Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins og upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Við í Heilsuleikskólanum Fífusölum veitum öllum börnum tækifæri til að njóta bernsku sinnar. Áhersla er lögð á að hvert barn fái að njóta sín á sínum forsendum til að styrkja sjálfsmynd þess. Í starfi leikskólans mynda hugtökin uppeldi, umönnun og menntun eina heild þar sem börnunum er sýnd virðing og umhyggja.
Kennarar Fífusala starfa eftir hugmyndafræði John Dewey og Berit Bae. Dewey leggur mikið upp úr lýðræðislegum kennsluaðferðum og uppgötvunarnám. Samkvæmt Bae eru samskipti okkar helsta verkfæri til náms, því er mikilvægt að kennarar og börn séu meðvituð um samskipti sín á milli og hlúi vel að þeim. Einkunnarorð Fífusala, virðing – uppgötvun – samvinna, eru sprottin af þessari hugmyndafræði. Þau eiga við bæði börn og kennara og marka allt daglegt starf.
Virðing
Við leggjum áherslu á að börnin beri virðingu og taki tillit til hvors annars og efli þannig með sér skilning á tilfinningum og þörfum sínum sem og annarra. Lagt er upp úr góðu samstarfi, trausti og gagnkvæmri virðingu á milli barna, starfsfólks, heimilis og skóla.
Uppgötvun
Barnið öðlast reynslu með uppgötvun í leik án þess að kennarar gefi þeim lausnir. Endapunkturinn skiptir ekki máli heldur lærdómurinn sem öðlast á leiðinni þangað. Mikilvægt er að viðurkenna upplifun barna, án þess að leggja á hana dóm.
Samvinna
Lagt er upp úr því að börn og kennarar læri að vera sveigjanleg, hjálpast að, vinna saman og framfylgja ákvörðunum sínum. Kennarar eru fyrirmyndir barnanna og hvetja þau til sáttfýsi og samvinnu.
Fífusalir er Heilsuleikskóli, einn af þeim þáttum er að skrá í Heilsubók barnsins, auk þess leggjum við áherslu á hollt og gott líferni, næringu, hreyfingu og sköpun.
Við förum einnig eftir umhverfisstefnu Kópavogs sem hægt er að skoða hér.