Sími 441 5200

Dagbók

11. janúar 2019

Vikan 7-11 janúar 2019

Heil og sæl frábæru foreldrar

Vikan hefur gengið vel og börnin sýnt að þau eru mjög fær að leika í stærri hópum.

Í vikunni byrjuðu tveir nýir starfsmenn á deildinni okkar, Rakel sem áður var á Læk verður hjá okkur í vetur og einnig Sandra Dögg sem er nýr starfsmaður í leikskólanum. Hún kemur til með að vera á Lind í vetur en til að byrja með verður hún eingöngu í afleysingum.

Á mánudaginn hélt Jökla Sól upp á afmælið sitt með því að bjóða upp á popp og saltstangir. Afmæli á deildinni eru alltaf skemmtileg og bíða allir spenntir eftir að syngja afmælissönginn og eiga afmælis samverustund.

Orð vikunnar er vinátta og lásum við bókina Lífsspeki Bangsímons Vinátta þar sem farið er yfir hvað góðir vinir gera við mismunandi aðstæður. Börnin strikuðu eftir hendinni sinni og síðan var hún lituð og klippt út, höndina mega þau svo festa upp á spjald þegar þau hafa sýnt öðrum vináttu ef eitthvað bjátar á. Þetta er nýtt verkefni hjá okkur og börnin hafa sýnt þessu mikinn áhuga. Í samverustund ræðum við síðan um af hverju þau settu hendi á spjaldið.

Á þriðjudaginn fórum við í vettvangsferð á Hvammsvöll, þau nutu þess að komast í nýtt umhverfi og í ný leiktæki og skemmtu sér vel. Eftir hádegi fórum við ekki út heldur ákváðum að vera inni og fara í nokkra leiki eins og t.d Í grænni lautu og stoppdans.

Á miðvikudaginn fóru þau í leikvang til Kollu, ríkir alltaf mikil eftirvænting eftir þeim tímum. Þennan dag var boðið upp á fisk í hádeginu og var meðal annars sítróna og melóna meðlæti með honum. Við skoðuðum fræin úr bæði sítrónunni og melónunni og í framhaldi af því ákváðum við að setja fræin í mold. Þetta er smátilraunaverkefni hjá börnunum og er kíkt á hverjum morgni hvort eitthvað sé farið að sjást í plöntuna.

Á fimmtudaginn fóru börnin í Listasmiðjuna til Rebecu, þar bjuggu þau til snjó til að nota í vetrarmyndina sem þau byrjuðu á í síðustu viku.

Vinsælasta spil vikunnar hefur verið Tvenna, erum við bæði með dýratvennu og Tvennu með tölum og formum. Þau eru ótrúlega duglega að finna hvað er eins á spjöldunum.

Í dag verður síðan gaman saman fyrir kaffi þar sem öll börnin á yngri gangi syngja saman.

 


Takk fyrir vikuna og góða helgi J

Bestu kveðjur starfsfólkið á Lind

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica