Sími 441 5200

Dagbók

12. maí

Kæru foreldrar,

vikan var ljúf og skemmtileg eins og alltaf hjá okkur á Hóli :). Í næstu viku er stefnan að byrja foreldraviðtöl (ef litla herbergið er laust) og listinn verður hengdur á hurðina á deildinni á mánudag.  Það verður smá hlé á sundinu núna þar sem bæði Hæð og Hlíð eru að fara en við vonumst til að komast allavega 1sinni með alla hópa áður en Salalaug byrjar með sundkennslu/sumarnámskeið.

Mánudagur: Drifum okkur út fyrir hádegi í rigninguna og allir undu sér vel við að drullumalla, í fótbolta, hjóla og í öðrum leikjum og létu börnin veðrið ekki á sig fá. Tómas Björn varð 5 ára og hélt upp á afmælið sitt eftir hádegið og bauð upp á vínber og popp.  Allir hópar fóru svo í smiðju til Rebecu..

Þriðjudagur: Það voru allir inni fyrir hádegi að teikna, í búningaleik og í legó- þetta þrennt er mjög vinsælt þessa dagana og börnin ná að þróa leikinn áfram (eins og í búningaleikjum) og það er mjög gaman að fylgjast með þeim í leik og það vantar ekkert upp á hugmyndaflugið. Það fóru líka 3 hópar til Jónínu eins og alltaf.

 Miðvikudagur: Veðrið lofaði góðu og við drifum okkur í vettvangsferð, löbbuðum að Buddha stúpunni þar sem flest allir æfðu sig í að klifra upp og niður og báðu auðvitað um mynd:). Nokkrir bjuggu líka til skemmtilega sögu um að Gilitrutt ætti heima þarna undir stórum steini sem þau töldu vera hurðina á hellinum hennar, þetta var mjög skemmtileg umræða hjá þeim og miklar pælingar fram og til baka en því miður voru þarna nokkur sem urðu pínu smeyk við þetta allt saman og vildu helst fara strax til baka í öruggt skjól í leikskólanum, höldum nú samt að okkur hafi tekist að leiðrétta það. En svo virðist sem söngleikurinn í Salnum fyrir nokkru síðan hafi haft töluverð áhrif á þau og ekki alltaf góð.  Vorum inni að leika eftir matinn nema Höfrungahópur sem fór í sund. Það gekk mjög vel og börnin dugleg. Eftir kaffitímann fóru allir út aftur að leika.

Föstudagur: Allir voru inni fyrir hádegi og fóru út eftir matinn.  


Minni á skipulagsdaginn sem er næsta föstudag, 18. maí en þá verður leikskólinn lokaður.

​Takk fyrir vikuna og góða helgi

Starfsfólkið á Hóli

 

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica