Sími 441 5200

Dagbók

8. mars

Kæru foreldrar

Þessi vika hefur aldeilis verið viðburðarrík en á mánudaginn var Bolludagurinn tekinn með trompi, fiskibollur í hádegi og rjómabollur í síðdegishressingunni. Allt borðað með bestu list. Annars var dagurinn frekar hefðbundinn en við vorum líka með eitt afmælisbarn og bauð hún börnunum uppá popp í tilefni dagsins og óskum við henni innilega til hamingju með 3ja ára afmælið. Við enduðum daginn síðan með útiveru eftir bolluátið.

Á þriðjudaginn, Sprengidag, var smiðja fyrir hádegi og orð vikunnar þar voru: lím, sandur og glimmer, nál og krosssaumur. En þetta sagði Nanna eftir smiðju: Þessa vikuna kláruðum við litablöndunarverkefnið. Þau teiknuðu með lími og stráðu svo sandi með smá glimmeri yfir og úr kom þessi skemmtilega mynd. Í síðustu viku spurði ég þau hvað þau væru að mála og skráði niður, þegar ég lét þau hafa myndirnar aftur núna þá ræddum við um það sem þau sögðu í síðustu viku og voru flestir með á hreinu hvað þeir voru að mála. Eftir að límið og sandurinn bættist við breyttu nokkrir um skoðun. Þeir sem ekki náðu að mála í síðustu vikur kláruðu í þessari viku. Nokkrir einstaklingar náðu að byrja á litlu krosssaumsverkefni.

Saltkjöt og baunir voru auðvitað í matinn og var vel borðað af því. Eftir hvíld, leik inná deild og síðdegishressingu var farið út enda veðrið mjög gott.

Á miðvikudag, Öskudag, var náttfataball hér í leikskólanum og var það mikið fjör. Andlits málun í boði fyrir ballið fyrir þá sem vildu og svo var dansað frá sér allt vit í um hálftíma. Þá settust við á yngri gangi niður og horfðum á Trolls (Tröllin) og fengum okkur snakk með. Eftir bíómyndina var pizzuveisla. Eftir hvíld og smá leik var síðdegishressing og svo skelltum við okkur út í góða veðrið.

Í gær fimmtudag, drifum við okkur út eftir ávaxtastund, við ætluðum í vettvangsferð en þegar við komum út sáum við að við yrðum ein í garðinum okkar svo við fórum ekkert, notalegt að fá að vera ein í garðinum. Svo það var mikið rólað, leikið í kastalanum og margar ferðir farnar niður rennibrautina.

Í dag, föstudag, byrjaði dagurinn á morgunmat eins og alla daga og ávaxtastund og svo fóru hópar í leikvang. Við erum með 2 afmælisbörn í dag og óskum við þeim báðum innilega til hamingju með 3ja ára afmælin. Annað bauð uppá popp og saltstangir en hitt er því miður veikt svo það heldur uppá það á mánudaginn. Gaman saman með Læk og Lind verður á sínum stað fyrir síðdegishressingu og eftir það förum við út og munum væntanlega enda daginn úti.

Takk fyrir skemmtilega og viðburðaríka viku.

Njótið helgarinnar

Allir á LautÞetta vefsvæði byggir á Eplica