Sími 441 5200

Fréttir

Sýnataka

Kæru foreldrar/umsjónaraðilar

26.2.2019

Undanfarin ár, eða árlega síðan 2009, hefur rannsóknarhópur á vegum Barnaspítala Hringsins, Landspítala og Háskóla Íslands unnið að rannsóknum á bakteríum í nefkoki barna. Einkum hafa verið rannsakaðar bakteríur er nefnast pneumókokkar, en aðrar bakteríur hafa verið eða verða einnig skoðaðar. Frábært samstarf hefur tekist með rannsóknarhópnum, völdum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu, leikskólakennurum og sérstaklega foreldrum. Þá hefur sami rannsóknarhópur einnig rannsakað sjúkdómabyrði af völdum pneumókokka. 

Það er skoðun okkar að þessar rannsóknir séu afar mikilvægar. Pneumókokkar geta valdið alvarlegum, hættulegum sýkingum svo sem blóðsýkingum, beina- og liðasýkingum, lungnabólgu og heilahimnubólgu en einnig hvimleiðum, erfiðum sýkingum svo sem eyrnabólgum og skútabólgum. Bólusetning gegn pneumókokkum hófst á Íslandi vorið 2011. Bólusetningin virkar afar vel gegn 10 algengustu og alvarlegustu tegundum pneumókokka, en tegundirnar eru mun fleiri. Nauðsynlegt að fylgjast með bakteríum þessum í nefkoki barna, mögulegum breytingum á þeim, sýklalyfjanæmi og fleiri þáttum. Því höldum við rannsókninni áfram. 

Rannsóknir okkar fram til þessa hafa sýnt, að í kjölfar bólusetningarinnar hefur sýkingum af völdum pneumókokka hjá börnum fækkað til muna. Þannig hefur komum á heilsugæslu og á bráðamóttöku barna vegna eyrnabólgu fækkað um 24%. Komum á bráðamóttöku barna vegna lungnabólgu hefur fækkað um 23% og innlögnum á Barnaspítala Hringsins vegna öndunarfærasýkinga um 20%. Innlögnum vegna alvarlegustu sýkinganna hefur fækkað um 93% frá upphafi bólusetningarinnar. Að jafnaði greindust að meðaltali 10 alvarlegar sýkingar (blóðsýkingar, liðsýkingar eða heilahimnubólga) árlega hjá börnum, en síðan bólusetningin hófst hafa að meðaltali 1-2 börn fengið þessar sýkingar á hverju ári. 

Þær tegundir pneumókokka sem eru í bóluefninu hefur verið útrýmt úr nefkoki leikskólabarna. Þetta eru einmitt þær gerðir bakteríunnar sem ullu áður mestum usla. Hins vegar er mikilvægt að fylgjast með þeim nýju hjúpgerðum sem hafa komið í staðinn. Með því að fylgjast með hvaða hjúpgerð pneumókokka börnin bera í nefkokinu getum við fengið upplýsingar um hvaða gerð bakteríunnar sé á sveimi á hverjum tíma. Jafnframt fáum við upplýsingar um sýklalyfjanæmi bakteríunnar og hvernig við getum best meðhöndlað sýkingar af völdum hennar. 

Allar þessar niðurstöður er að finna í doktorsritgerð eins úr rannsóknarhópnum, Samúels Sigurðssonar læknis, sem hann varði við Læknadeild Háskóla Íslands í desember síðastliðnum. Sjá viðtal við Samúel í RÚV á slóðinni http://www.ruv.is/frett/bolusetning-dregur-ur-alvarlegum-sykingum

Eins og fram hefur komið hefur rannsóknin farið fram undanfarin ár í febrúar-mars. Tekið er sýni með grönnum bómullarpinna úr nefkoki barnsins. Sýnatakan er einföld, tekur stutta stund, veldur svolitlum óþægindum en ekki sársauka. Foreldrar eða forráðamenn barnanna svara nokkrum einföldum spurningum um heilsufar þess. 

Sýnatakan hjá ykkur í Fífusölum er áætluð þriðjudaginn 5. mars kl. 9.

Kær kveðja, 

Ásgeir Haraldsson yfirlæknir Barnaspítala Hringsins - Prófessor í barnalækningum við Háskóla Íslands 

Karl G. Kristinsson yfirlæknir Sýklafræðideild Landspítala - Prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands 

Helga Erlendsdóttir lífeindafræðingur Sýklafræðideild Landspítala - Klínískur prófessor við Háskóla Íslands 

Iris Kristinsdóttir - læknanemi og verðandi doktorsnemi við læknadeild Háskóla ÍslandsÞetta vefsvæði byggir á Eplica