Sími 441 5200

Dagbók

16. maí 2019

Heil og sæl kæru foreldrar,

Mánudagsmorguninn byrjaði á útiveru hjá okkur, krökkunum finnst mjög gott að byrja daginn úti í leikjum og hlaupum út um allt. Þá koma líka allir þreyttir inn í hádegismat og hvíldina. Eftir hvíldina var rólegur tími, við spiluðu, púsluðum og lékum í dúkkukróknum. Seinnipartinn skelltum við okkur svo út aftur og enduðum daginn þar eins og flesta daga.

Þriðjudagurinn byrjað á vettvangsferð, við gengum á Hvammsróló og lékum okkur þar heillengi. Krökkunum finnst mjög gaman að komast á annað leiksvæði heldur en leikskólann og fundu þau sér fullt til að gera þar. Það voru allir uppteknir í leik í tæpa 2 klukkutíma sem við eyddum á þessum róló, á leiðinni heim skelltum við okkur svo á róló sem er í blásölum með risastórri klifurgrind. Það var mjög vinsælt að klifra alveg upp á toppinn en svo voru líka sumir sem höfðu engan áhuga á að „leggja líf sitt í hættu“ með því að fara þarna upp. Þegar heim var komið fóru allir í hádegismat og svo góða hvíld þar sem nánast allir sofnuðu vel. Eftir hvíldina var kaffitími og svo bara beint út aftur að leika og þar kláruðum við daginn.

Miðvikudagsmorguninn byrjaði eins og flesta miðvikudaga á leikvangi hjá Atla sem er alltaf jafn skemmtilegur. Á meðan einhverjir voru í leikvang voru hinir krakkarnir inni á deild í spilum og dúkkó. Því næst var komið að hádegismat og hvíld, eftir það var svo kaffitími. Þegar kaffitíminn var búinn ákváðum við að vera ekkert að drífa okkur út í rigninguna svo við fórum í leiki. Við byrjuðum á því að fara í eftirhermu leika þar sem allir eiga að sitja í hring og svo er einn sem stjórnar hvað á að gera og þá herma hinir. Því næst fórum við í hver er undir teppinu en krökkunum fannst það mjög skemmtilegt og langt síðan við fórum í þann leik. Það var ótrúlega gaman að sjá hvað þau voru fljót að fatta hvern vantaði í hópinn. Eftir leikina ákváðum við svo að skella okkur út í smá stund þrátt fyrir mikla rigningu en það var bara gaman að geta sullað smá í pollunum og drullumallað.

Fimmtudagurinn byrjaði á útikennslu með Nönnu, við löbbuðum á útikennslusvæðið og stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni. Til þess meðal annars að bjarga lífi ánamaðka, tína blóm og skoða brunahana. Við stoppuðum á útikennslusvæðinu í dágóðan tíma, við byrjuðum á að fá okkur morgunhressingu og fórum svo í leiðangur um skóginn. Krakkarnir fengu stækkunargler og fannst þeim það mjög spennandi að geta skoðað flugur og laufblöð með stækkunarglerinu. Á leiðinni heim ákváðum við svo að stoppa á róló í hverfinu og lékum okkur þar í smá stund, því næst löbbuðum við alla leiðina heim aftur en gaman að segja frá því að vegalengdin sem við löbbuðum voru rúmir 3,5 kílómetrar. Krakkarnir eru orðnir mjög þjálfaðir í því að ganga og finnst ekkert mál að skjótast út í „smá“ göngutúr. Eftir ferðina voru allir orðnir mjög svangir og þreyttir svo við drifum okkur að borða hádegismat og svo fóru allir á sína dýnu og steinsofnuðu. Eftir kaffitímann og hvíldina skelltum við okkur aftur út í góða veðrið og þannig endaði vikan hjá okkur.

Föstudagur- skipulagsdagur og leikskólinn því lokaður.

Góða helgi! Þetta vefsvæði byggir á Eplica