Sími 441 5200

Dagbók

8 mars 2019

Vikan 4-8 mars

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika er heldur betur búin að vera skemmtileg hjá okkur.
Á mánudaginn var bolludagur, við byrjuðum daginn á langri útiveru. Þegar við komum inn var komin hádegismatur og að sjálfsögðu voru fiskibollur í matinn. Í kaffitímanum eftir hvíldina voru svo rjómabollur sem var heldur betur tekið vel í hjá krökkunum. Eftir kaffi drifu krakkarnir sig svo aftur út.

Á þriðjudaginn var sprengidagurinn, dagurinn byrjaði á rólegum leik inná deild en klukkan 10 komu svo læknanemar og gerðu smá rannsókn á þeim krökkum sem voru með leyfi frá foreldrum. Í hádeginu fengum við saltkjöt og baunir að borða. Seinnipartinn fóru allir út að leika í góða veðrinu.

Miðvikudagurinn var Öskudagur, þá mættu allir í náttfötum. Við byrjuðum daginn öll saman á yngriganginum í kósý, lásum bækur kúrðum í sófanum og svo var andlitsmálning í boði fyrir þá sem það vildu. Klukkan 9:15 var svo komið að öskudagsballinu sjálfu en það þótti krökkunum heldur betur skemmtilegt að dansa með öllum stóru krökkunum. Eftir ballið var bíóstund þar sem við horfðum á myndina Trolls (Tröll). Seinniparturinn var svo tekin úti í góða veðrinu með öllum krökkunum.

Á fimmtudagsmorguninn byrjuðu krakkarnir á því að fara í smiðju til Nönnu þar sem börnin máluðu bakgrunninn fyrir saumaverkefnið. Síðan byrjuðu þau á litablöndunarverkefni. Í dag skoðuðum við hvað gerist þegar við blöndum saman gulum og rauðum. Enginn giskaði rétt áður en hafist var handa þannig að gleðin var mikil þegar þau síðan prófuðu og út kom appelsínugulur. Síðara verkefnið er hluti af öðru stærra verkefni sem þau síðan klára í næstu viku. Eftir smiðjuna var rólegur leikur inná deild þar sem var púslað, perlað og þrætt og eins og hina dagana var farið út seinnipartinn.

Í dag Föstudag ætlar Jón Daníel að halda uppá afmælið sitt og bjóða uppá popp og saltstangir. Við ætlum svo að nýta daginn í rólegheitum og enda svo vikuna á góðri útiveru eftir kaffi.


Bestu kveðjur og góða helgi,

Starfsfólkið á LindÞetta vefsvæði byggir á Eplica