Hátíðir og Hefðir 

Afmæli barnanna. Í leikskólanum er haldið upp á afmæli barnanna enda er þetta stór viðburður í lífi þess. Afmælisbarnið er í aðalhlutverki þennan dag og fær það að velja sér glas, disk, skikkju og diskamottu til að nota í matartímanum. Börnin mæta einnig með ávexti á yngri gangi og ávexti, popp eða saltstangir á eldri gangi sem þau bjóða deildinni upp á.

Bleiki dagurinn er haldin í október ár hvert. Börn og starfsfólk eru hvött til að koma í einhverju bleiku þann dag og er bleiki liturinn allsráðandi þann dag bæði í mat og listsköpun.

Heilsuvikur eru haldnar tvisvar á skólaárinu, einu sinni á haustönn og einu sinni á vorönn. Farið er markvisst í vettvangsferðir, hreyfistundir, leiki á útisvæði og fleira

Bangsadagurinn og jafnframt afmælisdagur Blæs er haldin í kringum 27. október ár hvert og mega börnin þá koma í náttfötum og með bangsa að heiman.

Baráttudagur eineltis. 8. nóvember ár hvert er baráttudagur gegn einelti og er tilgangur hans að minna okkur á hversu mikilvægt er að uppræta einelti, ekki aðeins úr lífi barna heldur okkar allra, á öllum æviskeiðum. Dagurinn er unninn í samvinnu við Salaskóla.

Piparkökukaffi. Í lok nóvember bjóða börnin foreldrum sínum að koma í heimsókn og bragða á gómsætum piparkökum sem þau hafa sjálf bakað fyrir tilefnið ásamt því að fá sér heitt súkkulaði.

Aðventan. Í desember eigum við notalegar og rólega stundir með börnunum. Jólasöngvar, jólaföndur, presturinn kemur í heimsókn og allar deildir leikskólans hittast og kveikja á aðventukransinum saman.

Litlu jólin. Eru yfirleitt um miðjan desember. Tvær skemmtanir eru haldnar ein fyrir yngri gang og önnur fyrir eldri gang. Börnin borða síðan jólamat með öllu og ís í eftirmat í hádeginu.

Þorláksmessa. Við gerum okkur dagamun, borðum skötu og saltfisk ásamt öllu tilheyrandi.

Þrettándinn. Börnin hittast í matsal þar sem kveikt er á rafmagnskertum, jólalög sungin og jólin kvödd.

Þorrablót er haldið í byrjun Þorra. Börnin læra þorralög og borða þorramat.

Tannverndarvika er alltaf haldin í kringum tannverndardaginn sem er 20. mars ár hvertBörnin vinna og leysa hin ýmsu verkefni tengd tannheilsu og tannhirðu.

Bolludagur. Boðið er upp á rjómabollur þennan dag.

Sprengidagur. Saltkjöt og baunir í hádegismat

Öskudagur. Allir mega mæta í búning eða furðufötum þennan dag. Boðið er upp á andlitsmálningu, öskudagsball, flæði á milli deilda, bíó og pylsur í hádegismat.

Útskrift elstu barna. Börnin gista í leikskólanum og mæta morguninn eftir út í Salaskóla þar sem útskriftin fer fram.

Ferilmöppur. Við upphaf skólagöngu fær hvert barn möppu sem geymd er inni á deild barnsins. Í þessa möppu er síðan safnað listaverkum og myndaskráningum frá hverju ári sem barnið er í leikskólanum. Barnið fær síðan innihald möppunnar afhent þegar skólagöngu líkur.

Lestarátak Lubba. Í nóvember ár hvert er lestrarátak í tengslum við afmæli Lubba. Tveim vikum fyrir afmælið förum við í samstarf við foreldra þar sem börnin lesa bækur heima, fylla út Lubba bein með upplýsingum um bókina og mæta með í leikskólann og líma á bókafjall Lubba.

Afmæli leikskólans, Dagur íslenskrar tungu, afmæli Lubba. Leikskólinn á afmæli 16. nóvember og heldur upp á það í kringum þann dag ár hvert. Börn og starfsfólk mæta í búningum eða furðufötum og gera sér glaðan dag.

Dagur leikskólans er haldin í kringum 6. febrúar. Þessi dagur er hugsaður sem kynning á starfi skólans. Þá er gestakaffi í leikskólanum og foreldrum,systkinum, ömmum og öfum boðið í heimsókn síðdegis.