Í hlíðum Rjúpnahæðar er útinámssvæðið Rjúpnalundur sem við höfum til afnota ásamt Salaskóla og leikskólanum Rjúpnahæð.

Gleði er mikilvægur þáttur í útinámi, þar upplifa börnin ákveðið frelsi og kennarar sjá sköpunarkraft barna í nýju ljósi. Ferðir í Rjúpnalund eru látnar stjórnast af möguleikum og aðstæðum en ekki skipulagi. Ævintýrin gerast af sjálfu sér hjá glöðum og hraustum börnum sem hafa ánægju af útiveru.

Börnin kynnast náttúru og sögu nálægra svæða, læra að njóta umhverfisins og að bera virðingu fyrir því. Markmið okkar í Heilsuleikskólanum Fífusölum er að börnin fái að upplifa náttúruna og sitt nánasta umhverfi á eigin forsendum. Í útinámi er unnið með öll námssvið á lifandi og skemmtilegan hátt.

Útinám byggist á því að börnin rannsaka umhverfið og sjá breytingar á árstíðum með því að fara aftur og aftur á sama svæði. Hlutverk kennara er að vera fyrirmynd og vekja áhuga barnanna sem leiðir til meiri forvitni og ígrundunar hjá börnum og áframhaldandi vinnu.