Sími 441 5200

Dagbók

31.maí 2019

vikan 27. maí 31. maí 2019

Heil og sæl kæru foreldrar,

Þessi vika er nú aldeilis búin að vera skemmtileg hjá okkur og ekki skemmir veðrið fyrir sem er búið að vera hreint ótrúlegt. Mánudagurinn hjá okkur fór í útiveru allan daginn, við fórum í allskonar leiki og svo var frjáls leikur líka í boði.

Þriðjudagurinn var hjóladagur, við byrjuðum daginn því á því að fara í langan hjólatúr. Við hjóluðum frá leikskólanum og meðfram salaskóla og út á golfvöll, þar fórum við undir undirgöngin og upp að þorrasölum, þaðan hjóluðum við í kringum kirkjugarðinn og svo heim í leikskóla. Krakkarnir eru orðnir svo duglegir að hjóla að þau hefðu næstum getað hjólað annan hring. Þegar heim var komið voru hinsvegar sumir orðnir þreyttir og fengum við okkur því hádegismat og svo beint inn í hvíld. Eftir hvíldina var ekki lengi verið að klæða sig í skó og hlaupa út enda alveg ótrúlega gott veður svo við enduðum daginn út í garði.

Þar sem það er búin að vera mikil útivera hjá okkur síðustu daga og vikur ákváðum við að taka fyrripart miðvikudagsins inni. Við fundum okkur pappadiska og málningu og máluðum þessi fínu sumarblóm sem við ætlum að hafa uppá vegg fyrir litlu krakkana sem eru að koma á deildina okkar þegar við förum á stórudeildina. Einnig skiptum við okkur í hópa og fengum að fara í heimsókn á þá deild sem við förum á í júní. Það var hinsvegar ekki tími fyrir alla til að fara í heimsókn svo hinir fara í næstu viku. Eftir hvíldina var svo farið beint út enda sól og blíða og ekki hægt að vera inni allan daginn í svona veðri.

Fimmtudagur- uppstigningardagur FRÍ

Dagurinn í dag er heldur betur búin að vera skemmtilegur, við byrjuðum á því að fara í göngutúr heim til Selmu, þar var tekið vel á móti okkur og við lékum okkur í fótbolta, keilu og hringjakasti þar til kom að hádegismat. Við tókum með okkur pylsur og vorum svo heppin að pabbi Selmu grillaði fyrir okkur pylsur í hádegismat, það var sko aldeilis mikið borðað þar. Á pallinum hjá Selmu fengum við líka þetta æðislega veður og áður en við vissum af voru allir komnir á stuttermabolina að dansa við tónlistina sem var í gangi. Þegar þessu fjöri lauk röltum við aftur niðrá leikskóla og beint í hvíld þar sem nánast allir sofnuðu enda þreyttir eftir langan göngutúr og útiveru. Seinnipartinn ætlum við svo að nýta úti í sólinni og enda vikuna þar.

ATH
Við viljum minna á það að á þriðjudaginn 4.júní kemur ljósmyndari í hús og tekur hópmyndir af öllum deildum svo það væri skemmtilegt ef allir kæmu vel greiddir og fínir í leikskólann þann dag. Einnig verða allir að vera mættir mjög snemma svo þeir missi ekki af myndatöku!!!

Takk fyrir frábæra viku,

Bestu kveðjur,
Starfsfólkið á LindÞetta vefsvæði byggir á Eplica