Lubbastundir byggjast á bókinni Lubbi finnur málbein, íslensku málhljóðin sýnd og sungin sem er eftir þær Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur.
Lubbi er íslenskur fjárhundur. Hann er duglegur við að gelta og þá heyrist ,,voff-voff-voff“. Lubba langar mikið að læra að tala en þá vandast málið því þá þarf hann að læra öll íslensku málhljóðin. Krakkanir ætla að hjálpa Lubba að læra íslensku málhljóðin með söng og ýmsum öðrum æfingum.
Það sem hundum finnst best að naga er bein og er Lubbi engin undantekning. Þess vegna líta málhljóðin út eins og bein og nagar Lubbi beinin og lærir með því að tala smátt og smátt. En hann þarf góða aðstoð og ætla krakkanir að aðstoða hann.
Í bókinni Lubbi finnur málbein er unnið með nám í þrívídd, þá er átt við sjónskyn, heyrnarskyn og hreyfi- og snertiskyn. Með því að vinna með hljóðanám í þrívídd er verið að æfa börnin í að tileinka sér íslensku málhljóðin, það brúar bilið milli stafs og hljóðs og að lokum kemur þetta börnum á sporið í lestri og ritun.
Í bókinni er hvert hljóð táknað með litlum og stórum bókstaf. Hvert málhljóð er tekið fyrir á síðu eða opnu. Hverju málhljóði fylgir ákveðið lag og einnig stutt saga þar sem lögð er sérstök áhersla á hvert hljóð fyrir sig. Hvert málhljóð á sér ákveðið tákn, í þeim táknum er oft á tíðum stuðst við tákn með tali. Með því að tengja hljóðið við táknræna hreyfinguna er auðvelt að læra það og muna. Vísurnar sem fjalla um hljóðin eru skemmtilegar og auðvelt að læra þær utan bókar, þær eru sungnar við gömul og þekkt lög.
Í Fífusölum eru Lubbastundir á öllum deildum frá hausti 2020 og hlakka allir til að kynnast Lubba betur. Hver deild útfærir stundirnar eins og hentar viðkomandi deild, sumar deildir eru með Lubbastund á hverjum degi meðan það er sjaldnar á öðrum deildum.
Allar deildir leikskólans vinna með sama málhljóð í hverri viku.