikvanginn til hennar Kollu, þar var þrautabraut og er frábært að sjá framfarirnar sem eru búnar að vera á önninni. Það var líka verið að skreyta jólatréð, en allir krakkarnir bjuggu til sitt skraut, þau völdu sér stað á trénu og hengdu það upp sjálf. Þau tóku verkefnið mjög alvarlega og einbeitningarsvipurinn skein af þeim. Inni á deild var verið að leika í frjálsum leik. Eftir hádegismat, leik á ganginum og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn var stór dagur hjá okkur. Litlu jólin okkar voru haldin hátíðleg, börnin mættu prúðbúin og spennt og var frábært að sjá hvað allir voru duglegir að dansa í kringum jólaballið og syngja hásöfum. Það var hangikjöt, kartöflur og jafningur ásamt meðlæti í matinn og hápunkturinn.. ÍS í eftirmat!! Það sló  heldur betur í gegn 😊 Eftir góða hvíld þá lékum við á ganginum og eftir kaffitímann þá fórum við út að leika.. allt í einu birtust jólasveinar í garðinum okkar og trölluðu með okkur í smá stund.

Í gær fimmtudag, þá var smiðja hjá Nönnu. Það fóru ekki allir að þessu sinni í smiðjuna, heldur bara þeir sem áttu eftir að klára verkefni þar inni. Hinir voru að leika á svæðum og svo var líka í boði að fara út að leika. Eftir hádegismat, leik og kaffitíma fórum við út að leika okkur.

Í dag föstudag, skelltum við okkur út í myrkrið og lékum okkur lengi í stóra garðinum okkar.. við áttum garðinn útaf fyrir okkur og nutu krakkarnir þess að leika þar næstum því of lengi bara. Það voru fáir tilbúnir til að fara inn að borða, vildu bara vera lengur úti í blíðunni. Eftir hádegismatinn, þá verður smá hvíld og svo leikur á ganginum og svo verður gaman saman þar sem verður kveikt á síðasta aðventukertinu, sem heitir „Englakerti“. Eftir kaffitímann þá ætlum við aftur út að leika okkur.

Í næstu viku verður ekkert skipulagt starf hjá okkur, enda bara 3 dagar sem leikskólinn verður opinn og við ætlum að reyna að halda öllum rólegum.. hlustum á jólalög, leikum í frjálsum leik og förum út að leika okkur. Jólaskrautið sem krakkarnir hafa verið að skapa í leikskólanum fer svo heim í næstu viku 😊 við tímum ekki að senda það heim alveg strax! :) 

Njótið helgarinnar 

Bestu kveðjur

Allir á Lautinni :)

Vikan 7. des - 11. des 2020

Heil og Sæl kæru foreldrar

Af okkur er allt gott að frétta, við njótum hvers dags og hlökkum orðið mikið til jólanna og alls þess sem þau hafa upp á að bjóða.

Á mánudaginn þá vorum við inni fyrir hádegið, við vorum að leika í hópum, skiptum okkur upp í 3 hópa og vorum að leika okkur saman. Það var t.d. verið að klippa, þræða, leika í búningum, plús kubbum, pússla og margt fleira. Eftir hádegismat og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á þriðjudaginn þá fórum við í leikvang að hreyfa okkur hjá henni Kollu. Þar var þrautabraut og heilsubókarskráning í gangi og skemmtu allir sér vel eins og alltaf. Margir sem komu sveittir þaðan (mæli með að vera í sokkum á þriðjudögum, ekki sokkabuxum). Inni á deild var verið að leika í kubbum, búningum. Það var líka verið að búa til jólasveina, þá var höndin stimpluð á blað og svo settu þau augu og dúsk á það og úr varð jólasveinn! Þeir eru svo sætir 😊 Eftir hádegismat og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á miðvikudaginn þá slepptum við vettvangsferðinni, það var svo mikið myrkur úti og svo hált á gangstéttinni, þannig við treystum okkur ekki út í myrkrið. Við vorum aftur á móti inni að leika okkur í tveimur hópum (2017 saman og 2018 saman). Það var líka verið að klippa út jólatré sem á svo að mála og skreyta. Eftir hádegismat og kaffitíma þá fórum við út að leika okkur.

Á fimmtudaginn þá var smiðja og voru snillingarnir ykkar að búa til jólaskraut þar inni. Inni á deild var líka verið að leika í búningunum og kubbunum ásamt því að jólatrén sem þau klipptu á miðvikudag voru máluð græn.. einhverjir vildu nú hafa þau bleik, því bleikur er jú besti liturinn en við komum okkur saman um það að jólatré væru yfirleitt græn og þau létu sig hafa það. Eftir hádegismat og kaffitíma var leikið inni á deild og á ganginum því það var svo mikil hálka í garðinum okkar að við treystum okkur ekki út að leika.

Í dag föstudag þá vorum við í hópunum okkar að leika, 2017 saman og 2018 saman. Báðir hópar gerðu sömu verkefnin, annars vegar að leika í holukubbunum og inni á deild með dýrin, bílana og sívinsælu búningana okkar. Það voru líka allir að skreyta jólatrén sem við erum búin að vera að vinna í síðustu daga. En krakkarnir límdu þá á blað og skreyttu að eigin vali. Eftir hádegismat og frjálsan leik á ganginum þá verður gaman saman með Lindinni og Læknum, þar verða sungin nokkur jólalög og kveikt á aðventukransinum okkar 😊 Eftir kaffitímann þá ætlum við út að leika okkur í garðinum okkar.

Næsta vika verður spennandi, þá verður jólatréð sett upp á mánudaginn, skreytt á þriðjudaginn og jólaballið verður svo á miðvikudaginn (þá væri gaman ef börnin gætu komið í betri fötunum sínum), eftir kaffið munum við fara út að leika okkur og jafnvel eigum við von á óvæntum gest til okkar að sprella með okkur út í garði. Börnin vita ekkert af þessari heimsókn og væri gaman að hafa það þannig áfram.

Minni að lokum á könnunina sem Erla Stefanía sendi í gær 😊

Eigið góða helgi

Bestu kveðjur. 

Allir á Lautinni


Vikan 30. nóvember - 4. desember 2020

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikurnar fljúga skuggalega hratt og jólin rétt á næsta leyti. 

Við njótum þess að vera í jólaundirbúningi og skilum við krökkunum reglulega af okkur, bæði með glimmer hér og þar sem og málningu á fingrunum. Gaman að segja frá því að málörvunarhóparnir byrjuðu aftur í vikunni.

Vikan hefur einkennst af frjálsum leik og skapandi starfi þar sem kuldinn hefur ekki boðið upp á mikla útiveru! Því miður.. eins og börnunum ykkar finnst gaman úti að leika. Það var búinn til agalega flottur rauður glimmer jólaleir fyrir okkur í þessari viku og hann sló heldur betur í gegn! Allir til í að leira helling. Við vorum aðeins að leira bókstafina okkar, tókum niður Lubba beinin og hermdum eftir þeim, það var mjög áhugavert.

Við höfum nánast bara sungið jólalög í vikunni, erum að æfa okkur fyrir jólaballið þar sem jólalögin verða sungin hástöfum :)

Á mánudaginn þá fórum við út með 2018 hópinn fyrir hádegið, við vorum útí austurgarði að leika okkur og nutu þau sín í botn ein í garðinum að þessu sinni. 2017 hópurinn var inni að mála á jólakúlur og leika sér í frjálsum leik. Eftir mat, hvíld og kaffi þá fórum við aftur út að leika okkur.

Á þriðjudaginn þá var leikvangur hjá öllum hópum, þar var farið í þrautabraut og heilsubókarskráningar. Inni á deild voru líka málaðar jólakúlur sem við ætlum að setja á jólatréð þegar það fer upp. Sumir máluðu aftur, aðrir máluðu fyrstu umferð og þeir sem vildu setja glimmer gerðu það.. en það mikilvægasta... allir fengu að hafa skoðun á sínum kúlum. Við vorum líka í frjálsum leik inni á deild. Eftir hádegismat, leik ganginum og kaffitíma, þá fórum við á svæði og lékum okkur saman.

Á miðvikudaginn þá fórum við út að leika okkur fyrir hádegið, ákváðum að klæða okkur vel og skella okkur aðeins út því það hljómaði eins og kuldinn yrði það mikill í vikunni að við færum ekkert meira út að leika okkur. Það voru rauðar kinnar sem komu inn eftir útiveruna en allir svo kátir að hafa komist aðeins út að leika. Eftir hádegismat, leik á ganginum og kaffitíma þá var frjáls leikur inni á deild í boði og börnin völdu sér svæði til að leika á.

Í gær fimmtudag, þá var smiðja hjá öllum hópum, þar var verið að mála og jólast á fullu 😊 Við vorum líka að leika að leira á fullu inni á deild, leika í eldhúsdótinu og svo fórum við líka í holukubbana frammi á gangi. Eftir hádegismat, leik á ganginum og kaffitíma þá var farið á svæði og leikið þar.

Í dag föstudag, þá erum við að jólast inni á deild fyrir hádegið (alltaf að undirbúa jólin) og leika inni á deild. Þar er verið að leika í eldhúsdótinu okkar, leira, leika með segulkubbana og bílana. Alltaf jafn mikið stuð hjá okkur 😊 Eftir hádegi verður svo aðventustundin okkar en þar ætlum við að kveikja á Betlehemskertinu og syngja nokkur jólalög. Staðan verður tekin á eftir hvað varðar útiveru eftir kaffitímann en ef við verðum inni, þá verðum við eins og vanalega í hópum á svæðum.

Eigið góða helgi

Bestu Kveðjur

Allir á Lautinni


Vikan 23 nóvember - 27 nóvember

Heil og sæl

Vikan hefur verið nokkuð hefðbundin og hefur allt haldið sér nema málörvunarhóparnir sem byrja vonandi fljótlega.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Ll- 😊 Þau voru fljót að ná hreyfingunni og það hverjir eiga málhljóð vikunnar. Við klöppuðum nokkur orð eins og vanalega, fundum helling af orðum sem byrja á -Ll- . Það sem stóð uppúr hjá þeim er að einn kennarinn okkar á þetta málhljóð og voru þau mjög ánægð með það 😊

Afmæli: 

Tvö afmæli voru í vikunni, á mánudaginn var ein skvísan okkar 2 ára og á miðvikudaginn varð einn gaurinn okkar 3 ára. Haldið var upp á afmælin þeirra með pompi og prakt og voru heljarinnar veislur báða dagana. Við óskum þeim innilega til hamingju með afmælin sín.

Piparkökur:

Á þriðjudaginn bökuðum við saman piparkökur og í gær fimmtudag, þá fengum við heitt súkkulaði með rjóma og piparkökur í kaffinu (það var líka í boði brauð, ávextir, mjólk og vatn). Þetta var notaleg stund sem við áttum saman inni á deild, en við hefðum nú gjarnan viljað fá ykkur til okkar líka.. í staðinn fá börnin með sér piparkökur heim í dag og geta boðið ykkur upp á nokkrar kökur með sér 😊

Vettvangsferðir:

Á mánudaginn þá fórum við í smá vettvangsferð og löbbuðum á síðasta heimilið okkar. Þetta var nokkur langur spotti og smá hálka á gangstéttinni og voru allir orðnir svolítið þreyttir þegar við vorum komin til baka en þetta var hressandi ganga og þau höfðu heldur betur gaman af þessu verkefni okkar. Núna erum við líka búin að vera að græja húsin okkar inni á deild í kjölfarið á þessum ferðum.

2017 börnin fóru líka í ferð á miðvikudaginn, þá löbbuðum við með 2017 börnunum á Lindinni á rólóinn í Örvarsölum, þetta var geggjuð ferð og gaman að segja frá því að börnin eru byrjuð að tengjast meira milli deilda og eru meira farin að leika saman á ganginum og úti í garði. Við erum alsælar með þessa samvinnu með árganginn. Þessi sami hópur fór síðan í leikvanginn saman eftir kaffi á fimmtudaginn.

Frjáls leikur:

Mikið hefur verið um frjálsan leik í vikunni, við höfum verið frammi á gangi að leika okkur þar, bæði í Holukbbunum og bæði í dúkkukróknum frammi og í eldhúsdótinu okkar inni á deild. Það er dásamlegt að sjá hvað leikurinn hjá þeim hefur þróast úr einleik í félagslegan leik það sem af er vetri. Eins eru þau auðvitað mikið í frjálsum leik í útiverunni og finna þau sér alltaf viðfangsefni að eigin vali og frumkvæði þar úti. Það er því miður þannig suma daga að þegar foreldrarnir eru farnir að týnast í leikskólann að sækja börnin sín, þá átta þau sig á því að þau fara líka bráðum og þá fara þau að bíða við hliðið eftir því að vera sótt. Þetta finnst okkur mjög leiðinlegt en það er lítið sem við getum gert í þessu, því miður, því suma daga vilja þau ekki einu sinni koma að leika með okkur á þessum tíma.

Útivera:

Við höfum verið mikið úti að leika okkur og hafa dagarnir verið kláraðir úti þegar veður leyfir.

Leikvangur:

Loksins byrjaði leikvangurinn aftur, í vikunni voru þau í þrautabraut og æfingum tengdum heilsubókarskráningunni.

Smiðja:

Í smiðjunni var verið að skreyta jólatré, bæði teikna á það og setja skraut á það.

Skapandi starf:

Við höfum verið að vinna talsvert í skapandi starfi þessa vikuna, en það tilheyrir auðvitað jólunum 😊 það eru mörg verkefni í gangi hjá okkur! T.d. að vinna í húsinum okkar, gera jólakort og ýmislegt fleira spennandi 😊 útkoma alla verkefnanna er mismunandi eins og börnin eru mörg, það eru enginn þvingaður í að gera eitthvað sem hann vill ekki gera. Úthald og áhugi er mismunandi eftir börnum! Það er mikilvægt að þið hugsið um það þegar þið fáið verkefni barnanna ykkar heim, þau eru alveg 100% þeirra 😊

Í dag föstudag var líka kveikt á fyrsta aðventukertinu okkar. Það var gaman saman á ganginum og sungum við saman nokkur jólalög og að sjálfsögðu lagið um Spádómskertið.  

Eigið góða helgi

kv. Allir á Lautinni

Vikan 16. nóvember - 20. nóvember

Sælir kæru foreldrar

Þá er þessi skemmtilega vika að klárast og eru allir spenntir að komast í helgarfrí 😊 jólaljósin farin að týnast upp og við farin að stelast til að syngja jólalög í samverustundunum.

Mánudagurinn 16. Nóvember

Þessi skemmtilegi dagur var afmælisdagur leikskólans, en hann er orðinn 19. ára gamall.. stór afmæli framundan 😊 einnig átti LUBBI okkar afmæli en hann varð 11. Ára. Hann fékk að sjálfsögðu kórónu sem krakkarnir voru búin að búa til fyrir hann. Hann fékk líka lopapeysu að gjöf sem hún Stefanía var búin að prjóna handa honum. Krakkarnir voru mjög glöð með það að honum yrði ekki kalt lengur. Í Lubba stund þann dag, þá fórum við yfir málhljóð vikunnar sem er -Uu- þessa vikuna. Eftir að stundinni lauk, þá bauð Lubbi upp á popp og saltstangir! Það féll heldur betur vel í kramið hjá hópnum.

Það var ball á yngri gangi þar sem allir dönsuðu og skemmtu sér, eftir ballið var opið flæði á ganginum. Það útskýrum við á þann hátt að það eru allar hurðar opnar og það má leika hvar sem er! Þetta var heldur betur skemmtilegt og virtust allir finna sér verkefni við hæfi og var leikið alls staðar á öllum deildum. Það var PIZZA í hádegismatinn og svo var hvíld/róleg stund. Eplakakan í kaffinu bragðaðist vel en það var ansi gott að komast út að leika eftir kaffið, enda spennustigið ansi hátt eftir þennan skemmtilega dag.

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Uu- eins og kom fram hér.. við fundum nokkur orð sem byrja á því ásamt því að það á einn kennari það, þau voru öll með það á hreinu 😊 Við klöppuðum og sungum og rímuðum orð og er gaman að sjá hvað krakkarnir eru hrifnir af þessum stundum.

Vettvangsferð vikunnar var á Hvammsvöll á þriðjudaginn, þar var leikið heilan helling og haft gaman 😊

Við héldum okkur inni á miðvikudaginn, það var ansi kalt úti og vildum við ekki fara út í þennan kulda. Við skiptum okkur á svæði inni og vorum að leika í einingakubbunum og í eldhúsdótinu. Við vorum líka að mála húsin okkar en við byrjuðum á því að teikna og mála húsin okkar. Við höldum svo áfram að vinna að því verkefni ásamt öllu jóladúllerínu sem við erum byrjuð á. Eftir kaffitímann þá fóru 2017 börnin okkar með 2017 börnunum á Lind í leiksalinn, við erum alltaf að reyna að tengja þessa snillinga saman og er gaman að sjá að það er alveg dagamunur á því hvernig þau eru að leika saman.

Það var skipulagsdagur í gær og leikskólinn því lokaður

í dag fórum við út að leika í snjónum fyrir hádegið, og ætlum aftur út eftir kaffitímann.

Annars eru við alltaf kát, æfum okkur daglega í því að klæða okkur í útifatnaðinn okkar, miklar framfarir hjá mörgum börnum. Þið megið endilega æfa þau heima líka 😊 svo erum við mikið að leira, pússla, kubba, frálsum leik í eldhúsdótinu, með einingakubbana og margt fleira 😊

Í næstu viku verða piparkökurnar okkar bakaðar. Kökurnar verða bakaðar á þriðjudag og miðvikudag og á fimmtudaginn þá verða piparkökur og heitt súkkulaði í boði fyrir börnin. Við sjáum okkur ekki fært um að fá ykkur öll í heitt súkkulaði eins og staðan er í dag, því miður.

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni


Vikan 9. nóvember - 13. nóvember 2020

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikurnar fljúga í burtu og í óhefðbundnu starfi þá líður tíminn eiginlega hraðar. Desember verður mættur áður en við vitum af 😊

Við höfum mikið verið í úti að leika okkur eins og þið vitið, enda elska börnin ykkar útiveru! Við skilum þeim oft af okkur ansi skítugum og flottum.. en ég segi alltaf.. skítug börn í útiveru eru glöð börn 😊

Við fórum í 1 vettvangsferð í vikunni, og kíktum við á 3 heimili í þeirri ferð. Ferðin gekk vel enda börnin orðin þræl dugleg að labba um, það var pínu hált á stökustað og fannst þeim það frábært, að labba hraðar og láta sig detta. Við klárum síðustu ferðina von bráðar og þá förum við að vinna með áframhaldandi verkefni, að teikna húsið mitt.. setja inn glugga og hurðar og aðalatriðið, mynd af þeim sjálfum á húsið 😊

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Ee- og það eru nú ansi margir krakkar, kennarar og foreldrar sem eiga það málhljóð.. Vinsæll stafur á Lautinni 😊 við höfum fundið mörg orð (bæði nöfn, staði og lönd) sem byrja á Ee, við höfum rætt og klappað í atkvæði eins og við gerum alltaf.

Þar sem hefðbundið skipulag hefur ekki verið til staðar (leikvangur, smiðja og málörvun) þá hefur FRJÁLS LEIKUR hefur verið alls ráðandi í vikunni, bæði úti og inni. Þau fá að finna sér viðfangsefni sem þau vilja og reynum við eftir fremsta megni að láta þau leika í smá stund áður en þau fá að skipta (því jú, það er allt meira spennandi handan við hornið)... en eftir smá tíma þá fá þau að skipta um stað og verkefni. Vinsælustu verkefnin eru t.d. að lita, leika með bílana, eldhúsdótið og púsluspilin.

Við höldum áfram að vinna með það að taka tillit og vera vinir, skiptast á, t.d. leikföngunum og rólunum.. eins bjóða með sér í leik og „sjá hvað einhver er leið eða ekki með neinum, eigum við ekki að bjóða viðkomandi að vera með okkur“ Þetta tekur tíma en við sjáum framfarir 😊

Næsta vika

16. nóvember 2020 - leikskólinn á afmæli, þann dag verður búningadagur/furðufatadagur í Fífusölum. Það verður ball á ganginum kl. 9.15 og flæði milli deilda eftir það. Pizza í matinn og eitthvað gott í kaffinu.. Daginn klárum við svo úti eins og alltaf.

19. nóvember 2020 - Skipulagsdagur, leikskólinn verður lokaður þann dag.

Eigið góða helgi

Kveðja, Allir á Lautinni


Vikan 2. nóvember - 6. nóvember 2020

Heil og sæl kæru foreldrar

Þá er þessi skrýtna vika að klárast og höfum við reynt að gera það besta úr þessum undarlegu aðstæðum sem við erum komin í. 

Mánudagurinn var eins og þið vitið, leikskólinn lokaður og skipulagning í gangi.

Meðan á þessu tímabili stendur verður ekki leikvangur, smiðja og málörvun í gangi og munum við bara að gera eitthvað inni á deild og úti í staðinn. En eins og þið fenguð í pósti á miðvikudaginn, þá ætlum við á Lautinni að vera mikið úti að leika okkur 😊enda mikið nám, þjálfun og frjáls leikur sem fylgir því að vera úti að leika sér. 

Við hófum verkefnið „Heimilið mitt“ sem krakkarnir ykkar eru heldur betur að fíla í botn. Þeim finnst svo gaman að labba heim til sín og sýna vinum sínum húsið sitt. Þetta eru langar ferðir örugglega um 3 km sumar. Þannig börnin ykkar eru að fá hreyfinguna sem þau þarfnast.. eins erum að ræða um hugtökin, upp brekkuna, niður brekkuna og svo beygja til hægri og vinstri þegar við á. Einnig eru þau með það á hreinu að vindurinn heitir KÁRI eftir fimmtudagsferðina okkar 😊 gaman að heyra að ferðirnar okkar eru að vekja athygli einhverra :)

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Hh- og erum við búin að ræða um H-ið, finna orð sem byrja á málhljóðinu. Eins er búið að vera að klappa í atkvæði eins og við erum vön að gera. Skoða hluti í málhljóðakassanum okkar og ræða það.. þau eru nánast búin að ná laginu um Hh-ið og erum við afskaplega stoltar af krúttunum okkar.

Við höfum svolítið vera að vinna með tilfinningar og það að einhverjum líður illa þegar einhver vill t.d. ekki leiða einhvern eða einhver má ekki leika með hópnum. Tekur smá tíma að skilja það en það kemur að lokum!

Við fórum út að leika í morgun og vorum svo heppin að það kom smá snjókoma á okkur.. fyrsti snjórinn mættur og því mikilvægt að hlýr fatnaður sé til staðar.

Næsta vika verður eins hvað varðar að þið megið ekki koma inn í leikskólann. Mæli með að þið setjið símanúmerið okkar í símaskrána hjá ykkur.. en það er 441-5213 😊 það koma kannski fleiri dagar eins og í gær.

Minni líka á að næsta vika er síðasta vikan í lestrarátakinu hans LUBBA okkar 😊 nægur tími til stefnu að lesa fyrir krúttin ykkar ennþá.

Eigið frábæra helgi innanhúss með börnunum ykkar :)

Bestu kveðjur

Allir á Lautinni


Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan 26 - 29 október 2020

Við höfum það fínt í Fífusölum, þrátt fyrir að einhverjum hafi þótt erfitt að kveðja í dyragættinni í upphafi vikunnar, þá er ótrúlegt hvað það hefur vanist. Okkur langar að ítreka það að það að koma inn að morgni er því miður ekki í boði fyrir foreldra!! Hér eftir verður hurðin læst þegar það er enginn í fataherberginu að taka á móti.

Vikan hefur verið hefðbundin og nóg að gera 😊

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Jj- og erum við það heppin að einn gaurinn okkar á þann bókstaf og einhverjar mömmur eiga það greinilega líka 😊 Annars höfum við sungið Jj lagið og rætt um málhljóðið, eins og alltaf klappað orð sem byrja á því í atkvæði og rætt það fram og til baka.  

Hópastarf:

  • 2018 hópurinn: Á mánudag fór hópurinn í smá vettvangsferð með 2018 strákunum á Læknum, við löbbuðum á Salaskóla lóðina, lékum okkur þar og löbbuðum til baka. Á föstudag þá fór hópurinn í Blæstund, það var leikið með segulkubbana og æft sig með skærin.
  • 2017 hópurinn: Á mánudag fór hópurinn í Blæ stund, þar var verið að tala um tilfinningar og frjásan leik í einingakubbunum. Á föstudag þá var leikið út í garði og farið á hoppubelginn „okkar“

Vettvangsferðir: Það sem krakkarnir eru orðin dugleg að labba! Við löbbuðum á róló í hverfinu, hittum góðan vin á röltinu og sáum þyrlu fljúga yfir hverfinu okkar. Það voru allir svo duglegir að labba og leika sér.

Í smiðju var verið að leika með leir, opin og verðlausan efnivið, þar fæddust trúlegustu hlutir og verur og krakkarnir nutu þess í botn að gera eitthvað aðeins öðruvísi.

Frjáls leikur: Við höfum verið mikið í eldhúsdótinu okkar, púsla, kubba með öllum hugsanlegum kubbum (holukubbum, plúskubbum og legokubbum), lita, perla og leira með græna fína leirnum okkar. Eins er auðvitað frjáls leikur í hámarki í útiverunni hjá okkur

Á þriðjudaginn var skipulagsdagur þar sem kennararnir tóku þátt í online ráðstefnu um frjálsan leik barna. Mjög áhugavert og spennandi viðfangsefni. Eftir hádegið voru deildafundir og gangafundir og sköpuðust miklar umræður um okkar skipulag og hvernig við getum virkjað börnin í frjálsum leik, kveikt áhuga barna á viðfangsefninu. Einnig ræddum við hlutverk kennarans í leiknum og teljum við að þessi dagur hafi opnað augu okkar enn meira varðandi starfið okkar. Við erum heldur betur alsælar með daginn 😊

Aðstæður eru enn þannig að við klárum daginn alltaf úti.. því er mjög mikilvægt að hafa alltaf viðeigandi fatnað með í leikskólanum og endilega takið með mjög skítug og blaut föt heim til þerringar.

Í dag ætlum við að senda allar snuddur og alla bangsa heim til sótthreinsunar og þrifa.. endilega þrífið hluti ykkar barns og komið með aftur á mánudaginn :)

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni

Vikan 19 - 23 október 2020

Heil og Sæl Kæru foreldrar

Lífið heldur áfram sinn vanagang og tíminn flýgur áfram. Alltaf nóg að gera og við vonum að þið séuð dugleg að skoða ævintýrin okkar í hópum okkar á Facebook :)

LUBBI finnur málbein: Málhljóð vikunnar er -Vv- og erum við búin að ræða það í hnotskurn, finna helling af orðum sem byrja á V og erum svo heppin að það er ein skvísa sem á V-ið góða. Við erum líka búin að vera mjög dugleg að klappa í atkvæði og eru börnin að taka það í frjálsa leikinn, sitja í sandkassanum og klappa nöfnin sín og önnur orð. Mjög skemmtilegt! Við viljum líka þakka fyrir frábær viðbrögð við Lestrarátakinu okkar, krúttunum ykkar finnst svo gaman að koma með málbein og hengja á fjallið okkar.

Bangsinn BLÆR: Við urðum mjög hissa á mánudaginn var þegar 2017 börnin voru að fara í Blæ stund og allt í einu voru helmingi fleiri bangsar í körfunni okkar og eitt lítið bréf. En vinum bangsanna leiddist svo mikið og voru búin að frétta að það væri svo gaman á Fífusölum og vildu koma til okkar. Þannig nú eiga öll Lautarbörnin bangsa og 2018 hópurinn fer líka að fara í reglulegar Blæstundir.

Vikan okkar: 

Hópastarf á föstudag og mánudag

  • 2017 hópurinn var í hópastarfi inni á deild á mánudaginn, þar voru þau í verkefnavinnu og Blæstund. Í dag aftur á móti var verið að leika með kubbana og farið út að leika
  • 2018 hópurinn fór í vettvangsferð á mánudaginn, við löbbuðum á grasbalann hjá Hvammsvelli og hlupum þar um í smá stund. Stoppuðum á leikvellinum hjá Ársölunum og lékum þar í smá stund. Í dag föstudag þá var verið að leika með einingakubbana, spila minnisspil og leira.

Leikvangur: Þrautabraut og leikir í Leiksalnum, alltaf jafn gaman þar. Gott að vera í sokkum á þriðjudögum.

Smiðja: í vikunni voru verkefnin tvískipt að þessu sinni. 

  • 2017 hópurinn var að þræða bandi í hjarta og setja perlur á endann til að geta hengt það upp. 
  • 2018 hópurinn var að þræða og mála samvinnuverkefni með golfkúlum.

Vettvangsferð: Að þessu sinni ræddum við saman varðandi hvert þau vildu fara. Þau vildu fara á Salaskólalóðina að hoppa á trampólíninu.. við aftur á móti viljum ekki vera að fara í fjölmenni útaf „dotlu“ og það næsta sem þau vildu gera var að fara á Hammsvöll að leika þar. Við létum það auðvitað eftir þeim og lékum þar í dágóða stund.

Frjáls leikur og dúllerí: Börnin ykkar eru að þróa leikinn sinn mjög mikið þessa dagana. Mikill og flottur samleikur kominn hjá mörgum og njóta þau þess að leika í smærri hópum þegar við erum inni. Við sjáum samkiptin blómstra milli þeirra og þau eru mörg hver orðin ansi flott í því að leysa ágreiningsmál og finna lausnir ef eitthvað bjátar á.  Við erum að æfa okkur í því að segja „Stopp“ og „Hættu“ ef einhver vill ekki eitthvað og teljum við það mikilvægt að geta komið því í orð strax. Við höfum verið að leira mikið í vikunni og er græni leirinn okkar mjög vinsæll.

Næsta vika:

  • 26. október ætlum við halda bangsadaginn hátíðlegan, þá mega börnin koma með bangsa að heiman. Bara muna eftir að merkja hann vel.
  • 27. október er skipulagsdagur og verður leikskólinn lokaður. Dagskrá dagsins fenguð þið í pósti frá Birnu og Erlu í gær.

Í kjölfarið á því langar mig að minna á það að þið eigið að skila barninu af ykkur við útidyrahurðina og við tökum við því þar. Það er ekki í boði fyrir foreldra að koma inn í fataherbergi á morgnana. Þetta hefur aðeins verið að valda misskilningi bæði hér í leikskólanum og í foreldrahópnum og því vil ég koma þessu á hreint núna. Ef það það er enginn í fataherberginu, þá á að hringja inni á deild og við náum í barnið ykkar. Það er líka gott ef krakkarnir eru með poka í hólfinu sínu þannig við getum sett í pokann á föstudögum, þannig er viðvera ykkar í fataherberginu minnkuð meira. Vonandi fer þessu leiðindaástandi nú að ljúka (ein bjartsýn) 😊

Eigið góða helgi

kv. Allir á Lautinni 

Vikan 12. október – 16. október 2020

Heil og sæl kæru foreldrar

Enn og aftur kominn föstudagur og eitt er víst að okkur leiðist ekki hérna á Lautinni 😊

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var -Úú- og vorum við að tala um það ásamt því að finna orð sem byrja á þessu málhljóði. Þau voru ansi mörg, t.d. úlfaldi, útlönd, úr og úrvinnslusóttkví! Eins vorum við að klappa mörg orð í atkvæði sem og nöfnin okkar. Það hefur eitthvað gengið á hjá honum Lubba í nótt því við fundum ekki málbeinið hans og vorum við að leita að því í morgun, það fannst loksins fast langt upp á vegg, þetta vakti mikla lukku hjá snillingunum ykkar og væri gaman að fá umræðu um þetta heima.

Hópastarf vikunnar

  • 2017 börnin voru inni á mánudaginn í Blæ stund og að mála, bæði var málað á möppuna sína og mynd til að hengja upp á vegg. Í dag föstudag fóru þau út að leika í hópastarfinu sínu.
  • 2018 börnin fóru í vettvangsferð á mánudaginn, enduðum að sjálfsögðu á hoppubelgnum „okkar“ og í leik í garðinum. Í dag föstudag vorum við að mála listaverk, leika í frjálsum leik og í leiknum „hver er undir teppinu“ í lokin.

útivera og vettvangsferðir: Við höfum verið mikið úti að leika okkur í vikunni og fórum við út í garð að leika okkur í stað vettvangsferðarinnar á miðvikudaginn. Það var betra verður í garðinum okkur og því héldum við okkur þar.. við vildum ekki alveg fjúka af stað þann daginn. Eins höfum við klárað alla dagana úti og gaman að segja frá því að krakkarnir eru farin að óska eftir því að fara yfir í "Austurgarðinn í lok dagsins". Eins finnast Lækjarbörnunum þetta fyrirkomulag mjög gott því þau eru að læra svo margt af okkur :)

Leikvangur: Þar var þrautabraut þar sem t.d. hringirnir, rimlarnir og skábrautin komu við sögu, þar var verið að þjálfa jafnvægi, kjark og þor og auðvitað að fara eftir fyrirmælum.

Smiðja: 

  • 2018 börnin máluðu kassa sem hægt er að nota sem hristu eða trommu. Eins er hægt að láta krakkana stafla upp kössunum sínum.
  • 2017 börnin skoðuðu sig í spegli, í speglinum var verið að fylgjast með hinum ýmsu svipbrigðum eftir líðan með anditunum sem eru til inn í smiðju. Siðan fengu þau blað þar sem höfuðið var fyrir myndin og áttu þau að teikna sig (setja augu, nef og munn og fl) á það. Einnig tússuðu þau á blað og notuðu spegil til að spegla myndina.

Frjáls leikur: Inni á deild höfum við verið í stærðfræðispilinu Numicon og finnst þeim það mjög áhugavert. Eins höfum við mikið verið að kubba, leika með dýrin og bílana. Frammi eru Holukubbarnir alltaf jafn vinsælir og er dúkkukrókurinn einn og aftur vinsælastur og eins og þið sjáið á myndunum hjá okkur að leikurinn er heldur betur spennandi og flottur hjá þeim þar.

Það var Spænskur dagur á mánudaginn. Á þeim degi var okkur boðið í Spænskt danspartý á Lindina þar sem Carmen kenndi okkur nokkur orð á spænsku og að telja upp að fimm (ætla ekki að hafa þetta eftir 😊)

Í dag er Bleikur dagur og frábært að sjá hvað allir mættu bleikir og flottir 😊 Til að toppa allt, þá var bleik mjólk útá hafragrautinn og bleikur fiskur í hádegismatinn.

Gaman að segja frá því að börnin taka inn allt sem er verið að ræða og sóttkví er greinilega vinsælt umræðuefni á einhverjum heimilum, því við fengum alveg að heyra það í vikunni, hvað má og hvað má ekki í sóttkví 😊 það má t.d. fara aðeins út að labba en það er best að vera bara inn í herberginu sínu 😊 Það er frábært að þau geta rætt þetta svona opinskátt þannig ef þau lenda í þessum aðstæðum, þá er þetta ekki eitthvað sem þau eru hrædd við, heldur allt upp á borðum.

Eins og þið sjáið þá er nóg að gera hjá okkur Lautarsnillingunum 😊

Eigið góða helgi með krúttunum ykkar :)

Kveðja

Allir á Lautinni

Vikan 5. okt - 9. okt 2020

Heil og Sæl Kæru Foreldrar

Þá er þessi vika að renna sitt skeið og hún var nú bara ágæt, þrátt fyrir að hafa byrjað undarlega. Heilsuvikan var spennandi og lærðu krakkarnir að gera nokkrar æfingar hjá okkur.

Mánudagurinn var eins og hann var, allir heima að bíða eftir því hvort við gætum opnað aftur á þriðjudaginn sem gekk sem betur fer upp.

Á þriðjudaginn þá fórum við í leikvang til Kollu, þar sem var þrautabraut fyrir 2018 hópinn en 2017 hópurinn fór í leiki þar sem þau voru að æfa sig í því að fylgja fyrirmælum. Inni á deild var verið að leika frjálsum leik sem er undirstaða alls leiks.

Á miðvikudaginn fórum við í enn eina vettvangsferðina, við fórum að þessu sinni á róló völlinn á „landamærastígnum“ sem þýðir það að við löbbuðum upp alla brekkuna hérna fyrir ofan okkur. Þar lékum við og fórum í ýmsar þrautir. Þegar við vorum komin niður eftir þá langaði krökkunum auðvitað að hoppa smá og við hoppuðum og skoppuðum í góða stund. Vorum næstum því of sein inn í mat og allt saman! En hann má bíða ef við skemmtum okkur.

Í gær fimmtudag þá var listasmiðja fyrir hádegið, þar fóru hópar til Nönnu og voru 2017 börnin að gera haust mynd og æfa sig í því að klippa meðan 2018 börnin voru að mála með vatnslitum og klippa. Allir hópar luku tímanum á smá hljóðfæraleik og söng. Inni á deild var verið að leika í hlutverkaleik, með bílana og að teikna.

Í dag, föstudag lukum við heilsuvikunni með trompi. Við settum upp þrautabraut á ganginum og svo voru æfingar í boði inni á Lindinni, Læknum og Lautinni. Við vorum semsagt að leika með öllum krökkunum á yngri gangi í stuði og stemmingu. Það var svo gaman. Þarna vorum við að æfa okkur í því að fylgja fyrirmælum, æfa kjark og þor, ásamt því að gera kollhnísa, fara undir og í gegnum. Þetta vakti mikla lukku bæði hjá krökknum og kennurunum.

Við höfum svo klárað alla dagana úti í garði og munum við gera það meðan á þessu leiðindaástandi varir. Við byrjuðum á því í þessari viku að fara í Austurgarðinn okkar (litla garðinn) rétt fyrir 16:00 og leika með krökkunum þar. Það hefur gefist vel og munum við halda því áfram, þannig að ekki örvænta ef þið sjáið okkur ekki í stóra garðinum um þetta leyti, við erum bara handan við hornið.

Málhljóð vikunnar var ÍÝ og voru þau fljót að fatta að ísinn góði á þetta málhljóð. Við klöppuðum í atkvæði orð sem byrja á ÍÝ og æfðum okkur i að gera hreyfinguna sem fylgir því.

Við erum búin að vera að æfa okkur í þulu mánaðarins sem er „Fagur fiskur í sjó“ og eru mörg búin að ná henni að einhverju leyti. Endilega farið með hana með þeim um helgina 😊

Það verður skipulagsdagur þann 27. október og verður leikskólinn lokaður þann dag.

Annars bara viljum við þakka fyrir gott samstarf varðandi sóttvarnaraðgerðirinar okkar. Geri mér grein fyrir því að þetta er ruglingslegt og í einhverjum tilfellum flókið en þetta er samvinnuverkefni okkar allra og vonandi

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni


Vikan 28 sept - 2 okt 2020

Heil og Sæl kæru foreldrar

Vikan okkar hefur flogið áfram og dagarnar eru alltaf jafn skemmtilegir! Vikan hefur þó líka verið óhefðbundin þar sem við höfum byrjað úti að leika okkur alla dagana, við höfum þó verið mismunandi lengi úti alla dagana. Við höfum líka verið úti í lok hvers dags þessa vikuna eins og við erum vön og munum gera eins lengi og hægt er.

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar var Dd 😊 við höfum sungið lagið hátt og snjallt ásamt því að finna orð sem byrja á D-inu góða. Það eru líka einhverjir foreldrar sem eiga þetta málhljóð og vitum við auðvitað allt um það 😊. Við höfum líka skoðað málhljóðakassann okkar og fundið hluti sem byrja á Dd-inu.

Hópastarf i vikunni var á þá leið að

  • 2017 börnin voru inni á mánudaginn í blæstund, spilum og pörunarverkefni en í dag voru þau úti að leika sér, við vorum alein í garðinum okkar og við nutum þess í botn að vera úti.
  • 2018 börnin fóru í vettvangsferð á mánudaginn, löbbuðum í kringum Salaskóla, lékum okkur aðeins á skólalóðinni og héldum svo áfram. Enduðum á ærslabelgnum okkar og hoppuðum heilan helling. Í dag vorum þau inni að mála.

Vettvangsferðin var mjög spennandi.. við tókum aftur með okkur nesti, fundum okkur róló og lékum okkur heilan helling. Enduðum á ærslabelgnum og hlaupabrautinni og þar skemmtu sér allir vel, bæði börn og kennarar 😊

Leikvangur: Þar var þrautabraut í boði Kollu, þar sem börnin æfðu jafnvægið sitt mjög vel ásamt því að fara eftir fyrirmælum.

Smiðjan: Þar var verið að sulla.. og það var sko gaman. Það var málað með matarlit og raksápu í vatnið í sullukerinu okkar við mikinn fögnuð. Svo þurrkuðu þau upp eftir sig líka, þannig þau lærðu að þrífa í þessari viku.

Í dag var Þýskur dagur. Starfsfólkið á Lautinni sló um sig og kenndi börnunum að segja „góðan  daginn“ og „ég elska þig“ á þýsku 😊

Gaman Saman á yngri gangi var í fyrsta skipti í dag. Þá hittust Lind, Laut og Lækur saman á ganginum og sungu saman nokkur lög. Stundin endaði á Dans stuði þar sem krakkarnir sungu og dönsuðu við Þýskt Gummibear song 😊 það var sko gaman!

Í næstu viku er Heilsuvika í leikskólanum, þá verður bryddað upp á ýmislegu tengt hreyfingu á deildunum. Á Lautinni verður ávaxta/grænmetisdagur á föstudaginn þar sem börnin mega koma með ávöxt eða grænmeti að heiman

Mig langar lika að minna á póstinn sem Birna sendi ykkur áðan varðandi breytingar í næstu viku – endilega skoðið hann vel!

Og að lokum langar mig að biðja ykkur um að staðfesta þennan póst við mig, það virðist því miður vera þannig að upplýsingar eru ekki alltaf að komast til skila og því væri gott að fá staðfestingu á því að pósturinn hafi verið lesinn, uppá hvort einhverjar upplýsingar sé kannski vitlausar í okkar kerfi

Eigið góða helgi

Kv. Elva, Stefanía, Lilja, Unnur og Anna

 

Heil og sæl öll sem eitt

Mig langar að byrja á því að þakka fyrir góða samvinnu í þessari viku og segja að þetta hefur gengið ótrúlega vel, aðlögunarhæfnin alveg til fyrirmyndar hjá börnum, kennurum og foreldrum 😊 og minna á upplýsingar um næstu viku sem Erla Stefanía Leikskólastjóri sendi frá okkur áðan.

Þessi vika er búin að líða mjög hratt og hafa verkefnin okkar verið fjölbreytt og spennandi. Lubbi færði okkur nýtt málhljóð og í tilefni af því lærðum við auðvitað nýtt lag 😊 Við fórum út að leika eftir kaffitíma alla dagana í þessari viku en dagskráin milli daga var auðvitað mismunandi.

Á mánudaginn eftir ávaxtastund og Lubbastund fórum við í hópastarf í báðum hópum

  • 2018 börnin voru að leira saman og para saman tölustaf og fjölda. Eftir að því lauk fórum við í frjálsan leik (holukubba og dúkkukrók) á ganginum.
  • 2017 börnin voru í Blæstund og voru í verkefnavinnu á deildinni. Það var t.d. verið að spila minnisspil og veiðispil.

Á þriðjudaginn var leikvangur hjá Kollu og tímar í málörvun hjá Ester. Það var líka frjáls leikur hjá þeim voru inni á deild hverju sinni. Í leikvanginum var þrautabraut og heilsubókarskráningar í kjölfarið á henni

Á miðvikudaginn fórum við í vettvangsferð, við löbbuðum með Lubba okkar og nesti í tösku á rólóvöllinn í Þorrasölunum, þar tókum við Lubbastund og lékum okkur í dágóðastund. Sungum hástöfum og nutum þess að vera til. Það voru ansi margir þreyttir eftir þessa ferð okkar.. enda svolítið langt labb fyrir stuttar fætur 😊

Á fimmtudaginn þá voru tímar hjá Nönnu í smiðjunni og tímar hjá Ester í málörvun.

  • 2017 börnin voru að vinna í haustmynd. Þar voru notuð laufblöð, vatnslitir og fingramálning. Í lok tímans var sungið og spilað á hljóðfæri
  • 2018 börnin voru að setja laufblöð á bókaplast og enduðu líka á söng og hljóðfæraleik

Í dag föstudag voru hópatímar fyrir hádegið

  • 2017 börnin voru úti að leika lengur í morgun, þau ætluðu að kíkja á ærslabelginn en því miður var frost á honum og þau þorðu ekki að hoppa og skoppa. En eftir leik í garðinum með útidótið sitt þá fóru þau inn, fengu sér ávexti og léku á ganginum fram að mat.
  • 2018 börnin fóru inn í ávaxtastund svo voru þau í tveimur hópum, annar að spila minnisspil og hinn í því að para saman fjölda og tölustafi (4 klemmur passa á númer 4) og svo skiptu þau um spil.

Málhljóð vikunnar er Nn – Við fræddumst um það sem byrjar á þessu málhljóði og sungum Nn lagið. Það sem sló í gegn í málhljóðakassanum voru „nærbuxur“ og eru líklegast allir með það á hreinu að Nærbuxur byrja á Nn 😊

Takk fyrir vikuna og eigið góða helgi

kv. Allir á Lautinni :)

Vikan 14 - 17 september 2020 

Heil og Sæl kæru foreldrar

Þá er þessi vika að ljúka og dagarnir fljúga áfram, eitt er víst að okkur á Lautinni leiðist ekki í daglegu starfi með krúttunum ykkar.

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar í þessari viku er -Bb- þau voru fljót að ná tökum á því og sungu orðið hástöfum með laginu góða 😊 Við ræddum hverjir í hópnum ættu B og hvaða orð byrjuðu á B-inu góða. Eins kíktum við í Lubba kassann og drógum upp ýmsa hluti sem byrja á málhljóði vikunnar.

Hópastarf á mánudaginn: 2017 börnin fóru í verkefnavinnu á mánudaginn og rifjuðu upp Blæ bangsa, fóru í talnaverkefni og léku í búningunum. 2018 börnin fóru í vettvangsferð að hreyfitækjunum og léku sér þar í smá stund.

Vettvangsferðir: Við létum sko ekkert gular viðvaranir stoppa okkur og skelltum okkur í smá ferð. Við löbbuðum á rólóinn í Blásölunum og lékum okkur þar.. svona þangað til við vorum farin að fjúka til, þá löbbuðum við til baka og nutum þess að vera í stóra garðinum okkar ALEIN! Þar var Greppiklóar leikur alls ráðandi en enn og aftur er bókin mjög vinsæl á deildinni.

Listsköpun: í þessari viku voru 2017 börnin að gera skrímslamyndina sína og 2018 börnin voru að vinna í sandmyndinni sinni.

Hreyfing: Þrautabraut og heilsubókar skráningar. Alltaf jafn skemmtilegir tímar.

Útivera og frjáls leikur: Við erum enn sem áður mikið úti að leika okkur en auðvitað hefur útiveran minnkað eftir að skipulagt starf hófst. Þau eru alltaf jafn ánægð úti að leika sér og eru yfirleitt í mjög flottum leik í garðinum okkar. Í vikunni vorum við mikið að leika með leir! Það fannst þeim heldur betur spennandi efniviður. Búa til stórar og litlar kúlur og langa og stutta orma 😊 Eins eru búningarnir, kubbarnir og pleymó dótið alltaf jafn spennandi inná Lautinni.

Á næsta föstudag er leikfangadagur, þá mega börnin koma með leikfang að heiman, bara muna eftir að merkja það vel og hafa í huga að leikskólinn ber ekki ábyrgð á því sem kemur í leikskólann.

Takk fyrir vikuna og góða helgi

Elva, Stefanía, Lilja, Unnur og Sirrý

 

Vikan 7. sept - 11. sept

Heil og Sæl Kæru foreldrar

Vikan hefur heldur betur flogið áfram og það er bara strax kominn föstudagur aftur 😊

Lubbi finnur málbein: Við unnum með Málhljóðið M í þessari viku, við sungum vísuna oft á dag, lásum söguna og skoðuðum hluti sem byrja á M. Þau eru ótrúlega flott og áhugasöm um þetta og bíða spennt eftir LubbaStund á hverjum degi.

Hreyfing: Í vikunni fóru krakkarnir í Leikvang þar sem þau fóru í þrautabraut og þrautir.

Listasmiðja: í vikunni voru krakkarnir að vinna að sandverkefni í smiðunni, þetta er framhaldsverkefni þar sem þau eru að mála og setja sand á verkefnið. Það verður spennandi að sjá útkomuna 😊

Hópastarf:

2018 börnin fóru í vettvangsferð á mánudaginn upp á Hvammsvöll og í dag voru þau inni að leika með Numicon kubbana, Lego kubbana og frammi á gangi

2017 börnin voru inni í Numicon kubbunum, að teikna fjölskylduna sína og leika í búningunum á mánudaginn og í dag voru þau lengi úti í garði að leika

Í vettvangsferð í þessari viku þá fórum við upp á Hvammsvöll að leika okkur saman. Þau eru alltaf jafn spennt fyrir vettvangsferðinni og eru farin að þekkja það að þegar þau sjá vesti þá er eitthvað spennandi að fara að gerast 😊

Við höfum verið mikið úti að leika okkur og erum við að virkja börnin ykkar til að brasa við að klæða sig sjálf í útifatnaðinn sjálf, það gengur auðvitað misvel en við gefumst ekki svo auðveldlega upp og höldum áfram að æfa okkur.

Við finnum fyrir því að öryggi barnanna er að aukast mikið, það sjáum við með því að þau eru farin að koma hlaupandi inn, vinatengsl að myndast, þau láta heyra aðeins meira í sér og eru farin að opna sig í tali og samskiptum sín á milli. Með þessu sjáum við að öryggi eykst dag frá degi og erum við mjög glaðar með það.

 Minnum á skipulagsdaginn í næstu viku, þann 18. September 2020. Þann dag er leikskólinn lokaður.

Eigið frábæra helgi með börnunum ykkar.

Kær kveðja. Elva, Stefanía, Lilja Rún, Sirrý og Sonja Rut

Vikan 31. ágúst  -  4. september

Sælir kæru foreldrar

Þá er fyrsta vikan af skiplögðu starfi að klárast og teljum við að þetta hafi bara gengið vel. Börnin fóru í leikvang til Kollu og smiðju til Nönnu, ásamt því að við fórum í vettvangsferð!

Lubbi finnur málbein: Málhljóð vikunnar er A 😊 það sem krökkunum finnst þetta áhugavert, bíða spennt eftir Lubbastundum sem er eins og staðan er í dag 1x á dag. Í þessum stundum þá erum við að syngja lagið um málhljóðið, lesa söguna um A-ið og tala um A.. þau eru ansi fljót að fatta hver á þetta hljóð og hverjir í kringum sig eiga það líka.

Leikvangur: Í þessum fyrsta tíma var þrautabraut og slökun í lokin. Hóparnir stóðu sig mjög vel og komu ansi margir rjóðir í kinnum til baka. Gott að krakkarnir séu í sokkum í stað sokkabuxna á þessum dögum.

Smiðja: Að þessu sinni voru krakkarnir að teikna og vatnslituðu svo yfir teikninguna. Úr varð heldur betur listaverk 😊

Vettvangsferðin varð bara ótrúlega löng 😊 Við löbbuðum alveg hringinn í kringum Salaskóla og til baka. Það voru bara allir mjög duglegir eftir ferðina þá lékum við í garðinum okkar. Það voru ansi mörg börn sem hittu systkini sín, sum fleiri en eitt meir að segja.

Annars erum við búin að hafa það ansi notalegt, erum mikið úti að leika okkur (það væri gott að fara að koma með fingravettlinga þar sem það er aðeins að kólna úti). Perla, púsla, kubba, leika með pleymó, seglulkubba og margt fleira.

Við syngjum og lesum mikið, vinsælasta bókin þessa dagana er Greppikló 😊 og lesum við hana yfirleitt 1x á dag. Lögin sem við erum að syngja mest eru eftirfarandi

  • Dúkkan hennar Dóru
  • Litalagið
  • Nammilagið
  • Það var gömul ugla
  • Úmbarassa lögin (afi minn og amma mín og þau öll)
  • Tröllalagið
  • Krókódílar í lyftunnu
  • Hátt upp í fjöllunum
  • Fífusalir
  • Í leikskóla er gaman
  • Lubbalögin (lögin um málhljóðin)

Takk fyrir vikuna og eigið góða helgi

Kveðja, Elva, Stefanía, Lilja Rún, Sirrý og Unnur

Vikan 24 . ágúst - 28. ágúst

Góðan daginn kæru foreldrar

Tíminn flýgur áfram og í næstu viku hefst skipulegt starf, þ.e. tímar í smiðju og leikvangi. Við á Lautinni erum í Leikvangi á þriðjudögum, Vettvangsferð á miðvikudögum og Smiðju á fimmtudögum og hefst fyrsti tíminn kl. 8.45, Því er mikilvægt að börnin séu mætt þá. Eins munum við leggja af stað í vettvangsferð um 9.15 og því gott að börnin séu mætt vel fyrir það.

Annars hefur allt gengið sinn vanagang í þessari viku, við höldum áfram að vera mikið úti að leika okkur og það í öllum veðrum 😊 eins og flestir vita þá vilja þau ekkert koma inn suma daga, það er svo ótrúlega gaman í garðinum okkar. Það komu samt sem áður ansi margir blautir inn í dag eftir hellidembuna sem kom í morgun, þannig það má endilega skoða teygjurnar vel sem fara undir stígvélin.. það er nefnilega svo leiðinlegt að vera blautur í fæturna 😊

Skvísurnar sem byrjuðu á deildinni í síðustu viku eru bara eins og þær hafi alltaf verið hjá okkur :)

Við hlökkum til vetrarins með krúttunum ykkar

Eigið góða helgi

Kv. Allir á Lautinni

Vikan 17. ágúst - 21. ágúst 2020

Sælir kæru foreldrar

Héðan er allt gott að frétta, allir hressir og kátir að njóta þessara síðustu sumardaga!

Það hefur verið mikil útivera eins og þið hafið tekið eftir, bæði út að leika fyrir hádegi og aftur eftir kaffitímann.. eins hefur oft verið farið út að leika eftir hvíldina. Því má reikna með því að einhverjir hafi verið þreyttir í lok dags einhverja daga.

Inni á deild höfum við verið að leika í þessum helstu verkefnum, kubbum, púslum, eldhúsdóti, holukubbum og auðvitað með dýrin og bílana. Eins höfum við notið þess að skoða bækur og kynnast betur.

Það komu 3 nýjar stelpur á Lautina í vikunni, við bjóðum þær velkomnar og það gengur líka svona glimrandi vel hjá þeim. Við erum sko heldur betur heppnar með barnahóp í ár 😊 ekkert smá flottir krakkar sem við „eigum“ 😊 Gaman að segja frá því að þessar nýju skvísur okkar hafa verið að leika með þeim sem voru fyrir, þannig þau eru strax byrjuð að tengjast innbyrðis, sem við erum mjög ánægðar með!

Skipulagt starf hefst um mánaðarmótin og fáið þið sent dagskipulag í lok næstu viku.

Eigið góða helgi

Bestu kveðjur frá öllum á Laut :)

 

Vikan 10. - 14. ágúst 2020

Kæru foreldrar

Í þessari viku höfum við verið að koma okkur aftur inn í rútínuna okkar eftir sumarfríið og allir hafa mætt hressir og kátir :)  Við höfum verið mikið úti að leika og veðrið hefur svona verið upp og ofan.  Við erum búin að vera með 3 afmæli síðan við opnuðum aftur og óskum við þessum snilingum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með afmælin.

Góða helgi allir saman

Allir á Laut

Vikan 22. - 26. júní 2020

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur flogið áfram og allt gengið mjög vel, nýju börnin búin að aðlagast vel og eru að læra á rútínuna hjá okkur og hefur þessi fyrsta heila vika þeirra gengið vel.  Sundum er smá grátur en annað væri óeðlilegt og við erum að kynnast betur og þekkja betur inná þeirra áhugamál.  Mikið hefur verið um útiveru hjá okkur enda veðrið gott og börnin elska að vera úti.  Við vorum með 2 afmæli í vikunni eitt 2ja og eitt 3ja og óskum við þeim innilegar til hamingju með daginn sinn. Svo í gær var Sumarhátíðin okkar sem var með öðrum hætti en vanalega og engir foreldrar voru á svæðinu.  Hátiðin  gekk mjög vel og börnin skemmtu sér vel. En það voru 2 hoppukastalar þannig að það voru ekki miklar raðir, leikhópurinn Lotta kom og skemmtu okkur með leikriti um Öskubusku.  Svo voru grillaðar pylsur í hádeginu og  voru þær borðaðar út nema þau yngri fóru inn að borða og í hvíld.  Eftir hádegi var haldið áfram að hoppa og leika með sápukúlur og andlitsmálun í boði, síðdegishressingin var boost og ávextir sem var líka borðað úti. Myndir af hátíðinni fór á facebookið í gær. Við þökkum Foreldrafélaginu fyrir þeirra framlag í Sumarhátiðina en það borgar fyrir pyslurnar, Lottu og hoppikastalana. Í næstu viku ætlum við að hafa hjóladag á þriðjudaginn 30. júní og þá mega börnin koma með hjólið sitt ( hlaupahjól, þrihjól, tvíhjól) og auðvitað hjálmana sína og muna að merkja vel :)

Góða helgi og njótið vel ;)

Allir á Laut

13. - 19. júní 2020

Kæru foreldrar

Í þessari viku byrjuðu 5 ný börn hjá okkur fædd 2018 og  bjóðum  við þau og foreldra þeirra hjartanlega velkominn til okkar :)  Aðlögunin hefur gengið mjög vel, þrátt fyrir að 17. júní kom og truflaði aðeins. Börnin eru öll aðlagast vel saman þannig að þetta gengur vel. Börnin eru orðinn nokkuð örugg hjá okkur og munum við nota næstu vikur til að kynnast betur og njóta þess að leika saman. Við höfum byrjað daginn á ávaxtastund og rólegum leik inni  áður en við höfum farið út. Við höfum mikið verið úti að leika enda veðrið verið mjög gott og börnin elska að vera úti.  Inni höfum við mikið verið að leika með kubbana, bíla, lestina, púsla og í dúkkukrók og holukubbarnir koma alltaf sterkir inn. Við vorum með afmælisskvísu í dag en hún verður 3ja ára á morgun, við óskum henni innilega til hamingju með daginn á morgun.  Hún bauð börnunum upp á popp í tilefni dagsins.

Góða helgi og sjáumst hress og kát á mánudaginn ;)

Allir á Laut

 

Vikan 8. - 12.júní 2020

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur heldur betur verið viðburðarrík. Sulludagur, skapandi starf, hlusta á sögur og heimsóknir á Hæð fyrir 2016 börnin,  vettvangsferðir ,mikill útivera, kveðjupartý, flutningur yfir á Hæðina hjá 2016 börnin,  útidótadagur og föstudagsfjör. Á mánudaginn fáum við svo 5 börn fædd 2018 og bjóðum við þau velkomin til okkar. Þannig að næstu vikur fer í að kynnast þeim og þau okkur, mikið verður um útiveru, vettvangsferðir hjá 2017 börnunum. 

Góða helgi allir saman

Allir á Laut

Vikan 2. -5. júní 2020

Heil og sæl kæru foreldrar

Þessi vika hefur aldeilis verið fljótt að líða enda ekki nema 4 virkir dagar í henni og nóg um að vera hjá okkur.  2016 börnin búin að fara í 2 heimsóknir á nýju deildina sínum og er mikill spenningur yfir flutningnum yfir.

2017 börnin fóru í vettvangsferð á þriðjudaginn og fundu sér leikvelli til að leika sér á, á meðan voru 2016 börnin í heimsókn á Hæðinni. Leikvangur var á miðvikudaginn í síðasta skipti núna fyrir sumarið.  

Í gær fóru 2016 börnin í langa vettvangsferð í strætó á Rútstún og léku sér þar í góðan tíma með nesti áður en farið var í strætó til baka, gekk þetta alveg glimmrandi vel. 2017 fóru útfyrir garðinn og léku sé á leiksvæðinu við Ársalina, stelpurnar gerðu þrautabraut fyrir börnin og fannst þeim þetta mjög skemmtilegt.

Í morgun fóru 2ö17 börnin í vettvangsferð með Nönnu og fóru í leiki og 2016 börnin fóru núna eftir hádegismatinn í ferð með Nönnu, svo það er nóg um að vera hjá okkur á Lautinni.

Annars hefur vikan gengið mjög vel, allir svo glaðir að leika saman og vera á leikskólanum ;)

Góða helgi allir saman

Allir á Laut

 

 

Vikan 2. - 6. mars 2020

Heil og sæl kæru foreldrar

Þessi vika hefur liðið hratt enda nóg um að vera hjá okkur, aldrei lognmolla hjá okkur á Laut ;) Veðrið hefur verið gott og því hefur verið útivera verið í lok dags alla daga vikunnar og á þriðjudagsmorgun fórum við í vettvangsferð eins og við höfum gert þegar veðrið og færð leikur við okkur.  Við ákváðum að fara samtörugguleiðina og fara á Hvammsvöll þar sem við vissum ekki alveg hvernig færðin væri á göngustígunum. Við fórum öll saman af Lautinni og 5 börn af Lindinni.  Það var þvílíkt gaman að leika þar því það var svo mikill snjór sem hafði safnast í skafla, þannig að við fórum 2svar út þann daginn.

Hópar hjá Jónínu hafa verið á sínum stað, eins og  leikvangur og þar var þrautarbraut og svo slökun í lok tímans og í dag er smiðjan í gangi og þar er verið að undirbúna Páskana.

Í hópastarfi höfum við verið að spila, leika okkur með numicon og alls kyns segulkubba og plúskubba.  Þræða, pinna og púsla.

Í þessari viku vorum við með hvorki meira né minna en 3 afmæli, eitt á miðvikudaginn og 2 sem héldu upp á afmælin sín í dagen eiga afmæli á sunnudaginn og óskum við þessum kæru vinum okkar og fjölskyldum þeirra  innilega til hamingju með 4ra ára afmæli😉

Flæðið á milli Lautar og Lækjar gengur vel en 3svar í viku fer hópur frá okkur með Læk að leika í leikvang og svo 1 sinni í viku höfum við fengið stelpurnar á Læk í heimsókn og þá hafa strákarnir farið yfir á Læk að leika.

 

Góða helgi og njótið vel

Stefanía, Anna Lára, Brynja, Freydís og Sonja Rut

 

Vikan 25-28 febrúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar

Viðburðarríkri og skemmtilegri viku er að ljúka en á mánudaginn var bolludagur þar sem við fengum kjötbollur í hádegismat og rjómabollur, með sultu og glassúr í kaffitímanum. Í hópastarfi á mánudaginn hjá 2016 börnunum vorum við að spila, lita, klippa og æfa okkur með talnaskilning.

Á þriðjudaginn fórum við í vettvangsferð öll saman og ákváðum við að fara aftur á Hvammsvöll. Það er hæfilega langur göngutúr fyrir 2017 börnin að labba sérstaklega þar sem það var dáliltill snjór á göngustígnum. En það var þvílíkt stuð að leika þar og komu börn af leikskólanum Læk og léku sér þarna með okkur. Í hádegismat var síðan saltkjöt og baunir og var það borðað af bestu lyst.

Öskudagur, byrjaði með hafragraut í morgunmat og leik í Gljúfri, kósýstemming með risastóru rúmi, stjörnum og tunglum í loftinu og allir í náttfötum

Svo fengum við okkur ávexti, smá orku fyrir ballið og svo var dansað í góðann tíma þar til allir voru þreyttir og þá var boðið upp á bíó fyrir þá sem vildu. Á yngri gangi var boðið upp á Hvolpasveitateiknimyndir og eldri gangi var boðið uppá Kaftein ofurbrók og leyfðum við 2016 börnunum að velja hvort þau vildu og þau völdu öll Hvolpasveitina. Með bíóinu buðum við uppá rúsínur og fengu allir einn pakka ( 28 gr) og voru allir hæst ánægðir með það. Eftir pizzuveislu og hvíld var boðið uppá andlitsmálun og frjálsan leik hér í Gljúfri og svo eftir síðdegishressinguna var farið út að leika.

Í gær, fimmtudag, var Blæstund fyrir 2016 börnin. Á meðan voru 2017 börnin í Krummaspilinu, eins og við köllum það, sem var rosa fjör. Í hópastarfi hjá 2016 börnunum vorum við að spila samstæðuspil og teikna myndir. Eftir hádegi var sögustund þar sem öll börnin fengu að hlusta á nokkrar hljóðbækur.

Í dag fóru öll börnin í smiðju. Þar máttu þau leika á ljósaborðinu og/eða teikna. Þau fóru aðeins yfir litina og formin. Eldri máttu líka teikna með posca litum á blaðið sem þau stimpluðu í síðustu viku. Við hlustuðum á nokkur lög í samverustundinni fyrir hádegismat og þar dönsuðu allir og skemmtu sér vel. Það var einnig flæði hjá 2016 börnunum í leikvang, en þar fara þau með börnum frá Læk og leika sér í leiksalnum.

Frábær vika á enda sem einkenndist af miklu lífi og fjöri. Góða helgi!

21. febrúar 2020

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur gengið súpervel, allir hressir og kátir.  Tímarnir hjá Jónínu hafa verið á sínum stað í vikunni, leikvangur var á miðvikudaginn hjá Kollu og þar var þrautarbraut sem er alltaf  vinsæl. Smiðjan er í gangi núna og er verið að gera skemmtilegt verk þar. Á þriðjudaginn var langþráður dótadagur í leikskólanum og var mjög gaman að leika með dótið sitt og líka að deila, fá að prófa og leika með dót frá öðrum.  Við fórum því aðeins seinna af stað í vettvangsferðina okkar en við löbbuðum öll saman á Hvammsvöll og lékum okkur þar góða stund. Við gátum bara ekki sleppt því að fara þar sem veðrið var svo gott. 

Enn eru púslin, segulkubbar og lego vinsælast hjá okkur fyrir utan útiveruna.  Við höfum líka verið að spila, æfa okkur með tölustafina  ef við eigum að telja eitthvað upp.  Hjá  2016 börnunum gengur flæðið með börnunum á Læk  vel, fórum í leikvang 3 svar í vikunni og svo komu stelpurnar í heimsókn til okkar í gær og strákarnir fóru allir inn á Læk að leika.

Við höfum farið út eftir síðdegishressinguna alla vikuna og munum enda daginn úti í dag, líka.

Í næstu viku er margt spennandi, Bolludagur á mánudaginn, með kjötbollum í hádeginu og rjómabollum í síðdegishressingunni.  Sprengidagur með saltkjöti og baunum á hádeginu og svo Öskudagur á miðvikudaginn en það er náttfatadagur hér í Fífusölum, sem er einn skemmtilegasti dagur ársins.

Góða helgi allir saman.

Stefanía, Anna Lára, Rebekka, Sonja Rut og Freydís

 

14. febrúar 2020

Heil og sæl kæru foreldrar

Þessi vika leið hratt og kannski aðeins hraðar en venjulega þar sem hún syttist í annan endan mjög óvænt. Það var nóg að gera hjá okkur í vikunni, byrjuðum vikuna með ávaxtadegi, og þökkum við  kærlega fyrir okkur, þeir sem mundu eftir að koma með ávöxt. Þessi ávaxtadagur er einu sinni á önn og er hann setur inná dagatal leikskólans. Það er ekki sami dagur á öllum deildum heldur er hann valin út frá dagskipulagi hvers deildar fyrir sig.  Við náðum að fara í vettvangsferð á þriðjudaginn, 2016 börnin löbbuðu út að æfingartækjunum við enda kirkjugarðsins, og léku sér þar í góðann tíma og svo að Stúpunni og sungu þar fyrir krumma.  2017 börnin löbbuðu út að sundlaug og kíktu á gluggana þar hvort það væru börn í sundi.   Tímar hjá Jónínu voru á sínum stað í vikunni eins og leikvangur á miðvikudaginn hjá Kollu.  En smiðjan féll því miður niður á föstudaginn vegna veðurs.

Það hefur mikið verið leikið með búningana í þessari viku, ásamt, playmóinu, kubbum, púsli og plúskubbunum.  Bílarnir alltaf jafn vinsælir sem og holukubbar og segulkubbarnir.

Myndir frá vikunni koma inn á mánudaginn á facebook.

Á þriðjudaginn næsta 18. febrúar er komið að langþráðum dótadegi hjá okkur í leikskólanum og þá mega börnin koma með 1 dót að heiman. MUNA AÐ MERKJA VEL.

Sjáumst hress og kátt á mánudaginn.

Stefanía, Anna Lára, Rebekka, Sonja Rut og Freydís

 

7. febrúar 2020

Kæru foreldrar

 

Þessi vika hefur verið hefðbundinn með sínum föstu tímunum í leikvangi, smiðju og tímum hjá Jónínu.

Við fórum í vettvangsferð á þriðjudaginn en 2016 börnin fóru á bókasafnið í Lindaskóla á sögustund þar kl. 10. Þar voru lesnar 2 bækur og sátu börnin okkar prúð og stillt á meðan. Svo skoðuð þau nokkrar bækur áður en við löbbuðum til baka.  2016 börnin fóru í vettvangsferð með 2016 börnunum á Lind og löbbuðum smá hring í hverfinu áður en þau komu hingað í garðinn að leika.

 

3svar viku förum við í leikvang með 2016 börnunum á Læk og 1 sinni í viku hittumst við inná deild og þannig var það í gær að við fengum stelpurnar af Læk til okkar og strákarnir okkar fóru í heimsókn inn á Læk.  Við fórum í leiki eins og " hver er undir teppinu" og " í græni lautu" áður en við vorum með frjálsan leik og völdu stelpurnar eldhúsiðdótið og ponyhestana.

 Í hópastarfi höfum við verið að gera myndir af mömmu og pabba.  Það var ein Blæstund í vikunni og þar töluðum við um að maður á að segja Halló/hæ þegar einhver heilsar manni og bless/bæ þegar við erum að kveðja.  Það spruttu umræður um þetta að það á líka að svar þegar einhver er að tala við mann, annað væri dónaskapur.

Mikið hefur verið sungið í vikunni og það er svo gaman hvað börnin eru farin að taka vel undir í söngnum.

Við erum búin að fara út alla dagana, nema á miðvikudaginn, þar sem veðrið bauð ekki upp á það eins og í dag þá erum við ekki að fara út.

 

Takk fyrir góða viku og sjáumst hress og kát á mánudaginn, sem er ávaxtadagur hjá okkur á Laut!

Stefanía, Rebekka, Anna Lára, Sonja Rut og Freydís.

 

 

31. janúar 2020

Því miður kom ekkert blogg í síðustu viku þar  semég var erlendis en sú vika endaði á góðu þorrablótiþar sem sungin voru Þorralög eins og Ó hangikjót ó´hangikjöt og smakkaður var hákarl og hrútspungar sem margir  borðuðu af bestulyst á meðan aðrir borðuðu ekki neitt.

En í þessari viku hefur leikvangursmiðja og tímar hjá Jónínu verið á sínum stað.  Við náðum loksins að fara í vettvangsferð á þriðjudaginn og eru myndir frá ferðinni   komnar inn á facebókina.  En við skiptum hópnum eftir aldri þannig að við í 2016 vorum kominn út um 9.15 og tókum með okkur snjóþotur og ætlunin var að   labba af stað og finna góða brekku til að renna sér í,en hún fannst  bara hérna   rétt við leikskólann og þar renndum við okkur niður margar ferðir þar til 2017 börnin komu og fengu snjóþoturnar hjá okkur og við héldum áfram ferðinni.  Við löbbuðum í átt  Hvammsvelli en  á leiðinni sáu krakkarnir hólana sem eru við Ársalina og þar léku þau sér í góða stund áður en við löbbuðum tilbaka.  2017 börnin renndu sér í brekkunni góðu og komu svo í garðinn og léku sér þarþar  til við fórum inn.

Við erum mikiðað æfa okkurað telja þessa dagana og er mikill áhugi á því og púslið   er alltaf jafnvinsæltLeirinn kom sterkur inn í síðustu viku og hefur verið mikið  notaðurásamt playmostóra og litla lego.

Við höfum farið út eftir síðdegishressinguna alla vikuna enda hefur veðrið verið mjöggott þó það sé kallt en þá er gott að vera með góða húfu og vettlinga.  Við munum enda daginn  úti í dag líka.

Við vorum með eitt afmælisbarn í dag, 4ra ára og við óskum honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með daginn.

Takk fyrir vikuna og sjáumst hress og kátt í næstu viku.

Stefanía, Rebekka, Anna Lára, Sonja ogFreydís

17. janúar 2020

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur alveg flogið frá okkur enda nóg um að vera.  Við höfum því miður ekki komist eins mikið út og við hefðum viljað, en við fórum út á mánudagsmorgun og svo eftir síðdegishressinguna, miðvikudag, fimmtudag og í dag förum við út eftir síðdegishressinguna enda er dásamlegt veður úti.

Fastir liðir eins og tímar hjá Jónínu, leikvangur og smiðja voru á sínum stað í vikunni.

Í hópastarfi  höfum við verið að æfa talnaskilninginn okkar  með numicon kubbunum.  Við höfum verið að leika með playmo, lego bæði stóra og lita og þá sérstaklega 2016 börnin.  Við höfum verið að spila og þá aðallega 2017 börnin í þessari viku og þar lærum við þolinmæði, samvinnu og að sýna biðlund. Leikið í holukubbunum og dúkkukrók svona ef það á að nefna eitthvað.

Í þessari viku höfum við verið að æfa okkur að syngja þorralög þar sem þorrablótið okkar er næstkomandi föstudag, skoðað myndir af hvernig var í gamla daga, hvernig húsin voru og hvernig var inn í þeim og börnunum fannst mjög skrýtið að heyra að það hafi ekki verið rafmagn og þar af leiðandi ekkert sjónvarp eða tölvur! Og þau urðu mjög hissa að sjá myndir af " dóti" eins og börnin léku sér með í gamla daga eða af "legg og skel" og það vakti furðu þeirra að Hvolpasveitin hafi ekki verið til!

2016 börnin hafa verið að hitta börnin á Læk, reglulega í vikunni, í leiksalnum 3 svar í vikunni og í gær fengum við einn hóp af Læk í heimsókn til okkar og einn hópur af Lautarbörnum fóru inn á Læk að leika í frjálsum leik og þetta gengur mjög vel.

 

Við vorum með Blæ stund í vikunni og þar vorum við að tala um vináttu og vera góð við hvort annað eins og systkini sín.

Takk fyrir góða viku og hittumst hress og kát á mánudaginn 😊

Stefanía, Anna Lára, Rebekka, Freydís og Sonja Rut

 

10. janúar 2020

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.

Vonum að allir hafi haft það gott og notalegt yfir hátíðarnar.   Það voru margir í fríi í kringum jólin, þannig að þetta voru rólegir og öðruvísi  dagar.  Börnin hafa smátt og smátt verið að tínast til baka úr fríi og er gaman hitta alla aftur.  

Í þessari viku höfum við verið að koma okkur  inn í rútínuna  okkar og hafa tímar hjá Jónínu verið á sínum stað, leikvangur var á sínum stað á miðvikudaginn, þar voru 2016 börnin voru í leikjum eins og „eldur í flösku“ og 2017 voru með þrautarbraut.  Smiðjan er í dag og  þar er verið að undirbúa þorrablótið okkar.

Við höfum verið með 2 afmælisbörn, eftir jólafrí en það var 3. janúar og 5 janúar og óskum við þeim og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn 😊

Við erum byrjuð að vinna með Blæ  í 1-2 svar í viku fyrir 2016 börnin og  1 sinni í viku fyrir 2017. Við byrjuðum að hafa nuddstundir þar sem börnin eru að nudda bakið á hvort öðru, þá er lesin saga og gerðar hreyfingar með höndunum eins og að teikna sól, klappa létta á bakið fyrir hopp eða það strokið til hliðar fyrir vind og svo töluðum við um vináttu og hjálpsemi.

Á mánudaginn, vorum við með Gaman Saman með öllum  leikskólanum og kveiktu á kertunum á aðventukransinum okkar og sungum saman nokkur jólalög og kvöddum jólin saman.

Því miður hefur ekki verið mikið um útiveru í vikunni en við komust út eftir síðdegishressinguna á mánudaginn og í gær fóru 2016 börnin út með börnunum á Læk fyrir hádegi og þeim fannst það nú ekki leiðinlegt þó 2 börn ætluðu nú ekki út því það var smá vindur, en þegar við vorum að fara inn 1,5 tíma síðar var sagt „ af hverju erum við að fara inn, það er svo gaman úti“ 

Við förum ekki út  í dag þar sem smiðjan er núna fyrir hádegi hjá okkur og svo er spáð frekar slæmu veðri eftir hádegi.

Þessa vikuna byrjuðum við að vinna með svokallað flæði eða blöndun á milli Lækjar og Lautarbarna fædd 2016.  Komum við til með að bjóða þeim í leikvang þrisvar í viku eftir hvíld og í frjálsan leik á sitthvorri deildinni einu sinni í viku.  Börnunum hefur verið skipt niður, fjórir hópar á Læk og tveir á Laut.  Við erum ótrúlega spennt fyrir þessu en markmiðið er að börnin tengist innbyrðis og þau þrói og efli góð félagsleg tengsl við hvort annað. Frábær grunnur og aðlögun fyrir komandi flutninga á eldri gang.

Smá starfsmannabreytingar hjá okkur á Laut en Ásdís Embla sem er búin að vera hjá okkur síðan í október er farin á aðra deild, þar til hún fer í sína heimsreisu  í næsta mánuði og  Anna Lára  er komin til okkar aftur eftir heimsreisu.

Góða helgi allir

Stefanía, Anna Lára, Rebekka, Sonja Rut og Freydís

 

 

20. desember 2019

 

Kæru foreldrar

Þessi vika var ansi fljót að líða enda mjög viðburðarrík hjá okkur hérna í leikskólanum en áður en ég segi frá henni ætla ég að segja ykkur frá niðurstöðunum úr Lubba lestarátakinu okkar sem ég hef bara alveg gleymt. En eftir að búið var að telja öll beinin og reikna allt út las yngri gangur alls 223 bækur og af því átti Lautin 112 bækur eða ca 2800 bls en það voru samt margir sem gleymdu að skrifa fjöldna blaðsíðna svo þessi tala er ekki alveg rétt. En þetta er ca 6,6 bækur á mann.  og takk fyrir að taka þátt í þessu með okkur 😊

En á mánudaginn komu þeir sr. Guðni og sr. Guðmundur Karl úr Lindakirkju sem mætti með Ukelelið sitt og spilaði og söng með okkur nokkur jólalög svo sögðu þeir frá ferð Jósef og Maríu til Betlehems.

Á þriðjudaginn voru svo litlu jólin okkar sem byrjaði með jólaballi hérna á yngri gangi þar sem var sungið og dansað (af mikilli innlifun eins og sást á myndunum sem ég setti inn á facebookið) í kringum jólatréið þar til að jólasveininn kom en þá var auðvitað dansað aðeins með honum. Svo var farið inná deildir og kíkti hann í heimsókn á hverja deild og var með smá sprell þar áður en hann afhenti börnunum gjafirnar. Þá fenguð við okkur mandarínur og lékum okkur áður en jólamaturinn kom ( sumir voru að vísu að pakka inn jólapökkunum til foreldra ) en í hádegismat var hangikjöt með öllu og ís í eftirrétt.

Á miðvikudaginn, kom hún Þórdís Arnljótsdóttir með (Leikhús í Tösku) með Jólaleikrit í boði Foreldrafélagsins og sagði hún sögu jólasveinana.  Börnin skemmtu sér vel og þökkum við Foreldrafélaginu vel fyrir.

Í gær, var frekar rólegur dagur miðað við síðustu daga, vorum að lita jólamyndir, syngja jólalög og leika okkur með bílana, dýrin, kubba, púsla og fórum út í lok dagsins eins og við höfum gert alla vikuna.

Í dag erum við líka á rólegu nótunum, erum að leika með búningana okkar, púsla, lita, bílar og eldhúsdót var dregið fram.

Eftir hvíld verður svo kveikt á 4 kertinu, Englakertinu og kemur þá allir krakkarnir og starfsmenn á leikskólanum og syngja saman og svo vonandi verður farið út að leika eftir síðdegishressingu.

 

Við á Lautinni  óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og vonum að þið hafið það sem allra allra best yfir hátíðarnar .

 

13. desember 2019

Í þessari viku höfum við verið aðeins fámennari en við erum vön þar sem það hefur vantað mörg börn vegna veikinda og sendum við þeim okkar bestu batakveðjur.

Það hefur ekki verið mikið um útiveru í þessari viku en það hlaut að koma að því að það kæmu dagar  sem kæmust lítið út vegna veðurs en við komust alla veganna aðeins út í gær í smá stund. Það verður ekki farið út í dag enda um og yfir -10°c.

Við höfum notið þess að vera inn að mála, líma og klippa fyrir jólagjafir til foreldra.  Við höfum mikið verið að syngja jólalögin og aðeins að æfa okkur fyrir jólaballið sem er á þriðjudaginn. Svo höfum við verið að æfa fínhreyfingar með plúskubbum og þræða perlur. Að púsla, kubba, leika með bíla og í dúkkukrók er alltaf jafn vinsælt.

Tímar til Jónínu, Kollu í leikvangi og Nönnu í smiðju hafa verið á sínum stað í vikunni, en þeir tímar munu falla niður í næstu viku.

Í gær skreytum  við jólatréið með jólaskrautinu okkar sem við höfum verið að gera í vikunni.

Í næstu viku er mikið um að vera:

  • 16. desember fáum við heimsókn frá Lindakirkju kl. 9.30
  • 17. desember eru litlu jólin okkar og byrjar jólaballið á yngri gangi kl. 9.15 en þá dönsum við í kringum jólatréð og aldrei að vita nema jólasveinn komi í heimsókn. Svo er jólamatur í hádeginu með ís í eftirrétt.
  • 18. desember býður Foreldrafélagið upp á leiksýningu en það er Leikhús í Tösku með jólasýningu fyrir okkur kl. 10.30.
  • 19. desember fara jólagjafir til foreldra heim.

Í dag verður svo jólastund með öllum í leikskólanum og syngjum við jólalög saman og kveikjum á 3ja kertinu á aðventukransinum, Hirðakertinu.

Fleira er það ekki  frá okkur

Stefanía, Ásdís Embla, Rebekka, Sonja og Freydís.

6. desember 2019

Þessi vika hefur liðið ótrúlega hratt en það er gott því þá er búið að vera gaman hjá okkur. Við höfum brallað ýmislegt og höfum við verið dugleg að fara út eftir síðdegishressinguna á hverjum degi, fyrsti almennilegi snjórinn kom á miðvikudaginn sem gladdi lítill hjörtu, vá hvað þeim finnst gaman að leika í snjónum og svo er hann líka svo góður á bragðið 😉  Við höfum  leikið mikið inni við að perla, með plúskubbana, leirað, leikið með bíla og kubba, verið í holukubbunum, leikið með segulkubba, sungið, púslað og lesið bækur.

Við höfum  verið að æfa okkur að ríma og klappa orð í atkvæði.

Skelltum okkur í vettvangsferð á  þriðjudaginn  með 3 börnum af Lind sem eru 2017 í smá vettvangsferð, löbbuðum út að Salalaug og kíktum á gluggana á innilauginni en því miður voru engin  börn í sundi.  Við ætluðum síðan að labba lengra en þá var aðeins of mikill vindur á móti okkur svo við ákváðum að fara aftur til baka og leika okkur hérna úti við leikskólann. 

Blær bangsi kom til okkar í gær með póstinum alla leið frá Danmörku og þótti börnunum þetta mjög skemmtilegt. Vináttustundir með Blæ fer að bætast við hópastarfið hjá okkur.

Við höfum aðeins verið að stússast fyrir jólin inná deild og í smiðjunni í dag.  Börnin máluðu jólamyndir í vikunni sem leið og eru þær komnar upp á veggi fyrir utan deildina með öllu sínu glimmeri.

Í leikvangi var þrautarbraut, leikir og slökun.

Í dag, verður aðventustund þegar við kveikjum á kerti númer 2, Betlehemskertinu  á aðventukransinum okkar, og syngjum saman jólalög með hinum börnunum í leikskólanum.

Það sem er svona helsta framundan:

  • Jólatréið verður sett upp í næstu viku og skreytt
  • Jólaball - 17.desember n.k. verða litlu jól leikskólans haldin hátíðleg. Tímasetning kemur síðar.  Það verður dansað í kringum jólatréð, jólalög sungin og jólamatur í hádeginu.
  • Jólaleikrit - 18.desember n.k. Jólaleikrit í boði foreldrafélagsins. Leikhús í tösku – Grýla og jólasveinarnir J
  • Fimmtudaginn 2.janúar 2020 verður skipulagsdagur hjá okkur í Fífusölum. Leikskólinn verður lokaður þann dag.

Vonum að þið eigið ljúfa og notalega helgi

Stefanía, Ásdís Embla, Rebekka, Sonja og Freydís

 

29. nóvember 2019

Kæru foreldrar

Í þessari viku höfum við aðeins verið að æfa jólalögin og þá sérstaklega eitt lag fyrir samstundina í dag þegar við kveikjum á 1. kertinu í aðventustundinni, „ við kveikjum einu kerti á“  en rétt fyrir síðdegishressinguna í dag verður við með „gaman saman“ með öllum börnunum í leikskólanum, við kveikjum á 1. kertinu, Spádómskertinu og syngjum jólalög saman í smá stund áður en við förum í kaffi. Í næstu viku æfum við næsta vers í þessu lagi.

Við höfum aðeins verið að föndra fyrir jólin en það fer á meira skrið á næstum vikum.

Á mánudaginn vorum við að baka piparkökur sem gekk mjög vel eins og þið sáðu í gær í piparkökukaffinu. Síðan átti eitt af börnunum afmæli og bauð hann börnunum upp á popp í tilefni dagsins.

Á þriðjudaginn fórum við í vettvangsferð á Hvammsvöll og lékum við okkur þar í góðan tíma áður en við fórum til baka. Ferðin vel þó allir hafi ekki alveg verið sáttir við að fara til baka.

Tímar hjá Jónínu, Leikvangi og Smiðju hafa verið á sínum stað í vikunni og alltaf eru börnin mjög spennt fyrir þessum tímum sem er alveg frábært.

Í hópastarfi höfum við verið að klappa nöfnin okkar í atkvæði og ríma sem börnunum finnst mjög skemmtilegt.

Í samverustundinni í gær, stóðu nokkur börn upp ein og sungu fyrir hin börnin og fengu mikið lófaklapp fyrir sem var virkilega skemmtilegt.

Við höfum farið út alla dagana eftir síðdegishressingu nema í gær en þá fóru nokkrir út strax eftir hvíldina  sína vegna piparkökukaffisins sem var í gær.  Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna í gær, gaman að allir gátu mætt og átt notalega stund með barninu sínu hér í leikskólanum.

Eigið góða helgi

Stefanía, Rebekka, Ásdís, Sonja og Freydís

 

 

22. nóvember 2019

 

Kæru foreldrar 

Í þessari viku sem var nú aðeins styttri lagi  en vanalega  en  fastir liðir eins og tímar hjá Jónínu voru á sínum stað, leikvangur hjá Kollu á miðvikudaginn og voru þau í þrautabraut og slökun.  Í dag var smiðjan hjá Nönnu.  Mikið hefur verið um útiveru hjá okkur þó mánudagurinn hentaði ekki vel fyrir útiveru og á þriðjudagsmorgun var aðeins of mikill vindur til að fara í vettvangsferð.  

Við höfum verið mikið að syngja og erum aðeins  byrjuð að syngja jólalögin sem börnunum finnst rosalega gaman.

Annars höfum við mikið verið að lesa bækur, leika með kubba, bílana, dúkkurnar og eldhúsdótið.  Púsla, lita, holukubbar og að þræða perlur.  

Viðburðir framundan:

  • Mánudaginn 25.nóvember ætlar yngri gangur að baka piparkökur til að bjóða foreldrum sínum upp á í piparkökukaffinu sem verður á fimmtudaginn kemur.
  • Piparkökukaffi – fimmtudaginn 28.nóvember frá kl:14:00-16:00 ætla börn leikskólans að bjóða foreldrum sínum upp á nýbakaðar piparkökur og kakó. Hlökkum til að sjá sem flesta.
  • Jólaball - 17.desember n.k. Nánari upplýsingar koma síðar.
  • Jólaleikrit - 18.desember - Jól í tösku  í boði foreldrafélagsins. Nánari upplýsingar koma síðar.

Síðasti dagurinn í lestrarátakinu okkar, að fylla Lubbafjallið er næstkomandi föstudag 29. nóvember svo nú er um að gera að vera dugleg að lesa næstu daga og koma með fleiri bein í fjallið hans Lubba.

Takk fyrir vikuna og njótið helgarinnar

Stefanía, Rebekka, Ásdís Embla og Sonja.

 

 

15. nóvember 2019

Þessi vika hefur gengið mjög vel. Á mánudaginn fengum við nokkur börn frá Læk í heimsókn inn á deild í smá stund og gekk það súper vel að leika saman, við skiptum þeim í minni hópa og höfum nokkrar stöðvar í boði í smá tíma og svo var skipt um stað. Þetta ætlum við að gera markvísst í náinni framtíð svo 2016 árgangurinn kynnist betur áður en þau fara yfir á eldri gang næsta sumar ;)

Á þriðjudaginn fórum við út í garð að leika fyrir hádegi og voru nokkur af „gömlu“ lautar börnunum úti og var gaman að leika við þau, þau náðu vel saman þar sem það voru ekki aðrir úti. Við fórum aftur út svo eftir síðdegishressinguna eins og við höfum gert alla vikuna.

Leikvangur var á sínum stað á miðvikudaginn þar sem Kolla var með 2017 börnin þrautarbraut en 2016 fóru í leiki. Í samverustundunum höfum við verið að lesa bækur og skrifað á Lubba bein og sett í fjallið hans Lubba og eru börnin mjög spennt yfir því.

Því miður hafa tímarnir hjá Jónínu fallið niður í vikunni vegna veikinda og smiðjan féll niður í dag þar sem við vorum að halda upp á 18 ára afmæli leikskólans og  fagna degi íslenskrar tungu sem er á morgun sem og Lubbi sem verður 10 ára. En hann Wally frá Sirkus Íslands í heimsókn og  skemmtu börnin sér konunglega yfir honum og þökkum við Foreldrafélaginu kærlega fyrir sýninguna 😊Eftir sýninguna var ball hérna á yngri gangi og var mikið fjör og gaman. Ekki alveg allir að taka þátt í dansinum en fylgdust þó með af áhuga og þeir sem höfðu engan áhuga fór bara inná deild að púsla og lita.  Fyrir sýninguna var sungin afmælissöngurinn fyrir leikskólann og líka lagið sem við höfum verið að æfa okkur, Á íslensku má alltaf finna svar.

Það var pizza frá Dominos í hádeginu og svo var skúffukaka, hrökkkex og ávextir í kaffitímanum. Eftir hvíld var svo andlitsmálun í boði fyrir þau sem vilja. Myndir og myndbönd eru kominn inn á facebooksíðuna okkar.

Nú erum við öll komin út að leika og fá okkur frískt loft áður en haldið er í helgarfrí.  Góða helgi allir saman og njótið.

Stefanía, Rebekka, Ásdís Embla, Sonja og Freydís.

 

8. nóvember 2019

Kæru foreldrar

Þessi vika var nokkuð hefðbundin hjá okkur.  Útivera alltaf í lok dagsins og vonandi næst það líka í dag en það fer aðeins eftir veðri og vindum hvort við verðum inni eða förum út.  Á þriðjudaginn ákváðum við að vera ekki að hætta okkur út í hálkuna sem var á göngustígunum og fórum við því ekki í vettvangsferð en þökkum fyrir hvað veðrið hefur verið gott fram að þessu. En í staðin fórum við að skreyta myndamöppurnar okkar og ákváðum við að stimpla lófann okkar á möppurnar og mörgum fannst það pínu skrýtið að láta mála á lófann sinn en þetta tókst vel og öllum fannst gaman.

Svo höfum við verið að klára landslagsmyndirnar okkar og líma laufblöð á þær svo vonandi koma þær fljótlega uppá vegg, mjög litríkar og flottar myndir.

Leikvangur var á sínum stað á miðvikudaginn, alltaf er hann í miklu uppáhaldi hjá börnunum og smiðjan hjá Nönnu var í dag og er það alltaf mjög skemmtilegt, en þar er byrjað að vinna að verkefni sem ekki má segja frá 😉

Annars hefur mikið verið að púsla en algjört púslæði er á deildinni sem er bara frábært. Við höfum líka verið að kubba, leika í holukubbunum, með eldhúsdótið, leika við börnin á Læk og Lind, leika með dýrin, dansa við súpermannlagið, lesa bækur og syngja.  Nú erum við að æfa lagið „ Á Íslensku Má Alltaf Finna Svar“ en við ætlum að syngja það með öllum leikskólanum í afmælisveislu leikskólans næstkomandi föstudag en leikskólinn á afmæli þann 16. nóvember á Degi Íslenskrar Tungu. En á föstudeginum verður mikið fjör og má koma í búningum/furðufötum.  Foreldrafélagið býður uppá leiksýningu og byrjar hún kl. 9.30! Bernd Ogrodnik frá Brúðuheimum kemur með sýninguna Pétur og Úlfurinn. Það er því gott að mæta snemma þennan dag.

Meiri upplýsingar um afmælið koma í næstu viku.

Góða helgi

Allir á Laut

1. nóvember 2019

Þessi vika hefur gengið eins og í sögu, allir kátir og glaðir. Hóparnir til Jónínu hafa verið á sínum stað, þar sem verið er að spila og spjalla.

2017 börnin fóru í sína fyrstu vettvangsferð á þriðjudaginn sem gekk eins og í sögu, en þau löbbuðu út á Hvammsvöll og léku þar í smá stund áður en labbað var til baka í leikskólann.  2016 börnin fóru líka í vettvangsferð og kíktu á sögustund á bókasafnið í Lindaskóla en þar er alltaf sögustund kl. 10 á þriðjudögum sem við höfum verið að notfæra okkur í vettvangsferðir og fara börnin gangandi fram og til baka. Þau eru mjög dugleg að labba en það tekur á að labba til baka.

Því miður féll leikvangur niður hjá Kollu á miðvikudaginn en við fórum samt í leikvang og lékum okkur þar nokkur í einu og á meðan var verið að  spila og leika sér inná deild og í holukubbunum sem eru svakalega vinsælir þessa dagana.

Í gær, fimmtudag vorum við að lita/mála myndir, landslagsmyndir sem við erum svo að líma laufblöð á, fallegar haustmyndir í vinnslu hjá okkur.

Í dag er smiðja hjá Nönnu og eru 2016 börnin að klára að skreyta saumaverkefnið sitt og 2017 börnin voru að þræða perlur og annað dót á band. Á meðan er verið að leika inná deild og leika í holukubbunum frammi.  Við munum enda daginn úti eins og við höfum gert alla dagana í vikunni.

Góða helgi 

Stefanía, Rebekka, Sonja, Ásdís og Freydís

26. október 2019

Kæru foreldrar

Það hefur verið nóg um að vera hjá okkur í vikunni og toppaði bangsadagurinn vikuna, þvílík spenna að koma með bangsann sinn í leikskólann.  Allir duglegir að deila sínum bangsa með vinum sínum og leyfa öðrum að prófa og fá að prófa bangsa frá öðrum. Mikill lærdómur í því.

En í þessari viku höfum við farið í hópa til Jónínu og í leikvang, smiðjan féll því miður niður í þessari viku.  Við höfum leikið með dýrin, kubbana, í holukubbunum, perlað, púslað, þrætt perlur á band, sungið, lesið bækur, leikið með bílana, leikið í dúkkukrók. Það er svo margt sem lærist í gegnum leikinn því er hann svo mikilvægur á þessum fyrstu árum barnsins.   

Í gær  gerðum við kóngulóarmyndir, eigum eftir að klára þær en það verður gert í næstu viku og þá koma þær upp á vegg hjá okkur.  Það er mikill áhugi á bókstöfunum hjá okkur og þá sérstaklega hjá 2016 börnunum og eru þau mikið að spá og skoða hver á hvaða staf og hvaða stafi þau eiga, systkini sín og mamma og pabbi. Við höfum því aðeins verið að kíkja á vin okkar hann Lubba.

2016 börnin fóru í vettvangsferð á rólóvöllinn við Örvasali á þriðjudaginn og þrátt fyrir kulda höfum öll farið 1 -2 svar út alla dagana. Börnin hafa ekki verið að kvarta yfir kuldanum og elska að vera úti.

Góða helgi 

Allir á Laut

18. október 2019

Kæru foreldrar

Í þessi vika hefur gengið hratt enda nóg um að vera hjá okkur.  Fastir liðir eins og hópar til Jónínu voru á sínum stað. Útivera á mánudagsmorgni og þriðjudagsmorgni með vettvangsferð hjá 2016 hópunum á sínum stað, 2017 börnin undu hag sínum vel í garðinum okkar á meðan. Í leikvangi á miðvikudaginn var mikið stuð og komu allir rjóðir og þyrstir til baka, þá var nú gott að vera með vatnsbrúsann sinn til taks inná deild til að fá sér að drekka.  Útivera hefur verið fastur liður hjá okkur eftir síðdegishressingu og við endað daginn úti, enda veðrið mjög gott þá það sé aðeins svalt fyrst á morgnana.

Hápunktur vikunnar var ávaxta- og grænmetisdagurinn á fimmtudaginn, börnin biðu spennt eftir honum. Frábært hvað allir duglegir að koma með ávöxt eða grænmeti fyrir okkur til að deila og úr varð mikill ávaxtaveisla.  Takk fyrir.

2016 hópurinn fór í hópastarf á fimmtudaginn, kláruðum við að gera myndir sem hanga núna fyrir ofan Holukubbana, en þau teiknuðu myndir með penna og máluðu svo.  Við fórum svo í að klappa nöfnin okkar í atkvæði  og enduðum við að lesa 2 Skrýmslabækur sem þeim finnst svo skemmtilegar.  2017 börnin voru að leika í dúkkukrók á meðan og fara í hópa til Jónínu. Þau voru búin að gera svona myndir.  

Í dag, föstudag er smiðja hjá okkur og meðan hópar eru í smiðju eru hinir að leika með holukubba, púsla og leika inn á deild.

Þetta hefur Nanna að segja um smiðjuna:

2016:

Saumuðu í verkefnið sem þau klipptu í síðustu viku.  Þeim gekk vel að sauma, áttu að einbeita sér að því að fara til skiptis upp og niður með nálina.

2017:

Í sullukarið var búið að setja vatn og ull, þau máttu sulla í þessu eins og þau vildu. Flest pínu hikandi til að byrja með en síðan var þetta bara gaman. Skoðuðum litina og mótuðum orm, fjall og fleira. Í lok tímans settumst við í hring og sungum nokkur lög.

Eftir hádegismatinn fóru þau börn út sem eiga ekki að sofa, þar sem veðrið var svo gott og lékum sér lengi úti og núna eftir síðdegishressingu eru allir komnir aftur út.

Takk fyrir góða viku og góða helgi allir saman

Allir á Laut

 

11. október 2019

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur liðið áfram af krafti enda nóg um að vera hjá okkur.  Mikið hefur verið um útiveru hjá okkur vikunni.  Hóparnir hjá Jónínu voru á sínum stað. Leikvangur var á miðvikudaginn eins og venja er það alltaf jafn skemmtilegt og mikill tilhlökkun hjá börnunum að fara í leikvang. Smiðjan var á sínum stað í dag og þetta hafði Nanna að segja um smiðjuna:

2016:

Í dag gerðu þau tvö verkefni. Þau áttu að teikna karl á langt blað og síðan klæða hann í föt. Fötin voru efnisbútar sem þau límdu á og hárið var í flestum tilfellum garn, sumir voru þó með húfu. Hitt verkefnið er hluti af stærra verkefni, en í því strikuðu þau með blýanti eftir formi. Fylgdist með að þau héldu rétt á blýanti, þau voru misfær í að elta útlínur formsins sem þau strikuðu eftir. Síðan klipptu þau út formið, flest héldu rangt á skærunum og gerðum við því þetta saman til að leiðrétta haldið. Um leið og þau beittu sér rétt þá prófaði ég að sleppa takinu. Höldum áfram að æfa okkur í þessu. Seinni hópurinn mátti teikna þegar þau voru búin með verkefnin sín, ég bað þau síðan að segja okkur sögu út frá myndinni og fengu klapp að launum frá okkur hlustendum. Gaman að sjá hvað þau voru stolt af því að sýna myndina og segja frá henni. Þarf greinilega að gera meira af þessu. 

2017:

Fann bókaplast inn í skáp sem búið var að teikna kindur á, ákvað að nota það í kindaverkefnið okkar. Þau límdu ull á kindina, máttu velja úr 4 litum. Síðan setti ég ramma og bókaplast  á bakhliðina til að loka þessu. Átti von á sum myndu ekki vilja snerta ullina en mér skjátlaðist þar. Verkefnið gekk því vel þannig að nú eiga þau kind sem þau geta snert ullina á. 

Hápunktur vikunnar var þó þriðjudagurinn en þá var hinn langþráði Dótadagur eini dagurinn sem má koma með dót í leikskólann fyrir utan bækur og bangsa í hvíldina.  En við ákváðum að sleppa vettvangsferðinni hjá 2016 og leyfa þeim að leika sér með dótið sitt.  Við fórum með 2017 börnin út fyrst í um klukkutíma svo 2016 hefðu ró og næði að leika sér við dótið sitt inni og svo eftir klukkutímann komu þau út og 2017 börnin fóru inn að leika með sitt dót í ró og næði.  Þetta gekk alveg rosalega vel og allir voru ánægðir.  Fyrst um morguninn var aðeins um árekstra um dótið en þegar leið á voru allir farin að deila og lána dótið sitt og fengu þá að prófa annað dót á meðan.

Í dag var bleiki dagurinn og var gaman hve margir komu í einhverju bleiku, virkilega skemmtilegt og börnin öll svo ánægð með það líka 😉

Takk fyrir góða viku og góða helgi

Við á Laut

 

4. október 2019

Kæru foreldrar

 

Þessi vika var hefðbundin hjá okkur allt á sínum stað.  en á mánudaginn var útivera hjá okkur fyrir hádegi, að vísu fóru einhverjir í hópa til Jónínu í spil og spjall og komi svo út til okkar.  Eftir samverustund, mat og hvíld voru einhverjir sem fóru til Jónínu. Eftir samverustund fórum við svo út og enduðum daginn úti.

Á þriðjudaginn fóru 2016 börnin í gönguferð á Bókasafnið í Lindaskóla til að fara á sögustund kl. 10.00. Þau náðu að skoða bækurnar áður en sögustundin byrjaði. Þetta er í annað sinn sem þau fara á bókasafnið og hefur það gengið vel og börnin ánægð með þessa tilbreytingu.  2017 börnin fóru út að leika. Þau njóta þess að vera í garðinum þegar eru ekki mörg börn úti og eru svo dugleg að leika sér.  Þá eru rólurnar og sandkassinn skemmtilegast.  Eftir samverustund, mat og hvíld voru við með rólegan leik inná deild við að púsla. Eftir síðdegishressingu var farið út og enduðum við daginn úti.  

Á miðvikudaginn, var leikvangur hjá okkur og er alltaf svo gaman að börnunum þar, þau koma mörg vel sveitt og þyrst eftir tímann hjá Kollu. Einn hópur fer til Kollu þegar við hin förum í hvíld eftir samverustund og mat.  Eftir það eru 2 hópar sem fara til Jónínu.  Eftir síðdegishressinguna fórum við út að leika.

Í gær, fimmtudag var mikill rigning og rok að við vorum inni að leika allan daginn.  Við gerðum margt skemmtilegt eins og að fara í dúkkukrók, leika með Playmóið, kubba, lita, kíkja á búningakassann, leika í holukubbunum og syngja og lesa bækur.

Í dag, var smiðja hjá okkur og þetta hefur Nanna að segja með smiðjuna:

Árgangur 2016:

Í dag gerðum við pappírsskálar, í þær notuðum m.a laufblöðin sem við höfum verið að týna í haust.  Skálinn er mótuð utan um blöðru, límið sem við notuðum er eins og slím viðkomu og því gaman að nota puttana í verkið. Öll nema eitt náðu að klára þetta verkefni.

Árgangur 2017

Teiknuðu og máluðu við trönur í dag, notuðu fyrst vaxliti og síðan máluðu þau yfir með vatnslitum. Mér sýndist þau hafa sérstaklega gaman af þessu verkefni, greinilega önnur tilfinning að standa við að mála heldur en að sitja.

Allir komu glaðir til baka úr smiðjunni.  Á meðan hópar voru í smiðju vorum við hin að leika í holukubbum, með dýrin, með eldhúsdótið og lita.  Eftir samverustund, mat og hvíld vorum við í rólegum leik inná deild, að púsla.  Eftir síðdegishressingu ætluðum við að fara öll út að leika en það var komið svo mikið rok að 2016 börnin fóru út í smástund.  Við enduðum því daginn inni.  

Takk fyrir vikuna og góða helgi