Sími 441 5200

Dagbók

18. janúar 2019

Vikan 14-18 janúar 2019

Heil og sæl frábæru foreldrar

Veturkonungur setti svip sinn á vikuna að þessu sinni, með nýjum möguleikum á skemmtilegum leikjum og uppákomum. Rassaþoturnar hafa verið í stöðugri notkun alla vikuna. Héldum áfram að vinna með vináttu og eins gaf vikan tilefni til að ræða um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir því sem aðrir eru að gera.

Mánudagurinn var frekar hefðbundinn með leik á deild og útiveru seinni partinn.

Á þriðjudaginn byrjaði að snjóa þessum fína efnivið til mótunar á hinum ýmsu verum. Í útiverunni tóku flestir á deildinni þátt í að byggja snjóhest með hjálp frá börnum af öðrum deildum. Verkefnið var skemmtilegt og fengu allir sem vildu að setjast á bak að verki loknu. Bætt var stöðugt við lengd hans þannig að segja má að hann hafi í lokinn verið líkari einhverri veru sem frekar líktist ormi en hesti. Í vettvangsferðinni var ákveðið að nýta okkur snjóinn og renna í brekkunni við hliðina á leikskólanum, ekki ástæða til að fara lengra þegar þessi fína brekka er alveg í næsta nágrenni.

Miðvikudagsmorguninn tók á móti okkur með miklu frosti sem gaf tækifæri til að skoða áhrif frosts á vatn. Um morguninn settum við skál með vatni út og sóttum aftur eftir hvíld. Klakinn sem myndaðist var skoðaður og fylgdust þau spennt með honum bráðna aftur. Í útiverunni ákváðum við að skoða hvaða áhrif frostið hefði á sápukúlumyndun, vel gekk að blása kúlur og var mikið fjör að eltast við þær. Entust þær töluvert lengi ef þær fengu að vera í friði.  Lítið var því miður eftir af snjóhestinum frá deginum áður þar sem sum börn eiga mjög erfitt með að leyfa verkum annarra að standa í friði. Þetta gaf tilefni til að ræða mikilvægi þess að bera virðingu fyrir því sem aðrir eru að gera og alls ekki skemma.

Fimmtudaginn kláruðu börnin vetrarverkefnið hjá Rebecu. Þau gerðu boðskort í bóndadagskaffið sem verður á föstudaginn eftir viku, kortin fara heim á miðvikudaginn. Eins byrjuðu þau að föndra víkingahjálmana fyrir sama tilefni.

Í dag verða víkingahjálmarnir kláraðir, eftir hádegi er svo gaman saman eins og aðra föstudaga.

 

Lilja Rún sem verið hefur í fæðingarorlofi verður á Lind í 50% starfi í vetur og bjóðum við hana hjartanlega velkomna.

 

Athugið:

·         Bóndagskaffi verður milli 8-9 föstudaginn 25.janúar. Boðskortin fara heim á miðvikudaginn.

 

Takk fyrir vikuna og góða helgi J

Bestu kveðjur starfsfólkið á LindÞetta vefsvæði byggir á Eplica